Að gefa blindri siðmenningunni sýn

eftir Geir Sigurðsson

Jóhann Páll Árnason og David Roberts: Elias Canetti´s Counter-Image of Society. Crowds, Power,Transformation. Rochester, Suffolk: Camden House, 2004. 166 bls.

Ærinn vandi er þeim á höndum sem hyggjast skýra skrif hugsuða sem tjá hugleiðingar sínar með ókerfisbundnum hætti, til að mynda í skáldsögum, spakmælum eða ljóðum, og fylgja ekki hefðbundnu formi vestrænnar fræðilegrar og röklegrar umræðu. Fjölmargir þessara hugsuða tjá sig með þessum óhefðbundna hætti einmitt vegna þess að fyrir þeim vakir að teygja hugsun sína út fyrir þann ramma sem frumkvöðlar vestrænnar fræðimennsku hafa fellt hana í. Það er því eðlilegt að spyrja hvort kerfisbundin eða hefðbundin ritskýring á slíkum skrifum stuðli ekki sjálfkrafa að misskilningi þeirra.

Í bók Jóhanns Páls Árnasonar og David Roberts um Elías Canetti sem hér skal fjallað um sér lesandinn glöggt að höfundarnir hafa velt fyrir sér þessum vanda. Efnistök þeirra bera ekki aðeins vott um djúphygli og fræðilega fágun heldur einnig um þá miklu virðingu sem þeir bera fyrir Canetti og séreinkennum hans sem rithöfundar og heimspekings.

Canetti lifði stormasama tíma sem settu höfuðmark sitt á öll hans skrif. Hann fæddist í Búlgaríu árið 1905 og stundaði síðan nám í Vín og Zürich. Þar sem hann var af gyðinglegum uppruna flúði hann árið 1938 undan ógn nasista til Parísar og þaðan til Lundúna. Að stríðinu loknu bjó hann áfram í Bretlandi en ól einnig mikinn hluta aldurs síns í Zürich þar sem hann lést árið 1994. Segja mætti að útlaginn og flakkarinn Canetti hafi aðeins átt sér eitt heimili sem hann yfirgaf aldrei: hina þýsku tungu sem hann skrifaði öll sín verk á. Canetti lét eftir sig mikið safn ólíkra ritverka, þar á meðal skáldsögu, þrjú leikrit, mikið safn spakmæla og alls kyns vangaveltna (Aufzeichnungen). Skrif hans vöktu ávallt mikla athygli og fyrir þau hlaut hann margvíslegar viðurkenningar, þar á meðal bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1981. Að frátaldri skáldsögu hans (Die Blendung) þykja ókerfisbundnar rannsóknir hans sem komu út undir titlinum Múgur og vald (Masse und Macht) einna markverðastar. Þessi rit, auk snilldarlegra og ögrandi vangaveltna hans, sem kvelja lesandann með því að láta einungis skína í fyllri merkingu sína, leika stærstu hlutverkin í rannsókn Jóhanns Páls Árnasonar og Davids Roberts.

Viðfangsefni þeirra Jóhanns og Roberts er nokkuð myrk samfélagsmynd Canettis, hugmyndir hans um hlutverk og samband múgs og valds, skýringar á alræðishyggju og tilraunaskrif um umsköpun (Verwandlung) og framtíðarvon mannsins. Í inngangi benda höfundar á að þrátt fyrir almenna viðurkenningu Canettis sem rithöfundar hafi farið lítið fyrir viðleitni til að taka hann alvarlega innan mannvísinda. Jóhann telur síðar upp helstu vanda sem fylgja því að gera heimspekilega úttekt á skrifum Canettis (s. 86 o.áfr.). Þau eru í fyrsta lagi ófullgerð. Canetti ætlaði sér til dæmis að skrifa annað bindi við Múg og vald en úr því varð ekki. Í annan stað setur hann fram hugtök, eða öllu heldur ímyndir, án skilgreininga eða kerfisbindingar. Í þriðja lagi er notkun hans á mannfræðilegum heimildum svo víð og breið að erfitt er að henda reiður á þeim. Þrátt fyrir þessi vandkvæði telja þeir Jóhann og Roberts að Canetti beri að taka alvarlega sem menningarrýni og að innsýn hans geri okkur kleift að öðlast betri skilning á vanda nútíma siðmenningar.

Jóhann og Roberts skipta bókinni á milli sín sem ljær henni nokkuð óvenjulegt yfirbragð. Fyrstu þrír kaflarnir koma í hlut Roberts en hinir síðustu tveir eru samdir af Jóhanni. Þetta hefur óneitanlega þau áhrif á bókina að heildarmynd hennar einkennist af nokkru ójafnvægi, þar sem framvinda sú sem lesandinn á að öllu jöfnu von á er klippt í sundur í miðið. Auk þessa ber eilítið á því að þeir Jóhann og Roberts fjalli um nánast sama efni og vitna þá gjarnan í sömu orð Canettis, til dæmis í köflum þeirra um viðhorf Canettis til trúarbragða og goðsagna. Þar hafa þeir auk þess ekki haft samráð um það í hvaða útgáfu af bók Canettis, Umdæmi mannsins (Die Provinz des Menschen), ætti að vitna (sbr. s. 68 og 135).

Þessir smávægilegu annmarkar breyta því ekki að hér er um afar vandaða og frumlega umfjöllun að ræða. Það verður þó seint sagt að hún sé auðveld aflestrar. Það sem gerir lesandanum erfitt fyrir er einmitt frumleiki bókarinnar hvað efnistök varðar. Höfundarnir leitast báðir við að öðlast aðgang að hugsun Canettis eftir krókaleiðum, það er að segja, fyrir tilstilli annarra höfunda sem hafa fjallað með kerfisbundnari hætti um skyld efni sem þeir síðan bera saman við og í flestum tilfellum greina frá nálgun Canettis sjálfs. Þær kröfur eru því gerðar til lesandans að hann þarf að búa yfir verulegri þekkingu á hugmyndum afar breiðs hóps samfélagsgagnrýnenda, sálfræðinga, heimspekinga og félagsfræðinga til að átta sig fyllilega á séreinkennum Canettis sem hugsuðar. Það verður því að segjast að ritið er ekki aðgengilegt breiðum lesendahópi. En án vafa hefur það hvort eð er ekki verið markmið höfunda.

Hér skal veitt stutt og óhjákvæmilega yfirborðskennt yfirlit yfir fimm kafla bókarinnar. „The Auto-da-Fé of Civilization“, fyrsti kaflinn, er samfélagsgagnrýnin umfjöllun um skáldsögu Canettis frá 1935, Die Blendung, og tjáningu hennar á hugmyndum höfundar um múginn. Skáldsagan er harmleikur um sérvitran kínafræðing í Vínarborg sem er neyddur til að yfirgefa öruggan fílabeinsturninn í stórbrotnu 25000 binda bókasafni sínu og leggja lag sitt við alls kyns undirheimalýð borgarinnar. Vaxandi firring aðalpersónunnar nær hámarki í lok sögunnar þegar hann leggur eld að bókasafninu og brennur með því sjálfur. Verkið einskorðast þó ekki við persónulegan harmleik heldur er um leið táknræn framsetning á hnignun og hruni vestrænnar siðmenningar. Illþýðanlegur titill skáldsögunnar ber samstundis merki um slíka gagnrýni. „Blendung“ er nafnyrðing sagnorðsins „blenden “, að „blinda“ eða „gera blindan“. Roberts bendir á að Canetti hafi beitt „Blendung “ sem neitunarformi orðsins „Bildung “ („menntun“ eða „þroski“) og að fyrir honum hafi vakað að tefla fram blindu-skáldsögu sinni gegn dæmigerðum frásagnarmáta borgarastéttarinnar sem kenndur er við „Bildungsroman “ eða „þroskaskáldsögu“ (s. 9). Enskur titill Die Blendung er Auto-da-Fé, eða Trúvillingabrenna, og þaðan er nafn kaflans fengið. Upphaflega ætlaði Canetti skáld- sögunni að heita Kant fängt Feuer eða Kviknað í Kant og gefur sá titill klárlega til kynna and-rökhyggju og and-vísindahyggju Canettis en í vangaveltum sínum og spakmælum þreyttist hann aldrei á að gagnrýna og hæða hina módernísku trú á endalausar framfarir og þá tæknidýrkun sem einkenndi fyrstu áratugi 20. aldarinnar.

Í öðrum kafla, „The Natural History of Modernity“, einbeitir Roberts sér aukið aðMúgi og valdi og fjallar um hana í tengslum við uppgang nasisma og hugmyndir Canettis um mótsagnakennda tilhneigingu einstaklingsins til að tryggja sjálfsvarðveislu sína með því að leysa sjálfan sig upp í múginum. Til samanburðar beitir hann annars vegar kenningum Theodors Adorno og Max Horkheimer um tilhneigingar upplýsingaheimspekinnar til alræðishyggju og hins vegar umfjöllun Hönnu Arendt um valdagræðgi og uppruna alræðishyggju. Canetti sker sig frá þessum hugsuðum þar sem hann hafnar skýringum sem byggja á afmörkuðum sögulegum kringumstæðum. Þess í stað leitar hann að dýpri skýringu í mótsögnum manneðlisins sjálfs eins og það hefur þróast – eða öfugþróast – samfara hnignun siðmenningarinnar.

Þriðji kaflinn, „Religion, Crowds, and Power“, tekur á fyrirbærafræðilegri umfjöllun Canettis um trúarbrögð og goðsagnir, innri tengslum þeirra við stjórnmál og áhrif þeirra á múg og vald. Það er síðan í fjórða kafla sem Jóhann Páll tekur við pennanum og ritar titilkafla bókarinnar, „Canetti’s Counter-Image of Society“. Jóhann beitir þar Canetti sem eins konar gagn-hugsuði á gagn-hugsun nútíma félagsfræði sem hann finnur í hópsálfræði. Hér nálgast Jóhann nokkuð umfjöllun Roberts í öðrum kafla um eins konar náttúrulega „múghvöt“ mannsins, enda þótt hann beri þær saman við kenningar annarra hugsuða. Hann einbeitir sér síðan aukið að sérkennilegum skilningi Canettis á valdi, rótum þess í tengslum manns og náttúru og þróun þess innan alræðissamfélags þar sem múgurinn leysir það úr læðingi en er samtímis fórnarlamb þess. Á lokasíðum kaflans gerir Jóhann að umtalsefni nokkuð dularfullar og óneitanlega myrkar mannfræðihugmyndir Canettis sem snúa að valdi, múgi og umsköpun mannsins.

Umsköpun mannsins er svo helsta viðfangsefni lokakafla bókarinnar, „The Subversive Sources of Power“. Þessi umfjöllun skerpir enn á skilningi Canettis á uppruna og eðli valds með tilliti til viðhorfs hans til kenninga Tómasar Hobbes um sama efni. Canetti var sammála Hobbes í því að valdshugtakið verðskuldi sérstakan sess þegar reynt er að öðlast skilning á mannlegu eðli og samfélagi. En hann taldi jafnframt að Hobbes hafi einbeitt sér um of að síngirni og sjálfsvarðveisluhvöt einstaklingsins og gleymt að taka tillit til annarra og ekki síður mikilvægra þátta í manneðlinu. Hér er aftur vikið að mannfræði Canettis og myrkra hugmynda hans um umsköpun sem tjáð er meðal annars með tilvísun til goðsagna. Umsköpunin virðist snúast um sveigjanlegt og á vissan hátt mótsagnakennt eðli mannsins. Canetti gerir tilraun til að ögra manninum til að snúa umskiptum sínum í farvegi sem stuðla að friðsamlegu samlífi í veröldinni. Sjálfur segist hann einungis hafa fundið lykilinn að dyrunum til slíkra umskipta og stungið honum í skrána. En það þarf meira til svo að lyklinum verði snúið og dyrunum hrundið upp. Þessi mögulega opnun út úr blindgötunni er tjáð í einu kjarnyrtasta spakmæli Canettis sem Jóhann og Roberts gera að opnunartilvitnun sinni í upphafi bókar: „Skapandi hugsun mannsins er endalaus. Í þessari bölvun býr hinsta vonin.“ (Umdæmi mannsins, 92).

Umsköpunin birtist einnig í þeirri getu mannsins til að setja sig í spor annarra, skilja þá og breytast eða umskapast fyrir vikið. Jóhann kemur hér inn á þær breytingar sem eiga sér stað á þeim sem gera sér far um að skilja aðra menning- arheima og hvernig slík reynsla breytir sýn þeirra á það sem þeir tóku áður að gefnu. Hann nefnir síðan þá draumsýn Canettis, sem er æðsta birtingarmynd umsköpunarinnar, að mannfólkið geti unnið bug á sjúkleikum valdagræðginnar og vitnar í orð hans úr Umdæmi mannsins: „Að verða að borg, heilu landi, heimshluta, og ekki leggja neitt undir sig.“ (120)

Lokasíður bókarinnar eru tileinkaðar menningarsögu Canettis um vald þar sem trúarbrögð og goðsögur leika sem fyrr stærsta hlutverkið. Hér ægir öllu saman, rómverskum og mesapótamískum goðsögum, shamanisma, gyðingkristnu trúarhefðunum, búddisma, kínverskum trúarbrögðum, o.s.frv. og minnir óþægilega á forvitnilegar en heldur vafasamar samanburðarrannsóknir mannfræðingsins James Frazer í fjölbindaverki sínu frá 1890, Gullnu trjágreininni (The Golden Bough). Hér hefði ef til vill mátt taka Canetti gagnrýnni tökum því rannsóknir sem þessar hljóta ávallt að vera settar verulegum takmörkunum. Það er til dæmis vafasamt að unnt sé að hafa fullnægjandi skilning á svo mörgum og mismunandi menningarbirtingum sem marktækur samanburður þeirra krefðist. En Canetti var að sjálfsögðu barn síns tíma og auk þess einkennast efnistök hans ekki af fræðilegri umfjöllun heldur af knappskrifaðri og ögrandi innsýn, vísbendingum og tilraunum.

Bók Jóhanns Páls Árnasonar og Davids Roberts er tvímælalaust verulegt afrek og mikill fengur fyrir þá sem eru reiðubúnir að leggja talsvert á sig til að öðlast skilning á svo djúpum og ríkum hugsuði sem Elias Canetti. Hugsanlega hefði bókin getað verið betur skipulögð til að forðast það að sömu efni skjóti sífellt upp kollinum. Þar hefðu höfundar mátt hafa meira samráð sín á milli. Einnig hefði mátt reyna að takmarka umfang þeirra höfunda sem fjallað er um til að skerpa linsuna á Canetti sjálfan. En þegar skrifa skal um svo sleipan hugsuð sem Canetti er ef til vill eina leiðin sú að vera sjálfur sleipur – og helst enn sleipari.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *