Heimspekinám við University of Warwick

eftir Viðar Þorsteinsson

Það er líklega rétt að fylgja Óttari í því að byrja þennan texta á nokkrum orðum um hvers vegna ég ákvað að halda til framhaldsnáms í heimspeki við Warwick háskóla. Þar kom þrennt til:

1. Mér fannst ég ekki hafa tileinkað mér nægilegan grunn í réttnefndri „meginlandsheimspeki“ að loknu BA-námi við heimspekiskor H.Í. Ég hef ekki gert upp við mig hvort ég ætli í doktorsnám, og hvort það yrði í heimspeki eða ekki, en hvað sem úr verður fannst mér vanta upp á að mér hefði lærst nægilega mikið um t.d. Hegel, Nietzsche, Heidegger o.s.frv. Í Warwick er boðið upp á nokkrar brautir til masternáms í heimspeki, þ. á m. „MA in Continental Philosophy“ sem ég valdi. (Hinar eru Philosophy and Literature, Philosophy of Mind, Philosophy and Phenomenological Studies, og Philosophy and Social Theory. Fyrir utan mína braut eru flestir nemendur á annarri hvorri hinna tveggja fyrst nefndu.)

2. Mastersnámið hér á Englandi er aðeins eitt ár. Þetta hefur bæði kosti og galla. Aðalkosturinn við þetta er augljóslega sá, að maður lýkur þessu af frekar fljótt og ef það er það sem maður vill, þá er það kostur. Hins vegar er gallinn sá að álagið er nokkuð mikið, og er eins gott að láta hendur standa fram úr ermum, og þetta þykir mér reyndar alls ekki endilega vera svo mikill galli … svona er þetta nú allt afstætt.

Þá mætti spyrja sig: Hvers vegna Warwick frekar en aðrir háskólar á Bretlandi? Svarið er: Það eru ekki margir háskólar á Bretlandi sem kenna meginlandsheimspeki. Warwick er í hópi kannski þriggja eða fjögurra bestu deildanna í meginlandsheimspeki á Bretlandi í dag. (Hinar eru Sussex, Essex, Middlesex og kannski einhver sem ég er að gleyma eða veit ekki um.) Þegar ég var að kynna mér mismunandi skóla á netinu fannst mér kennaraliðið hér hafa mest til síns ágætis, og var það aðalástæðan fyrir vali mínu á skólanum.

Í sumar gerði ég mér svo smá reisu hingað niður eftir til að hitta nokkra af kennurunum og skoða aðstæður. Þá áttaði ég mig á því að Warwick-háskólasvæðið er svona lítið kampus-þorp út af fyrir sig, og eiga nemendur kost á því að annað hvort búa á kampus eða í húsnæði sem háskólinn útvegar þeim í nágrannabæjunum (Coventry, Kenilworth eða Leamington Spa). Mér leist alveg nægilega vel á kennarana til að ákveða að kýla á þetta, en mér leist faktískt ekki mjög vel á að búa á kampus (virkaði svolítið félagsmiðstöðvalegt) og valdi að sækja um húsnæði í bænum Leamington Spa.

Svo kom ég hingað út í septemberlok, og önnin hófst í byrjun október. Á námsbrautinni minni eiga nemendur að velja sér sex námskeið og síðan skrifa sjálfa MA-ritgerðina. Úrvalið af námskeiðum er mjög gott, og hef ég verið í stökustu vandræðum með að velja ekki of mikið. (Hér má sjá lista yfir öll námskeiðin sem í boði eru.) Það fór svo að ég ákvað að sitja í þremur námskeiðum á fyrstu önninni:

1. Kant’s Critique of Pure Reason (Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Kant). Þetta námskeið kennir Christine Battersby, sem er kona um sextugt, heimspekingur sem hefur skrifað um Kant og fleiri nýaldarheimspekinga (þ. á m. Kierkegaard og að ég held Schopenhauer) frá feminísku sjónarmiði. Christine er mjög fínn kennari; hún bæði les Kant af mikilli nákvæmri og um leið bendir okkur á hvaða kaflar og málsgreinar hafa reynst seinni tíma heimspekingum mikilvægar; öðru hverju var fjallað um túlkanir samtímaheimspekinga, t.d. fyrirlestrar Deleuze um Kant.

2. Hegel’s Phenomenology of Spirit (Fyrirbærafræði andans eftir Hegel). Kennarinn í þessu námskeiði heitir Stephen Houlgate og einn aðalmaðurinn í Hegel-bransanum. Hann er formaður hins alþjóðlega Hegel-félags og ritstýrði Hegel Reader sem kom út hjá Blackwell nýlega (og sá Reader er einmitt notaður í námskeiðinu, nema hvað). Það var mér nokkuð sérstök reynsla að lesa Hegel í fyrsta skipti. Ég held að sú reynsla geti orðið mörgum ansi frústrerandi, en þökk sé góðum kennara er ég mjög ánægður með þessi fyrstu kynni af Hegel.

3. Critical and Deconstructive Social Theory (Gagnrýnin og afbyggjandi samfélagskenning). Þetta námskeið var kennt af doktorsnema í félagsfræði, og taldist vera innan félagsfræðideildarinnar. Þetta var talsvert ólíkt Kant og Hegel námskeiðunum, því þarna var mjög lítill hópur (yfirleitt 4-6 í tímunum) og námskeiðið allt byggt á framsöguerindum – þannig minnti þetta svolítið á málstofuformið sem er notað í heimspekiskor HÍ. Kennslan var ekki mjög fókuseruð í þessu námskeiði, enda kennarinn ungur og óreyndur maður, en umræðurnar í þessum tímum voru yfirleitt mjög góðar og greinarnar sem við fórum yfir vel valdar og fylltu upp í ýmis göt (t.d. Walter Benjamin, hann hafði ég ekki lesið áður, en hafði mikið gaman af). Mér þótti málstofuformið nýtast mjög vel, miklu betur en mér hefur nokkurn tíma þótt í málstofum í heimspekiskor HÍ, og er það vafalaust vegna þess að í þessu námskeiði voru einungis framhaldsnemar sem flestir bjuggu yfir grunni til að gera umræður raunverulega áhugaverðar.

Almennt séð lætur deildin sér annt um nemendur sína; ætli við séum ekki um 20 manns sem erum á meginlandsheimspekibrautinni. Hverjum og einum nemenda er úthlutaður svonefndur „personal tutor“ úr hópi kennara sem á að vera til viðtals um hvaðeina sem nemandanum er hugleikið varðandi námið. Kennararnir eru yfirleitt mjög fúsir til að hitta okkur til að spjalla um ritgerðaskrif. Í hverri viku eru svo fyrirlestrar sem kallast „colloquium“ (til skiptis undir merkjum meginlandsheimspekibrautarinnar og heimspeki- og bókmennabrautarinnar) – þar koma þá gestir frá öðrum háskólum (kennarar eða doktorsnemar) og halda stutta tölu um sín rannsóknar- eða áhugasvið, og að lokum eiga sér stað umræður.

Svo vikið sé að praktískum hliðum, þá er dýrt að læra hér á Englandi, sérstaklega fyrir þá sem eru frá löndum utan Evrópusambandsins (og væri illmögulegt að komast af hér án styrkja ef ekki væri fyrir LÍN). Á móti kemur að Warwick er svona háskóli á „uppleið“ og telst nú vera fimmti besti háskóli Bretlands. Þetta lýsir sér í miklum metnaði og góðri aðstöðu á ýmsum sviðum: Byggingar skólans eru nútímalegar og þægilegar; hér er glæsilegt „Arts Centre“ sem inniheldur kvikmyndahús, tónleikasal og fleira (hér spila stundum ágætar hljómsveitir; á dögunum sé ég norsku hljómsveitina Kings of Convenience); bókasafnið er stórt og vel rekið; nemendafélagið rekur litla bari og kaffihús hér og þar; tölvuver eru næg og einnig þráðlaust net víða.

Í hnotskurn get ég sagt að þetta ár mitt við Warwick (sem ég hef nú reyndar aðeins lokið þriðjungi af) virðist ætla að verða mjög lærdómsríkt, og standa fyllilega undir væntingum mínum um að öðlast góðan grunn í meginlandsheimspeki með mikilli vinnu á tiltölulega stuttum tíma.

Hér er heimasíða deildarinnar fyrir þá sem vilja kynna sér málin nánar.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *