Heimspeki er tilraun til að leita svara við grundvallarspurningum sem á mannkynið hafa leitað frá öndverðu. Hún er ólík öðrum fræðigreinum samtímans á ýmsa vegu og lætur sér ekkert óviðkomandi. En hún beitir fyrst og fremst rökræðunni til að varpa ljósi á þau vandamál sem við berum fyrir brjósti.
Heimspekin greinist í ýmis svið eftir viðfangsefnum en meginsvið hennar eru jafnan talin fjögur: frumspeki, sem fjallar um eðli veruleikans og hlutanna í heiminum, siðfræði, sem fjallar um grundvöll siðlegrar breytni, þekkingarfræði sem fjallar um það hvað það er að vita, og rökfræði sem fjallar um reglur og lögmál hugsunarinnar.
Heimspekin skiptist síðan í fjölmargar undirgreinar, svo sem heimspekisögu, stjórnmálaheimspeki, fagurfræði, málspeki, trúarheimspeki, vísindaheimspeki, hugspeki, feminíska heimspeki og svo mætti lengi telja.
Markmið
Markmið heimspekikennslunnar er að veita nemendum góða undirstöðumenntun í heimspeki. Nemendur í heimspeki við Háskóla Íslands eiga að öðlast
- almenna þekkingu á sögu vestrænnar heimspeki;
- skipulega innsýn í megingreinar heimspekinnar;
- dýpri skilning á einstökum undirgreinum, tímabilum, stefnum, höfundum eða viðfangsefnum í sögu og samtíð;
þjálfun í gagnrýninni hugsun, nákvæmum lestri og að gera skýra og rökstudda grein fyrir skoðunum sínum í rituðu máli.
Námsleiðir og samsetning náms í heimspeki
Heimspeki er kennd til BA-prófs (sem aðalgrein og aukagrein). Eftir BA-próf má læra heimspeki til M.Paed.- og MA-prófs og eftir MA-nám til doktorsprófs (Ph.D.). BA-nám tekur að jafnaði þrjú ár, M.Paed.- og MA-nám að jafnaði tvö ár, doktorsnám fjögur ár.
Kennsluhættir
Heimspeki er kennd í fyrirlestrum og málstofum, auk þess sem heimavinna og ritgerðasmíð er veigamikill þáttur í náminu. Ástundun er mikilvæg, svo og samræður í nemendahópi, því heimspeki er ekki unnt að læra nema stunda hana.
Húsnæði
Kennsla í heimspeki fer einkum fram í Aðalbyggingu, Árnagarði og Háskólatorgi.
Félagslíf
Nemendafélag heimspekinema heitir Soffía – Félag heimspekinema og hefur haft aðstöðu í Aðalbyggingu.
Hagnýtt gildi
Menntun í heimspekin eflir greinandi og skapandi hugsun, veitir þjálfun í að ræða og skýra hugmyndir og skrifa ritgerðir. Heimspekin er líka að mörgu leyti persónulegri en aðrar fræðigreinar. Nemendur sem lagt hafa stund á heimspeki við Háskóla Íslands hafa haslað sér völl á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins. Heimspekinámið hefur meðal annars reynst ágætt veganesti fyrir ritstörf, blaðamennsku, störf í mennta- og menningarstofnunum, fyrirtækjum og stjórnmálum.
Meistaranám: Practical Philosophy
Námsgrein í heimspeki er aðili að norrænu-baltnesku verkefni á meistarastigi í ‘Practical Philosophy: Theories of Good Society. Þetta verkefni hefst haustið 2009 og fer fram í samstarfi norrænna háskóla og háskóla frá Eystrasaltslöndum. Nánar.