Hlutdrægni vísindanna og veraldarinnar sjálfrar

eftir Ernst Bloch1

Mannleg hugsun er og hefur alla tíð verið hlutdræg. Því reynir enginn maður að andmæla á okkar dögum nema til komi annað tveggja: að hann vilji vísvitandi fela sinn rétta lit eða geri sér ekki grein fyrir honum. Hin borgaralegu vísindi2 voru heldur ekki laus við hlutdrægni, endaþótt þau hafi reyndar lengi vaðið í þeirri villu. Þar er ekki örðugt verk að lyfta hulunni ofanaf þeirri sjálfs­blekkingu.

Vísindamaðurinn barn síns tíma

Hversu einangraður sem vísindamaðurinn annars kann að vera kemst hann aldrei hjá því að vera barn síns tíma. Með stétt sinni deilir hann ákveðnum efnahagslegum skilyrðum, þessi sömu skilyrði ákvarða félagslega stöðu hans. Það samfélag sem hann lifir í setur honum jafnan vissar hugmyndafræðilegar skorður. Milli hugmyndafræði og efnahagsaðstæðna liggja margir þræðir. Öll sú hugmyndamiðlun sem á sér stað í samfélaginu verður fyrir áhrifum þeirra efnahagslegu og félagslegu aðstæðna sem ríkjandi eru á hverjum tíma. Vísindin hljóta alltaf að lúta samfélags­legum áhrifum. Þær hugmyndir sem uppi eru á hverjum tíma samsvara jafnan hugsunarhætti ráðandi stéttar. Jafnvel þótt slíkar hugmyndir kunni að brjóta í bág við hugsanagang ráðandi stéttar, taka þær þó leynt og ljóst mið af honum.

Hugmyndir manna um hin svonefndu hreinu vísindi eru því ekki annað en blekking. Þessi blekking er sprottin af því að menn gerðu sér ekki far um að brjóta til mergjar efnahags- og félagslegar forsendur þeirrar aðferðar sem vísindin beittu hverju sinni. Enda þótt slík krufning hafi ekki verið gerð, voru þessar forsendur og sú hlutdrægni sem þeim fylgdi blákaldur veruleiki. Lítum til dæmis á afstöðu vísindanna á dögum hins forna þrælaþjóðfélags til þekkingarinnar. Þar var litið svo á, að þekking yrði aðeins fengin með „óvirkri skoðun“ (empfangendes Schauen) áhorfandans, en aldrei með beinum verknaði. Þetta viðhorf átti sér ekki rætur í neinni hrein­vísindalegri afstöðu. Það var bein afleiðing þeirrar hlutdrægu afstöðu til vinnunnar sem ráðandi var á þessum tíma.3 Hér mætti tilfæra annað dæmi. Það er heldur ekki sprottið af hrein­vísindalegum rótum að vísindalegar athuganir á miðöldum skuli einkum hafa beinst að „grund­vallareðli hlutanna“ (substanziale Formen), en áhugi auðvaldþjóðfélags nútímans hinsvegar fyrst og fremst að svonefndum hreyfilögmálum (funktionale Gesetze). Allar hlutlausar vangaveltur um svokallaðan algildan sannleika bera og þjóðfélagslegum uppruna sínum glöggt vitni.

Sjálf trúin á að vera óhlutdrægur er sprottin af sérlega hlutdrægum rótum. Það er engin tilviljun, að það skuli einkum vera hin borgaralegu vísindi sem flíka þessari trú í mun ríkari mæli en vísindi fornaldarinnar og á mun afstæðari hátt en vísindi lénsþjóðfélags miðalda. Þessi ímyndaða óhlut­drægni þjónar reyndar dyggilega hagsmunum borgarastéttarinnar. Eitt af lævísum drottnunar­brögðum borgaralegs valds er að bregða yfir sig dulu óhlutdrægninnar. Borgarastéttin hefur aldrei viljað kannast við þá stéttabaráttu, sem hún hefur háð af sívaxandi afli, né heldur við stéttskiptinguna eða eigin kúgunaraðferðir, sem hún hefur reynt að dylja allt þar til þær hafa afhjúpað sig í hreinum fasisma. Ríkisvald borgaranna hefur tekið á sig gervi fulltrúa hlutlauss almannavilja, stofnunar sem sé hafin yfir flokkadrætti af öllu tæi. Í stað þess að leyfa sann­leikanum um eðli ríkisins sem valdatækis ráðandi stéttar að koma í ljós, var reynt að láta líta svo út sem þetta valdatæki væri hreinræktað réttarríki, sem ekki stýrðist af neinskonar sérhags­munum. Þetta er semsé eðli hinnar borgaralegu yfirborðshlutlægni auðvaldsins og hér er jafn­framt að finna forsendu þess, að sú hugmyndafræði, sem undir bjó, var ekki brotin til mergjar. Til samræmis við trúna á hið ímyndaða réttarríki, sem á að vera hafið yfir alla flokkadrætti, er sú vöntun á hugmyndafræðilegri meðvitund, sem einkennir velflesta borgaralega vísindamenn.

Þarmeð erum við komin að kviku þeirrar hlutdrægni sem er viðloðandi borgaralega hugsun. Oft er hér beitt djúphugsuðum aðferðum til að dylja hinn rétta lit. Reynt er að bægja frá hverskyns umræðu um raunverulegt innihald þessarar hugsunar og viðhalda þeirri formyrkvan vitundar­innar, sem auðvaldinu stafar beinn hagnaður af. Það væri reyndar ekki vel til fundið að nota hugtakið hlutdrægni, þegar um er að ræða beina meðvitaða mútuþægni við Wallstreet, sem mjög hefur færst í aukana á síðustu tímum. Þessháttar fyrirbrigði er ekki unnt að staðsetja undir sama hatt og falslausa hlutdrægni borgaralegrar hugsunar fyrri tíma. Það var einkenni þeirrar hugsun­ar, að hún var enn trúuð á, eða vildi vera trúuð á hlutlæga afstöðu sína. Það skilur hana frá öllum þeim sem vísvitandi sigla undir fölsku flaggi. Annað er það, að í borgaralegri hugsun fyrri tíma leyndist enn vaxtarbroddur hugmyndafræði og vísinda, sem ekki verður sagt um þankagang fals­spámanna okkar tíma. Þrátt fyrir, ef ekki einmitt vegna þessarar sannfæringar um algerlega hlutlæga afstöðu, kemur hlutdrægnin í garð eigin stéttar berlega í ljós hjá glæstustu riddurum hinna borgaralegu vísinda, meðan þau enn voru og hétu. Mommsen4 veittist, svo dæmi sé nefnt, að kirkjulegri sagnritun Martins Spahn, í nafni þess sem Mommsen vildi kalla „skilyrðislaus vísindi“ (voraussetzungslose Wissenschaft), en sjálfur skrifaði Mommsen síður en svo á „skilyrðislausan“ hátt. Skrif hans voru þvert á móti með pólitískum lit. Hann fjallaði um hið liðna á sama hátt og um samtímaatburði væri að ræða. Að hætti frjálslyndra manna, aðdáenda glæsilegra mikilmenna, tók hann fyrir hrifningar sakir afstöðu með Cesari. Annað dæmi um margbreytilega hlutdrægni hans var, að sem lýðræðissinni og fyrrum þátttakandi í uppreisninni 1848, sneiðir hann með öllu hjá rómverska keisaratímabilinu og lýsir því hvergi. Mommsen leit á Cesar sem flokksbróður sinn, rómverska herkonungavaldið var hinsvegar óvinur af andstæðum flokki. Það er því auðsætt, að til grundvallar sögulegum dómum Mommsens liggur pólitískt mat. Af stéttarlegum ástæðum auðnaðist Mommsen reyndar aldrei að komast að kviku rómverskrar sögu, en slík athugun hefði orðið að byggjast á úttekt á jarðeignaskipaninni. Hlutdræg afstaða hans kom og í veg fyrir það, að honum tækist að skila af sér því sem hann vildi sjálfur kalla „þungvæga lærdómshneigð“.

Svo við höldum okkur enn við sagnfræðina og látum jafn erkihlutdrægar greinar og borgaralega hagfræði, lögfræði og listskoðun 19. aldarinnar liggja á milli hluta, þá er ekki úr vegi að víkja stuttlega að Ranke.5 Víst er um það, að sem sagnfræðingi mætti líkja Ranke við „kyrrlátt veraldarauga“. Hjá honum verður hvergi vart andúðar eða velþóknunar í garð þeirra einstaklinga, sem hann dregur upp myndir af. Ranke var svo sannfærður um algera hlutlægni sína, að hann gat sagt sem svo: „ég dirfist ekki að setjast í neinn alheimsdómarastól“. Hann gerði sér ekki far um að lýsa með neinum sérstökum þunga þeim augnablikum sögunnar, sem fá hjartað til að berjast í brjósti manns, og hélt því fram, að öll söguskeið ættu það sammerkt, að þau stæðu „frammi fyrir augliti guðs“. Þessi alltof yfirdrifna málefnalega afstaða var þó aðeins hafin yfir hlutdrægni í einstaklingsbundnum skilningi. Hlutdrægni þessa nytsemislega viðhorfs Rankes er einmitt fólgin í því, að hann vék sér undan því að setjast í alheimsdómarastól. Fjallað er um söguna einsog hvert tímabil hafi náð takmarki sínu. En einmitt á þennan hátt afneitaði íhalds­sinninn framförum í sögunni. Hann lagði að jöfnu tímabil framfara, sem raunverulega skiptu sköpum í veraldarsögunni, og afturhaldssama tíma sem lifðu og nærðust á þeirri trú, að þeir stæðu frammi fyrir augliti guðs. Það var því ekki um að ræða neitt hlutleysi meðal vísindamanna hinna „hlutlægu“ 19. aldar. Hlutleysi var hvorki til í formi neinna skilyrðislausra né óháðra vísinda (sem Max Weber6 var enn trúaður á). Hlutleysi var ekki annað en vöntun á meðvitund og yfirvegun eigin hlutdrægni.

Hlutdrægni í náttúruvísindum

Í náttúruvísindunum rekumst við á hlutdræga hugsun af líku tæi. Ágreiningsatriði innan náttúruvísindanna sjálfra hafa aldrei verið jafn nátengd annarskonar ágreiningi einsog á okkar dögum. Þessi tengsl snerta sjálft starf náttúruvísindamannanna nánar en menn gera sér almennt grein fyrir, enda þótt þesskonar iðja virðist á ytra borði hafin yfir allan ágreining. Það sem hér um ræðir á einkum við um aðdraganda rannsókna, þann hátt sem hafður er á umfjöllunvandamála, og þó fyrst og fremst þær alhæfingar, sem fram eru settar á grundvelli ákveðinnar heimsmyndar. Hér breytir engu, þó unnt sé að gera ítarlega grein fyrir einstökum atriðum rannsóknanna. Það skiptir heldur engu meginmáli í þessu sambandi, að náttúrulega hluti er að sjálfsögðu unnt að skoða úr meiri fjarlægð en fyrirbrigði samfélagslegrar ættar. Heimur náttúrunnar stendur að mestu utanvið vitundarsvið mannsins. Þó gegnir hlutdrægur skilningur einnig mikilvægu hlutverki í þessum efnum, endaþótt nokkuð erfiðara geti verið að henda reiður á honum; nefnilega þegar til kemur bein þjónkun við síðborgaralega hagsmuni í formi vissra alhæfinga. Hlutdrægni kemur hér fram í því, að ekki er reynt að leiða í ljós allan sannleikann um ákveðið viðfangsefni. Þessi tegund hlutdrægni er með snöggtum sterkari áróðursbragð en áhangendur hennar væna andmælendur sína um. Weismann og Lýsenkó,7 annar málsvari kenningarinnar um umhverfisáhrif sem afgerandi þátt áunninna eiginleika, hinn talsmaður óskoraðs valds erfða í þessu sambandi, þessir tveir vísindamenn eru ekki einvörðungu fræðilegir andstæðingar. Það sem meira er: annar lýsir neikvæðu, hinn jákvæðu viðhorfi sínu til þróunarhugmyndarinnar. Kenning Weismanns um „samfellt kímfrymi“ (kontinuierliches Keimplasma), sem einungis getur tekið breytingum innanfrá og engar ytri aðstæður hafa áhrif á, er í eðli sínu íhaldssöm. Jafnvel þegar um er að ræða ágreining um meginatriði stærðfræði og eðlisfræði, lætur hlutdrægni af lakara tæinu víða á sér kræla, einkum þó og sérílagi þegar til koma grundvallaratriði þekkingarfræðilegs eðlis eða alhæfingar, sem taka mið af ákveðinni heimsmynd. M.ö.o. þegar um er að ræða hugmyndafræðileg atriði, sem ekki lúta hlutlægu mati, þrátt fyrir alla viðleitni til að komast að hlutlægri niðurstöðu. Alþekkt dæmi eru hin pósitívistíska afstaða jafn „hreinræktaðs“ stærðfræðings og Bertrands Russells eða dulspekilegt viðhorf hins „hreinræktaða“ eðlisfræðings, Eddingtons.8 Raunsæisleg afstaða Plancks9 kemst einna næst því að vera undantekning að þessu leyti. Afturámóti hefur rishá vísindamennska engu breytt um það, að frá síðustu aldamótum hefur átt sér stað sýnilegt fráhvarf frá raun­sæisstefnunni, sem verið hefur meir í ætt við „tíðarandann“ (Zeitströmung) en raunverulegt „skrið heimsins“ (Weltströmung). Hilbert10 leit á hið stærðfræðilega eingöngu sem samspil forsendna og niðurstaðna, þarsem unnt væri að setja inní og breyta um „frumhæfingar“ (axíóm) að vild. Í „innsæislegri“ (intúitívri) stærðfræði Brouwers11 er og gert ráð fyrir því að niðurstaðan sem slík lúti engum hlutlægum eða rökrænum innri lögmálum, heldur ákvarðist niðurstaðan á sama hátt og forsenda hennar af sjálfráðu vali. Þessir miklu stærðfræðingar slitu þarmeð stærðfræðina úr öllum tengslum við hina ytri veröld sem hún hafði fyrr meir sótt efnivið sinn í. Stærðfræðinni var eignaður sérstakur heimur. Þetta var í samræmi við þá óraunsæju hlutdrægni sem ráðandi var á þessum tíma. Sú hlutdrægni leiddi til þess að samfélagsleg vandamál voru færð á hlutlæg svið. Sem dæmi má nefna þá skoðun Mengers12 og fleiri að hugtakið efnahagslegt gildi mætti einfaldlega skýra sem breytilegt mat. Þessi tilhneiging til að hverfa frá hinni ytri veröld er ekki síst augljós í hinni vinsælu „sama sem afstöðu“ nútímaeðlisfræðinga, þarsem þó er um að ræða þá vísindagrein sem eðli sínu samkvæmt fæst við athuganir á hinni ytri veröld. Til að umflýja efnishyggjuna snerust menn af mikilli einurð gegn kenningum sem gerðu ráð fyrir afgerandi áhrifum hins ytri veruleika á vitund mannsins. Leiðandi öfl í þeirri baráttu voru Machisminn13 og Ný-Berkeleyanisminn.14 Í stað þess að efla skilning manna á heiminum í heild, er hér einungis reynt að tíunda einstök hughrif og afleiðingar þeirra. Í stað almennra frumhugtaka (Kategorien) koma nú einungis „leiðbeinandi“ hjálparhugtök (heuristische Hilfsbegriffe) og kenningar eru hér ekki annað en heimasmíðaðar skýringarreglur. Með þessu móti lánast vísindunum að losa sig við grundvallarhugtak sem ráðandi var í heimsmynd náttúruvísindanna á tímum hinnar framfara­sinnuðu borgaralegu hugmyndafræði. Þar er átt við „orsakarhugtakið“ svonefnda (Kausal­kategorie).15 En þarmeð víkur öll viðleitni til raunhæfrar hlutlægni yfirleitt. Vasklegust er þó fram­gangan á sviði þekkingarfræðinnar. Þar freista menn þess að afmá undirrót alls lögmálsbundins veruleika, efnið sjálft. Efnið er nú alltíeinu orðið „af öðrum heimi“ eða frumspekilegrar ættar og sett undir sama hatt og önnur svokölluð „yfirnáttúruleg fyrirbrigði“.16 Það ýtir enn undir hugmyndir manna um að manninum sé ekki unnt að komast fyrir hlutanna dýpsta eðli, að díalektíkin er nú álitin heilaspuni og ekki þess virði að eytt sé á hana orðum. Þekkingarfræðileg útþurrkun efnisins dregur þvínæst ákveðna fylgju á eftir sér í eðlisfræðinni. Þar gerist það að geisluninni er teflt fram gegn efninu. Hér sjáum við dæmi um berleg áhrif afturhaldssamrar náttúruheimspeki á ósvikna og stórbrotna uppgötvun hreineðlisfræðilegrar ættar. Geislunin sem efnið leysist upp í, á nú að ganga af efninu dauðu fyrir fullt og allt (hér sést mönnum yfir það að geislunin myndar aftur efni).17 Framfarasinnuð hlutdrægni hinnar borgaralegu náttúrukenningar opnaði mönnum eitt sinn leið til skilnings á því að hreyfingin væri eiginleiki sem ekki yrði skilinn frá efninu. Þessi skilningur birtist okkur t.a.m. í verkum þeirra Galíleís og Hobbes.18 Sú skoðun að hreyfing efnisins eigi upptök sín utan þess, gerir aðeins vart við sig hjá fáeinum minniháttar áhangendum vélhyggjunnar (Mechanismus).

Tilvísanir

1. Höfundur þessarar greinar er kunnur þýskur heimspekingur og marxisti. Hann er nú aldinn að árum en hefur á sínum langa ferli sett saman fjölda rita um heimspeki, bókmenntir og fleiri efni. Þekktasta rit hans er án efa „Vonarlögmálið“ (Das Prinzip Hoffnung) sem hann samdi í Bandaríkjunum á árunum 1938-’47. þar tekur hann til íhugunar upptök og eðli vonarinnar auk þess margbreytilega búnings sem hún hefur íklæðst í mannlegu samfélagi. Af öðrum ritum hans mætti nefna: Andi útópíunnar, Arfur vorra tíma, og Náttúruréttur og mannleg virðing. Eftirfarandi hugleiðing var skrifuð árið 1951. Enda þótt svo drjúgur tími sé liðinn frá samningu hennar á hún þó vísast engu minna erindi nú en þá sem marxískt innlegg í umræður manna um „hlutleysi“ vísindanna. Í greininni tæpir höfundur víða á nöfnum og hugmyndum fræðimanna án þess að gera þeim fyllri skil. Af þeim sökum var afráðið að skeyta nokkrum athugasemdum aftan við greinina í þeirri von að slíkt yrði til þess að færa efnið eilítið nær lesandanum. Aukreitis voru tveir menn, þeir Magnús Fjalldal háskólanemi og Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, spurðir álits á umþenkingum Blochs. Athugasemdir þeirra eru birtar á eftir greininni. Páll Skúlason lektor las þýðinguna yfir og benti á ýmislegt sem betur mátti fara auk þess sem hann aðstoðaði við gerð skýringa. – Þýð.

2. Hugtakið borgari notar Bloch í þeirri merkingu sem hugtakið hefur í fræðikenningu marxismans. Marx greindi hið kapítalíska þjóðfélag í tvær meginstéttir: borgara og öreiga. Borgarastéttin er sú stétt sem fyrir tilverknað séreignar sinnar á framleiðslutækjunum arðrænir öreigastéttina. Að því er varðar ýtarlegri skilgreiningar á uppruna og eðli þessara andstæðu stétta, er réttast að vísa til orða Marx sjálfs um þessi efni, t.d. kaflans um borgara og öreiga í Kommúnistaávarpinu./p>

3. Til gleggri skilnings á þessu atriði skal hér tilfærður stuttur kafli úr riti Björns Franzsonar, Efnisheimurinn: „Hinir grísku fræðimenn voru þeirrar skoðunar – eins og svo margir af heimspekingum síðari alda – að unnt væri að leysa allar ráðgátur með tilstilli skynseminnar einnar og óstuddrar. Þess vegna gátu þeir að vísu grundvallað rökfræðina sem vísindagrein og komizt langt í stærðfræði, sem – eftir að frumatriðum sleppir – byggir ekki niðurstöður sínar á reynslunni nema mjög óbeinlínis, heldur á rökfræðilegum ályktunum. En í almennri náttúrufræði varð Grikkjum furðu lítið ágengt. Þetta stendur í nánu sambandi við þjóðskipulag fornaldarinnar og er að nokkru leyti afleiðing þeirrar óbeitar á líkamlegri vinnu, sem ríkjandi er jafnan innan þeirra þjóðfélaga, er byggjast á þrælahaldi. Leitin að sannleikanum er hins vegar erfið og þrotlaus vinna – líkamleg ekki síður en andleg oft og tíðum. Yfirstéttin gríska hafði ein tóm til og tök á að stunda vísindi, og verklegar tilraunir voru neðan við virðingu hennar.“ (Björn Franzson, Efnisheimurinn, bls. 12-13.)

4. Theodor Mommsen (1817-1903), þýskur lögvitringur og sagnfræðingur. Mommsen fékkst einkum og sérílagi við skrásetningu rómverskrar sögu. Hann var fyrsti Þjóðverjinn sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels (1902). Viðhorf Mommsens til sögunnar var í stuttu máli á þá leið að sagan lyti sinni eigin gangfræði (dynamik). Hún yrði því einungis skilin og skýrð innanfrá. Mommsen afneitaði öllum tilraunum sagnfræðinga til að leggja almennt siðferðilegt mat á viðgangsefni sitt. Hann var þeirrar skoðunar að mönnum væri unnt að draga margskonar lærdóm af sögunni. Einkum áleit hann rómverska sögu þess umkomna að þjálfa menn í pólitískri hugsun og verða þeim lifandi dæmi til eftirbreytni.

5. Leopold von Ranke (1795-1886), þýskur sagnfræðingur og brautryðjandi í nútímasagnfræði, einkum að því er laut að svonefndri heimildarýni. Ranke fylgdi því sjónarmiði að sagnfræðingnum bæri ekki að fella neina dóma um þann efnivið sem hann tæki til úrvinnslu. Leiðarljós sagnfræðingsins skyldi vera að greina frá liðnum atburðum „einsog þeir hefðu gerst í raun og veru“. Um viðhorf Rankes til sögunnar lék rómantískur trúarblær. Það var skýlaus sannfæring hans að allir tímar nytu nærveru guðdómsins sjálfs. Ríki og þjóðir nefndi hann t.a.m. „hugsanir guðs“.

6. Sjá ritgerð Max Webers, „Starf fræðimannsins“, í Mennt og máttur. Hið íslenzka bókmenntafélag, 1973.

7. Til eilítillar glöggvunar á þeim samanburði sem hér er gerður á erfðafræðikenningum þeirra Weismanns og Lýsenkós fer hér á eftir ívitnun í grein eftir Óskar B. Bjarnason sem prentuð var í Tímariti Máls og menningar árið 1950. Þar segir um kenningar Lýsenkós: „Lýsenkó heldur því fram, 1) að áunnir eiginleikar, þ.e. eiginleikar sem lífverurnar öðlast fyrir áhrif umhverfisins, geti við ákveðnar aðstæður orðið arfgengir. Lýsenkó er þannig í meginatriðum sammála franska vísindamanninum Lamarck, sem hélt því fram í byrjun 19. aldar að áunnir eiginleikar gengju í erfðir og hefði sköpun og þróun hinna ýmsu tegunda jurta og dýra orðið fyrir áhrif umhverfisins. Rétt er að taka fram að Darwin áleit einnig að áunnir eiginleikar væru erfanlegir. 2) Arfgengi sé ekki eingöngu bundið við frumukjarnann eða litningana, heldur hafi hver ögn líkamans sitt arfgengi. 3) Að mögulegt sé að breyta arfgengi jurta og dýra í ákveðnar áttir með vissum breytingum á lífsskilyrðum og umhverfi.“ (TMM, 1950, bls. 83). Um framlag Weismanns til erfðafræðinnar segir í sömu grein: „Hugmynd Weismanns er sú að skipta megi líkama allra lifandi vera í tvo hvorn öðrum óháða hluta, kímfrymi og líkamsfrymi. Frumurnar sem sjá um æxlunina, kímfrumurnar, séu óháðar öðrum frumum líkamans, óbreytanlegar, og á vissan hátt eilífar þar sem þær flytjast við æxlunina yfir í nýjan einstakling. Erfðaefnið eða erfðaeiginleikarnir er eingöngu háð kímfrumunum og hafa því verið óbreyttir frá upphafi“ (bls. 93).

8. Arthur Stanley Eddington (1882-1944), breskur eðlis- og stjörnufræðingur. Eddington reyndi að nota svonefnda „óvissukenningu“ í eðlisfræði til að sanna þá heimspekilegu tilgátu að maðurinn hefði frjálsan vilja. Þarmeð vildi hann vísa svonefndri nauðhyggju (determinism) á bug. Óvissukenningin byggðist á þeirri uppgötvun að hreyfingar frumeindanna lytu ekki að öllu leyti fastbundnum lögmálum. Í fyrirlestri sem Eddington flutti í enska stærðfræðingafélaginu 1932 og prentaður var í tímaritinu Skírni níu árum síðar, orðar hann meginatriði hugmynda sinna á þessa leið: „Ef allur efnisheimurinn er nauðbundinn, þá verða andlegar ákvarðanir (eða að minnsta kosti þær andlegar ákvarðanir, er til framkvæmda leiða) að vera nauðbundnar líka. Því að sé það einskorðað fyrirfram í efnisheiminum, sem líkami yðar telst til, að þér hafið pípu í munni 1. janúar, þá er niðurstaðan af hugarstríði yðar 31. desember um það, hvort þér ættuð að reykja á nýárinu, bersýnilega nauðbundin fyrirfram. Hin nýja eðlisfræði opnar því dyrnar fyrir ónauð andlegra fyrirbrigða, þar sem hin gamla eðlisfræði nauðhyggjunnar rammlæsti þeim… Ef frumeindin er ónauðbundin, þá er mannlegur andi engu síður ónauðbundinn; því vér getum varla fallizt á þá kenningu, að mannsandinn sé vélgengari en frumeindin.“ (Skírnir, 1941, bls. 206-207).

9. Max Planck (1858-1947) þýskur eðlisfræðingur. Hann lagði grundvöllinn að „skammtakenningunni“ (Quantum-Theorie) í nútímaeðlisfræði. Max Plack hlaut eðlisfræðiverðlaun Nóbels árið 1918.

10. David Hilbert (1862-1943), kunnur þýskur stærðfræðingur.

11. L.E.J. Brouwer (1880-1966), hollenskur stærðfræðingur, höfundur svonefndrar „innsæisstefnu“ (intuitionisma) í stærðfræði.

12. Karl Menger (1840-1921), austurrískur þjóðhagfræðingur, upphafsmaður hins svonefnda „austurríska skóla“ í þjóðhagfræði. Kenning Mengers um vörugildið sem hér er lauslega ýjað að var í stuttu máli þessi: Gildi vörunnar ræðst af því hversu nauðsynlega við álítum vera fyrir fullnægingu tiltekinnar þarfa. Menger veittist að þeirri skoðum Ricardós o.fl. að gildi vörunnar réðist af þeim tíma sem varið væri til framleiðslu hennar. Menger leit svo á, að enginn hirti um það í sínu dagslega lífi á hvern hátt varan hefði orðið til. Hver og einn legði mat á vöruna eftir þeim notum sem hann hefði af henni og því, hvers hann færi á mis ef hann þyrfti að vera án hennar.

13. Machismi er kenndur við austurríska eðlisfræðinginn og heimspekinginn Ernst Mach (1838-1916), sem m.a. hélt fram þeirri skoðun að þekkingin væri grundvölluð á einföldum skynhrifum og að í raun væri „heimurinn“ ekki annað en heild skynjana okkar.

14. Ný-Berkeleyanismi er kenndur við írska heimspekinginn George Berkeley (1685-1753), sem m.a. er frægur fyrir þá skoðun sína að rangt sé að tala um efnislega hluti sem séu óháðir meðvitund okkar og orki á hana: hlutirnir eru raunverulegir með því að þeir eru viðfang skynjunarinnar: esse est percipi. Mennirnir skynja að sjálfsögðu aðeins brot af heiminum, en heimurinn er eilíflega skynjaður af guði.

15. Um aðför Berkeleyanismans að orsakalögmálinu segir Björn Franzson m.a. í bók sinni Efnisheimurinn: „Vér skulum ekki eyða mörgum orðum að slíkri heimspeki, en láta oss nægja að spyrja fulltrúa hennar þessarar spurningar: ‘Af hvaða orsökum er orsakalögmálið úr gildi fallið?’ Og þeir svara: ‘Af þeim orsökum, að hin nýrri vísindi hafa komizt að niðurstöðum, sem við viljum leggja í þann skilning.’ Af þeim orsökum! Það er að segja: Til þess að nema úr gildi orsakalögmálið, þarf maður á orsakalögmálinu að halda. En orsakalögmálið er vitanlega ekki hægt að nema úr gildi. Án þess væru öll vísindi óhugsanleg, öll hugsun ómöguleg.“ (Bls. 163).

16. Um slíkar tilraunir heimspekinga til að afneita tilvist efnisins, segir Björn Franzson m.a. í áðurnefndu riti sínu um efnisheiminn: „Fulltrúar þessarar heimspekistefnu Platons og Berkeleys grípa fegins hendi við þeirri staðreynd, að uppgötvaður hefur verið nýr eiginleiki efnisins, sá, að það hagar sér stundum á þann hátt, að vér kunnum ekki að lýsa því betur með öðru en líkja því við ölduhreyfingu. Þetta túlka þeir þannig, að efnið sé horfið, vísindin hafi sannað, að það hafi aldrei verið annað en ímyndun. Það er eins og ef sagt væri, að ljósið hefði horfið, glatað raunveruleika sínum, þegar Huyghens sýndi fram á, að það hagaði sér eins og ölduhreyfing. Auðvitað er slík heimspeki sem þessi ekkert annað en fásinna og fjarstæða, sem á sér engan stað í niðurstöðum nútímavísinda, enda þótt lærðir prófessorar láti sér hana stundum um munn fara. Efnið er jafnraunverulegt og það hefur alltaf verið. Vér gætum jafnvel sagt, að það væri nú raunverulegra en áður, í þeim skilningi, að vér höfum nú öðlast réttari skilning á eðli þess. Uppgötvaður hefur verið nýr eiginleiki efnisins, sem áður var of lítill gaumur gefinn: hreyfingin. Efnishlutirnir, efniseindirnar eru ekki aðeins sjálfar á sífelldri hreyfingu, heldur felst hreyfingin með nokkrum hætti í þeim sjálfum sem djúptækari eðlisþáttur.“

17. Til glöggvunar á því bitbeini sem hér um ræðir er vert að tilfæra fáein orð úr grein eftir breska vísindamanninn J.D. Bernal, „Díalektísk efnishyggja“, sem prentuð var í Tímariti Máls og menningar, 2.-3. hefti, 1948: „Nútíma mynd manna af eðlisheiminum er full af andstæðum og mótsögnum og jafnframt ljóslifandi dæmi um, hversu eldri rökfræðin hefur brugðist. Eðli geislunar er eitt þessara umdeildu úrlausnarefna. Árum saman hefur verið deilt um það, hvort ljósið væri fremur efnisagna- og ölduhreyfing, hvort tveggja í senn, sama máli gegnir um frumeindir og rafeindir. Réttara mun að kveða svo á, að hér sé um að ræða eitthvað, er geti bæði verið öldur og efnisagnir. Sá er munur á þessum tveim hugtökum, að efnisögn er eitthvað, sem bundið er við ákveðinn stað á hverjum tíma, aldan lætur hins vegar til sín taka á ákveðnu svæði um ákveðinn tíma. Svo virðist frá sjónarmiði ‘heilbrigðrar skynsemi’, sem auðvelt ætti að vera að greina á milli þessa tvenns. Þó hafa menn nú komizt að raun um, að svo hagar til við geislun, að aldrei er hægt að ákveða nákvæmlega stöðu efniseindanna, en á hinn bóginn er kleift að staðsetja ölduhreyfinguna. Þessar tvær andstæður renna hér saman í eitt.“ (bls. 194-195).

18. Thomas Hobbes (1588-1679), breskur heimspekingur, sem hélt fram þeirri skoðun, að veröldina mætti skýra út frá hugtakinu um hreyfingu efnislegra frumeinda; vélræn lögbundin hreyfing efnislegra frumeinda gerði kleift að skýra jafnt fyrirbæri náttúrunnar sem sálarlíf manna. Hobbes er þekktastur fyrir rit sitt Leviathan, en í því færir hann rök fyrir nauðsyn einveldis til að tryggja frið og öryggi manna.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *