Heimspeki úr glatkistunni: Konur og kvenréttindi 1876-1885

Umræða 19. aldar skoðuð út frá fimm greinum í Skírni og Fjallkonunni

 

Inngangur

eftir Hrund M. Þorgeirsdóttur og Svandísi Þorsteinsdóttur

„Kvölin sem svo margar ungar konur þekkja; bundnar á höndum og fótum með ást og móðureðli en hafa ekki gleymt fyrrum draumum sínum.“

Simone de Beauvoir

Konur hafa verið kallaðar stóri minnihlutahópurinn. Það tók þær margar aldir að átta sig á því að hlutskipti þeirra í þessum heimi gæti verið betra og ætti að vera betra. Það var ekki fyrr en á 19. öldinni sem hin eiginlega „kvenréttindabarátta“ hófst, mörgum til mikillar óánægju, og þar var Ís­land ekki undanskilið. Greinar í blöðum og tímaritum frá þessum tíma er ein besta heimildin um þær áherslur sem einkenndu kvenréttindabaráttunnar hér á landi. Hér verður litið til fimm greina eftir fjóra höfunda sem birtust á síðum Skírnis og Fjallkonunnar á árunum 1876-1885. Höfundar þeirra eru þau: Guðmundur Þorláksson (1852-1910), Eiríkur Jónsson (1822-1899) og Bríet Bjarn­héðinsdóttir (1856-1940), sem skrifaði undir dulnefninu Æsa, en fjórði höfundurinn er „Ónefndur.“1 Allar greinarnar gera tilraun til þess að opna augu Íslendinga fyrir bættri stöðu kvenna víðsvegar um heiminn og undirstrika hversu farsællega þær höfðu í raun staðið undir þeim væntingum og skyldum sem fylgdu auknum réttindum og bættri félagslegri stöðu.

Höfundarnir eiga það allir sameiginlegt að hamra á mikilvægi þess að konur fái notið menntunar til jafns við karla. Menntun er lykillinn að bættum kjörum og réttindum. Á þessum tíma var það hinsvegar útbreidd skoðun að aukin réttindi myndu óhjákvæmilega bitna á getu kvenna til að sinna móðurhlutverkinu. Þetta var þá þegar umdeilt en óttinn að baki spurningunni „hver á þá sjá um börnin ef konurnar fara út af heimilinu?“ var áþreifanlegur. Enginn höfundanna fjögurra dregur úr mikilvægi móðurhlutverksins og telur Bríet Bjarnhéðinsdóttir m.a. að bætt menntun geri mæður að betri fyrirmyndum og efli þær í uppeldishlutverkinu.

Þó svo að meginboðskapur greinanna sé sá sami er umtalsverður blæbrigðamunur á stíl og þeim röksemdafærslum sem höfundarnir beita. En þegar litið er yfir greinarnar í tímaröð bera þær skýran vott um framfarir, bæði hvað varðar kvenréttindi og viðhorf til kvenréttinda, á tiltölulega stuttum tíma. Baráttan átti eftir að halda áfram fram eftir 20. öldinni og hún er enn háð á þeirri 21. En þrátt fyrir að margt hafi áunnist þá má ekki gleyma upphafinu.

Aftanmálsgrein

1. Um Ónefndan vitum við ekkert fyrir víst, en okkur grunar að um kvenmann sé að ræða. Þessi grunur byggist á áherslum textans, vali á dæmum og sýn höfundar á kynjamisrétti samtíma síns.

Heimildir

Bríet Bjarnhéðinsdóttir [Æsa], „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 11. tbl., bls. 42-43.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir [Æsa], „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 12. tbl., bls. 45-47.
Eiríkur Jónsson, „Um jafnrjetti og jafnstæði kvenna gagnvart karlmönnum“, Skírnir, 58. árg. (1884), bls. 18-19.
Eiríkur Jónsson, „Rjettur kvenna aukinn árið sem leið“, Skírnir, 57. árg. (1883), bls. 15-17.
Guðmundur Þorláksson, „[Jafnrétti kvenna]“, Skírnir, 50. árg. (1876), bls. 14-16.
Ónefndur, „Kvenfrelsi“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 1. tbl., bls. 1-2.
Ónefndur, „Kvenfrelsi“, Fjallkonan, 2. árg. (1885), 2. tbl. bls. 5-7.

 

Greinarnar fimm sem birtust á síðum Skírnis og Fjallkonunnar á árunum 1876-1885

 

„Jafnrétti kvenna“

eftir Guðmund Þorláksson

Þá er enn eitt mál, alþjóðlegt mál, sem lengi hefur verið talað um og lengi rifist um, en sem þó aldrei sýnist að hafa haft eiginlegan framgang fyrr en nú á síðustu árum, og það er þess vegna, að vér tökum það fyrir hér. Það er jafnrétti kvenna.

Til þess rétt að geta skilið það mál, verða menn einkum að gefa gætur að, hvernig allur iðnaður og vinna hefur breyst nú á síðari tímum frá því, sem áður var. Starfssvið kvenna var þá nokkuð annað og ólíkt rýmra en það er nú. Mest af vinnunni var þá unnið á heimilunum sjálfum, og þar komust jafnt að konur sem karlar. Nú er það ekki lengur, og næstum allt er unnið utan húss. Vélar og verksmiðjur tóku við, og þar komust konur ekki að. Þær urðu að kaupa það í búðunum, sem þær höfðu áður búið til sjálfar. Svona er það í flestum löndum. Vinnan hefur smám saman dregist meira og meira úr höndum þeirra; verksvið þeirra hefur ekki verið aukið að því skapi sem iðnaðurinn óx; almenningsálit hefur ekki þolað, að þær tæki sér annað fyrir hendur en það sem ættmæður þeirra um margar aldir höfðu gert undir allt öðrum atvikum; í fáum orðum: þeim var ekki treyst til annars en vera réttar og sléttar heimasætur. Þetta gekk nú góða stund. Iðnaði, vísindum og menntun fleygði alltaf áfram, og mennirnir fylgdust, hver á sinn hátt, með straum­num, — en kvenfólkið eitt stóð í stað. Þær fengu ekki að taka þátt í neinum af þessum almennu störfum, hvað þá að fylgjast með í vísindalegri menntun, og neyta í öllu sömu réttinda og karlmenn.

Það var nokkuð sem fáum kom til hugar, fyrr en seint og síðar meir, og þegar svo fyrst var farið að vekja máls á því, þótti varla nokkrum það takandi í mál. Fjöldi manna reis upp og ritaði, og ritar enn, bæði með og mót, og það af ákafa. Öll atriði málsins voru nú, hvert á eftir öðru, tekin fram og rædd, og þau eru ekki fá. Hluttaka í iðnaðar- og verslunarefnum jafnt karlmönnunum, jafn eignarréttur og arftaka, jöfn hluttaka í stjórnlegum efnum, og þar af fylgjandi jafn kosningar- og atkvæðisréttur, jafnrétti í menntun og vísindum, jafn réttur til allra embætta, o. fl. Allt þetta hefur verið tekið fram, og mikið er unnið á í ýmsum löndum, þótt mikið vanti á. En við ramman hefur verið reip að draga, þar sem vaninn og almenningsálitið er, og það er því ekki að undra, þótt for­vígismenn þessa máls hafi mætt mikilli mótstöðu. Loksins fóru menn þó að sjá, að staða kvenna og atvinnuleysi fór alltaf dagversnandi, og eitthvað yrði til bragðs að taka, að bæta hag og auka réttindi þeirra. Bandafylkin urðu hér á undan sem í mörgu öðru; þau fóru smátt og smátt að rýmka um réttindi þeirra. Fyrst komust þær að skrifstofustörfum, póstafgreiðslu, ýmislegri atvinnu við rafsegulþræði og mörgu öðru. Kvennaskólar fóru að komast á um allt landið. Allt þetta mætti raunar mikilli mótstöðu í fyrstunni, en þær stóðu ekkert ver í sinni stöðu, en þeir, og svo var því lokið. Bráðum var þeim veitt jafnrétti við karlmenn í öðru. Þær fengu leyfi til að sækja háskóla, og taka próf, og nokkru seinna fengu þær jafnan rétt til embætta. Þær sækja nú 30 háskóla þar, og allir þessir háskólar ljúka lofsorði á iðni þeirra og dugnað.

Erfiðara hefur þetta mál átt uppdráttar í Norðurálfunni. Það hefur raunar fengið öfluga með­mælendur, svo sem Englendinginn Stuart Mill, Þjóðverjann H. von Scheel og fleiri, en hinir hafa þó verið jafnan fleiri, er móti hafa verið. Merkastir af þeim eru Bischoff, líffræðingur í München, og Proudhon, frakkneskur maður. Bischoff hefur nýlega ritað stóra bók á móti þessu; þar segir hann, að konur geti alls ekki lært neitt vísindalegt, það skyldi þá helst vera ögn í grasafræði, um falleg­ustu blómin eða þess háttar. Hann færir þá eina sönnun fyrir sínu máli, sem hann vill láta nægja, að kvenmannsheilinn sé að jafnaði 134 grömmum léttari, en karlmannsheilinn. Nákvæmur er reikningurinn, enda þykist hann geta byggt á honum. Proudhon gengur lengra, og það svo langt, að jafnvel mestu mótstöðumönnum þessa máls ofbýður. Það mun því nær sanni, er Scbeel segir, að þessir menn bæti meira en þeir spilli fyrir málinu. Fyrir alla þessa baráttu vannst þó það á, að Svisslendingar leyfðu konum að hlusta á fyrirlestra og taka próf við háskólann í Zürich. Það var árið 1864. Leyfið var lítið notað í fyrstunni, þó jókst talan smátt og smátt og 1873 lásu 114 stúlkur við þennan háskóla, en af þessum 114 voru 100 rússneskar. Það kom til af því að heldri meyjar Rússa njóta langtum betra uppeldis, en í öðrum löndum, og kvennaskólar hafa verið þar um langan aldur miklu fleiri og betri en annars staðar. Þetta átti þó ekki við skap Rússa og sama árið var þeim öllum fyrirboðið að halda áfram og boðið að koma heim. Skarðið, sem varð við þetta, fyllist smám saman aftur, háskólinn í Bern veitti þeim aðgöngu líka, og rússneskar stúlkur fóru nú aftur að vitja til þessara háskóla. Fleiri háskólar hafa nú tekið þetta eftir, þótt þeir séu engan veginn margir. Danir leyfðu þeim í fyrra að sækja háskólann í Kaupmannahöfn, en ekki er enn komið svo langt, að þær hafi rétt til embætta eða nokkurn almennan styrk til bókiðna sinna.

Flestar af þeim konum, sem stunda lærdóm við háskólana, lesa læknisfræði, og ber ekki neitt á, að þær séu hugminni eða kveifarlegri en karlmennirnir, þótt því væri spáð í fyrstunni. Margar hneigjast líka að náttúrufræði, heimspeki og fagurvísi, og nokkrar jafnvel að lögfræði og tungumálum. Á sumum stöðum (t. a. m. í Höfn) er þeim ekki leyft að lesa guðfræði. Það þykir undarlegt því að flestir ætla, að þær séu almennt betur lagaðar fyrir það, en margt annað.

Aðrar framfarir í þessu máli hafa verið litlar. Þó skulum vér geta þess, að Svíar hafa nýlega gefið út lög um jafnan eignarrétt hjóna, og hins sem meira er, að á Svissaralandi hafa tvö fylkin (Schweitz og Uri) veitt konum fullkomið jafnrétti í öllu.