Hvernig væri að tala meira um heimspeki?

Fátt er leiðinlegra en að lesa langar og ítarlegar leiðréttingar eins á því sem annar hefur sagt um skrif hans eða skoðanir. Það er vissulega skiljanlegt að sá sem fyrir því verður að skoðanir hans séu mistúlkaðar eða afbakaðar finni hjá sér þörf til að leiðrétta slíkt í smáatriðum. En það er mikill misskilningur að halda að slíkar leiðréttingar skili árangri í því að lesendur þeirra átti sig á því hver hefur rétt fyrir sér og hver ekki – síst af öllu þegar hann skortir forsendur til að meta sjálfur en verður einfaldlega að trúa því sem annar hvor, sá sem ver sig eða hinn sem gerir árás, segir.

Ég get því ekki orða bundist eftir að hafa lesið tvær langar greinar Róberts Haraldssonar í Lesbók Morgunblaðsins um meintar afbakanir Davíðs Kristinssonar og Hjörleifs Finnssonar á skrifum hans um þýska heimspekinginn Friedrich Nietzsche. Greinar Róberts bera dapurlegum misskilningi um mátt hins ritaða orðs merki – grátlegri eyðslu á orku og plássi sem betra hefði verið að nýta til áhugaverðrar umræðu um heimspeki frekar en sparðatínings. Og þetta segi ég ekki síst í ljósi þess að hvað sem segja má um túlkun (eða afbökun, misskilning) þeirra Davíðs og Hjörleifs á skoðunum Róberts, þá er ritgerð þeirra félaga að mörgu leyti ferskur andblær inn í íslenska heimspeki. Vissulega eiga menn að verja sig – ég hef á margan hátt samúð með málstað Róberts – en þroskaður heimspekingur, sem ég hef hingað til haldið að Róbert væri, ætti ekki láta heiftina hlaupa svo með sig í gönur að hann missi sjónar á kjarna málsins: Heimspekinni og viðfangsefnum hennar.

Þessi vefur, heimspekivefurinn, hefur nú verið starfandi í rúmt ár og hefur gegnt þörfu hlutverki í að miðla greinum og öðru efni um heimspeki. Mig langar þessvegna til að nota tækifærið og hvetja til þess að þeir sem fást við heimspeki hér á landi taki sig nú til og fari að nýta sér þennan vef sem vettvang til skoðanaskipta. Það er leitt til þess að hugsa að heimspekileg umræða okkar á meðal er ekki annað en leiðindarifrildi í blöðunum um eitthvað sem varla nokkur maður hefur áhuga á.

Um nóg er að tala. Furðu þröngsýn viðhorf heyrast hvað eftir annað jafnvel frá heimspekingum sem maður hélt að væru víðsýnir. Grein Róberts er eitt dæmi um þrönga sýn á heimspekina, en eins má nefna viðtal við Mikael Karlsson, einnig íLesbók Morgunblaðsins, fyrir nokkrum vikum þar sem hann hélt því fram að stór hluti nútímaheimspekinga, í raun allir sem ekki halda sig við þröngt skilgreinda analýtiska heimspeki, væru alls ekki heimspekingar heldur sófistar, en það hefur nú yfirleitt talist heldur óvirðulegra. Kristján Kristjánsson prófessor á Akureyri hefur tekið í svipaðan streng og kallar þá heimspeki sem honum geðjast ekki að poppheimspeki.

Fjölmörg efni heimspekinnar væri áhugavert og gagnlegt að ræða betur hér á þessum vef. Mig langar að gera tilraun til að koma umræðum af stað með áskorunarkerfi. Ég ætla því ekki að hafa þessa grein lengri, en skora á Skúla Sigurðsson að skrifa stuttan pistil um bók þeirra félaga, Davíðs og Hjörleifs, kosti hennar og galla og birta hér á heimspekivefnum. Skúli skorar svo á þann næsta og svo koll af kolli.

Jón Ólafsson

5. maí 2003

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *