Drepið á ádrepu

Það er með ólíkindum hve stundum er hægt að vera ósammála mörgu í stuttum texta. Þetta gildir til dæmis um undirritaðan og hnitmiðað „ádrepukorn“ Jóns Ólafssonar sem birtist nýlega á þessum heimspekivef, en þar amast Jón við varnarskrifum Róberts Haraldssonar um eigin túlkanir á Nietzsche í Lesbók Morgunblaðsins.

Ég skal reyna að vera eins gagnorður og Jón og tjá efasemdir mínar í knöppu máli í þremur liðum:

(1) Um efnistök í heimspeki: Jón telur að skrif Róberts beri vitni „dapurlegum misskilningi um mátt hins ritaða orðs“ og grátlegri sóun á orku sem betur hefði verið nýtt til „áhugaverðrar umræðu um heimspeki“. Um hvað snúast áhugaverðar umræður um heimspeki? Þær snúast að miklu leyti, eins og eðlilegt er, um a) túlkun manns sjálfs á skoðunum annarra, b) túlkun annarra á sínum eigin skoðunum, c) túlkun manns sjálfs á sínum eigin skoðunum og d) túlkun annarra á manns eigin skoðunum. Mér virðast greinar Róberts falla að mestu undir liði d) og a): Hann bendir á hvernig Davíð og Hjörleifur hafi snúið út úr túlkun sinni á Nietzsche og notar það til að byggja brú yfir í réttari túlkun. Burtséð frá því hvort Róbert annars vegar eða Davíð og Hjörleifur hins vegar skilji Nietzsche frjórri skilningi – en um það skal ég ekki dæma nú enda enginn sérfræðingur á sviðinu – fæ ég ekki betur séð en Róbert sé hér að sinna hinum vönduðustu heimspekirannsóknum og að þessi skrif hans séu a.m.k. það burðar- og bragðmesta sem birst hefur lengi á vettvangi Lesbókar. Ég sé, með öðrum orðum, ekkert að efnistökum Róberts.

(2) Um víðsýniskröfu: Jón notar tækifærið til að hnýta í íslenska heimspekinga sem eigi að vera víðsýnir en séu það ekki og tekur tal undirritaðs um „poppheimspeki“ annars vegar og hins vegar Mikaels Karlssonar um „heimspekilegan sófisma“ sem dæmi. Í þessu sambandi mætti benda á að flokkun mín á tiltekinni heimspeki sem poppheimspeki gæti hugsanlega stuðst við önnur rök en að mér „geðjist ekki að“ henni og að túlkun Jóns á skoðunum Mikes úrLesbókarviðtali sé að minnsta kosti úr lausu lofti gripin: Mike lýsir þar tveimur sögulegum hefðum í heimspeki, sem önnur fáist við boðskap og sannfæringu en hin við sannleiksleit í sókratískum skilningi. Hann ýjar ekki einu sinni að því að þessi skil falli saman við greinarmun „þröngt skilgreindrar analýtískrar heimspeki“ og allrar annarrar heimspeki (túlkun Jóns), enda væri sú skoðun næsta fáránleg: Hafa engir aðrir heimspekingar en analýtískir, í þröngum skilningi, sett sannleiksleit á oddinn? Ég ætla hins vegar að öðru leyti að láta þessar túlkanir Jóns á ólíkum flokkunum okkar Mikes liggja milli hluta hér, enda hefur hann ekki gaman af „sparðatínings“-skrifum í sjálfsvarnarskyni.

Miklu almennari mótbára mín væri þessi: Ráða má af skrifum Jóns að honum falli ekki aðeins illa lega markalínunnar hjá Mike (sem hann mistúlkar að vísu) heldur mislíki honum almennt að svona markalínur séu dregnar; menn eigi að vera „víðsýnir“. En skyldi víðsýni ekki vera svolítið ofmetin dygð? Ég minni á kraftmikil rök Páls Skúlasonar í upphafi Siðfræði sinnar fyrir því að beinlínis sé „ámælisvert að virða skoðanir annarra, ef maður veit að þær eru ekki réttar“. Við verðum að gæta þess að íslensk heimspekiumræða verði ekki að fermingarveislusnakki þar sem hver klappi öðrum á bakið til að þóknast staðblænum. Heimspekileg umræða snýst um að draga markalínur og stundum getur slíkur línudráttur orðið ögn vígmálugur þegar heimspekingurinn telur að það sem liggur öðru megin línunnar sé talsvert lakara en hitt. En skerpast ekki einmitt hugmyndir manna best í þeirri deiglu sem skapast þar sem öndverðum kostum lýstur saman (sbr. Mill)? Snýst ekki heimspekileg umræða um að vega hvern annan í góðsemi?

(3) Um umræðuákall. Ég tek undir með Jóni um að íslenskir heimspekingar mættu ræða (og ræða saman) um ýmis áhugaverð efni. En ég er ekki alveg viss um að þessi vefur sé heppilegasti vettvangurinn til djúprar og efnismikillar umræðu um heimspekileg úrlausnarefni. Hann er ágætur fyrir tilkynningar, athugasemdir, ábendingar og stuttar ádrepur (eins og Jóns) en hvort tveggja er að mig uggir að hann sé ekki lesinn af mörgum og svo hitt að mestu skiptir fyrir íslenska heimspekinga, eins og aðra fræðimenn, að skapa sér hlutgengi á viðurkenndum fræðilegum vettvangi, innanlands eða utan. Þar eiga þeir að ræða undir drep um túlkanir sjálfra sín og annarra á skoðunum Nietzsches og c/o og hirta landa sína og aðra eftir þörfum ef þeir hafa á röngu að standa. Ég efast um að til sé nokkuð sem kalla mætti séríslenska heimspeki, sem aðeins eigi heima á fáséðum íslenskum heimspekivef, enda þurfum við að gæta þess vel að lokast ekki „inni í fjallahringnum bláa“.

Kristján Kristjánsson

Háskólanum á Akureyri

13. maí 2003

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *