Ofsjónir í fermingarveislum

Kristján Arngrímsson ræðir um það sem hann kallar oflæsi í pistli í Morgunblaðinu 27. maí og skopast að fólki sem virðist svo illa haldið af túlkunaráráttu að það missir sjónar á bókstaflegum eða eðlilegum skilningi á texta, en oftúlkar hann og reynir að draga ályktanir víðsfjarri hversdagslegum skilningi.

Það þarf engan oflestur á grein Kristjáns til að sjá í henni ákveðna „andmenntahyggju“ – það er að segja andstöðu við það athæfi margra fræði- og menntamanna að setja hversdagslega reynslu og skilning í nýtt samhengi: Að fara út fyrir bókstaflegan skilning, út fyrir hið viðtekna og túlka reynslu og texta upp á nýtt. Hvað er fræðileg sýn á hlutina annað en oflæsi eða jafnvel ofsjónir þegar öllu er á botninn hvolft?

Eitthvað svipað virðist vera að gerjast í pistli Kristjáns Kristjánssonar sem hann birti hér á heimspekivefnum 13. maí síðastliðinn. Kristján varar við því að gera heimspekilega umræðu að „fermingarveislusnakki“ en óþarflega mikil víðsýni um skoðanir býður þeirri hættu heim að hans mati; þegar menn eru svo víðsýnir að þeir neita sér jafnvel um að mótmæla skoðunum sem þeir þó viti að séu rangar.

Í pistlum þeirra nafnanna liggur sú hugmynd til grundvallar að við búum við einn bókstaflegan eða hversdagslegan skilning á hlutunum, hann sé öðrum skilningi betri og því sé mikilvægt að varðveita hann. Öðrum kosti séum við komin út á hálan ís oflæsis og víðsýni þar sem hver sem er geti sagt hvað sem er og þar sem leikreglurnar krefjist þess að engu sé mótmælt, jafnvel því að lesa stéttaandstæður út úr matseðli á skyndibitastað, svo vísað sé til dæmis sem Kristján Arngrímsson notar. Svo víðsýnt viðhorf til skoðana kennir Kristján Kristjánsson við hið séríslenska menningarfyrirbæri fermingarveisluna og vill þannig gera víðsýni að lesti: Hið dæmigerða samtal fermingarveislunnar þar sem menn reyna að jánka sem ákafast allskonar furðulegum staðhæfingum til þess eins að losna, á meðan þeir troða í sig mat og belgja sig út af drykk, er frábær skrípamynd samræðna en er það dæmi um víðsýni sem gengin er út í öfgar?

Um daginn átti ég langt samtal við kunningja minn um heimspeki. Hann er lítið fyrir heimspeki gefinn og finnst samræður um efni sem mér þykja áhugaverðar og skýrar gjarnan vera hið mesta bull. Í þetta sinn vorum við að tala um Pál Skúlason en þessi kunningi minn kallaði heimspeki hans einmitt fermingarveislusnakk. Það sem kunningi minn átti við með fermingarveislusnakki var í stuttu máli almennt og ofurlítið abstrakt tal um lífið og tilveruna þar sem einn viðmælandinn hefur einkum það markmið að láta hinn eða hina vita af því hvað hann sé gáfaður og að hann sé „hugsandi maður“. Slíkt fólk er oft mjög dómhart og vitnar þá stundum í kennivald skoðunum sínum til fulltingis, til dæmis í Pál Skúlason. Það var því skemmtilegt að sjá stuttu síðar hvernig Kristján stillti viðhorfi Páls gegn of mikilli víðsýni upp sem andstæðu fermingarveislusnakksins.

Að áliti kunningja míns felst fermingarveislusnakk til dæmis í því að tala út í eitt um hvað það sé nú voðalega mikilvægt að grunnskólabörn læri gagnrýna hugsun, útlista svo í löngu máli hvað í henni felist án þess að nokkur sem á hlustar verði fróðari. Eða halda heimsósómaræður um lélega skóla, siðspillingu samfélagsins og fleira af því tagi og krydda þær tilvísunum í rit Páls, nú eða þá Kristjáns Kristjánssonar sjálfs, þó að raunar hafi hann ekki borið á góma í þessu samtali. Það sem Kristján á hinsvegar við með orðinu fermingarveislusnakk virðist vera einhverskonar sýndarrökræða þar sem menn tala saman án þess að nokkur vilji andmæla öðrum og þar sem samræðan fer fram af hálfvelgju, kannski bara til að drepa tímann.

Ég held raunar að það sem kunningi minn var að lýsa eigi við um leiðinlegar samræður almennt en ekkert frekar um fermingarveislur en í tilfelli Kristjáns á fermingarveislan þó enn síður við: Hún er mannamótsform sem einkennist af leiðablandinni örvæntingu og ofáti og hvert umræðuefni hennar er smitað af því. Ef víðsýni einkennir fermingarveislusnakkið þá er það skrítin víðsýni. Þegar ég reyndi að mótmæla kunningja mínum benti ég honum á að kosturinn við Pál sé sá að hann dregur ekki landamæri heimspekinnar, eins og sumir heimspekingar gera, beint og óbeint, eða skiptir henni í tæka heimspeki og ótæka, heldur reynir að koma orðum að þeirri kröfu hverrar manneskju til sjálfrar sín og annarra að leita skuli raka fyrir skoðunum. Hafi ég skilið Pál rétt þá snýst heimspeki um þetta að hans áliti, því að einungis með því að gera kröfu um rök og ærlega afstöðu getum við búist við því að okkur lánist að auðga skilning okkar á sjálfum okkur og því sem í kringum okkur er, en markmið heimspeki er, ef eitthvað, að auka, auðga og dýpka skilninginn á heiminum. Víðsýni er þá ekki fólgin í því að láta gott heita þó að manni virðist röngum skoðunum haldið fram og ennþá síður í því að hafna þeim á staðnum, heldur í því að taka á þeim og ræða þær.

Mér virðist því að Kristján misskilji alveg gagnrýni Páls sem hann vísar til í pistli sínum. Raunveruleg víðsýni felst í því að selja allar fullyrðingar undir sömu skilyrði og heimspeki er einmitt víðsýn þegar hún í stað þess að skipta hlutunum upp fyrirfram biður um samskonar rök fyrir hverju sem er. Tilhneiging margra heimspekinga er að búa til einhverskonar greinarmun og segja hérna megin er heimspeki hinum megin ekki, eða hér er alvöru heimspeki, heimspeki „eins og ég vil hafa hana“, hinum megin er eitthvað annað, plat-heimspeki – mælskulist kannski – að minnsta kosti heimspeki „eins og ég vil ekki hafa hana“. Mér hefur fundist ég sjá merki um þessa tilhneigingu í skrifum og yfirlýsingum bæði Kristjáns sjálfs og vinar hans og kennara Mikaels Karlssonar. Þessi tilbúni greinarmunur hefur þau áhrif ein að mínu áliti að einangra heimspekina og draga hana út úr þjóðfélagslegri og pólitískri umræðu, en heimspeki er nú lítils virði eigi hún ekki heima þar.

Það er því dálítið annað að segja að mismunandi skoðanir og áherslur eigi að blómstra og stuðla að fjölbreytni heldur en að halda því fram að allt sé leyfilegt og að fyrir öllu eigi að klappa. Því miður sé ég ekki betur en að í skrifum sínum endi Kristján sem andstæðingur víðsýni í þessum fyrri skilningi þó að líklega leggi hann upp sem andstæðingur víðsýni í síðari skilningnum. Þannig sé ég ekki betur en að Kristján hafni ekki aðeins þeirri víðsýni sem mér finnst Páll Skúlason vera talsmaður fyrir, heldur sitjum við uppi með þá fáránlegu niðurstöðu að þröngsýni sé dygð – en það getur nú varla verið og tæplega trúir Kristján því?

En nú er þessi pistill orðinn lengri en til stóð og líklega alltof langur fyrir Kristján sem lét í ljós áhyggjur af því í pistli sínum að við (heimspekingar á Íslandi) töluðum of mikið saman og lokuðumst þannig inni í „fjallahringnum bláa“. Ég verð nú að segja að mér finnst þetta furðuleg hugmynd. Það er mikill ljóður á ráði okkar hérlendra sem höfum menntað okkur í heimspeki hvað umræða okkar á meðal er yfirleitt daufleg og leiðinleg. Kannski þetta stafi af því að hluta til að fólk skammist sín eitthvað fyrir að tala saman eða skrifast á og leitist þess vegna við að kæfa umræðu sem fram fer á íslensku á milli íslenskra heimspekinga eins og ekkert sé nógu gott nema það sé sagt út í heim og á útlensku. Sumir fræðihópar hér á landi eiga í líflegum og skemmtilegum skoðanskiptum (til dæmis sagnfræðingar annað slagið, einnig stjórnmálafræðingar) og það er slæmt að við skulum ekki geta þetta líka.

Raunar verð ég nú að segja eins og er að mér fannst grein Kristjáns Arngrímssonar um oflæsið ágætlega ferskt framlag til heimspekiumræðunnar – að minnsta kosti var þó einhverju haldið fram og gerð tilraun til að rökstyðja það – þó að meginröksemdin sé að vísu alröng að mínu áliti og líklega snjöll hugmynd að lesa stéttaandstæður út úr matseðli á skyndibitastað en slíkt athæfi finnst Kristjáni finnst fáránlegt. Hvað um það. Vonandi getur þessi vefur haft upplífgandi áhrif á heimspekingasamfélagið hérlendis. Ég trúi ekki öðru en að þeir sem hafa áhuga á heimspeki haldi áfram að tala um hana. Og vefur eins og þessi er einmitt upplagður vettvangur vegna þess að hann hefur engin takmörk: Það eru nánast engin takmörk fyrir því hvað og með hvaða hætti hægt er að birta, skiptast á skoðunum og hafa samskipti á vef. Eða er það kannski þetta sem Kristjáni líkar ekki við vefinn, hann er of opinn, of „víðsýnn“?

Jón Ólafsson

2. júlí 2003

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *