Frjálsir andar fljúga hátt

eftir Jón Ólafsson

Róbert H. Haraldsson: Frjálsir andar. Ótímabærar hugleiðingar um sannleika, siðferði og trú, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004. 272 bls.

Róbert Haraldsson er frjór heimspekingur og leitar víða fanga. Hugleiðingarnar sex sem hann birtir í þessu nýja greinasafni fjalla jöfnum höndum um skáldskap, stjórnmálaskrif og heimspeki. Þó er það sammerkt með hugleiðingunum að þær fela allar í sér tilraun til heimspekilegrar túlkunar. Það er heill þráður í skrifunum þó að viðfangsefnin séu margvísleg. Allar hugleiðingarnar bera með sér viðleitni til að draga fram heilsteypta lífssýn og skerpa skilning lesandans á mikilvægi einfaldrar og hversdagslegrar reynslu. Róbert hefur andúð á orðagjálfri, tilgerð og ósannsögli og sömu sýn á heiminn þykist hann greina í verkum allra höfundanna sem hann fjallar um, utan hugsanlega eins. Róbert dregur persónulega lærdóma af lestri höfundanna sem hann fjallar um og þeim vill hann vill deila með lesandanum. Það tekst honum oft ágætlega. En það er að mörgu að hyggja í bók sem fer jafn vítt yfir hugsun síðustu tveggja alda og Frjálsir andar gera og markmið Róberts eru ekki aðeins persónuleg, bók hans er líka tilraun til að leggja dóm á heimspeki og heimspekilega orðræðu samtímans.

Tíðarandinn og sniðgöngumenn hans

Róbert gefur bók sinni undirtitilinn ótímabærar hugleiðingar um sannleika, siðferði og trú en bæði titill og undirtitill fela í sér skírskotun til verka þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche. Hann kemur víða við sögu, þó að engin hugleiðinganna fjalli um hann beint. Það skýrir sig sjálft þegar greinarnar eru lesnar hvers vegna Róbert kýs að kalla þær hugleiðingar: Þær eru í senn persónuleg yfirvegun og tilraun til að vekja lesandann til umhugsunar. Hvers vegna Róbert telur hugleiðingar sínar ótímabærar þarfnast hinsvegar skýringar. Hann stillir í formála upp sex meginspurningum eða leiðarstefjum sem hvert fyrir sig einkennir eina hugleiðingu og gefur jafnframt stutt svör við þessum spurningum sem hann telur tísku eða tíðaranda hneigjast til að gefa. Svör Róbert eru önnur. Hann telur þau fara á snið við tíðarandann og þessvegna kýs hann að kalla hugleiðingarnar ótímabærar. Spurningar Róberts eru dæmigerðar tilvistarspurningar nútímans, sumar mætti jafnvel kalla klassískar. Svörin sem hann telur tíðarandann hvísla að sér eru hinsvegar hin kyndugustu. Þannig hafnar tíðarandinn öllu afturhvarfi til náttúrunnar, að mati Róberts, sýpur hveljur yfir þeirri firru að trú geti byggst á reynslu, hlær að hugmyndinni um að skáldskapur geti haft siðferðilegan boðskap og telur merkingarlaust að tala um einfaldan hlutlægan sannleika. Auk þess telur tíðarandinn heimspekilega orðræðu ekki geta verið endanlega og tengir stórmennskuhugsjón fornaldar við þrá eftir sterkum foringja (13).

Nú verð ég að viðurkenna að þetta eru allt aðrir hlutir en tíðarandinn hvíslar að mér, þó að persónulega hneigist ég til að vera sammála því sem Róbert leggur tíðarandanum í munn um heimspekilega orðræðu og stórmennskuhugsjónina. Aftur á móti virðist mér til dæmis umhverfishyggja samtímans sannarlega vera hluti tíðarandans og boða lausn úr viðjum margvíslegra samfélagslegra klafa í þágu náttúrunnar. Eins fæ ég ekki betur séð en að í öllum lögum samfélagsins birtist þrá eftir trú sem byggir einmitt á persónulegri reynslu. Hvernig getur tíðarandinn hafnað siðferðilegu inntaki skáldverka á tímum þegar bókmenntaumræða hefur einmitt sterkan siðferðilegan undirtón og hvernig er hægt að halda því fram að tíðarandinn hafni einföldum hlutlægum sannleika? Mér virðist sífellt aukin þekking fólks á vísindum styrkja þá skoðun að einfaldan, hlutlægan sannleika sé að finna í hinu smáa og persónulega, í daglegu lífi og siðferði frekar en í stórbrotnum kenningum vísindanna og því fráleitt að telja tíðarandann hafna einföldum, hlutlægum sannleika. Ef til vill ruglar það Róbert í ríminu að því er oft haldið fram nú á dögum að í umræðum, ekki síst í pólitískum umræðum, skipti meira máli að þátttakendur umræðunnar fái tækifæri til að tjá, þroska og rökstyðja skoðanir sínar heldur en að komist sé að einu endanlegu svari um rétt og rangt. Ein sterkasta röksemdin fyrir því að leggja áherslu á umræðu og þátttöku, hvort sem er í heimspeki eða pólitík, er sú staðreynd að allt er í heiminum hverfult og þekking manna er fallvölt. Allar ákvarðanir fela í sér áhættu og því er mikilvægt að stuðla að því með umræðu að áhætta sé sameiginleg og meðvituð en ekki byggð á kennivaldi, loforði valdhafa eða þeirri blekkingu að sú skoðun sem verður ofan á hverju sinni sé ófrávíkjanlega rétt.

Sannleikurinn, samfélagið og orðræðan

Vörn Róberts fyrir einföldum hlutlægum sannleika birtir þá afstöðu hans sem ef til vill skiptir mestu máli fyrir meginþráð bókarinnar og kemur fram með skýrum hætti í þeim hugleiðingum hennar sem fjalla öðrum þræði um bókmenntaverk, annarsvegar um leikrit Henriks Ibsens Þjóðníðing og hinsvegar um Stephan G. Stephansson og skáldskap hans. Þjóðníðingur fjallar sem kunnugt er um lækninn Tómas Stokkmann sem kemst að þeirri niðurstöðu með vísindalegri athugun að heilsulindir sem eru bæjarfélagi hans drjúg tekjulind, séu óheilsusamlegar vegna bakteríugróðurs. Uppgötvun hans mætir stífri andstöðu og þau átök sem af henni skapast afhjúpa spillingu á öllum sviðum samfélagsins. Með því að fjalla lítillega um ákveðinn hluta túlkunarsögu verksins og túlka það með sínum hætti tengir Róbert gagnrýnina á lækninn (og á leikritið) við efasemdir um sannleikann. Við því sé að búast þegar „sífellt fleiri fræðimenn … telja að allt tal um hlutlægan sannleika sé einhvers konar þvermóðskuleg tilraun til að berja höfðinu við stein og neita augljósri „staðreynd“ um hlutskipti mannsins“ (104).

Þessi afstaða birtist í dálítið annarri mynd í umfjöllun Róberts um Stephan G. þegar hann færir rök fyrir því að orðræða geti verið endanleg. Með því á hann við að í sumum tilfellum og um suma hluti sé hægt að segja allt sem segja þarf. Dæmin sem hann tekur eru ljóðlínur Stephans G. en þær „virðast fullkomnar, hendingarnar fullgerðar, orðin virðast nægja til að lýsa viðfangsefninu, til að tjá hugsun höfundar, og setningarnar virðast óhagganlegar…“ (125). Á móti endanleika í þessum skilningi teflir Róbert meðal annars því sem hann nefnir hugmyndir nokkurra postmódernískra höfunda um eðli orðræðunnar – að hún sé í eðli sínu endalaus. Greinarmuninum á hinu endanlega og hinu endalausa lýsir Róbert á nokkra mismunandi vegu, en það er gagnlegt að hafa í huga hversdagslegustu skýringarnar. Þannig lýsir það að hitta naglann á höfuðið í vissum skilningi endanleika orðræðunnar (123), sömuleiðis aðstæður á borð við athugasemd barnsins í Nýju fötunum keisarans, þegar einföld athugasemd afhjúpar þvælu, rugl eða sjálfsblekkingu þannig að ekkert meira er að segja (151).

Báðar greinarnar eru athyglisverðar og að því að mér virðist um margt frumlegar hugleiðingar um verk Stephans G. og Ibsens. Hinsvegar skýtur Róbert yfir markið þegar hann tengir einfaldleikann sem hér birtist í því annarsvegar að hafa rétt fyrir sér um tiltekið atriði, hinsvegar að segja allt sem segja þarf um ákveðið viðfangsefni, við þá viðleitni margra nú á tímum að losa fræðilega og pólitíska umræðu úr viðjum hagsmuna, valdatafls og þöggunar. Sú algenga skoðun að allt sem sagt verður um veruleikann sé háð túlkun og hluti af orðræðu og því ekki sannreynanlegt nema í samhengi túlkunar og orðræðu segir Róbert að leiði menn út í að hafna allri hlutlægni: „Við þurfum samkvæmt þessari heimspeki ekki að standa veruleikanum … reikningsskil á skoðunum okkar heldur öðrum mönnum“ (132). Hér virðist mér ruglingur á ferðinni. Það má taka dæmi til að skýra þetta atriði. Það kemur fyrir í ólgandi viðskiptalífi samtímans að starfsmenn fyrirtækja sem fara óeðlilegar eða ólöglegar leiðir til að ná markaðsárangri komi fram fyrir skjöldu og fletti ofan af starfsháttum eigin fyrirtækis jafnvel þó að það hafi verstu afleiðingar fyrir þá sjálfa. Í raun minna örlög Stokkmanns í Þjóðníðingi á örlög heiðarlegs og grandvars starfsmanns stórfyrirtækis sem reynir að benda yfirmönnum sínum á misfellur en í stað þess að mark sé tekið á á honum er réttmæt gagnrýni hans þögguð niður. Umræða um slíkar uppljóstranir er augljóslega ekki spurning um eðli sannleikans, þó að aðferðir og aðstæður uppljóstrarans ráði miklu um hvort og að hve miklu leyti honum tekst að sannfæra yfirvöld eða almenning um réttmæti gagnrýni sinnar. Það er sama hve réttmæt, einföld og endanleg slík gagnrýni er, á meðan henni er mótmælt á marktækan hátt, eða af þeim sem völdin hafa, er umræðunni um hana ekki lokið, nema hún sé þá þögguð niður.

Á sama hátt lýkur fræðilegri rannsókn ekki fyrr en með sammæli þeirra sem að henni standa beint eða óbeint. En jafnvel þó að slíkt sammæli náist er ekki þar með sagt að það geti ekki komist í uppnám síðar eða að niðurstöður sem einu sinni eru fengnar reynist ekki síðar vera ófullnægjandi eða jafnvel alrangar. Það kann að vera að sú fræðilega upplausn sem postmódernísk gagnrýni getur komið af stað gangi stundum út í öfgar, en það er í meira lagi villandi að heimfæra slíka gagnrýni á aðstæður þar sem einföld, skýr og hlutlæg svör eru gefin við spurningum eða skáldskapur hittir í mark. Enginn postmódernismi er svo rammur að hann afneiti slíku. Ef það er einhver „augljós staðreynd“ sem postmódernistar og tengdir hugsuðir bregðast við, þá er hún sú, að bjargfastar undirstöður heimsmyndar okkar sé hvergi að finna. En það merkir ekki taumlausa efahyggju, eða tómhyggju eða að reynsla, sammannleg eða persónuleg, sé einskis virði. Þessvegna er upplausn gildanna sem Róbert þykist sjá í postmódernískri afstöðu, alls engin afleiðing hennar.

Raunar má segja að dæmin sem Róbert tekur úr skáldskap Stephans G. Stephanssonar gefi einmitt tilefni til allt annarra hugleiðinga en hans. Richard Rorty hefur bent á að skrif sem hitta í mark, skáldskapur eða skrif af öðru tagi, geri það oft vegna þess að þau færa fólki upp í hendur ný hugtök og nýtt samhengi. Þannig endurskapi þau orðræðu, geri fólki mögulegt að tala á nýjan hátt og greina öðruvísi það sem virtist útrætt, jafnvel útþvælt. Dæmi Rortys er skáldsaga George Orwells 1984 sem hann bendir á að hafi gert mönnum mögulegt að hugsa á nýjan hátt um alræðisríki, en þegar bókin kom út voru Sovétríki Stalíns nærtækur og yfirþyrmandi veruleiki af því tagi. Það er athugunarvert að hér setur menn vissulega hljóða, en ekki vegna þess að orðræðunni sé lokið, heldur vegna þess að allt í einu hefur eitthvað alveg nýtt verið sagt um það sem við höfðum alltaf fyrir augunum. Sama má auðvitað segja um góðan kveðskap og á ekki síst við um Stephan G. Skáldskapur hans bregður nýju ljósi á hið gamalkunna, endurnýjar orðræðuna en stöðvar hana ekki eins Róbert virðist halda (sjá 125). Þegar tjöldin féllu á frumsýningu leikrits Arthurs Millers Sölumaður deyr á Broadway árið eftir að skáldsaga Orwells kom út var dauðaþögn í salnum. Áhorfendur „setti hljóða“. En var það vegna þess að Miller hafði sagt allt sem segja þarf um viðfangsefni leikritsins? Auðvitað ekki. Það var vegna þess að honum hafði tekist að greina veruleika þess fólks sem þarna sat á nýjan og einstakan hátt. Hann hafði endurskapað orðræðu þess um eigin hversdagslega veruleika. Þetta eru galdrar skáldskaparins: Endurnýjunin, en ekki endanleikinn.

Þá riðu hetjur um héruð

Fyrsta hugleiðing bókarinnar fjallar um bandaríska hugsuðinn Henry David Thoreau sem Róbert hefur miklar mætur á. Greinin einkennist af þeirri viðleitni Róberts að sýna fram á að Thoreau sé hvorki einfeldningslegur né feli hugmyndir hans um náttúruna og tengsl mannsins við hana í sér „vonlausa rómantík“ (15). Róbert færir ágæt rök fyrir þessari skoðun sinni og tiltekur prýðileg dæmi. Það er óhætt að fallast á að Thoreau var merkilegur höfundur og að hugsun hans um samband manns og náttúru á mikið erindi til manna enn þann dag í dag. Hann var ekki sérvitur heimsafneitari, heldur alvarlegur, djúpur og þó umfram allt ábyrgur hugsuður (sjá t.d. 43-44). Mig grunar þó að andstaða við Thoreau risti ekki djúpt meðal heimspekinga sem hafa áhuga á frjórri hugsun, ekki aðeins skotheldum röksemdafærslum. Heimspekilega hugsun er miklu víðar að finna en í skólaritgerðum heimspekinganna og fleiri eru heimspekingar en þeir sem lokið hafa prófi í greininni. Heimspeki er að finna í „ljóðum, leikritum, skáldsögum, dægurlögum, kvikmyndum, ritum náttúruspekinga og öðrum þeim sporum sem mannsandinn hefur skilið eftir sig á umliðnum öldum“ (19). Þetta er hárrétt og mér liggur við að segja öldungis óumdeild skoðun og það er einmitt af þessari ástæðu að það er mikilvægt fyrir heimspekinga rétt eins og aðra að lesa verk Thoreaus. Það kann hinsvegar að vera rétt hjá Róberti að stundum hafa skólaheimspekingarnir verið tregir til að viðurkenna þá heimspeki sem ekki fylgir formúlu lærdómsritsins, en það er önnur saga.

Meginatriðið í túlkun Róberts á Thoreau er þó annað en vörn hans felur í sér. Róbert heldur því fram að mikilvægt sé að túlka einstaklingshyggju Thoreaus og andstöðu hans við siðferðilega einokunarstefnu sem viðleitni til frelsunar frá pólitík (45). Róbert spyr hvort það sé óábyrg afstaða að líta svo á að pólitík sé aðeins einn lífsmáti af mörgum og færir rök fyrir því að það sé ekki óábyrgt. Í framhaldinu tekur hann forvitnileg dæmi um annan höfund sem hafi deilt þessari sýn með Thoreau, en það er rithöfundurinn George Orwell. Það veikir hinsvegar þessa túlkun Róberts að textadæmi hans eru óbein. Hann les fráhvarf frá pólitík inn í skrif Orwells og Thoreaus frekar en að hún birtist þar með beinum eða skýrum hætti. Nærtækara er að skilja báða þessa hugsuði sem einarða andstæðinga ofríkis og valdstjórnar, en það merkir að lesandinn hneigist fyrst og fremst til að setja skrif þeirra, jafnvel skrif þeirra um náttúruna, í rammpólitískt samhengi. Það má til sanns vegar færa að það er ekki nauðsynlega neitt óábyrgt við þá afstöðu að siðferðilegt sjálfstæði og jafnvel sjálfræði velti meðal annars á því að geta hugsað sig út úr pólitík, en það er ekki þar með sagt að þar sé fundinn kjarninn í hugsun höfunda á borð við Thoreau og Orwell. Mér virðist raunar þvert á móti sú staðreynd að skrif þeirra hafa vægi og þýðingu enn þann dag í dag komi einmitt til af pólitískri afstöðu þeirra. Náttúruupphafningin sem birtist hjá báðum er því pólitísk í innsta kjarna sínum: Hún er andsnúin valdi frekar en pólitík.

Í greininni „Endurreisn mikillætis og stórmennskan“ fjallar Róbert um áhugamál sitt og Kristjáns Kristjánssonar prófessors á Akureyri en það er dygð sú sem Aristóteles og fleiri heimspekingar fornaldar nefndu mikillæti eða stórmennsku (raunar virðast fleiri möguleikar vera á þýðingu orðsins, þar á meðal göfgi (sjá 55)). Kristján hefur hvatt til þess að dygð stórmennskunnar væri endurvakin í uppeldi og menntun, að vísu ekki í ómengaðri mynd fornaldar heldur í þeirri mynd sem betur hæfir nútímanum. Róbert tekur röksemdir Kristjáns til athugunar í grein sinni og kemst að þeirri niðurstöðu að meiri mat sé hægt að gera sér úr því beint sem Aristóteles skrifaði um stórmennsku en Kristján virðist halda og sýnir fram á að hugmyndir um stórmennið líkar hugmyndum Aristótelesar sé að finna í verkum margra heimspekinga á síðari tímum, þar á meðal verkum Nietzsches og Emersons. Það er merkilegt þegar umfjöllun Róberts er lesin saman við upphaflega grein Kristjáns hve uppteknir þeir eru af einhverskonar „endurvakningu“ þessarar dygðar. Hvorugur lætur sér nægja markmið lærdómsmannsins, að skýra hugsunina að baki dygðinni og færa rök fyrir einum skilningi á henni frekar en öðrum. Mig grunar að dulinn fræðaótti valdi þessari endurvakningaráherslu. Hér á landi hefur iðulega verið gerð krafa um að heimspeki sé í beinum tengslum við hversdagslíf og þessvegna virðist mönnum ef til vill að hin hreina fræðilega umræða hafi ekki nægilegt gildi í sjálfri sér. Það er miður því að eins áhugaverð og skrif Róberts eru um hvernig hægt sé að skilja hugmynd Aristótelesar um stórmennsku, jafn óáhugaverð er sú spurning hvort það sé gott eða vont að byrja að kenna og rækta þessa dygð nú á tímum. Róbert kemst að þeirri mótsagnakenndu niðurstöðu að afar mikilvægt sé að endurreisa dygð stórmennskunnar en um leið ómögulegt, því að tíðarandinn leyfi það ekki (83).

Trú og siðferði

Í tveimur síðustu greinum bókarinnar fjallar Róbert um greinina „Trúarvilja“ eftir bandaríska heimspekinginn William James og ritgerðir Halldórs Laxness. Hugleiðingarnar eru skyldar þó að þær séu á yfirborðinu ólíkar og í þeim reynir Róbert að teygja meginhugmynd sína um sjálfstæða, einarða og kjarkmikla hugsun lengra en hann gerir í fyrri greinunum fjórum. Það er skemmst frá því að segja að greinin um Halldór Laxness er að mínu mati síst heppnuð af greinum bókarinnar. Fyrri hluti hennar er tilraun til greiningar á viðhorfum Halldórs til siðaboðskapar í skáldverkum en sú greining er ekki sannfærandi, einkum vegna þess að Róberti tekst ekki að greiða nægilega vel úr hinum margvíslegu og mótsagnakenndu yfirlýsingum Halldórs um þessi efni. Síðari hluti greinarinnar er gagnrýni Róberts á það sem hann telur ófullnægjandi uppgjör Halldórs Laxness við kommúnisma sinn og lygar um Sovétríkin. Hér virðist mér skilningur Róberts á texta Halldórs í Skáldatíma og á endurmati hans á fyrri textum vera yfirborðslegur. Róbert telur það nægja að afgreiða launhæðnar og flóknar hugleiðingar Halldórs um eigin skrif og reynslu sem „kaldhæðni“. Fullur vandlætingar kemst hann að þeirri niðurstöðu að kaldhæðni sé óviðeigandi þegar um þessa hluti er fjallað, nær væri að skrifa af einlægni.

Sem dæmi um vanskilning af þessu tagi má nefna atvik úr Skáldatíma þar sem Halldór lýsir heimsókn nokkurra manna til sín á hótelherbergi í Moskvu: „Þeir gerðu auðsjáanlega ekki ráð fyrir að leynilegur hljóðnemi væri í herberginu hjá mér, heldur höfðu rosamunnsöfnuð um stjórnina og hafa vonandi allir lent í Vorkútsk á endanum“.„Í Vorkúta voru einar af illræmdustu þrælabúðum Stalíns“, segir Róbert hneykslaður (216). Hann áttar sig ekki á launhæðni lýsingarinnar hér. Það er sennilegt að í hópnum sem Halldór lýsir hafa verið „provokatörar“ – menn sem áttu að sjá hvernig Halldór brygðist við tali af þessu tagi. Með því að óska þeim Vorkútavistar sýnir Halldór að þessu áttar hann sig á, enda myndi óskin tæpast passa í samhengi bókarinnar annars. Fleiri dæmi eru um vanskilning af þessu tagi í umfjöllun Róberts um Laxness, sem stafa af einhæfri og einstrengingslegri túlkun.

Hin heimspekilega vörn fyrir skoðunum Williams James sem Róbert spreytir sig á í hugleiðingu sinni um greinina „Trúarvilja“ varðar klassískt vandamál heimspekinnar, tengsl og aðgreiningu skynsemi og tilfinninga. Því hefur verið haldið fram, meðal annars af Páli Skúlasyni að James geri óþarflega mikinn greinarmun á skynsemi og tilfinningum í þessari grein sinni. Róbert reynir að sýna fram á að svo sé ekki. Þvert á móti sé fjölmörg dæmi að finna í greininni sem sýni að þessi greinarmunur sé einmitt ekki afdráttarlaus hjá James. Hann bendir á að tilfinningar hafi og eigi að hafa áhrif á skynsemi og öfugt. Það sem málið snýst um hjá James er því ekki hvort til séu þær aðstæður þegar tilfinningar eiga að ráða frekar en skynsemi, heldur hverjar þær aðstæður séu þar sem skynsamlegt er að „hjartað ráði för“ (sjá 171).

Mér virðist túlkun Róberts á William James ekki fjarri sanni í þessu atriði. Þó verður líka að hafa í huga að James var íhaldssamur hugsuður í vissum skilningi og kærði sig ekki um að hrófla við því sem hann taldi hversdagslega eða viðtekna hugmynd um siðferði, þar með talinn greinarmuninn á skynsemi og tilfinningum. Eins er mikilvægt að hafa í huga að í þessari grein er James líka að fjalla um þekkingu. Í „Trúarviljanum“, birtist afstaða til vísinda sem er dæmigerð fyrir pragmatisma. James vísar oft til einfalds slagorðs í skrifum sínum sem hljómar á þessa leið: „Leitaðu sannleikans, varastu villu“. Jafn hversdagslegt og sjálfsagt sem þetta slagorð virðist vera, þá felur það við nánari skoðun í sér formúlu sem lýsir pragmatismanum í hnotskurn. Formúlan er sú að allar ákvarðanir, allar niðurstöður sem komist er að verði að taka mið af tvennu: Það er eftirsóknarvert að komast að niðurstöðu og í mörgum tilfellum óhjákvæmilegt að gera það, að minnsta kosti þegar athöfn af einhverju tagi verður ekki umflúin. Hinsvegar er jafn mikilvægt að forðast að hafa rangt fyrir sér. Þannig bendir formúlan okkur á þau einföldu sannindi að ákvarðanir og niðurstöður fela alltaf í sér jafnvægislist og það er jafn vitlaust að varpa leit að réttum svörum fyrir róða og að hafna ekki skoðunum sem eru rangar. En það er engin algild regla til sem getur leiðbeint afdráttarlaust í hverju tilfelli. Þessvegna hljótum við að vera fjölhyggjufólk um ákvarðanir og niðurstöður: Oftast er fleira í húfi en spurningin um hvort tiltekin skoðun sé sönnuð eða sannanleg eða ekki og eðlilegustu viðbrögðin við þeirri staðreynd eru einmitt þau að hugsa sér orðræðu um veruleikann, félagslegan jafnt sem náttúrlegan, svo að hún sé endalaus.

Frjálsir andar er á margan hátt vandað verk og felur í sér einlægan lestur á þeim höfundum sem Róbert hefur dálæti á. Það má finna að því að Róbert getur ekki útgáfusögu greinanna, en sumar hafa birst áður, aðrar ekki og gagnlegt hefði verið að fá yfirlit um það. Einnig hefði ekki sakað að setja í bókina atriðisorða- og nafnaskrá. En þetta eru ekki stórvægileg atriði. Helsti vandinn við bókina birtist í heildarmyndinni sem Róbert leitast við að draga upp með spurningum sínum í upphafi hennar og svörum tíðarandans eins og hann skilur þau. Niðurstöður hans hafa því ekki þau áhrif fyrir efasemdir samtímans um sannleika, endanleika orðræðunnar eða stórmennsku sem hann vill vera láta.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *