Á að veita börnum trúaruppeldi?

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Á að veita börnum trúaruppeldi?1

Í grein sinni „Um trúaruppeldi og kennslu í kristnum fræðum“ mælir Salvör Nordal fyrir því að íslensk börn hljóti kristilegt trúaruppeldi af hendi bæði foreldra sinna og skólanna. Meðal annars andmælir Salvör þeirri hlutleysiskröfu sem félagið Siðmennt2 hefur sett fram í þessum efnum gagnvart grunnskólum á vegum hins opinbera og sem eitthvað hefur verið til umræðu á undanförnum misserum.

Salvör segist í upphafi ætla að „reifa nokkur rök fyrir því að lögð sé áhersla á trúar- og kristinfræðikennslu í uppeldi barna“. Hún tekur fram að skólinn eigi að taka þátt í þessu uppeldi og tilkynnir að hún ætli að „freista þess að verja trúaruppeldi og kristinfræðikennslu“3. Salvör gerir lítið til að skýra hvað hún á við með „trúaruppeldi“, hvernig hún hugsar sér að trúar- og kristinfræðikennslan fari fram eða hvað eigi að felast í henni. Salvör tekur það fram á fleiri en einum stað að útfærslan geti verið á ýmsa vegu. Í eftirmálsgrein segir hún að hún kjósi að leiða hjá sér muninn milli boðunar og fræðslu þar sem hann skipti ekki máli fyrir það sem hún er að fjalla um4.

Vandinn er sá að það skiptir einmitt talsverðu máli þegar rök Salvarar og boðskapur eru metin hvort hún á við boðun eða fræðslu og jafnvel hvernig framkvæmd fræðslunnar er háttað. Salvör bendir sjálf á, þar sem hún fjallar um það sem hún kallar menningarleg rök fyrir kristinfræðslu, að lítill ágreiningur er um það að íslensk börn þurfi að fræðast um kristni í því skyni að skilja betur íslenskan menningararf. Fræðsla um kristnar kenningar, sögu kirkjunnar og annað sem miðar að því að hjálpa nemendum að skilja betur menningu okkar og sögu þarf að sjálfsögðu ekki að fela í sér boðun trúarinnar eða gera neinar kröfur til nemenda um þátttöku í trúarathöfnum sem er einmitt sú gerð „fræðslu“ sem hvað mestur ágreiningur er um. Af máli Salvarar má ráða að hún vilji að gengið sé lengra en að fræða börnin í menningarlegum tilgangi: „Hin menningarlegu rök eru því ekki rök fyrir því að áhersla sé lögð á trúarlegt uppeldi eða að kristin trú sé kennd sem lifandi boðskapur.“5 Salvör hefst svo handa við að lýsa því sem hún kallar annars vegar trúarleg rök og hins vegar siðfræðileg rök.

Ef það er ekki ljóst hvað Salvör á við með áherslu á trúarlegt uppeldi eða kennslu kristinnar trúar sem lifandi boðskapar þá er ekki almennilega ljóst fyrir hverju hún er að færa rök. Því vekur það undrun að hún skuli telja það óþarft að gera nánari grein fyrir þessu. En þar sem hún tekur fram að menningarlegu rökin dugi ekki sem rökstuðningur fyrir því trúaruppeldi sem hún hefur í huga og einnig að hún skuli tiltaka að hún sé að mæla gegn þeirri stefnu sem Siðmennt hefur haldið á lofti6 geri ég hér ráð fyrir að Salvör vilji að börnum sé innrætt kristin trú í skólanum og þeim sé hún boðuð. Væntanlega má gera ráð fyrir að þetta feli í sér hluti á borð við bænahald og aðra þátttöku í trúarathöfnum sem og að börnunum sé sagt að helstu kennisetningar kristinnar trúar séu sannar.

Þar sem ég hef lítið við það að athuga sem Salvör kallar menningarlegu rökin mun ég ekki fjalla nánar um þau hér. Í stuttu máli ganga þau út á að fræðsla um kristni sé mikilvæg til viðhalds góðri menntun og íslenskum menningararfi. Þau rök ná einungis til fræðslu en ekki til trúboðs eða trúarinnrætingar. Ég mun hins vegar setja hér fram athugasemdir mínar við þau rök sem Salvör færir fyrir trúaruppeldi í skólum, annars vegar þau sem hún kallar trúarlegu rökin og hin sem hún nefnirsiðfræðilegu rökin.

Trúarlegu rökin

Í trúarlegu rökunum byggir Salvör á umfjöllun Williams James um lifandi kenningarog lifandi kjör. Samkvæmt skilgreiningu James er sú kenning lifandi „sem virðist þeim manni hugsanleg, sem er ætlað að trúa henni“7. Ég skil þetta svo að til að kenning sé mér lifandi megi mér ekki finnast hún of fjarstæðukennd og að hún þurfi að vera mér sæmilega skiljanleg. Lifandi kjör skilgreinir James sem kjör „þegar valið er milli tveggja kenninga, sem báðar eru lifandi“8. Salvör leggur út af þessu og talar um lifandi valkosti og sýnist mér hún með því hugtaki eiga við möguleikann á að velja kenningu sem er lifandi í skilningi James. Því sem hún kallar trúarlegu rökin má svo lýsa á þessa leið9:

Við viljum að börnin hafi frjálst val um trú eða óvissu.
Til þess að valið sé raunverulegt þurfa hvort tveggja að vera lifandi valkostir.
Trú er þess eðlis að hún er ekki lifandi valkostur nema viðkomandi hafi kynnst henni sem lifandi boðskap.
Niðurstaða: Börnin þurfa að kynnast trúnni sem lifandi boðskap.

„Ef börnin fá ekki að kynnast trúnni sem lifandi boðskap hefur sá valkostur að taka trú verið tekinn af þeim“10, segir Salvör. Hún skýrir því miður ekki hvað hún á við með lifandi boðskap eða hvað þurfi til að börn kynnist trú sem lifandi boðskap. Af tilgangi skrifanna má þó ráða að það að kynnast trú sem lifandi boðskap feli í sér einhvers konar trúariðkun. Trúin verður þá ekki lifandi valkostur nema viðkomandi hafi kynnst henni innan frá sem iðkandi hennar.

Salvör kveður þessi trúarlegu rök ganga út frá hlutleysi um það hvort börnin verði á endanum trúuð eða trúlaus. Lítum á orð Salvarar um þetta:

Við skulum láta liggja á milli hluta hvort börn séu betur komin með trú eða án hennar, þeirri spurningu verður hver að svara fyrir sig. Spurningin sem ég velti fyrir mér hér varðar fyrst og fremst hvaða raunverulegu valkosti við sköpum fyrir börn okkar og hvaða traust við berum til þeirra sjálfra um að velja og hafna. Vera kann að í hópi þeirra sem helst tala gegn trúaruppeldi á vorum tímum séu margir sem hafi kynnst trúnni sem lifandi boðskap og hafnað henni að vandlega athuguðu máli. Þeir hinir sömu hafa þá væntanlega farið í gegnum ákveðin andleg átök og jafnvel uppskorið nokkurn þroska í leiðinni. Val milli trúar eða óvissu, eins og James orðar það, er mikilvægt val hverjum manni. Það krefur einstaklinginn um að takast á við nokkrar mikilvægustu spurningar mann­legrar tilveru, um tilgang lífsins, um stöðu manneskjunnar í veröldinni og um grundvöll siðaskoðana. Er ástæða til þess að forða ungu fólki frá þessum viðfangsefnum?11

Hér er rétt að minna á að ef valið á að vera frjálst nægir ekki að gera trúna að lifandi valkosti heldur þarf trúleysið að vera það líka. Salvör tíundar skilyrði þess að trúin verði lifandi valkostur en hið undarlega er að hún veltir hvergi fyrir sér hvað þurfi til að gera trúleysi að lifandi valkosti. Þetta gefur til kynna að henni sé kannski ekkert sérlega umhugað um hlutleysi í þessum efnum, enda telst það tæpast hlutleysi að veita börnum trúarlegt uppeldi eða trúarlega innrætingu. Hvað gerist ef trúaruppeldið dregur úr líkunum á því að trúleysi verði börnunum lifandi kenning eða lifandi valkostur? Hvernig á að vera hægt að veita börnum uppeldi sem dregur taum trúar samtímis því að ganga út frá hlutleysi milli trúar og trúleysis? Ef til vill telur Salvör að óhjákvæmilegt sé að barn sem hlotið hefur trúarinnrætingu muni þegar það vex úr grasi fara að hugleiða þessar mikilvægu spurningar sem hún nefnir og að trúleysið sé alltaf sjálfkrafa lifandi valkostur hver svo sem bakgrunnur einstaklingsins er, hvaða trúarlegu innrætingu sem hann hlýtur. Sennilega er það eina mögulega skýringin á því að hún eyðir ekki svo mikið sem einu orði á nauðsynleg skilyrði þess að trúleysi sé einhverjum lifandi kenning. En getum við gefið okkur þetta, að við barni sem elst upp við trúarinnrætingu blasi svo við fullkomlega frjálst val milli trúar og trúleysis sem tveggja lifandi valkosta?

Helsti gallinn við trúarlegu rökin er sá að í raun ganga þau út frá að trú sé eftirsóknarverður kostur sem vert er að leggja talsvert á sig til að öðlast. Það eitt að Salvör líti svo á að valið standi milli trúar og þess sem hún kallar „óvissu“ segir til dæmis talsvert um afstöðu hennar. Ekki líta allir trúleysingjar svo á að þeir búi við einhverja óvissu, margir eru alveg jafn vissir í sinni sök og margur trúmaðurinn. Salvör lýsir áhyggjum sínum af því að ef börn kynnist ekki trúnni sem „lifandi veruleika“ (hugtak sem hún útskýrir ekki) þá eigi þau ekki möguleika á því sem Páll Skúlason kallar meðvitaða guðsafneitun og verði í staðinn sinnulaus um trúmál12. Þverstæðan í því, sem Salvör minnist ekki á, er auðvitað sú að þeir foreldrar sem líklegastir eru til að fetta fingur út í trúaruppeldi á vegum hins opinbera eru einmitt meðvituðu trúleysingjarnir sem eru síður en svo sinnulausir um trúmál. Tómlátir sinnuleysingjar eru mun líklegri til að samþykkja trúaruppeldi skólanna á þeim forsendum að það sé sjálfsagt ósköp gott fyrir börnin og jafnframt vegna þess að það fríar þá þeirri ábyrgð að sjá börnunum fyrir slíkri andlegri næringu. Áhyggjur Salvarar af börnum sem ekki fá tækifæri til að ræða djúpar spurningar um trúmál eru trúlega ástæðulitlar þegar kemur að foreldrum sem taka meðvitaða ákvörðun um að ala börnin sín ekki upp í trú.

Eða telur Salvör ef til vill að þeir foreldrar sem hafni trúaruppeldinu hljóti að vera þeir sem hún mundi kalla kreddufulla trúleysingja, þ.e.a.s. þeir sem hafa kynnst trúnni „sem kreddufullri kenningu eða sem stirðnuðum hugmyndum“13. Samkvæmt Salvöru gerir hin meðvitaða guðsafneitun (í anda Páls) ráð fyrir að viðkomandi hafi „raunverulega kynnst kristindómi“ og út frá því hafnað honum. Samkvæmt rökum Salvarar virðist það vera forsenda þess að raunverulega kynnast kristindómi að kynnast honum innan frá, það er með því að hljóta svokallað trúaruppeldi og iðka trúna.

Nú er það algengt að trúleysingjar skýri höfnun sína á trú með því að þeir hafi upplifað trúna sem eintómar kreddur og stirðnaðar hugmyndir. Í það minnsta er trúnni lýst sem einhverju sem við­komandi taldi ekki snerta sig og sem hann upplifði ekki sem „lifandi kenningu“.Hinir meðvituðu trúleysingjar samkvæmt skilgreiningu Salvarar, eða eina tegund trúleysingja sem henni er þóknanleg er sérdeilis fágætt afbrigði. Þetta virðist eiga að vera einstaklingur sem er svo já­kvæður út í trúna að hann er tilbúinn að innræta börnum sínum hana, líklega með bænahaldi og staðhæfingum um að Guð sé til, sé góður, að Jesús hafi verið sonur hans og dáið á krossinum til að frelsa okkur undan erfðasyndinni og svo framvegis. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafnar þessi einstaklingur samt sem áður trúnni. Hér blasir auðvitað eftirfarandi spurning við: Hvers vegna í ósköpunum ætti það að vera trúleysingjum eitthvert metnaðarmál að gera börnin sín að nákvæmlega þeirri tegund trúleysingja sem kristnir skilgreina og hafa sérstaka velþóknun á?

Hér er komið að því sem er kannski kjarni málsins: Er hægt að taka því sem gefnu að við viljum tryggja börnunum okkar það að trúin sé „lifandi valkostur“, hvað sem það kostar? Salvör talar um að ekki sé ástæða til að takmarka þann valkost barns að taka kristna trú. Ég get tekið undir það að vissu marki, ég tel mig ekki hafa ástæðu til að vinna markvisst gegn þeim valkosti. En ég er ekki tilbúin að halda þeim valkosti lifandi hvað sem það kostar, ef til vill á kostnað annarra valkosta sem ég tel mikilvægari. Sem foreldrar mótum við börnin okkar á ýmsa lund. Við ölum þau upp í þeim gildum sem við aðhyllumst og leggjum áherslu á að þau læri og leggi stund á það sem við teljum mikilvægt. Það hefur að sjálfsögðu í för með sér að við mótum þá valkosti og þau tækifæri sem börnin hafa seinna meir. Börn sem byrja að æfa listhlaup á skautum þriggja ára gömul hafa mun meiri möguleika á að verða heimsfrægir skautasnillingar en önnur. Ef ég set börnin mín ekki í slíkar æfingar er ég því að skerða þennan tiltekna valkost þeirra en í staðinn styrki ég vonandi aðra valkosti sem ég tel mikilvægara að þau hafi. Það sem ég á við er að ómögulegt er að gera ráð fyrir að börnin hafi alla hugsanlega valkosti þegar þau vaxa úr grasi, hvað þá að þessir kostir séu allir jafnaðgengilegir. Við þjálfum ekki eitt og sama barnið þannig að fyrir því verði samtímis opnir þeir valkostir að verða skautastjarna, fiðlusnillingur og skákséní.

Með öðrum orðum þá er óhjákvæmilegt að við beinum börnunum okkar inn á tilteknar brautir öðrum fremur og þar með hljótum við alltaf að takmarka valkosti þeirra. Fullkomlega frjálst val í þeim skilningi að allar hugsanlegar leiðir séu galopnar er ekki mögulegt. Af þessu leiðir að ekki er hægt að ganga að því sem vísu að þeir valkostir sem foreldrar vilji leggja áherslu á að veita börnum sínum þegar kemur að trúmálum séu alltaf þeir sömu, jafnvel þótt þeir telji ekki ástæðu til að beita sér beinlínis gegn tilteknum kostum. Þótt Salvör telji að sá valkostur að taka trú skuli hafa forgang flestum öðrum fremur getur hún ekki búist við því að foreldrar sem ekki deila trúarskoðunum hennar taki undir þessa forgangsröðun. Fyrir mörgum trúleysingjum er sá valkostur að geta öðlast lifandi trú kannski álíka mikilvægur og valkosturinn að verða heimsfræg skautastjarna er flestum þeim sem ekki hafa brennandi áhuga á skautalisthlaupi.

Helstu markmiðin sem Salvör virðist sjá fyrir sér í umræðu sinni um trúarrökin eru á þá leið að börnin verði þegar þau vaxa úr grasi fordómalaus gagnvart trúarbrögðum, öðlist hæfni til að takast á við djúpar spurningar tengdar trú þannig að þau geti tekið ígrundaða afstöðu til hennar og að þau hafi þetta frjálsa val sem þegar hefur verið fjallað um. Með öðrum orðum snúast rök hennar um langtímamarkmið trúaruppeldisins fremur en að meta gildi þess fyrir börnin á meðan á því stendur og því held ég mig að mestu við umræðu um það. Ekki er ljóst hvers vegna trúaruppeldi ætti endilega að vera eina eða besta leiðin til að ná fyrrgreindum markmiðum. Vissulega má hugsa sér að það að ala börn upp við jákvæð viðhorf gagnvart trú dragi úr líkum þess að þau verði fordómafull gagnvart trúnni. En hvernig á það að ala börn upp í tiltekinni trú að hjálpa gegn hugsanlegum fordómum gagnvart öðrum trúarbrögðum eða gagnvart trúleysi? Eru það ekki jafnverðug markmið?

Og hvernig á trúaruppeldið að þjálfa börnin í að verða djúpt hugsandi um trúmál? Salvör brýnir fyrir okkur mikilvægi þess að viðhalda umræðu um trúmál og kenna börnunum að taka þátt í slíkri umræðu14. Hvers vegna hún telur að trúaruppeldi þar sem börnum er innrætt ein trú umfram aðra sé leiðin til þess er mér óljóst. Telur Salvör að það trúaruppeldi sem svo sannarlega hefur átt sér stað í íslenskum skólum til þessa hafi verið árangursríkt í þessu tilliti? Sjálf hefði ég haldið að til að þjóna þessu markmiði væri heillavænlegra að fræða börnin til dæmis um að heimurinn sé fullur af góðu og gáfuðu fólki sem aðhyllist hin ólíkustu trúarbrögð og að hvetja þau til að velta fyrir sér hverju þau vilji trúa og hvers vegna fremur en að segja þeim hverju þau skuli trúa, sem trúarinnræting hlýtur alltaf að einhverju leyti að fela í sér. Einhliða innræting hefur aldrei þótt sérlega örvandi fyrir gagnrýna hugsun.

Síðferðilegu rökin

Salvör setur fram tvær útgáfur af siðfræðilegum rökum15. Sú fyrri er á þessa leið:

Nauðsynlegt er að veita börnum góðan siðferðilegan grunn, m.a. með því að innræta þeim tiltekin siðferðisgildi.
Innræting gilda sem byggja á kristni hefur gefist vel.
Því er engin ástæða til að hafna innrætingu kristinna gilda.

Ég get vel tekið undir það að börn þurfi góðan siðferðilegan grunn. Þótt sumir segist mótfallnir því að ákveðnum gildum sé haldið að börnum get ég ekki ímyndað mér að nokkur manneskja sem hæf gæti talist til að koma að uppeldi barna hafi neitt á móti því að börnum sé innrætt að það sé rangt að meiða fólk og pína, að við eigum að sýna náunganum virðingu og tillitssemi, að við eigum að vera heiðarleg og svo framvegis. Hér er það sem sagt ekki markmiðið sjálft sem okkur Salvöru greinir á um heldur leiðin að því. Næst segir Salvör að innræting góðra siða hér á landi hafi haft kristinn tón og gefist vel16. En er það rétt að þetta hafi gefist vel? Hvað höfum við til merkis um að það? Varla getur Salvör átt við uppeldi þeirra sem hafa þróað það markaðs­samfélag nútímans sem hún lýsir áhyggjum af, þeirra sem bera ábyrgð á heimi „þar sem ofbeldi virðist fara vaxandi og andleg gildi eru víkjandi“17. Hér skortir allan rökstuðning. Ég tek því hvorki undir þessa staðhæfingu né þá ályktun Salvarar að engin ástæða sé til að hafna innrætingu kristinna gilda. Ég tel einmitt margar ástæður til þess og rek hér nokkrar:

1. Margt hefur okkur verið kynnt undir nafninu „kristin gildi“ og oft virðist fátt þar sameiginlegt annað en nafngiftin eða það að einhver hópur fólks sem telst kristinn álítur viðkomandi gildi mikilvæg. Margt af þessu eru gildi sem sjálfsagt og eðlilegt er að leggja áherslu á, eins og náungakærleikur, mannvirðing og fleira. En í þessum hópi eru líka gildi sem mörg okkar eru frábitin og vilja síður en svo að séu höfð fyrir börnunum okkar. Viljum við til dæmis að börnunum sé kennt að konur skuli vera manni sínum undirgefnar, að samkynhneigð sé synd, að þrælahald megi réttlæta eða að berja skuli börn til hlýðni? Þetta eru allt hlutir sem hafa gengið undir nafninu „kristileg gildi“ og gera sumir jafnvel enn þann dag í dag hjá tilteknum hópum kristinna. Hvaða mælikvarða á kristileg gildi yrði stuðst við í því trúaruppeldi sem Salvör hefur í huga? Það að gildi hafi verið kölluð kristileg er svo sannarlega enginn gæðastimpill.

2. Þau „kristilegu“ gildi sem mér þykir tilhlýðilegt að íslenskum börnum séu innrætt eru síður en svo bundin við kristni. Um er að ræða gildi sem eru í hávegum höfð í langflestum trúarbrögðum sem og hjá þeim sem enga trú hafa. Þarna er um að ræða hluti eins og heiðarleika, virðingu fyrir fólkinu í kringum okkur, tillitssemi við náungann og fleira í þeim dúr. Sé börnunum kennt, jafnvel þótt það sé aðeins gert með því að gefa það óbeint í skyn, að virðing fyrir þessum gildum sé eitthvað sérstaklega bundin kristinni trú er verið að veita þeim rangar upplýsingar. Það að sið­ferðileg hegðun sem á að vera sjálfsögð öllu fólki hvar sem er í heiminum sé einhver sérstök uppfinning kristinna er einfaldlega ósatt. Að veita börnum rangar upplýsingar eða innræta þeim ranghugmyndir í þessum efnum er varhugavert af ýmsum ástæðum og hér verða þrjár tíndar til:

a) Þær röngu upplýsingar að kristnir hafi betra mat en aðrir á siðferðilegum gildum ýtir undir fordóma gagnvart fólki sem ekki játar kristna trú. Vonandi er óþarfi að lýsa því frekar hér hvaða skelfilegu afleiðingar fordómar eins trúarhóps í garð annars geta haft í för með sér (velkist einhver í vafa um þetta má t.d. fletta upp orðinu „pogrom“).

b) Áhætta felst í því að telja börnum (eða fullorðnum) trú um að siðferðileg hegðun sé bundin trúarbrögðum. Með því að láta fólk halda að það að hegða sér eins og sómasamleg manneskja sé háð trú á yfirnáttúrlegar verur, jafnvel í svo þröngum skilningi að það verði að vera kristin trú, er verið að gefa viðkomandi óþarflega gljúpan siðferðisgrunn. Ef viðkomandi missir trúna eða fær hana aldrei og verður trúlaus gæti hún eða hann haldið að þar með sé engin ástæða til að taka siðferðileg gildi og viðeigandi hegðun alvarlega. Sé börnum hins vegar kennt að siðferðileg gildi séu sammannleg og óháð trúarskoðunum er lagður sterkari grunnur að siðferðiskennd þeirra.

c) Sannleikurinn sannleikans vegna. Þótt það geti haft ákveðið hagnýtt gildi í sumum tilfellum að beita blekkingum og veita villandi upplýsingar þá eru flestir á þeirri skoðun að meginreglan skuli vera sú að segja sannleikann. Það hlýtur líka að gilda við uppeldi barna.

3. Trúfrelsi. Þótt Íslendingar hafi að vísu þjóðkirkju hlýtur að teljast vafasamt með tilliti til trúfrelsis að ríkisskólar taki að sér trúaráróður. Salvör hefur þann kost að veita sínum eigin börnum það sem hún kallar kristilegt uppeldi en það að fara fram á að ota sinni trú að börnum annarra á vegum ríkisins hlýtur að teljast yfirgangur, enda fæli það í sér brot á trúfrelsi þeirra.

Seinni siðfræðirök Salvarar eru á þessa leið:

Siðfræðihefð okkar er mikið til kristileg.
Jesús Kristur er gott dæmi um einstakling sem viðhefur þau lífsgildi sem við viljum leggja áherslu á.
Þekking á kristni getur því gefið dýpri skilning á þeim siðferðisgildum sem við höfum sammælst um.

Við þetta hef ég margt að athuga. Meðal annars tel ég engan veginn augljóst, sem Salvör fullyrðir, að lífsgildi á borð við mannvirðingu og frelsi séu byggð á kristinni trú öðru fremur. Ég dreg það ekki í efa að þeir sem kæra sig um geti fundið ýmislegt þeim til stuðnings í Biblíunni, enda hefur reynslan sýnt að fólk með hinar ólíkustu skoðanir finnur jafnan eitthvað máli sínu til stuðnings þar. Og vissulega eru margar sögur af Jesú fallegar og sjálfsagt geta einhverjar þeirra veitt ein­hverjum innblástur sem fyrirmyndir. En lítum nánar á þetta.

Salvör lýsir Jesú sem einstaklingi sem virðir flest þau lífsgildi sem okkur eru mikilvæg. Hún nefnir til dæmis umhyggju fyrir lítilmagnanum, sjálfstæði í skoðunum, náungakærleik og að koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur (gullna reglan svokallaða), m.ö.o. virðingu fyrir einstaklingnum. Þetta segir Salvör vera grundvallarsýn kristinnar kenningar18 og einnig segir hún að gildismat sem þetta eigi rætur sínar í kristnum hugmyndum. Hér vakna augljósar spurn­ingar: Ef þetta er rétt hjá Salvöru hvers vegna hafa þá hlutir eins og þrælahald, kvennakúgun og lénsveldi viðgengist meðal kristinna þjóða þegar horft er til sögunnar? Hvaðan hlýtur þá Drekk­ingarhylur nafn sitt og hvað í ósköpunum var vistarbandið ef jöfn virðing fyrir öllum einstaklingum er til grundvallar kristinni trú? Hafði það fólk sem stóð fyrir þeirri kúgun sem hér er nefnd kannski bara ekki réttan skilning á kristninni? Nú ætla ég mér ekki þá dul að fara að segja til um hina einu sönnu túlkun á kristinni trú og boðskap hennar en læt nægja að benda á að sagan sýnir og dæmin sanna að „kristilegur“ siðaboðskapur hefur svo sannarlega verið útfærður á mismunandi vegu og í mörgum tilfellum hefur þar virst nokkuð djúpt á mannvirðingunni. Enn í dag viðhefur stærsti kristni söfnuður heims, kaþólska kirkjan, opinbera kynjamismunun og neitar konum m.a. um að vígjast til prests. Eins hefur afstaða bókstafstrúaðra mótmælenda í Bandaríkjunum í ýmsum efnum, til dæmis varðandi dauðarefsingar og málefni samkynhneigðra, verið þyrnir í augum þeirra sem berjast fyrir mannréttindum.

Þeirri staðhæfingu sinni að lýðræðishugsjónin byggist á kristninni hnykkir Salvör á með eftir­farandi orðum: „Þekking á kristinni kenningu getur því augðað og dýpkað skilning okkar á þeim lífsreglum sem fyrirferðarmestar eru í okkar samfélagi. Þetta er meðal annars ástæða þess að þjóðir með annan trúarlegan bakgrunn eiga á stundum erfitt með að meðtaka vestræn gildi um réttindi og virðingu“19.

Þegar ég las þetta fyrst hélt ég að Salvör hlyti að vera að hæðast að þeim hroka sem stundum má finna meðal sumra boðbera kristninnar. Ég ákvað því að taka undir þetta með henni og halda áfram í sama anda: Já, um þessa tregðu heiðingjanna má auðvitað finna ótal dæmi hvar sem gripið er niður í sögunni. Þegar kristnir evrópskir menn sigldu til Vestur-Afríku í leit að hentugu vinnuafli reyndust hinir afrísku oft á tíðum lítt samvinnuþýðir. Auðvitað hefðu þeir átt að sýna tilhlýðilega virðingu með því að sigla sjálfir yfir hafið og bjóða fram þjónustu sína. Eins er það velþekkt hvað múslimarnir urðu önugir þegar kristnir lögðu í sínar miklu friðarfarir (stundum nefndar krossferðir) til að boða þeim fagnaðarerindið. Færum við okkur nær í sögunni eru stælarnir í Víetnömum við velmeinandi bandaríska hermenn mörgum minnisstæðir. Og hvers vegna gátu Afganir og Írakar ekki bara séð um að sprengja börnin sín upp sjálfir í staðinn fyrir að láta kristnu hermennina leggja sig í hættu við að gera það fyrir þá? Lengi lifi hin vestrænu gildi um réttindi og virðingu, það er að vestrænir menn eigi sér réttindi umfram alla aðra og því skuli umheimurinn sýna þeim virðingu!

Því miður held ég, eftir nánari lestur, að Salvöru sé full alvara með þessum orðum sínum. Væntanlega hefur hún í huga eitthvað á borð við vandamál sem komið hafa upp hjá múslimskum innflytjendum í Evrópu í seinni tíð, til dæmis tregðu til að leyfa dætrum sínum að ráða eigin lífi. Þarna er vissulega um tilfelli að ræða þar sem fólk með annan bakgrunn en kristinn virðist hafna hugmyndum okkar um það sem við teljum sjálfsögð réttindi. En að ætla að draga af þessu ályktanir um kristni almennt er hrein firra, hvort sem horft er á söguna eða heiminn í stærra sam­hengi, eins og sést af dæmunum sem ég nefni hér að ofan. Þegar litið er til réttinda og virðingar hafa kristin þjóðfélög og kristin kirkja svo sannarlega nóg að skammast sín fyrir. Þótt lýðræðis­hugsjónin hafi komið fram og dafnað á allra síðustu öldum meðal þjóða sem voru að mestu leyti kristnar verður seint sagt að hún, eða hugsjónin um jöfn réttindi allra og jafna virðingu fyrir öllum, hafi verið eitthvert sérstakt einkenni á kristninni í tæplega tveggja árþúsunda sögu hennar. Og varla höfðu Forn-Grikkir eða Íslendingar á þjóðveldisöld sína lýðræðishugsjón úr kristni? Ég þarf varla að tíunda frekari dæmi fyrir lesendum en oft hefur réttindabarátta farið fram í trássi við kristna kirkju og kirkjan verið síðust allra til að meðtaka þessi réttindi. Þar eru réttindi kvenna og samkynhneigðra augljós og nýleg dæmi.

Hér vakna líka spurningar um það hvaðan við fáum lífsgildi okkar og hvert samspilið er milli trúar, gilda og menningar. Sumir trúa því sjálfsagt að trúarbrögð eins og kristni verði til eftir forskrift frá Guði sjálfum og þar með sé það gildismat sem trúin boðar komið að ofan. Sé þetta tekið sem gefin forsenda má sjálfsagt halda því fram að tiltekið gildismat (eins og til dæmis lýðræðis­hugsjónin) geti verið komið „úr trúarbrögðunum“. En fyrir okkur sem trúum því að trúarbrögðin séu afsprengi menningarinnar, smíðisgripir okkar mannfólksins, hlýtur sagan að verða önnur. Ef kristin trú leggur áherslu á náungakærleik þá hlýtur það að vera vegna þess að þau sem hafa mótað trúna hafi viljað leggja áherslu á þá dygð. Og ekki er það nú ósennilegt að ástæða þess sé að flestu fólki, hverju svo sem það trúir um guði og aðrar kynjaverur, þyki náungakærleikur mikilvægur og hafi þótt gegnum tíðina. Auðvitað finnur Salvör (ásamt öðrum) í trú sinni samhljóm við þau lífsgildi sem hún telur mikilvæg, annars hefði hún tæpast kosið þessa tilteknu trú. En það að trú skuli endurspegla þau gildi sem þykja mikilvæg á því menningarsvæði þar sem hún er ríkjandi dugar ekki til að eigna trúnni heiðurinn af gildismatinu, hvað þá að draga úr líkunum á því að þeir sem hafna trúnni deili þessum gildum líka. Það að jafnt mannréttindafrömuðir sem félagar í Ku Klux Klan hafi bent á kristna trú sem mikilvæga forsendu skoðana sinna segir okkur ekkert um hinn „raunverulega“ boðskap kristninnar, nema þá kannski að fólk hafi greinilega lagt mismunandi skilning í hann. Fyrst og fremst segir það okkur að fólk sem er trúað telur það mikilvægt að finna gildismati sínu stað í trú sinni en þetta gerir kristna trú hvorki að uppsprettu mannréttindahugtaksins né kynþáttahaturs.

Þegar horft er til sögu Íslendinga er auðvitað ljóst að menningin og kristnin hafa verið samofnar síðustu þúsund árin og hið sama gildir um flestar aðrar vestrænar þjóðir. Þetta styður þau rök sem Salvör kallar menningarrökin og sem kveða á um að nauðsynlegt sé að fræða börn um sögu kristninnar og helstu kennisetningar hennar. Þetta gildir sjálfsagt líka út frá hugmynda­sögulegu sjónarmiði og segir okkur að skilningur á kristinni trú geti veitt einhverja innsýn í það sem liggur núverandi hugmyndum okkar um lífsgildi til grundvallar. En þetta á auðvitað við um fræðslu en ekki boðun og af þeim ástæðum sem ég hef þegar nefnt er mikilvægt að gera þar greinarmun. Þrátt fyrir að fagna megi hugmyndum um aukna og bætta fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð í skólum landsins er því full ástæða til að hafna trúboðshlutverki opinberra skóla.

Tilvísanir

1. Ég þakka Agna Ásgeirssyni, Agli Arnarsyni, Jóhanni Björnssyni, Mikael M. Karlssyni og Sigurði Kristinssyni yfirlestur og ábendingar við gerð þessarar greinar.

2. http://www.sidmennt.is

3. Salvör bls. 75

4. Salvör 10. eftirmálsgrein

5. Salvör bls. 78

6. Sjá 2. eftirmálsgrein

7. James bls. 54

8. bls. 55

9. Salvör bls. 78-81

10. bls. 78

11. bls. 79

12. Páll bls. 265-274

13. Salvör bls. 80

14. bls. 80

15. bls. 81-83

16. bls. 82

17. bls. 84

18. bls. 82

19. bls. 83

Heimildir

William James (1993), „Trúarvilji“, í Róbert H. Haraldsson (ritstj.), Erindi siðfræðinnar, Reykjavík: Rannsóknastofnun í siðfræði.

Páll Skúlason (1987), Pælingar. Safn erinda og greina, Reykjavík: Ergo.

Salvör Nordal (2005), „Um trúaruppeldi og kennslu í kristnum fræðum“, í Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal og Vilhjálmur Árnason (ritstj.), Hugsað með Páli: ritgerðir til heiðurs Páli Skúlasyni sextugum, Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Vefsetur Siðmenntar, http://www.sidmennt.is.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *