Um Plótínos og verk hans

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Plótínos, höfundur ritgerðar þeirrar um fegurðina sem hér birtist, var uppi á þriðju öld e. Kr. Óvíst er um uppruna hans, þótt líkur bendi til þess að hann sé fæddur í Egyptalandi. Menntun sína hlaut hann alltént í Alexandríu, einhverri mestu menningarborg þessa tíma. Um fertugt fluttist Plótínos til Rómaborgar og stofnaði þar skóla. Ritgerðir þær sem hann skildi eftir sig og ritaðar eru á grísku virðast sprottnar beint úr málstofum sem hann hélt í skóla sínum.

Plótínos eftirlét nemanda sínum, Porfýríosi, að búa ritgerðirnar til útgáfu, og byggjast allar síðari tíma útgáfur á henni. Porfýríos flokkaði ritgerðirnar eftir efni og skipti þeim í sex hluta sem innihalda níu ritgerðir hver. Hver þessara sex hluta nefnist Níund (Enneas). Þannig höfum við sex Níundir með níu ritgerðum, fimmtíu og fjórum alls. Tölspekilegar ástæður lágu að baki þessari tölu – fimmtíu og fjórir eru þrír í þriðja veldi sinnum tveir, en tveir og þrír og veldi af þeim voru helgar tölur í grískri talnaspeki. Einatt er vísað til ritgerða Plótínosar eftir Níund í stað innan Níundar. Þannig er ritgerðin sem hér birtist I. 6., það er að segja furstaNíund, sjötta ritgerð.

Porfýríos skeytti framan við útgáfu sína Ævi Plótínosar, þar sem hann segir frá lífi læriföður síns, kennslu og ritstörfum, auk þess sem hann gerir grein fyrir útgáfu sinni. Þetta verk er ekki aðeins ómetanleg heimild um Plótínos, heldur almennt um heimspekinga og menntalíf á þessum tíma. Af Ævi Plótínosar má ráða að bæði kennsla hans og rit hafi þótt óvenjuleg. Grípum niður í frásögn Porfýríosar af kennslunni:

Eitt sinn spurði ég, Porfýríos, hann út úr í þrjá daga um hvernig sambandi sálarinnar við líkamann væri háttað, og hann hélt áfram að útskýra. Maður nokkur, Þámasíos að nafni, sem hafði áhuga á almennum fyrirlestri, kom þar að. Hann kvaðst óska að heyra Plótínos flytja efni til birtingar á bók og ekki þola að hlusta á svör og spurningar Porfýríosar. Plótínos svaraði: „Ef okkur tekst ekki að greiða úr ráðgátunum sem vakna við spurningar Porfýríosar, höfum við ekki nokkurn skapaðan hlut til að setja í bókina.“1

Og Porfýríos segir ennfremur:

Þegar Plótínos var búinn að skrifa eitthvað, gat hann ekki hugsað sér að fara tvisvar yfir það. Að lesa það og yfirfara einu sinni var honum jafnvel ofviða, því sjónin gagnaðist honum ekki til lestrar. […] Hann gaf sig óskiptan að hugsuninni, og okkur öllum til undrunar, hélst hann þannig til síðasta dags. Hann gekk frá viðfangsefni sínu frá upphafi til enda í huganum og þegar hann skrifaði það síðan niður, skrifaði hann án afláts það sem hann hafði skiptað niður innra með sér eins og hann væri að rita upp úr bók.2

Síðustu aldir fornaldar var allur þorri heimspekinga hallur undir hugmyndir Platons: hann var talinn hafa höndlað hin dýpstu og mestu sannindi og var höfuðverkefni heimspekinnar að útleggja hann rétt. Þessi platonismi síðfornaldar, sem raunar sótti margt til fleiri fornra heimspekinga en Platons og var í sumum greinum sjálfum frumleg stefna, er jafnan nefndur nýplatonismi og Plótínos talinn upphafsmaður hennar. Víst má deila um hvort Plótínos hafi markað nokkurt upphaf nýrrar stefnu, en ekki er um það deilt að hann var frumlegastur og mestur hugsuður þessara fylgismanna Platons og, ef til vill ásamt Próklosi, sá áhrifamesti.

Nýplatonisminn var hin viðtekna heimspeki í Rómaveldi þegar kristni var að breiðast út og margir fylgismanna hans heiðingjar sem tóku trú sína og heiðna arfleifð mjög alvarlega. Framan af veittu þeir kristindóminum viðnám, en heiðnin varð sem kunnugt er um síðir að játa sig sigraða. Eftir á að hyggja ættu þessir heiðnu heimspekingar þó að geta unað sæmilega við sinn hlut: þótt trú þeirra og margt annað sem þeim var kært hafi verið upprætt, gegnsýrði heimspeki þeirra hugmyndaheim andstæðinganna, hinna kristnu kirkjufeðra. Flestir helstu kenningasmiðir kristinnar guðfræði mega kallast kristnir platonistar og sumir þeirra, svo sem Ágústínus, Gregoríos frá Nyssa og Bóethíus, sækja beint í smiðju Plótínosar. Margir aðrir gera það óbeint, og raunar eru þræðirnir sem tengja heiðna platonista síðfornaldar við hugmyndaheim síðari alda ótrúlega margir og margslungnir. Richard Wallis ýkir varla að neinu ráði þegar hann skrifar: „Í yfirliti yfir áhrif nýplatonismans felst hótun um að skrifa næstum alla menningarsögu Evrópu og Miðausturlanda fram á endurreisnartíma, og í sumum greinum langtum lengra.“3

Rit Plótínosar voru óþekkt á Vesturlöndum á miðöldum, eins og flest önnur grísk heimspekirit, þótt margar hugmyndir hans væru löngu rótfastar. Bót var ráðin á þessu í lok 15. aldar þegar Marsilio Ficino þýddi Níundirnar á latínu og gaf út.4Þýðing þessi var endurútgefin mörgum sinnum á 16. og 17. öld. Ekki síst fyrir tilstilli Ficino þessa varð platonismi tískustefna um hríð, fyrst á Ítalíu og síðar í Frakklandi og á Englandi. Við túlkun sína á ritum Platons höfðu Ficino og fylgismenn hans hugmyndir Plótínosar og annarra heimspekinga síðfornaldar að leiðarljósi, enda virtu þeir þessa lærisveina til jafns við meistarann sjálfan. Til dæmis var eitt áhrifamesta verk Ficinos ný „samdrykkja“, þar sem gestir halda ræður um Samdrykkju Platons.5 Ritgerð Plótínosar um fegurðina, sem hér fylgir, er sjálf eins konar ritskýring eða útlegging á höfuðhluta Samdrykkjunnar, ræðu Díotímu, og þegar Ficino tekur við að útleggja Platon, sér hann verk hans í ljósi hugmynda Plótínosar um fegurð og ást. Þessi ritgerð Plótínosar ásamt annarri ritgerð hans um sama efni, „Um hina huglægu fegurð“ (V. 8.), hefur því sett varanlegt mark á hugmyndir vestrænna manna um eðli fegurðarinnar og stað hennar í tilverunni.

Platonismi að hætti Ficinos (eða Plótínosar) leið endanlega undir lok sem meginstraumur í heimspeki á 17. öld,6 en skildi eftir sig umtalsverð spor. Innan heimspekinnar sjálfrar má til dæmis víða finna slík spor hjá Descartes, Spinoza, Leibniz og Berkeley, en greinilegust og dýpst eru þau hjá þýskum náttúruspekingum og hughyggjumönnum 18. og 19. aldar, mönnum á borð við Goethe, Schelling og Hegel.7 Áhrifin hafa ekki verið minni í bókmenntum og listum, og þar hefur ritgerð Plótínosar vegið þyngst á metunum. Ýmsir helstu meistarar ítölsku endurreisnarinnar, með Michelangelo fremstan í flokki, aðhylltust til dæmis plótínsk-platonska fagurfræði og ástarspeki.8 Á Englandi var uppi maður að nafni Thomas Taylor (1758-1835). Hann var ötull talsmaður platonisma að hætti Plótínosar. Einkum fyrir tilstilli hans hafa nýplatonskar hugmyndir, þar á meðal hugmyndir Plótínosar um fegurðina, verið vel þekktar meðal enskumælandi skálda allt fram á þessa öld, og verið ýmsum þeirra kærar.9 Hugmyndir Plótínosar um þessi efni hafa ekki síst heillað skáld og listamenn, þótt líklegt megi telja að ýmsum sem nú eru uppi þyki þær nokkuð háfleygar.

 

Tilvísanir

1. Ævi Plótínosar 13.

2. Sama rit 8.

3. R.T. Wallis, Neoplatonism (Lundúnum, 1972), s. 160.

4. Marsilius Ficinus, Plotini Opera. Latina interpretatio (Flórens, 1492).

5. Marsilio Ficino, In Convivium Platonis De Amore Commentarius.

6. Sjá E. Tigerstedt, The Decline and Fall of the Neoplatonic Interpretation of Plato (Helsinki, 1974).

7. W. Beierwaltes, Platonismus und Idealismus (Frankfurt am Main, 1978) og J.-L. Vieillard-Baron, Platon et l’idéalisme allemand (1770-1830) (París, 1978).

8. Sjá E. Panofski, Iconology: Humanistic Themes in the Art of the Renaissance (Oxford, 1938) og A. Chastel, Art et humanisme à Florence au temps de Laurent le Magnifique (París, 1961).

9. Sjá til dæmis K. Raine, Blake and Tradition (Lundúnum, 1979) og F. Wilson, W.B. Yeats and Tradition (Lundúnum, 1958).

 

« Til baka