Meyjarhaft Derrida

eftir Garðar Baldvinsson

Stílar Nietzsches. Hvað er nú það? Á tímum netvæðingar hefur talsvert grín verið gert að sambandi penna og getnaðarlims, eins og sést vel með „pen.is“, léni verslunar með kynlífsvörur í Reykjavík. Penni, fjaðurstafur, limur. Blek og sæði. Blæjur og sannleikur. Kona og sannleikur. Karl og fæðing. Kyn, getnaður, meðganga.

Sporar Nietzsches, stílar sem rista sundur blæju sannleikans, rista upp kynferðið. Sporar sem reka karlmanninn áfram til að ganga með hugsanir eins og kona með barn. Sannleikurinn handan orðanna og hlutanna. Hugsun sem snýst sífellt upp í blæju sem hylur sannleikann, eðli hlutanna, kyn manneskjunnar. Orð sem eiga samleið með hugsuninni og gerast blæjur, svo að hlutir og hugtök verða sem blæjuklædd kona, hugsun sem blygðast sín fyrir nálægðina við hlutina, orð sem þora ekki út í veruleikann. Konan er viðfangsefni mitt segir Derrida og síðan að konan sé ekki viðfangsefni sitt. Og lýkur máli sínu á að vitna í texta eftir Heidegger sem hann segist ekki muna.

Í viðtalinu „Choreographies“ („Listdans“) sem Christie McDonald tók við Jacques Derrida og birtist m.a. í bók hans Eyra hins (L’oreille de l’autre, 1982), greinir Derrida stöðu konunnar í kapítalísku samfélagi í ljósi æxlunar og endurframleiðslu. Sú staða, þ.e. meðganga og fæðing, undirskipar konuna karlinum. Í tengslum við þessa undirskipan er mismunur kynjanna gjarnan settur þannig fram að karlinn sé aðalstærðin en konan leidd af honum og sé því ávallt háð karlinum og skilgreiningu á honum um stöðu sína.1 Derrida er þó ekki að greina þessa stöðu út frá hagkerfi eða hagrænni framleiðslu, heldur út frá vestrænni frumspeki, ekki síst því að konan, líkt og karlinn, sé til staðar í veröldinni, búi semsé yfir því sem þýski heimspekingurinn Martin Heidegger kallaði Dasein og gerði að meginefni tilvistarspeki sinnar; Dasein merkir í stuttu máli það í mannlegri tilveru að vera til staðar og felur alls ekki í sér frumspekilegar eigindir, líkamlegar eða dýrslegar, heldur einungis það að vera til staðar. Í nefndri grein sinni, eins og í því verki sem hér fylgir, Sporar. Stílar Nietzsches (Éperons. Les Styles de Nietzsche, 1978), setur Derrida spurningarmerki við eðli karls og konu sem veldur því að „kyn“ kemst á flot og verður „öðruvísi“, en af þessari afbyggingu hugtakanna leiðir síðan alger endurtúlkun á þeim og merkingu þeirra svo að við þykjumst hugsa á allt annan hátt en áður um mann og konu, um kynhneigð og þrá, þykjumst jafnvel fá allt aðrar hugmyndir um allt sem lýtur að kynhneigð, kynferði og þrá.

Þungamiðja þessarar nýju hugsunar af ætt Derrida er að líkaminn sé uppspretta hugsunar og skrifa, ekki síst líkami konunnar. Í orðræðu Derrida tengja margar myndir saman skrif og sköp konu. Hér má nefna skrif sem meðgöngu og fæðingu, þýðingu sem vöxt, svið skrifa sem meyjarhaft („hymen“) og frjómagn skrifa sem innfellingu („invagination“; að setja í fellingar kvenskapa). Þessar líkamlegu „myndhverfingar“ Derrida og ekki síst tengsl þeirra við kvenlíkamann vekja upp fjölmargar og mikilsverðar spurningar um siðrænt gildi þess að beita líkama kvenna þannig sem korti af ferli skrifa. Sem dæmi má taka spurningaknippi hjá Derrida sem sprettur af tengingunni milli skrifa, texta og meyjarhaftsins í mynd sátta eða samningsrofa, eða í mynd þess að syninum sé steypt af stóli. Allar þessar myndir virðast ævinlega byggja með einhverju móti á fjölskyldunni sem Derrida leggur sig á margan annan hátt í framkróka um að afbyggja sem stofnun, m.a. á þeim grundvelli að eins og hjónabandið miðist hún ávallt við einkvæni og sé þá um leið gagnkynhneigð. Þannig má með nokkrum rökum segja að Derrida virðist í öðru orðinu ganga gegn stofnuninni og njörvun kynhneigðar, en í hinu viðhalda og jafnvel lofsyngja þetta tvennt. Og manni verður spurn hvort tiltekin mynd lífs sé Derrida dýrmætari en aðrar. Og ennfremur í ljósi frægrar kennisetningar hans um að allt sé texti gæti maður spurt hvort hann telji suma texta og sum skrif merkilegri en önnur.

Í Sporum skoðar Derrida sumar þessara „kvenlegu“ mynda í textum þýska textafræðingsins og heimspekingsins, Friedrichs Nietzsche, sem leit einmitt á hugsun sem meðgöngu og skrif sem fæðingu. Nietzsche er mörgum kunnur sem heitur andstæðingur hvers kyns femínisma og réttinda kvenna. Þessa þversögn bendir Derrida á í Sporum og ræðir hvernig á því stendur að maður sem taldi kynin tvö ævinlega berjast hatrammlega og leitast við að eyða hvort öðru leit um leið á sig sem karl en tók iðulega myndir sem tengdust konum til að ræða um skrif – ekki síst sín eigin – um sannleika og hugsun. Þannig er hin afleidda stærð, æxlunarkroppurinn, uppspretta hugsana og orðræðu um athafnir sem Nietzsche taldi þennan æxlunarkropp ófæran um. Meginhugmynd verksins, Sporar. Stílar Nietzsches, liggur e.t.v. í tengingu sannleika og kvenleika, í því að skv. Nietzsche er hvort tveggja á sama hátt hulu sveipað. Til að komast áleiðis að því sem á bak við býr er þó ekki nauðsynlegt að afklæða heldur einmitt að þýða huluna, ráða í það sem að manni snýr, og ráða í það sem maður hugsar og orðar.

Þýðing sem lífrænt ferli

Þýðing er yfirleitt hugsuð sem það að flytja merkingu af einu máli yfir á annað, eða úr einu táknkerfi í annað. Það er tvímælalaust eitt meginhlutverk þýðinga að mati Romans Jakobson svo dæmi sé tekið. Í Eyra hins ræðir Derrida um hugmyndir þýska gagnrýnandans og þýðandans, Walters Benjamin, og út frá þeim leggur hann þar fram allt aðra sýn á þetta ferli. Í greininni „Hlutverk þýðandans“ setur Benjamin fram kenningu um „framhaldslíf“ þýðingarinnar og vöxt hennar.2 Skv. Benjamin er texti „upprunalegur svo fremi að hann sé hlutur“ segir Derrida (Eyra hins, s. 121) og formgerð þýðingarinnar sem hlutar er „að lifa áfram“ eða „überleben“.

Að lifa áfram er hluti bæði af líkama og tungumáli og þannig bæði hlutlægt og huglægt. Að mati Benjamins er þýðing þannig framhaldslíf í tengslum við bæði líkamlega veru og mállega menningu. Bæði á þýsku Benjamins („überleben“) og frönsku Derrida („survivre“) felur hugtakið að lifa áfram í sér eitthvað ofar eða æðralífinu, über og sur. Um leið liggur í orðunum að líf færist yfir í eitthvað annað.3 Í umfjöllun sinni um þessi yfirefni í kaflanum „Hringborðsumræður um þýðingar“ íEyra hins viðheldur Derrida þessari líkingu Benjamins að gera þýðingu að lífrænni starfsemi, en afneitar þó um leið hinu lífræna. Að mati Derrida ber nefnilega ekki að skilja líf skv. Benjamin sem „lífrænt, líffræðilegt líf heldur þvert á móti [að það sé] byggt á lífi hugans, þ.e. líf sem rís upp fyrir náttúruna og er því í eðli sínu þaðað lifa áfram [í einhverju öðru]“ (s. 121-122). Á sama stað segir Derrida um tungumál að aðeins sé hægt að skilja texta sem „upprunalegan“ ef maður losar hann frá lífrænum forsendum sínum (höfundi o.s.frv.), og setur hann í samhengi við „framhaldslíf“. Þannig verður hlutverk þýðandans það að

tryggja framhaldslíf, það er að segja vöxt, upprunalega textans. Þýðingin eykur við og ummyndar upprunalega textann og að svo miklu leyti sem hann lifir áfram hættir hann þá aldrei að umbreytast og vaxa. Hún ummyndar upprunalega textann jafnvel um leið og hún ummyndar þýðingarmálið. (s. 122)

Hlutverk þýðingarferlisins er þá að mati Derrida það að framleiða slíkan vöxt, auðga hvort tungumál um sig sem inniheldur í senn takmörk þýðingarinnar og eins konar frummynd tungumálsins sjálfs: „Þessi einfaldi vöxtur tungumálsins, sem miðar að því að uppfylla og útvíkka hvort tungumál, byggir á sínum eigin takmörkunum: hinum heilaga texta“ (s. 123). Í þýðingunni gerir þýðandinn báða texta að slíkum heilögum texta, en í þýðingarferlinu, sem inniheldur „ómögulegan möguleika“, birtist fyrirheit um „sættir tungnanna“:

góð þýðing er sú sem fremur þennan gjörning sem kallaður er fyrirheit með þeim árangri að í gegnum þýðinguna glittir í upprennandi mynd af hugsanlegri sátt meðal tungumála. (s. 123)

Fyrirheitið minnir óneitanlega á blæjumynd Nietzsches í Sporum, hvort heldur er til að sveipa konuna eða sannleikann, því handan við gjörninginn, þýðinguna er eitthvað æðra, sem Derrida tengir út frá Benjamin við heilagleikann. Gjörningurinn, og þá kannski allt sem gert er, birtist sem eins konar feluleikur, leikur (konunnar, skv. Nietzsche) að sannleikanum. Í tilvitnuninni að ofan birtist þýðingin sem eins konar skjár, eða það sem Derrida kallar „hymen“, meyjarhaft, er gefur innsýn í vensl tungumála en um leið virðist þýðingin/meyjarhaftið benda á hversu einstakt tungumálið er sem menningarfyrirbæri; vegna þess að það eigi sér bæði verufræðilegan grundvöll og (sem fyrirheit) að um leið sé hægt að finna það í sinni hreinu mynd:

Við lærum að tungumál sé til, að tungumálið sé af tungumáli komið, og að til sé fjölbreytileiki tungumála sem hvert telji til skyldleika við annað á grundvelli þess að þau séu tungumál. (s. 124)

Slíkur skyldleiki knýr Benjamin til að hugsa sér hreint tungumál sem hann kallar á þýsku „die reine Sprache“ (124). Rökrétt ályktun af slíkri hreinni tungu er að þýðing sé mismunandi mikil flekkun hennar og jafnvel að beiting tungumáls sé á sama hátt mismunandi hrein eða flekkuð mynd tungunnar. Þannig höfum við tvær takmarkanir: annars vegar hreina tungu sem minnir á frummyndakenningu Platóns enda felur hún í sér endanleg og allt að því áþreifanleg mörk tungunnar, jafnvel líkamlega mynd hennar. Hins vegar er hinn heilagi texti, en frumtextinn er bara ein birtingarmynd hans, því að á bak við frumtextann eru textar á undan og samtíða honum á máli hans. Þannig minnir frumtextinn nokkuð á dyrnar að lögunum í frægri dæmisögu Kafka en þær opnast ekki að lögunum heldur aðeins að öðrum dyrum og þannig endalaust áfram í botnlaust hyldýpi hins heilaga og sanna. Lokamörk hins heilaga texta virðast því á svipuðum slóðum og hin hreina tunga – á ystu mörkum tungunnar bæði sem verufræðilegs fyrirbæris og sem huglægs veruleika. Hinn heilagi texti er ámóta hreinn og hreina tungan sem aftur er álíka heilög og textinn. Hvorttveggja er við jaðar sannleikans, en hér á eftir bendir Derrida á hvernig sannleikurinn fellur sífellt ofan í eigið hyldýpi vegna þess að sannleikann skortir grundvöll – en þann skort kallaði Heidegger „Abgrund“, afgrunn.

Hugmyndin um að þýðing sé líf og vöxtur hlýtur einnig að kalla á hugmynd um foreldra og börn, þ.e. að þýðingarferlið sé viss birtingarmynd fjölskyldunnar (sem skyldleiki tungumálanna bendir auðvitað á), enda talar Benjamin um fæðingarhríðir þýðingarferlisins (s. 73). Í bók sinni Missáningu (La dissémination, 1972) talar Derrida einnig um texta sem bastarða, óskilgetna syni lógosar. Í þeirri bók jafnt sem Eyra hins ræðir hann um að þýðandinn taki þessa bastarða í sátt en í þeim sáttaumleitunum virðist þýðandinn í hlutverki þess sem í Eyra hins verndar, varðveitir og gefur líf, þ.e. í hlutverki konunnar, eða öllu heldur móðurinnar. Skv. Hegel á átjándu öld var fjölskyldan heilög og birtingarmynd hins guðlega skipulags og hlutverk hennar að endurframleiða sjálfa sig og skipulag sitt. Uppeldið er fyrir Hegel fyrst og fremst það að gera soninn að karlmanni, mennta hann til að taka sæti föðurins innan fjölskyldunnar og síðan í stækkaðri mynd hennar, samfélaginu. Nietzsche ræðir víða þessa fjölskyldumynd og telur hana í reynd jafn gallaða og konuna, eða öllu heldur að gallar fjölskyldunnar séu gallar konunnar. Faðirinn virðist þá fyrirmyndin, jafnvel þrátt fyrir kaldhæðnina, t.d. í þessum orðum, sem birtast í kaflanum „Kona og barn“ í Mannlegt, allt of mannlegt: „Að leiðrétta náttúruna – Eigi maður ekki góðan föður ætti maður að verða sér úti um hann.“ (381) Móðirin er kona sem sveipar sig hulu fals og feluleiks, skv.Sporum, og getur ekki verið handhafi sannleikans (sem líka felur sig). En leiðin til föðurins (sannleikans) liggur um hugsunina, stílinn, orðið. Eins og kemur fram í texta Derrida er Nietzsche einmitt hugsuður þungunarinnar (Sporar, s. 49), heimspekingur sem gengur með orð og fæðir af sér myndbreytingar sannleikans. Enda segir hann, eins og Derrida bendir á, einmitt þegar hann talar um konur og álit sitt á þeim að orð hans um þær séu – ekki sannleikur(inn), heldur hans eigin sannleikar, meine Wahrheiten (Sporar, s. 64-66). Nietzsche lítur þannig á skrif sem eins konar fjölskyldutengsl, og sjálfan sig sem föður og móður – og með tengingu við rit hans, Ecce Homo (1908), mætti álykta svo að hann væri einfrumungur og æxlunin kynlaus, en í bókinni ræðir hann á nokkrum stöðum um sig sem amöbu og skynjun sína sem fálmara.

Fyrir Derrida er fjölskyldan hins vegar allt að því freudísk þar sem synir keppa við feður um hylli og jafnvel ástir móðurinnar og birtist sú mynd þannig í nefndum textum hans: faðirinn er lógos (lögmálið, endanleg merking), móðirin náttúra (lífið, frjómagn), sonurinn bastarður (flekkaður sonur lógosar) – en bastarðurinn getur verið óskilgetinn eða tilkominn í framhjáhaldi. Þessi fjölskylda er byggð á missáningu eiginda og ævinlega brengluð á mælikvarða Hegels; sonurinn fer í aðra átt en faðirinn og í Glas (1973) reynir Derrida m.a.s. að veita dótturinni svipaða möguleika til frelsis og sköpunar og syninum. Sem bastarður er sonurinn, að mati Derrida, hinn eiginlegi erfingi og verndari skipanarinnar sem ól hann. Skrif spretta enda ekki frá líkama hins lögmálsbundna föður, skv. Derrida, heldur úr náttúrulegum líkama móðurinnar sem ber frá öndverðu í sér brot á þeim samningum sem faðirinn stendur fyrir og hefur jafnvel gert.

Fyrir þýðingarferlið nýtir Derrida sér þannig fjölmargar myndhverfingar sem hann sækir beint til náttúrunnar eða brotinnar sýnar á menninguna. Þetta þéttriðna net sitt virðist hann byggja mjög á tvennd Nietzsches (ekki síst í Ecce Homo) um dána föðurinn og lifandi móðurina. Frá sjónarmiði þýðingafræða gætu myndhverfingarnar talist einkar viðeigandi: það er til staðar lifandi vera, þýðandinn, sem textarnir virðast beinlínis vaxa og öðlast í lokamynd (sem í sumum tilvikum gæti jafnvel gegnt hlutverki hins heilaga, sbr. t.d. Biblíuþýðinguna ensku, King James, og Shakespeare-þýðingar Helga Hálfdanarsonar). Þessi vöxtur innra með lifandi veru bendir á að ferlið og jafnvel þýðingin sjálf er ávallt á fósturstigi; myndhverfinganetið bendir svo líka á að fóstrið sjálft er umfram allt hugarfóstur. Í þessu neti virðist augljóst að þýðandinn, sá eða sú sem gengur með þýðinguna í maganum eða huganum, er í hlutverki hinnar lifandi móður. Nietzsche lítur jafnvel á ritunina, að mati Derrida, mun líkamlegar, því eins og Sporar sýna vel þá er stíllinn lagvopnið sem bæði ristir sundur blæjuna (skv. Nietzsche) og áletrar meyjarhaftið (skv. Derrida). Þýðingarferlið er, svo leikið sé með hugtök sem koma fram hér síðar, eins konar kynlífsathöfn, verkið – þýðingin – blæja sem hylur hinn heilaga texta. En Nietzsche sá tengsl sannleika og kvenleika einmitt ekki síst í ljósi myndarinnar af kynfærum konunnar, sem þarf fornt og felandi orð fyrir, Baubo. Skv. þessum hugsuði þungunarinnar eru málið og hugsunin ennfremur endalaus getnaður og meðganga; tilgangur afbyggingarhugsuðarins hins vegar kannski sá að sæða tungumálið, orðræðuna, menninguna eigin hugsunum, um leið og hann sporar sjónbauga menningarinnar.

Stökkið frá móðurlífinu til heilans eða jafnvel hugans og sá leikur að sviðsetja sömu ferlin á báðum „leiksviðum“ (vöxt eiginlegs fósturs og vöxt þýðingar sem fósturs) gætu virst nátengd því hlutverki afbyggingar að koma fram á svið orðræðu mannvísindanna sem hvítvoðungur en um leið sem skrímsli, skv. Benjamin sem þýðing. Þetta tvíbenta hlutverk afbyggingar sinnar sér Derrida fyrst og fremst í ljósi þess hlutverks að túlka orðræðuna upp á nýtt, að þýða orðræðuna inn í nýtt kerfi sem hann og afbyggingin munu frjóvga og síðan sá fræjunum um allan þennan akur. Uppskeran verður í anda fjölskyldunnar, eins konar ekki-uppskera á hefðbundinn mælikvarða. Derrida lýkur þannig tímamótaritgerð sinni um hugtakið „byggingu“ eða formgerð í orðræðu mannvísindanna með þessum orðum:

Hér vaknar því eins konar spurning, við skulum kalla hana sögulega, og í dag hillir einungis undir getnað hennar, mótunmeðgöngu og fæðingarhríðir. Ég viðhef þessi orð vissulega með tilliti til barnsfæðingar; en einnig til þeirra í samfélaginu er ég tel mig enn til, þeirra er líta undan andspænis því ónefnanlega, sem eins og hlýtur að gerast þegar fæðing stendur yfir, getur aðeins boðað komu sína sem tegund ekki-tegundar, þ.e. í formlausri [leturbr. undirr.], hljóðri, hvítvoðungslegri[leturbr. undirr.] og hrollvekjandi mynd ófreskjunnar [leturbr. undirr.] („Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“, Spor í bókmenntafræði, s. 152).

Af þessu mætti álykta að þýðing sem vöxtur feli ávallt í sér afbyggingu eða sé henni samstíga. Þessi tengsl við fóstur, vöxt og kvenlíkama eru þó á vissan hátt allsendis ótengd afbyggingu því stökkið frá móðurlífi til hugsunar er einnig eldforn leikur með myndhverfingar. Skrif hafa um langan aldur verið hugsuð í þessu líkingamáli og mætti hér t.d. nefna heilagan Ágústínus sem gekk með Játningarsínar lengi áður en þær „fæddust“ í bókarformi. Leik hugsunar og móðurlífs lék Nietzsche einnig sem fyrr segir nálega öld á undan Derrida er hann sá heila sinn fyrir sér sem leg, sem móðurlíf þar sem hugsun hans sáði sér og óx svo að hún varð að barni; þannig varð höfuð hans bæði tvíkynja líkami og móðir. Nietzsche setti myndina reyndar í þrengra samhengi því fyrir honum er það ekki síst hugur heimspekingsins sem er móðurlíf eða leg, og höfuð hans þá líkami móður: „við þurfum að fæða hugsanir okkar með kvöl og ljá þeim, líkt og mæðurnar, allt okkar blóð, hjarta, eldmóð okkar, ánægju, ástríðu, pínu, samvisku, örlög okkar og harmleik“ (formáli að Glaðlegu vísindunum, s. 35-36).

Benjamin sá fyrir sér „hreint tungumál“ sem fyrirmynd allrar mállegrar sköpunar. Myndhverfing hugans sem móðurlífs knýr Nietzsche á svipaðan hátt til að hugsa sér sannleikann, þ.e. þá hugsun sem kemst næst hinu hreina í hugsunarhefð hans, í mynd kynfæra konu. Fyrir hinn siðfágaða Nietzsche er orðið og jafnvel myndin þó of klúr og sér hann sig tilknúinn að sveipa það blæju með því að nota hið gríska „Baubo“ sem merkir raunar frumstæðan og klúran kvendemón sem upphaflega var persónugerving fyrir kynfæri kvenna (sjá t.d. nmgr. enska þýðandans í Glaðlegu vísindunum, s. 38). Þessi kvenlegu líffæri eru þannig mynd eða a.m.k. umbúnaður þess sem ekki má nefna, sjálfs hvítvoðungsins, ófreskjunnar; „fuck it all“, hefði einhver sagt, sannleikurinn mun gera yður frjálsa.

Nietzsche tengir ennfremur kynfæri kvenna og landslag, því þegar hann hefur þannig tengt hugsun og sannleika við móðurlífið og æxlunarfærin leiðir hann okkur ekki aðeins beint inn í líkama sálarinnar heldur einnig út undir bert loft í Grikklandi hinu forna:

Æ, þessir Grikkir! Þeir kunnu að lifa. Það sem til þarf er að staðnæmast af hugrekki á yfirborðinu, í fellingu, á skinninu, til að dást að því sem við blasir, til að trúa á form, tóna, orð, á Olymps-fjall allt sem við blasir. Þessir Grikkir voru yfirborðskenndir – af djúpsæi sínu. Og er það ekki nákvæmlega það sem við erum enn komin að rétt einu sinni, vér andans ofurhugar sem klifið höfum hæstu og hættulegustu tinda [leturbr. undirr.] hugsunar nútíðarinnar og svipast um af þessum hæðum – við sem höfum horft niður af þeim stað? Erum við ekki einmitt að því leyti Grikkir? Aðdáendur forma, tóna, orða? Og því – listamenn (Formáli aðGlaðlegu vísindunum, s.38).

Þessi fjalldalamynd verður í orðræðu Derrida að intervallum sem hann tengir reyndar líka við rýmið milli tveggja standberga (Missáning, s. 212) en sú mynd hverfist hjá honum í myndir úr líkama konu, þ.e. líkamann sem er honum um leið samastaður skrifanna. Fyrir báðum heimspekingum, Nietzsche á 19. öld og Derrida á 20. öld, eru kynfæri konu fæðingarvegur skáldskapar, sannleika, þýðingar. Og tengsl Benjamins við „hið hreina tungumál“ svo og ýmis skrif Nietzsches í sambandi við konur (t.d. í Sporum) verða Derrida uppspretta þeirrar hugmyndar að skrif eigi sér stað á eða í sjálfu meyjarhaftinu (hymen) sem hann líkir ennfremur við þrykkiörk í prentsmiðju (tympan) (sjá„Tympan“ í Mörkum heimspekinnar).

Eugenio Donato bendir á það í spurningu til Derrida að hugmyndir þess síðarnefnda geti gert það nauðsynlegt að hugsa um staðfræði þýðingarferlisins á nýjan hátt á þeim nótum sem Derrida boðar, þ.e. út frá „möguleikanum áinnfellingu (invagination), þar sem ekkert yrði eftir nema mörk og jaðrar“ (Eyra hins, s. 129). Þessi nána tenging „marka og jaðra“ við sköp og meyjarhaft konu, sem Derrida virðist oft leggja fram, sýnir næstum áþreifanlega hversu líkaminn gagntekur heimspeki Derrida. Þessi líkamleiki hefur tvenns konar áhrif á hugsun hans; í fyrsta lagi er sem hugsun og sköpun geti aðeins farið fram í líkama konunnar, þ.e. að hugsun og sköpun séu beinlínis kynferðislegar athafnir, og í öðru lagi virðist heimspeki hans festast í gildru þess að ljá kvenlíkamanum blætisgildi.

Meyjarhaftið sem staður skrifa

Í Sporum og ekki síður í Eyra hins og Missáningu gerir Derrida meyjarhaftið að samheiti fyrir samninga og lög. Með því tengir hann það beint við nokkur af grundvallarhugtökum fallógosentrískrar siðmenningar, eins og fyrirheitið, hjónabandið og það heilaga. Í feðraveldinu er meyjarhaftinu, sem himnu í leggöngunum, ennfremur léð táknrænt gildi samnings sem staðfestir að konan sé óspjölluð, þ.e. meyjarhaftið er tákn fyrir hreinleika hennar en einnig fyrir sjálft feðraveldið, sjálfa samfélagsgerðina. Rof haftsins jafngildir því ekki bara samningsbroti, skv. Derrida, heldur er slíkt rof samningsbrot en um leið bæði rof og staðfesting samfélagssáttmálans. Þessi samheitakeðja hafts, hreinleika og rofs tengir þannig og bindur saman menningu (lög, samninga, tækni) og náttúru (líkama, vöxt, fæðingu) en kallar einnig fram þá hugmynd að hugsun og menning séu óhugsandi án líkamans eða náttúrunnar, heldur spretti hið fyrra á vissan hátt af því síðara. Líkt og „konan“ sprettur af „karlinum“ í kapítalískri menningu og að því er virðist í orðræðu Nietzsches. Slíkur samsláttur hins ólíka og andstæða grefur með afgerandi hætti undan upphafningu tvenndarandstæðukerfis þar sem reynt er að útiloka tengsl eða samgang milli andstæðna.

Slíkur samsláttur verður líka augljós í þessum myndhvarfanetum sem Nietzsche og Derrida stunda merkingarveiðar sínar með, því sterk hefð er fyrir því að tengja karlinn við menningu en konuna við náttúruna (þetta er t.d. meginhugsun í frönskum femínisma og kannski öllum femínisma; karlinn er tákn kerfisins, konan tákn óreiðunnar, flæðisins). Blæjan er hér að framan gerð að tungumáli, þýðingu, hugsun. Slík blæja hylur (sannleikann, konuna) en er um leið tákn þess sem hún hylur; það sem er hulið (sannleikurinn, konan) fær tákngildi af því sem hylur það. Þannig verður sannleikurinn ávallt markaður sporum hugsunar, tungumáls, sem er kvenkyns, jafnvel kvenleikinn sjálfur. Þennan samslátt kallar Derrida hér á eftir „hyldýpi sannleikans“. Seinustu ár hafa menn svo farið að spyrja hvort hér (og ekki síður í nýrri verkum Derrida) sé ekki í rauninni á ferð trúarleg orðræða um sannleika guðs og lögmál hans – sem skoðanabræðrum Derrida hefur lengi fundist hann berjast gegn. Rit hans í tengslum við Levinas og trúarrit gyðinga benda sterklega til að hugmyndin um Derrida sem spámann eða a.m.k. predikara eigi við nokkur rök að styðjast.

Um leið og skrif eru afurð hreinnar hugsunar eru þau einnig líkamleg. Sú þversögn er viðmið í fræðum Derrida en í Eyra hins kemur hún fram sem net mynda og hugmynda er byggja upp og þjappa saman hugmyndum hans um skrif, nálægð, tryggingu/fullvissu, undirskrift, samninga, kóða, merkingu, viðbót, himnur, líffræðilegt eðli og gildi texta og tungumáls, um hinn og um verufræði tungumálsins. Það eina sem borið getur okkur að þeirri þrennd, sem ég vil grípa úr þessu neti, meyjarhafti, samningi og sáttum, er sjálf tungan, bæði sem tungumál og sem líffærið er hreyfist innan í munni manns. Með því að þjappa hugmyndum um meyjarhaftið saman í kerfi tungumálsins vill Derrida síðan meina að meyjarhaftið tilheyri hvorki karli né konu, heldur sé það myndhverfing fyrir allnokkur ferli eða öllu heldur svið ferla. Þetta tengir Derrida hér á eftir við copula, sem þýðir strangt til tekið umsögn, en með málkrókum festir hann það við par og gerir sjálfa umsögnina að eins konar samræði, umsagnir að samræðum, tungumál að kynferðislegu leiksviði.

Á erlendum málum er meyjarhaftið nefnt „hymen“ en það orð á sér margslungnar sifjar; orðið er náskylt „hymn“, þ.e. sálmi, himnu og himni. Það gefur þannig til kynna festinguna sem sáttmáli guðs og manna er skrifaður á; sálma sem lofsyngja guð og lífsmagn veraldar; himnur sem halda hlutum aðskildum en hleypa vökvum í gegnum sig; himnur sem hægt er að rjúfa. Orðið og sifjar þess benda á lögmál og a.m.k. möguleika á hvers konar rofi. Umfram allt geymir orðið net myndhverfinga og ekki síst býr í meyjarhaftinu möguleiki skrifanna, en í Missáningu er það einmitt kallað „vefur sem svo margar líkamlegar myndhverfingar eru skrifaðar á“ (Missáning, s. 213). Þetta flókna merkinganet og margbentur myndhverfingaleiki þess útiloka að mati Derrida að hægt sé að eigna meyjarhaftið og nettengingu þess eingöngu kvenlegum líkama, einmitt og ekki síst vegna þess að það felur í sér ummyndun hins kynferðislega. Þessi ummyndun er þó einnig vafa undirorpin enda á Derrida ekki auðvelt með að fallast á að hér sé um nýja „birtingarmynd konunnar“ að ræða. Hefðbundin merking og merking í mótun vefjast fyrir honum og þegar hann er spurður beint hvort hægt sé að færa sig frá konu sem „eiginkonu“ til konu sem „móður“, þ.e. hvort „’nýtt’ konu-hugtak“ („Choreographies“, Eyra hins, s. 174) sé að verða til svarar Derrida m.a. á þessa lund:

sú áhersla sem ég hef lagt á að endurkyngreina orðræðu heimspekinnar eða fræðanna, sem að þessu leyti hefur verið of „hlutlaus“, kom til af þeim fyrirvörum sem ég var að nefna varðandi þessa hlutleysisaðferð [Heideggers í tengslum viðDasein] (hvort hún sé ekki of vísvitandi). Slík endurkyngreining verður að gerast án hvers konar yfirborðsmennsku og umfram allt án þess að horfið sé til nokkurs þess sem réttlætt gæti, eins og við sáum, aðferðir – eða nauðsynleg skref – Levinas eða Heideggers svo dæmi séu tekin. Að þessu sögðu, þá merkja „meyjarhaft“ [hymen] eða „innfelling“ [invagination], að minnsta kosti ekki í því samhengi sem búið er að slengja orðunum í, ekki lengur einfaldlega myndir af kvenlíkamanum. Orðin gera þetta ekki lengur, það er að segja, að því tilskildu að maður viti fyrir víst hvað kvenlegur eða karllegur líkami er, og að því tilskildu að líffærafræði hafi að þessu leyti úrslitaþýðingu. Það sem enn er ekki alveg á hreinu varðar ekki aðeins en þó einnig línu aðgreiningar kynjanna tveggja […] Maður gæti haldið því fram af stakri nákvæmni að meyjarhaftið sé ekki til. Hvaðeina sem grundvallar gildi þess að vera til er „meyjarhaftinu“ framandi. Og ef það væri eitthvert meyjarhaft – ég segi ekki ef meyjarhaftið væri til – þá ætti eignargildið engu meira við það af ástæðum sem ég hef lagt ríka áherslu á í textunum sem þú vísar til [Missáning, „Living On/Borderlines“4 – sjá Eyra hins, s. 173]. Hvernig getur maður þá kennt tilveru meyjarhaftsins hreinlega við konuna? Ekki það að það sé neitt meira aðgreinandi þáttur karlsins eða ef því er að skipta, manneskjunnar yfirleitt. Ég myndi segja það sama um hugtakið „innfelling“ sem hefur ennfremur alltaf verið skrifað og sett í krosstengsl, tvíbrotin, faldað og margfaldað, o.s.frv. Getur það þá í alvöru verið auðvelt þaðan í frá að sjá í hreyfingum þessa hugtaks „birtingarmynd konunnar“? („Choreographies“, Eyra hins, s. 181-182)

Meyjarhaftið er ekki af því að afbygging hefur um- og afmyndað það með þeim afleiðingum að eins og öll önnur hugtök og orð merkir það eitthvað annað en áður (sjá líka „Women in the Beehive“ í Men in Feminism). Derrida veltir ennfremur fyrir sér afleiðingum þessarar framsetningar og segir að sambandið milli meyjarhaftsins, innfellingarinnar og konunnar sé

í senn of gamalt og þó enn ekki fætt: nokkurs konar gamalt pergament sem búið er að rista þvers og kruss, ofhlaðið myndletri og þó enn jafn óspjallað og upphafið, eins og árdegið í austrinu sem það spratt úr (Eyra hins, s. 182).

Með því að snúa þannig forsendum spurningarinnar að pergamentinu, stríði og efnahagslegri þörf fyrir „nýja kroppa skrifanna“ (Eyra hins, s. 183), virðist Derrida skrifa á ný þær spurningar sem McDonald vill vekja upp í viðtalinu: Af hverju að nota ítrekað líkamlegar myndhverfingar sem kenna má við hið kvenlega, við æxlunargildi kvenlíkamans, við æxlunarkroppinn, ef það kvenlega og kynferðislega eru málinu algerlega óviðkomandi? Er hann að leiða okkur á villigötur til Damaskus með því að hylja meyjarhaftið bak við blæju pergamentsins? Er æxlunarkroppurinn ótengdur skrifakroppnum? Hvar stendur hugurinn í þessu (tungu)máli öllu? Sömu spurningar eiga við um Nietzsche.

Skrif sem leiksvið kynlífs

Hugmynd Derrida um tvö líkamleg op í mannslíkamanum, þ.e. hlustina (inn í hugann) og leggöngin (inn í móðurlífið), geymir nátengdar myndir í hugtakasviði hans. Þessa hugmynd hans má lesa sem eina leið til að ræða um merkingu samninga og undirskriftar, um tignarröð í tali, skrifum og meðal fyrirbæra, og um myndhverfingaeðli tungumálsins svo dæmi séu tekin. Á sama hátt mætti lesa myndanetið sem leið til að draga í efa forsendur þessarar hugtakanotkunar hans. Því síðara fylgir nákvæm rannsókn á vissu vandamáli sem snýr að afbyggingu og lesendum hennar: Er hægt að nota myndhverfingu til að ræða svo flókið vandamál án þess að gera ráð fyrir hefðbundinni merkingu þessarar myndhverfingar? Þetta vandamál er auðvitað eitt af meginviðfangsefnum Derrida, en rætt mjög sérstaklega í „Women in the Beehive“ og lesendur hljóta að spyrja, ekki bara hvort meyjarhaftið hljóti ekki að vera kvenlegt, heldur einnig og sértækar hvort afbygging eða Derrida geti gert líkamann að tækni, náttúruna að verkfæri, með því t.d. að gera kvenlega himnu meyjarhaftsins að jafngildi þrykkiarkar í prentsmiðju. Spurning mín er sú hvort þessi samsláttur náttúru og tækni, kvenskapa, skrifa og prentunar, sé ekki einmitt til þess fallinn að ljá kvenlíkamanum annars vegar blætisgildi, þ.e. hagnýta sér hann sem fórnaraltari merkingarinnar, og hins vegar að gera hann að tómi sem felur þó í sér farveg eða leið til gegnumbrots. Ennfremur hlýtur maður að spyrja um hlutverk þessara mynda í því ferli að hafa áhrif á lesendur (áheyrendur, hugsendur) eða verða fyrir áhrifum (af orðunum, hugsununum). Eru myndirnar til þess fallnar að afla hugmyndunum fylgi – og þá jafnvel hvaða hugmyndum? Með slíkum spurningum virðist gefið í skyn að með myndmálinu sé konunni enn og aftur kippt inn í hefðbundin kúgunarform. Að með tengingum Derrida á kvenleika og sannleika út frá Nietzsche sé konan sett í hina undirskipuðu stöðu sem femínismi og Derrida m.a. í „Choreographies“ berjast gegn.

Spurningar um blætisgildi kvenlíkamans verða afar áleitnar þegar við hugum að þeirri líffræðilegu staðreynd að líkamlega er framleiðsla, æxlun, aðeins möguleg í kvenlegum líkama. Sú staðreynd bendir okkur á að þessi framleiðsla er þá að sjálfsögðu beinlínis kynferðisleg og gagnkynhneigð.5 Það mælskubragð Derrida að ummynda hljóðhimnuna (tympan, sem líka merkir strekkiörk í prentiðnaði) milli innri og ytra eyrans í eins konar meyjarhaft (sjá „Tympan“ í Marges) er einnig afar þversagnarkennt, því sú ummyndun gerir tal og það að hlýða á annan að hliðstæðu kynmaka. Þessi ummyndun minnir einnig á að í fyrirlestri um hvatir, bælingu og göfgun í verkum Freuds sagði franski sálgreinandinn Jacques Lacan að samræður veittu sömu ánægju og kynlíf og skellti eftirfarandi á áheyrendur sína: „Ég er ekki að ríða ykkur, ég er að tala við ykkur,“ (vitnað eftir enskri þýðingu, „The deconstruction of the drive“, Four Fundamental Concepts, s.165). Með hliðsjón af kvenlegu eðli meyjarhaftsins og tengslum þess við æxlun, og ekki síður við samninga, rof og hreinleika, verða kynmök (og þá tal) alfarið athöfn milli karls og konu.6 Í pólitísku samhengi er vitaskuld spurning hvar samkynhneigðir komast að í þessari „heimsmynd“ á grundvelli tveggja-opa-kenningarinnar. Svo gæti virst sem fyrirfram sé búið að útiloka allar myndir nema „gagnkynhneigðina“ eina enda afrakstur ávallt barn sem verður mynd skrifa eða öfugt; starfið ávallt meðganga og fæðing. Sjálft leiksviðið mótast þannig af nautn kynlífsins en ekki síður þeirri frumspekilegu nautn að búa til barn. Á þennan hátt virkar kenningin alls ekki í þá frelsisátt sem fósturmyndin eða sú hugmynd að hér sé um einhverja „ekki-tegund“ að ræða gætu gefið til kynna. Þvert á móti virðist kenningin vera staðfesting eða jafnvel réttlæting á þeim fallógosentrisma sem afbygging og Derrida vilja ríða að fullu.

Tengingin milli skrifa, texta og haftsins í mynd sátta eða samningsrofa, eða í mynd þess að syninum sé steypt af stóli virðist ennfremur alltaf byggja á því sem Derrida að öðru leyti beinir orku sinni í að afbyggja, þ.e. stofnuninni fjölskyldu ásamt hjónabandinu sem ávallt miðast við einkvæni eða a.m.k. gagnkynhneigð og er í orðræðu Derrida einhver fallógosentrískasta stofnun vestrænnar menningar. Hér er viðeigandi að minna á það sem nefnt var hér að framan að í Missáningu eru textar og skrif í jákvæðri, skapandi merkingu settir fram sem bastarðar, sem eins konar skrímsli í heimsmynd Platóns í gagnrýni Derrida á pharmakon hans. Þannig fá skrif á sig mynd þess „formleysis“ sem Derrida vildi ljá afbyggingu í fyrrnefndri tímamótaritgerð sinni um formgerð í orðræðu mannvísindanna. Um leið eru skrif sett í samhengi við fjölskylduna og við höfum afar freudíska mynd: karl skrifar á sköp konu og ala þau af sér skrímsli. Mis-sáningin birtir ákaflega hefðbundna mynd af valdavenslum í sjálfri valdaverksmiðjunni, fjölskyldunni, þar sem sköpun og kúgun fara saman eftir línum kynferðis. Þessi samsláttur sem innbyggður er í afbyggingu gæti beint athygli okkar að því að spyrja hvort hið lofsungna já-já sem Derrida gefur við lífinu sé í reynd fremur já-já við vissum formum lífsins umfram önnur.

Samræði eða samræður

Binding skrifa við meyjarhaft sem og tenging þess við hreinleika og rof kalla á þá túlkun að þessi hugtakaruna standi í raun fyrir verulega eðlishyggju hjá Derrida því meyjarhaftið fær að vissu leyti því aðeins staðist innan rununnar að það sé staðfesting feðraveldisins og þá á grundvelli gagnkynhneigðar. Það er aðeins í þessu samhengi sem hægt er að tengja meyjarhaftið við frjóvgun, meðgöngu og barnsburð og þar með við vöxtinn sem þýðingarferlið endurtekur og framleiðir í eftiröpun sinni á náttúrunni. Slíkar tengingar við gagnkynhneigð og jafnvel fallógosentrisma mætti rekja í textum Derrida saman við ýmsar aðrar hugmyndir póst-strúktúralista og hef ég þá einkum í huga kenningar Juliu Kristevu um byltingu í skáldskaparmálinu og samband hennar við líkamann og hið kvenlega sem hún setur fram í La Révolution du langage poétique (1974) svo dæmi sé tekið; einnig nefni ég gagnrýni Luce Irigaray, í Speculum de l’autre femme (1974) og víðar, að með slíkri táknlegri innfellingu í kvenlíkamann sé heimspekin að leggja undir sig konuna sem hverja aðra nýlendu; og loks hef ég í huga gagnrýni sem Judith Butler setur m.a. fram í Gender Trouble (1990) á karllega gagnkynhneigðarkvöð og kenningar hennar um gjörningsgildi kynhneigðar. Fyrir þessum konum hlyti athæfi Derrida að vera nátengt kúgun kvenna – ef dæmt yrði á sömu forsendum og þær beita í afbyggingu sinni á feðraveldinu. Verkfæri þeirra í greiningunni taka hins vegar um margt mið af heimspeki Derrida, sum eru fengin að láni frá henni og á ýmsum sviðum svipar aðferðum saman. Kannski skýra þessi tengsl hversu sjaldgæft er að póststrúktúralískri rýni sé beitt á orðræðu Derrida eins og hér er gert.

Fyrrnefnt hugtakanet um líkamsopin tvö, leggöng og hlust, má einnig sjá þannig að textalega væri innfelling í líkamann leið til að sýna eitthvað um tungumál og texta. Í slíkum lestri leysir innfelling þó um leið upp líkamann og beinir athyglinni bæði að brotthvarfi líkamans og rofi milli líkamans og þess sviðs sem gert var ráð fyrir að hann þjónaði (skv. myndhverfingunni), þ.e. tungumálinu. Það er að segja líkaminn er týndur einhvers staðar á mörkum tungumálsins. Líkaminn er blæju hulinn. Í þessu margslungna ferli grefur myndmálið undan líkamleika tungumálsins og tengslum þess við táknmiðið og táknmyndina „tungu“ en gefur um leið mállegu horfi „tungunnar“ lausan tauminn. Frjáls leikur hugsunar og tungu fær þannig aukna möguleika við þetta líkamlega brotthvarf sem gerir konuna þó að einni saman myndhverfingu. Blæjan og feluleikurinn eru með öðrum orðum ávallt til staðar. Þegar búið er að fella texta þannig yfir líkamann og hefja hann upp í veldiskapandi skrifa, þýða hann yfir á stafróf náttúrunnar, þá er hins vegar engin leið að finna afgerandi kyn á þessum líkama. Hugsuðurinn getur þá horft úr sínum ólympísku hæðum einsog einu fjalli nær festingunni, þessu bókfelli sem í einni svipan skýtur honum aftur í fellingar meyjarhaftsins. Og þannig endalaust í leiknum sem gerir hann frjálsan. En hvað verður um konuna með haftið (rofið eða órofa)? Kannski á hér við hið fornkveðna, ríðum, ríðum, ritum gegn um haftið, eða eins og Lacan sagði, samræði ellegar samræður.

Tilvísanir

1. Hér má minna á orð bandaríska bókmenntafræðingsins Gayatri C. Spivak sem kveður þessa stöðu í æxlunarferlinu lykilatriði í því að sérhver kenning um framleiðslu og æxlun fjalli einnig um konuna. „[E]ignarhald konunnar á áþreifanlegum stað framleiðslu í móðurlífinu gerir hana fullgilda í sérhverri kenningu um framleiðslu“ (Spivak, In Other Worlds, s. 79). Sundurgreiningin sem slík er þó einnig leið Spivak að því marki að hefja konuna uppúr þessari óæðri stöðu.

2. Hér mætti sjá sterka tengingu við umræðu Derrida um vexti í „Mythologie blanche“, sem birtist m.a. í Mörk heimspekinnar (Marges de la philosophie).

3. Þetta hugtak Benjamins er nátengt hugmynd hans um áru, sjá grein hans „Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar“.

4. Harold Bloom (et. al.): Deconstruction and Criticism. New York. The Seabury Press, 1979.

5. Nýjasta tækni með glasafrjóvgun og erfðafræðilega beislun breytir í raun engu um þessi tvö atriði – frjóvgun er kynferðisleg og egg verður ekki frjóvgað með eggi.

6. Slík athöfn og þan himnunnar, með eða án rofs, kallar ennfremur á annars konar útþenslu sem tengist nýlendustefnunni. Í þessu sambandi má einnig minna á frásögn Freuds af helgiathöfnum (í „Das Tabu der Virginität“) í sumum menningum sem fela í sér að meyjarhaftið sé raunverulega rofið án þess að um augljóst samræði eða innsetningu sé að ræða. Freud túlkar slíkar sögur þannig að í þeim sé grafið undan þeirri táknrænu merkingu haftsins sem ég ræddi hér að framan og er í orðræðu Derrida meginstoð í túlkun á haftinu. Að minni hyggju draga slíkar sögur einnig úr afbyggingunni sem umræða Derrida hvílir á varðandi meyjarhaftið.Hins vegar gefur sagan einnig tilefni til þeirrar afbyggingar sem Derrida leggur til: Að mögulegt sé að rjúfa haftið, hvort sem það er verufræðilega, raunverulega til sem hlutlæg staðreynd eða ekki, og það sé ekki nauðsynlegt að tiltekin gerð geranda sé að verki, þ.e. að karlmaður og hans kynferðislega verkfæri séu ekki nauðsynleg.

Heimildalisti

Bækur og greinar sem vitnað er til í formálanum:

Heilagur Ágústínus. Játningar

Walter Benjamin. 1923. „Hlutverk þýðandans“, vitnað eftir enskri þýð. Harry Zohn. „The Task of the Translator“. Í Hannah Arendt (ritstj.). Illuminations. 1968. New York. Schocken Books.

Judith Butler. 1990. Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity. New York. Routledge.

Jacques Derrida. 1972. „Mythologie blanche“. Í Marges de la philosophie.

Jacques Derrida. 1972. „Tympan“. Í Marges de la philosophie.

Jacques Derrida. 1972. Missáning (La Dissémination). Ensk þýð. Barbara Johnson. Chicago. University of Chicago Press.

Jacques Derrida. 1979. „Living On/Borderlines“. Í Harold Bloom (et. al.):Deconstruction and Criticism. New York. The Seabury Press.

Jacques Derrida. 1982. Eyra hins. (L’oreille de l’autre.) Vitnað eftir enskri þýðingu,The Ear of the Other. 1985. Lincoln og London. University of Nebraska Press.

Jacques Derrida. 1982. „Choreographies“ viðtal við Christie McDonald, í Eyra hins.

Jacques Derrida. 1987. „Women in the Beehive“. Í Alice Jardine og Paul Smith (ritstj.). Men in Feminism. Routledge. New York og London. Upphaflega í subjects/objects(vor 1984).

Jacques Derrida. 1991. „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“. Spor í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.

Luce Irigaray. Speculum de l’autre femme. Paris. Éd. de Minuit.

Julia Kristeva.1974. La Revolution du langage poetique. París. Seuil.

Jacques Lacan. 1973. Le Séminaire de Jacques Lacan, Livre XI, ‘Les quatre concepts fondamentaux de la psychanalyse. París. Seuil. Vitnað eftir enskri þýð. Alan Sheridans. „The deconstruction of the drive“ í Four Fundamental Concepts. 1977. Harmondsworth. Penguin.

Friedrich Nietzsche. 1876. Mannlegt, allt of mannlegt. (Menschliches, Allzumenschliches).

Friedrich Nietzsche. 1882. Glaðlegu vísindin.(Die Fröhliche Wissenschaft).

Friedrich Nietzsche. 1884. Ecce Homo.

Gayatri C. Spivak. 1988. In Other Worlds. Essays in Cultural Politics. New York og London. Routledge.

« Til baka

One thought on “Meyjarhaft Derrida

  1. Bakvísun: Pandóra og ljótu bastarðarnir | Knúz - femínískt vefrit

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *