Fjölmenning, femínismi og frjálslyndi

Um Susan Moller Okin

eftir Andreu Ósk Jónsdóttur

Inngangur

Fjölmenning, femínismi, frjálslyndi. Þessi orð eru á allra vesturlandabúa vörum nú á dögum. Barist er fyrir því að allir njóti sama frelsis; konur og karlar, samkynhneigðir, gyðingar, búddistar og indíánar. Frjálslyndið sem ríkir víðast hvar á vesturlöndum boðar frelsi þessara hópa til að lifa samkvæmt eigin vilja. En deilur hafa vaknað um samrýmanleika þessara þriggja stefna: Er hægt að vera allt í senn femínisti, frjálslyndur og fjölmenningarsinnaður án þess að vera í mótsögn við sjálfan sig? Vinna þessar stefnur allar að sama markmiði, eða mokar ein þeirra aftur ofan í holuna um leið og hinar tvær grafa hana? Í öðrum orðum: Eru femínismi, fjölmenningarhyggja og frjálslyndi samrýmanleg?

Á undanförnum árum hafa breytingar orðið í fjölmenningarstefnum margra frjálslyndra ríkja. Í staðinn fyrir að þvinga minnihlutahópa til að aðlagast samfélaginu í einu og öllu hafa þeim verið veitt, í vaxandi mæli, sérstök „hópréttindi“ sem heimila þeim að lifa samkvæmt sínum „menningarlegu hefðum.“ Í greininni „Er fjölmenningarstefna slæm fyrir konur?“1 segir Susan Okin að slík frjálslynd fjölmenningarstefna dugi ekki til að tryggja réttindi allra þegna. Þessi réttindi, segir Okin, koma sér oft illa fyrir þá sem taka ekki þátt í því að „skilgreina“ menninguna. Til dæmis taka ungar konur oft ekki þátt í því að stjórna því menningarsamfélagi sem þær búa í. Það er rangt, segir Okin, að veita hópum „hópréttindi“ sem miða að því að varðveita hefðir og menningu hópsins, nema það sé ljóst að þessi réttindi ýti ekki undir kúgun kvenna eða annarra meðlima hópsins. Frjálslynd fjölmenningarstefna og femínismi eru því, samkvæmt Okin, ósamrýmanleg að miklu leyti.

Í greininni „Frjálslynd sjálfsánægja,“2 svarar Will Kymlicka grein Okins. Hann segist vera sammála því að veita þurfi misrétti innan hópa, og sér í lagi misrétti á milli kynjanna, sérstaka athygli þegar hugað er að réttmæti hópréttinda. Hann segir: „Frjálslyndir geta samþykkt ytri verndanir sem stuðla að jafnrétti á milli hópa, en verða að hafna innri verndunum sem draga úr frelsi innan hópa.“ „Innri verndanir“ skilgreinir hann sem „…þær kröfur sem hópar gera sem fela í sér skerðingu á borgaralegum og pólitískum réttindum einstakra meðlima.“ „Ytri verndanir,“ sem Kymlicka vill leyfa, skilgreinir hann sem þau réttindi sem hópar krefjast til að draga úr varnarleysi hópsins gagnvart valdi samfélagsins.

Okin beinir sjónum sínum bæði að þeim réttindum sem fjalla um stöðu hópa innan vestrænna samfélaga og þeim sem fjalla um vald hópa yfir einstaklingunum sem þeim tilheyra. Hún vill hvorki leyfa “ytri“ né “innri“ verndanir þegar um er að ræða karllægan minnihlutahóp, þar sem slíkar verndanir geta ýtt undir varðveislu karllægrar menningar og óréttláts skipulags.

Susan Okin skilgreinir „femínisma“ sem þá skoðun: „… að ekki eigi að mismuna konum vegna kyns þeirra, að konur eigi að njóta sömu virðingar og karlmenn, og hafa jöfn tækifæri til að lifa eins fullnægjandi og frjálsu lífi og völ er á.“ Erfiðara er að skilgreina „fjölmenningarstefnu“ en Okin einblínir á þá stefnu frjálslyndra lýðræðisríkja að: „…menning eða lífsmynstur minnihlutahópa njóta ekki nægilegrar verndar með því að réttindi einstaklinga í hópnum séu tryggð og því þurfi einnig að tryggja hópnum sérstök hópréttindi eða sérréttindi.“

Í þessari ritgerð verður gengið út frá skilgreiningum Okins á femínisma og fjölmenningarstefnu. Þá munu rök Okins fyrir því að femínismi, frjálslyndi og fjölmenningarhyggja séu ósamrýmanleg vera skoðuð nánar og gerð verður grein fyrir mótrökum Kymlickas og annarra andstæðinga Okins. Að lokum verður tekin afstaða til þess hvort að stefnurnar þrjár rúmist innan sömu heildar eða hvort að um svo ósamrýmanlegar stefnur sé að ræða að við neyðumst til að velja á milli þeirra.

Þessar deilur vekja áhyggjur um að innbyrðis mótsögn felist í hugmyndafræði vestrænna ríkja í dag: Geta þau staðið við loforð sín um aukin sérréttindi minnihlutahópa um leið og þau lofa frelsi kvenna? Eitthvað virðist þó vera bogið við það að þurfa að velja á milli þessara tveggja kosta; er hægt að velja á milli frelsis kvenna og frelsis minnihlutahópa til að varðveita hefðir sínar? Til að komast að kjarna þessara deilna verður stuðst við kenningar Johns Stuarts Mills í Frelsinu og Kúgun Kvenna og því velt upp hvort hópréttindi og kvenfrelsi geti rúmast innan hugmyndafræði hans.

1. Okin: Hópréttindi eru and-femínísk

i. Hópréttindi varðveita karllægar hefðir

Máli sínu til stuðnings tekur Okin fjöldamörg dæmi af tilvikum þar sem sérstök „hópréttindi“ hafa verið veitt. Hún bendir til dæmis á að í kringum 1980 hafi franska ríkið veitt karlkyns innflytjendum leyfi til að koma með fleiri en eina eiginkonu til landsins. Þegar fjölmiðlar tóku viðtöl við konurnar í þessum fjölskyldum, segir Okin, kom í ljós að þeim fannst fjölkvæni „óumflýjanleg en varla bærileg stofnun í afrískum heimalöndum þeirra, en algjörlega óbærileg kvöð í frönsku sam­hengi.“ Okin segir þetta dæmi sýna hve gróflega hópréttindi geta gengið framhjá grund­vallaratriðum jafnréttis.

Okin tekur kröfu minnihlutahópa um rétt til sjálfstjórnar sem annað dæmi um hópréttindi þar sem karllægir hópar krefjast sérstakra réttinda sem munu stuðla að varðveiðslu menningar þeirra. Kjarni málflutnings Okins er sá að með því að varðveita hefðir sem eru karllægar, er brotið í bága við réttindi kvenna. Karlmenn innan hópanna hafa oftast meiri völd en kvenmenn og ósjaldan nota þeir þessi völd á sýnilegan eða ósýnilegan hátt til að ráða yfir hinu kyninu. „Undir slíkum kringumstæðum,“ segir Okin, „eru hópréttindi mögulega, og í mörgum tilvikum raunverulega, and-femínísk.“

Að mínu mati á gagnrýni Okins á hópréttindum ekki við um réttindi sem veitt eru til að styrkja stöðu einstaklinga innan hópa eða innan samfélagsins í heild. Til dæmis tel ég að hún myndi ekki gagnrýna svokallaðar „sértækar aðgerðir,“ þar sem slík réttindi miða að því að leiðrétta stöðu þeirra sem standa höllum fæti innan samfélagsins og gera þá að þátttakendum í ráðandi menningu. Hinsvegar er Okin á móti því að veita minnihlutahópum í heild sérstök réttindi til að varðveita menningu sína, þar sem þessir hópar eru oftast, að hennar mati, karllægari en þau vestrænu samfélög sem þeir búa í.

ii. Munurinn innan hópa og svið einkalífsins

Hvers vegna hafa frjálslyndir hópréttindasinnar ekki beint athygli sinni að þessum vandamálum? Okin bendir á tvær ástæður. Í fyrsta lagi hafa þeir einblínt á mismunandi stöðu hópa innan samfélagsins frekar en mismunandi stöðu einstaklinga innan hópa. Í öðru lagi hefur gleymst að taka svið einkalífsins inn í myndina þegar skoðaðir eru kostir og gallar hópréttinda.

Okin heldur því fram að um leið og við beinum athyglinni að muninum á stöðu einstaklinga innan hópa og að einkalífinu komi tvennt skýrt í ljós. „Í fyrsta lagi er svið einkalífs, kynlífs og barneigna oftast miðpunktur menningar og ríkjandi þáttur í menningarlegum athöfnum og reglugerðum.“ Hún bendir á að hópar leggi oft mikla áherslu á að viðhalda reglum um einkalífið, sem ná yfir svið eins og giftingar, skilnaðarrétt, erfðarrétt, yfirráð yfir börnum og eignarrétt. Þegar hópum eru veitt réttindi til að viðhalda slíkum hefðum er ljóst að þau munu hafa mest áhrif á líf kvenna, þar sem konur eru oftast virkustu aðilarnir á sviði einkalífsins.

Í öðru lagi segir Okin það koma skýrt í ljós að „eitt af meginmarkmiðum flestra menningarhópa sé yfirráð yfir konum. “ Hefðbundnar kenningar kristinnar trúar, gyðingdóms og Íslams réttlæta til dæmis kúgun kvenna með ýmsum hætti. Okin bendir einnig á að þegar menningarlegar hefðir í heimshlutum eins og Afríku, Suður Ameríku, Miðausturlöndum og Asíu eru skoðaðar, komi skýrt í ljós að markmið margra þeirra er ekkert nema kúgun kvenna. Þegnar slíkra landa eru opinskáir um það að athafnir, eins og umskurður kvenna og fjölkvæni, séu nauðsynlegar til að hafa stjórn á kvenfólkinu. Okin bendir á viðtal í dagblaðinu New York Times, þar sem umskurðarlæknir frá Afríku sagði að umskurður kvenna „hjálpi til við að tryggja meydóm stúlkna fyrir giftingu og tryggð eftir giftingu með því að smætta kynlíf niður í hjúskaparskyldu.“ Í öðru viðtali sagði franskur innflytjandi frá Malí: „Ef konan mín er veik og ég á enga aðra, hver á þá að hugsa um mig?“

iii. Femínismi og hópréttindi eru ósamrýmanleg

Það að menningarlegar hefðir snúast að miklu leyti um 1) svið einkalífsins og þar með konur og 2) að ná yfirráðum yfir konum, þýðir að hópréttindi skerða oft réttindi kvenna, samkvæmt Okin. Hún telur hinsvegar að vesturlönd, ólíkt öðrum menningarsvæðum, hafi náð að fjarlægast karllægar hefðir að miklu, en ekki öllu leyti. Á vesturlöndum eru konum tryggð sömu lagalegu réttindi og körlum og flestir foreldrar telja börnum sínum trú um að kynin séu jöfn að verðleikum. Samkvæmt Okin verða oft árekstrar á milli slíkra vestrænna þjóða og þeirra minnihlutahópa sem búa meðal þeirra og hafa ekki komist jafn langt í jafnréttisbaráttunni.

Okin segir slíka árekstra í Bandaríkjunum meðal annars lýsa sér í auknum fjölda málaferla sem beita „menningarlegri vörn.“ Slíkar varnir ganga út á það að réttlæta athöfn að einhverju leyti út frá þeirri staðreynd að hún sé menningarleg hefð. Hún tekur sem dæmi þá „asísku hefð“ að eigin­menn megi drepa eiginkonur sínar ef þær halda framhjá þeim. Þegar slíkar varnir eru notaðar reynir sá sem framdi verknaðinn að réttlæta gjörðir sínar út frá þeirri staðreynd að slíkt sé „hefð“ í því menningarsamfélagi sem hann tilheyrir. Okin segir dómstóla oft vera tilbúna til að líta á slíkar hefðir sem málsbætur og lækka vægi dóma. Hún spyr: „Þegar kona frá karllægu samfélagi kemur til Bandaríkjanna (eða til annarra vestrænna, frjálslyndra ríkja), hvers vegna ætti hún að njóta minni verndar gegn ofbeldi karla en aðrar konur?“

Okin kemst að þeirri niðurstöðu að þegar reynt sé að réttlæta hópréttindi út frá frjálslyndu sjónarhorni þurfi að gefa sérstakan gaum að innbyrðis tengslum innan hópsins. Sérstaklega þurfi að athuga stöðu kynjanna, þar sem ójafnrétti tilheyrir oft einkalífinu frekar en opinberu lífi og getur því verið ósýnilegt. Okin bendir á að til þess að tryggja að hópréttindi séu öllum meðlimum hópsins til góðs þurfi að ljá valdaminnstu meðlimum hans rödd. Sé þetta ekki gert, er hætta á því að hópréttindi brjóti í bága við femínískar og frjálslyndar hugmyndir um jafnan rétt kynjanna:

Í tilviki þar sem minnihlutahópur er karllægari en hið stærra samfélag, verða engin rök færð á grundvelli sjálfsvirðingar eða frelsis fyrir því að kvenmeðlimir minnihlutahópsins hafi hagsmuni af því að varðveita hópinn. Þvert á móti, gætisvo verið að þær yrðu mun betur settar ef menningunni sem þær fæddust inn í væri annaðhvort útrýmt (svo að meðlimir hópsins myndu verða hluti af hinni réttlátari ráðandi menningu) eða sem betur væri, ef hópurinn myndi vera hvattur til að breytast og styrkja stöðu kvenna…

Samkvæmt Okin þarf að sjálfsögðu að taka tillit til annarra þátta þegar ákvarðanir um hópréttindi eru teknar. Til dæmis þarf að taka tillit til þess hvort að hópurinn tali tungumál sem beri að varðveita eða hvort kynþáttafordómar ríki í hans garð. Hún segir hinsvegar slíka þætti þurfa að vega ansi þungt til að réttlæta varðveislu menningar sem beitir konur misrétti.

Í næstu köflum verða skoðuð viðbrögð við þeim rökum Okins gegn hópréttindum sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Sérstaklega verður kastljósinu beint að spurningum hennar um samrýman­leika femínisma og hópréttinda. Will Kymlicka er einn þekktasti talsmaður hópréttinda meðal vestrænna heimspekinga og næst verður litið á rök hans fyrir hópréttindum.

2. Kymlicka: Hópréttindi og femínismi eru samrýmanleg

i. Ytri verndanir eru leyfilegar en ekki innri verndanir

Eins og þegar hefur komið fram vill Kymlicka leyfa „ytri verndanir,“ sem stuðla að jafnrétti á milli hópa og banna “innri verndanir, “ sem fela í sér skerðingu á réttindum einstakra meðlima. Kymlicka segir þau dæmi Okins um hópréttindi sem auka kynjamisrétti innan hópa falla undir „innri verndanir,“ sem skerða frelsi einstaklinga og eru því óleyfileg út frá frjálslyndu sjónarhorni. Kymlicka er því sammála Okin um það að hópréttindi geti skert frelsi einstaklinga og að ekki eiga að veita slík réttindi, en hann vill leyfa þau hópréttindi sem skerða ekki frelsi þeirra sem tilheyra hópnum.

Kymlicka er ósammála Okin um það að femínismi og fjölmenningarstefna séu ósamrýmanlegar stefnur. Hann bendir á að báðar reyni að vekja athygli á því sem frjálslyndar hugmyndir um einstaklingsréttindi skorti. Báðar vilji þær endurskilgreina samfélagsbygginguna, staðalímyndir, fjölmiðla og menntun út frá sjónarhorni sem rúmar fleiri en ráðandi meðlimi samfélagsins.

ii. Okin svarar

Okin svarar Kymlicka, og öðrum andmælendum, í greininni „Susan Okin svarar.“3 Hún tekur undir það að femínismi og fjölmenningarstefna eigi margt sameiginlegt, en segir hinsvegar grundvallarmun vera á þessum tveimur stefnum: „Hópréttindi sem konur krefjast sem konur, gefa ekki valdameiri konum rétt til að stjórna valdaminni konum. Á hinn bóginn ýta menningarleg hópréttindi oft (á ósýnilegan hátt) undir gildandi stigskipanir.“ (Okin 1997b)

Um kenningu Kymlickas segir Okin ennfremur:

Ljóslega telur Kymlicka að menningarhópar sem mismuna konum – með því að neita þeim um menntun, kosningarétt eða rétt til að sitja í embættum – eigi ekki skilið að fá sérstök réttindi. En kynjamisrétti er oft mun ósýnilegra. Í mörgum menningum er valdi beitt gegn konum á sviði einkalífsins… Og slíkt kynjamisrétti…á oft rætur að rekja til mjög sterkra menningarlegra róta. (Okin 1997a)

Þessar tilvitnanir varpa ljósi á grundvallarmuninn á afstöðu Okins og Kymlickas: Kymlicka vill leyfa „ytri verndanir,“ sem draga úr varnarleysi hópsins gagnvart hinu stærra samfélagi, á meðan Okin segir slík réttindi oft ýta undir ójafnrétti innan hópsins á ósýnilegan hátt. Samkvæmt Okin geta bæði „innri“ og „ytri“ verndanir haft neikvæð áhrif á stöðu kvenna innan karllægra minnihlutahópa.(Okin 1997b)

iii. Er kenning Kymlickas sannfærandi?

Kymlicka er sammála Okin um að ójafnrétti innan hópa sé oft dulið og að menningarlegar hefðir ýti oft undir slíkt misrétti. Hann leggur hinsvegar áherslu á það að okkur beri að greina hvert dæmi fyrir sig og veita þau réttindi sem vernda hópinn gagnvart samfélaginu og skerða ekki frelsi meðlima hópsins. Á hinn bóginn vill Okin í flestum tilvikum ekki veita hópréttindi, þar sem þau geta stuðlað að ójafnrétti á ósýnilegan hátt, með því að styrkja óréttlátt skipulag.

Ég er sammála Okin um að erfitt getur verið að greina þau tilfelli þar sem krafan um sérstök hópréttindi til að vernda menningu hópsins er réttmæt, frá þeim tilfellum þar sem hún er óréttmæt. Þrátt fyrir að slík greining geti verið erfið held ég að hún sé eina leiðin til að takast á við hópréttindadeilur á sanngjarnan hátt. Allar kenningar sem reyna að meðhöndla hópréttindi hljóta að þurfa að vega og meta einstök tilvik og taka afstöðu til þess hvort þau séu „góð“ eða „slæm.“

Okin heldur því fram að femínismi og fjölmenningarhyggja séu í eðli sínu ósamrýmanleg, þar sem femínismi hlýtur að snúast gegn allri menningu sem stuðlar að áframhaldandi ójafnrétti kynjanna á meðan fjölmenningarstefna tekur hlutlausa afstöðu til ólíkra menningarheima. Að mínu mati ættu femínistar að snúast gegn öllum þeim athöfnum og hefðum sem skerða frelsi kvenna, en ekki gegn menningunni í heild sinni. Ég er ósammála Okin um að flestar hefðir karllægra minnihlutahópa hljóti að ýta undir ójafnrétti kynjanna. Til dæmis ríkir enn ójafnrétti á milli kynjanna í hinum vestræna heimi. Þar vinna femínistar hörðum höndum að því að leiðrétta ýmiskonar misrétti og breyta hugsunarhætti fólks og þeim hefðum sem ýta undir kynjamisrétti. Femínistar halda því hinsvegar ekki fram að allar hefðir okkar séu „slæmar“ og það þurfi að komi í veg fyrir að þær varðveitist. Flestir femínistar eru sammála um að það þurfi að vekja fólk til meðvitundar um kynjahlutverk, staðalímyndir o.s.frv. Þeir snúast gegn þeim menningarlegum einkennum sem skaða stöðu kvenna, en ekki þeim sem gera það ekki.

Fjölmenningarsinnar hljóta einnig að þurfa að taka afstöðu til þess hvort ákveðnar athafnir eða hefðir séu „góðar“ eða „slæmar,“ bæði í eigin menningu og menningu annarra. Fjölmenningar­sinnar geta ekki tekið algjörlega hlutlausa afstöðu til mismunandi menningarheima, þar sem þeir hljóta að hafa einhverjar hugmyndir um hvað er siðferðilega rétt eða rangt. Þó svo að fjölmenningarsinni sé fylgjandi því að ákveðinn menningarhópur varðveitist getur hann verið ósammála því að varðveita ætti þær hefðir sem brjóta á réttindum einstaklinga innan hópsins. Femínismi og frjálslynd fjölmenningarstefna þurfa ekki endilega að vera ósamrýmanleg, þar sem við hljótum að geta gert okkar besta til að greina þau réttindi sem kúga konur frá þeim sem gera það ekki.

Að þessu leyti hallast ég að skoðunum Kymlickas en ég er hinsvegar ósammála honum um að veita ætti sumum þegnum réttindi, en ekki öðrum. Að mínu mati er þessi lausn ekki réttlát, þar sem sama reglan ætti að gilda fyrir hvern og einn. Ef réttindi eru veitt einum hópi ætti að veita öllum öðrum samfélagsþegnum sömu réttindin, nema um sé að ræða tímabundin réttindi sem veitt eru til að leiðrétta gamalgróið misrétti. Aðgerðir eins og „kynjakvótar“ eða aðrar „sértækar aðgerðir“ eiga rétt á sér þar sem verið er að ýta undir þátttöku ákveðinna hópa á fleiri sviðum samfélagsins. Hinsvegar er ekki réttlætanlegt að veita minnihlutahópum réttindi til að fara eftir öðrum reglum en aðrir samfélagsþegnar, þar sem slíkt einangrar hópinn frá samfélaginu. Frekar ætti samfélagið að rúma þær hefðir sem fela ekki í sér skerðingu á borgaralegum og pólitískum réttindum einstakra meðlima. Þessi hugmynd felur í sér kröfu um aukin réttindi allra, á meðan hugmynd Kymlickas felur í sér aukin réttindi fyrir suma, í formi hópréttinda.

Hugmyndin um aukin réttindi allra felur í sér breytingu á samfélagsskipulaginu í heild sinni og verður hún skoðuð nánar í 6. kafla. Fyrst munum við hinsvegar beina athyglinni að öðrum andmælum sem borin hafa verið upp á móti Okin: Er hún blind fyrir göllum eigin menningar?

3. Allt er vænt sem vel er vestrænt

Bonnie Honig, Homi K. Bhabha, Joseph Raz og Bhikhu Parekh gagnrýna afstöðu Okins til hópréttinda og segja hana vera fordómafulla gagnvart annarri menningu en sinni eigin.

i. Vestrænt er ekki endilega „gott“

Í greininni „Að flækja menningu“segir Honig: „Okin gefur sér að vestræn frjálslynd samfélög séu einfaldlega „minna karllæg“ en önnur samfélög, frekar en karllæg á mismunandi hátt, jafnvel meira karllæg á sumum sviðum og minna á öðrum.“(Honig 1997)

Honig varpar fram þeirri spurningu hvort femínismi rúmist eitthvað betur innan frjálslyndra kerfa en annarra kerfa. Hún bendir á að íraskur faðir sem reynir að gifta ungar dætur sínar eldri mönnum sé varla verri en til dæmis Jerry Lee Lewis, sem giftist 13 ára frænku sinni og aðrir vestrænir karlmenn sem gera svipaða hluti. Honig vill opna augu Okins og annarra fyrir því að slíkar athafnir séu ekki aðeins bundnar við það sem vestrænir femínistar álíta „útlenskar“ menningarhefðir. Honig vill að minnihlutahópum sé hjálpað við að vinna að jafnrétti frekar en að menningu þeirra sé „útrýmt.“ Hún segir hinsvegar forsenduna fyrir því að slíkt sé mögulegt vera að allir femínistar séu tilbúnir til að gagnrýna eigin menningu. (Honig 1997)

Raz og Parekh taka í sama streng. Raz bendir á að Vesturlandabúar hafi tilhneigingu til að efast ekki um réttlæti þeirra eigin menningar þrátt fyrir það ójafnrétti sem þar ríkir á milli kynjanna. Parekh segir: „Það er vaxandi tilhneiging meðal frjálslyndra að leggja að jöfnu „frjálslyndi“ og hið góða… Við ættum ekki að leyfa hinum ríka og fjölbreytta heimi siðferðis að verða einokaður af einni pólitískri kennisetningu.“ (Parekh 1997).

Parekh bendir ennfremur á að konur líti á sig sjálfar á mismunandi hátt. Hún spyr hvort að leyfilegt sé að álykta að konur séu heilaþvegnar ef þær eru ósammála femínískum hugmyndum og að „okkur hinum“ beri að frelsa þær? Eigum við ekki að gefa þessum konum frelsi til að taka eigin ákvarðanir? Parekh bendir á að á undanförnum árum hafi „margar“ breskar háskóla­menntaðar konur snúið til Íslam, meðal annars vegna þess að þeim finnst íslamskar hugmyndir um konur samrýmast betur þeirra eigin hugmyndum. (Parekh 1997). Þó mætti taka þessa staðhæfingu Parekhs með fyrirvara þar sem hún nefnir engar tölur í þessu sambandi né útskýrir aðstæður þessara kvenna.

ii. Okin svarar

Í „Susan Okin svarar“ svarar Okin gagnrýni þeirra sem halda því fram að hún sé „blinduð“ af eigin menningu. Hún segist ekki hafa það að meginmarkmiði að „útrýma“ menningu annarra, heldur gagnrýni hún þá stefnu að veita karllægum hópum sérstök réttindi til að tryggja að menning þeirra „haldi lífi.“ Hún segir að þegar allir innan hópsins hafa full einstaklingsréttindi geti þeir sjálfir ákveðið hvort að menning þeirra eigi að „lifa“ áfram, breytast eða „deyja út.“ (Okin 1997b).

Okin heldur því fram að konur sem búa við kúgun lifi í alvarlegri blekkingu ef þær halda að þær njóti jafnrar virðingar og karlmenn. Hún segir eldri konur oft halda því fram að þær séu sáttar í sinni stöðu en að aðrar konur innan hópsins séu ekki endilega á sama máli. Þegar um karllæga menningu er að ræða þarf að skoða mjög vandlega hvort að hópréttindi séu besta leiðin til að tryggja frelsi og virðingu allra meðlima hópsins. Hún segir að það þurfi að tala við allar konur, þá sérstaklega þær ungu, til að komast að því hvernig ójafnrétti lýsir sér í menningu þeirra. (Okin 1997b).

iii. Er Okin „blinduð?“

Mér virðist gagnrýni Honigs, Raz og Parekh eiga rétt á sér að einhverju leyti. Okin gefur sér að menningarhópar eigi að taka vestræn ríki sér til fyrirmyndar, þar sem hún leggur að jöfnu „það sem er vestrænt“ og „það sem er gott.“ Að mínu mati getur hún hinsvegar ekki svarað spurning­unni „hvernig eiga minnihlutahópar að hegða sér?“ með því að segja „ekki öðruvísi en Vestur­landabúar.“ Hún fullyrðir að Vesturlönd séu komin lengra á veg í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna, en að mínu mati eru það ekki nægileg rök fyrir því að neita minnihlutahópum um réttindi til að viðhalda hefðum sínum og menningarlegum einkennum.

Eins og Parekh bendir á nær menning yfir margt annað en samskipti kynjanna. Hún nær yfir hugmyndir um „…hvernig maður á að lifa, hafa samskipti við annað fólk og umheiminn, og finna tilgang í lífinu.“ Parekh segir að hugmyndafræði frjálslyndisstefnunnar dugi ekki til að sannfæra minnihlutahópa um að breyta hefðum sínum og leggja áherslu á jafnrétti, þar sem hóparnir aðhyllast ekki þessa hugmyndafræði. Fyrst þurfi að sýna fram á að frjálslyndi sé þess virði að aðhyllast. (Parekh 1997).

Í næsta kafla verður leitast við að svara þessari áskorun og þar með finna lausn á deilum Okins og andmælenda hennar. Til þess að kljást við þetta verkefni verður sótt í kenningarbrunn Johns Stuarts Mills, þar sem upptök frjálslyndis-stefnunnar og femínismans er að mörgu leyti að finna. Í þessari umræðu er mikilvægt að forðast það að álíta eigin menningu „æðri“ en menningu annarra. Til þess að geta fundið lausn á hópréttindadeilunni verðum við að geta litið gagnrýnum augum á okkar eigið samfélag. Í dæmi Honigs um Jerry Lee Lewis og íraska föðurinn virðist mér hún líta fram hjá þessum mikilvæga punkti (kannski er hún „blinduð“ af eigin menningu?). Í dæminu var það samfélagið sem Jerry Lee Lewis var hluti af sem gagnrýndi hann. Í tilviki íraska föðurins var það líklegast ekki hans eigin samfélag sem gagnrýndi hann, heldur vestrænt samfélag. Þetta atriði lýsir vel þungamiðju umræðunnar í næsta kafla.

4. Hvað er svona frábært við frjálslyndi?

i. Hin sígilda vörn

Ef þeir sem hafa valdið (t.d. karlmenn í minnihlutahópum) eru líklegir til að þjóna sínum eigin hagsmunum án þess að íhuga hagsmuni annarra (t.d. hagsmuni kvenna), gildir þá ekki hið sama um frjálslynd samfélög?

Mikilvægt er að svara þessari spurningu þar sem réttlæting fyrir því að ekki eigi að leyfa sérstök hópréttindi innan frjálslyndra ríkja veltur að miklu leyti á réttlætingu fyrir frjálslyndinu sjálfu: Hvers vegna er frjálslyndi þess virði að aðhyllast?

Hina sígildu vörn fyrir frjálslyndi er að finna í Frelsinu eftir Mill. Þar segir Mill í stuttu máli:

„Því aðeins er öllu mannkyni, einum manni eða fleirum, heimilt að skerða athafnafrelsi einstak­lings, að um sjálfsvörn sé að ræða.“ (Frelsisreglan) (Mill 2000: 45). Mannlegt frelsi krefst skoðana­frelsis, málfrelsis og prentfrelsis. Mannlegt frelsi krefst einnig lýðræðis, þar sem: „Það að eiga kost á að gefa þeim mönnum atkvæði sitt sem eiga að stjórna mönnum, er vegur til þess að vernda sjálfan sig og á hver maður skyldu á slíku…“ (Mill 2000: 49, 171) Frelsi er forsenda þess að einstaklingseðlið fái að njóta sín og fólk þroskist og rækti hæfileika sína. (Mill 2000: 45)

Út frá þessari skilgreiningu á frjálslyndi getum við reynt að svara þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram. Í frjálslyndum ríkjum er erfitt fyrir yfirvaldið að kúga samfélagsþegna, þar sem þegnarnir eru í vissum skilningi yfirvaldið. Allir þegnar hafa jöfn tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri þar sem kosningaréttur og tjáningarfrelsi eru til staðar. Frjálslyndi leggur áherslu á það að allir hafi full réttindi og jafn mikið frelsi. Það er einmitt þess vegna sem frjálslyndi er þess virði að aðhyllast. Eins og Mill bendir á í Kúgun Kvenna:

Þar sem minnst er frelsið þar mun valdfíknin vera ofsalegust og samviskulausust. Löngunin til valda yfir öðrum getur fyrst hætt að hafa spillandi áhrif á mannkynið í för með sér þegar… virðingin fyrir því frelsi sem sérhver hefur í eigin málefnum er orðin að fastri og algildri frumreglu. (Mill 1997: 266)

ii. Hverju bætir frelsisreglan við hópréttindaumræðuna?

Hvaða þýðingu hefur frjálslyndi Mills fyrir hópréttindaumræðuna? Þar sem fullkomlega frjálslynt ríki veitir öllum einstaklingum frelsi til að gera nánast allt nema það sem skerðir frelsi annarra er engin þörf á hópréttindum undir slíkum kringumstæðum.

Svipuð hugmynd kemur fram hjá Yael Tamir í greininni „Hverjum treystir þú?“ Hann segir hópréttindasinna eins og Kymlicka líta framhjá þeirri staðreynd að ef minnihlutahópar vilja ekki verða frjálslyndir og lýðræðissinnaðir, þá muni réttur til sjálfsstjórnar og verndun trúarbragða og menningar aðeins verða til þess að skerða frelsi einstaklinga til að gagnrýna gildandi hefðir og skipulag. Tamir segir að hópréttindi séu „…annaðhvort hættuleg eða gagnslaus.“ Þau eru hættuleg ef þau skerða frelsi einstaklinga, og gagnslaus ef þau gilda aðeins um hópa sem koma fram við alla meðlimi sína sem jafningja– þar sem nánast enginn hópur sem krefst sérstakra réttinda uppfyllir þessi skilyrði. Ef jafnrétti ríkir innan hópsins er engin þörf á sérstökum réttindum en ef ójafnrétti ríkir innan hópsins geta sérstök réttindi skaðað einstaklinga innan hópsins. (Tamir 1997).

Ég er sammála þessari greiningu Tamirs, en finnst hún aðeins eiga við í ríki þar sem fjölmenningarstefna mótast af frelsisreglunni. Ef samfélagið fylgir ekki frelsisreglunni gæti verið að hópum sé bannað að gera ákveðna hluti af þeirri ástæðu einni að slík hegðun samrýmist ekki vestrænum hefðum. Ef frelsisreglan gildir ætti samfélagið hinsvegar að vera umburðarlynt gagnvart framandi hefðum sem skerða ekki frelsi annarra og ættu því hópréttindi að vera óþörf.Fyrir vestræn ríki í dag myndi réttmæt krafa um hópréttindi þýða að löggjöfinni sé ábótavant og ætti því að losa um slíkar hömlur á frelsi í nafni frelsisreglunnar.

Ef frelsisreglan er í gildi og hópur innan samfélagsins vill réttindi sem skerða frelsi einhverra innan hópsins ætti, samkvæmt frelsisreglunni, ekki að veita þau. Ef hópur vill réttindi sem skerða ekki frelsi neins ætti frelsisreglan að duga og því er engin þörf á slíkum réttindum. Ef hópur vill til að mynda réttindi til að ganga með túrban, ætti frelsisreglan að duga til að leyfa það. Ef hópur vill réttindi til að umskera stúlkubörn ætti, samkvæmt frelsisreglunni, ekki að leyfa það, þar sem börnin hafa ekki frjálst val um aðgerðina og áhrif hennar eru varanleg. Af sömu ástæðu myndi einnig vera óleyfilegt að umskera drengi og jafnvel að láta setja eyrnalokka í börn. Í dag er einmitt umræða í gangi í Danmörku um það að banna ætti allar óþarfar aðgerðir á börnum.

iii. Eru frelsisreglusinnar „blindir“?

Hvað gerir skoðanir þeirra sem fylgja frelsisreglunni öðruvísi en skoðanir Okins? Eru þeir ekki aðeins „blindir“ á galla eigin kerfis? Með því að láta sömu reglu gilda fyrir alla komum við í veg fyrir það að vera „hrokafull“ eða „blind“ fyrir hönd eigin menningar. Þá er „hegðun vesturlandabúa“ ekki lengur það sem minnihlutahópar eiga að miða við, heldur eiga allir að miða við frelsis­regluna.

Mill segir að það megi ekki ætla að: „þær ómannúðlegu fyrirskipanir í mannfélaginu sem lengi hafa verið hafðar í hávegum, séu mannúðlegri en þær sem áður hefur verið rýmt burt.“ (Mill 1997: 246). Hann segir ennfremur að “harðstjórn vanans,“ sé „höfuðhindrun mannlegra framfara,“ og að við eigum ekki að láta stjórnast af þessum harðstjóra, heldur eigum við að fylgja okkar eigin hjarta og sannfæringu. (Mill 2000: 132) Þetta gildir jafnt um vestrænar þjóðir sem aðrar. Vestrænar hefðir eru ekki endilega betri en hefðir annarra þjóða og við eigum ekki að fylgja þessum hefðum hugsunarlaust vegna „vanans.“ Við eigum að nota frelsisregluna til að gagnrýna allar samfélagsskipanir og komast að því hvernig best er að tryggja einstaklingsfrelsi allra. Þannig getum við reynt að koma í veg fyrir að hluti samfélagsins sé kúgaður.

Í næsta kafla munum við skoða frelsisregluna nánar og meta hvort hún getur hjálpað okkur að greiða úr nokkrum deilum um hópréttindi.

5. Að beita frelsisreglunni

i. Umskurður fullorðinna kvenna

Parekh gagnrýnir þá aðferð Okins að einblína á öfgakennd dæmi. Hún segir að með því að einblína á athöfn eins og umskurð stúlkubarna, sem allir geta verið sammála um að sé röng, sjáist henni yfir aðrar hliðar málsins. Parekh bendir til að mynda á að í sumum löndum gangi „fullorðnar og geðheilar konur (þar með taldar menntakonur)“ undir umskurð eftir fæðingu síðasta barns, til að minna sjálfa sig á að hlutverk þeirra sé fyrst og fremst að vera móðir frekar en eiginkona (Parekh 1997).

Parekh vitnar hvorki í neinar heimildir í þessu samhengi né rökstyður þessa staðhæfingu nánar. Að mínu mati er ekki mjög sannfærandi að halda því fram að þessar konur gangi undir umskurð af raunverulegum frjálsum vilja, þar sem menningarlegur þrýstingur og gamalgróin kúgun þvinga oft einstaklinga til að fylgja slíkum hefðum. Ef við göngum hinsvegar út frá því að þær konur sem gangast undir aðgerðina séu sannfærðar um að þær vilji láta umskera sig, óháð því hvernig þær fengu þessa sannfæringu, getum við skoðað hvernig Okin og frelsisreglusinnar myndu bregðast við slíkri kröfu um umskurð.

Okin vill svara þessum konum á sama hátt og við myndum svara manni sem vill fjarlæga getnaðarlim sinn til að minna sig á hlutverk sitt sem föður: „Áður en þú ferð til skurðlæknis, talaðu við geðlækni eða hjónabandsráðgjafa.“ (Okin 1997b).

Samkvæmt frelsisreglunni er ekki hægt að banna fullorðnum konum eða körlum að gera það sem þau vilja, svo lengi sem þau skerða ekki frelsi annarra. Hinsvegar er leyfilegt, samkvæmt Mill, að ráðleggja fólki og fræða það um slíka hluti. (Tullock 1989: 160, 170-72). Hægt er að deila um hvort umskurður sé leið karlmanna innan hópsins til að skerða frelsi kvenna, en ég held að Mill myndi segja að svo lengi sem konan velur þessa aðgerð sé ekki leyfilegt að banna henni að ganga undir hana. Að mínu mati þyrfti að athuga vel hvert dæmi fyrir sig, fræða konuna um aðgerðina og reyna að tryggja að hún gangi undir hana af fúsum og frjálsum vilja en ekki vegna þess að hún er neydd til þess. Þetta getur verið erfitt að meta, eins og minnst hefur verið á, þar sem vilji er oft mótaður af menningarlegum þrýstingi. Mín skoðun er hinsvegar sú að betra sé að fara leið fræðslunnar, þar sem bann getur haft þau áhrif að konur fái ekki upplýsingar og ráðgjöf um aðgerðina og neyðist til að leggjast undir skítugan skurðhníf „skottulækna.“ Eins og Mill bendir á er best að reyna að hafa áhrif á viðhorf fólks með virkri umræðu, frekar en að sópa óþægilegum málefnum undir teppið.

Við getum notað tjáningafrelsi okkar til að reyna að breyta skoðunum fólks og þar með venjunni, en við getum ekki bannað fullorðnu fólki að velja að gera það sem þeim sýnist ef athöfnin skerðir ekki frelsi annarra. Með fræðslu er hægt að reyna að auka vitund kvenna um sjálfar sig og sjálfstæði sitt, þannig að þær geti orðið virkari þátttakendur í eigin menningu og haft áhrif á það hvernig hugmyndir um konur og stöðu þeirra innan hópsins þróast.

ii. Fjölkvæni í báðar áttir

Parekh tekur fjölkvæni sem annað dæmi um hópréttindakröfu sem getur verið flóknari en hún virðist í fyrstu. Hún viðurkennir að fjölkvæni megi álíta rangt ef það gildir aðeins í eina átt, en spyr hvort það sé enn rangt ef bæði konum og körlum sé heimilað að giftast fleiri en einum maka.

Mill tekur fjölkvæni Mormóna sem dæmi í Frelsinu. Þrátt fyrir að Mill telji að fjölkvæni kúgi konur, segir hann að ekki sé hægt að banna konum að ganga í slíkt samband, svo lengi sem þær gera það af fúsum og frjálsum vilja og þær geti gengið út úr sambandinu hvenær sem er. (Mill 2000: 165-66). Mill myndi hinsvegar benda á það að hægt væri að fræða Mormónakonur um þá valkosti sem í boði eru og veita þeim ráðgjöf. Ekki ætti að veita sérstökum hópum réttindi til að stunda fjölkvæni, heldur ætti sama reglan að gilda um alla – það er í lagi að búa við fjölkvæni svo lengi sem allir aðilar velja það. Þetta þýðir að bæði konur og karlar ættu að vera frjáls til að stunda fjölkvæni.

Óljóst er hvert svar Okins myndi vera við tillögu Parekhs. Ljóst er að henni finnst óréttlætanlegt að veita hópréttindi sem leyfa aðeins karlmönnum að stunda fjölkvæni, þar sem slík réttindi kúga konur. En eins og Parekh bendir á verður dæmið talsvert flóknara þegar við spyrjum: Hvað ef bæði konum og körlum væri heimilt að eiga fleiri en einn maka? Okin gæti svarað þessu með því að benda á það að lagabreyting sem tryggir rétt karla og kvenna til að eiga fleiri en einn maka myndi líklega ekki hafa áhrif á fjölskyldumynstur og hefðir hópanna sem um ræðir. Í mörgum þjóðfélögum er hefð fyrir því að karlar eigi fleiri en eina eiginkonu og þó svo að konum í þessum þjóðfélögum yrðu veitt sömu réttindi er spurning hvort karlmennirnir myndu sætta sig við slík sambönd, þar sem engin hefð er fyrir þeim. Spurning Parekhs kemur því í raun máli Okins lítið við.

iii. Hvernig tekst frelsisreglunni að leysa hópréttindadeilur?

Að mínu mati eru svör frelsisreglunnar við þessum tveimur deilum ásættanlegri en svör Okins. Frelsisreglan gerir ekki ráð fyrir því að „vestrænar“ hefðir séu betri en aðrar hefðir og leyfir fullorðnu fólki einfaldlega að velja að gera það sem það vill, svo lengi sem það skerða ekki frelsi annarra. Eins og minnst hefur verið á getur verið erfitt að meta hvenær um frelsisskerðingu sé að ræða, en að mínu mati er kenning sem greinir réttmæti krafa um hópréttindi með hliðsjón af frelsisreglunni ásættanlegri en kenning Okins, sem greinir réttmæti slíkra krafa með hliðsjón af ágæti eigin menningar.

Í næsta kafla mun vera reynt að gera grein fyrir því hvernig frjálslynd samfélög nútímans geta stefnt að því markmiði að fylgja frelsisreglunni á borði jafnt og í orði.

6. Rúmast femínismi og fjölmenningarhyggja innan frjálslyndis Mills?

Í síðustu köflum hafa rök verið færð fyrir því að besta leiðin til að leysa úr deilum um hópréttindi sé að beita frelsisreglunni. Í þessum kafla verður samrýmanleiki frjálslyndis og femínisma skoðaður í ljósi þess sem komið hefur fram hér á undan. Einnig verður leitast við að finna leiðir til að gera hugsjónina um ríki sem raunverulega tileinkar sér frelsisregluna að veruleika.

i. Eru frjálslyndi, femínismi og fjölmenningarhyggja samrýmanleg?

Frelsisreglusinnar eru ekki á móti því að menningarhópar haldi í þær hefðir sem skerða ekki frelsi meðlima þeirra eða frelsi annarra. Þvert á móti hvetja þeir til fjölbreytileika í lifnaðarháttum og skoðunum, og leggja áherslu á það að við getum lært ýmislegt af mismunandi viðhorfum og hefðum. Mill segir í Frelsinu:

Á sama hátt og skiptar skoðanir eru nytsamlegar ófullkomnu mannkyni, er einnig gagn að ólíkum lifnaðarháttum og ólíkum manngerðum, sem haga lífi sínu eftir vild, svo fremi sem það er ekki öðrum til tjóns. (Mill 2000: 112).

Frelsisreglusinnar telja hinsvegar að ekki sé þörf á sérstökum hópréttindum í frjálslyndum samfélögum til að viðhalda skaðlausum hefðum, þar sem frelsisreglan ætti að ná yfir slík réttindi. Einstaklingar eiga þó ekki að fylgja hefðum hugsunarlaust, heldur vera frjálsir til að gagnrýna hefðir og fylgja eigin sannfæringu.

Frelsisreglan samrýmist því að þessu leyti ekki fjölmenningarhyggju sem stefnir að því að veita hópum sérstök réttindi. En hvernig samrýmist hún femínisma? Með því að leggja áherslu á einstaklingsréttindi er komið í veg fyrir að ákveðnir meðlimir séu settir undir vald annarra. Samkvæmt Mill er frelsisreglan grundvöllur baráttu hans fyrir jafnrétti kynjanna. Hann segir að frelsi sé „fyrsta og sterkasta krafa manneðlisins“og segir mikinn hagnað vera af jafnrétti kynjanna. (Mill 1997: 261).

Frjálslyndi Mills er samrýmanlegt femínisma, þar sem það gerir ekki upp á milli kynjanna og leggur áherslu á jafnan rétt allra. Frjálslyndi Mills er einnig samrýmanlegt þeirri stefnu að auka fjölbreytileika í samfélögum, þar sem það gerir ekki upp á milli menningarheima. En er frelsisreglunni framfylgt í frjálslyndum ríkjum í dag? Ef ekki, hverju þarf að breyta?

ii. Hvað á að gera?

Staðreyndin er sú að frjálslynd samfélög í dag fylgja ekki frelsisreglunni í ýmsum málum, eins og hópréttindadeilum. Ekki má gleyma því að í raunveruleikanum er þörf á því að ríkið skipti sér af ákveðnum sviðum samfélagsins. Samkvæmt Mill ætti ríkið til dæmis að vernda fjölskyldumeðlimi gegn misbeitingu valds innan heimilisins og skylda börn til að ganga í skóla. Að mati Mills er einnig réttlætanlegt að fræða fólk um þá valkosti sem eru til staðar og vernda hagsmuni heildarinnar. (Tullock 1989: 160, 170-72). Ég er sammála því að ríkið megi, og eigi, að skipta sér af í slíkum málum og finnst mér þetta ekki breyta því hvernig frelsisreglunni er beitt til að leysa úr vandamálum um hópréttindi.

Óraunhæft er að ætla að samfélög fylgi frelsisreglunni í einu og öllu, en ljóst er að breyta þarf uppbyggingu samfélaga þannig að þau rúmi mismunandi lífsviðhorf, frekar en að grípa til skammtímalausna eins og hópréttinda. Það hlýtur að vera skammtímalausn að byggja samfélagið þannig upp að mismunandi lög og reglur gildi fyrir hvern mann. Með því að tileinka sér frelsisregluna í deilum um réttindi minnihlutahópa geta samfélög stefnt að því að láta sömu reglur gilda fyrir alla. Samfélögin verða þannig „sjálfbær“ – geta rúmað sjálfkrafa mismunandi hefðir og framandi menningu.

Að tileinka sér frelsisregluna er mikilvægur þáttur í því að samfélag verði „sjálfbært.“ Hinsvegar er annar vandi sem kemur í veg fyrir að frjálslynd ríki geti talist taka jafnt tillit til kynjanna og mismunandi menningarhópa innan veggja þess; sá vandi er að valdhafar í samfélögum eru oftast einsleitur hópur. Frjálslyndar hugsjónir um jafnan rétt allra geta ekki orðið að veruleika fyrr en fulltrúar allra hópa innan samfélagsins taka þátt í samfélaginu, til dæmis með því að kjósa og skiptast á skoðunum. Þess vegna er mikilvægt að konur og karlar, indíánar, mormónar, gyðingar, innflytjendur, fatlaðir og aðrir hópar taki þátt í því að byggja upp samfélagið og stjórna því. Í staðinn fyrir að veita hópréttindi ætti því að tryggja að allir meðlimir samfélagsins taki þátt í samfélaginu

Til dæmis gætu vesturlönd veitt innflytjendum með atvinnuleyfi og mökum þeirra kosningarrétt og hvatt minnihlutahópa til að taka þátt í stjórnmálaumræðunni. Einnig er hægt að grípa til ráða eins og „sértækra aðgerða“ til að leiðrétta þessa ójöfnu stöðu. Margar hugsanlegar leiðir eru til að tryggja þátttöku allra þegna samfélagsins, en ljóst er að þetta er brýnasta verkefnið sem Vesturlönd standa frammi fyrir ef þau vilja standa við loforð sín um frelsi einstaklingsins.

iii. Yfirlit: Okin og andmælendur hennar

Að lokum munum við snúa aftur að kenningu Susans Okins um hópréttindi og gagnrýni andmælenda hennar. Reynt verður að draga fram á einfaldan hátt muninn á kenningum Okins, Kymlickas og hugmyndum Mills um frelsi einstaklingsins. Kenning Okins hefur mætt tvennskonar gagnrýni í þessari ritgerð:

– Okin er „blind“ gagnvart göllum eigin menningar

Okin hefur sætt gagnrýni fyrir að vera „blind“ gagnvart göllum eigin menningar og fordómafull gagnvart menningu annarra. Gagnrýnendur hennar hafa bent á að í frjálslyndum ríkjum ríkir ójafnrétti á milli kynjanna og því sé frjálslyndi ekki endilega besta kerfið til að rúma femínisma. Okin svarar þessu með því að benda á þá staðreynd að frjálslynd ríki eru komin lengst á vegi jafnréttis, og að það sé næg ástæða til að halda því fram að frjálslyndi sé best kerfið til að rúma femínisma.

Frelsisreglusinnar taka rök Okins skrefinu lengra og útskýra hvers vegna frjálslynd ríki eru komin lengst á vegi jafnréttis. Þeir halda því fram að femínismi og fjölbreytileiki rúmist best innan frjálslyndra kerfa þar sem þau leggja áherslu á einstaklingsfrelsi og koma þannig í veg fyrir að ákveðnir meðlimir séu settir undir vald annarra. Frelsisreglusinnar eru sammála því að frjálslynd ríki séu oft „blind“ gagnvart göllum eigin menningar og halda því fram að til að lækna slíka blindu þurfi að tryggja að frelsisreglunni sé framfylgt á sama hátt fyrir alla hópa.

– Í sumum tilvikum er réttlætanlegt að veita hópréttindi

Í öðru lagi hefur Okin þurft að svara þeirra gagnrýni Kymlickas að veita eigi minnihlutahópum hópréttindi í sumum tilvikum. Hann heldur því fram að: „Frjálslyndir geta samþykkt ytri verndanir sem stuðla að jafnrétti á milli hópa, en verða að hafna innri verndunum sem draga úr frelsi innan hópa.“ Okin svarar þessu með því að benda á að hópréttindi renna oft stoðum undir óréttlátar stigskipanir á ósýnilegan hátt og því séu hópréttindi sjáldnast réttlætanleg. Hún segir að fylgismönnum fjölmenningarstefnunar hefur ekki enn tekist að setja fram kenningu sem „með­höndlar á árangursríkan hátt konur og karla sem siðferðilega jafningja.“ (Okin 1997b)

Frelsisreglusinnar fara milliveginn á milli kenningu Kymlickas og Okins. Þeir eru sammála Kymlicka að hópar eigi að fá að gera það sem skerðir ekki frelsi annara. Þeir eru hinsvegar ósammála Kymlicka að því leyti að þeir vilja ekki leyfa hópréttindi, þar sem hópréttindi ná aðeins til hluta samfélagsins, en ekki allra meðlima þess. Frelsisreglusinnar leggja því áherslu á að það þurfi að breyta samfélagsbyggingunni til að rúma mismunandi lífsviðhorf, frekar en að veita hópréttindi eða banna þau. Nútímasamfélög eiga að tileinka sér frelsisregluna, þar sem hún dugar til að veita öll þau réttindi sem skerða ekki frelsi annarra.

Tilvísanir

1. Okin, S. (1997)a: „Is Multiculturalism Bad for Women?“ Tilvitnanir í Okin í fyrri hluta ritgerðarinnar eru allar úr þessari grein og því verður ekki vitnað í hana.

2. Kymlicka, W. (1997): „Liberal Complacencies.“ Tilvtinanir í Kymlicka eru allar úr þessari grein og því verður ekki vitnað í hana.

3. Okin, S. (1997)b: „Susan Okin Responds.“ Í seinni hluta ritgerðarinnar veður vitnað í þessa grein sem (Okin 1997b) og greinina „Is Multiculturalism Bad for Women?“ sem (Okin 1997a)

Heimildaskrá

Honig, B. (1997). „Complicating Culture.“ Birtist í Boston Review, vol. 22. Vitnað í heimasíðu Boston Review: http://bostonreview.net/BR22.5/honig.nclk, 26. apríl 2003.

Kymlicka, W. (1997).„Liberal Complacencies.“ Birtist í Boston Review, vol. 22. Vitnað í heimasíðu Boston Review: http://bostonreview.net/BR22.5/kymlicka.nclk, 26. apríl 2003.

Mill, J.S. (1997). Kúgun Kvenna. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Mill, J.S. (2000). Frelsið. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Okin, S. (1997)a. „Is Multiculturalism Bad for Women?“ Birtist í Boston Review, vol. 22. Vitnað í heimasíðu Boston Review: http://bostonreview.net/BR22.5/okin.nclk, 26. apríl 2003.

Okin, S. (1997)b. „Susan Okin Responds.“ Birtist í Boston Review, vol. 22. Vitnað í heimasíðu Boston Review: http://bostonreview.net/BR22.5/okin2.nclk, 26. apríl 2003.

Parekh, B. (1997). „A Varied Moral World.“ Birtist í Boston Review, vol. 22. Vitnað í heimasíðu Boston Review: http://bostonreview.net/BR22.5/parekh.nclk, 26. apríl 2003.

Raz, J. (1997). „Reform or Destroy?“ Birtist í Boston Review, vol. 22. Vitnað í heimasíðu Boston Review: http://bostonreview.net/BR22.5/raz.nclk, 26. apríl 2003.

Tamir, Y. (1997). „Who Do You Trust?“ Birtist í Boston Review, vol. 22. Vitnað í heimasíðu Boston Review: http://bostonreview.net/BR22.5/tamir.nclk, 26. apríl 2003.

Tulloch, G. (1989). Mill and Sexual Equality. Harvester Wheatsheaf, Hertfordshire.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *