Continental Philosophy eftir Simon Critchley

Ritdómur

eftir Sigríði Þorgeirsdóttur

Simon Critchley:
Continental Philosophy. A Very Short Introduction

Oxford: Oxford University Press, 2001

Það er ekki lítið verk að ætla sér að skýra hina evrópsku hefð heimspekinnar eða „meginlands­heimspeki“ (continental philosophy) í „mjög stuttum inngangi.“ Simon Critchley, prófessor í heimspeki við Háskólann í Essex og New School háskólann í New York, tekst þetta verk á hendur í bókarkorni úr röð slíkra inngangsrita frá bókaútgáfu Oxfordháskóla. Samkvæmt skilningi hans er ekki óviðeigandi að Englendingur eins og hann sjálfur taki að sér að skýra á meginlandsheim­spekina fyrir lesendum, þótt hún sé vissulega oftast talin einskorðast við þann hluta álfunnar sem hún er kennd við. Critchley hafnar hins vegar slíkri landfræðilegri skilgreiningu á umræddri hefð. Flestar tilraunir til skilgreiningar á evrópskri nútímaheimspeki orki hvort eð er tvímælis. Þannig segir hann t.d. að allt eins megi rekja skiptingu heimspekinnar í analýtíska eða rökgreiningar­heimspeki og meginlandsheimspeki til mótsagnar sem gangi þvert í gegnum hinn enska hugmyndaheim (Englishness). Til sannindamerkis um þetta vísar hann í skrif J. S. Mill um skiptingu heimspeki í raun- og vísindahyggju annars vegar og húmaníska og háfleyga hugsun hins vegar. Mill segir nytjastefnu Benthams vera dæmi um hið fyrrnefnda og rómantíska afstöðu S. T. Coleridge (sem var að vísu undir miklum áhrifum af þýskri heimspeki) dæmi um hið síðarnefnda. Það eru þessi ólíku viðhorf til heimspeki sem hafi leitt til sundurgreiningar hennar í tvo meginstrauma. Auðkenning beggja hefða er að mati Critchleys fyrst og fremst sjálfslýsing nokkurs konar sértrúarflokka innan þeirra, sem er einkum tilkomin vegna kerfisbundinnar útbreiðslu heimspekinnar í háskólum á 20. öld. Til að leita nánari heimspekisögulegra skýringa á upphafi skiptingarinnar þurfi hins vegar að hverfa aftur til þess heimspekings sem lagði línurnar fyrir nútímaheimspeki, þ.e. Immanuels Kant.

Með því að skýra tilurð tvískiptingar heimspekinnar hyggst Critchley sýna fram á leiðir fyrir til að vinna sig út úr henni. Líkt og landi hans Tony Blair vill vísa hina svokölluðu „þriðju leið“ í stjórnmálum, vill Critchley sjá heimspekina vaxa upp úr þeim heimóttarskap heimspekinga beggja vegna Atlantshafsins sem birtist í því að telja sig annað hvort til analýtíska skólans eða meginlandshefðarinnar. Það er fengur að bók Critchleys um þessi mál því það er sannarlega mikið í húfi. Rökgreiningarheimspekin hefur skapað sér yfirburðastöðu innan heimspekideilda háskóla vestanhafs og meginlandsheimspeki hefur víða hrakist inn í menningar- og bókmennta­fræðideildir og trúarbragðafræði. Á hinn bóginn er rökgreiningarheimspekin á góðri leið með að verðleggja sig út af markaðinum ef svo má að orði komast. Hin sérhæfðu tök hennar á viðfangsefnum sínum gera hana iðulega óaðgengilega öðrum en innvígðum. Sínu alvarlegra er þó að hún hefur eftirlátið meginlandsheimspekinni margar hinna klassísku spurninga, svo sem um tilgang og merkingu mannlegrar tilveru. Samskiptaleysi eða jafnvel kalt stríð sem hefur á köflum geisað milli beggja heimspekihefða hefur enn fremur dregið fram það versta í þeim báðum. Samkvæmt þröngsýnu viðhorfi meginlandsheimspekinga fást rökgreiningarheim­spekingar einkum við léttvæg verkefni en á agaðan hátt og með vísindalega nákvæmni að leiðarljósi. Tiltölulega nýleg lýsing á analýtískri heimspeki í The Oxford Companion to Philosophy er ekki til þess fallin að milda þetta viðhorf, en þar segir að analýtísk heimspeki bæði „virði raunvísindi sem fyrirmyndina að því hvað megi vita með nokkurri vissu og lagi sig að raun­vísindalegri ögun í rökfærslu, skýrleika og ásetningi um hlutlægni.“1 Svona sjálfslýsingar analýtískra heimspekinga virka bláeygar í ljósi mikillar gagnrýninnar umræðu á undanförnum árum innan vísindaheimspeki, vísindasagnfræði og vísindafélagsfræði um hlutlægni og sam­félagslega og menningarlega mótun vísinda. Frá sjónarhóli rökgreiningarheimspekinnar virðist hins vegar meginlandsheimspekin taka á áleitnum spurningum mannlegs lífs, en skortir nákvæmni í greiningu þeirra. Í greininni um meginlandsheimspeki í Oxford Companion to Philosophy er reyndar ekki að sjá að þessi hefð heimspekinnar eigi sér yfirhöfuð tilverurétt. Greinarhöfundur er uppfullur af fordómum og fullyrðir m.a. að meginlandsheimspekingar reiði sig á „dramatískar, jafnvel melódramatískar staðhæfingar fremur en rök.“2 Enn fremur er farið afar neikvæðum orðum um hina krítísku heimspeki af hefð Frankfurtarskólans og fullyrt að „augljós pólitískur ásetningur þessara gagnrýnu fræðimannanna hafi ekki getað vakið áhuga rök­greiningarheimspekinga sem helga sig hlutleysi.“3 Sá sem ritar greinina virðist hins vegar ekki gera sér grein fyrir sinni eigin pólitísku hlutdrægni þegar hann ásakar Noam Chomsky, sem hann segir ástunda málspeki af hefð meginlandsheimspeki, fyrir að blanda saman fræðum og „róttækum öfgum í siðferði og stjórnmálum.“4

Fyrir utan vanþekkingu á neikvæð afstaða sem þessi rætur að rekja til tilhneigingar sem hefur gætt meðal sumra talsmanna meginlandsheimspeki til að hefja sig upp yfir vísindalega þekkingu og hafna henni. Critchley fullyrðir einmitt að vísindahyggja annars vegar og andskynsemishyggja (obscurantism) hins vegar séu öfgarnar sem hvorri heimspekihefð um sig hefur hætt til að leiðast út í. Vissulega hafa fulltrúar hefðanna tveggja þó einnig lagt stund á sjálfsgagnrýni í því skyni að forðast þessar öfgar. Því má segja að umræddar greinar í Oxford Companion to Philosophy séu til marks um vísindahyggju sem var orðin tímaskekkja árið 1995 þegar uppsláttarritið kom út.

Með túlkun sinni á meginlandsheimspeki leitast Critchley við að leggja lóð á vogarskálar „détente“ eða tilslökunarstefnu innan heimspekinnar. Öllu máli skipti að hefðirnar reyni að skilja hvora aðra og tali saman. Ein leið til þess sé að huga að sameiginlegum uppruna þeirra og velta því fyrir sér hvað hafi orðið til þess að leiðir skildu varðandi viðfangsefni og aðferðir. Vitaskuld er hægt að fara ýmsar leiðir að þessu marki. Critchley viðurkennir að hans sýn á meginlands- og rökgreiningarheimspekina sé sérviskuleg. Hún hljóti að vera skilyrt af hans eigin skilningi á hlutverki heimspekinnar, sem ég mun fara nokkrum orðum í þessari umfjöllun um rit hans um meginlandshefðina. Hér er ekki ætlunin að taka afstöðu til túlkunar Critchleys á meginlands­heimspeki, heldur aðeins að reifa nokkra helstu þætti hennar í kynningarskyni. Túlkun hans gefur hins vegar tilefni til að velta fyrir sér stöðu heimspekinnar almennt um þessar mundir. Hugum þá fyrst að túlkun Critchleys á heimspeki Kants sem hann segir marka sögulegt upphaf sundurgreiningar heimspekinnar. Með nokkurri einföldun fullyrðir hann að rökgreiningarheim­spekin eigi upphaf sitt í þekkingarfræði Kants en meginlandsheimspekin hafi hins vegar þróast út frá kenningu Kants um dómgreindina. Rökin sem Critchley færir fyrir þessari skoðun eru eftirfarandi: Í rökgreiningarheimspeki hafi mest rækt verið lögð við kenningar um þekkingu. Einkum sé fengist við rök- og aðferðafræðilegar spurningar um hvernig við getum vitað það sem við vitum og hvernig hægt sé að meta gildi þekkingar. Heimspekin verði þannig að fræðilegri rannsókn á skilyrðum möguleika vísindalegrar þekkingar. Hún þjóni vísindunum á þann hátt að hún ryðji úr vegi öllum óþarfa í skilningi okkar á þekkingu á leið hennar til meiri þekkingar og vísindalegra framfara. Critchley orðar þetta svo að þar með hafi heimspekingar tekið að sér að sjá um hreingerningar í krystallshöll vísindanna. Það sé í sjálfu sér ekki ómerkur starfi, en engu að síður þrengi hann mjög hefðbundið verksvið heimspekinnar og móti nýjan sjálfskilning hennar. Aðferðir raunvísinda verði í kjölfarið ekki aðeins að viðmiði fyrir agaðar röksemdafærslur. Við hættum að líta á vísindi sem eina gerð þekkingar meðal annarra og leggjum þess í stað vísindalega þekkingu að jöfnu við þekkingu yfirleitt. Hin vísindalega heimsmynd sé enn fremur til þess fallin að leysa heimspekina undan því að leita svara við mörgum hinna sígildu stóru spurninga. Að því leyti sem tilraunir heimspekinga til að átta sig á heiminum hafi lengst af verið samofnar viðleitni til að átta sig í heiminum, hafi ofangreind þróun leitt til þess að fræði (teoría) og athafnir (praxís) séu ekki samstiga í sama mæli og áður. Sú hugsun sem leggi vísindi og þekkingu að jöfnu segir nefnilega skilið við þá gagnrýnu hugsun sem er arfleifð kantískrar heimspeki. Hin gagnrýna hugsun byggi á hugmynd um frelsi mannsins og sjálfræði. Gagnrýnin heimspeki leitist við að afhjúpa þau öfl sem takmarki frelsi mannsins (svo sem hinn svokallaða „vísindalega sósíalisma“ eða öfgakennda tæknihyggju svo aðeins tvö dæmi séu nefnd), og bendi á leiðir til að efla það í krafti frelsandi þekkingar.

Critchley heldur því fram að undirstöðu gagnrýninnar heimspeki af þessu tagi sé að finna í þriðja gagnrýnisriti Kants, Gagnrýni dómgreindarinnar. Samkvæmt Kant hafi dómgreindin það hlutverk að miðla milli skilnings okkar (sem sé viðfangsefni þekkingarfræðinnar sem fjalli um þekkingu á náttúrunni) og skynseminnar (sem siðfræði fáist við og fjalli um frelsi mannsins). Dómgreindin miðli þannig á milli hreinnar þekkingar (teoríu) og hagnýtrar skynsemi (praxís) mannsins. Critchley kemst að þeirri niðurstöðu að meginlandsheimspekin hafi í þessum anda allt frá dögum Kants reynt að samhæfa það að átta sig á heiminum og ná áttum í honum. Þannig hafi hún ævinlega leitast við að sameina fræði og athafnir, sögu, samtíma og frelsi. Þessi túlkun sýnir að það sem heillar hvað mest við meginlandsheimspeki er einmitt að hún hefur oftast nærst á meðvitund um samfélagslega og hugarfarslega kreppu sem þarf að bregðast við, hvort sem það er tómhyggja eftir „dauða guðs“ á 19. öld eða rökvæðing veruleikans og sú firring og tómhyggja sem hún getur af sér á 20. öld. Slík heimspeki reynir því að svara ákalli um frelsun undan þrúgandi aðstæðum og viðhorfum. Þannig bætir hún upp takmarkanir heimspeki í anda vísindahyggju. Því þrátt fyrir öll þau þægindi sem tæknin hefur búið nútímamanninum í okkar heimshluta hafa spurningar um merkingu mannlegs lífs, frelsi og ófrelsi ef eitthvað orðið enn áleitnari við aðstæður efnahagslegrar velmegunar. Innan meginlandsheimspeki er þannig að dómi Critchleys iðulega leitast við að spyrða saman spurningar um þekkingu og visku, um heimspekilegan sannleika og tilvistarlega merkingu. Hún virðist þannig komast nær kjarna mannlegs lífs, vanda þess að vera maður í von og ótta, í menningarlegu og samfélagslegu tilliti. Þar með er ekki endilega sagt að rökgreiningarheimspeki láti sig þessar spurningar engu varða. Í síðari verkum austurríska heimspekingsins Ludwigs Wittgenstein, eins helsta áhrifavaldar þessarar heimspekihefðar, kallar leit að heimspekilegum sannleika á tiltekna lífsafstöðu. Hinu er samt ekki að neita að innan rökgreiningarheimspeki hefur lengst af verið litið svo á að krufning slíkra vandamála sé utan verksviðs rökgreiningar og málspeki. Meginmarkmið Critchleys í þessari bók er einmitt að benda á að öllu skiptir að heimspekin reyni að brúa bilið milli þekkingar og visku. Hann segir heimspekina vera færa um að velta upp þeim spurningum heimspekilegs eðlis sem spretti upp í mannlegri tilveru og „hrein“ vísindaleg hugsun fái ekki hent reiður á. Spurningin sé ekki hvor hefðin sé betur fær um að leysa þetta verkefni. Til samans vísi þær báðar til stærri sannleika að mati Critchleys. Hann sé sá að við mennirnir séum hvort tveggja uppteknir af spurningum um þekkingu og um visku. Þess vegna þurfi bæði gleraugu rökgreiningar- og meginlandshefðarinnar til að líta heiminn heimspekilegum augum. Þetta sá Mill að sögn Critchleys fyrir hálfri annarri öld þegar hann sagði bæði viðhorfin „hafa rétt fyrir sér í því sem þau árétta og rangt fyrir sér í því sem þau hafna.“ (47). Ef við orðum þetta með svolítið slagorða­kenndum hætti mætti segja að meginlandsheimspeki kunni að hafa dýpri skilning en rök­greiningarheimspeki meiri skýrleika og hvorug geti því án hinnar verið.

Þrátt fyrir að rökgreiningarhefðin hafi lengst af verið haldin fordómum gagnvart megin­landshefðinni og meginlandshefðin sé farin að kenna til vanmáttar síns gagnvart ögun ensk-amerísku hefðarinnar eru teikn á lofti um að hér sé að verða breyting á. Komnar eru fram rannsóknir sem leitast gagngert við finna leiðir til að samhæfa náttúru og frelsi eða skynsemi í anda meginlandsheimspeki. Rökgreiningar Richards Brandom á heimspeki Hegels gætu t.d. verið til marks um þetta að dómi Critchleys. Heimspekingar á borð við Richard Rorty, Charles Taylor og Stanley Cavell hafi rutt braut fyrir slíkt með því að kæra sig kollótta um togstreitu beggja hefða vestrænnar heimspeki og með því að nýta sér þær báðar eftir geðþótta. Þá er einnig vert að geta þess að austan megin Atlantshafsins hafa Þjóðverjarnir Jürgen Habermas og Ernst Tugendhat einnig leitast við að byggja brýr milli hefða.

Samtímis þessu er rökgreiningarhefðin að verða sér meðvitaðri um sögulegar rætur sínar. Úr sögulegri fjarlægð sést hvernig tilteknar aðstæður hafa varðað veg hennar að dómi Critchleys. Það megi til dæmis greina skyldleika módernisma í listum á fyrsta þriðjungi 20. aldar og hrein­stefnu innan rökgreiningarheimspeki sem hinn ungi Wittgenstein hafi innleitt með kenningu sinni um rökfræði tungumálsins. Tractatus Wittgensteins og húsið sem hann hafi hannað fyrir systur sína í Vínarborg séu hvort með sínum hætti afbrigði sama stíls. Af fleiru er að taka en því sem Critchley nefnir hér. Þótt rökgreiningarheimspeki hafi að mestu sneitt hjá því að fjalla um sögulegan veruleika okkar er hún engu að síður sjálf sögulegu marki brennd. Nýlegar rannsóknir á sögulegum forsendum rökgreiningarheimspeki í Bandaríkjunum eftir seinna stríð leiða til dæmis getum að því hvernig vísindalega sinnuð heimspeki sem fjallaði lítið um félagslegan og pólitískan veruleika mannsins gat verið þóknanleg valdhöfum á hápunkti kalda stríðsins þegar leitast var við að halda stöðugleika ógnarjafnvægis og ekki mátti rugga bátnum.5 Það kann að vera að slík túlkun einfaldi hið sögulega sjónarsvið um of. Hins vegar má búast við því að sögulegar skýringar á þróun rökgreiningarheimspeki í Bandaríkjunum eigi eftir að sýna betur þann menningarlega, hugarfarslega og pólitíska jarðveg sem hún er sprottin úr. Rannsóknir á innbyggðri, leyndri eða ljósri hugmyndafræði akademískra greina fara ört vaxandi, einnig í Evrópu. Skemmst er að minnast þeirrar athygli sem bók Victors Farías um Heidegger og nasismann vakti.6

Í þessu sögulega samhengi er vert að hafa í huga að pólitískt hlutleysi var víðs fjarri Rudolf Carnap, helsta talsmanni rökgreiningarheimspekinnar. Carnap, sem var einn af forsprökkum Vínarhópsins, var umhugað um að heimspekin gæti verið framsækið afl í þágu þjóðfélags­breytinga. Hann var hins vegar þeirrar trúar að hún gæti best leyst það verk af hendi með því að laga sig algerlega að vísindalegri rökhugsun og grafa undan allri frumspeki sem hann sagði helst þjóna afturhaldssemi og guðfræði í heimspeki og pólitík. Carnap taldi heimspeki Martin Heideggers hættulegasta dæmið um slíka frumspeki. Critchley tekur einmitt fræga deilu Carnaps og Heideggers um frumspeki sem dæmi um hástig togstreitu rökgreiningar- og meginlands­hefðarinnar. Báðir höfundar leiddust að hans mati út í öfgarnar sem hvorri hefð um sig er hætt við, vísindahyggju og andskynsemishyggju. Deila þeirra byggir að mati Critchleys enn fremur á grundvallarmisskilningi sem hefur átt hvað drýgstan þátt í langvarandi samskiptaleysi milli rökgreiningar- og meginlandsheimspekinga.

Í frægum innsetningarfyrirlestri frá árinu 1929, „Hvað er frumspeki?“, fullyrti Heidegger að sjálf vísindin byggðu á frumspekilegum forsendum sem þeim væru hulin. Grundvallarafstaða til lífsins sem er skilyrt af tengslum mannsins við sjálfan sig og veru sína í heiminum býr að baki allri vísindalegri þekkingarleit. Vísindin hafa losnað úr tengslum við þennan frumspekilega grundvöll sinn og geta því ekki annað af sér en brotkenndar myndir af veruleikanum. Rökhugsun og þekkingarleit í anda aðferðafræðifræði raunhyggju, sem leiðir óhjákvæmilega til smættarhyggju, munu aldrei geta höndlað hinn dýpri veruleika mannlegs lífs.

Carnap hæddist óskaplega að þessum fyrirlestri Heideggers vegna þess að í honum er mannleg jaðarreynsla (angistar og leiðinda) talin vera fyrirbæri sem lýkur upp fyrir manninum að hann hafi ekkert hald, engan fastan grunn til að standa á og Heidegger kallaði tóm eða neind. Tilgáta Heideggers er sú að slík reynsla veiti frumspekilega innsýn í veruleikann eða sjálfa veruna. Carnap hélt því fram að hugtak á borð við neind væri tómt bull og fullyrti að frumspeki væri ekki annað en viðleitni heimspekinga til að höndla einhverja óræða lífstilfinningu sem þeir ættu betur að láta listamönnum eftir. Hlutverk réttnefndrar heimspeki væri hins vegar að taka veru­leikann föstum tökum með hjálp raunvísindalegra aðferða og tungumáls sem væri í senn röklegt og gagnsætt.

Hugleiðingar Heideggers um neind og veru eru einhver óræðasti kaflinn í sögu 20. aldar meginlandsheimspeki, og einmitt sú tegund hugsunar sem getur leitt út í andskynsemishyggju og jafnvel gerviguðfræði að dómi Critchleys. Heimspeki Carnaps var hins vegar ekki síður afvegaleidd, eins og nemandi hans, W. V. Quine, átti síðar eftir að sýna fram á í frægri ritgerð um kreddur raunhyggjunnar. Carnap og félagar í Vínarhópnum leiddust til að halda að það væri beint samband milli orða og setninga annars vegar og veruleikans sem þau tjá hins vegar. Heidegger gat þess vegna réttilega vísað ásökun Carnaps um frumspeki til föðurhúsanna vegna þess að kenning Carnaps byggði á því sem Wilfrid Sellars kallaði síðar „goðsögnina um hið gefna.“ Þegar upp er staðið telur Critchley að þessir andstæðingar hafi magnað upp sundurlyndi heimspekinnar. Þeim var hins vegar ekki alls varnað. Í einu beinu vísan sinni til Carnaps viðurkenndi Heidegger að milli þeirra lægi það sem væri „hin dulda miðja hugsunarinnar.“ Critchley tekur Heidegger á orðinu því í lokakafla bókarinnar tekur hann sér fyrir hendur en að sýna hvernig heimspekin geti numið þessa duldu miðju hugsunarinnar einmitt með því að forðast öfgar vísinda- og andskynsemishyggju.

Síðasti kafli bókar Critchleys um meginlandsheimspeki er jafnframt sá persónulegasti því hér fjallar hann um þá grein heimspeki sem stendur honum sjálfum næst. Hann telur að fyrirbærafræðin sem Edmund Husserl lagði grunn að sé sú grein heimspekinnar sem geti sýnt fram á að vísindi séu bara ein mikilvæg gerð þekkingar meðal annarra án þess að falla í gryfju andskynsemishyggju.

Tilvísanir

1. „Analytic philosophy“, í Ted Honderich (ritstj.), The Oxford Companion to Philosophy, (Oxford: Oxford University Press), 1995, 30.

2. „Continental philosophy“, í Ted Honderich (ritstj.), The Oxford Companion to Philosophy, (Oxford: Oxford University Press), 1995, 161.

3. Sama rit, 163.

4. Sama rit, 163.

5. John McCumber, Time in the Ditch. American Philosophy and the McCarthy Era, Chicago: Evanston: Northwestern University Press, 2001.

6. Victor Farías, Heidegger and Nazism, Philadelphia: Temple University Press, 1991.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *