Sigurður Pálsson skrifar hér á Heimspekivefinn pistil sem hann nefnir „Trúfræðsla, siðgæðisuppeldi og trúaruppeldi“1 og tiltekur greinar eftir Salvöru Nordal2 og sjálfa mig3 sem kveikju hans. Sigurður tekur fram að ekki sé um svargrein að ræða en stenst þó ekki þá freistingu að hnýta í greinina mína. Ekkert er svo sem við það að athuga í sjálfu sér en verra þykir mér hversu villandi lýsing hans á skoðunum mínum er. Sigurður segir þetta:
Eyja telur hins vegar að það sé nánast andstyggðin ein sem kristindómurinn hefur lagt til vestrænnar menningar. Því til stuðnings telur hún upp margvíslega glæpi sem framdir hafa verið af Vesturlandabúum og kristinni kirkju. Það flokkast ekki með afrekum að romsa upp glæpamönnum sem hafa skreytt sig með kristilegum merkimiðum. Með sömu rökum eru þeir sem treysta skynsemi mannsins búnir að koma sjálfum sér á hálan ís, því ekki eru þau fá óhæfuverkin sem unnin hafa verið í nafni hennar og með tólum sem eru afkvæmi hennar. Kannski ættum við að fara að hossa heimskunni? 4
Hér virðist það samhengi sem upptalning mín á „kristnum“ syndum var sett fram í algjörlega hafa farið fram hjá Sigurði og úr verður mikil skrumskæling á því sem ég sagði í raun og veru. Ég hélt því hvergi fram að kristindómurinn hefði einungis lagt slæma hluti til vestrænnar menningar. Upptalning mín á illum verkum og hatursfullum skoðunum sem merkt hafa verið kristni var sett fram til að benda á að kristnin hefði ekki einungis verið kveikja góðra verka. Tilefni þess voru skrif Salvarar í þá veru að kristið siðferði og vestræn menning hefðu einhverja yfirburði á heimsvísu og tilgangur upptalningarinnar var að andmæla því. Jafnframt var ég að benda á að merkimiðinn „kristni“ væri ekki sérlega traustur gæðastimpill. Sú skoðun sem ég set fram í grein minni er sem sagt sú að kristin trú hafi enga siðferðilega sérstöðu fram yfir önnur trúarbrögð eða lífsskoðanir, enda hafi hún verið tínd til sem uppspretta jafnt illvirkja sem mannúðarverka. Á þeirri skoðun og hinni að „það sé nánast andstyggðin ein sem kristindómurinn hefur lagt til vestrænnar menningar“ er mikilvægur munur.
Undir lok greinar minnar lýsi ég einnig þeirri skoðun minni að ekki sé hægt að tala um kristni (eða önnur trúarbrögð) sem einhverja einangraða og afmarkaða einingu sem „leggi til“ menningarinnar. Ég tel að trúin sé bæði afurð menningar og hluti hennar og að tengsl hennar við þann menningarheim sem hún finnst í hljóti alltaf að verða gagnvirk þannig að menningarheimurinn hefur áhrif á trúna rétt eins og trúin á menninguna. Skýrt dæmi um þetta er einmitt það hve hugmyndir um „kristið siðferði“ hafa verið (og eru enn!) mismunandi milli menningarheima og –hópa. Því er það mikil einföldun að gefa í skyn að ég hafi sagt að kristindómurinn hafi lagt tiltekna hluti til vestrænnar menningar, rétt eins og ég haldi að mótun kristninnar eigi sér einhvern veginn stað utan menningarinnar. Svo kann að vera að Sigurður hafi ekki meint þessa lýsingu svo bókstaflega og að hann leggi annan skilning en ég í það þegar tekið er svona til orða. En til að hlutirnir séu skýrir kýs ég að sneiða hjá orðalagi sem þessu sem kann að gefa villandi mynd af því hvernig ég tel að hlutirnir gangi fyrir sig.
Hvað varðar málflutning Sigurðar að öðru leyti er mér satt að segja ekki að fullu ljóst hvert hann vill stefna, enda virðist fremur um spurningar og hugleiðingar að ræða hjá honum en einhverja skýra stefnuyfirlýsingu. Mér er ekki einu sinni ljóst af máli hans hvort hann telur að trúaruppeldi í skólum á vegum hins opinbera sé æskilegt, enda bendir hann á ýmis vandkvæði á því. Undir sum af orðum Sigurðar get ég tekið heilshugar, til dæmis þessi:
[Skólanum] ber einnig að leggja að leggja áherslu á tilvistarspurningar. Honum ber að glíma með nemendum sínum við hvers vegna og til hvers spurningar, spurningar sem snúast um mannskilning, gildismat, siðferði, trú og lífsviðhorf. Skólinn á vissulega ekki að vera vígvöllur ólíkra viðhorfa eins og sumir kunna að óttast að hann verði ef tilgangsspurningum verður hleypt að í ríkara mæl en verið hefur. En skólinn á tvímælalaust að vera staður þar sem nemendur öðlast þekkingu og eru fengin orð og hugtök og tamin upplýst orðræða sem nothæf er í glímunni um viðhorf og gildi. Í skólakerfinu á að þjálfa fólk í heiðarlegri og fordómalausri glímu um álitamál undir formerkjum skilnings og umburðarlyndis. Skólinn á að vera vettvangur þar sem einnig er tekist á um trúarafstöðu á heiðarlegan og gagnrýninn hátt, vegna þess að þetta eru álitamál sem skipta máli.5
Ég fæ ekki séð hvernig það sem kallað hefur verið trúaruppeldi, eða einhliða innræting einna trúarbragða, getur samrýmst þeim markmiðum sem að ofan er lýst. Það að kynna aðeins eina gerð svara fyrir nemendunum, telja þeim trú um að tiltekin trúarbrögð hafi nánast einkaleyfi á öllu því sem viðkemur siðferði og að það að vera siðferðisvera sé háð trú á tiltekna(r) yfirnáttúrlega(r) verur hlýtur beinlínis að vinna gegn því hlutverki skólanna sem Sigurður lýsir svo fallega.
Af máli Sigurðar má reyndar ráða að hann hafi einhverjar áhyggjur af því að það að gera mörgum trúarbrögðum og lífsskoðunum jafnhátt undir höfði í skólanum jafngildi afstæðishyggju sem skilji nemendur eftir ruglaða og rótlausa. Þessar áhyggjur tel ég á misskilningi byggðar. Það að kynna til sögunnar mismunandi svarmöguleika við spurningum sem ekki hefur verið endanlega úr skorið (sem ég geri nú ráð fyrir að gildi um ýmsar spurningar um trúmál) og hvetja nemendur til að vega þá og meta út frá eigin skynsemi jafngildir ekki því að halda því fram að öll þessi svör séu jafngild eða að tvær ósamrýmanlegar staðhæfingar geti verið sannar á sama tíma.
Fleiri rök gegn trúaruppeldi í skólum má finna í fyrri grein minni hér á þessum vettvangi.6 Ég tel ástæðulaust að endurtaka þau, enda fæ ég ekki séð að Sigurður geri neina tilraun til að hrekja þau.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir
Tilvísanir
1. Sigurður (2006).
2. Salvör (2005).
3. Eyja (2006).
4. Sigurður (2006), síða 1.
5. Sigurður (2006), síða 2.
6. Eyja (2006).
Heimildir:
Eyja Margrét Brynjarsdóttir (2006), „Á að veita börnum trúaruppeldi?“,Heimspekivefurinn.
Salvör Nordal (2005), „Um trúaruppeldi og kennslu í kristnum fræðum“, í Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal og Vilhjálmur Árnason (ritstj.), Hugsað með Páli: ritgerðir til heiðurs Páli Skúlasyni sextugum, Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Sigurður Pálsson (2006), „Trúfræðsla, siðgæðisuppeldi og trúaruppeldi“,Heimspekivefurinn.