Inngangur ritstjóra að Hug 2009

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Á undanförnum áratugum hefur hlutfall kvenna í vísindum og fræðum margfaldast í takt við aukna menntun og fjölgun kvenna á vinnumarkaði. Á mörgum fræðasviðum hafa konur orðið mun sýnilegri en áður og eru jafnvel í meirihluta. Sú hugmynd að konur eigi ekki heima í háskólum eða nokkru öðru fræðagrúski, sem þótti sjálfsögð þegar ömmur okkar eða langömmur voru ungar, virðist hafa vikið og þegar hér er komið sögu hafa konur verið rektorar tveggja stærstu háskóla landsins.
         Þessi jákvæða þróun hefur þó ekki verið ör á öllum sviðum og í heimspeki hefur fjölgun kvenna verið merkilega hæg. Heimspekin sker sig í þessu úr hópi hugvísindagreina og er í mörgum löndum, m.a. Íslandi, sú grein hugvísinda sem hefur hvað lægst hlutfall kvenna. Samkvæmt doktorsritgerðaskrá Landsbókasafns hafa 5 íslenskar konur1 lokið doktorsprófi í heimspeki á móti 28 körlum, sem þýðir að 15% íslenskra heimspekidoktora eru konur. Sé miðað við þau sem gera má ráð fyrir að séu enn starfandi, þ.e. fædd 1940 eða síðar, er hlutfall kvenna 14%, eða 4 konur og 24 karlar. Árin 1999–2008 luku 2 konur og 8 karlar doktorsprófi í heimspeki (hlutfall kvenna 20%) en næsta tíu ára tímabil á undan voru konurnar 2 og karlarnir 6 (hlutfall kvenna 25%). Þótt þessar tölur séu vissulega allt of lágar til að hægt sé að nýta þær sem gildar tölfræðilegar upplýsingar virðist óhætt að fullyrða að fjölgun íslenskra kvendoktora í heimspeki sé ekki áberandi hröð. Hlutfall kvenna með doktorspróf segir vitaskuld ekki allt um hlutfall kvenna sem starfa við heimspeki og áhugavert væri að bera þessar upplýsingar saman við upplýsingar um íslenskar konur með BA- og meistarapróf í heimspeki en það verður ekki gert hér, enda umtalsvert flóknara verk að afla nauðsynlegra gagna til þess og vinna úr þeim.
         Í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur lágt hlutfall kvenna í heimspeki verið talsvert til umræðu að undanförnu. Nýlegustu dæmin eru nú frá haustinu 2009 en í október birtist stutt grein í bandaríska dagblaðinu New York Times undir fyrirsögninni „A Dearth of Woman Philosophers“2 sem vísaði til greinar frá mánuðinum áður í hinu breska The Philosophers’ Magazine þar sem Brooke Lewis fjallaði um stöðu kvenna í heimspeki.3 Þar kom fram að hlutfall kvenna í fullu starfi við breskar heimspekideildir er 18%, umtalsvert lægra en við sagnfræðideildir (32%) og við sálfræðideildir (39%). Ástandið í Bandaríkjunum virtist svipað, með 22% hlutfall kvenna við þær átta heimspekideildir sem teljast bestar samkvæmt hinu áhrifamikla „Philosophical Gourmet Report“4 sem haldið er úti af heimspeki- og lagaprófessornum Brian Leiter. Þess má einnig geta að við ástralskar heimspekideildir er hlutfall kvenna í föstu starfi 23%. Skömmu síðar var viðbótarkálfur The Chronicle of Higher Education helgaður akademískri fjölbreytni og þar var m.a. grein um slæma stöðu kvenna í heimspeki, „Wanted: Female Philosophers, in the Classroom and in the Canon“.5 Kringum þessar greinar spunnust miklar umræður á netinu á bloggum sem fjölsótt eru af enskumælandi heimspekingum6 og fram komu ýmsar hugleiðingar um mögulegar ástæður þess að konur virtust fyrirferðarminni í heimspeki en mörgum öðrum greinum.
         Það að konur sæki síður í heimspeki en margar aðrar greinar, hefji síður heimspekinám, hætti í miðju námi eða hverfi jafnvel úr greininni eftir að námi er lokið á sér trúlega margar samverkandi skýringar og verða þeim ekki gerð endanleg skil hér. Meðal þess sem nefnt hefur verið er að það fæli konur frá að mikill meirihluti lesefnisins í heimspekinámi sé skrifaður af körlum, að konurnar skorti kvenkyns fyrirmyndir og að þær hafi ekki jafngreiðan aðgang og karlar að handleiðslu þeirra sem reyndari eru í faginu. Öll þessi atriði hafa einnig átt við um ýmsar aðrar greinar þar sem fjölgun kvenna hefur samt sem áður verið hraðari en í heimspeki þannig að ein og sér duga þau ekki sem skýring. Ásamt öðrum þáttum geta þau þó haft áhrif. Ef horft er til þess sem einkennir heimspekina sérstaklega hefur stundum verið talað um að stífni og árásargirni sem getur fylgt heimspekilegri rökræðu kunni að fæla konurnar frá. Mörgum kvenkyns heimspekingnum til mikillar armæðu (og sjálfsagt mörgum karlinum líka) vill þessi skýring stundum umbreytast í það að konur séu síður hæfar en karlar til að stunda agaða rökhugsun eða að þær þoli síður álag og nákvæmnisvinnu. Þó geta flest þau sem þekkja til borið vitni um að rökvísi og kerfisbundinni hugsun þurfi alls ekki að fylgja sá hvimleiði niðurrifsstíll sem sumir virðast tileinka sér, og þvælist í raun og veru bara fyrir frjórri heimspekilegri rökræðu. Annað sem bent hefur verið á er að femínísk heimspeki eigi erfitt uppdráttar innan fagsins, m.a. er það velþekkt að afar erfitt sé að fá greinar um femíníska heimspeki birtar í öðrum tímaritum en þeim sem eru sérstaklega eyrnamerkt til þess arna. Hver ástæðan er svo fyrir þessu liggur kannski ekki ljóst fyrir en stundum hafa verið reifaðar hugmyndir um að heimspekin sé þjökuð af einhvers konar tilvistarkreppu sem geti valdið bæði þessu og niðurrifsstílnum sem minnst var á.
         Rétt er að benda á að konur í heimspeki hafa víða um heim myndað með sér samtök, meðal annars í því skyni að efla heimspekiiðkun kvenna. Alþjóðlegu samtökin IAPh (International Association of Women Philosophers) hafa staðið fyrir ráðstefnum á þriggja ára fresti en sérstaklega öflug eru hin bandarísku SWIP (Society for Women in Philosophy) og hin bresku SWIPUK. Einnig má nefna hin kanadísku CSWIP og hin norrænu Nordic Network for Women in Philosophy. Nýlega hefur borið á tilraunum til markvissra aðgerða, t.a.m. gerðu AAP, samtök heimspekinga í Eyjaálfu, rannsókn á árunum 2007–2008 á stöðu kvenna í heimspeki7 og regnhlífarhópurinn Women in Philosophy Task Force sækir í sig veðrið.
         Þegar ég hóf nám í heimspeki við Háskóla Íslands fyrir 20 árum hafði engin íslensk kona lokið doktorsprófi í heimspeki og sárafáar höfðu lokið meistaranámi. Nokkrum árum síðar, þegar ég hóf framhaldsnám í Bandaríkjunum, voru þau skipti teljandi á fingrum annarrar handar sem ég hafði heyrt konu flytja heimspekifyrirlestur og ég hafði aldrei setið í tíma hjá kvenkyns heimspekikennara. Á þessum árum var Hugur að hefja göngu sína og greinar eftir konur voru þar vægast sagt fátíðar. Fyrstu 11 ár Hugar, 1988–1999, kom ritið út 9 sinnum. Á þessum tíma birtust tvær greinar skrifaðar af konu: „Frelsi, samfélag og fjölskylda“ í 6. árgangi 1993–1994 og „Heimspekingar um eðli kvenna: Frá Aristótelesi til Gunnars Dal“ í 10./11. árgangi 1998–1999, báðar eftir Sigríði Þorgeirsdóttur. Í þeim 17 heftum Hugar sem komið hafa út fram að þessu hafa greinar eftir karla samtals verið 118 og greinar eftir konur 14.8 Rúmur helmingur heftanna, eða 9 hefti, hefur verið alveg kvenmannslaus. Í 10 heftum hefur verið viðtal og hafa þau öll með tölu einkennst af því sem stundum er kallað andleg samkynhneigð karla: karl ræðir við karl. Hver svo sem ástæðan er fyrir þessu má teljast ljóst að sú mynd sem lesendum Hugar hefur verið færð er að konur stundi ekki heimspeki nema í algjörum undantekingartilfellum. Því er þessi 21. árgangur Hugar tileinkaður heimspeki kvenna. Þetta ætti að eiga vel við árið 2009, sem er 250. afmælisár enska heimspekingsins og kvenréttindafrömuðarins Mary Wollstonecraft.
         Það er nefnilega mikilvægt að konur séu sýnilegar sem heimspekingar. Meðal annars skiptir það máli fyrir þær konur sem stunda heimspekinám, eða hugleiða að hefja slíkt nám, að sjá að heimspekiiðkun sé eitthvað sem aðrar konur hafi lagt fyrir sig. Þegar við veljum okkur náms- og starfsvettvang hljótum við að máta okkur í huganum við þau hlutverk sem því fylgja. Mun erfiðara er að máta sig við hlutverk þar sem fyrirmyndirnar eru ólíkar okkur sjálfum. Nauðsynlegt er að geta talið sig eiga heima í viðkomandi námi og starfi. Eiginlega verð ég að játa að eftir að hafa tekið saman tölurnar um kynjahlutföllin í Hug á fyrri árum er mér svo brugðið að ég átta mig ekki lengur á því hvernig ég tolldi í heimspekinámi.
         Ekki aðeins er það mikilvægt að konur séu sýnilegar sem heimspekingar, heldur þarf að vera ljóst að konur leggi stund á alls konar heimspeki. Einn tilgangurinn með því að hafa heimspeki kvenna sem þema er að gefa mynd af þeirri breidd sem finna má í þeirri heimspeki sem konur iðka. Þó að femínísk heimspeki sé t.d. mikilvæg og góðra gjalda verð má það ekki verða að kröfu á hendur öllum konum í heimspeki að þær leggi hana fyrir sig enda fáránlegt að gera ráð fyrir að áhugasvið kvenna séu einsleit. Bandaríski heimspekingurinn sem situr fyrir svörum í viðtali Hugar að þessu sinni er gott dæmi um þessa breidd. Louise Antony hefur sinnt rannsóknum í málspeki, hugspeki, þekkingarfræði og femínískri heimspeki en jafnframt hefur hún látið að sér kveða í skrifum um trúmál og siðferði og um stjórnmál. Í viðtalinu segir hún Ástu Kristjönu Sveinsdóttur frá reynslu sinni af námi og starfi innan heimspekinnar og hugmyndum sínum um náttúruhyggju, þekkingarfræði og siðferðilega hluthyggju.
         Efni greinanna sem falla undir þema ársins er margvíslegt. Í grein sinni „Um femíníska gagnrýni á kanónu og menningu heimspekinnar“ fjallar Sigríður Þorgeirsdóttir um fjarveru kvenna úr heimspeki og umræðu femínískra heimspekinga um mögulegar ástæður fyrir henni. Sigríður segir frá gagnrýni ýmissa heimspekinga á að regluritverk heimspekinnar sé svo til allt skrifað af körlum og á það karlmiðaða andrúmsloft sem ríkjandi hefur verið í heimspeki. Að lokum reifar hún hugmyndir um mögulegar leiðir til úrlausnar. Grein Ástríðar Stefánsdóttur, „Fósturgreiningar: Tengslin við læknisfræðina, ófullkomleikann og lífshamingjuna“, fjallar um siðferðileg álitamál sem upp geta komið við greiningar á fóstrum þar sem fötlunarfræðin og læknavísindin hafa tekist á. Fötlunarfræðingar og talsmenn fatlaðra hafa stundum gagnrýnt læknisfræðina fyrir að einblína á galla einstaklingsins og reyna í kjölfarið að breyta einstaklingnum til að gera hann „eðlilegan“. Ástríður heldur því fram að þessi gagnrýni gefi þrengri mynd af læknisfræðinni en verðskulduð sé en að jafnframt séu í henni atriði sem mikilvægt sé að læknar gefi gaum. Ásta Kristjana Sveinsdóttir fjallar um frumspeki félagslegra tegunda í grein sinni „Fólkstegundir: Um veitingu félagslegra eiginleika“. Svokallaðir veittir eiginleikar eru, samkvæmt greinargerð hennar, eiginleikar sem við sem samfélag veitum ýmsum hlutum, t.d. fólki. Þeir eru því þess eðlis að hlutirnir hafa þá í krafti þessarar veitingar. Ásta færir rök fyrir því að bæði félagslegt kynferði og það sem kallað hefur verið líffræðilegt kyn séu veittir eiginleikar. Síðasta þemagreinin er grein Sigrúnar Svavarsdóttur sem birtist hér undir heitinu „Hvernig hvetja siðferðisdómar?“. Sigrún andmælir þar siðferðilegri hvatainnhyggju sem er sú kenning að þeir siðferðisdómar sem við fellum hafi í eðli sínu hvetjandi áhrif á okkur til að hegða okkur í samræmi við þá. Hún lýsir dæmum af fólki sem fellir fullgilda siðferðisdóma án þess að finna fyrir hvatningaráhrifum og heldur því fram að slík dæmi hreki innhyggjuna. Sigrún telur að hvatningu til siðferðilegrar hegðunar sé að finna í einhverju sem er að minnsta kosti hugtakalega aðskilið frá siðferðisdómum.
         Aðrar greinar sem birtast að þessu sinni eiga sér líka ólík viðfangsefni. Í „Hungursneyð, velmegun og siðferði“ færir Peter Singer rök fyrir því að íbúum velmegandi ríkja beri skylda til að styrkja í verulegum mæli fólk í fjarlægum löndum sem býr við bág kjör. Singer heldur því fram að í raun beri fólki að halda áfram að gefa þar til því marki er náð að kjör þess sjálfs yrðu bág héldi það áfram að gefa. Þessi grein birtist fyrst árið 1972 en boðskapur hennar á engu minna erindi við okkur í dag. Henry Alexander Henrysson skrifar greinina „Manndómur: Hugleiðingar um Jón Eiríksson og bakgrunn náttúruréttarkennslu hans“ þar sem megintilgangurinn er að gefa tóninn fyrir frekari rannsóknir á hugmyndum Jóns Eiríkssonar (1728–1787) jafnframt því að sýna að náttúruréttur eigi enn erindi við okkur í dag. Henry fjallar um þær kenningar sem uppi voru um náttúrurétt á tímum Jóns sem líklegar eru sem áhrifavaldar á skrif hans. Grein Giorgios Baruchello „Óttafrjálslyndi og óttinn við frjálslyndið“ er um kenningar Judith Shklar og Richards Rorty um svokallað óttafrjálslyndi, sem einkennist af andstöðu við grimmd. Giorgio heldur því fram að í frjálslyndisstefnu sé rúm fyrir grimmd að ákveðnu marki og nefnir máli sínu til stuðnings hugmyndir Johns Kekes og Cesare Beccaria. Róbert Jack gerir allt annan ótta að umtalsefni í „Rökskortur og villuótti: Um þá íþrótt að dissa sjálfshjálparrit“. Þar setur hann fram greiningu á málflutningi þeirra sem gagnrýnt hafa sjálfshjálparrit. Niðurstaða hans er að þessir gagnrýnendur leggi ekki fram nægileg rök til að réttlæta fordæmingu á sjálfshjálparritum sem slíkum. Í „Inngangi að hugsun Emmanuels Levinas“ segir Gabriel Malenfant undan og ofan af lykilþáttum í hugmyndum litháísk-franska heimspekingsins Emmanuel Levinas. Þar skýrir hann hugtök á borð við yfirstig, ómunatíð og upphafsleysi og greinir frá hugmyndum Levinas um siðfræði og verufræði. Að lokum má finna útdrátt Davids Hume úr riti sínu Ritgerð um manneðlið sem birtist upphaflega árið 1740. Þar segir Hume frá nokkrum helstu atriðum Ritgerðar um manneðlið sem gefin var út skömmu áður. Hann leggur þó mesta áherslu á að skýra hugmyndir sínar um orsök. Lengi vel þótti óljóst hver höfundur þessa útdráttar hefði verið. Ritgerð um manneðlið var fyrst gefin út sem verk óþekkts höfundar og í máli höfundar útdráttarins kemur hvergi fram að þar skrifi sami maður og skrifaði verkið sem um er fjallað. Um tíma voru uppi kenningar um að höfundur útdráttarins væri Adam Smith en fullsannað þykir nú að Hume hafi þarna sjálfur verið á ferð.
         Í þessu hefti Hugar birtist ein grein um bók þar sem Þorsteinn Vilhjálmsson fjallar um Hvað eru vísindi? eftir Erlend Jónsson og setur fram hugleiðingar um efni sem henni tengjast, s.s. aðleiðslu og rakhníf Ockhams. Einnig er að finna þrjá ritdóma, tvo um bækur sem gefnar eru út á Íslandi og einn um bók eftir íslenskan heimspeking sem gefin er út í Noregi.
         Heimspekistofnun Háskóla Íslands er þakkaður fjárhagsstuðningur við útgáfu þessa heftis. Auk þess vil ég þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg með einum eða öðrum hætti, meðal annars við ritrýni, yfirlestur þýðinga og prófarkalestur.

Tilvísanir

1. Rétt er að geta þess að sú sem þetta ritar veit af íslenskum, kvenkyns heimspekidoktor sem ekki er í skránni þannig að við konurnar erum að minnsta kosti 6 talsins. Þessi vitneskja er þó ekki tekin með í reikninginn hér, enda eins víst að einhverjum körlum hafi líka láðst að koma sér í skrána.

2. New York Times, „A Dearth of Woman Philosophers“, 2. október 2009, http://ideas.blogs.nytimes.com/2009/10/02/a-dearth-of-women-philosophers/.

3. Brooke Lewis, „Where are all the women?“, The Philosophers’ Magazine, 47. Birt á vefsíðu ritsins 2. september 2009.

4. http://www.philosophicalgourmet.com/default.asp

5. Regan Penaluna, „Wanted: Female Philosophers, in the Classroom and in the Canon“, The Chronicle of Higher Education, 11. október 2009.

6. Líflegustu umræðurnar voru í mörgum færslum um efnið og athugasemdum við þær á Feminist Philosophers, http://feministphilosophers.wordpress.com og Leiter Reports, http://leiterreports.typepad.com. Jafnframt er rétt að benda á pistil á The Edge of the American West, http://edgeofthewest.wordpress.com/2009/10/07/thats-a-funny-place-to-keep-your-reasoning-ability/ og gott yfirlit um efnið má finna á Thoughts, Arguments, and Rants, http://tar.weatherson.org/2009/10/14/gender-balance-in-philosophy-departments-across-the-world/.

7. „Improving the Participation of Women in the Philosophy Profession“, Australasian Association of Philosophy, 2008, http://aap.org.au/women/reports/index.html.

8. Til einföldunar er aðeins miðað við efni sem kallast „grein“, „fyrirlestur“ eða „þýðing“ og ritdómar og greinar um bækur því ekki talin með.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *