Kristján G. Arngrímsson
Ég vil endilega bera af mér þá ásökun að hafa haldið fram einhverskonar „andmenntahyggju“ í viðhorfspistli í Morgunblaðinu 27. maí, eins og Jón Ólafsson segir í grein hér á Heimspekivefnum 2. júlí. Aftur á móti skal ég gangast við því að í téðu Viðhorfi hafi ég verið að andæva því sem ég tel að menntamönnum hætti kannski öðrum fremur við að lenda í, þ.e., öfgafenginni túlkunaráráttu – enda var ég einungis að vara við því sem ég nefndi sjúklegt oflæsi, ekki oflæsi yfirleitt.
Niðurstaðan í umræddum viðhorfspistli var sú, að oflæsi hafi sömu afleiðingar og ólæsi, það komi í veg fyrir að maður geti skilið annað fólk og hefti þannig mannleg samskipti. Þannig var þetta Viðhorf eiginlega bara tilbrigði við stef sem ég hef nokkrum sinnum leikið í Viðhorfum í Morgunblaðinu, þ.e., mikilvægi þess að líta á tungumálið sem samskiptatæki. (Sjá „Ef tungumál er tæki“, Morgunblaðið, 28. júlí 1999; „Fordómar tungunnar“, Morgunblaðið, 31. júlí 1999; „Undir vök að verjast“,Morgunblaðið, 14. janúar 2001; „Tekið ofan fyrir Orwell“, Morgunblaðið, 9. júlí 2003). Þetta er viðhorf til tungumálsins sem ég held að hafi farið halloka á Íslandi, illu heilli, og þá kannski sérstaklega meðal menntamanna í húmanískum fræðum.
Jón segir um pistil minn (og reyndar líka annan pistil eftir nafna minn Kristjánsson, en ég skal engu svara fyrir hann), að honum til grundvallar liggi sú hugmynd „að við búum við einn bókstaflegan eða hversdagslegan skilning á hlutunum, hann sé öðrum skilningi betri og því sé mikilvægt að varðveita hann“. Ég held að ég hafi kannski frekar verið að tala um að þörf sé á einhverjum bókstaflegum eða hversdagslegum skilningi á orðum (fremur en „hlutunum“) í þeirri merkingu að „bókstaflegur“ eða „hversdagslegur“ sé líka sameiginlegur sem flestum. Án slíks skilnings er nefnilega hætt við að öll umræða verði stirð og tafsöm – og því lítil – því að það skortir, ef svo má segja, girðingu utan um hana til að tryggja að allir séu nú áreiðanlega að tala um sömu þúfurnar. Að minnsta kosti er hætt við að það verði lítið um samtöl, og meira af einræðum sem fara fram hlið við hlið (talað í kross, heitir þetta víst). Menn eru hver í sínum heimahögum að skilgreina þúfurnar sínar en koma aldrei saman í neinum sameiginlegum afréttum til að ræða sameiginlegar þúfur vegna þess að þá skortir tækin (sameiginleg orð) til þess.
En þetta er ekki kennilegur vandi um heimspeki – þ.e. um hvað heimspeki er og er ekki – heldur praktískur vandi, um „framkvæmd heimspeki“, ef svo má segja. Og kannski er þetta ástæðan fyrir því hve lítið íslenskir heimspekingar tala saman, eins og Jón kvartar yfir. Það er ekki af teoretískri leti, heldur praktískum vandkvæðum.
10. júlí 2003