Hvað hafði Platón á móti skáldskap? Árásir Platóns á skáldskapinn í Ríkinu

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Í frægasta og metnaðarfyllsta verki sínu, Ríkinu, lætur Platón hetju sína Sókrates og viðmælendur hans hugsa upp fyrirmyndarríki, hið besta ríki allra hugsanlegra ríkja.1 Svo er að sjá að ekkert rúm sé fyrir skáld í þessu ríki, og virðist Platón álíta að þau séu aðeins til óþurftar og skuli gerð útlæg úr ríkinu nema þau fallist á stranga og að ég hygg óaðgengilega skilmála.2 Sá helsti þeirra er að þau hætti að blekkja fólk.

Margir aðdáendur Platóns sem jafnframt eru unnendur skáldskapar hafa átt erfitt með að una þessum málalokum og varla fengist til að trúa því að hinn mikli hugsuður hafi í raun og veru verið svo skammsýnn eða blindur að hann hafi ekki komið auga á hið augljósa gildi skáldskaparins (og raunar annarra lista). Bent er á þá óumdeilanlegu staðreynd að Platón var sjálfur mikill listamaður og mikið skáld, sem gat brugðið fyrir sig hvers konar stíl og sett fram hugsun sína með stórfenglegum líkingum sem hvert skáld gæti verið stolt af. Hvernig má það vera að slíkur maður hafi ekki kunnað að meta skáldskap? Hér á eftir verður leitast við að gera örlitla grein fyrir þeim hugmyndum um skáldskap og listir sem birtast í þessu höfuðverki heimspekinnar, og því sem að baki þeim býr.

Áður en lengra er haldið er rétt að ryðja úr vegi yfirborðslegum skýringum á þessari fjandsamlegu afstöðu Platóns í garð skáldanna í Ríkinu. Sú skýring hefur heyrst að Platón hafi einkum haft í huga slæman skáldskap, að hann hafi verið að skjóta á vond skáld í samtíma sínum, en ekki á góðu skáldin sem voru uppi fyrir hans dag. Þetta er langsótt kenning sem stenst ekki snefil af gagnrýni. Því flestöll dæmi sem Platón tekur eru einmitt frá öndvegisskáldum á borð við Hómer, Pindar og Aískýlos. Og sem meira er, í hinum bráðskemmtilega hluta Ríkisins, þar sem Platón gerist ritskoðari og hyggst sníða burt þá kafla hjá Hómer og fleiri skáldum sem eiga ekki að fá að heyrast í fyrirmyndarríkinu, er að finna margar perlur frá skáldskaparlegu sjónarmiði. Ummæli Platóns um skáldskapinn verða heldur ekki skýrð sem orð sem látin eru falla gáleysislega í framhjáhlaupi, þar sem umræðan snýst aðallega um eitthvert annað efni. Þvert á móti: verkið hefði allt eins mátt kalla „Um skáldskap“ eins og „Ríkið“, því að a.m.k. eins stór hluti þess fjallar um skáldskap og um fyrirmyndarríkið. Þess ber þó að geta að Platón er ekki alltaf eins fjandsamlegur skáldum og skáldskap og hann er í Ríkinu. Í samræðunum Jóni ogFaídrosi birtist til dæmis mun jákvæðari afstaða. Þó má segja að flest heimspekilegu meginatriðin í máli Platóns um skáld og skáldskap í Ríkinu séu almennt einkenni á hugsun hans um þessi efni.

Ríkið er heilmikið verk. Það skiptist í tíu bækur, sem eru hver um sig svona 40-50 meðalsíður. Bróðurpartur verksins er samræða Sókratesar og kunningja hans, bræðranna Glákons og Adeimantosar. Efnið sem þeir eru að velta fyrir sér er réttlæti, hvað það eiginlega sé. Í upphafi eru þeir að hugsa um réttlæti einstaklinga, en verða ásáttir um að skoða fyrst réttlætið í ríkinu, því það sé stærra og því hægara að koma auga á það (367 E-369 C). Þannig reisa þeir ríki frá grunni, ríki þar sem öllu er komið fyrir á sem skynsamlegastan hátt, enda fara heimspekingar með stjórnina. Platón ræðir í löngu máli um uppeldi og menntun í fyrirmyndarríkinu, og það er í því sambandi sem spurningin um skáldskap vaknar. Platóni er í mun að þegnar hins nýja ríkis tileinki sér dygðirnar. Hann virðist hafa mikla trú á áhrifamætti skáldskapar og raunar lista almennt til að móta skapgerð fólks bæði til góðs og ills. Þess vegna telur hann hvort tveggja nauðsynlegt að ritskoða skáldskap þannig að hann spilli ekki æskunni í nýja ríkinu og eins að setja saman mikla námsskrá, þar sem kemur fram hvað hinum uppvaxandi fyrirmyndarmönnum sé nauðsynlegt að hlýða á og læra (376E-304 C). Stór hluti námsins er tónlist og er kveðskapur talinn til hennar. Platón álítur rétt tónlistar- og skáldskaparuppeldi æskunni bráðnauðsynlegt, eigi hún að komast til þroska.

En hugum nánar að því sem Platón vill ritskoða og ástæðum þess. Meginkvörtun hans er sú að í verkum sínum kenni skáldin fólki allt hið gagnstæða við dygðugt líferni: þau láta hetjur vera leiksoppa taumlausra ástríðna og tilfinninga og þau ljúga upp á guðina, þar sem þau sýna þá breyska, öfundsjúka, hégómlega og falska. Það er háskalegt að fólk alist upp við slíkar sögur, einkum þar sem hetjur og guðir eiga í hlut, en fyrir þeim eiga menn að vera virðingu. Sérstaklega er Platóni í nöp við skáldskap þar sem persónunum eru lögð orð í munn eins og í leikritum, en slíkt nefnir hann hermiskáldskap.3 Þegar hann segir að skáldin hljóti að vera gerð brottræk úr fyrirmyndarríkinu, þá er hann að tala um hermiskáldin fyrst og fremst.4

Það sem hér hefur verið greint kemur fram í annarri og þriðju bók Ríkisins, þegar verið er að koma fyrirmyndarríkinu á fót. En Platón telur sig bersýnilega ekki búinn að gera skáldskapnum fullnægjandi skil, því hann tekur málið aftur upp í tíundu og síðustu bókinni. Greinargerðin þar er með nokkuð öðrum hætti. Hún er, ef svo má segja, heimspekilegri. Platón byrjar á að rifja upp kenningu sína um að til sé veruleiki sem sé langtum fullkomnari og sannarri en sá sem við skynjum með skilningarvitunum. Þetta er heimur frummyndanna sem svo eru nefndar. Frummyndir einar eru sannur veruleiki að dómi hans, fullkomlega samar við sig og ævarandi. Í þeim falla saman sýnd og reynd. Hitt er allt eins konar endurómur frummyndanna, iðandi síbylja, óraunveruleg og ósönn á einhvern hliðstæðan hátt og skuggar eða óljósar spegilmyndir á vatni eru í samanburði við hlutina sjálfa. Platón tekur dæmi af rúmum, sem húsgagnasmiðir smíða, og af dýrum sem eru verk náttúrunnar. Húsgagnasmiðirnir smíða sín rúm með því að líkja eftir frummynd rúmsins og á einhvern hliðstæðan hátt vinnur náttúran. En svo eru til rúm sem finnast á myndum málara, eftirlíkingar af alvöru rúmum, og hliðstæð þeim eru skáldverkin, sem eru eftirlíkingar, einkum af athöfnum manna. Skáldverk og listaverk yfirleitt eru þannig eftirlíking eftirlíkingar. Skáldskapurinn er eidolopoieisis, skuggasköpun, sem er, ef svo má segja, það lægsta af öllu lágu í stigveldi veruleikans.

Í framhaldinu rekur Platón ennfremur hvernig öll hermilist miði ekki einu sinni að því að líkja eftir veruleikanum eins og hann sé, heldur aðeins ein sog hann sýnist vera. Hann segir

Hugaðu nú að þessu: að hvoru miðar málaralistin hverju sinni, að líkja eftir veruleikanum eins og hann er eða sýndinni eins og hún birtist? Hvort er hún eftirlíking sannleika eða skuggamyndar?
Skuggamyndar, svaraði hann.5

Sama gildir um þær myndir sem skáldin draga upp af fólki og ríkjum með orðum.

Næst kemur skot á harmleikjaskáldin og leiðtoga þeirra Hómer, sem Platón kallar svo. Þessi háðski kafli á að sýna að skáldin fari fjarri sannleikanum í verkum sínum (598 D-601 B). Platón bendir á að samtímamenn séu þakklátir ýmsum mætum fornmönnum svo sem lækninum Asklepíosi og löggjöfunum Lýkúrgosi og Sólóni vegna hinna mætu verka þeirra sem menn njóti enn góðs af. En enginn þakkar Hómer neitt, segir hann. Engin nýtileg uppgötvun eða nýmæli í ríkisbúskap, hernaði eða siðferði er honum eignuð. Þó var hann alltaf að tala um stjórnmál, styrjaldir og dygðir og lesti. En þetta er ekki nema von, segir Platón, því Hómer hafði ekki hundsvit á neinu af þessu, heldur var hann bara eftirherma sem tókst að búa til trúlega ásýnd sem þó var ekkert nema sýndin ein.

Í lokakaflanum um skáldskapinn viðurkenna þeir Sókrates og Glákon að mikil nautn sé að hlýða á skáldskap og að hann sé á einhvern hátt ómótstæðilegur. Þeir eru sammála um að eftirsjá sé að honum. En þetta er ekki nægileg vörn fyrir hann, nema síður sé: Platón setur fram kenningu, mjög í ætt við þá sem Freud og aðrir hafa síðar haldið á loft, að skáldskapurinn sé eins máttugur og raun ber vitni vegna þess að hann veiti útrás alls kyns niðurbældum tilfinningum og þrám. Sókrates segir:

Þegar hinir bestu menn meðal okkar hlýða á Hómer eða eitthvert annað harmleikjaskáld sem er að herma eftir einhverri hetju sem í angist flytur langa raunatölu eða syngur harmasöng berjandi á brjóst sér, þá veistu að við njótum þess og við gefum sjálfa okkur skáldskapnum á vald og þjáumst með hetjunni. Og við lofum af heilum hug snilld skáldsins sem hrærði okkur svo mjög.6

Og örlitlu síðar:

Ef þú hefur hugfast að þessi hluti sálarinnar sem hefur verið haldið niðri með valdi í okkar eigin raunum og þyrstir í tár, gnótt kveinstafa og svölun, enda liggur þrá eftir þvíumlíku í eðli hans, er sami hlutinn og skáldin veita nú fullnægju og gleði. En það í okkur sem í eðli sínu er best hefur ekki verið nægilega alið upp í röksemdum og háttsemi og slakar því á gæslunni á þessum harmþrungna hluta, enda eru það annars manns þjáningar sem það horfir upp á. Og þegar einhver annar maður sem kveðst vera góður barmar sér óhæfilega, skammast þessi hluti okkar sín ekkert fyrir að hrífast af honum og vorkenna honum. Hann telur sig þvert á móti hafa ávinning af þessu, það er að segja ánægju, og vildi ekki verða sviptur henni með því að hafna skáldverkinu í heild sinni með fyrirlitningu.7

Lokaorðin um skáldskapinn eru sérstaklega athyglisverð. Þeir Sókrates og viðmælendur hans telja hugsanlegt að skáldskapurinn geti komið með einhverjar málsbætur fyrir sig þannig að athugandi verði að hleypa honum aftur inn í ríkið. En hann varar eigi að síður enn við því að ekki megi gangast upp í skáldskapnum og taka hann mjög alvarlega. Platón lætur Sókrates segja:

Það verður okkur léttir ef [skáldskapurinn] reynist alsannur og algóður. En svo lengi sem hann getur enga málsvörn borið fram, syngjum við með sjálfum okkur þessar röksemdir okkar sem varnarseið á meðan við hlýðum á hann og gætum okkar á þessari barnalegu ást almennings. Við höfum alltént orðið þess áskynja að ekki má verða hugfanginn af þessum skáldskap eins og hann sé eitthvað sem höndlar sannleikann og sé full alvara.8

Heimspeki og skáldskapur í Aþenu á dögum Platóns

Látum þetta nægja sem endursögn á máli Platóns og snúum okkur að því að skoða hvað að baki býr. Það er athyglisvert hve Platón tekur skáldin alvarlega. Hann trúi því greinilega að fólki hætti til að leggja trúnað á sögur sem skáld segja og fá þannig alls kyns ranghugmyndir um hin mikilsverðustu efni. Hann finnur málverkum af iðnaðarmönnum það til foráttu að þau sýni villandi og yfirborðslega mynd af starfi þeirra og list, og hann áskar Hómer og önnur skáld fyrir að hafa ekki tekist að kenna mönnunum neitt nýtilegt. Okkur nútímamönnum kann að virðast allt þetta fullkomlega ósanngjarnt og byggt á misskilningi á eðli og tilgangi skáldskapar og lista. Það stóð aldrei til, segjum við, að læra skósmíðar af málverkum eða hernaðarlist af sagnaskáldi.

En Platón var uppi á tímum, þar sem skáldin voru sennilega tekin alvarlegar sem fræðarar, uppalendur og siðferðileg leiðarljós en nú á dögum. Meðal Grikkja á dögum Platóns þóttu það sjálfsögð sannindi að skáld væru vitur. Þetta viðhorf til skálda og verka þeirra virðist reyndar enn eiga marga formælendur, sem sést til dæmis af því hvernig okkur Íslendingum er tamt að nota Íslendingasögurnar og alls kyns kveðskap sem viskubrunn. Á dögum Platóns var þó trúlega enn nánara með skáldskapnum og viskunni, enda aðgreining skáldskapar, sagnfræði, heimspeki og fræða ekki fyrir löngu í garð gengin og hafði áreiðanlega ekki náð til alls almennings. Að minnsta kosti voru þær kröfur gerðar til skálda að þau færðu fólki í hendur einhverja bitastæða visku. Eitt af því sem fyrir Platóni vakir er að ráðast gegn þessari trú á skáldskapinn. Þetta gerir hann bæði með því að skora á menn að benda á dæmin um nýtilegan vísdóm, sem frá skáldunum sé kominn, og með því að hefja gagnsókn, þar sem hann heldur því ekki aðeins fram að skáldunum láist að vera vitur, heldur séu áhrif þeirra beinlínis háskaleg.

Inn í þetta fléttast svo tilkoma heimspekinnar og örlög Sókratesar. Platón var sjálfur heimspekingur og batt gífurlegar vonir grein sína. Hann trúði því til dæmis að heimspekin hefði lykilhlutverki að gegna í þjóðfélaginu. Hún átti meða annars að verða öguð vísindi um gott og illt, rétt og rangt, bæði hjá einstaklingum og ríki. Þannig ætlaði hann heimspekinni að vinna á sama vettvangi og skáldskapurinn. Hún átti að gera almennilega það sem skáldskapurinn gerði illa.

Nú verður varla sagt að Platóni hafi tekist það ætlunarverk sitt að setja fram vísindin um hið góða. Hann komst þó að ýmsum heimspekilegum niðurstöðum sem hafa staðist tímans tönn. Ein þeirra er sú að mikilsverður munur sé á sannfæringu og skoðun annars vegar, og þekkingu hins vegar. Munurinn liggur í því að sá sem þekkingu hefur á einhverju efni, getur fært rök fyrir máli sínu og ennfremur í því að þekking hlýtur að vera sannleikur (annars væri hún engin þekking), en við vitum öll að hægðarleikur er að vera sannfærður um eitthvað sem er ósatt, þó að maður haldi auðvitað að það sé satt ef maður er sannfærður um það. Platóni þótti einsýnt að skáldin hefðu ekki þekkingu í þessum skilningi á því sem þau töluðu um. Þetta kemur skýrt fram í Málsvörn Sókratesar þar sem Sókrates segir:

Ég varð þess brátt vísari um skáldin, að þau ortu ekki af visku, heldur af einhverri andagift og guðamóði, eins og innblásnir spámenn eða völur, er segja margt gott, en skilja það ekki sjálf. Mér þótti skáldunum vera nokkuð líkt farið. Jafnframt varð ég þess vísari, að vegna skáldskaparins hugðust þau einnig vera hinir vitrustu menn í öðrum greinum, en voru það ekki.9

Á móti þessari grein sem treystir á andagift og innblástur, sem eins og allir vita geta verið varasamir vegvísar að sannleikanum, vildi Platón tefla fram heimspekinni sem byggi yfir ígrundaðri þekkingu, þar sem allt var bundið fast með traustum rökum. Einnig má vera að hann hafi fundið til einhverrar öfundar í garð skáldanna sem fylltu leikhúsin og fundist að hin nýju vísindi nytu ekki þeirrar lýðhylli og virðingar sem þeim bæri. Sá heimspekingur sem mest var um vert var tekinn af lífi fyrir það eitt að þjóna heimspekinni af trúmennsku. Áður hafði hann verði sýndur sem ófyrirleitinn rökflækjumaður í gamanleik Aristófanesar, Skýjunum. Platóni kann að hafa fundist að heimspekin þyrfti að berjast fyrir lífi sínu, og því væri nauðsynlegt að gera upp sakirnar við skáldin.

Viskuást og siðandi endurómur síbyljunnar

Við skulum nú huga að máli Platóns um skáldskapinn frá svolítið almennara sjónarhorni og spyrja einfaldlega: Er eitthvert vit í þessu hjá honum?

Þegar hefur verið vikið að þeirri aðfinnslu Platóns, að með því að sýna okkur alls kyns ósóma og illvirki smiti skáldskapurinn okkur, þannig að hætt sé við að við sjálf förum að herma eftir söguhetjunum í hugsun og jafnvel í verki. Ekki er að sjá að þar vaki neitt dýpra fyrir Platóni en sú hversdagslega hugsun að það kunni að spilla fólki að heyra og sjá eitthvað ljótt. Þetta er spurningin um að hvort við förum að reyna að líkja eftir Agli Skallagrímssyni eða James Bond, ef við lesum sögur um þá eða sjáum þá á tjaldi. Um þetta má endalaust deila og er endalaust deilt. Ágætur íslenskur skáldsagnahöfundur sagði mér eitt sinn að hann hugsaði sig tvisvar um áður en hann léti fólk hoppa upp í rúm hvert hjá öðru í bókum sínum. Ástæðan sem hann gaf var sú að hann vildi síður ýkja um lauslæti, því lesendur kynnu að halda að svona geri fólk yfirleitt og þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að taka upp sömu hætti. Þetta og margt annað sýnir að við erum ekki vaxin upp úr hugmyndum Platóns um þetta efni. Það virðist vissulega vera eitthvert vit í því sem hann segir um þetta, en hann miklar trúlega fyrir sér ill áhrif ljótu atriðanna. En mér virðist þessi aðfinnsla ekki vera sérstaklega áhugaverð og óþarft að eyða í hana mörgum orðum.

Þá er það kenningin um að skáldskapurinn sé eftirlíking eftirlíkingar, einber sýndarveruleiki og blekking. Við fyrstu sýn gæti manni virst sem þessi kenning sýni enn að Platón vanmeti og misskilji skáldskapinn fullkomlega. Skáldin reyna ekki einfaldlega að herma eftir fólki og atburðum, heldur leitast þau við að skapa nýjan veruleika. Þessi lýsing Platóns sniðgengur sköpunarhliðina á listinni, kynni einhver að segja.

Hér hygg ég að Platón gæti svarað því til, að þvert á móti taki hann fullt tillit til sköpunarinnar; hann geri sér vel ljóst að munur sé á hinum hversdagslega veruleika og listaverkinu og að sá munur sé m.a. til vitnis um að listamennirnir leggi listaverkunum eitthvað til. Hins vegar sé það staðreynd að listaverkin hafi hinn hversdagslega veruleika sem fyrirmynd og nærist á honum. Viðbótin, sem sumir kalla sköpun með sérstakri velþóknun og gerir veruleika skáldverksins annan en hinn hversdagslega veruleika, er öll í átt til enn meiri blekkingar og óraunveruleika.

Heimspekin reynir að öðlast algilda sýn á hlutina, skoða þá frá algildu sjónarhorni eftir því sem það er hægt. Listin reynir ekkert slíkt. Henni nægir að draga upp einhverja mynd sem getur hrifið fólk. Skáldskapur er því eins konar mælskulist, viss tegund af áróðri. Þessi skoðun kemur vel fram í svofelldum kafla úr tíundu bókRíkisins:

Á sama hátt munum við þá segja, býst ég við, að skáldið lifi hverja list með nöfnum og lýsingum. Það hefur engan sjálft á öðru en því að líkja eftir, svo að þeim sem eru eins og það sjálft og dæma eftir tungutakinu sýnist það tala mjög vel, þegar það fjallar í bundnu máli með hrynjandi og samhljómi hvort heldur um skósmíðar eða herstjórnarlist eða hvaðeina annað. Þetta skáldskaparmál býr sem sagt yfir einhverjum náttúrulegum töfrum. Því ég hygg þú vitir hvernig mál skáldanna lítur út þegar búið er að afklæða það skrautklæðum braglistarinnar, og það mælt fram eitt og óstutt. Þetta hefurðu ugglaust séð.
Reyndar hef ég séð það, svaraði hann.
Verður það ekki áþekkt útlits og ásjóna drengs, sagði ég, sem skartar engu öðru en æsku sinni og glatar æskuþokkanum?
Vissulega, sagði hann.

Með öðrum orðum, skáldskapurinn er umbúðirnar einar. Sköpunin svonefnda felst í að búa til þessar umbúðir. Þegar skáldskapurinn hefur verið sviptur þeim, stendur ekki bitastætt eftir.

Að dómi Platóns er skáldskapurinn líka blekking að því leyti að hann veitir okkur svölun, en sú svölun er fölsk. Þetta kemur m.a. fram í þeim orðum sem höfð voru eftir honum hér að ofan þar sem Sókrates lýsir því í hverju skáldskaparnautnin liggi. Við höfum í einkalífinu bælt tregann og haldið aftur af tárunum, reiðinni og girndinni. Þegar við meðtökum listaverk, sleppum við takinu á þessum niðurbældu tilfinningum og fáum á vissan hátt útrás fyrir þær. Þetta leyfum við okkur vegna þess að við erum að horfa upp á annað fólk, og enn auðveldara verður það vegna þess að skáldin hafa lag á því að láta persónur sínar vera góðar og glaðlegar að mörgu leyti. Þannig er það að þegar við sjáum góðan mann beittan órétti, þá glepst jafnvel skynsemi okkar sem á að hafa taumhald á ástríðunum og gefur reiðinni lausan tauminn. Þessi svölun ástríðnanna sem skáldskapurinn veitir er ekki síst varhugaverð vegna þess að hún er svo sterk. Hún sýnist jafnvel vera göfug. Þess vegna er hætta á því að jafnvel gott og hugsandi fólk týni sér í listnautninni og finnist hún svala dýpstu og sönnustu löngunum þess. En nei! Þetta er bara plat! Listnautnin er ekkert annað en fróun lægstu hvata og kennda með góðfúslegu samþykki skynseminnar sem lætur blekkjast af brögðum skáldanna.

Nútímamönnum sem á annað borð gefa sig að listum og skáldskap hættir til að taka sem sjálfsagðan hlut, að þessi efni séu óheyrilega mikilvæg og merkileg, jafnvel hornsteinn alls andlegs lífs. Mér virðist að slíkt viðhorf kunni að vera listinni til tjóns. Ég held að árás Platóns á hana sé a.m.k. nógu snarpleg og djúp til að krefja skáldin og unnendur skáldskaparins um svör. Ég ætla núna að endingu að reifa fáeina möguleika í þeim efnum.

Í gagnrýni sinni á listina og skáldskapinn gengur Platón að því vísu, að til sé annars konar verðugri iðja, þ.e.a.s. heimspekin, og að listin standi í vegi fyrir heimspekinni, bæði vegna þess að þessar greinar fáist að nokkru við sama efni og vegna þess að listnautnin geti orðið eins og fölsk svölun þeirrar hvatar, Erosar, ástarinnar, sem beinist að því sem er göfugt og satt.10 Hvað fyrra atriðið varðar álítur Platón bersýnilega, að skáldskapurinn keppi að því að miðla til okkar sannleikanum þannig að við látum sannfærast, en gallinn sé sá að honum farist þetta illa, því bæði sé hann óvandur að meðulum sínum og það sé hendingu háð hvort hann segir yfirleitt satt.

Nú kynnu einhverjir að vilja neita því að það sé yfirleitt tilgangur skáldskapar að reyna að sannfæra fólk um eitt eða annað. List er ekki predikun, segja menn stundum. Sumir draga líka í efa að til sé einhver algildur sannleikur, og því sé heimspekileg viðleitni af því tagi sem Platón boðar dæmd til að mistakast. Þvert á móti sé einstaklingsbundin upplifun eini kosturinn sem í boði sé og sé raunar alls ekki svo slæmur kostur. Það sem máli skipti fyrir okkur mennina sé að slík upplifun sé sem auðugust og dýpst, og í því efni gegni listirnar lykilhlutverki. Þessir tveir punktar, að listin keppi ekki að því að sannfæra fólk um sannleikann og að draumurinn um algilt sjónarhorn sé tálsýn, eru skyldir og styðja vel hvor annan.

Hin platónsku viðbrögð við þessu hygg ég að séu þau, að spyrja í hverju gildi skáldskaparins liggi þá, ef skáldin geri enga kröfu um að miðla neinum sannleika. Ég sé fyrir mér þrenns konar svör við þessu: Fyrst þetta: gildi skáldskaparins felst einfaldlega í því að hann er nautn, hann er skemmtilegur og spennandi. Ágætt, segði Platón þá, þá er allt í lagi með hann, ef við bara gætum okkar á því að týna okkur ekki í honum. En ef skáldskapurinn er bara heillandi skemmtun, kynni hann að bæta við, hvað er þá svona merkilegt við hann? Af hverju er hann merkilegri en rjúpnaveiðar, til dæmis, eða tölvuleikir? Hvað kemur ykkur til að halda að hann sé þungamiðja menningarinnar?

Í öðru lagi er líklegt að fram kæmi eitthvert svar skáldskapnum til varnar sem snerist um gildi hans fyrir tilfinningalífið (eða sjálfsvitundina eða undirvitundina eða hvaða fín orð önnur menn kjósa að hafa yfir það). Skáldskapur tjáir einstaklingsbundna skynjun og upplifun og talar því fyrst og fremst til tilfinninganna, ekki til kaldrar skynsemi og rökvísi. Þetta má svo útfæra á ýmsa vegu. Ein leið væri að líta á listina sem tæki til að ræsa fram bældar tilfinningar, eins konar leysandi lyf sem notist innvortis í sálinni. Slíkt viðhorf kemur fram hjá nemanda Platóns, Aristótelesi,11 og má raunar segja að það birtist þegar hjá Platóni sjálfum, þótt ekki vilji hann telja þessa verkan skáldskaparins honum til tekna (sjá hér að ofan). Með hinni miklu útbreiðslu kenninga Freuds á okkar öld hefur þvílík hugmynd um listina orðið næsta hversdagsleg að líkindum brygðist Platón við öllum hugmyndum af þessum toga með því að ítreka það sem við höfðum eftir honum núna síðast, að öll þessi tilfinningapæling, sjálfsrýni og upphafning hins röklausa, sem nú ber mikið á, glepti okkur frá verðugri hlutum og sé á endanum bara ein mynd nautnaviðhorfsins til listarinnar sem áður var nefnt. Þegar véfréttin í Delfum sagði „Þekktu sjálfan þig!“, átti hún síst af öllu við þetta.

Í þriðja lagi, býst ég við að skáld almennt uni því ekki að athuguðu máli að skáldskapur þeirra hafi ekkert með sannleikann og miðlun hans að gera, þótt mér virðist afstaða skálda og bókmenntamanna nú á dögum oft fremur óskýr og blendin að þessu leyti. En flest skáld munu líklega fallast á svofellda rökhendu – ekki bara tilneydd vegna ágengni heimspekinga, heldur hafa þau flest hugsað eitthvað svipað sjálf: Alvarlegur skáldskapur segir eitthvað sem skiptir máli; það sem skiptir máli hlýtur að vera satt; þess vegna segir alvarlegur skáldskapur satt. Eða þá þau vitnuðu í Keats og segðu: „Fegurð er sannleikur, sannleikur er fegurð“. En líklegt er að skáldin freistuðu þess að ætla skáldskapnum einhvern annan sannleika en þann sem hversdagshugsunin, heimspekin eða vísindin keppa að.12 Ef til vill munu þeir segja, að til séu sannindi sem ekki verði tjáð svo að vel sé nema með skáldskap; skáldamálið og allur búningurinn sé ekki eintómt skraut, heldur eina leiðin til að nálgast suma hluti. Ef til vill munu þau segja að sannleikur þeirra sé ekki algildur, heldur afstæður og persónubundinn sannleikur. Eitthvað sem er satt fyrir mér en þarf ekki að vera satt fyrir öllum.

Á dögum Platóns voru raunar uppi menn sem töluðu á þessa lund. Hinn rómaði fræðari Prótagóras sagði að maðurinn sé mælikvarði allra hluta og enginn algildur sannleikur til. Platón átti ágæt svör við þvílíkum kenningum, sem ekki er tóm til að rekja hér í smáatriðum – þau eru ítarlegast útfærð í samræðu hans Þeaítetosi – en meginhugmyndin er sú að alltaf sé hægt að sýna fram á að sá sem veifar afstæðum sannleika sé sjálfum sér ósamkvæmur og gangi í rauninni að algildum sannleika vísum. Þetta virðist mér sjálfum trúlegt og eiga við um afstæðishyggju á okkar tímum líka. En þeir eru furðulega margir sem halda nú á dögum að ef einhverjum sýnist eitthvað vera svo, þá sé það svo fyrir þeim, og að það sé eini sannleikurinn sem um sé vert.13 Í raun er þvílíkum hugmyndum oftast haldið fram í gáleysi, og þeir sem það gera ganga að algildi sannleikans vísu, ef ekki í kenningum sínum beinlínis, þá alla vega í verki.

En nú er ekki alveg öll sagan sögð. Vel má vera að skáldin hafi eitthvað til síns máls, þó að það væri óhyggilegt af þeim að reyna að bera við afstæðum sannleika. Þau gætu reynt að svara Platóni fullum hálsi án þess að hætta sér út í rökræður um eðli sannleikans eða um það hvort til séu verðugri umhugsunarefni en ástir, illdeilur og volæði sálarinnar. Vera má að eitthvert skáld teldi í sig kjark og stæði á fætur og talaði til Platóns með svofelldri ræðu:

„Ekki vitum við, Platón, hvort þér ferst nokkuð að vera að hnýta í okkur. Þú talar um heimspekina og hið algilda sjónarhorn hennar sem sé hafið yfir hverfulleik og duttlunga þessarar fáfengilegu tilveru okkar. Þetta hljómar svo sem nógu vel, en gaman væri að fá að sjá þó ekki væri nema brot af þessum algildu sannindum þínum. Hvar eru þau Platón? Sérstaklega virðist okkur að þér farist illa að vera með ónot við okkur, þar sem þú grípur einatt sjálfur til skáldlegra líkinga þegar þér finnst mest liggja við. Eða ætli heimspeki þín væri ekki flestum gleymd, ef þú hefðir ekki líkt okkur við fanga sem eyddu ævinni í að telja skugga? Og aldrei var sjálf frummynd hins góða svo skýr í huga þínum að þú þyrftir ekki að grípa til líkingar við sólina til að varpa ljósi á mál þitt. Er þetta ekki nóg? Er ekki alvel óþarft að nefna hestana og vagninn í Faídrosi, heimspekina í líki ástarguðsins Erosar íSamdrykkjunni og heimssmiðinn í Tímaíosi? Hefðirðu virkilega getað sagt allt sem þér lá á hjarta án þess að gerast skáld?“

Platón kynni að hafa svarað þessari ræðu með annarri, sem hefði getað hljóðað eitthvað á þessa leið:

„Þú misskilur mig alveg, minn kæri. Á endanum snýst málið ekki um búninginn sem menn íklæða hugsun sína, heldur um það hvað þeir eru að reyna að gera og hvernig þeir hugsa það. Ef skáldin hafa að leiðarljósi einhverja hugmynd um skáldskap sem sjálfstætt svið sem lýtur alveg sínum eigin leikreglum, þá hafa þau þar með skipað leitinni að hinu raunverulega og sanna í annað sæti eða þriðja sæti, ef ekki vísað henni á bug og gert hana útlæga úr sál sinni. Þar með hafa þau líka gengist blekkingunni á hönd. Góð list getur verið eins konar ímynd eða eftirlíking hins góða. Þess vegna blekkir hún jafnvel skynugasta fólk og fær það til að hætta að reyna að bæta sig. Það má kalla hana helgispjöll. Ef þú trúir á guðina, hvað sem þeir kunna nú að vera, þá veistu að krafa þeirra er hrein og skilyrðislaus. Hún er hið mesta í heimi. Þetta er líkt og þegar íþróttamaður á Leikunum neytir allrar orku sinnar, svo að hann hættir næstum lífi sínu. Listin mildar kröfu guðanna. Hún breiðir áferðarfallega blæju yfir þessa hræðilegu hinstu kröfu, þessa endanlegu ummyndun í hið góða, þetta lokaskref sem virðist næstum ómögulegt að stíga en allt mannlegt líf snýst þó í rauninni um.“14

Tilvísanir

1. Ritgerð þessi er að stofni til erindi sem var flutt hjá Félagi áhugamanna um bókmenntir 4. mars 1989. Ég hef þegið góðar ábendingar frá þeim kollegum mínum og vinum Gunnari Harðarsyni, Vilhjálmi Árnasyni og Þorsteini Gylfasyni. Kristjáni Árnasyni vil ég þakka leiðsögn um bókmenntaleg efni frá fornu fari og rökræður um þau og heimspeki fram á þennan dag. Ég sé, eftir að þetta er skrifað, að hann á talsverða hlutdeild í þessum hugleiðingum þótt skoðanir hans sjálfs séu ef til lítt bornar fram.

2. Sjá einkum 398 A-B, 595 A, 607 D-608 B.

3. Platón gerir greinarmun á þremur höfuðmyndum skáldskaparræðu: (1) hermiskáldskapur eða túlkun (mimesis), þar sem persónurnar tala í fyrstu persónu; leikrit, bæði harmleikir og skopleikir, eru dæmi um hreinan hermiskáldskap; (2) lýsing eða frásögn (diegesis), þar sem skáldið talar í eigin nafni eins og tíðast er í lýrískum skáldskap; (3) blanda af hermiskáldskap og lýsingu, en bestu dæmin um það eru söguljóð eins og kviður Hómers (392 C-398 B).

4. Erfitt er að túlka mál Platóns um þetta svo að það verði fyllilega sjálfu sér samkvæmt: annars vegar virðist hann leyfa í 3. bók vissan hermiskáldskap, þar sem góðum mönnum eru lögð orð beint í munn af skilningi; hins vegar segir hann í 10. bók, 595 A, að allur hermiskáldskapur hafi verið gerður útlægur, og er þar bersýnilega að vísa til þess sem kemur fram í 3. bók. Vera má að í 10. bók sé orðið „hermiskáldskapur“ notað í svolítið annarri merkingu en í 3. bók. Sjá R. Cross og A.D. Woozley, Plato’s Republic: A Philosophical Commentary, St. Martin’s Press: New York 1964, s. 270-288.

5. 598 B

6. 605 C-D.

7. 606 A-B.

8. 608 A.

9. 22 B-C.

10. Þetta er höfuðatriði í stórsnjöllu riti Iris Murdoch um skoðanir Platóns á skáldskap, The Fire an the Sun: Why Plato Banished the Artists, Clarendon Press: Oxford 1977.

11. Sjá Um skáldskaparlistina 1449b. Ritið hefur birst á íslensku í þýðingu Kristjáns Árnasonar (Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík, 1976), sem einnig ritar inngang. Þar er fjallað um útrásarhugtak Aristótelesar og um fleiri efni sem hér eru á dagskrá.

12. Sjá áðurnefndan inngang Kristjáns Árnasonar að Um skáldskaparlistina, s. 26-7.

13. Afstæðishyggja af þessu tagi tekur á sig ýmsar myndir. Til dæmis má gera greinarmun á afstæðishyggju sem heldur fram að sannleikurinn (og þar með veruleikinn) sé afstæður miðað við einstaklinga og afstæðishyggju sem miðast við menningu eða svonefnda reynsluheima, t.d. kvenna, sjómanna, Selfyssinga eða vestrænna manna yfirleitt. Svo að dæmi sé tekið úr nýlegri bókmenntaumræðu á Íslandi, virðist mér Ástráður Eysteinsson fara nærri því að boða einhvers konar afstæðishyggju í „Er ekki nóg að lífið sé flókið?“, TMM 3/87 (sjá einkum s. 316-17). Afstæðishyggjan hér er að vísu milduð með því að gera ráð fyrir sjálfstæðum en óþekkjanlegum ytri og innri veruleika.

14. Þessi síðasta ræða Platóns er að talsverðu leyti byggð á máli hans hjá Iris Murdoch, Acastos: Two Platonic Dialogues, Penguin Books: Hammondsworth, Middlesex, England.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *