Uggur og ótti og Endurtekningin eftir Søren Kierkegaard

Ritdómur

eftir Hauk Má Helgason

Søren Kierkegaard:
Uggur og ótti – þrætubókarljóð eftir Johannes de Silentio

HÍB 2000; Þýð. Jóhanna Þráinsdóttir. 278 bls.

Endurtekningin – sálfræðileg tilraun eftir Constantin Constantius

HÍB 2000; Þýð. Þorsteinn Gylfason. 218 bls.

Uggur og ótti er einkennileg bók. Hún er skrifuð árið 1843 af Søren Kierkegaard en kemur út undir skálduðu höfundarnafni, líkt og mörg önnur rit Kierkegaards: „Uggur og ótti – þrætubókarljóð eftir Johannes de silentio“.

Þagnar-Jón þessi vill svara tilraunum samtímamanna sinna til að koma kristinni trú, ásamt heiminum öllum, fyrir í lokuðu skynsamlegu kerfi. En trú heyrir ekki hugsuninni til, heldur manninum öllum, segir Jón – líkt og ástin:

Ástin á sér þó sína presta í skáldunum og stundum heyrir maður raust sem kann að meta hana, en enginn segir orð um trúna. Hver talar til heiðurs þeirri ástríðu?

Í bókinni notar hann söguna af fórn Abrahams til að sýna hversu fjarstæðukennd trúin hljóti að vera, handan skilnings hins vantrúaða, handan skilnings heimspekingsins. Hann ber söguna af Abraham saman við klassíska harmleiki. Harmleikjahetjan, segir hann, er skiljanleg í ljósi hins almenna. Hún er hetja því hún hlítir almennu siðalögmáli, þvert á eigin hagsmuni. En Abraham er ekki hetja af þessum toga, samkvæmt siðferðinu er hann morðingi – hann fer á Móríafjall þess albúinn að myrða son sinn. Þagnar-Jón sjálfur segist ekki skilja Abraham, aðeins undrast.

Ég afber prýðilega að lifa á minn hátt, ég er glaður og ánægður, en gleði mín er ekki gleði trúarinnar og í samanburði við hana er hún hamingjusnauð.

Ó? En þetta er einkennilegt: Ef höfundurinn er ekki trúaður, hvað hefur hann þá að segja mér um eðli trúarinnar? Í eftirmála segir Þagnar-Jón:

Hvað svo sem ein kynslóð lærir af annarri, lærir engin kynslóð hið sanna mannlega af þeirri sem á undan er gengin. … Þannig hefur engin kynslóð lært að elska af annarri. … En æðsta ástríða mannsins er trúin og þar byrjar engin kynslóð á öðrum reit en sú fyrri gerði, hver kynslóð byrjar upp á nýtt.

Og þetta er líka skrýtið. – Ef reynsla fyrri kynslóða færir mig ekki feti framar á sviði hins sanna mannlega, er þá ómaksins vert að lesa 160 ára gamalt trúarrit? Er ómaksins vert fyrir Þagnar-Jón að lesa Biblíuna? – Ekki las Abraham Biblíuna. Hefur popptexti hjálpað manneskju að elska?

Höfundur bókarinnar, sem er ekki til, segist ekki geta skilið umfjöllunarefni sitt enda taki því hvort eð er ekki að tala um það. Eftir sit ég og er kannski einhverju nær.

Venjulegum ritdómara verður bókin ef til vill kærkomið tilefni til að skýra það ítarlega, að hún er hvorki gamanleikur, harmleikur, skáldsaga, söguljóð, spakmælasafn né smásaga – […] Þráðinn á hann erfitt með að skilja, þar sem hann er allur umsnúinn.

Endurtekningin heitir rit sem Søren Kierkegaard skrifar undir nafninu Constantin Constantius árið 1843, þrítugur að aldri. Bókin fjallar um ungan mann sem heldur sig ástfanginn af stúlku, og eldri félaga hans sem þykist vita betur:

Nú skildi ég allt betur. Unga stúlkan var ekki ástmey hans. Hún var tilefnið, sem vakti skáldeðlið í honum og gerði hann að skáldi, […]einmitt með því hafði hún kveðið upp dauðadóminn yfir sjálfri sér.

Þegar piltinum verður þetta ljóst og vill losna úr viðjum skáldástar sinnar – og leysa stúlkuna – gefur sá eldri honum ráð, til að stúlkan sleppi heil:

Þér látið spyrjast að þér eigið í nýju ástarævintýri, og því heldur lausu við skáldlegan ævintýrabrag, annað espaði hana aðeins. … Af einhverjum rökum verður orðrómurinn að rísa; ég skal sjá um það. Ég finn stúlku hér í bænum og geri við hana samning.

Ástarsagan ómögulega fléttast saman við rannsóknarferðalag vinarins eldri, til Berlínar. Hann fór þangað ungur maður og snýr nú aftur til að athuga hvort hann geti átt þar sömu stundir á ný. – Ekki munað þær, heldur lifað eins, aftur. Hann vill rannsaka hvort endurtekning sé möguleg í lífi manns:

Sá, sem aðeins vill vona, er huglaus; sá sem aðeins vill minnast, er makráður; en sá, sem vill endurtekninguna, er manneskja. … Hefði sjálfur Guð ekki viljað endurtekninguna, hefði heimurinn aldrei orðið til. Hann hefði þá annaðhvort haldið auðfarnar slóðir vonarinnar eða afturkallað allt og varðveitt það í endurminningunni.

Unga manninum er einnig í mun að endurheimta sitt fyrra líf. Þannig rannsaka þeir báðir, unglingurinn og gamli maðurinn, og leggja sjálfa sig að veði, hvort endurtekningin sé möguleg. Þeir komast hvor að sinni niðurstöðunni. Höfundurinn sjálfur, Constantin Constantius, segir hins vegar aldrei sitt álit – hvað þá að höfundur höfundarins, Søren Kierkegaard, láti orð um endurtekninguna falla undir eigin nafni. Þó er hér líf Sørens sjálfs til umfjöllunar. – Hann hafði sjálfur nýsagt skilið við heitmey sína, fyrirvaralaust og sæmdarlaust, og var staddur í Berlín öðru sinni, þegar hann ritar bókina. Hvers vegna flytur Kierkegaard þá ekki einfaldlega mál sitt, segir sögu sína og skrifar sjálfsævisögulega ritgerð? Sjálfur segir Kierkegaard í dagbókum:

Það gleður mig að dulnefnishöfundarnir hafa unnið bug á vandanum sem ég næstum örvænti yfir. Ef þessu er miðlað beint, þá missir það marks; þá er lesandinn leiddur í misskilning – hann fær frekari vitneskju, vitneskju um að einnig tilvistin hafi merkingu, en hann tekur við henni sem vitneskju svo hann situr sem fastast, óbreyttur.

Markmið Kierkegaards var ekki að færa þekkingu. Brandari er ekki fyndinn ef hnykklínan er sögð í upphafi og það er tvennt ólíkt að lesa leikrit og sjá það. Framsetningarmátinn er Kierkegaard jafn mikilvægur og efnið sjálft, því hann sækist ekki eftir skilningnum einum, hann vill að manneskjur breytist.

Haukur Már Helgason

« Til baka

One thought on “Uggur og ótti og Endurtekningin eftir Søren Kierkegaard

  1. Bakvísun: Er í lagi að drepa barn? | Sigurður Árni

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *