Um fegurðina

eftir Plótínos

I. Níund 6.

1.

Hið fagra býr einkum í sjóninni, en finnst einnig í því sem við heyrum: í skipan orða og raunar í allri hljómlist, því laglínur og hrynjandi eru vissulega fögur. Og fyrir þeim sem eru að fikra sig frá skynjuninni upp á við eru lífshættir, athafnir, lundarlag og vísinda líka fögur og einnig fegurð dygðanna.1 Sé einhver fegurð til upprunalegri en þessi, mun rökræðan leiða það í ljós.

Hvað skyldi nú valda því að við ímyndum okkur að líkamar séu fagrir og hvað skyldi beina hlustum okkar að tónum vegna fegurðar þeirra? Og hvernig í ósköpunum stendur á því að allt sem undir sálinni er komið er fagurt? Gerir ein og sama fegurðin allt þetta fagurt eða er fegurð í líkama eitt og fegurð í öðru annað? Og hvað er þessi hlutur eða hlutir? Sumt, líkamar til dæmis, er ekki fagurt vegna þess sem það er sjálft heldur með hlutdeild, annað er sjálft fagurt svo sem eðli dygðarinnar. Því sömu líkamarnir virðast stundum fagrir og stundum ekki, svo að það að vera líkami er eitt, að vera fagur annað. Hvað er nú þetta sem er til staðar í líkömunum [og gerir þá fagra]? Fyrst ættum við að athuga þetta. Hvað er það sem hrífur sjónir þeirra sem horfa á eitthvað, snýr þeim og dregur þá að sér og lætur þá njóta sjónarinnar? Ef við finnum þetta má vera að við getum „notað það sem fótstall“2 til að festa sjónir á hinu. Nær allir eru á einu máli um að hlutfallsleg samsvörun3 hinna einstöku hluta hvers við annan og við heildina að viðbættum fögrum lit valdi sjónrænni fegurð og að í tilviki slíkra hluta og allra annarra almennt sé fegurðin hlutfallsleg samsvörun og samræmi. Samkvæmt þessu er ekkert einfalt fagurt, heldur hlýtur það sem er samsett eitt að vera fagurt. Það er heildin sem verður fögur, en einstakir hlutar hljóta ekki einkunnina „fagur“ í sjálfum sér, heldur leggja sitt af mörkum til heildarinnar svo að hún sé fögur. En fyrst heildin er fögur hljóta hlutar hennar líka að vera það. Fögur heild er vissulega ekki samsett úr ljótum hlutum, heldur hlýtur fegurðin að ná til þeirra allra. Fyrir þessum mönnum standa fagrir litir, jafnvel til dæmis sólarljósið, utan fegurðarinnar, því þar sem þeir eru einfaldir hljóta þeir ekki fegurðina af hlutfallslegri samsvörun. Og hvernig getur gull verið fagurt? Og hvað gerir eldingu að nóttu eða stjörnurnar fagrar á að líta? Á sama hátt verður hið einfalda gert útlægt í tónlistinni, þó svo að þegar heildin er fögur sé sérhver tónn það oft líka. Ennfremur, þegar sama hlutfallslega samsvörunin helst á andliti sem ýmist virðist fagurt eða ekki, hvernig verður þá hjá því komist að ætla að hið fagra sé eitthvað umfram samsvörunina og að samsvörunin sé fögur fyrir tilstilli einhvers annars? En ef þessir menn færðu sig yfir á lífshætti og fagurt mál og nefndu enn samsvörunina sem orsök, hvað gæti samsvörun merkt í fögrum lífsháttum, lögum, námi eða vísindum? Hvernig ættu vísindaniðurstöður að samsvara hver annarri hlutfallslega? Sé það vegna þess að þær eru samhljóða, þá er líka til sammæli og samhljóða álit hins illa. „Hófstilling er einfeldni“ er samhljóða og samradda setningunni „réttlæti er hjartagæska einfeldningsins“;4 þær koma heim hver við aðra. Nú er sérhver dygð fegurð sálar og það er sannari fegurð en sú sem hingað til hefur verið til umræðu. En hvernig er samræmi í henni? Vissulega ekki eins og stærðir og tölur eru sammælanlegar. Sálin skiptist að vísu í ólíka hluta, en hvert er hlutfall samsetningarinnar eða blöndunar í sálinni eða vísindaniðurstöðunum? Og hver verður fegurð hugans eins og sér [samkvæmt þessum kenningum]?

2.

Við skulum því taka málið upp að nýju og segja í hverju fegurð líkama felist helst. Hún er eitthvað sem við nemum jafnvel við fyrstu sýn og sálin talar um það líkt og hún skilji það og ber kennsl á það, veitir því viðtöku og eins og stillir sig eftir því. Er hún á hinn bóginn rekst á hið ljóta hörfar hún, hafnar því og snýr sér undan, því hún hljómar ekki saman við það og það er henni framandlegt. Við segjum að þar eð eðli sálarinnar er slíkt sem það er og hún fylgir eftir æðri veru á sviði hins raunverulega,5 fagni hún og æsist upp og hverfi aftur til sjálfrar sín og þess sem er hennar. Hvaða líkindi eru nú með fögrum hlutum hér og efra?6 Segjum að ef það eru líkindi, þá séu þeir líkir. En hvernig geta bæði hið efra og þessir hlutir hér verið fagrir? Við segjum að fagrir hlutir hér séu fagrir vegna hlutdeildar í formi. Því allt formlaust sem fallið er til að taka á sig lag og form er ljótt og utan guðlegrar reglu,7 svo lengi sem það á enga hlutdeild í reglu og formi. Þetta er hinn algeri ljótleiki.8 En það er einnig ljótt sem form og regla hafa ekki náð valdi á, þar sem efnið hefur ekki látið undan og tekið á sig mót samkvæmt forminu. Formið kemur sem sagt til þess sem á að verða eitt úr mörgu, setur það saman, skipar því niður og skapar úr því eina samvirka heild og gæðir það einingu með samsvörun þátta sinna. Fyrst það var sjálft eitt, hlýtur það sem mótað er að vera eitt að svo miklu leyti sem því er það unnt, verandi úr mörgu. Fegurðin trónir sem sagt yfir efninu, þegar búið er að hneppa það í einingu, og hún gefur sjálfa sig bæði einstökum hlutum og heildinni. Þegar hún hefur náð taki á einhverju sem er eitt og með áþekka hluta, gæðir hún heildina hinu sama. Líkt og stundum gæðir list gervallt húsið ásamt einstökum hlutum þess fegurð, stundum einhver náttúra einstakan stein; þannig verður fagur líkami til vegna samneytis við reglu sem kemur frá guðlegum frummyndum.

3.

Sálargáfan sem fegurðin heyrir undir þekkir hana. Ekkert æðra þessari sálargáfu greinir hennar eigið svið, þegar öll sálin fer yfir úrskurðinn með henni. Nema sálin dæmi líka með því að fella hið ytra form að formi [fegurðarinnar] sem býr í henni sjálfri og noti það eins og við notum réttskeið til að dæma um hvað er beint. En hvernig samsvarar líkamlegt því sem kemur á undan líkama? Hvernig dæmir húsameistarinn að húsið ytra sé fagurt með því að fella það að formi hússins hið innra? Vegna þess að húsið ytra að steinunum frátöldum er hið innra form, brotið upp af massa efnisins. Það er í raun óskipt en sýnist vera í mörgu. Þegar skynjunin sér nú form í líkömum binda og yfirbuga hið andstæða formlausa eðli, form trónandi tignarlega á öðrum formum, dregur hún þessa mergð saman í eitt, endurheimtir hana og tekur hana inn á sig – hún er nú rúmtakslaus – og færir hana hinu innra sem eitthvað sem hljómar við það og hæfir því og er því kært: líkt og þegar góður maður ljómar upp við að sjá bregða fyrir hjá ungmenni ummerkjum dygðar sem hljóma við hina sönnu mynd innra. Og hin einfalda fegurð litar verður til þegar sorti efnisins fær sköpulag og er haminn með viðveru ljóss, sem er ólíkamlegt fyrirbæri, regla og form. Því er eldurinn sjálfur fagur öllum öðrum líkömum fremur, af því að hann hefur stöðu forms miðað við aðra líkama; honum er skipað ofan við þá og er léttastur þeirra allra, enda stendur hann hinu ólíkamlega nærri.9 Hann einn veitir hinum ekki viðtöku, en hinir taka við eldinum. Því hann vermir þá án þess að kólna sjálfur. Og hann hefur lit til að bera á frumlegan hátt, þar sem aðrir þiggja litbrigði sín af honum: eldurinn skín og glampar eins og hann væri form. Eldur sem skortir styrk veitir daufa birtu og er ekki lengur fagur, þar sem hann á ekki fulla hlutdeild í formi litarins. Hvað viðvíkur samhljómum sem birtast í tónum, þá eru það óskynjanlegir samhljómar sem skapa hina skynjanlegu og valda þannig vitund um fegurð í sálinni með því að sýni hið sama í öðrum miðli. Því er hinum skynjanlegu eiginlegt að vera mældir í tölum, ekki samkvæmt hvaða reglu sem er heldur reglu sem lýtur því markmiði að skapa máttugt form.

Látum þetta nægja um skynjanlega fegurð, sem er svipir og eins og strokuskuggar sem hafna í efninu og fegra það svo okkur bregður við er þeir birtast.

4.

Fegurð hins efra – fegurð sem skilningarvitunum er ekki lengur gefið að nema og sálin sér og ræðir án skynfæra – verðum við að klífa til að sjá, og skilja skynjunina eftir neðra. Eins og sá sem hefur aldrei seð skynjanlega fegurð eða meðtekið hana sem fegurð er ófær um að lýsa henni, til dæmis þeir sem fæddir eru blindir, þannig geta þeir einir sem veitt hafa fögrum lífsháttum viðtöku rætt um fagra lífshætti og eins um vísindi og fegurð annars af því tagi.10 Og ekki geta þeir talað um „ljóma dygðarinnar“11 sem aldrei hafa svo mikið sem ímyndað sér hversu fögur „ásjóna réttlætis“12 og hófstillingar er: „Hvorki morgunstjarnan né kvöldstjarnan eru svo fagrar.“13 En þeir hljóta að vera til sem sjá þessa fegurð með því sem sálin sér þvílíka hluti, og við að sjá hana gleðjast þeir og eru snortnir og langtum heillaðri en af þeirri fegurð sem við ræddum fyrr, þar eð nú er það sönn fegurð sem þeir komast í snertingu við.14 Öll fegurð hlýtur að vekja með manni þessar geðshræringar: undrun og ljúft felmtur, löngun, ástríðu og unaðsfullt uppnám. Einnig hin ósýnilega fegurð vekur þessar geðshræringar og að heita má allar sálir reyna þær, en hinar ásthneigðari þó meir en hinar: eins og allir sjá líkamana en eru þó ekki allir snortnir jafn djúpt, heldur sumir mest, og kallast þeir ásthneigðir.

5.

Við verðum þá að inna ástmenn hins óskynjanlega eftir þessu: „hvernig er upplifun ykkar af því sem nefnt er fagrir lífshættir, fagrir siðir og hófstillt lundarlag og almennt af dygðugri breytni og hneigðum og fegurð sálnanna? Og hvað upplifið þið þegar þið sjáið fegurð ykkar sjálfra hið innra?15 Hvernig er æðið og æsingurinn og þráin eftir að vera með sjálfum ykkur og lesa [svo] sjálfa ykkur upp frá líkamanum?“ Því þetta er það sem sannir ástmenn reyna. En gagnvart hverju upplifa þeir þetta? Ekki er það lögun neins eða litur,16 né nokkur stærð, heldur sál sem bæði er sjálf litlaus og hefur til að bera litlausa hófstillingu og annan „ljóma dygðarinnar“.17 Þetta er það sem þið reynið, þegar þið sjáið í sjálfum ykkur eða öðrum mikilfengleik sálar, réttvísa lund, hreina siðsemi og hinn göfga svip hugrekkisins,18 ásamt tign og hógværð í ódeigri, traustri og órofa skaphöfn, og yfir þeim hinn goðumlíka hug sem lýsir þeim. Við dáum og elskum þvílíka eiginleika, en af hverju köllum við þá fagra? Þeir eru til og birtast, og sá sem sér þá getur ekki annað sagt en að þeir séu það sem raunverulega er. En hvað merkir „raunverulega er“? Að þeir séu til sem fegurð. En rökræðan heimtar enn svar við því hvers vegna hið raunverulega geri sálina að viðfangi ástar. Hvað er það sem geislar af öllum dygðunum eins og ljós? Viltu taka andstæðuna, ljótleika í sálinni, og sjá muninn? Kannski gæti hið ljóta gagnast okkur í leitinni: hvað er það og hvers vegna birtist það svo? Gerum þá ráð fyrir ljótri sál, taumlausri og ranglátri, morandi af flestum girndum; hvikulli í öllu, óttafull vegna hugleysis og öfundsjúk vegna lítilmennsku; hún hugsar smáar og forgengilegar hugsanir að svo miklu leyti sem hún hugsar nokkuð; hún er slæg og ann saurugum nautnum, lifir lífi hinna líkamlegu kennda og nýtur ljótleikans.19 Eigum við ekki að segja að einmitt þessi ljótleiki hafi komið til hennar eins og „fegurð“ utanfrá og sært hana og saurgað hana og „blandað hana miklu böli“,20 svo að líf hennar og skynjun voru ekki lengur hrein, heldur fór hún að lifa dimmu lífi og dauða blöndnu vegna samneytisins við hið illa, enda sér hún ekki lengur það sem sál ber að sjá, fær ekki lengur að vera með sjálfri sér þar sem hún dregst æ út og niður og í dimmuna?21Óhrein er hún, hygg ég, og hvarvetna dregin í átt til hins skynjanlega, allmenguð af hinu líkamlega og samneytir mjög hinu efnislega og veitir viðtöku annarlegri mynd og breytist til hins verra af blönduninni; rétt eins og sá sem fer á kaf í eðju eða for skartar ekki sömu fegurð og áður heldur sést hvar hann strauk burt eðjuna eða forina. Hann fékk ljótleikann með annarlegri viðbót, og vilji hann verða fagur á ný er það hlutskipti hans, að þvo sér og hreinsa svo hann verði það sem er eðli hans. Við hefðum því á réttu að standa ef við segðum að sál verði ljót með samkrulli og blöndun við líkamann og efnið. Þetta er sá þá ljótleiki sálar, að vera ekki hrein og ómenguð eins og gull, heldur full jarðneskju. Sé moldin numin burt stendur gullið eftir og er fagurt er það stendur aðskilið frá hinu „eitt með sjálfu sér“.22 Eins er með sálina, þegar hún er aðskilin frá löngunum sem hún hefur fengið gegnum líkamann sem hún samneytti úr hófi, laus undan öðrum áverkum og hreinsuð af líkamsvistinni, og dvelur ein og hefur varpað frá sér öllu hinu ljóta sem kom frá hinu eðlinu.

6.

Því eins og hið fornkveðna segir eru „hófsemi og hugrekki“ og sérhver dygð og „einnig viskan sjálf hreinsun“. Þess vegna segja launhelgarnar satt er þær tala í gátum um að hinn óhreini „liggi í forinni í Hadesarheimi“.23 Því forin er hinum óhreina kær sakir illsku hans, eins og svínin, sem eru óhrein til líkamans, hafa einnig yndi af slíku. Hvað gæti líka sönn hófsemi verið annað en að snúa baki við líkamlegum nautnum og forðast þær sem eitthvað sem hvorki er hreint né hreinu hæfandi? Og dauðinn er aðskilnaður sálar og líkama.24 Sá sem hyggur gott til einverunnar óttast hann ekki. Mikilleiki sálar er fyrirlitning á því sem er hér. Viska er hugsun sem beint er frá hinu lægra og leiðir sálina upp á við. Hin hreinsaða sál verður þá form og regla og öldungis ólíkamleg og huglæg og heyrir gervöll til hinu guðlega sem fegurðin og allt þeirrar ættar stafar frá. Svo að sál sem hafist hefur upp á svið hugar hefur aukist að fegurð. En hugurinn og það sem huganum heyrir er fegurð sálarinnar – eigin fegurð hennar og ekki annarleg, því nú er hún að sönnu ekkert nema sál. Þess vegna er réttilega sagt að það að verða góður og fagur til sálarinnar sé að samlagast guði,25 því þaðan kemur hið fagra og annað sem fellur hinu verandi í skaut. Eða öllu heldur, hið verandi er fegurðin, en hin náttúran ljótleikinn, sem er hið sama og frumbölið. Svo að í tilviki guðs er að vera góður og vera fagur, eða góðleikinn og fegurðin, hið sama. Við verðum sem sagt að rannsaka hið fagra og hið góða, hið ljóta og hið illa, á sama hátt. Og fyrsta verður að setja þá fegurð, sem einnig er hið góða. Af henni fær hugurinn jafnskjótt hið fagra, en sálin fyrir atbeina hans.26 Og allt annað er fagur fyrir tilverknað mótandi sálar: hið fagra í athöfnum og lífsháttum. Og líkamana – að svo miklu leyti sem þeir eru fagrir kallaðir – gerir sálin fagra: þar eð hún er guðleg og eins konar brot af hinu fagra, verður það sem hún grípur og stjórnar fagurt eftir því sem því er unnt að fá hlutdeild í hinu fagra.

7.

Við verðum þá að hefja okkur aftur upp til hins góða, sem sérhver sál sækist eftir. Sá sem hefir séð það veit hvað ég á við er ég segi að það sé fagurt. Það er þráð sem eitthvað gott og þetta er það sem þráin beinist að. En að uppskera það kemur í hlut þeirra sem hefja sig upp og hafa snúist og kastað af sér því sem þeir íklæddust á leið sinni niður – eins og þeir sem ganga upp til helgiathafna ganga í gegnum skírslur og kasta af sér klæðunum sem þeir fyrrum klæddust og ganga upp naktir – uns allt sem er framandi guði hefir verið lagt að baki í uppgöngunni og maður sér með sjálfum sér einum það sjálft eitt, einfalt og hreint27 sem allt er háð, horfir á það og er, lifir og hugsar:28 því það er orsök lífs, hugar og veru. Hvílíkur ástarblossi kæmi í hlut þess sem liti þetta, hvílík þrá eftir að sameinast því, hversu lostinn yrði hann af nautn! Sá sem hefir séð það dáist að fegurð og fyllist undrun og unaði, höggdofa án þess að bíða skaða, og elskar af sannri ást og ertandi löngun. Hann hlær að annarri ást og lítur niður á það sem hann áður taldi fagurt. Honum fer sem þeim sem lítur svipmyndir guða eða anda og hugnast ekki lengur fegurð annarra líkama. „Hvað eigum við þá að halda um þann sem lítur hið fagra sjálft, þar sem það er hreint í sjálfu sér, ómengað af holdi“,29 eða líkama, hvorki á jörðu né á himni, svo að það haldi hreinleikanum? Því allt þetta eru viðaukar, sambræðingar og ekki frumlægt, heldur af því leitt. Sá sem sæi það, sem veitir öllu hinu og gefur hvílandi í sjálfur sér án þess að taka við neinu, og dveldi í sýn þvílíkrar fegurðar og nyti þess orðinn líkur því – hvaða fegurðar annarrar gæti hann þarfnast? Því þetta, sem er sjálft öllu fremur fegurð og hin frumlægasta fegurð, gerir elskendur sína fagra og elskuverða. Hér standa sálirnar frammi fyrir hinni hinstu og mestu þolraun:30 þetta er tilgangur allra okkar þrauta, að missa ekki af hlutdeild í bestu sýninni. Sá sem hana hlýtur er sæll að hafa séð þá sælu sýn, en lánlaus sá sem fer hennar á mis. Sá sem mistekst að hreppa fegurð lita eða líkama, völd eða stöðu, jafnvel sá sem mistekst að hreppa konungstign, er ekki lánlaus, heldur sá sem mistekst að öðlast þetta eitt: sakir þessa hlýtur hann að gefa frá sér konungstign og yfirráð gervallrar jarðarinnar, hafsins og himinsins, ef mætti hann sjá með því að yfirgefa og sniðganga þetta og hverfa á vit hins fagra.

8.

En eftir hvaða leið?31 Með hvaða brögðum? Hvernig fær maður séð „óumræðilega fegurð“32 sem eins og dvelur inni í helgu hofi og stígur ekki fram þar sem hinir vanhelgu fá líka séð hana fyrir utan? Fari sá sem getur og fylgist með innfyrir og skilji eftir sjóngáfu augnanna og snúi sér ekki við mót hinum glæstu líkömum sem hann sá fyrrum. Hann má ekki stökkva á eftir hinu fagra í líkömum sem hann sér, heldur flýja á vit frummyndarinnar, vitandi að þetta eru eftirmyndir, slóð og skuggar. Sá sem hleypur til og hyggst grípa eftirmynd sem sannleika, (eins og mig minnir ýjað að einhvers staðar í einhverri sögu af manni sem vildi grípa fagra spegilmynd sem lék á vatnsfleti og steyptist niður í strauminn og hvarf), á sama hátt og í sögunni mun sá sem hengir sig við fagra líkama og vísar þeim ekki á bug sökkva á kaf í sál sinni – ekki í líkamanum – niður í dýpstu myrkur þar sem andinn nýtur engrar gleði. Þar mun hann dvelja blindur hjá Hadesi og samneyta skuggunum fram og aftur. „Flýjum til vors kæra föðurlands“, væri hollara ráð.33 En hvaða flóttaleið er tiltæk og hvernig? Höldum á haf út eins og skáldið segir Ódysseif hafa gert, á flótta frá flagðinu Kirku og Kalipsó, og talar þar í táknum, að ég tel.34 Honum hugnaðist ekki að dvelja um kyrrt þótt hann nyti augnayndis og byggi við mikla skynjanlega fegurð. Föðurland okkar er það sem við komum frá og faðir okkar er þar. Hver verður nú fararmátinn og hver flóttaleiðin? Ekki komumst við fótgangandi: fæturnir bera okkur hvarvetna frá landi til lands. Þú skalt ekki útvega hestvagn eða hey. Láttu allt þetta lönd og leið og horfðu ekki, heldur leggðu aftur augun og breyttu um sjóngáfu og vektu þá sem allir hafa, en fáir njóta.

9.

Hvað blasir nú við þessari innri sjón? Meðan hún er nývakin getur hún alls ekki horft á ljómann.35 Sálina verður að venja og láta hana fyrst horfa á fagurt líferni. Þá fögur verk – ekki af því tagi sem listirnar framleiða, heldur þeir menn sem þekktir eru að gæsku. Líttu þvínæst á sál þeirra sem vinna hið fögru verk.36 Hvernig gætirðu séð þessháttar fegurð sem góð sál hefur til að bera? Hverfðu inn í sjálfan þig og sjáðu. Og sjáir þú sjálfan þig ekki fagran, farðu þá að eins og myndhöggvari sem ætlar að gera fagra höggmynd: hann nemur burt hér, slípar þar, sléttir þennan hluta, skerpir hinn uns hann hefur fengið fram fagurt andlit á styttuna. Eins skalt þú nema brott það sem er ofaukið, slétta hið ójafna og lýsa hið myrka svo það verði bjart, og hættu ekki „að vinna að höggmyndinni þinni“37fyrr en guðlegur ljómi dygðarinnar skín af þér, fyrr en þú sérð „hófstillingu í sitt helga sæti setta“.38 Sértu orðinn svona andlit, sérð það, og lyndir við sjálfan þig í hreinleikanum, og ekkert aftrar því að þú verðir eitt með þessum hætti, né blandast það öðru hið innra heldur ertu allur þú sjálfur, einskært hreint ljós; það er ekki mælt í stærð né gert minna með mörkuðu lagi, né aftur hafið til stærðar með ómæli, heldur er það í hvívetna ómælanlegt þar sem það er hverju máli meira og öllu magni ofar; er þú sérð sjálfan þig svona orðinn, ertu þegar orðinn sjón og treystir á sjálfan þig; þú hefur þegar klifið þarna upp og þarfnast einskis leiðbeinanda framar: einbeittu þér að horfa, því þetta auga eitt fær litið hina miklu fegurð. En hver sá, sem kemur til þessarar sýnar glámskyggn af löstum og óhreinsaður, eða veikburða og skortir manndóm til að líta hið ofurskæra, hann sér ekki neitt þó svo að annar bendi honum á hvað þarna er og hægt er að sjá. Því maður verður að koma til sýnarinnar með hið sjáandi samkynja og líkt hinu séða. Ekkert auga hefur nokkru sinni sólina litið án þess að vera sólarættar, né fær sál séð fegurðina án þess að vera sjálf orðin fögur.39 Verði hann fyrst alguðlegur og alfagur sem hyggst horfa á guð og fegurð!40 Á uppgöngu sinni kemur sálin fyrst til hugarins41 og kynnist öllum hinum fögru frummyndum og staðhæfir að þetta, frummyndirnar, sé fegurðin. Því allt er fagurt fyrir tilstilli þeirra, afsprengi hugar og veru. Það sem er handan þessa köllum við svið hins góða sem skýlir sér með hinu fagra. Svo talað sé í grófum dráttum má segja að hið góða sé hin huglæga fegurð. En ef við gerum greinarmun á hinu huglæga og hinu góða segjum við að svið frummyndanna sé hin huglæga fegurð, en hið góða sé það sem er fyrir handan og „uppspretta og upphaf“ hins fagra.42 Eða við setjum hið góða og frumlæga fegurð á sama stað. Fegurðin er alltént á hinu huglæga sviði.

Tilvísanir

1. Sbr. Platon, Samdrykkjan 210 C og Hippías meiri 297 E-298 B.

2. Platon, Samdrykkjan 211 C.

3. „Hlutfallsleg samsvörun“ = summetria. Grikkir, þar á meðal Platon og Aristóteles, voru almennt þeirrar skoðunar að samsvörun hluta og heildar sé fegurðinni eðlislæg. Stóumenn, sem Plótínos gagnrýnir hér, gengu svo langt að skilgreina fegurð eingöngu út frá þessu, sbr. Cicero, Samræður í Tusculum IV. 31: „Visst hæfilegt form hlutanna ásamt vissum ljúfleika litarins er sagt að sé sjálf líkamsfegurðin.“ Sbr. einnig Ágústínus, Um ríki Guðs XXII, 19.

4. Platon, Ríkið, 560 D og 348 C-D. Sbr. Gorgías 491 E.

5. Sjá nmgr. 26 hér að neðan.

6. „Efra“ og „neðra“ í samböndum sem þessu er hreint líkingamál sem Plótínos annars staðar varar við að taka of bókstaflega, sbr. VI. 5. 8.

7. „Regla“ = logos. Orðið logos á grísku hefur breitt merkingarsvið svo að það verður vart þýtt með neinu einu orði á önnur mál. Það getur til dæmis merkt „orð“, „tungumál“, „skynsemi“, „regla“. Fyrir Grikkjum voru þetta ugglaust tilbrigði eins og sama hugtaks. Hér í þessari ritgerð er logos oftast hálftæknilegt hugtak og merkir þá reglu eða „forrit“ sem stýrir náttúrunni og einstökum hlutum hennar. Hér er því notað orðið regla, og er lesendum bent á að hafa í huga bæði merkingu orðsins „regla“ eins og í sambandinu „hér er regla á hlutunum“ og eins merkinguna „boð“. – Textinn hér skírskotar til Tímaíosar 50 D.

8. Sbr. Aristóteles, Um tilurð dýra 769b12 og 770b16-17.

9. Hér styðst Plótínos við kenningu Empedoklesar um höfuðskepnurnar jörð, vatn, loft og eld. Þessa kenningu höfðu Platon og Aristóteles tekið upp, en Plótínos er hér sennilega líka að laga kenningu Stóumanna um eldinn sem hið skapandi afl í veröldinni að eigin hugmyndum.

10. Sbr. Platon, Samdrykkjan 210 C.

11. Platon, Faídros 250 B.

12. Sbr. Evripídes, Melanippa, brot 486 hjá Aristótelesi, Siðfræði Níkomakkosar 1129b28-29.

13. Sama.

14. Sbr. Platon, Samdrykkjan 212 A.

15. Sbr. Platon, Faídros 279 B ).

16. Platon segir frummyndirnar „án lögunar og litar“ í Faídrosi 247C.

17. Platon, Faídros 250 B.

18. Sbr. Hómer, Illíonskviða VII, 212.

19. Sbr. Platon, Gorgías 525 A.

20. Platon, Faídon 66 B.

21. Sbr. Platon, Faídon 66 B og 79 C.

22. Ríkið 572 A.

23. Herakleitos, brot 13. Fyrstu línurnar hér styðjast við Platon, Faídon 69 C.

24. Sbr. Faídon 64 C 5-7.

25. Sbr. Þeætetos 176 B.

26. Þessi fyrsta fegurð sem Plótínos talar um hér er það sem hann jafnan nefnir hið Eina og hið Góða. Það er upphafsforsenda alls sem er. Hið Eina er hafið yfir allan skilning, því verður ekki lýst með orðum og er jafnvel „handan veru“, þ.e.a.s. hið Eina hefur ekkert afmarkað eðli og er því ekki vera í venjulegum skilningi. Skör neðar í þessu stigveldi veruleikans er guðlegur, altækur hugur (nous), sem jafnframt er svið frummyndanna og sannrar veru. Á eftir honum kemur sál, bæði sálir manna og heimssál, sem stýrir reglubundnum ferlum og eigindum náttúrunnar, sbr. næstu línur.

27. Sbr. Platon, Samdrykkjan 211 E.

28. Sbr. Aristóteles, Frumspekin 1072b14.

29. Platon, Samdrykkjan 211 D-E.

30. Sbr Platon, Faídros 247 B.

31. Þessi kafli hafði mikil áhrif á Águstínus, sbr. Um ríki Guðs IX 17 og Játningar I 18, viii 8.

32. Platon, Ríkið 509 A.

33. Sbr. Hómer, Illíonskviða II, 140.

34. Sbr. Hómer, Odysseifskviða IX, 29 o.áfr. og X, 483-84.

35. Sbr. Platon, Ríkið 515 E-516 A.

36. Sbr. Platon, Samdrykkjan 210 B-C.

37. Platon, Faídros 252 D.

38. Sama rit 254 B.

39. Hér leggur Plótínos út af Ríkinu 508 B-509 A.

40. Goethe sneri þessari setningu og þeirri næst á undan lauslega á bundið mál í formála Litafræði sinnar: Wär’ nicht das Auge sonnenhaft, / Wie könnten wir das Licht erblicken? / Lebt’ nicht in uns des Gottes Kraft, / Wie könnt’ uns Göttliches entzücken?

41. Það er til hins guðlega, altæka hugar, sbr. nmgr. 26.

42. Sbr. nmgr. 26.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *