Donald Davidson

eftir Þorstein Gylfason

Donald Davidson, prófessor í Berkeley í Kaliforníu, er einn áhrifamesti heimspekingur sem nú er uppi. Hann kom til Íslands nú um helgina. Hann kennir stúdentum í málstofu í Háskóla Íslands fjórum sinnum í vikunni, og útlistar þar nýjar hugmyndir sínar sem hann hefur ekki birt enn. Hann heldur opinberan fyrirlestur í Hátíðarsal Háskólans sunnudaginn 10. nóvember kl. 16. Þar fjallar hann um samband máls og hugsunar, og spyr hvernig hugsun velti á máli og hvers vegna. Lesturinn heitir „What is Special about Language and Language-Related Thought?“

Donald Davidson fæddist 6ta marz 1917 í Springfield sem er gamall iðnaðarbær í Massachusetts á Nýja Englandi. Hann sótti menntun sína í Harvardháskóla og lauk meistaraprófi 1941. Af kennurum hans á Harvard hafði brezki heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Alfred North Whitehead dýpst áhrif á hann. Whitehead er frægastur fyrir að hafa í félagi við Bertrand Russell samið ritiðPrincipia mathematica (Lögmál stærðfræðinnar) í þremur stórum bindum. Það er höfuðrit nútímarökfræði. Davidson kynntist líka með tímanum mun yngri kennara en Whitehead í heimspekideildinni á Harvard, Willard Van Orman Quine. Rökfræði og merkingarfræði Quines urðu síðar grunnurinn sem heimspeki Davidsons er reist á þótt hún víki frá kenningum Quines að mörgu leyti.

Á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina stóð Quine fyrir því að sumir af róttækustu heimspekingum Evrópu, sem voru á flótta undan nazistum, heimsóttu Harvard á meðan þeir leituðu fyrir sér, með aðstoð Quines, um störf vestan hafs. Davidson þóttu heimsóknirnar miklar veizlur. Meðal þessara flóttamanna voru Rudolf Carnap frá Prag, sem hafnaði í Chicago, og Alfred Tarski frá Varsjá sem hafnaði í Berkeley. Rökfræði Tarskis, og þá einkum kenning hans um sannleikshugtakið í rökfræði og stærðfræði, átti eftir að skipta sköpum fyrir Davidson.

Davidson gegndi herþjónustu í bandaríska flotanum á Miðjarðarhafi 1942–1945. Eftir styrjöldina hvarf hann að doktorsnámi á Harvard, og eftir að hann lauk því með ritgerð um samræðuna Fílebos eftir Platón sneri hann sér að háskólakennslu sem hann hefur sinnt síðan, og sinnir enn þótt hann sé áttatíu og fimm ára. Hann hefur kennt lengri eða skemmri tíma í mörgum helztu háskólum Bandaríkjanna: Stanford (1951–1967), Princeton (1967–1970), Rockefeller (1970–1976), Chicago (1976–1981) og síðan 1981 í Kaliforníuháskóla í Berkeley.

Rökgreiningarheimspeki

Drjúgur hluti af heimspeki tuttugustu aldar er kenndur við rökgreiningu (logical analysis). Rökgreiningarheimspekingar (analytic philosophers) fást við fjölbreytilegar en yfirleitt stranglega afmarkaðar gátur. Til dæmis geta þeir spurt, ef þeir hafa áhuga á sambandi sálar og líkama, hvort tölvur hugsi. Þá þurfa þeir einhverja lágmarksgreinargerð fyrir hugsun, það er að segja greiningu á hugtakinu hugsun. Eða tökum dæmi af dansi býflugnanna sem Karl von Frisch gerir grein fyrir í riti sínu Bera bý (Lærdómsrit frá 1972). Býflugurnar vísa með dönsum sínum á staði þar sem hunang er að fá.

Nú má spyrja, eins og spurt er hvort tölvur hugsi, hvort býflugnadansinn sé mál. Er til dæmis hugsun í honum? Við höfum greinargerð von Frisch fyrir dansinum. En til að svara spurningunni þurfum við líka einhverja lágmarksgreinargerð fyrir máli. Hér geta málvísindi komið til hjálpar um suma hluti, til dæmis um ýmis reglukerfi sem mál hlíta. En um aðra hluti, eins og samband máls og hugsunar, hafa þau lítið að segja. Þá getum við reynt að grípa til rökgreiningar.

Rökgreiningar eru ekki nema lágmarksgreinargerðir fyrir til að mynda máli eða hugsun. Frekari greinargerðir verðum við að sækja í lífeðlisfræði, málfræði og sálarfræði svo langt sem þær ná. Þá geta orðið fyrir okkur heimspekilegar gátur um þessi vísindi. Eru þau til dæmis algild eða einhvern veginn afstæð?

Gátur um hugsun í tölvu, mál hjá býflugum og afstæði í vísindum virðast við fyrstu sýn vera alveg sjálfstæðar gátur eins og sálarfræði, málvísindi og líffræði eru sjálfstæðar fræðigreinar. Það virðist fljótt á litið engin heildarlausn geta verið til á slíkum gátum, heldur aðeins afmarkaðar lausnir á hverri fyrir sig þegar bezt lætur. Ludwig Wittgenstein, höfundur Bláu bókarinnar(Lærdómsrit frá 1998) og frægastur allra rökgreiningarheimspekinga, þverneitaði því að kostur væri á kerfisbundnum lausnum eða allsherjarkenningum í heimspeki. Aðrir frægir heimspekinga á tuttugustu öld hafa verið sama sinnis, til að mynda Þjóðverjinn Martin Heidegger á efri árum sínum.

Stök skrif um stök efni

Donald Davidson hefur aldrei skrifað heila samfellda bók um hugmyndir sínar og kenningar. Hann hefur samið ritgerðir, ætlaðar öðrum heimspekingum, og birt þær í fræðilegum tímaritum eða gjörðabókum málþinga. Sumar ritgerðanna urðu víðfrægar um leið og þær birtust fyrst. Ein af þeim er „Athafnir, ástæður og orsakir“ („Actions, Reasons, and Causes“) sem fjallar um eðli skýringa á athöfnum fólks, eins og bara þeirrar að maður hafi drukkið vatn til þess að svala þorsta sínum. Það er freistandi að líta á þessa skýringu á drykkju sem tilgangsskýringu. En Davidson hélt því fram, með mörgum rökum, að skýringar eins og „til þess að svala þorsta“ séu á endanum orskakaskýringar, og að því leyti sambærilegar við hvaða náttúrlegar skýringar sem vera skal.

Önnur ritgerð sem varð snemma fræg heitir „Hvernig er hægt að vera breyskur?“ („How is Weakness of the Will Possible?“). Hún fjallar um breytni fólks gegn betri vitund í ljósi ákvörðunarfræði. Ég hef reynt að gera nokkra grein fyrir henni í þriðja kafla bókar minnar Tilraun um heiminn (1992).

Enn ein er „Sannleikur og merking“ („Truth and Meaning“) sem fjallar um mál og merkingu. Þar er meginhugmyndin sú að gera beri grein fyrir skilningi okkar á tungumáli út frá hugmyndinni um sannleiksgildi setninga á málinu frekar en hugmyndinni um merkingu orða. Þessu fylgir að sannleikskenning í anda þeirrar sem Tarski setti saman um rökfræði og stærðfræði eigi að vera uppistaðan í allri merkingarfræði hvers konar mála.

En þetta voru ekki nema stakar ritgerðir um stök efni, og meira að segja efni sem virðast alveg ótengd við fyrstu sýn. Hvað kemur breyskleiki sannleika og merkingu við? Eða sannleikur og merking orsakaskýringum á athöfnum?

Það var ekki fyrr en Davidson safnaði helztu ritgerðum sínum saman í tvö ritgerðasöfn um og eftir 1980, þá kominn á sjötugsaldur, að heimspekingum varð fyllilega ljóst að ritgerðir hans mynduðu tilkomumikið heildarkerfi þar sem eitt tengist mörgu öðru á ýmsa vegu. Í fyrra kom þriðja ritgerðasafnið út og efldi enn heildarmyndina, og tvö til viðbótar eru væntanleg innan skamms frá Oxford University Press.

Heildarmynd

Heimspeki Davidsons snýst á endanum um eitt efni öðrum fremur. Þetta efni er skilningur. Ritgerðir hans eru viðamesta og snjallasta atlaga okkar tíma við það hvað skilningur sé. Hann ræðst einkum fram á tvennum vettvangi. Annars vegar vill hann vita hvað það sé að skilja mál: sitt eigið móðurmál ekki síður en framandi mál. Hins vegar vill hann vita hvað það er að skilja fólk, til dæmis athafnir þess í ljósi ástæðna sem það hefur til þeirra eða viðhorf þess (skoðanir og tilfinningar) í ljósi ástæðna eða raka sem það hefur fyrir þeim.

Davidson byrjar atlögu sína við skilning á því að hyggja að því sem hann kallar skilning frá rótum eða túlkun frá rótum (radical interpretation). Grunnhugmyndina að þessari aðför að vandanum sækir hann til Quines. Hún er sú að til að átta okkur á skilningi yfirleitt verðum við að hyggja að því sem ætla má að gerist ef eitthvert okkar lenti eitt og óstutt meðal framandi þjóðar án þess að kunna minnstu skil á máli hennar. Við þessar aðstæður yrðum við að reyna að skilja þessa þjóð frá rótum, og þá bæði setningar sem sagðar eru og fólkið sem segir þær. Þessi tvenns konar skilningur – á setningum annars vegar og fólki hins vegar – reynist vera margvíslega samofinn. Það er engin leið að skilja setningarnar án þess að skilja fólkið, né fólkið án þess að skilja setningarnar.

Þegar Davidson hefur gert lágmarksgrein fyrir þessum tvíþætta skilningi getur hann á grundvelli þeirrar greinargerðar gefið nýstárleg svör við sumum stærstu spurningum heimspekinnar á nýöld.

Til dæmis ber hann fram frumlega kenningu um samband sálar og líkama. Sú er hvorki tvíhyggja né efnishyggja. Hann kallar hana löglausa einhyggju. Hún er einhyggja vegna þess að samkvæmt henni er sálin eða hugurinn ekki sjálfstæður veruleiki. En hún er ekki efnishyggja vegna þess að samkvæmt henni gilda engin lögmál um sambönd hlutlægra fyrirbæra, eins og sólskinsins fyrir utan gluggann minn, við huglæg fyrirbæri eins og þá skoðun mína að sólin skíni, þó svo að sólskinið sé orsök skoðunarinnar. Hún er löglaus einhyggja.

Hann ber líka fram í nafni heildarmyndar sinnar frumlegar lausnir á gátunum um afstæði og algildi í vísindum, og á ýmsum öðrum vettvangi líka ef út í það er farið. Um þau efni hef ég fjallað, í anda Davidsons, í ritgerðinni „Sannleikur“ sem er lokakaflinn í safnriti Andra Steinþórs Björnssonar, Vigfúsar Eiríkssonar og Torfa Sigurðssonar Er vit í vísindum?

Þorpsskýrari

Donald DavidsonLjósmyndin sem hér birtist af Davidson var tekin af Steve Pyke. Pyke er kunnur brezkur ljósmyndari sem tók upp á því fyrir rúmum áratug að taka myndir af frægum heimspekingum. Hann sýndi myndirnar í listhúsi í London, og gaf þær út í bók. Þá fékk hann hverja fyrirsætu sína til að lýsa sjálfri sér eða hugðarefnum sínum í örstuttu máli.

Við skulum enda á lýsingu Davidson á sjálfum sér í bók Pykes. Þess má geta að Gertrude Stein var fræg amerísk skáldkona sem bjó í París og kemur víða við sögu bókmennta og lista á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hitt má kannski nefna líka að maðurinn sem Stein kallaði „þorpsskýrara“ („village explainer“) var skáldið Ezra Pound.

Gertrude Stein sagði um mann: „Hann er þorpsskýrari. Sem er í lagi ef þú ert þorp. Ef ekki, ekki.“ Mig hefur alltaf langað til að vera þorpsskýrari, en ég er hræddur um að mér hafi aldrei tekizt það. Skrif mín þykja samþjöppuð og erfið aflestrar. Það er óheillamerki að fólk getur ekki gert upp við sig hvernig það á að flokka mig. Ég hef verið kallaður hluthyggjumaður og hughyggjumaður, afstæðissinni og algildissinni, efnishyggjumaður, einhyggjumaður og aukagetusinni. Kenning mín um athafnir hefur verið kölluð orsakakenning, og ég hef verið sakaður um að neita því að sálarlífsfyrirbæri geti verið orsakir að einu né neinu. Ég kannast við að hafa sjálfur kallað skoðun mína á sannleikanum bæði samsvörunarkenningu og samkvæmniskenningu. Hún er hvorugt. Og Richard Rorty kallar mig pragmatista. En það er ekki öll von úti. Ef þú ert þorp, held ég áfram að reyna að skýra skoðanir mínar fyrir þér.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *