Heimspeki: Þátttaka og útilokun

Jón Ólafsson

I

Það er alltaf freistandi, þegar andstæðingur manns í rökræðu fer í taugarnar á manni, að dæma hann úr leik með einum eða öðrum hætti. Benda honum kurteislega á að hann sé að tala um eitthvað sem komi málinu ekki við, hann hafi ekki hugsað málið, byggi rök sín á óviðeigandi forsendum eða saka hann um að hafa annarleg markmið.

Heimspeki í okkar skilningi á í einhverjum mæli upptök sín í herkænsku af þessu tagi. Þegar Sókrates tók fólk tali og fór að spyrja það útúr leiddi það jafnan til hins sama. Viðmælandinn afhjúpaði fávisku sína og neyddist til að viðurkenna að hann hefði engan rétt til að tala um það sem hann hafði áður fjallað um af fjálgleika og öryggi – hann vissi í raun ekkert um hvað hann væri að tala.

Í samræðum Platóns er það ekki fyrr en viðmælandinn stendur frammi fyrir því að geta ekki útskýrt eða fært rök fyrir því sem hann heldur fram sem hin heimspekilega rannsókn hefst fyrir alvöru. Og hún hefur að grunnforsendu þá trú að hægt sé að komast að áreiðanlegum niðurstöðum um satt og ósatt, gott og illt. Með þá trú í farteskinu voru hinir sjálfumglöðu viskukennarar teknir í bakaríið. Þetta voru sófistarnir sem kenndu fólki ýmsar kúnstir í rökræðum og mælskubrögðum. Þeir voru óvandaðir loddarar sem létu sig sannleikann engu varða, eða höfnuðu honum jafnvel alfarið, en einbeittu sér að því að sannfæra.

Í samræðunni Gorgías, einni af þekktustu samræðum Platóns er greinarmunurinn á leið sófistans og leið heimspekingsins, leið Kalliklesar og leið Sókratesar, rauði þráðurinn. Annar boðar gæfu þess sem gerir það sem honum sýnist og skeytir ekki um gott eða illt, hinn færir rök fyrir því að sá sé ævinlega meiri gæfumaður sem leitast við að vera réttvís. „Fyrrnefnda kostinn“ segir Eyjólfur Kjalar Emilsson í inngangi þýðingar sinnar að Gorgíasi „hafa margir tekið, bæði þeir sem kallaðir eru glæpamenn, og aðrir, sem ekki eru kallaðir það, en eru það samt. Leið Sókratesar er vandrataðri, en hún stendur þó öllum opin. Að áliti Platóns er hún ekki píslarganga, heldur þvert á móti leiðin til hamingju“ (Gorgías bls. 37).

II

Það viðhorf til heimspekinnar sem hér kemur fram hjá Eyjólfi Kjalari, en birtist í ýmsum myndum hjá mörgum heimspekingum á 20. öld, setur sannleiksleit í öndvegi. Heimspeki er leit að sannleikanum, ekkert meira en það (hún er ekki trúarbrögð, ekki einu sinni leit að tilgangi lífsins) en ekkert minna heldur (hún er ekki pólitík).

En þegar við segjum að heimspeki sé sannleiksleit er ekki þar með sagt að við höfum gefið mikla eða merkilega skýringu á því hvað heimspeki sé og um hvað hún snúist. Það sem felst í þessari fullyrðingu er fyrst og fremst tilraun til aðgreiningar: Þeir sem ekki leita sannleikans geta, miðað við hana, svo sem kallað sig heimspekinga ef þeir vilja, en það sem þeir eru að gera er þó ekki heimspeki í hinum stranga skilningi þess orðs. Þeir eru einhverskonar niðurrifsmenn – heimspekingar sem halda því í raun fram að heimspeki sé ekki til eða ekki möguleg.

Nú er það fremur sjaldgæft í samtímaheimspeki að hinn gamli greinarmunur á leið Sókratesar og leið Kalliklesar, leið heimspekingsins og leið sófistans, sé notaður til að lýsa greinarmuninum á heimspeki í skilningi sannleiksleitar og heimspeki í einhverjum öðrum skilningi, enda kannski ofurlítið bernskt að beita honum áheimspeki samtímans þó að auðvitað megi lesa hann inn í samtímann með ýmsum hætti. En þetta gerir þó Mikael M. Karlsson í viðtali sem birtist við hann í Lesbók Morgunblaðsins fyrir skemmstu (22. mars 2003). Í þessu viðtali lýsir Mikael sýn sinni á heimspeki: Þessi sýn er svo þröng og svo útilokandi að ég fæ ekki betur séð en að þegar upp er staðið séu alvöru heimspekingar, þeir sem eru engir sófistar, fámennur hópur manna sem samanstendur aðallega af analýtiskum heimspekingum 20. aldar og fáeinum útvöldum heimspekingum sögunnar. Meira að segja David Hume fær ekki að vera með!

Nú má segja sem svo að hver hafi fullan rétt á sínum skilningi á heimspeki og að það sé varla tilefni til greinaskrifa þó að Mikael reynist hafa aðra sýn á heimspeki heldur en ég eða einhverjir aðrir. En þetta er ekki svo einfalt: Mikael Karlsson er ekki hver sem er. Hann hefur kennt næstum því öllum sem hér á landi fást við heimspeki, enda nefnir blaðamaður Morgunblaðsins hann föður íslenskrar heimspeki. Ekki nóg með það, hann er nýtekinn við deildarstjórastarfi í nýstofnaðri háskóladeild á Akureyri. Hann er því valdamikill maður sem hefur mikil áhrif á það sem menn hugsa og skrifa um heimspeki hér á landi og hvernig hún er kennd. Af þessum ástæðum finnst mér nauðsynlegt að mótmæla afstöðu hans og færa rök fyrir annarri sýn á heimspekina heldur en þeirri sem hann boðar.

III

Nú langar mig að rifja stuttlega upp það sem Mikael segir í viðtalinu til að skýra það betur sem ég geri hér að umtalsefni. Það er rétt að taka fram að margt af því sem Mikael segir almennt um heimspekina og samtímann er tæplega umdeilt og maður getur því heils hugar tekið undir það. En þegar kemur að spurningum um boðskap og heimspeki birtist greinarmunurinn. Mikael útskýrir fyrir blaðamanninum að hann telji hlutverk heimspekinga ekki vera að boða hugmyndir og heldur svo áfram:

Reyndar er til gömul og sterk hefð í heimspeki sem gengur út á hið gagnstæða [boðskap]. Það er hefði sem heitir sófismi. Ég lít með hefðbundnum hætti á heimspeki sem sannleiksleit. En sumir telja það úrelt og segja að það þýði ekkert að tala um sannleikann og það er kannski eitthvað til í þeirri gagnrýni. Sófistar hafa alltaf litið á heimspeki sem tilraun til að sannfæra fólk um eitt og annað. Það sem skiptir þá máli er sannfæringargildi kenninga og raka. Og ef maður hugsar svona er maður að sjálfsögðu alltaf að boða hugmyndir sínar.

Hér er að ýmsu að hyggja. Í fyrsta lagi er það ekki nákvæmt að segja sófisma vera gamla og sterka hefð í heimspeki. Það þarf ekki annað en að fletta hugtakinu upp í hvaða handbók sem vera skal um heimspeki til að fá sögulegan fróðleik um þann hóp manna sem stunduðu kennslu í mælskulist í Grikklandi til forna og ágreining þeirra við Platón og fleiri heimspekinga fornaldarinnar. Hér er engin hefð: Með því að hafa þetta hugtak yfir ákveðinn hluta heimspekinga samtímans er fyrst og fremst verið að skapa hugrenningatengsl á milli þeirra annarsvegar og sófista fornaldarinnar hinsvegar.

Þá er það sannleikurinn. Rétt er að sumir heimspekingar samtímans, til dæmis bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty, hafa fært rök fyrir því að sannleikshugtakið sé gagnslítið í vísindum og fræðum og raunar að það sé á endanum engin leið að gera greinarmun á skoðun sem er „réttlætt“ (e. justified) og þeirri sem er sönn. Rorty telur að það væri farsælla að mannkynið leitaði sameiginlega að öðrum hlutum en sannleikanum, til dæmis að félagslegri samstöðu, berðist í sameiningu gegn grimmd og fleira af því tagi. Hann heldur því ekki mér vitanlega fram að sannleikshugtakið sé úrelt en hinsvegar að það sé annaðhvort gagnslaust eða í versta falli skaðlegt og fyrir þessu hefur hann fært margvísleg áhugaverð rök.

Þegar um Rorty er að tefla eða einhverja aðra af þeim heimspekingum sem fært hafa rök fyrir svipuðum skoðunum, er að mínu mati alrangt að halda því fram að úr því að þeir hafna sannleikanum í þessum skilningi, þá séu þeir þar með sófistar – boðendur frekar en rannsakendur, eða að þeir hugsi fyrst og fremst um sannfæringargildi kenninga og raka. Það er þessi niðurstaða Mikaels sem mér virðist fáheyrð, enda er hún órökstudd með öllu.

Mér virðist því að tengslin sem hann vill setja á milli ýmissa heimspekinga samtímans og sófistanna gömlu sé annað eða hvorttveggja af tvennu: Mælskubragð, til þess ætlað að skapa hugrenningatengsl sem um leið gera lítið úr tilteknum hluta samtímaheimspekinga; rangtúlkun á afleiðingum þeirrar skoðunar sem kemur fram hjá Rorty og heimspekingum sem hafa haldið fram svipuðum hugmyndum.

Hver getur verið tilgangurinn með því að gera greinarmun af þessu tagi? Það liggur beinast við að sjá hann sem tilraun til að útiloka ákveðinn hluta heimspekinga frá alvöruheimspeki. Rétt eins og sófistarnir eru í sögulegum skilningi útskúfaður hópur, þá útskúfum við sófistum samtímans úr heimspekinni. Staðsetjum þá og festum í tíðarandanum.

IV

Í viðtalinu við Mikael nefnir hann viðtal sem hann tók sjálfur við bandaríska heimspekinginn Donald Davidson og birtist í síðasta hefti tímaritsins Hugur. „Davidson er enginn sófisti,“ segir Mikael, „hvað svo sem við segjum um hann. Það hafa margir sófistar reynt að telja hann á sitt band. Hann nefndi þetta í viðtalinu sem ég tók við hann og þar talar hann líka um Rorty.“

Í viðtalinu talar Davidson vissulega um að Rorty hafi reynt að sannfæra hann um ákveðna hluti, án árangurs og lýsir grundvallarágreiningi þeirra tveggja. En hann nefnir sófista ekki á nafn, að minnsta kosti ekki í þeirri gerð viðtalsins sem rataði á prent í Hugi.

Af þessu viðtali við Davidson má reyndar margt læra og það sem einkennir viðhorf hans er dálítið annað en það sem situr helst í manni eftir að hafa lesið viðtalLesbókarinnar við Mikael. Davidson leggur óvenjulega mikla áherslu á margbreytileika heimspekinnar: „Mér virðist hann [margbreytileikinn] gera lífið mun áhugaverðara. Ég hafna engu sem fólk gerir í nafni heimspekinnar og ég hef enga skoðun á því hvað fólk ætti að gera, eða hverskonar kröfum ætti að þröngva upp á fólk sem nemur heimspeki til prófs.“

Hafi maður tilhneigingu til að samsinna þessu finnst mér að hægt sé að halda áfram: Sleppum einfeldningslegum aðgreiningum sem bera með sér þá hugsun að einn hópur heimspekinga sé að gera eitthvað sem sé mikils virði, annar hópur heimspekinga ekki. Að þeir sem hafna tilteknum hugmyndum eða leita nýrra leiða í að hugsa um og dæma mannlegt samfélag séu þar með orðnir boðarar eða predikarar sem líkja megi við sófistana fornu. Auðvitað eru margir heimspekingar í eðli sínu predikarar og aðrir eru það ekki, en það er ekki annað en yfirborðsgreinarmunur, þegar alls er gáð.

Að lokum. Því er oft haldið fram um þessar mundir að áhrif heimspekinnar í samfélaginu séu lítil eða hverfandi; að annað en heimspekileg hugsun ráði ferðinni í alþjóðastjórnmálum og í stjórnmálum yfirleitt. Þetta er dálítið skrítið vegna þess að nú standa yfir miklir breytingatímar um allan heim. Á þessum árum sjáum við valdaskipan heimsins í uppstokkun, nú eru tímar sem vafalaust verður litið til í framtíðinni þegar menn velta fyrir sér ástæðum þess sem þá verður orðið ofan á. Mikael og Davidson tala báðir um þetta í viðtölunum sem hér hefur verið vitnað í. Mér virðist vandinn hinsvegar vera stærri: Það er ekki svo að heimspekin hafi lítil áhrif. Menntamenn hafa færst úr miðjunni, stöðugt minna er óskað eftir þeim í hringiðu stjórnmálanna þeir hafa verið jaðraðir. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var, til dæmis á sjöunda áratugnum þegar menntamenn höfðu, ef mér skjátlast ekki, mikið hlutverk í þjóðfélagsmálum.

Hvernig stendur á þessu? Ég held að ein skýringin varði sundurlyndi menntamanna, ekki síst heimspekinga, sem eiga afar erfitt með að viðurkenna og horfast í augu við nýjungar í fræðunum. Staðreyndin er sú að aðferðafræði, mælska og rökaðferðir fræðanna hafa breyst á undanförnum árum. Menningarfræðingar, kynjafræðingar og fleiri fræðingar á nýjum eða umbreyttum sviðum beita greiningaraðferðum og orðfæri sem hefur ekki hið gamalkunna svipmót vísindalegs eða hálfvísindalegs rökstuðnings. Þessvegna hneigjast margir fræðimenn til að hafna þessu nýjabrumi – stundum eins og um hreinan heimsósóma sé að ræða (og nú er mér enn hugsað til greina Kristjáns Kristjánssonar prófessors á Akureyri).

Eigi heimspekingar og aðrir menntamenn að hafa áhrif tel ég að þetta þurfi að breytast. Við þurfum að opna, opna allt upp á gátt eigi þátttaka að vera möguleg.

13. maí 2003

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *