eftir Davíð Kristinsson
Inngangur ritstjóra
„Stærsta leyndarmál einveldisstjórnar og dýpsta hagsmunamál hennar er að blekkja þegnana með því að klæða í dulargervi, og kalla trúarbrögð, óttann sem ætlunin er að halda þeim í.Tilgangurinn er sá að fá þá til að berjast fyrir þrældómi sínum líkt og sæluvist þeirra væri í húfi.“ Hér er ekki á ferð brot úr nýjustu heimildarmynd Michaels Moore, Fahrenheit 9/11, heldur brot úr formála Ritgerðar um guðfræði og stjórnmál (1670) eftir hollenska heimspekinginn Benedict (Baruch) de Spinoza (1632–1677) en heimspeki hans er einmitt þema Hugar að þessu sinni. Tilvitnunina í Spinoza er að finna í annarri af tveimur bókum sem Gilles Deleuze ritaði um heimspekinginn í lok 7. áratugarins. Í bréfi nokkru útskýrir Deleuze fyrir viðmælenda sínum að heimspekin þarfnist óheimspekilegs skilnings ekkert síður en hins heimspekilega. Það þýði að heimspekingurinn standi í mikilvægum tengslum við þá sem ekki eru heimspekingar. Þversögn Spinoza sé að hann sé heimspekilegastur allra heimspekinga, en um leið sá heimspekingur sem beinir máli sínu í ríkara mæli en nokkur annar til þeirra sem ekki eru heimspekingar. Þannig geti allir lesið Spinoza, látið textann hrífa sig og opna nýjar víddir skynjunarinnar, jafnvel þótt lesandinn hafi ekki fullan skilning á hugtökum Spinoza. Það er í þessum anda sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem varði M.A.-ritgerð um heimspekinginn við Cambridge-háskóla fyrir nokkrum árum, veitir lesendum Hugar innsýn í heimspeki Spinoza. Eitt af mörgu sem Guðfríður Lilja dregur fram er hvernig hugsjónir Spinoza eru fjarri platonskum staðleysum á borð við sæluríki Thomasar More. Spinoza leiðir ekki hið ákjósanlega ríki af hugmyndum um hið góða og skynsemiseðli mannsins, heldur eru hugsjónirnar bundnar raunsæjum mannskilningi hans órjúfanlegum böndum. Litlu skiptir hvort menn hegða sér skynsamlega af innri hvöt eða sökum ytri þvingana, mestu skiptir að aðgerðir þeirra leiði gott af sér. Þannig segir Spinoza í Ritgerð um stjórnmál(1677): „Stjórnarfulltrúar og aðrir ráðamenn ríkisins eiga ekki að þiggja laun heldur þess háttar greiðslur að farnist stjórn þeirra illa verði þeir sjálfir fyrir miklu tjóni. [Þar eð] enginn maður […] ver annars málstað, nema að svo miklu leyti sem það þjónar hans eigin hagsmunum, verður að skipa hlutum svo að ráðamennirnir […] verji best eigin hagsmuni þá er þeim er mest umhugað um hin almennu gæði.“ Líklegra sé, í endursögn Guðfríðar Lilju, „að þingmenn sækist eftir friði ef laun þeirra eru tiltekið hlutfall af samanlögðu verðmæti viðskipta við útlönd“. Og þannig setur Spinoza fram hugmyndir sínar um það „hvernig forðast skuli stríð meðal einvelda: ef fjölskyldumeðlimum konungsráðgjafa er gert að berjast í stríðum (eins og öllum borgurum) þá eru þeir ófúsari að mæla með stríðsrekstri“. Í ekki ósvipuðum anda bendir Michael Moore á þá athyglisverðu staðreynd að aðeins einn af rúmlega fimmhundruð þingmönnum bandaríska þingsins eigi börn í stríðinu í Írak. Frá sjónarhóli Spinoza er ljóst að óraunhæft er að fá þingmenn til að vinna í þágu friðar nema þeir verði sjálfir fyrir tjóni af eigin stríðsrekstri. Árangursríkasta leiðin til að draga úr stríðsvilja þeirra er því að skylda þá til að senda eigin afkvæmi á vígvöllinn í sama hlutfalli og þeir senda þangað börn annarra borgara.
Finnski heimspekingurinn Minna Koivuniemi, sem kenndi Spinoza-málstofu við heimspekiskor Háskóla Íslands fyrr á þessu ári, veitir innsýn í doktorsverkefni sitt sem snýr að kenningu Spinoza um hrif, en Spinoza gerir hrif að rannsóknarefni sínu vegna þess að hann álítur að stjórnmálaheimspeki verði að grundvallast á raunsærri mynd af því hvernig mennirnir eru gerðir. Minna gefur auk þess greinargott yfirlit yfir Spinoza-fræði undanfarinna áratuga. Einn afkastamesti greinahöfundur Hugar frá stofnun tímaritsins, Atli Harðarson, ber síðan hugmyndir Spinoza um frelsi saman við hugmyndir samtímamanns hans, Johns Locke, en Atli þýddi og ritaði inngang að helsta stjórnspekiriti Lockes, Ritgerð um ríkisvald, sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1986.
Deleuze færir í sinni grein rök fyrir því að Siðfræði Spinoza sé handan góðs og ills og snúist fremur um gott og slæmt. Þannig misskilji hinn fáfróði Adam almættið þegar honum er bannað að eta af skilningstrénu; hann heldur „að Guð sé að banna honum eitthvað af siðferðilegum ástæðum, en raunin er sú að Guð er aðeins að gera honum ljósar náttúrulegar afleiðingar þess að leggja sér ávöxtinn til munns.“ Eplið er ekki „illt“ í skilningi boðorðs siðferðilegs Guðs sem ber að hlýða, heldur mun það einfaldlega valda Adam eitrun leggi hann sér það til munns. Adam fellir sökum skilningsskorts undir „illt“ það sem hefur aðeins „slæmar“ afleiðingar á líkama hans í siðlausum skilningi þess orðs. Þessi áhersla á hið siðferðilega kemur í veg fyrir þekkingu. Valið stendur því á milli þekkingar og siðferðis/siðfræði. Boðorðinu er ruglað saman við hluti sem öðlast má skilning á, hlýðni ruglað saman við þekkingu. Það sem einkennir móralistann er því að endingu skilningsskortur.
Deleuze segir efnishyggju, siðleysi og guðleysi þá þætti í heimspeki Spinoza þóttu hneykslanlegir, og að hér sé nálægð hans við Friedrich Nietzsche hvað mest. Í póstkorti sem Nietzsche sendi kunningja sínum 30. júlí 1881 segist hann uppnuminn yfir því að hafa nýlega uppgötvað fyrirrennara sinn Spinoza og sé því ekki lengur einmana heldur að minnsta kosti tví-mana. Þrátt fyrir greinarmun sem sé fyrst og fremst til kominn af breytingum í tíma, menningu og vísindum séu þeir í meginatriðum sammála um að hafna beri tilvist fimm fyrirbæra: frelsi viljans, ásetnings, siðferðilegrar heimsskipanar, óeigingirni og hins illa.
Spinoza og Nietzsche hafna báðir sérhverri tilraun til að hampa sálinni á kostnað hins undraverða líkama sem er ofvaxinn þekkingu okkar. Frá sjónarhóli heimspekisögunnar má segja slíka áherslu á líkamann kvenlega. „Konan hefur í þessari hefð verð tákngervingur hins náttúrulega, líkamlega og tilfinningalega og karlinn tákngervingur hreinnar rökhugsunar“, skrifar Sigríður Þorgeirsdóttir: „Kvenfjandsamleg viðhorf hafa leitt til þess að þau einkenni sem talin hafa verið kvenleg hafa verið niðursett en hinum karllegu hefur verið hampað.“ Um Nietzsche segir Sigríður: „Skotskífa gagnrýni hans er tvískipting mannsins í sál og líkama, tilfinningar og vitsmuni. Kynjatvíhyggja vestrænnar menningar hefur verið samstofna þessari tvíhyggju og stigskiptingu mannverunnar í „æðri“ (karllega) og „lægri“ (kvenlega) hluta. Með því að hafna stigskiptingu hins karllega og hins kvenlega býr Nietzsche […] í haginn fyrir femíníska gagnrýni tvíhyggju og eðlishyggju“ og þar með á tvíhyggju sálar og líkama. En þrátt fyrir að Nietzsche sé í vissum skilningi „vinur hins kvenlega“ og þar með líkamans vekur Sigríður jafnframt máls á eftirfarandi: „Þótt Nietzsche hafi kvengert frumspeki með því að lofa hið líkamlega og hið jarðneskja er fráleitt að segja hann vera vin kvenna eins og hann lýsir sjálfum sér í duttlungafullum tón.“ Grein Sigríðar birtist einnig í ensku greinasafni á árinu en Sigríður hefur um nokkurt skeið verið helsti fulltrúi íslenskrar heimspeki á sviði alþjóðlegra Nietzsche-fræða.
Eins og Guðfríður Lilja vekur athygli á lýsti Spinoza því yfir í Ritgerð um stjórnmál að lýðræði sé besta stjórnskipulag sem völ er á. Þótt sú skoðun virðist á okkar dögum nokkuð óumdeild á Vesturlöndum eru heimspekingar ekki á einu máli um það hvaða lýðræðiskenning sæmi frjálslyndu lýðræði. Meðal þeirra hugsuða sem hafa verið fyrirferðamiklir í umræðu íslenskra heimspekinga um lýðræði á undanförnum árum eru Jürgen Habermas og John Rawls. Chantal Mouffe gagnrýnir þá skynsemishyggju sem liggur rökræðulýðræði Habermas og Rawls til grundvallar. Hún álítur rökræðulíkanið „smætta stjórnmál niður í siðfræði.“ Því verði „keppinautur við rökræðulíkanið einnig að takast á við þá staðreynd að vald er einn af lykilþáttunum í samsetningu félagstengsla. Einn af ágöllum rökræðunálgunarinnar er að með því að gefa sér að til sé opinbert svið þar sem völdum hefur verið útrýmt og þar sem hægt væri að ná skynsamlegu samkomulagi er þetta líkan um lýðræðisstjórnmál ófært um að viðurkenna þá fjandskaparvídd sem gildafjölhyggjan felur í sér og er óhjákvæmilegur hluti af eðli hennar. Þess vegna getur þetta líkan ekki annað en horft framhjá sérstöðu hins pólitíska, sem það er ófært um að sjá öðruvísi en sem afkima hins siðferðilega. […] Svo bæta megi fyrir þessa alvarlegu vöntun þurfum við lýðræðislíkan sem getur náð tökum á eðli hins pólitíska. Þetta krefst þess að smíða nálgun sem setur spurninguna um völd og fjandskap í brennidepil.“ Mouffe segir ennfremur: „Sú hugmynd að hægt sé að leysa vald upp með skynsamlegum skoðanaskiptum og að lögmæti megi byggja á skynseminni einni eru tálsýnir sem ógna lýðræðislegum stofnunum.“
Spinoza gagnrýnir, líkt og Guðfríður Lilja bendir á, óhóflega skynsemishyggju: „En grundvöllun ríkis getur ekki staðið óbuguð nema hún sé varin af skynsemi og sameiginlegri ástríðu manna jafnt: annars, ef hún reiðir sig á aðstoð skynseminnar einnar, er hún sannarlega veik fyrir og auðsigruð.“ Sjálf sækir Mouffe gagnrýni sína á skynsemishyggjuna að einhverju leyti til Wittgensteins: „Í huga Wittgensteins eru reglur ávallt […] óaðskiljanlegar frá tilteknum lífsmátum. Þetta þýðir að ekki er unnt að viðhalda þeim stranga greinarmun á „leikreglum“ og „inntaki“ eða á „siðferði“ og „siðfræði“ sem er í aðalhlutverki hjá Habermas. Verklag felur alltaf í sér inntaksmiklar siðferðilegar skuldbindingar, og það er ekki hægt að hugsa sér neitt í líkingu við algerlega hlutlaust verklag.“ Franski rökgreiningarheimspekingurinn Jacques Bouveresse telst helsti sérfræðingur Frakka um Wittgenstein. Í minningargrein um vin sinn og starfsbróður við Collège de France, Pierre Bourdieu (1930–2002), minnir hann á að hinn heimspekimenntaði félagsfræðingur hafi, ólíkt frönskum heimspekingum póststrúktúralismans, alla tíð sýnt Wittgenstein mikinn áhuga. Og það er engin tilviljun að eitt af höfuðritum Bourdieus, Le sens pratique (1980), hefst á tilvitnun í eftirfarandi spurningu Wittgensteins: „Hvernig get ég fylgt reglu?“ (spurning sem Kripke glímdi við í Wittgenstein on Rules and Private Language, 1982). Á öðrum stað ritar Bourdieu: „Segja má að öll hugsun mín spretti af þeirri spurningu hvernig hegðun geti verið reglubundin án þess að stafa af hlýðni við reglu.“ Bouveresse ber saman gagnrýni Bourdieus og Wittgensteins á „goðsögnina um reglur“ og beinir athyglinni að „samfélagsleiknum, þar sem reglulaus reglufesta er, ef svo má að orði komast, regla fremur en undantekning“. Þótt ýmislegt í mannlegu atferli sé reglulegt eða reglubundið er ekki þar með sagt að slíkt orsakist af tilvist einhvers konar reglu. Til að forðast slíka „vitsmunahyggju“ þróa Wittgenstein og síðar Bourdieu kenningu um verklega rökvísi handan meðvitundarinnar. Grein Bouveresse er að finna í greinasafni um Bourdieu sem sá fyrrnefndi sendi frá sér fyrr á árinu en greinin hafði áður birst í fræðitímaritinu Critique (1995) þar sem ýmsir fjölluðu um kenningar Bourdieus, þar á meðal kanadíski heimspekingurinn Charles Taylor í grein sinni „Að fylgja reglu“.
Sama ár og Bourdieu var skipaður prófessor í félagsfræði við Collège de France var fornfræðingurinn Pierre Hadot skipaður prófessor í síðgrískri og rómverski hugsun við sömu stofnun. Árið áður kom út rit hans Exercices spirituels et philosophie antique (1981) sem markar tímamót hvað varðar sýn okkar á fornaldarheimspekina. Í grein úr þeirri bók setur Hadot fram þá kenningu að í fornöld hafi heimspekikenningar verið smíðaðar í þágu andlegrar iðkunar. Heimspeki fornaldar hafi verið lífsmáti en á miðöldum hafi heimspekin orðið hrein fræðigrein, sértæk iðkun, og séð um leið á eftir handleiðslunni til hinnar ríkjandi guðfræði. Þessi þróun hafi haldið áfram með tilkomu nútímaháskóla. Í stað heimspekings hinna andlegu æfinga kemur listamaður skynseminnar, svo notað sé orðalag Kants. Heimspekin verður tæknilegt tungutak fyrir sérfræðinga. Hadot sér þó undantekningu hjá þeim heimspekingum nýaldar sem nærast á heimspeki fornaldar og endurlífga hana. Auk Nietzsches, sem hvetji „til að gjörbreyta eigin lífsháttum“, nefnir hann Spinoza sem „kenni hvernig eigi að gera róttæka og áþreifanlega breytingu á eigin tilveru“. Hadot álítur að „lexía fornaldarheimspekinnar [sé] hvatning til hvers og eins til að taka breytingum. Heimspeki merkir sinnaskipti, breytingu á veru- og lífsháttum“. Hadot hafði mikil áhrif á síðari verk Michels Foucault og nægir að nefna skilgreiningu þess síðarnefnda á heimspeki sem vinnu sem felist í því „að hugsa öðruvísi, breyta öðruvísi og verða öðruvísi en maður er“. Róbert Jack tekur upp þráðinn frá Hadot og varpar fram þeirri spurningu hver sinni á okkar dögum þeirri fornu lífslist sem sértæk nútímaheimspeki hefur snúið baki við. Róbert beinir athyglinni að sjálfshjálparfræðum nútímans og finnur samsvörun með viðleitni þeirra og sjálfshjálparviðleitni fornaldarheimspekinnar.
Í tilefni af tvöhundruð ára ártíð Immanuels Kant (1724-1804) birtir Hugur þýðingu á grein eftir heimspekinginn og sálgreininn Slavoj Zizek. Zizek, sem var frambjóðandi í forsetakosningunum í Slóveníu árið 1990, er sérfræðingur í heimspeki Kants og þýsku hughyggjunni jafnt sem í sálgreiningu Lacans. Ekki ósvipað Spinoza tvinnar hann hyldjúpa heimspeki saman við aðgengilegri dæmi (til að mynda úr kvikmyndum). Zizek ber rannsókn Lacans á sambandi Kants og Sade saman við fimmtán árum eldri greiningu Adornos og Horkheimers í Díalektík upplýsingarinnar sem varpar ljósi á það hvernig Nietzsche og markgreifinn af Sade segja skilið við móralíska sykurhúðun hins borgaralega samfélags og horfast af samkvæmni í augu við afleiðingar hinnar bláköldu nytjahyggjurökvísi sem einkennir tæknihyggju kapítalismans, sem er jafn tilfinningalaus, tæknileg og heröguð og vélrænt kynlíf hinnar kaldrifjuðu sadísku hetju. Tilfinningaleysi Sades endurspegli hina köldu óhlutdrægni sem einkennir formhyggju Kants sem boðaði skyldu skyldunnar vegna: „Smættun sadíska öfuguggans á rekkjunaut sínum í beran hlut, í leið að marki sinna eigin óendanlegu nautna, er hinn huldi sannleikur hinnar kantísku siðferðilegu tilskipunar um að koma fram við aðrar manneskjur af virðingu, að veita þeim lágmarksreisn.“
Daginn eftir að nasistar lögðu eld að þýska þinghúsinu tók Bertolt Brecht saman föggur sínar og yfirgaf Þriðja ríkið. Eftir margra ára flótta undan nasistunum settist hann að í Los Angeles. Sex árum síðar, nánar tiltekið haustið 1947, var Brecht skipað að mæta fyrir nefnd McCarthys sem rannsakaði and-ameríska starfsemi í Hollywood. Daginn eftir yfirheyrsluna flúði Brecht úr landi. Fyrir nokkrum árum sendi John McCumber frá sér bókina Time in the Ditch (2001) þar sem hann heldur því fram „að rökgreiningarheimspeki hafi vaxið og dafnað í skjóli þess andrúmslofts ótta og vænisýki sem McCarthyisminn ól af sér.“ Ármann Halldórsson, formaður Félags áhugamanna um heimspeki, kynnti bókina fyrr á árinu á fjölsóttri uppákomu félagsskaparins „Huggun heimspekinnar“, sem Pétur Gauti Valgeirsson hefur staðið fyrir á undanförnum misserum, og voru umræður líflegar. Hér birtist ítarlegri umfjöllun Ármanns um bókina. Jón Ólafsson skrifar um greinasafn Kristjáns Kristjánssonar Mannkostir (2002) sem er að stofni til endurútgáfa á tíu greinum um póstmódernisma sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins haustið 1997 og vöktu mikla umræðu. Gauti Sigþórsson menningarfræðingur skrifar um „Rísóm“ eftir Deleuze og Guattari sem birtist í þýðingu Hjörleifs Finnssonar í Heimspeki verðandinnar (2002). Auk þriggja greina um bækur er að finna hér í heftinu fjórtán ritdóma um bækur heimspekilegs efnis sem komið hafa út á undanförnum árum.
Í grein sinni ræðir Eyja Margrét Brynjarsdóttir tvær ólíkar mótbárur við greinarmun huglægra og hlutlægra eiginleika. Fyrri mótbáran gefur til kynna að hlutlægir eiginleikar geti ekki verið til þar sem allir eiginleikar hljóti að vera huglægir en samkvæmt hinni síðari er greinarmun á hlutlægum og huglægum staðreyndum hafnað og af því dregin sú ályktun að allir eiginleikar hljóti að vera sama eðlis. Eyja vísar báðum mótbárunum á bug. Í tilefni þeirra tímamóta að þýðing Siðfræði lífs og dauða eftir Vilhjálm Árnason bíður birtingar hjá þýsku fræðiritaforlagi ræddi Hugurvið Vilhjálm um heimspekiskrif hans undanfarinn aldarfjórðung. Í ritgerð sem Þorsteinn Gylfason skrifaði handa Félagi áhugamanna um heimspeki í tilefni þess að félagið gerði hann að heiðursfélaga sínum fyrr á þessu ári reifar hann ýmsa þræði íslenskrar heimspeki á tuttugustu öld.
Heimspekistofnun styrkti þýðingarnar sem hér eru birtar. Svo var einnig í síðasta hefti Hugar en þá láðist að geta þess í inngangi. Þess má að lokum geta að Félag áhugamanna um heimspeki hefur ráðið Björn Þorsteinsson sem næsta ritstjóra Hugar.