Ádrepuboðhlaup: Það er allt á floti allsstaðar

Skúli Sigurðsson

Bókin er í tveimur hlutum og er fylgt úr hlaði með formála Geirs Svanssonar ritstjóra Atviksbóka (s. 7–11). Fyrri hlutinn er ritgerðin „Rísóm [1976]“ eftir Gilles Deleuze og Félix Guattari í íslenskri þýðingu Hjörleifs Finnssonar (s. 12–58). Seinni hlutinn er ritgerðin „Hvers er Nietzsche megnugur? Um íslenska siðfræði og franska sifjafræði“ eftir Davíð Kristinsson og Hjörleif Finnsson (s. 59–127).

Jón hittir naglann beint á höfuðið þegar hann segir: „[…] þá er ritgerð þeirra félaga [Davíðs og Hjörleifs] að mörgu leyti ferskur andblær inn í íslenska heimspeki.“ Þegar ég las „Hvers er Nietzsche megnugur?“ í fyrsta skipti, mér til óblandinnar ánægju, staðnæmdist ég við eftirfarandi tilvitnun í þýska heimspekinginn Friedrich Nietzsche:

Við getum ekki annað en dáðst að því hvílíkur völundarsmiður mannskepnan er að reisa jafn óendanlega flókna hugtakahvelfingu á hreyfanlegum undirstöðum, svo að segja á rennandi vatni. (HV 108)

Þessi orð Nietzsches hafa greypst í vitund mína. Þau eru tekin úr ritgerð hans „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi [1873]“ í vorhefti Skírnis árið 1993, í þýðingu Sigríðar Þorgeirsdóttur og Magnúsar Diðriks Baldurssonar. Í orðunum birtist sú sýn að það sé tilgangslaust, ef ekki fánýtt, að leita að óhagganlegum undirstöðum í smíði hugtaka og kenningakerfa. Þetta þýðir hins vegar ekki að mannskepnan þurfi að leggja árar í bát, heldur þarf hún að læra að troða marvaðann. Í þessu er fólginn veigamikill lykill að ævintýralegum árangri vísinda og tækni nútímans. Ótal sundflokkar ungra og aldinna vísindamanna troða marvaðann, skapa fræðilega þekkingu og aðferðir, mýgrút tækja og gagnabanka, og berast óhræddir á vit framtíðar.

Saga vestrænnar heimspeki snýst að miklu leyti um tengsl hennar við náttúruvísindi. Heimspeki Husserls, Kants, Leibniz, Descartes og Aristótelesar styður þessa alhæfingu. Glíma við eðlisfræði og stærðfræði samtímans var grundvöllur heimspeki sem var iðkuð í Berlín og Vínarborg á fyrstu áratugum 20. aldar. Höfundur afstæðiskenningarinnar, kennilegi eðlisfræðingurinn Albert Einstein, var tekinn í guðatölu af ungum og áköfum heimspekingum sem bundust samtökum á útjaðri hefðbundinnar háskólaheimspeki Mið-Evrópu. Þessir heimspekingar tókust á við það sem var efst á baugi í vísindum samtímans og arfleifð Kants; þeir voru í sambandi.

Það urðu örlög vísindaheimspeki Berlínar- og Vínarhringsins að staðna og verða hluti af háskólaheimspeki í Bandaríkjum eftirstríðsáranna. Því varð hún að skotspæni fræðimanna á borð við Paul Feyerabend og Thomas S. Kuhn sem boðuðu sýn á náttúruvísindi þrungna sögulegri verðandi. Þrátt fyrir þessi örlög er því ekki að neita að heimspeki, lífshlaup og lífssýn rökpósitívista er heillandi; ekki síst vegna þess að þeir skynjuðu vel að á sviði samtímavísinda var óþrjótandi náma af spennandi og verðugum viðfangsefnum. Rökpósitívistar á borð við Rudolf Carnap, Hans Hahn, Otto Neurath, Hans Reichenbach og Moritz Schlick voru í sambandi.

Ég er hræddur um að ég geti ekki brugðist sem skyldi við því sem Jón setur mér fyrir. Ritgerðin „Rísóm“ eftir Deleuze og Guattari er einfaldlega of krefjandi, margbrotin, skemmtileg og sneisafull af hugmyndum til þess að það sé unnt, jafnvel í löngum pistli, að gera henni viðhlítandi skil. Hjörleifur á þakkir skildar fyrir að hafa þýtt þennan ögrandi texta á íslensku. Deleuze og Guattari voru í nánu sambandi við það sem var að gerast í vísindum, menningu og stjórnmálum samtímans. Rísóm-textinn er einnig mjög áleitinn frá sjónarhóli vísindasögu. Um tréð segja þeir:

Það er merkilegt hvernig tréð hefur drottnað yfir hinum vestræna veruleika og allri vestrænni hugsun, allt frá grasafræðinni til líffræðinnar og líffærafræðinnar, en einnig yfir þekkingarfræðinni, guðfræðinni, verufræðinni, heimspekinni allri: Rótargrundvöllurinn, Grundroots og foundations. Samband Vesturlanda við skóginn og jafnframt skógarruðninginn er einstaklega sterkt. (HV 43)

Djúpur og merkilegi texti, hvort sem um er að ræða skáldverk, ljóð, pólitíska yfirlýsingu eða vísindaritgerð, ýtir við lesandanum og kemur honum til þess að sjá heiminn í nýju ljósi. Rísóm-textinn stuðar. Sé hann lesinn og krufinn af natni gætu áhrifin jafngilt því að kraftmiklum viftum hefði verið komið fyrir í húsakynnum íslenskra heimspekinga. Manni dettur í hug súrt regn og dauði skóga í Evrópu, eyðing líffræðilegrar fjölbreytni og breytileika í regnskógum hitabeltislanda, skipbrot bjarghyggju og einingar í vísindum, og tré lífsins. Enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin notaði ímynd trésins á byltingarkenndan hátt til þess að ryðja úr vegi eldri hugmyndum um lífskeðjuna. Í bók Darwins Um uppruna tegundanna (1859) var einungis ein skýringarmynd. Hún var af ættartré. Darwin skrifaði:

As buds give rise by growth to fresh buds, and these, if vigorous, branch out and overtop on all sides many a feebler branch, so by generation I believe it has been with the great Tree of Life, which fills with its dead and broken branches the crust of the earth, and covers the surface with its ever branching and beautiful ramifications. (Origin of Species 1859, lok 4. kafla.)

Rísóm-textinn er gegnsýrður af hröðum og ólíkindalegum tengingum. Rísómið er flækjurót, flökkujurt, tengslajurt. Það afbyggir lífskeðjuna og tré lífsins sem teygja sig hátt til himins. „Rísómið kemur stöðugt á tengslum mili táknfræðilegra hlekkja, valdastofnana, atburða á sviði lista, vísinda og samfélagsátaka“ (HV 22). Það er eftirtektarvert að ritgerðin kom út árið 1976 í árdaga erfðaverkfræði og líftækni. Þá höfðu vísindamenn miklar áhyggjur af því hvort rannsóknir á erfðaefni, litningum sem nú mátti klippa í sundur og skeyta saman að vild, gæti valdið erfðamengun. Var loku fyrir það skotið að erfðaefni gæti borist á milli lífvera, segjum með vírusum? Þá var þekkt að vírus af gerð C var tengdur bæði erfðaefni bavíana og vissra tegunda heimiliskatta. Eins og sameindalíffræðingurinn François Jacob benti á, geta millifærslur á erfðaefni leitt til hliðstæðrar útkomu og forboðnar ástir í fornöld og á miðöldum (HV 28–29; Jacob hlaut Nóbelsverðlaun árið 1965 í lífeðlisfræði og læknisfræði ásamt André Lwoff og Jacques Monod).

Í lok greinarinnar „Að gelda mann og annan“ í Lesbók Morgunblaðsinslaugardaginn 3. maí sl. (s. 10–11) gerir Róbert H. Haraldsson heimspekingur að umtalsefni þessi orð sem Davíð og Hjörleifur létu falla í viðtali við Þröst Helgason, ritstjóra Lesbókar Mbl., 8. febrúar sl. (s. 7):

Eitt af því sem gerir póststrúktúralíska heimspeki áhugaverða er að um leið og þessir úrvalsheimspekingar leggja rækt við að þróa flóknar heimspekilegar kenningar yfirgefa þeir fílabeinsturninn með því að beintengja abstrakt kenningar um mismun, sifjafræði og „misfrestun“ við ‘68-hreyfinguna, aðstöðu fanga í frönskum fangelsum eða skuldir þriðja heimsins.

Róbert skrifar: „Sjálfur gæfi ég fúslega góðan skilding fyrir að sjá framan í frönsku tugthúslimina undir messum Deleuze og félaga um eilífa endurkomu fyrsta stigs sams konar mismunar og annars stigs mismunandi mismunar. Ég ímynda mér einhvern veginn að tugthúslimirnir sætu óttalausir undir orðaflaumnum þótt leiðindin væru sennilega að drepa þá.“ Róbert bætir strax við: „Af og til myndu hinir frönsku ógæfumenn sennilega skella upp úr, t.d. þegar Deleuze og Guattari brýna þá með eftirfarandi orðum: „Verðið Bleiki pardusinn og þið munið elska hvort annað eins og vespa og brönugras, köttur og bavíani.“ (HV, 57.)“

Það er ekki ljóst af orðum Davíðs og Hjörleifs hvort Deleuze og Guattari hafi talað beint við fanga í frönskum fangelsum um flókin fræðileg efni. Auk þess að vera dæmdir menn, voru margir þeirra veikir á geði. Þannig var ástatt um heim allan á árunum eftir 1968. Ef marka má frétt í Mbl. 15. maí sl. hefur fátt breyst (s. 31; „Magnús Skúlason yfirlæknir á Réttargeðdeildinni að Sogni/Þörf á að fjölga plássum fyrir geðsjúka afbrotamenn“). Það er vert að muna að í tímabærri og vægðarlausri gagnrýni á gildismat vestrænnar siðmenningar á árunum eftir 1968 kom saga geðlækninga og geðveikrahæla mikið við sögu. Bók Kens Kesey One Flew over the Cuckoo’s Nest frá árinu 1962 og samnefnd kvikmynd frá árinu 1975 minna á það. Ég ætla mér ekki þá dul að reyna að ímynda mér viðbrögð fanganna hafi Deleuze og Guattari talað við þá um þessi efni, þótt þeir hefðu verið vel í stakk búnir að gera það vegna mikillar þekkingar á sálgreiningu Jacques Lacan og þátttöku í réttindabaráttu geðsjúkra. Enda væri það álíka gagnlegt og ímynda sér hvað starfsfólk í gosdrykkjaverksmiðju segði undir strembnum fyrirlestri um efnafræði fjölsykra.

Deleuze og Guattari voru í sambandi. Þeir voru hins vegar í svo miklu sambandi við meinsemdir samtíðar sinnar og flökkujurtarlegir í hugsun og framsetningu, að það getur reynst erfitt að henda reiður á því sem þeir segja í fljótu bragði. Í rísóm-textanum ægir saman tilvitnunum í tónlist, kvikmyndir, píanósnillinginn Glenn Gould, málfræðinginn Noam Chomsky, sálgreininn Melanie Klein, mannfræðinginn Gregory Bateson og rithöfundinn Franz Kafka (HV 24, 31, 33, 51 og 53). Áður en talið berst að Bleika pardusinum í ritgerðarlok, samanber víðfræga kvikmynd frá árinu 1963, er vitnað í franska kvikmyndaleikstjórann Jean-Luc Godard (HV 57). Sé rísóm-textinn lesinn af kostgæfni er ekki einungis unnt að skilja hann, heldur opnar hann ferska sýn á tilveruna. Eftir lesturinn líður manni eins og eftir að hafa séð áhrifamikla kvikmynd. Þótt ástir katta og bavíana virðist í fyrstu vera fáránlegar felst í hugmyndinni tilvísun í ítarlegri umræðu í rísóm-textanum og þaðan í „avant-garde“ sameindalíffræði og náttúruvísindi í París á árunum upp úr 1970. Við lestur seinni greinar Róberts í Lesbókinni fær maður það á tilfinninguna að hann hafi ekki skilið hvað hér er á ferð, né hafi hann fyllilega skilið að hann skildi það ekki.

Það er unnt að iðka heimspeki á margan hátt og því engin nauðsyn að fylgja fordæmi heimspekinga frá Aristótelesi til Deleuze og Guattari og leita fanga í náttúruvísindum samtímans. Við lestur greina Róberts í Lesbókinni (fyrri greinin nefnist „Allt annar Róbert!“ og birtist 26. apríl 2003, s. 6–7) er ekki ljóst hvaða valkost hann hefur tekið. Dæmið um ástir katta og bavíana sker ekki úr um það. Í lok seinni Lesbókargreinarinnar skrifar Róbert:

Davíð og Hjörleifur ímynda sér að aðstæður og tilvistarkjör íslenskra heimspekinga markist af stöðu þeirra: Þeir hafi í reyndinni aðeins tvo kosti, að gera Nietzsche að jaðarfyrirbæri eða draga úr honum tennurnar. Það skyldi þó aldrei vera að Davíð og Hjörleifur hafi sjálfir dottið niður á þriðju leið íslenskra heimspekinga út úr hinni ímynduðu tilvistarkreppu, nefnilega þann útveg að gera Nietzsche að óskiljanlegum rugludalli, heimspekingi sem ræðir um „neitun andvirkra krafta í formi neitandi vilja sem neitar að endingu sjálfum sér …“ (HV, 96) og um svæðið þar sem mismunurinn endurtekur sig í sífellu ekki sem sami mismunur heldur mismunandi mismunur; […]

Þessi tilvitnun sker ekki heldur úr um það hvort Róbert kjósi að vera í sambandi við náttúruvísindi samtímans. Hún leiðir hins vegar annað í ljós. Róbert gefur í skyn að þeir sem gera gagnrýnandann, ólátabelginn og ritsnillinginn Nietzsche að rugludalli séu það sömuleiðis. Hann spyrðir saman Davíð, Hjörleif, Deleuze og Guattari sem mæra mismuninn og endurkomu hans. En gæti ekki verið að mismunur sé hugtak sem lýsir upp haf verðandinnar eins og skær viti?

Í fyrirlestri árið 1921 um rúmfræði og reynsluna sagði Albert Einstein: „As far as the laws of mathematics refer to reality, they are not certain; and as far as they are certain, they do not refer to reality.“ Hann bætti strax við:

It seems to me that complete clearness as to this state of things first became common property through that new departure in mathematics which is known by the name of mathematical logic or „Axiomatics.“ The progress achieved by axiomatics consists in its having neatly separated the logical formal from its objective or intuitive content; according to axiomatics the logical-formal alone forms the subject-matter of mathematics, which is not concerned with the intuitive or other content associated with the logical formal.

Sá tæri aðskilnaður, sem Einstein boðaði á milli traustrar og öruggar þekkingar stærðfræðinnar og hverfulla reynsluvísinda, á sterkan samhljóm við orð skoska 18. aldar heimspekingsins Davids Hume um muninn á staðhæfingum um vensl hugmynda og staðreyndum (Rannsóknir á skilningsgáfunni, 4. kafli, ísl. útg. 1988). Við upphaf þriðja áratugar 20. aldar var aðgreining Humes aftur orðin áleitin vegna nýrra afreka á sviði kennilegrar eðlisfræði þar sem fágaðri stærðfræði var beitt með ótrúlegum árangri. Þrátt fyrir þessa sigra var eðlisfræðingum þá ljóst að takmörk voru fyrir því hverju mætti áorka með hjálp stærðfræðinnar við að greiða úr flækjuvef efnisheimsins. Þótt sameining náttúrulögmála hafi þá og síðar átt sér nokkurn samhljóm í samfélagi þeirra hefur því verkefni enn ekki verið lokið og sameining vart komið í stað jarðfastra frumsanninda.

En hvað þá með andhverfu hverfulleika staðreynda og reynsluvísinda í skilningi Humes og Einsteins? Á seinni hluta starfsferils síns leitaði þýski stærðfræðingurinn David Hilbert ásamt aðstoðarfólki ákaft að traustum undirstöðum stærðfræðinnar í nútímarökfræði. En allt kom fyrir ekki og þótt skipbrot þessarar stefnu hafi verið mörgum stærðfræðingum sár vonbrigði hefur það ekki hamlað árangursríku starfi þeirra. Það er líka hægt að vinna þótt allt sé á floti allsstaðar.

Rökpósitívistar tóku Einstein í guðatölu og í ríki hins tæra anda átti Hilbert einnig þegnrétt. Frjótt samfélag rökpósitívista auðkenndist ekki af einsleitni og doða, heldur af fjölbreytni og mismun. Í Vínarborg starfaði Ludwig Wittgenstein eftir fyrri heimsstyrjöld í útjaðri Vínarhringsins og þar, í nánum tengslum við Vínarhringinn, gerði austurríski rökfræðingurinn Kurt Gödel um 1930 að engu vonir Hilberts og fylgismanna hans um traustar undirstöður stærðfræðinnar. Rökpósitívistinn Neurath lýsti árið 1932 þeirri tilfinningu að hrærast í heimi án traustra undirstaða: „There is no tabula rasa. We are like sailors who have to rebuild their ship on the open sea, without ever being able to take it apart on the dock and reconstruct it from the best components.“

Í þessum eftirminnilegu orðum Neuraths birtist vel hversdagsveruleiki vísindamanna. Þeir eiga hann sameiginlegan með ferðamönnunum sem Ómar Ragnarsson gerði fræga hér um árið. Þeir fóru í óbyggðaferð og hjólin undir fjallabílnum fóru að týna tölunni, en áfram hélt þó ferðin. Líkt og í þróun lífríkisins í skilningi Darwins er þess enginn kostur að finna bifreiðaverkstæði uppi á öræfum eða snúa aftur að landi þegar nýjar og óvæntar aðstæður skjóta upp kollinum. Þess í stað krefst lífsbaráttan þess að siglingunni sé haldið áfram. Það er ekkert land fyrir stafni. Það er einungis almættið sem getur leyft sér þann munað að stunda nýsmíðar með fast land undir fótum.

Það er erfitt að ímynda sér nútímavísindi án mismunar af alls kyns stærðum og gerðum, mismun mismunar, og þar fram eftir götunum. Í stærðfræði hefur verið þróað fágað táknmál til þess að halda utan um og hafa stjórn á mismuninum í allri sinni dýrð. Í reiknifræði, hagnýtri stærðfræði, eðlisfræði og verkfræði nægir ekki að vita um sannindi stærðfræðinnar án nokkurs tillits til þess sem er í heiminum, svo vitnað sé í orð Humes. Þess í stað þarf að reikna með endanlegum stærðum og mismun þeirra, hversu litlar sem þær nú verða. Rafreiknar eru þessa heims, ekki heims tærrar fegurðar ættaðri frá heimspekingnum Platóni.

Líkt og reiknifræði og eðlisfræði þrífst á tilvist fjölbreyttrar „flóru“ táknanna δx, ∂x, ∆x, dx, d²x, byggist þróun lífríkisins að hætti nútímalíffræði á því að breytileiki sé sífellt fyrir hendi. Bandaríski erfðafræðingurinn Richard C. Lewontin lýsir þeim breytingum sem urðu á 19. öld á eftirfarandi hátt:

With the selectional theory of mental development, neurobiology recapitulates a historical tension between the two modes of explanation for the fit of organisms to their environments. For nineteenth-century biology, the question was how species in the process of their evolution come to fit the demands of the environments in which they find themselves. The transformational theory that we associate with Lamarck, the theory that environment leaves its direct impress on each organism, gave way to Darwin’s variational theory of the differential survival and reproduction of already existing variation. In the twentieth century, this struggle of explanations was first replayed in the field of immunology. („Darwin, Mendel, and the Mind [1985],“ endurprentað í It Ain’t Necessarily So[2000], tilvitnun á s. 101.)

Túlka má orð Lewontins þannig að lífverur séu líkt og skip Neuraths þar sem sífellt sé verið að smíða, breyta og laga. Ónæmiskerfi lífvera starfar með stöðugri aðlögun, en ekki þannig að árás baktería og veira kalli fram fyrirfram ákveðin varnarviðbrögð. Ónæmiskerfið veit ekki hvað verður á vegi þess og hefur þess vegna í handraðanum nær óendanlegan fjölda af hugsanlegum viðbrögðum. Þetta forvarnarstarf hámarkar líkindi þess að ytri árásum sé varist sem skyldi. Það sem er að gerast á sviði taugalíffræði sýnir glöggt hvað það tekur langan tíma að skilja gangverk heimsins út frá forsendum skipasmíði á reginhafi. Það sem er einstaklega aðlaðandi við þessa sýn er það að skipasmiðirnir bera sjálfir ábyrgð á örlögum sínum og geta ekki skotið sér undan henni með tilvísun í frumforsendur, undirstöður eða almættið.

Í smíði þróunarkenningar byggðri á náttúrulegu vali glímdi Darwin við Guð og vék honum til hliðar. Það krafðist djörfungar og þors. Hann steypti sér á vit hins óþekkta og lýsti því sem við blasti á ógleymanlegan hátt í bókinni Um uppruna tegundanna. Hann lagði áherslu á það að kenningin hvíldi ekki á einni forsendu, og þótt náttúrulegt val væri grundvallaratriði, kæmi meira til. Í lokakafla bókarinnar skrifaði Darwin:

As natural selection acts solely by accumulating slight, successive, favourable variations, it can produce no great or sudden modification; it can act only by very short and slow steps. Hence the canon of „Natura non facit saltum,“ which every fresh addition to our knowledge tends to make more strictly correct, is on this theory simply intelligible. We can plainly see why nature is prodigal in variety, though niggard in innovation. But why this should be a law of nature if each species has been independently created, no man can explain.

Sé náttúrulegu vali líkt við vél sem framleiðir þróun þá er mismunur og breytileiki eldsneytið sem knýr hana áfram. Án fjölbreytni og mismunar getur þróun ekki átt sér stað. Einsleitni jafngildir stöðnun og dauða. Þetta gildir um allt lífríkið og er maðurinn þar ekki undanskilinn. Mannfræðingar leggja land undir fót til þess að kanna framandi mannheima. Þegar þeir snúa til baka til síns heima uppgötva þeir sér mikillar undrunar að þeir hafa tekið breytingum og forn heimkynni eru ekki lengur þau sömu.

Líflandafræði leikur meginhlutverk í þróunarkenningu Darwins. Ferðalög og útbreiðsla lífvera er einn af mörgum aflvökum þróunar og fjölbreytni. Þetta gildir ekki einungis um þróun lífsins heldur einnig um tilurð þróunarkenningar byggðri á náttúrulegu vali. Bæði Darwin og Alfred Russel Wallace, sem uppgötvaði hugmyndina um náttúrulegt val samtímis Darwin, lögðust í mikil ferðalög. Darwin ferðaðist á árunum 1831–1836 með skipi hennar hátignar Beagle um jarðkúluna sunnan miðbaugs. Hann var ekki samur maður við heimkomuna. Það sem gerði honum ekki síst kleift að vinna að vísindastörfum sínum og kenningasmíði var næmleiki hans fyrir óendanlegum blæbrigðum náttúrunnar. Eins og breski bókmenntafræðingurinn Gillian Beer skrifar: „That capacity imaginatively to enjoy difference proves to be Darwin’s central intellectual gift.“

Þegar Atviksbókin Heimspeki verðandinnar varð fyrst á vegi mínum komst ég í gott skap. Eftir því sem frá leið fór samlíking Nietzsches um undirstöður á rennandi vatni að minna mig á dægurlagið „Það er allt á floti allstaðar“ sem Skapti Ólafsson ásamt hljómsveit Gunnars Sveinssonar gerði frægt. Ætli Nietzsche, sem var liðtækt tónskáld, hefði ekki tekið undir með Skapta og félögum?

Þótt mig langi mest til að stinga upp á því að íslenskir heimspekingar slái upp dansiballi beygi ég mig nauðugur og viljugur undir boðhlaupsaga Jóns Ólafssonar. Ég rétti nú Ólafi Páli Jónssyni heimspekingi ádrepuboðhlaupskeflið. Samkvæmt erindisbréfi er hann beðinn að ræða um tvennt. Í fyrsta lagi: Hvernig er unnt að túlka hugmyndina um hringrás og eilífa endurkomu mismunar? Er þetta frjó túlkun með tilliti til vísinda- og tækniþróunar 20. aldar? Í öðru lagi: Bandaríski heimspekingurinn Hilary Putnam hefur verið í nánu sambandi við stærðfræði og náttúruvísindi samtíðar sinnar. Hvernig ber að skilja þá staðreynd að hann hendir myndlíkingu Neuraths um skipasmíði úti á reginhafi á lofti? Er, þegar öllu er á botninn hvolft, gott að vera í sambandi þegar rætt er um heimspeki?

25. maí 2003

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *