Íslensk heimspeki fyrri alda

Heimspeki hefur verið stunduð á Íslandi í einni eða annarri mynd allt frá því á 12. öld. Hugtak heimspekinnar hefur að vísu breyst í aldanna rás og var notað bæði í víðri og þrengri merkingu. Á miðöldum táknaði heimspeki oftast nær þá fræðaiðkun sem fór fram utan vébanda guðfræðinnar, en á síðari öldum færðist merking hugtaksins nær því sem það er í dag.

Á þessum síðum má öðlast nokkra innsýn í sögu heimspekinnar á Íslandi fram yfir miðja tuttugustu öld. Vefurinn er byggður á uppflettiatriðum sem skrifuð hafa verið fyrir heimspekilega orðabók, Hugtök og heiti í heimspeki, sem væntanleg er einhvern tíma á næstunni og Heim­spekistofnun Háskóla Íslands hefur styrkt.

Heimspekisögu Íslendinga má skipta í nokkur tímabil, sem fara nokkurn veginn eftir almennri skiptingu íslenskrar bókmenntasögu. Nokkur helstu ártöl má þó skoða sérstaklega.

Í Hávamálum eru þeim sem vaka næturlangt við íhugun allra hluta ekki vandaðar kveðjurnar. Þrátt fyrir það má sjá heimspekilega hugsun í nokkrum frumsömdum forníslenskum ritum, svo sem Hávamálum sjálfum, málfræðiritgerðum, formálaSnorra-Eddu og ýmsum alfræðiritum, svo og í hinni svonefndu íslensku hómilíubók. Einnig voru á miðöldum þýdd nokkur lærdómsrit sem hafa inni að halda heimspekilegt efni eða heimspekileg hugtök. Meðal þeirra má nefna Elucidarius, sem samið var á 12. öld af munkinum Honoriusi Augustodunensis og líklega þýtt á norrænu nokkrum áratugum síðar, og ritgerð Alcuins, ráðgjafa Karlamagnúsar, um dygðir og lesti. Þá hafa margir glímt við að ráða í siðfræði Íslendingasagna.

Á 16. öld þýddi Magnús Jónsson sýslumaður rökfræði Fuchsbergers á íslensku og ætlaði hana til útgáfu. Málið á ritinu þótti heldur stirt og varð ekkert úr því.

Á 17. öld kenndi Brynjólfur Sveinsson biskup rökfræði Ramusar á latínu í Skálholti á árunum 1640–1643 og Páll Björnsson prófastur í Selárdal skrifaði árið 1687 siðfræðirit sem mun að öllum líkindum hægt að kalla fyrsta frumsamda heimspekiritið á íslensku. Einnig orti Guðmundur Bergþórsson kvæðið Heimspekingaskóli.

Á 18. öld var sú heimspeki sem Íslendingar lögðu stund á undir sterkum áhrifum af heimspeki Christians Wolff sem var lærisveinn Leibniz. Kennsla hófst í heimspeki við lærðu skólana á Hólum og í Skálholti og lásu Hálfdan Einarsson á Hólum og Hannes Finnsson í Skálholti fyrir kennslubækur byggðar á heimspeki Wolffs. Einnig lásu fjölmargir Íslendingar heimspeki við Háskólann í Kaupmannahöfn og sumir skrifuðu ritgerðir, dispútasjónir, sem þeir létu prenta og eru margar þeirra enn til. Þeirra á meðal eru Páll B. Vídalín og Skúli Þ. Thorlacius.

Á 19. öld lásu stúdentar í Bessastaðaskóla forn heimspekirit undir leiðsögn Sveinbjörns Egils­sonar og nokkrir menntamenn og skáld rituðu um heimspekileg efni í tímarit, m. a. Benedikt Gröndal og Grímur Thomsen. Einnig ortu sumir heimspekileg kvæði, m.a. Björn Gunnlaugsson og Brynjúlfur Jónsson. Þá voru gefnar út fyrstu kennslubækurnar í rökfræði, og mun Arnljótur Ólafsson hafa fundið upp það orð. Einnig þýddi Jón Ólafsson Frelsið eftir John Stuart Mill.

Árið 1848 hófst skipuleg kennsla í heimspeki í Reykjavík, þegar farið var að kenna heimspekileg forspjallsvísindi við Prestaskólann í Reykjavík. Fyrsti kennari í forspjallsvísindum var Hannes Árna­son en síðar tók Eiríkur Briem við starfinu. Þessi kennsla hefur staðið óslitið síðan, því að kennarastarfinu við Prestaskólann var breytt í prófessorsembætti í heimspekilegum forspjalls­vísindum við Háskóla Íslands þegar hann var stofnaður árið 1911.

Á 20. öld urðu miklar breytingar í heimspekisögunni á Íslandi. Styrkur Hannesar Árnasonar varð helsta lyftistöng heimspekilegra fræða framan af öldinni og mætti jafnvel tala um ákveðið blóma­skeið í íslenskri heimspekisögu á tímabilinu 1910–1940. Eftir síðari heimsstyrjöld virðist dofna nokkuð yfir stöðu heimspekinnar en árið 1972 varð sú breyting að byrjað var að kenna heimspeki sem sjálfstæða grein til B.A.-prófs við Háskóla Íslands.

Meðal styrkþega Hannesar Árnasonar má nefna Ágúst H. Bjarnason, fyrsta prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, Guðmund Finnbogason, prófessor og Landsbókavörð, Símon Jóhannes Ágústsson, prófessor í heimspeki, Sigurð Nordal, prófessor, Björgu C. Þorláksson, o. fl. Meðal annarra sem lögðu stund á heimspeki má nefna Helga Pjeturss og Brynjólf Bjarnason.

Flestir þeir heimspekingar sem hlutu styrk Hannesar Árnasonar á fyrri hluta 20. aldar stunduðu nám við Kaupmannahafnarháskóla og voru yfirleitt undir áhrifum annars vegar frá dönskum heimspekikennurum og hins vegar frá frönskum heimspekingum samtíma síns, einkum Henri Bergson. Einnig gætir áhrifa frá bandarískum pragmatisma, einkum William James.

Á sjötta áratugnum stunduðu tveir Íslendingar heimspekinám í Skotlandi, Gunnar Ragnarsson og Páll S. Árdal, síðar prófessor í Kanada. Um svipað leyti skrifar Gunnar Dal fjölmargar alþýðlegar bækur um heimspeki og austræn fræði.

Á síðustu áratugum 20. aldar hafa áhrif frá Bandaríkjunum og Bretlandi í meira mæli sett mark sitt á íslenska heimspeki. Þar hefur mestu ráðið að ungir, íslenskir heimspekingar hafa sótt fram­haldsnám í miklum mæli til Bandaríkjanna og Bretlands.

 

« Til baka