Trúarfræðsla, siðgæðisuppeldi og trúaruppeldi

Sigurður Pálsson

Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinga og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúflokka.

Til að stuðla að þessum markmiðum þarf, við mótun menntastefnu, að vekja umræðu um grundvallargildi og mannskilning sem menntakerfinu er ætlað að hvíla á og hvaða námsgreinar eru til þess fallnar að stuðla að því að þessi markmið menntunar náist. (úr Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna)

Það er fagnaðarefni að umræða um grundvallargildi í menntakerfinu skuli vera að vakna, sbr. grein Salvarar Nordal í ritinu Hugsað með Páli1 og grein Eyju Margrétar Brynjarsdóttur hér á heimspekivefnum. Með vaxandi fjölmenningu hefur umræða um skipan fræðslu um trúarbrögð, siðfræði og lífsskoðanir í skyldunámsskólum verið lífleg í nágrannalöndum okkar. Hér á landi hefur fræðileg umræða um þetta efni verið fremur fátækleg og oftar en ekki eintal fáeinna áhugamanna við sjálfa sig.

Þar sem bæði grunnskóla- og framhaldsskólalög eru nú í endurskoðun er ástæða til að hvetja til þess að rykið verði blásið af þessum yrðingum mannréttayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem fyrr voru nefnd. Með því gætu áherslur í íslenskum menntamálum breyst.

Kveikjan að þessum skrifum mínum er ofangreindar greinar þeirra Salvarar og Eyju Margrétar. Hér er þó ekki um neins konar svargrein að ræða, miklu fremur að ég grípi einn eða tvo bolta hjá þeim til að leika mér að. Meginefnið er almennt um trúarbragða- og siðfræðikennslu, en hennar hlutur er snautlegastur hér á landi af öllum nágrannalöndum okkar.

Fram að þessu hefur verið eining um að grundvallargildi í þjóðfélögum Vesturlanda eigi sér húmanísk-kristnar rætur. Því hefur hins vegar aldrei verið haldið fram að mannkynið eigi ekki einnig fjölmörg sameiginleg gildi. Það er því vandséð, eins og Eyja lætur liggja að, að í því felist eitthvert yfirlæti gagnvart öðrum þótt við höldum því fram að okkar arfur hafi skilað okkur lengra en mörgum, bæði félagslega og siðferðilega.

Eyja telur hins vegar að það sé nánast andstyggðin ein sem kristindómurinn hefur lagt til vestrænnar menningar. Því til stuðnings telur hún upp margvíslega glæpi sem framdir hafa verið af Vesturlandabúum og kristinni kirkju. Það flokkast ekki með afrekum að romsa upp glæpamönnum sem hafa skreytt sig með kristilegum merkimiðum. Með sömu rökum eru þeir sem treysta skynsemi mannsins búnir að koma sjálfum sér á hálan ís, því ekki eru þau fá óhæfuverkin sem unnin hafa verið í nafni hennar og með tólum sem eru afkvæmi hennar. Kannski ættum við að fara að hossa heimskunni?

Glíman við siðgæðisviðmiðin og siðgæðisuppeldið er mikilvægari en svo að henni hæfi umræða af þessu tagi. Í uppeldi og menntun ætti eitt meginmarkmiðið að vera að hvetja ungmenni að tileinka sér dyggðir og kenna þeim að glíma með rökum við siðferðileg álitamál og taka þá glímu alvarlega. Í okkar menningarheimi ætti að vera ljóst að hér hlýtur upplýsing um og glíman við kristin siðgæðisviðmið að skipta miklu máli. Ég tala um glímu vegna þess að markmið siðgæðisuppeldis (einnig kristins siðgæðisuppeldis) ætti að vera að þroska sjálfstæða einstaklinga en ekki að smíða prógrammeraðar strengjabrúður.

Salvör Nordal ræðir í grein sinni öll helstu rök sem námskrá færir fyrir kennslu í kristnum fræðum, trúarbragðafræðum og siðfræði í skyldunámsskólum og er henni að auki tíðrætt um mikilvægi kristilegs uppeldis. Sem kristinn uppalandi get ég tekið heilshugar undir viðhorf hennar og áherslur. Ég tek undir að miklu varðar að trúin verði barninu lifandi valkostur. Einn snarasti þátturinn í trúarlegri uppeldismótun er mótun guðsmyndarinnar sem geðlæknirinn Ana Maria Rizzuto2segir verða til í bernsku úr foreldraímyndum, kennaraímyndum, ímyndum fólks í kristilegu barnastarfi og „fulltrúum Guðs á hvíta tjaldinu“. Afstaða fullorðins einstaklings til Guðs getur ráðist af afstöðu einstaklingsins til þeirrar guðsmyndar sem hann hlaut á mótunarárum sínum.

Hvað er trúaruppeldi? Norsku uppeldisfræðingarnir Evenshaug og Hallen3 gera, á grundvelli viðtala við fjölmarga foreldra greinarmun á þrenns konar trúarlegu uppeldi. Heildstæðu trúaruppeldi þar sem allt uppeldisumhverfið er gegnsýrt af kristilegu lífsviðhorfi og trúariðkun, því næst nefna þeir miðlun hefðanna sem felst í jákvæðri afstöðu fólks til þess sem það kynntist í bernsku og einkenndist af bænaiðkun og þátttöku í kristilegu barnastarf og í þriðja lagi afstaða þeirra foreldra sem líta á trúararfinn sem staðreynd sem ekki verði gengið framhjá þótt hún skipti viðkomandi litlu máli. Deila má um hvort þetta síðastnefnda geti kallast trúaruppeldi. Einn viðkvæmasti bletturinn hvað varðar kennslu kristinna fræða í skyldunámsskólum er það sem gagnrýnendurnir kalla trúboð og trúariðkun. Með trúariðkun er þá talin heimsókn í kirkju um jól og það að fara með bænir. Hvort tveggja telst liður í einhvers konar trúaruppeldi. Ef þetta er óþolandi, er þess þá að vænta að stutt verði við trúaruppeldi í skólunum? Er það mögulegt? Er það æskilegt?

Hvers konar trúaruppeldi verður við komið í skyldunámsskóla í fjölhyggjusamfélagi? Er hugsanlegt að einum þyki of sem öðrum þykir van? Er hugsanlegt að einn vilji fá meiri stuðning en annar við trúarlega uppeldisviðleitni sína af hálfu leikskóla og grunnskóla, einmitt vegna þess hve börnin verja stórum hluta af vökutíma sínum þar? Hverjir eiga að hafa síðasta orðið? Og hvað á að gera við nýbúana? Á að láta sem trúarleg sérstaða þeirra sé ekki til eða á að hjálpa þeim að varðveita hana og kynna fyrir börnunum okkar? Umburðarlyndishugtakinu er gjarnan sveiflað þegar trúarleg álitamál eru annars vegar. Minna fer fyrir skilgreiningum. Umburðarlyndi felur ekki í sér að breiða yfir allan mismun. Umburðarlyndi felur í sér að læra að kynnast fjölbreytileikanum og lifa í friði þrátt fyrir það sem aðskilur og skiptir okkur máli.

Norðmenn gerðu 1997 umfangsmikla og heiðarlega tilraun til að setja saman námsgrein sem þeir nefndu Kristendomskunnskap, religion og livssyn. Hún skyldi hæfa öllum norskum þegnum og taka tillit til nemenda með ólík lífsviðhorf. Námsgreinin átti að fela í sér þætti sem nauðsynlegir væru hverjum upplýstum Norðmanni. Til undirstrikunar á því að þetta væri námsgrein fyrir alla voru undanþáguákvæði mjög þröng og snertu einkum þætti sem flokkast gætu undir þátttöku í trúarathöfnum. Námsgreinin mæltist misjafnlega fyrir, en flestir undu henni. En hin þröngu undanþáguákvæði voru kærð vegna þess að sumum foreldrum þótti sér misboðið. Málið fór alla leið til Mannréttindanefndar Evrópuráðsins sem taldi að gera þyrfti breytingar, m.a. að víkka út undanþáguákvæðin. Úrskurður nefndarinnar þótti reyndar afar umdeilanlegur, enda reyndist vandkvæðum bundið að smíða reglur sem fullnægðu kröfum ólíkra hópa. Þessi tilraun Norðmanna, sem enn stendur, var gerð til þess að varðveita hugsjónina um einn skóla fyrir alla, hugsjónina um þjóðfélag án aðgreiningar. Stefnir í að sú hugsjón verði liðin tíð? Varla er það í þágu umburðarlyndis ef uppvaxandi kynslóð er deilt niður á skóla eftir lífsviðhorfum. Varla er það í þágu mennskunnar ef skólinn er sneyddur því sem mestu varðar, fræðslu og umræðum um trú og lífsviðhorf.

Því er oft haldið fram að skólarnir vaði yfir börn trúleysingja með trúboði og nauðugum trúariðkunum. Þess kunna að vera dæmi. Þó er skýrt tekið fram í námsskrá að skólinn sé ekki trúboðsstofnun heldur fræðslustofnun. Ef misbrestur er á því er við viðkomandi kennara og skólayfirvöld að sakast, en ekki skipan námsins.

Það má hins vegar varpa þeirri spurningu fram, hvaða stuðning þeir foreldrar fá frá skólanum, sem kjósa að veita börnum sínum trúarlegt uppeldi. Ljóst er að því eru settar miklar skorður. Hvar er réttur þessara foreldra til stuðnings við uppeldi sitt hvað varðar trú og lífsskoðun, sem margir telja merginn málsins? Þegar foreldrar sem andvígir eru trúarlegu uppeldi leita réttar síns vitna þeir gjarnan í samþykkt aðildarríkja Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og er með þeim rökum krafist að tekið sé af stundaskrá það sem viðkomandi telja ógna uppeldisrétti sínum: Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum er miða að menntun og fræðslu virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar og lífsskoðanir þeirra.4

En hvað ef hinir telja að sér þrengt ef þaggað er niður það sem þá varðar mestu?

Siðgæðis- og trúaruppeldi er langvarandi og flókið ferli sem fleiri koma að en heimili og skóli. Fjölmiðlar, og reyndar samfélagið allt, hefur áhrif og styður eitt en skeytir ekki um annað. Fyrir nokkrum árum gerði Sigmund Harboe5 allviðamikla rannsókn á því hversu lífsviðhorf sem börn og ungmenni tileinkuðu sér í bernsku loddu lengi við viðkomandi. Það kom kannski ekki mjög á óvart að þessi viðhorf af bernskuheimilinu loddu býsna lengi við, langt fram á fullorðinsár. Hitt vakti hins vegar athygli að guðlaus lífsviðhorf loddu lengur við einstaklinginn en trúarleg lífsviðhorf. Ályktunin sem dregin var af þessu var sú að fjölmiðlar, með fréttum og efnisvali yfirleitt, félagsstarf fyrir unglinga og reyndar samfélagið allt virðist styðja betur við guðlaus lífsviðhorf en trúarleg. Er hugsanlegt að íslenska skólakerfið geri það, t.d. með því hvaða sess fræðsla um trúarbrögð og lífsviðhorf skipar bæði í grunn- og ekki síður framhaldsskólum?

Skólakerfið er á tímamótum, bæði skipulag þess og inntak. Ég bind vonir við aðtrúaruppeldis- og kennslufræðin verði álitin verðugur samræðuaðili við þá endurskoðun sem framundan er, svo börnin okkar hljóti alhliða menntun og geti gengið í sama skóla þrátt fyrir fjölbreytileika í lífsviðhorfum.

Fræðigrein þessi nefnist á þýsku og norðurlandamálum religionspedagogik (þ. Religionspädagogik).6 Þetta er tiltölulega ung fræðigrein sem er, eins og aðrar gelgjur, að leita sér að sjálfsskilningi (e. identity) og hefur jafnvel þurft að berjast fyrir því að fá sjálfstæði sitt viðurkennt. Ýmist hefur hún talist tilheyra kennimannlegri guðfræði eða talist vera hjáleiga uppeldisfræðinnar, allt eftir því hvort hún yrðir um kirkjulega fræðslu eða fræðslu innan skólakerfisins. Ýmsir þeirra er fást við þessi fræði kjósa helst að litið sé á fræðasviðið sem sjálfstætt fræðasvið sem leggur kollhúfur á eigin forsendum yfir þeim viðfangsefnum sem glímt er við hverju sinni á sviði uppeldis og mennta á hvaða vettvangi sem er, og bankar upp á hjá öðrum fræðasviðum til skrafs og ráðagerða.

Þær gáttir sem þarf að skyggnast um leiða að fjölmörgum ólíkum fræðasviðum sem varða manninn, bæði sem einstakling og félagsveru, sjálfsskilning hans og menningu. Allt eru þetta viðkomustaðir á leiðinni að þeirri niðurstöðu sem finnur trúarbragðafræðslunni stað og trúkennslufræðin mótar síðan og gengur út frá áður farið er með efnið inn í skólastofuna.

Ríkjandi lífsviðhorf, sem orðið hafa til í tilteknu samfélagi eða á tilteknu menningarsvæði við tilteknar aðstæður, hafa áhrif á uppeldismótun, menntastefnu, starfsumhverfi skóla og gildismat, þar með talið gildismat kennara. Trúaruppeldisfræðin þarf því að skyggna menningar- og menntaumhverfið í fortíð og samtíð í glímunni við það sem hún er að fást við, þ.e. forsendur og framkvæmd trúarbragðafræðslu í skólum í framtíðinni. Jafnframt þarf hún að skoða það sem er að gerast í samskiptum þjóða. Getum hefur verið leitt að því að átök milli menningarheima á nýrri öld verði ekki vegna ágreinings um efnahagslega skipan mála heldur verði um að ræða átök milli lífsviðhorfa og gildismats.7 Þá benda stórstígar framfarir á sviði vísinda, ekki síst lífvísinda, eindregið til þess að glíman við siðferðileg vandamál verði áleitnari en nokkru sinni á nýhafinni öld.

Skólinn verður því að smíða nemendum sínum gleraugu til að skyggnast um í sífellt flóknari heimi, margskipt gleraugu, sem skerpa sýn til margra átta. Það þýðir að skólinn þarf einnig að smíða sjálfum sér ný. Það er skoðun mín að skólinn geti ekki í sama mæli og hingað til einblínt á svo kallaðar hvernig spurningar, svo sem tíðkast hefur. Honum ber einnig að leggja að leggja áherslu á tilvistarspurningar. Honum ber að glíma með nemendum sínum við hvers vegna og til hvers spurningar, spurningar sem snúast um mannskilning, gildismat, siðferði, trú og lífsviðhorf. Skólinn á vissulega ekki að vera vígvöllur ólíkra viðhorfa eins og sumir kunna að óttast að hann verði ef tilgangsspurningum verður hleypt að í ríkara mæl en verið hefur. En skólinn á tvímælalaust að vera staður þar sem nemendur öðlast þekkingu og eru fengin orð og hugtök og tamin upplýst orðræða sem nothæf er í glímunni um viðhorf og gildi. Í skólakerfinu á að þjálfa fólk í heiðarlegri og fordómalausri glímu um álitamál undir formerkjum skilnings og umburðarlyndis. Skólinn á að vera vettvangur þar sem einnig er tekist á um trúarafstöðu á heiðarlegan og gagnrýninn hátt, vegna þess að þetta eru álitamál sem skipta máli.

Skólanum er ætlað að temja nemendum sínum umburðarlyndi. Umburðarlyndis er helst þörf þar sem ólík viðhorf mætast og takast á. Það felur ekki aðeins í sér virðingu fyrir rétti manna til að hafa skoðanir, heldur einnig virðingu fyrir rétti manna til að tjá skoðanir sínar og vinna þeim fylgi á heiðarlegan hátt. Umburðarlyndið gerir því kröfu til hvers einstaklings að hann kynni sér af kostgæfni skoðanir sem hann hyggst andmæla eða berjast gegn, geti gert heiðarlega grein fyrir þeim og temji sér heiðarleg andmæli. Krafan um umburðarlyndi krefst mikils af kennurum um þekkingu, fordómaleysi og sjálfsögun ef þeir eiga að vera færir um að temja nemendum sínum hið sama. En umburðarlyndi getur jafnvel skerpt það sem aðgreinir ef allir hafa notið réttar til að tjá sig.

Trúarbrögð og lífsviðhorf eru sá vettvangur þar sem maðurinn glímir við tilgangsspurningar sínar, spurningar um hinstu rök veru sinnar, um rétt og rangt, gott og illt. Ólík trúarbrögð og lífsviðhorf gefa ólík svör við sumu, skyld svör við öðru. En síðast en ekki síst glíma þau við hina sístæðu spurningu: Hvað er sannleikur? og gefa í sumum tilvikum andstæð svör. Skóli sem fer í kringum þessar spurningar eins og köttur í kringum heitan graut á meðan heimurinn logar, rís ekki undir heitinu menntastofnun. Skóli sem beinir slíkum spurningum í farveg afstæðishyggju, að eitt sé gott í dag og annað á morgun, eitt satt í dag, annað á morgun, þetta gildismat sé gott hér og annað þar, rís heldur ekki undir nafni. Hann skilur nemendur sína eftir án áttavita á víðavangi tilverunnar. Að fá ungu fólki stað að standa á er skylda uppalandans. Að vita hvar maður stendur er forsenda þess að vita hvert mögulegt er að halda til af finna sér nýjan stað að standa á.

Umræðan um stöðu og hlutverk trúarbragðafræðslu í skyldunámsskólum á sér víðast í kringum okkur lengri hefð en hér.8 Spurningarnar sem heitast hafa brunnið eru: Hvernig getum við, þetta ólíka fólk með ólík trúarviðhorf, lifað saman í friði? Hvernig er hægt að varðveita kristinn menningararf og kristin grundvallargildi Vesturlanda jafnframt því sem aðkomnum er skapað svigrúm til að varðveita eigin arf og eigin gildi? Á að láta trúarsamfélögin sjálf um þessa fræðslu til að forðast vandræði? Ef það er gert, lærist eitthvert umburðarlyndi á því? Hversu mikið tillit á að taka til trúarlegra og menningarlegra hefða þess samfélags sem fyrir er og hve mikla áherslu á að leggja á að varðveita þær? Eru trúarbrögðin kannski öll sami grautur í sömu skál kryddaður með ólíkum hætti? Væri ráð að nálgast fræðsluna þannig? Hvað með hina trúlausu? Þessar spurningar og aðrar skyldar hafa verið umræðuefni skólayfirvalda og trúaruppeldisfræðinga um alla Evrópu á síðustu áratugum.

Trúaruppeldisfræðin á augljóslega skyldugt erindi inn á vettvang uppeldis og skólamála til virkrar þátttöku í glímunni við þessar þrjár grundvallarspurningar kennslufræðanna: Hvað? Hvers vegna? Hvernig?

Tilvísanir

1. Salvör Nordal 2005: Um trúaruppeldi og kennslu í kristnum fræðum í Hugsað með Páli, ritstj. Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal og Vilhjálmur Árnason. Reykjavík.

2. Rizzuto, Ana-Maria 1979: The birth of the living God. A Psychoanalytic Study. Chicago og London.

3. Evenshaug og Hallen 1997: Familiepedagogikk. Oppdragelsens hvem, hvordan, hvorfor. Oslo, bls. 105-106.

4. Evrópusáttmáli um verndun mannréttinda og mannfrelsins. Viðbótarsamn. nr. 1,2.

5. Harboe, Sigmund 1989: Barndomserfaringer og voksentro. En religionspsykologisk undersøkelse av forholdet mellom tidlig påvirkning og senere holdning til kristendom. Oslo.

6. Ég hef kosið að nefna greinina trúaruppeldisfræði þótt hún spanni bæði viðfangsefni á sviði uppeldis- og kennslufræði (pedagógík og dídaktík).

7. Huntington, Samuel P. 1997: The Clash of Civilizations and the Remaking of World Order. Oxford.

8. Cooling, Trevor 1994: A Christian Vision for State Education. London. Felderhof, M.C. (ed.) 1982: Religious Education in a Pluralistic Society. London. Hull, John (ed.) 1982: New Directions in Religious Education. Sussex. Jackson, Robert, 2004: Religious Education, an interpretive approach. London.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *