Að stoppa í götin

eftir Brynhildi Heiðardóttur Ómarsdóttur

John Stuart Mill: Kúgun kvenna. Þýðandi Sigurður Jónasson, með formála eftir Auði Styrkársdóttur. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2003. 2. útgáfa. 371 bls.

Árið 1997 kom út í flokki Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags Kúgun kvenna eftir John Stuart Mill. Í því riti voru einnig birtar tvær íslenskar ritgerðir, „Um frelsi og menntun kvenna“ frá 1885 eftir Pál Briem og ritgerð Bríetar Bjarnhéðinsdóttur „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna“ frá 1887. Formálann að útgáfunni skrifaði Auður Styrkársdóttir. Og nú á síðasta ári gaf Bókmenntafélagið út aðra útgáfu þessa rits, þar sem við bætist stuttur eftirmáli Þórs Jakobssonar um Sigurð Jónasson, þýðanda verksins.

Kúgun kvenna eða The Subjection of Women eftir J. S. Mill kom fyrst út í Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi árið 1869. Ritið barst snemma til Íslands, fyrst í ensku útgáfunni og í danskri þýðingu Georgs Brandesar, en síðan í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar sem gefin var út af Hinu íslenska kvenfélagi aldamótaárið 1900. Átti þessi bók eftir að hafa mikil áhrif á framvindu íslenskrar kvenfrelsisbaráttu og á hugmyndir Íslendinga um jafnan rétt einstaklinga og kynjanna.

Mill setur fram í Kúgun kvenna hugmyndir sínar um samskipti kynjanna á stílhreinu og fallegu máli sem nýtur sín vel í þýðingu Sigurðar Jónassonar. Hugmyndin sem liggur til grundvallar verkinu er einföld. Mill útskýrir samskiptamynstur kynjanna sem valdasamband milli einstaklinga. Að mati Mills er samband kynjanna ofbeldi, þar sem einn einstaklingur er ofurseldur öðrum einstaklingi, lagalega jafnt sem samfélags- lega. Mill hikar ekki við að nota orðið „þrælahald“ til að lýsa þessu sambandi og kallar kynjamisrétti hið eina tilfelli samtímans þar sem „mannleg vera með óskertum hæfileikum er ofurseld annarri mannlegri veru“ (229). Þetta þrælahald hamlar öllum framförum samfélagsins.

Mill telur að samband kynjanna sé grundvöllur samfélagslegrar uppbyggingar, og að sé jafnrétti ekki til staðar milli kynjanna, muni jafnrétti og frelsi aldrei eiga sér stað innan samfélagsins. Hann telur brýnt að komið sé á nýju fyrirkomulagi þar sem fullkominn jöfnuður ríki meðal kynjanna „þannig að hvorugt hafi nokkur forréttindi eða völd og hvorugt verði með lögum útilokað frá nokkru því sem hitt hefur“ (69). Mill hvetur til rækilegrar endurskoðunar á viðurkenndum hugmyndum samfélagsins, að mál séu tekin frá rótum og ekki sé látið staðar numið við almennar og órökstuddar kröfur. Eina leiðin til að halda áfram framþróun samfélagsins er að læra af reynslunni, og segir Mill að því verði nú þegar að prófa það fyrirkomulag að kynin séu jöfn. Eftir þá tilraun verði fyrst hægt að meta hvort fyrirkomulagið sé betra fyrir samfélagið (108).

Þessi breyting mun að sjálfsögðu aldrei eiga sér stað fyrr en að einstaklingar hafi lært sjálfstæða hugsun. Mill greinir doða í samfélagi sínu, doða sem á rót sína að rekja til þess að einstaklingar innan samfélagsins séu svo samangrónir umhverfi sínu að þeir hugsi sjaldnast um hvort hinar ýmsu hugmyndir og fordómar séu réttmætir eða óhjákvæmilegir (85). Rót vandans sé að finna í uppeldi einstaklinga, sérstaklega kvenna. Mill bendir á að konur séu aldar upp til að hlýða karlmanninum og að karlmaðurinn sé alinn til að stjórna konunni. Staðfestingu á stöðu sinni innan samfélagsins finni síðan bæði tvö í því að fylgja þessum reglum til hlítar (97).

Mill segir að samfélagsbreytingar verði að eiga upphaf sitt innan heimilisins. Heimilið er „siðferðisleg uppeldisstofnun“ (154) og ef heimilislíf er byggt á réttlátum grundvelli, þá er það „hinn sanni skóli fyrir dyggðir frelsisins“ (157). Því eru hjónabandið og samskipti hjóna afar mikilvæg í hugmyndaheimi Mills. Hann vill breyta hinu hefðbundna nítjándu aldar hjónabandi sem byggist á valdi og valdbeitingu og er „gróðrastía … skaplasta“ (141). Hann setur upp nýtt líkan að hjónabandi og líkir hjónabandssamningi við verslunarsamning, þar sem tveir aðilar vinna saman að fyrirtæki þar sem samþykki liggi fyrir um hver stjórnar hverju. Þessi verkaskipting, eða valdaskipting eins og Mill kallar hana einnig, á ekki að vera fyrirskipuð með lögum, heldur með samkomulagi hvers og eins (147).

Þegar eðli hjónabandsins hefur verið breytt í átt til jafnréttis, munu víðtækari samfélagsbreytingar óhjákvæmilega eiga sér stað og þróun mannkynsins halda áfram. Mikill hluti bókar Mills er því tileinkaður hugmyndum hans um mikilvægi hjónabandsins, og þá sérstaklega mikilvægi vináttu milli hjóna. Á stundum verða lýsingar hans á hjónaböndum allsvakalegar. Ójafnt valdahlutfall innan hjónabands gera eiginmenn að „djöflum“ og „villidýrum“ sem fela óhemjuskap og eigingirni undir „gljáskán menntunar og menningar“ (139). Á móti beita „uppstökkar og einþykkar konur“ hinum persónulegu vopnum „rifrildisins, húskrossvaldboð[ s] mislyndisins“ gegn viðkvæmum og lingerðum mönnum (142–3). Persónuleg vinátta hjóna er það eina sem getur komið í veg fyrir þessi öfugsnúnu samskipti, vinátta sem ríkir aðeins meðal einstaklinga sem hafa komið sér saman um réttláta verkaskiptingu. Og þegar hjónabandið er byggt á jafnréttisgrundvelli mun samfélagið óhjákvæmilega hagnast. Eins og Mill klykkir út með að segja: „Allar síngirnistilfinningar, sjálfstilbeiðsla og óréttlát sérdrægni sem nú ríkja hjá mannkyninu eiga upphaf og rót sína að rekja til hinnar núverandi tilhöfunnar á hlutfallinu milli manns og konu og sjúga aðalnæringu sína frá því“ (230).

Þær hugmyndir sem Mill setti fram í Kúgun kvenna áttu eftir að hafa gífurleg áhrif á kvenfrelsisbaráttu nítjándu og tuttugustu aldarinnar, og má segja að þær eigi enn rétt á sér í dag. Hann hefur þó oft verið gagnrýndur af síðari tíma fræðingum fyrir þær mótsagnir sem finnast í textanum. Í fljótu bragði er helsta mótsögnin sú að eftir að hafa lagt ofuráherslu á gildi uppeldisins og hæfileika einstaklingsins til að uppfylla hvaða hlutverk sem hann kýs dettur Mill í gryfju eðlishyggjunnar og staðhæfir að meirihluti kvenna myndi hvort eð er „kjósa hina einu stöðu þar sem enginn keppti við þær“, það er starf húsmóður (169). Enda er það eitt „sem vér [karlmenn…] þurfum aldrei að bera neina áhyggju fyrir. Þau verk sem eru gagnstæð náttúrufari kvenna munu þær aldrei fást til að vinna þótt þeim sé gefinn laus taumurinn“ (121). Þessar mótsagnir eru þó skiljanlegar ef tekið er tillit til þess tíma sem verkið er skrifað á, og til þess ritforms sem verkið þarf að uppfylla, það er sem fortölurit sem leitast við að sannfæra lesendur um gildi hugmynda sem eru andstæðar þeim hugmyndaheimi sem þeir eru aldir upp í.

Vel er staðið að útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags á þessu grundvallarriti femínískrar hugsunar og er hún styrkt með birtingu fjölda greina og ritgerða sem tengjast frumtextanum. Eftirmáli Þórs Jakobssonar sem birtist í þessari annarri útgáfu á Kúgun kvenna er gott dæmi um hversu gífurlega mikilvægt starf Bókmenntafélagið vinnur með útgáfu sinni á Lærdómsritunum. Hinn íslenski þýðandi verksins hefur löngum verið nefndur Sigurður Jónsson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. En þegar Kúgun kvenna birtist svo í útgáfu Lærdómsritanna árið 1997 uppgötvar glöggur lesandi að þessi nafngreining geti engan veginn staðist. Þór rekur rökin fyrir því að átt sé við ömmubróður eiginkonu sinnar, Sigurð Jónasson, sem lést árið 1887 aðeins 23 ára að aldri. Þór skrifar stutta lýsingu á Sigurði fyrir þessa nýju útgáfu af Kúgun kvenna og endurreisir ungan eldhuga sem gleymst hefur í íslenskri hugmyndasögu.

Í þessari útgáfu, líkt og þeirri fyrstu árið 1997, stendur formáli Auðar Styrkársdóttur upp úr. Þessi formáli er enn í dag eitt besta yfirlit á íslenskri tungu um kvenfrelsisbaráttu nítjándu aldarinnar. Auður rekur í formála sínum hugmyndafræðilegar og efnahagslegar forsendur kvenfrelsisbaráttunnar og gefur góða yfirsýn yfir hina ýmsu anga baráttu nítjándu aldarinnar í Evrópu, Bandaríkjunum og á Íslandi. Formáli Auðar er mikilvægt innlegg í íslenska umræðu um kvenfrelsi og kvennasögu. Hún rekur sögu helstu frumkvöðla íslenskrar kvenfrelsisbaráttu, svo sem Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, Magnúsar Eiríkssonar og Páls Briem. Einnig setur Auður íslensku kvenfrelsisbaráttuna í víðara samhengi evrópskrar hugmyndafræði. Hún rekur áhrif erlendra hugmynda á baráttu Íslendinga fyrir kvenfrelsi, hvernig þessar erlendu hugmyndir voru aðlagaðar íslenskum veruleika og sögu og hvernig ný íslensk orðræða um frelsi kvenna verður til.

Í formálanum kynnir Auður í fyrsta skipti hugmyndir erlendra rithöfunda á borð við Mary Astell og Mary Wollstonecraft fyrir íslenskum lesendum. Astell var uppi á Englandi um aldamótin 1700 og gaf út rit sem gagnrýndu hugmyndir samtímamanna hennar um frelsishugsjónina og samfélagsskipan. Samlandi hennar, Wollstonecraft, var uppi einni öld síðar og hefur haft gríðarleg áhrif á hugmyndasögu Englendinga. Wollstonecraft var í hópi hugsuða sem voru hvað vinsælastir í lok átjándu aldarinnar á Englandi, margir hverjir undir áhrifum frá hugmyndafræði frönsku byltingarinnar. Hún gagnrýndi hiklaust skoðanabræður sína fyrir hræsni, þegar þeir tóku upp fána byltingarinnar til að berjast fyrir frelsi einstaklingsins á meðan þeir hunsuðu algjörlega réttindi kvenna. Bók hennar, A Vindication of the Rights of Woman, er grundvallarrit evrópskrar stjórnmálasögu. Bókin kom út árið 1792 og þær hugmyndir sem raktar eru þar um menntun kvenna og frelsi einstaklingsins innan samfélagsins eru að mörgu leyti forveri þeirra hugmynda sem birtust áttatíu árum seinna í verki Mills. Formáli Auðar dýpkar skilning lesandans á hugmyndum Mills með því að rekja sögu þessara forvera hans. Á sama tíma er formálinn einstakur fyrir það að kynna þessa kvenlegu hlið evrópskrar hugmyndasögu fyrir íslenskum lesendum, sem oftast þurfa að leita til fræðirita á erlendum tungumálum til að fræðast um kvenrithöfunda og -hugsuði fyrri alda.

Og kannski er óþarft að taka fram að þessi formáli Auðar er einstakur fyrir það að þetta er fyrsti formáli eftir íslenska fræðikonu sem er gefinn út í Lærdómsritaflokki Bókmenntafélagsins. Á það vel við í þessari útgáfu þar sem fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, sem birtist sem eftirmáli að texta Johns Stuarts Mills, er enn í dag eini textinn saminn af konu sem gefinn hefur verið út í Lærdómsritunum. Verður vonandi gerð bragarbót á þessum skorti á verkum kvenna í útgáfum Bókmenntafélagsins á næstu árum, enda segir nýr ritstjóri Lærdómsritanna, Ólafur Páll Jónsson, í nýlegum kynningarbæklingi að „það [sé] einmitt hlutverk Lærdómsritanna að fylla upp í götin“.

Gleðilegt er að sjá að eftirspurnin að fyrstu prentun af Kúgun kvenna hafi kallað á nýja útgáfu bókarinnar. Hugmyndir Mills um kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna eiga enn í dag jafn mikið erindi við lesendur og fyrir 135 árum.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *