Sigurður Pálsson
Í síðari grein sinni hér á vefnum fann Eyja Margrét að því að ég hefði lesið í mál hennar viðhorf sem hún hefði ekki til kristins dóms. Mér er bæði ljúft og skylt að biðja Eyju Margréti afsökunar á því. Í þessari síðari grein sinni ítrekar hún einnig þá skoðun sína að kristin trú hafi enga siðferðilega sérstöðu fram yfir önnur trúarbrögð og lífsskoðanir. Í samanburði á siðgæðisviðmiðum ólíkra trúarbragða og lífsviðhorfa finnst mér eðlilegra að skoða hverjar eru grundvallarstoðir tiltekins siðgæðis fremur en leggja mat á þau á grundvelli þess hvernig einstaklingum eða hópum hefur gengið eða ekki gengið að tileinka sér þau. Einmitt vegna gagnvirkra áhrifa menningar og trúar, sem Eyja leggur réttilega áherslu á, skiptir máli að leita til róta kristins dóms að því sem er sérkristið og draga það fram. Til þess að meta kristin siðgæðisviðmið er nær að leita fyrst og fremst til kenninga Jesú Krists sjálfs. Að mínu mati birtist hið sérkristilega einna skýrast í Gullnu reglunni svonefndu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra.“ Ef þetta er borið saman við skyldar yrðingar annars staðar frá kemur munurinn í ljós: „Gerðu ekki öðrum neitt það sem myndi valda þér sársauka ef þannig yrði breytt við þig.“ (Brahmanismi/ Mahabharata 5, 1517); „Særðu engan með því sem mundi særa þig.“ (Búddismi/ Udanavarga 5,18); „Gerðu öðrum ekkert það sem þú vilt ekki að þér sé gert.“ (Analekter 15,23).1 Þessar yrðingar fela allar í sér göfug viðmið. Sérstaða þeirra leiðbeininga sem Kristur gefur er fólgin í því að þær hvetja til virkni, að gera öðrum gott, en ekki aðeins að láta ógert að skaða aðra. Að hafa þá sannfæringu að kristin viðmið séu háleitari og kröfuharðari en hin varpar á engan hátt rýrð á boðskap annarra.
Eyja hefur án árangurs leitað að stefnuyfirlýsingu í grein minni og telur sig fremur hafa fundið spurningar en svör. Það er eðlilegt. Ég setti fyrst og fremst fram spurningar til að vekja til umhugsunar um mikilvæg efni þar sem einhlít svör eru vandfundin. Ég benti í upphafi greinar minnar á klausur úr mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem mér finnst mikilvægt að hugleiða hvernig hægt er að koma til leiðar í veröldinni. Í seinni klausunni var hvatt til þess að við mótun menntastefnu væri hugað að grundvallargildum og mannskilningi þeim sem tilteknu menntakerfi er ætlað að hvíla á áður en því er svarað hvaða leiðir skuli fara. Ég hef semsagt þá sannfæringu að mikilvægt sé að maður geri sér grein fyrir hvaða mannskilning maður aðhyllist, því að hann er grundvöllur þeirra gilda sem maður kýs. Þeir sem hafa ólíkan mannskilning og ólík lífsviðhorf eiga auðveldara með að ræða saman ef þeim er ljóst hvar þeir standa og ættu þá fremur að geta komist að ásættanlegri niðurstöðu í álitamálum, eða komist að raun um að þeir eiga ekki samleið. Ég trúi því að finna megi færar leiðir í fyrir menntastefnu í fjölhyggjuþjóðfélögum með viðræðum og með því að velta fyrir sér ólíkum svörum. Ég vil gjarnan taka þátt í því og tel mig reyndar hafa verið þátttakandi í slíkri umræðu þá áratugi sem ég starfaði í menntakerfinu. Varðandi ætlaðan ótta minn við að önnur trúarbrögð öðlist rödd í menntakerfinu get ég upplýst Eyju um að ég hef átt þátt í því og hvatt til þess að trúarbragðafræðsla yrði aukin í menntakerfinu og að trúarbrögðin fengju að tala fyrir sig sjálf, en ekki í gegnum einhvern filter sem kennarar brygðu upp. En slík kennsla krefst bæði þekkingar og sjálfsögunar kennara.
Að slíkt stuðli að afstæðishyggju hef ég aldrei óttast að því gefnu að nemendur séu hvattir til að koma sér upp meðvitaðri lífsskoðun og taki glímuna við ólík viðhorf alvarlega í því skyni að finna sér stað til að standa á.
Við Eyja virðumst þó sammála um hlutverk skólans eins og ég lýsti því í grein minni og hún vitnar til. Hún virðist hins vegar ekki sjá annað en trúaruppeldi hljóti að vinna gegn því hlutverki skólanna. Hún segir:
Ég fæ ekki séð hvernig það sem kallað hefur verið trúaruppeldi, eða einhliða innræting einna trúarbragða, getur samrýmst þeim markmiðum sem að ofan er lýst. Það að kynna aðeins eina gerð svara fyrir nemendum, telja þeim trú um að tiltekin trúarbrögð hafi nánast einkaleyfi á öllu sem viðkemur siðferði og að það að vera siðferðisvera sé háð trú á tiltekna(r) yfirnáttúrulega(r) verur hlýtur beinlínis að vinna gegn því hlutverki skólans sem Sigurður lýsir svo fallega.2
Hins vegar lýsir hún hér einhliða og ofstækisfullu trúaruppeldi og innrætingu sem ég felli mig ekki við frekar en hún. Það er, sem betur fer, líka til víðsýnt og umburðarlynt trúaruppeldi þar sem svigrúm er fyrir spurningar og þar sem glímt er við ólík svör og kappkostað að innræta fólki virðingu fyrir viðhorfum annarra þótt maður hafi eindregna sannfæringu fyrir sínum eigin. Slíkt trúaruppeldi vill kappkosta að einstaklingurinn nái þroska sjálfræðis í trúarefnum rétt eins og siðgæðisefnum. Það er hægt að vera, og æskilegt að vera, sannfærður kristinn einstaklingur án þess að trú og siðgæði sé háð ytra valdboði og án þess að sýna öðrum viðhorfum yfirlæti.
Til að vera með eða á móti trúaruppeldi í skólum eða þátttöku skóla í trúaruppeldi er grundvallaratriði að koma sér fyrst saman um skilgreiningu á því hvað við er átt með trúaruppeldi. Ég ræð ekki yfir skilgreiningu sem gæti hentað sem umræðugrundvöllur fyrir hugsanlegri þátttöku skólans í því uppeldi. Það sem vefst fyrir mér er réttur þessara ólíku hópa, þeirra sem vilja ekki og hinna sem gjarnan vildu fá stuðning skólans í þessari uppelsdisviðleitni sinni. Og ekki auðveldar það málið að það hefur ekki aðeins áhrif sem sagt er eða gert, heldur einnig það sem þagað er um og látið ógert. En þrátt fyrir allt er umræðan mikilvæg. Er æskilegt að halda í hugsjónina um einn skyldunámsskóla fyrir alla eða ætti að stefna að því að auðvelda hópum með ólíkar lífsskoðanir að stofna sérskóla? Ég tel síðari leiðina geta ógnað umburðarlyndinu og kýs þá fyrri þótt það kosti þá fyrirhöfn að marka sameiginlega stefnu ólíkra lífsviðhorfa í menntun og uppeldi.
Tilvísanir
1. Religion og Livssyn nr. 1, 1995.
2. Eyja Margrét 2006.
Heimildir
« Til baka