Heimspekikaffihúsið

eftir Róbert Jack

Heimspekikaffihúsið

Heimspekikaffihúsið á uppruna sinn að rekja til dags eins í júlímánuði árið 1992 á Café des Phares á Bastillutorgi í París: það er sunnudagsmorgunn og heimspekingurinn Marc Sautet ræðir við nokkra vini sína um heimspekilega ráðgjafarstofu sem hann hefur nýlega opnað. Nokkrir einstaklingar hafa heyrt á öldum ljósvakans að þarna sé að finna heimspeking sem eigi í samræðu við fólk. Þeir leita hann uppi og finna. Einhver nefnir þá reynslu að vera nærri dáinn og þar með verður dauðinn fyrsta viðfangsefni heimspekikaffihússins.1 – Einhvern veginn þannig lýsir Marc Sautet upphafi heimspekikaffihússins sem hann stóð svo fyrir vikulega á sunnudagsmorgnum klukkan 11:00. Nú eru mjög margir viðburðir af þessu tagi í Parísarborg og þá má einnig finna víða í Evrópu, Norður-Ameríku og annars staðar.

Lýðræðisleg grunnhugmynd

Grunnhugmyndin hefur varla verið mjög mótuð fyrir fyrstu samkomuna, ef marka má lýsingu Sautets. Heimspekikaffihúsinu er þó ætlað að mynda einhvers konar torgstemningu (agora-stemningu) í líkingu við það sem Sókrates kann að hafa skapað í Aþenu til forna. Hér eru viðmælendurnir þó margir, allt upp í nokkur hundruð, og þróun umræðunnar ekki alveg sambærileg við það sem við eigum að venjast úr samræðum Platons þar sem Sókrates er í aðalhlutverki. Þar á Sókrates sér ekki ávallt aðeins einn viðmælanda, til dæmis í Ríkinu eru þeir nokkrir, en hann ræðir að jafnaði í nokkra stund við hvern og einn áður en hann beinir athyglinni að næsta viðmælanda.

Á heimspekikaffihúsinu er þessu öðruvísi farið. Þar er ætlast til að samræðan fari samtímis fram meðal allra viðstaddra og sé því afar lýðræðisleg. Hlutverk hins heimspekilega stjórnanda er vissulega að „stjórna“ en ekki í þeim sama skilningi og Sókrates heldur samræðunni gangandi með leiðandi spurningum. Þannig hafa menn séð heimspekikaffihúsið sem lið í lýðræðislegri umræðu, sem frjálsan vettvang óháðan félagslegum eða efnahagslegum þvingunum.2 Bandaríski heimspekingurinn Lou Marinoff sér heimspekikaffihúsið nánast sem eins konar byltingarstarfsemi þar sem ríkir andúð á fjöldamenningunni.3 Þarna komi saman fólk sem er reiðubúið að reyna á hugann og þróa hugmyndir sínar.

Umgjörð

Umgjörðin eins og Sautet leggur hana upp er ekki önnur en sú að fólk hittist á venjulegu kaffihúsi, en e.t.v. í bakherbergi þannig að ekki sé of mikill hávaði. Sautet hefur þó ekkert á móti því að það heyrist aðeins í kaffivélinni og það sé smá skvaldur í bakgrunni. Í Bandaríkjunum fara slíkar samkomur gjarnan fram í bókabúðum, en menn hafa einnig staðið fyrir þeim í félagsmiðstöðvum, fangelsum og öðrum stofnunum. Tímalengdin er að jafnaði ein og hálf til tvær klukkustundir, en oft er tekið hlé þegar samkoman er u.þ.b. hálfnuð.

Umræðuefni

Þegar á staðinn er komið þarf fyrst að ákveða umræðuefnið, þótt það sé stundum ákveðið fyrirfram. Bandaríkjamaðurinn Richard Shusterman stendur til dæmis fyrir mánaðarlegum uppákomum þar sem ávallt nýr „fyrirlesari“ kemur og kynnir ákveðið efni sem salurinn ræðir svo um, en þessi nálgun samræmist reyndar ekki því sem flestir kalla heimspekikaffihús.4 Á „hefðbundnu“ heimspekikaffihúsi er stjórnandinn oftast sá sami og ákveður efnið þar að auki sjaldnast fyrirfram. Það gerir Sautet til að mynda ekki, heldur biður salinn um að koma með tillögur að umræðuefni. Sjálfur velur hann svo það sem honum hugnast best.5 Ekki velja þó allir stjórnendur sjálfir út frá tillögum úr salnum heldur láta fólk kjósa á milli nokkurra tillagna.

Hvað efnislegt innihald viðfangsefnisins áhrærir getur það verið hvað sem hægt er að hugsa heimspekilega um. Sautet gerir sér far um að velja efni sem telst óvenjulegt heimspekilegt umræðuefni, eins og t.d. „fyrsta skiptið“. Dæmi um önnur efni sem hann hefur tekið til umræðu eru: „að vera háður“, „ofbeldi“, „seinkun“, „er jólasveinninn til?“ og „ákveður maður sjálfur eða er ákveðið fyrir mann?“. Bandaríkjamaðurinn Christopher Phillips, sem stendur fyrir svipuðum samkomum sem hann kalla Sókratesarkaffi, hefur, svo dæmi séu nefnd, fjallað um „hví að spyrja?“, „hvað er heimili?“, „hvað er vinur?“, „hvenær er lífið ekki þess virði að lifa því?“, „hvað er trú?“ og „er heimurinn einungis huglægur?“.6 Þá hvetur Phillips þátttakendur í salnum til að velja það efni sem þeir telja sig minnst vita um, því það leiði oft til skemmtilegustu umræðnanna og opni nýjar víddir hjá fólki.7

Að hlusta og spyrja

Sautet telur að eins og greina megi hjá Sókratesi séu heimspekingar betur til þess fallnir að spyrja en að tjá sig um hvernig hlutunum sé eða eigi að vera háttað. Raunar segir hann að ástundun heimspeki hefjist á því að hlusta.8 Til að fá samræðuna í gang biður hann því ávallt þann sem stakk upp á umræðuefninu að segja svolítið frá hugleiðingum sínum um það. Þannig fær heimspekingurinn hráefni til að bregðast við.9 Þetta tengist einnig mikilvægi spurninga almennt á heimspekikaffihúsinu, en Phillips nefnir að mikilvægt sé að fólk læri að spyrja spurninga og jafnvel má segja að heimspekikaffihúsið sé vel heppnað ef fólk fer með fleiri spurningar en það kom með.10 Stjórnandinn á sem sagt að hvetja til spurninga bæði um efnið almennt og um réttmæti þess sem sagt hefur verið.

Hlutverk stjórnanda og viðmiðunarreglur

Stjórnandi samræðunnar á ekki að ýta á neinn að tjá sig, en enginn þarf að tala frekar en hann vill. Hlutverk stjórnandans er fyrst og fremst að sjá til þess að samræðan gangi vel fyrir sig. Hann á sjálfur ekki endilega að koma með efnislegt innlegg eða spurningar nema samræðan hafi siglt í strand. Honum ber þó að inna fólk eftir rökum fyrir skoðunum sínum, biðja það um að nefna dæmi sem geta tengt umfjöllunarefnið við hversdagsleikann og skýrt viðhorf viðkomandi. Þá á hann að beina til fólks að hlusta á meðan aðrir tala og koma í veg fyrir að samræðan taki á sig fyrirlestrastíl (einn talar), ráðstefnustíl (nokkrir tala án tillits til þess sem aðrir segja), kennslustíl (einn kennir hinum) eða verði kaffistofusnakk (yfirborðsleg umræða þar sem ekkert er skoðað ofan í kjölinn).11 Loks skal hvorki stefna að samkomulagi né reyna í lokin að draga saman í eina niðurstöðu hvað sagt hefur verið.12

Marinoff segist einungis hafa eina aðalreglu, að sýna kurteisi, en vegna þeirrar reglu komi einnig fram aðrar dygðir eins og þolinmæði, hlustun og umburðarlyndi. Marinoff reynir einnig að draga úr því að vísað sé til frægra nafna, því hann telur það vinna gegn því markmiði að fólk hugsi eigin hugsanir og þrói hugmyndir sínar.13 Þessu tengt hafnar Phillips því að gengið sé út frá ákveðnu lesefni, því hann segir of mikla stjórnun felast í því og það „líkist um of annars konar hópum sem segjast ætla að færa heimspekina út úr skólastofunni en taka svo óvart skólastofuformið með sér“.14

Gagnlegt fyrir hversdagslífið

Þá talar Sautet um að heimspekikaffihúsið sé hvorki vettvangur fyrir innvígða heimspekinga (nema að þeir stilli fræðimáli sínu í hóf) né sé það meðferðarhópur.15Kanadíski heimspekingurinn Peter Raabe tekur upp þemað um meðferðarhópinn, en hann er þeirrar skoðunar að oftast sé óviðeigandi að ræða persónuleg vandamál sín á heimspekikaffihúsi eins og gert er til að mynda í heimspekilegri ráðgjöf.16 Vissulega sé gjarnan við hæfi, og jafnvel mjög æskilegt, að dæmi sem nefnd eru í umræðunni séu úr eigin reynsluheimi, en því má ekki rugla saman við það að bera persónuleg vandamál sín á torg. Fái fólk einhverja innsýn í persónulegan vanda sinn á heimspekikaffihúsi er það því frekar fyrir tilviljun en að það sé beinlínis ætlunin. Á heimspekikaffihúsinu getur einstaklingurinn hins vegar frekar gengið að því vísu að geta þroskað og þróað athyglisgáfuna, hæfileikann til að hlusta, hugsun sína og þær hugmyndir sem hann hefur. Þannig nýtist viðburðurinn í hversdagslífinu.

 

Tilvísanir

1. Marc Sautet, Ein Café für Sokrates, Siedler, Düsseldorf 1997 (1. útg. á frönsku 1995), bls. 24.

2. Sjá heimasíðu Gale Prawda (www.philodialogue.com/history.htm), sótt 4. ágúst 2004.

3. Marinoff, Plato, Not Prozac!, Quill 2000 (1. útg. 1999), bls. 258.

4. Sjá grein Roberts Strauss um Richard Shusterman: „His forum is making philosophy almost fun“ á vefslóðinni www.geocities.com/centersophon/press/Shusterman.html, sótt 10. júní 2004.

5. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 29.

6. Sjá bók Christophers Phillips, Socratic Café: A Fresh Taste of Philosophy, Norton, New York 2001. Sbr. bókardóm eftir David Arnaud í Practical Philosophy, 4. árg. 2. tbl. (júlí 2001).

7. Sbr. „Starting a Socrates Café“ á heimasíðu SPI (The Society for Philosophical Inquiry) (www.philosopher.org/soccaf.html), sótt 24. janúar 2005, (bls. 2/9).

8. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 45.

9. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 46.

10. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 6/9).

11. Sjá heimasíðu Gale Prawda.

12. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 6/9).

13. Marinoff, Plato, Not Prozac!, bls. 259.

14. Sbr. „Starting a Socrates Café“, (bls. 7/9).

15. Sautet, Ein Café für Sokrates, bls. 36.

16. Peter Raabe, Issues in Philosophical Counseling, Praeger, Westport 2002, bls. 35-38.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *