Færslusöfn

Hversvegna?

eftir Paul Edwards

Óskýrleiki hvað varðar notkun orðsins ‘hversvegna’ veldur ruglingi á mörgum heimspekisviðum. Þessi grein einskorðast við tvö svið þar sem það hefði vel getað afstýrt því að menn aðhylltust kenningar sem byggjast á misskilningi ef þeir hefðu gefið meiri gaum að réttri og rangri notkun þessa orðs. Annars vegar er það andstæðan, eða ætluð andstæða, milli ‘hvernig’ og ‘hversvegna’ og sú skoðun, sem er sameiginleg höfundum með afar ólíkan bakgrunn, að raunvísindin geti aðeins fengist við hvernig-spurningar. Hins vegar eru það tilteknar spurningar um ‘hinstu’ rök eða um tilvist heimsins, svo sem ‘Hversvegna erum við til?’ eða, dýpra tekið í árinni, ‘Hversvegna er heimurinn til?’ eða ‘Hversvegna er eitthvað til frekar en ekkert?’ Sumir, eins og Schopenhauer og Julian Huxley, álíta að ekki sé hægt að svara þessum spurningum. En hvort sem það er rétt eða ekki virðast menn almennt á einu máli um að þær séu afar ‘djúphugsaðar’. Svo vitnað sé í orð breska stjarneðlisfræðingsins A. C. B. Lovells kunna þessar spurningar að leiða til vandamála „sem geta tætt hug einstaklingsins í sundur.“1 Hið fyrsta sem Heidegger segir um spurninguna ‘Hversvegna er eitthvað til frekar en ekkert?’ er að hún sé „grundvallarspurning frumspekinnar“ og seinna bætir hann við að hún sé „upphaf og einnig endir heimspekinnar ef henni lýkur með reisn en ekki uppgjöf.“ 2

Hvernig og hvers vegna

Andstæðunni milli hvernig og hversvegna hefur verið haldið fram af tveim fremur ólíkum ástæðum. Sumir höfundar hafa gert það í þágu trúarbragða eða frumspeki. Afstaða þeirra virðist vera sú að enda þótt raunvísindi og reynslurannsóknir almennt séu hæf til að fást við hvernig-spurningar þá séu hinar afar ólíku og langtum djúphugsaðri hversvegna-spurningar réttilega viðfangsefni trúarbragða eða frumspeki nema hvort tveggja sé. Þannig heldur breski geðlæknirinn David Stafford-Clark því fram, í víðlesinni bók, að ruglingurinn milli hvernig- og hversvegna-spurninga sé „kórvillan“ á bak við „allt tal um að það sé í raun og veru árekstur milli vísinda og trúar yfirleitt.“ 3 Sérstaklega er Freud sakaður um að gera þessa villu í andtrúarlegum ritum sínum. Stafford-Clark er alls ekki á móti freudískri kenningu þegar hún takmarkast við hvernig- spurningar um sálræn fyrirbæri. Sálgreiningin er samt „langt frá því að geta upp á eigin spýtur svarað einni einustu spurningu um það hversvegna maðurinn er þannig gerður að sálarlífið skuli vera eins og það er.“4 Þótt Stafford-Clark láti hvað eftir annað í ljós brennandi trú sína á Guð segir hann okkur ekki hvernig trúin svari spurningunni hversvegna maðurinn er ‘gerður’ eins og raun er á. Hann mundi kannski svara henni á sömu nótum og Newton svaraði svipaðri spurningu um sólina. „Hversvegna er einn hnöttur í kerfi okkar hæfur til að gefa öllum hinum birtu og yl?“ Newton skrifaði í fyrsta bréfi sínu til Richards Bentleys: „Ég kann enga skýringu aðra en þá að höfundi kerfisins hafi þótt það henta.“5 Ég hygg að almennt muni menn sammála um að þetta sé ekki mjög burðug skýring.

Svipaðar skoðanir er að finna í ritum margra atvinnuheimspekinga. Þannig segir Whitehead, í skrifum sínum um verk Newtons um þyngdaraflið, að „hann (Newton) byrjaði glæsilega með því að einangra spennuna sem þyngdarlögmál hans bendir til“. En Newton „skildi ekki eftir neina vísbendingu um það hversvegna ætti yfirleitt að vera nokkur spenna í eðli hlutanna.“6 Á svipaðan hátt lýsir Gilson því yfir, þegar hann fjallar um takmarkanir raunvísindanna, að „vísindamenn spyrja sig aldrei að því hversvegna hlutir gerast heldur hvernig þeir gerast … Hversvegna nokkuð yfirleitt er til, það vita vísindin ekki, einmitt vegna þess að þau geta ekki einusinni spurt spurningarinnar.“7 Fyrir Gilson virðast umræðuefnin tvö sem nefnd voru í upphafi þessarar greinar renna saman í eitt. Hann virðist halda því fram að ekki sé hægt að svara hversvegna-spurningum um einstök fyrirbæri nema við svörum spurningunni „hversvegna þessi heimur, ásamt lögmálum sínum … er til.“8

Meðal þeirra sem hafa haldið því fram að vísindin geti aðeins fengist við hvernig-spurningar eru nokkrir sem eru alls ekki vinveittir frumspeki eða trúarbrögðum. Þessir höfundar bæta venjulega þeirri athugasemd við ummæli sín að vísindin geti ekki fengist við hversvegna-spurningar, að engri annarri viðleitni gangi það neitt betur. Þessi ‘óvissuraunspeki’, eins og við getum kallað hana, nær að minnsta kosti alla leið aftur til Humes. Við vitum, skrifar hann, að mjólk og brauð eru viðeigandi næring fyrir menn en ekki fyrir ljón eða tígrisdýr, en við getum ekki „rakið hina endanlegu ástæðu fyrir því“ að þessu skuli svona farið.9 Hume virðist gefa í skyn að aldrei verði hægt að ráða bót á þessu dapurlega ástandi, án tillits til framfara í lífeðlisfræði eða öðrum raunvísindum. Nokkrir höfundar á síðari helmingi nítjándu aldar komu þessari afstöðu á framfæri undir slagorðunum: „Hlutverk raunvísindanna er að lýsa fyrirbærum, ekki að skýra þau.“ Ernst Mach, Gustav Kirchhoff og Joseph Petzoldt voru meðal þekktustu einstaklinga í Mið-Evrópu sem voru talsmenn þessarar skoðunar. Í Englandi viðurkenndi Karl Pearson, áhrifamesti málsvari hennar, að það sakaði ekkert að tala um ‘vísindalegar skýringar’ að því tilskildu að ‘skýring’ sé notuð „í merkingu hins lýsandi hvernig.“10Við getum vissulega „lýst því hvernig steinn fellur til jarðar en ekki hversvegna hann gerir það.“11 „Enginn veit hversvegna tvær frumeindir hafa áhrif á hreyfingu hvor annarrar. Jafnvel þótt þyngdarafl yrði greint og því lýst með hreyfingu einhverrar einfaldari eindar eða ljósvaka-frumefnis verður heildin samt sem áður lýsing, en ekki skýring, á hreyfingu. Vísindin mundu samt sem áður verða að láta sér nægja að skrá hvernig hlutirnir gerast.“ Það er sama hve miklar framfarir verða í eðlisfræði, „eftir sem áður verður það leyndardómur“12 hversvegna hlutirnir gerast.°

Óvissuraunspeki er ekki eins mikið í tísku og fyrir sjötíu árum en hún er hvergi nærri dauð. Þannig fullyrðir W. T. Stace, hálfri öld eftir Pearson, að

Vísindaleg lögmál, rétt orðuð, ‘skýra’ aldrei neitt. Þau setja einungis fram, í styttu og alhæfðu formi, það sem gerist. Enginn vísindamaður, og að mínum dómi enginn heimspekingur, veit hversvegna neitt gerist eða getur ‘skýrt’ það. 13

Svipað segir enski líffræðingurinn, Joseph Needham, eftir að hafa vísað á bug lífhyggjunni sem dulrænni og vísindalega ófrjórri kenningu: „Ekki aðeins lífhyggjumenn heldur okkur öll langar til að spyrja hversvegna lifandi verur skuli vera til og haga sér eins og þær gera.“ „Um það,“ heldur Needham áfram, „getur hin vísindalega aðferð ekkert sagt okkur.“ Lifandi verur

eru það sem þær eru vegna þess að eiginleikar orku og efnis eru það sem þeir eru og á því stigi verður vísindaleg hugsun að eftirláta vandann heimspekilegri og trúarlegri hugsun. 14

Bandaríski líffræðingurinn, George Gaylord Simpson, sem vitnar í þennan kafla með velþóknun, bætir við að þegar komi að þessum „hinstu leyndardómum“ sé guðfræðin ekkert betur stödd en vísindin. Einnig hana „skortir getu til að sjá í gegnum þessa hinstu hulu“15

Mikilvægt er að greina efnisleg atriði frá atriðum sem varða orðin ein í yfirlýsingum sem þessum. Að svo miklu leyti sem hinir ýmsu höfundar sem vitnað hefur verið í vilja einungis halda því fram að staðhæfingar um orsakasamband og vísindalögmál almennt og yfirleitt séu raunsannindi en ekki röksannindi væri lítið hægt að mótmæla ummælum þeirra. Þeir eru þó, eða þeir virðast alltént vera, að segja miklu meira. Þeir virðast allir á einu máli um að til sé flokkur merkingarbærra spurninga sem byrja eðlilega og tilhlýðilega á orðinu ‘hversvegna’ í ákveðinni merkingu sem ekki er hægt að svara með skírskotun til reynslu. Höfundar sem tilheyra fyrri hópnum halda því fram að svörin fáist annars staðar. Óvissuraunspekingarnir halda því fram að það sé alls ekki á mannlegu færi að finna svörin.

Það eru þessi efnislegu atriði sem hér verður fjallað um, og nauðsynlegt er að benda á að mikil ruglandi er í öllum skoðunum af þessu tæi. Í fyrsta lagi, þó að þessi athugasemd skipti minnstu máli, þá gegna ‘hvernig’ og ‘hversvegna’ ekki alltaf gagnstæðum hlutverkum heldur eru þessi orð við tilteknar aðstæður notuð til að spyrja alveg sömu spurninganna. Þannig notum við ‘hvernig’ og ‘hversvegna’ jöfnum höndum þegar við vitum eða höldum að eitthvert fyrirbæri, A, sé orsök einhvers annars fyrirbæris, X, en okkur er jafnframt ókunnugt um ‘gangverkin’ í orsakasambandinu milli A og X. Við vitum, til dæmis, að tiltekin lyf lækna tiltekna sjúkdóma en þekking okkar er í læknisfræðilegri merkingu ‘byggð á reynslunni einni.’ Hér mundum við vera jafn tilbúin að segja að við vitum ekki ‘hversvegna’ lyfið læknar og að við vitum ekki ‘hvernig’ það gerir það. Eða, svo að allfrábrugðið dæmi sé tekið, það er útbreidd skoðun að orsakasamband sé milli sígarettureykinga og lungnakrabba. Það er líka vitað að stundum reykja tvær manneskjur jafn mikið og samt fær önnur þeirra lungnakrabba en hin ekki. Í slíku tilfelli vaknar eðlilega sú spurning hversvegna sígarettureykingar, ef þær eru þá orsökin yfirleitt, leiði til krabbameins í öðru tilfellinu en ekki í hinu. Og við værum alveg eins reiðubúin að láta í ljós fáfræði okkar eða undrun með því að segja að við vitum ekki hvernig á því stendur að fyrri maðurinn fékk krabbamein af reykingum en sá síðari ekki eins og með því að segja að við vitum ekki hversvegna svo er. Í öllum slíkum tilfellum er ljóst að raunvísindin eru í grundvallaratriðum fær um að fást við ‘hversvegna’ engu síður en við ‘hvernig’, þó ekki væri nema vegna þess að orðin eru notuð til að spyrja alveg sömu spurninga.

Því verður þó ekki neitað að í tilteknum samböndum eru ‘hvernig’ og ‘hversvegna’ notuð til að spyrja ólíkra spurninga. Þessi andstæða er augljósust þegar við fjöllum um vísvitandi athafnir manna eða almennt um athafnir sem hafa einhvern tilgang. Það sem virðist hvergi nærri augljóst, það sem virðist í rauninni augljóslega rangt, er að athugunaraðferðir dugi ekki til að ákveða svar við hversvegna- spurningum í þessum samböndum. Tökum sem dæmi nýlegan þjófnað á Indlandsstjörnu-safírnum og öðrum gimsteinum úr Náttúrusögusafninu í New York. Hér getum við vissulega greint spurningarnar um það hversvegna innbrotið var framið frá spurningunni um það hvernig það var framkvæmt. Síðari spurningin mundi fást við einstök atriði verknaðarins – hvernig þjófarnir komust inn í bygginguna, hvernig þeir gerðu viðvörunarkerfið óvirkt, hvernig þeir sneiddu hjá vörðunum, og svo framvegis. Hversvegna-spurningin mundi aftur á móti grennslast eftir markmiði eða tilgangi þjófnaðarins: voru þjófarnir bara að reyna að græða stórfé, eða voru kannski einhver önnur markmið með í spilinu, eins og til dæmis að sanna fyrir keppinautum sínum hve slyngir þeir væru eða að sýna vanhæfni lögreglunnar? Nú er markmið eða áform manns vissulega ekki almennt séð ófinnanlegt og við vitum oft mætavel hvert það er. Venjulega, þó ekki alltaf, veit maðurinn sjálfur einfaldlega hvert markmið hans er. Til að mynda getur ræðumaður sem er að mæla með ákveðinni stefnu, að því er virðist vegna þess að hún er ‘landinu til góðs’, jafnframt vitað mætavel að raunverulegt markmið hans er að efla eigin hag. Áður fyrr var sagt að í slíkum aðstæðum þekki maður sitt eigið áform með ‘sjálfskoðun’ þar sem menn hugsuðu sér sjálfskoðun sem einskonar ‘innra skyn’. Þessi talsmáti er ekki óviðeigandi við aðstæður þar sem maður áttar sig ekki á eigin hvötum, því þá kann vel að vera nauðsynlegt fyrir hann að beina athygli að sínum eigin tilfinningum, sem að sumu leyti svipar til þess að reyna að greina einstaka drætti í landslagi, til þess að ganga úr skugga um hver hin ‘sönnu’ markmið hans eru. Miklu algengara er þó að maður þekki einfaldlega áform sín og það væri miklu betra að segja að hann viti þetta ‘án skoðunar’ en að hann viti það með sjálfskoðun. Til þess að komast að því hvað einhver annar ætlar sér með athöfnum sínum nægir í óteljandi tilfellum að spyrja manninn beint um áform hans. Þar sem vafi leikur á um sannsögli gerandans eða þar sem maður er haldinn sjálfsblekkingu er nauðsynlegt að grípa til ítarlegri könnunar. Í dæminu af fyrra tæinu mætti spyrja gerandann alls konar annarra spurninga (það er, spurninga sem eru ekki beinlínis um tilgang athafnarinnar), maður gæti átt viðtal við vini hans og kunningja og önnur vitni að hátterni hans, maður gæti hlerað símann hjá honum og notað hlerunartæki af ýmsu tæi. Maður kynni ef til vill að ganga svo langt að spyrja hann eftir að búið er að gefa honum ‘sannleiks’-lyf. Enda þótt oft reynist án efa óframkvæmanlegt að komast að tilgangi athafnar af báðum þessum tegundum er ljóst að yfirleitt er hægt að komast til botns í málinu með þekktum aðferðum.

Við setjum líka upp sem andstæður hvernig- og hversvegna-spurningar þegar þær síðarnefndu eru ekki eftirgrennslanir um áform neins geranda. Hér hefur þó ‘hvernig’ merkingu sem er frábrugðin þeim merkingum sem fjallað var um hér á undan. Í öllum dæmum sem hingað til hafa verið athuguð voru hvernig-spurningar með einum eða öðrum hætti orsakar-spurningar: „Hvernig framkvæmdu þjófarnir ráðagerð sína að stela Indlandsstjörnunni?“ er spurning um leiðirnar til að ná tilteknu markmiði og spurningin „Hvernig stendur á því að reykingar valda krabbameini hjá einum manni en ekki hjá öðrum?“ er, enda þótt hún sé ekki spurning um leiðir, engu að síður um þau ferli sem leiða til ákveðinnar niðurstöðu. Þessar ‘hvernig’-spurningar um orsakir ætti að greina frá ‘hvernig’-spurningum um ‘ástand’ eða ‘ásigkomulag’. „Hvernig er veðrið í New York á veturna?“ „Hvernig kemur hnignun hæfileika hans fram?“ „Hvernig er verkurinn hjá honum núna – er hann nokkuð betri?“ eru dæmi um ‘hvernig’ þegar um er að ræða ástand eða ásigkomulag og það eru hvernig-spurningar af þessu tæi sem við stillum upp sem andstæðum við hversvegna-spurningar sem varða ekki tilgang eða ásetning: „Hversvegna verður svona kalt í New York á veturna?“ „Hversvegna hnignaði honum svona snemma á ævinni?“ „Hversvegna minnkar ekki verkurinn hjá honum?“

Stundum er því haldið fram eða það er gefið í skyn, eins og í ummælum Stafford-Clarks sem tilfærð voru hér á undan, að hversvegna-spurningar séu ævinlega eftirgrennslanir um áform eða tilgang einhvers – ef ekki áform mannveru þá ef til vill áform einhverrar yfirnáttúrlegrar vitsmunaveru. Ljóst er að svo er ekki. Á því getur ekki leikið neinn vafi að ‘hversvegna’ er oft notað einungis til að spyrja spurninga um orsakir fyrirbæris. Þannig mundi spurningin „Hversvegna eru veturnir í New York svona miklu kaldari en í Genúa þótt þessir tveir staðir séu á sömu breiddargráðu?“ eðlilega skiljast sem beiðni um upplýsingar um orsök þessa mismunar á loftslagi; og spyrjandinn þarf ekki endilega að gera ráð fyrir að það sé einhvers konar áform eða tilgangur á bak við loftslagsmismuninn til þess að nota orðið ‘hversvegna’ rétt. Með því að segja þetta er maður ekki að gefa sér neitt gegn þeirri kenningu að náttúrleg fyrirbæri eins og vetrarkuldinn í New York séu verk yfirnáttúrlegrar veru: maður er einungis að vekja athygli á hvað er og hvað er ekki gefið í skyn í venjulegri notkun orðsins ‘hversvegna’ í þessum samböndum.

Drögum nú saman í stutt mál niðurstöður okkar hingað til: Í sumum aðstæðum eru orðin ‘hvernig’ og ‘hversvegna’ eðlilega notuð til að spyrja alveg sömu spurninga. Þegar við fjöllum um ásetningsathafnir manna notum við eðlilega ‘hversvegna’ til að grennslast fyrir um áform eða markmið gerandans og ‘hvernig’ til að fræðast um leiðirnar sem hann notar til að ná þessu markmiði. Loks eru ‘hvernig-spurningar’ oft notaðar til að grennslast fyrir um ástand eða ásigkomulag einhvers, en ‘hversvegna-spurningar grennslast eftir orsök þessa ástands eða ásigkomulags án þess að þurfa að gefa í skyn að nokkur tilgangur eða nein áform komi við sögu. Í öllum þessum tilfellum virðist mögulegt að svara hversvegna-spurningum engu síður en hvernig-spurningum og það án atbeina trúarbragða eða frumspeki.

Hið guðfræðilega Hversvegna

Snúum okkur nú að því sem kallað var hér á undan spurningar um ‘hinstu’ rök. Gera þarf greinarmun á tvenns konar slíkum ‘hversvegna’-spurningum og verður, af nokkuð augljósum ástæðum, vísað til hinnar fyrri sem hinnar guðfræðilegu spurningar. Hér mundi spyrjandinn vera ánægður með guðfræðilegt svar ef honum þætti slíkt svar sannfærandi. Það getur verið að hann fallist eða fallist ekki á að þetta svar sé rétt, en hann teldi það ekki málinu óviðkomandi.

Gilson, sem áður var vitnað í um takmarkanir raunvísindanna, svarar „hinni æðstu spurningu“ sem „vísindin geta ekki einusinni spurt“ um hæl. Hversvegna nokkuð er til yfirleitt verður að svara með því að segja:

Öll orka sem til er og sérhver hlutur sem til er á tilvist sína að þakka hreinni sköpunarathöfn. Til þess að vera hið endanlega svar við öllum tilvistarráðgátum hlýtur þessi æðsta orsök að vera algjör tilvist. Þar sem slík orsök er algjör er hún sjálfri sér nóg. Ef hún skapar hlýtur sköpunarathöfn hennar að vera frjáls. Þar sem hún skapar ekki aðeins tilveru heldur og skipulag hlýtur hún að vera eitthvað sem inniheldur í einhverri æðri mynd eina skipulagslögmálið sem við þekkjum af reynslunni, nánar tiltekið, hugsunina. 16

Á því leikur enginn vafi að margir sem spyrja spurninga eins og „Hversvegna er heimurinn til?“ eða „Hversvegna erum við hér?“ mundu líka, að minnsta kosti í vissu hugarástandi, vera ánægðir með guðfræðilegt svar, enda þótt þeir féllust ekki endilega á öll smáatriðin í Tómasarguðfræði Gilsons. Leggja ber áherslu á að maður þarf ekki að trúa á Guð til að nota ‘hversvegna’ á þennan hátt. Bandaríski leikritahöfundurinn Edward Albee sagði til dæmis nýlega: „Hversvegna við erum hér er spurning sem ógjörningur er að komast til botns í“. Allir í heiminum, hélt hann áfram „vona að til sé Guð“, og seinna bætti hann við: „Ég er hvorki með né á móti Guði“.17 Spurning Albees „Hversvegna erum við hér?“ jafngildir bersýnilega því að spyrja hvort til sé Guð og, ef svo er, hvaða guðlegum markmiðum mannlegum verum er ætlað að þjóna. Hann fellst ekki afdráttarlaust á hið guðfræðilega svar, sennilega vegna þess að hann er ekki viss um réttmæti þess, en hann álítur það vissulega skipta mjög miklu máli.

Rétt er að taka það fram að fólk notar oft orðið ‘hversvegna’ til að láta í ljós eins konar allsherjar umkvörtun eða forundrun. Í slíkum tilfellum er það í raun og veru ekki að biðja um svar, guðfræðilegt eða annað. Þessari notkun á ‘hversvegna’ svipar að sumu leyti til hins guðfræðilega ‘hversvegna’ og er ekki fjarri lagi að kalla það hið hálf- guðfræðilega ‘hversvegna’. Einstaklingur sem er og telur sig vera heiðvirða manneskju en býr við miklar þjáningar gæti hæglega hrópað „Hversvegna þarf ég að þjást svona mikið þegar svo margir skúrkar í heiminum, sem hafa aldrei unnið nærri því eins hörðum höndum og ég, skemmta sér svona vel?“ Slík spurning getur vel komið frá trúleysingja sem er sennilega að láta í ljós harm sinn yfir því að gangur heimsins er ekki í samræmi við siðferðilegar kröfur manna. Jafnvel þegar trúmenn spyrja spurninga af þessu tæi má efast um að þeir séu í öllum tilfellum að biðja um vitneskju um hvernig hugur Guðs starfar í smáatriðum. Í hinu ákaflega hjartnæma eintali í fyrsta þætti Rósariddarans (Der Rosenkavalier18) veltir marskálksfrúin fyrir sér óumflýjanleika öldrunar og dauða:

Vel man ég stúlku
sem blómleg úr klaustrinu kom
og var þvingað í heilagt hjónaband.
Hvar er hún nú?
. . . . . . . . . . . . . . .
Hvernig má það virkilega vera
að ég, eitt sinn hún Resi litla,
verði að lokum gamla
konan?

Hvernig, hrópar hún, getur nokkuð svona lagað gerst? Því fer fjarri að hún efist um tilvist Guðs og heldur áfram að spyrja:

Hversvegna gerir Herrann kæri það?

Og það sem verra er, ef hann verður að gera það svona:

Hversvegna lætur Hann mig sjá það
svona skýrt? Hversvegna
felur Hann það ekki fyrir mér?

Marskálksfrúin býst auðsýnilega ekki við svari við þessari spurningu. Ekki, eða ekki einungis, vegna þess að frumspekingar og guðfræðingar heimsins séu ekki alveg færir um að gefa það. Hún er ekki, strangt til tekið, að spyrja spurningar, heldur að láta í ljós harm sinn og þá tilfinningu að hún sé algerlega umkomulaus.

En hverfum nú frá hinu hálf-guðfræðilega til hins guðfræðilega ‘hversvegna’. Vandkvæðin sem fólgin eru í svari Gilsons eru alræmd og þarf ekki að orðlengja um þau hér. Um er að ræða vandkvæðin sem nútímahöfundar leggja mikla áherslu á og eru í því fólgin að segja eitthvað skiljanlegt um líkamslausan hug, takmarkaðan eða takmarkalausan, og það sem erfiðara er, segja eitthvað af viti um sköpun heimsins. Um er líka að ræða vandkvæði nokkuð annars eðlis sem tengjast ekki skiljanleika guðfræðilegra staðhæfinga heldur rökleiðslunni sem notuð er til að renna stoðum undir þær. Schopenhauer líkti öllum slíkum tilraunum til að komast á endanlegan hvíldarstað í orsakaröðinni við að fara með orsakalögmálið eins og ‘leiguvagn’ sem maður lætur fara þegar hann er kominn á ákvörðunarstað. 19Bertrand Russell mótmælir þessu með þeim rökum að slíkir höfundar vinni með óljóst og ótækt skýringarhugtak: til að skýra eitthvað þurfum við alls ekki að koma með ‘sjálfri sér nóga’ veru, hvað svo sem það kann að vera. 20 Nagel, sem andmælir Gilson sérstaklega, heldur því fram að það sé fyllilega réttmætt að grennslast fyrir um rökin fyrir tilvist hinnar meintu ótakmörkuðu veru, hinnar hreinu sköpunarathafnar. Þeir sem vísa á bug slíkri spurningu sem óréttmætri, skrifar hann, eru „á kreddukenndan hátt að binda snöggan endi á rökræðuna þegar stefnur og straumar í hugsun eru þeim andsnúin“.21 Án þess að vilja gera lítið úr þessum vandkvæðum er mikilvægt að halda því til streitu að í einhverjum skilningi hafa hinar guðfræðilegu hversvegna-spurningar merkingu. Fyrir slíkan einstakling er hægt að svara spurningunni ef hægt er að sýna fram á að Guð sé til. Ef ekki, þá er ekki hægt að svara henni. Albee og Gilson, til dæmis, eru ekki sammála um sanngildi, eða alltént röklega stöðu, fullyrðingarinnar um tilvist Guðs, en þeir eru sammála um að hún skipti máli fyrir spurningu þeirra um hinstu rök tilverunnar. Í ákveðnum skilningi veit því spyrjandinn hér að hverju hann er að leita.

Hið allrahinsta ‘hversvegna’

Greina verður hið guðfræðilega ‘hversvegna’ frá því sem ég nefni hér hið allrahinsta ‘hversvegna’. Maður sem notar ‘hversvegna’ í síðarnefndum skilningi mundi telja hið guðfræðilega svar allsendis ófullnægjandi, ekki (eða ekki bara) vegna þess að það sé merkingarlaust eða rangt heldur vegna þess að það svarar ekki spurningu hans. Það gengur ekki nógu langt. Því ef viðurkennt er að til sé einhver Guð og að menn hafi verið skapaðir af Guði til að þjóna ákveðnum markmiðum hans þá mundi spyrjandi okkar nú spyrja „Hversvegna er til svona Guð með þessi markmið og ekki öðruvísi Guð með önnur markmið?“ eða hann mundi spyrja róttækari spurningar „Hversvegna var til Guð á einhverjum tíma frekar en ekkert?“ Staðhæfingin í Biblíunni „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð“, segir Heidegger afdráttarlaust, „er ekki svar við … spurningu okkar og það er ekki einusinni hægt að tengja það henni.“ Trúmaðurinn sem nemur staðar hjá Guði fer ekki með spurningar sínar „út í ystu æsar“.22 (Ekki er víst hvernig maður sem heldur til streitu allrahinstu hversvegna-spurningunni mundi bregðast við svari þeirra guðfræðinga sem halda því fram að Guð hljóti að vera til og þessvegna eigi spurningin „Hversvegna var á einhverjum tíma til Guð frekar en ekkert?“ ekki rétt á sér. Að öllum líkindum mundi hann styðja þá skoðun, sem meirihluti heimspekinga frá dögum Humes og Kants aðhyllist, nefnilega að það sé merkingarlaust að segja að nokkuð, náttúrlegt eða yfirnáttúrlegt, hljóti að vera til.)

Þær stundir koma að flestir mundu telja þessar allrahinstu hversvegna-spurningar öldungis fáránlegar. Stafford-Clark sjálfur talar með óþolinmæði um ‘heilabrot’ og hinar þreytandi og endalausu vangaveltur þráhyggjusjúklinga. „’Hversvegna er veröldin til?’ var spurning sem einn sjúklingur gat ekki fundið neitt svar við en fékk engan frið fyrir“.23 Þó eru flest okkar, á öðrum stundum, reiðubúin að líta á þessar hversvegna-spurningar sem ákaflega djúphugsaðar, sem gátur sem undursamlegt væri að eiga svarið við en sem hljóta um aldur og ævi að verða óleystar, vegna þess hve vit okkar er takmarkað. Að vísu hafa vissir heimspekingar, eins og Schelling og Heidegger, sem oft hafa verið úthrópaðir sem andstæðingar upplýsingar, lagt sérstaka áherslu á allrahinstu hversvegna-spurningar. En það væri alger misskilningur á ástandinu að halda að reynslusinnaðri heimspekingar, eða raunar venjulegt fólk, hneigist ekki til að spyrja þeirra eða taka þær mjög alvarlega. Það getur naumast hjá því farið að nokkur sæmilega greindur og íhugull maður sem byrjar að velta fyrir sér uppruna mannkynsins, dýralífsins, sólkerfisins, vetrarbrautanna og alheimsins, eða velta fyrir sér ranglætinu í heiminum, fallvaltleika lífsins og að því er virðist algerum endalokum í dauðanum, spyrji fyrr eða síðar „Hversvegna þessi heimur en ekki annar – hversvegna nokkur heimur?“ Vísindamaðurinn Julian Huxley er að skaplyndi og heimspeki eins fjarri Heidegger og nokkur gæti verið. Samt talar hann líka um „grundvallar- og allsherjar-leyndardóminn, leyndardóm tilverunnar yfirleitt … hversvegna er heimurinn til?“ Fyrir Huxley eru það raunvísindin sem „láta okkur standa frammi fyrir“ þessum leyndardómi, en þau geta ekki tekið hann burt. Það eina sem við getum sagt er að „við vitum ekki“. Við verðum að sætta okkur við tilvist heimsins „og okkar eigin tilvist sem hinsta leyndardóminn“.24Ludwig Buchner var efnishyggjumaður og guðleysingi. Samt talaði hann hvað eftir annað um „óskýranleg hinstu rök hlutanna“. Og ekki eru allrahinstu hversvegna-spurningar takmarkaðar við guðleysingja eða þá sem aðhyllast ekkert frumspekikerfi. Schopenhauer var yfirmáta öruggur um að frumspeki sín væri sú rétta en engu að síður segir hann í lokakafla aðalverks síns að „heimspeki sín ætli sér ekki þá dul að skýra hinstu rök tilverunnar … Eftir allar skýringar mínar“, bætir hann við, „má enn spyrja, til dæmis, hvaðan er kominn þessi vilji sem heimurinn birtist í … Fullkominn skilningur á tilvist, eðli og uppruna heimsins, sem nær til hinstu raka hans og fullnægir öllum kröfum, er útilokaður. Þetta á við um takmörk heimspeki minnar og raunar allrar heimspeki“.25 Voltaire sem var ákveðinn og einlægur trúmaður og var óþreytandi að úthrópa guðleysingja sem blindingja og bjána spurði engu að síður í lok greinarinnar ‘Hversvegna?’ í bók sinniHeimspekileg orðabók: „Hversvegna er nokkuð til?“ án þess svo mikið sem gefa í skyn að skírskotun til sköpunarverks Guðs væri nokkurt svar. 26 William James hélt því heldur aldrei fram, þótt hann héldi hvað eftir annað uppi vörnum fyrir yfirnáttúruhyggju eða handanhyggju, að hún veitti svar við spurningunni „Hvernig stendur á því að heimurinn er hérna yfirleitt í staðinn fyrir þá neind sem hægt væri að ímynda sér í hans stað?“ Heimspekin, að dómi James, hvort sem hún aðhyllist náttúruhyggju eða yfirnáttúruhyggju, „kemur ekki með neina rökstudda lausn“ á þessari spurningu, „því að frá neindinni til verunnar liggur engin rökleg brú“.27„Spurningin um veruna“, segir hann seinna í sömu umfjöllun, „er sú torskildasta í allri heimspekinni. Hér erum við öll beiningamenn og enginn skóli getur talað með fyrirlitningu um annan eða hreykt sér yfir aðra.“28

Eftir að hafa bent á hversu almenn sú tilhneiging er að spyrja hinnar allrahinstu hversvegna-spurningar er nauðsynlegt að útskýra hversvegna, að dómi margra samtíma heimspekinga, verður að fordæma hana sem merkingarlausa. Það er einkenni merkingarbærrar spurningar að ekki er unnt að útiloka öll svör fyrirfram; en vegna þess hvernig allrahinsta hversvegna-spurningin hefur verið sett fram errökfræðilega útilokað að fá svar við henni. Það er alveg ljóst að spyrjandinn getur að bragði hafnað öllum svörum sem stungið er upp á með þeim rökum að „þau gangi ekki nógu langt“ – að þau séu ekki svör við spurningu hans. „Allar skýringar“, með orðum Peters Koestenbaums, bandarísks lærisveins og túlkanda Heideggers, „eiga sér stað innan þess sem á að skýra . … svo að spurningin á líka við öll möguleg svör“29, það er að segja, ekkert svar býðst. En sé yfirleitt hægt að spyrja spurningar, svo að vitnað sé í Wittgenstein:

þá er líka hægt að svara henni … um efa getur einungis verið að ræða þar sem einhver spurning er til staðar og spurning er einungis þar sem er eitthvert svar, og um svar er einungis að ræða þar sem hægt er að segja eitthvað.“ 30

„Spurning“, skrifaði Friedrich Waismann,

er beiðni um leit. Spurningin kemur hreyfingu á hugsunina og svarið er þar sem henni lýkur ef svo má segja … Sé ekkert svar þá vantar stefnuna sem gæfi leitinni mark og mið; ef svo er þá er engin hreyfing á hugsuninni og þetta þýðir: það er engin spurning.31

Á það ber að leggja áherslu að hið allrahinsta ‘hversvegna’ lætur ekki í ljós vanþekkingu á ‘elstu’ sögu alheimsins. Buchner, til dæmis, var ekki í neinum vafa um að efnið væri eilíft og að ekkert sem hægt væri að kalla ‘sköpun’ hefði nokkurn tíma átt sér stað. Svipað er að segja um Voltaire, hann var ekki í neinum vafa um að heimurinn hefði verið skapaður af Guði og að Guð hefði alltaf verið til – samt spurðu þeir báðir hinnar allrahinstu hversvegna – spurningar og töldu að ekki væri unnt að svara henni. Vafalaust mundu sumir sem spurt hafa allrahinstu hversvegna-spurninga lýsa sig, ólíkt þeim Buchner og Voltaire, ófróða um upphaf heimsins, en það er ekki sú vanþekking sem þeir eru að láta í ljós með hinu allrahinsta ‘hversvegna’.

Þeir sem halda því fram að hin allrahinsta hversvegna-spurning sé merkingarbær neita því venjulega ekki að hún sé gerólík öllum öðrum hversvegna-spurningum. Til að auðkenna muninn nota þeir stundum um hana orð eins og ‘leyndardómur’ eða ‘kraftaverk’. Þannig segir Koestenbaum að „spurningar af þessu tæi leiði ekki til svara heldur til hugarástands sem kann að meta kraftaverk tilverunnar“, þær vekja athygli á „þeim leyndardómi sem er mestur allra“.32 Heidegger skrifar að spurningin „sé ósambærileg við allar aðrar spurningar“33 og segir seinna að „ekki aðeins það sem spurt er um heldur og spurningin sjálf séu afbrigðileg“.34

Að kalla hina allrahinstu hversvegna-spurningu ‘leyndardóm’ eða ‘kraftaverk’ eða ‘ósambærilega’ eða ‘afbrigðilega’ upprætir engan veginn vandann; það er bara ein leið til að viðurkenna að um vanda sé að ræða. Ef fallist er á að í öllum öðrum aðstæðum sé aðeins vit í spurningu ef svar við henni er rökfræðilega mögulegt, þá undrast maður hversvegna eigi ekki að beita þessari reglu eða þessu viðmiði í því dæmi sem hér um ræðir. Ef verjandi þess að hin allra-hinsta hversvegna-spurning hafi merkingu viðurkennir að í ‘venjulegum’ skilningi sé spurningin merkingarlaus en að í einhverjum öðrum og ef til vill dýpri skilningi hafi hún merkingu, þá vildi maður gjarnan fá að vita hver þessi dýpri skilningur er.

Hversvegna er heimurinn til?

En snúum okkur að aðalviðfangsefninu. Það er líka hægt að komast að þeirri niðurstöðu að hin allrahinsta hversvegna-spurning sé merkingarlaus með því að hyggja að því hvað hefur hér komið fyrir orðið ‘hversvegna’. Dálítil umhugsun sýnir að í allrahinstu spurningunni hefur ‘hversvegna’ glatað öllum venjulegum merkingum sínum án þess að hafa fengið neina nýja. Við skulum sjá hvernig þetta kemur út þegar spurningin er borin upp í þessu formi: „Hversvegna er heimurinn til?“ og með ‘heiminum’ er átt við allt sem er í raun og veru til. Í öllum venjulegum merkingum orðsins ‘hversvegna’ er það svo að þegar við spyrjum um eitthvert X hversvegna það gerist eða hversvegna það er það sem það er – hvort sem X er ósigur hers, lungnakrabbatilfelli, stuldur á skartgrip eða vélarbilun í bíl – gerum við ráð fyrir að það sé einhver hlutur eða einhver skilyrði, annar en X, sem unnt sé að skýra það með. Við vitum ekki hvað þessi annar hlutur er sem tengist X á viðeigandi hátt, en ef ekki er hugsanlega hægt að fara út fyrir X og finna slíkan annan hlut þá er ekkert vit í spurningunni. (Þessu verður að hnika lítið eitt til svo að það sé nákvæmt. Ef við spyrjum ‘hversvegna’ um ástand X á tilteknum tíma þá getur svarið vissulega vísað til einhvers fyrra ástands X. Þetta hefur ekki áhrif á umfjöllunarefni okkar hér þar sem, í þeirri merkingu sem við erum að fjalla um, það að vísa til fyrra ástands X er að fara út fyrir X.) Nú, ef við með ‘heiminum’ eigum við allt sem er til þá felur Xið í spurningunni „Hversvegna er heimurinn til?“ svo mikið í sér að það er rökfræðilega ómögulegt að finna neitt sem gæti tengst því sem við virðumst vera að leita skýringa á með viðeigandi hætti. „Merking heimsins“, skrifaði Wittgenstein, „hlýtur að liggja utan við heiminn“,35 en samkvæmt skilgreiningu getur ekkert verið utan við heiminn. Heidegger, sem forðast orðalagið „Hversvegna er heimurinn til?“ og grennslast í staðinn fyrir um orsök das seiende – þess sem er eða hlutanna – gerir það engu að síður ljóst að das seiende „nær yfir allt, og þetta merkir ekki aðeins allt sem er til í víðtækustu merkingu heldur einnig allt sem nokkurn tíma hefur verið til eða verður til“. „Spurning okkar“, skrifar hann litlu seinna, sennilega án þess að gera sér grein fyrir hvað felst í þessari viðurkenningu, „nær svo langt að við getum aldrei farið lengra“.36

Fyrir hvern þann sem gerir sér ekki fyllilega ljóst það sem við getum kallað hina rökfræðilegu málfræði spurnarorðsins ‘hversvegna’ er mjög auðvelt að skipta frá merkingarbærum hversvegna-spurningum um tiltekna hluti til merkingarlausra hversvegna-spurninga um heiminn. Sú mynd sem margir hafa af ‘heiminum’ sem feiknastórum kassa sem hefur að geyma alla hlutina ‘inni í sér’ ýtir undir þessa tilhneigingu. Grein Voltaires ‘Hversvegna?’ sem við vitnuðum í hér að framan er gott dæmi um slík óheimil umskipti. Voltaire spyr fyrst nokkurra hversvegna- spurninga um ákveðin fyrirbæri, svo sem:

Hversvegna gerir maður varla nokkurn tíma tíunda hluta þess góða sem hann gæti gert? Hversvegna biðja allar stúlkur í hálfri Evrópu til Guðs á latínu sem þær skilja ekki? Hversvegna var aldrei í fornöld guðfræðileg þræta og hversvegna var þá aldrei neitt fólk aðgreint með heitinu sértrúarhópur?

Síðan verður hann æ heimspekilegri:

Hversvegna höfum við, þar sem við erum svona vansæl, ímyndað okkur að það að vera ekki til sé mikið böl þegar ljóst er að það var ekki böl að vera ekki til áður en við fæddumst?

Litlu seinna fáum við það sem vel getur verið guðfræðilegt ‘hversvegna’:

Hversvegna erum við til?

Að lokum spyr Voltaire, eins og engin breyting hefði orðið á merkingu orðsins ‘hversvegna’:

Hversvegna er nokkuð til?37

Rétt er taka það sérstaklega fram að rökin sem við höfum nú sett fram byggjast ekki á neinn hátt á raunhyggju-mælikvarða á merkingu eða á neinum forsendum sem styðja náttúruhyggju og gefa sér það sem sanna skal. Hver sá sem notar orðið ‘heimur’ í takmarkaðri merkingu svo að ekki er fyrirfram ómögulegt að komast að einhverri veru sem kynni að vera skýring á heiminum kann að vera að spyrja merkingarbærrar spurningar þegar hann spyr „Hversvegna er heimurinn til?“ Ennfremur útilokar það sem hér hefur verið sagt, jafnvel þótt ‘heimur’ sé notað í altæku merkingunni, ekki þann möguleika að Guð eða ýmsar guðlegar verur séu hluti af heiminum í þeirri merkingu. Kjarni málsins hefur einfaldlega verið sá að orðið ‘hversvegna’ glatar merkingu sinni þegar það verður rökfræðilega ómögulegt að fara út fyrir það sem reynt er að skýra. Þetta er mál sem ekki þarf að vera neinn ágreiningur um milli guðleysingja og trúmanna eða milli rökhyggjumanna og raunhyggjumanna.

Nú mun ráð að draga saman meginniðurstöður þessarar greinar:

(1) Til er merking þar sem ‘hvernig’ og ‘hversvegna’ merkja nokkurn veginn hið sama. Í þeirri merkingu eru raunvísindin fyllilega fær um að fást við ‘hversvegna’-spurningar.

(2) Til eru vissar merkingar þar sem ‘hvernig’ og ‘hversvegna’ eru notuð til að spyrja ólíkra spurninga, en hér er líka almennt séð unnt að svara báðum tegundum spurninga með aðferðum sem byggjast á reynslu.

(3) Ein ‘hversvegna’-spurningin um hinstu rök tilverunnar – það sem hér hefur verið kallað hið guðfræðilega ‘hversvegna – er notuð til að spyrja merkingarbærra spurninga, alltént ef tiltekin merkingarfræðileg vandamál um guðfræðilegt tal eru virt að vettugi. Bent var þó á að þetta þýðir ekki að guðfræðileg svör séu sönn eða vel rökstudd.

(4) Sumar spurningar sem eiga að heita svo og byrja á ‘hversvegna’ eru í rauninni umkvartanir en ekki spurningar og af þeirri ástæðu ekki unnt að svara þeim.

(5) Hin allrahinsta hversvegna-spurning, sem svo margir hafa talið ákaflega djúphugsaða, er merkingarlaus.

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. The Individual and the Universe (Einstaklingurinn og alheimurinn), New York, 1961, bls. 125.

2. An Introduction to Metaphysics (Inngangur að frumspeki), Garden City, 1961, bls. 20.

3. Psychiatry Today (Geðsjúkdómafræði nú á dögum), Harmondsworth, 1952, bls. 282.

4. Ibid., bls. 287.

5. Opera, London, 1779-1785, iv. bindi, bls. 429 o.á.

6. Modes of Thought (Hugsunarhættir), New York og Cambridge, 1938, bls. 183-184.

7. God and Philosophy (Guð og heimspekin), New Haven, 1959, bls. 140, skáletur Gilsons.

8. Ibid., bls. 72.

9. An Inquiry Concerning Human Understanding (Rannsókn á skilningsgáfunni, ísl. þýð. eftir Atla Harðarson, Hið ísl. bókmenntafélag, 1988), 4.Kafli, 1.Hluti.

10. The Grammar of Science (Málfræði raunvísindanna), London, 1937, bls. 97, skáletur Pearsons. (The Grammar of Science kom fyrst út 1892).

11. Ibid., bls. 103.

12. Ibid., bls. 105.

13. Man against Darkness (Maðurinn gegn myrkrinu), Pittsburgh, 1967, bls. 213, skáletur Staces.

14. Science, Religion and Reality (Vísindi, trú og veruleiki), New York, 1925, bls. 245.

15. This View of Life (Þessi lífsskoðun), New York, 1963, bls. 233.

16. God and Philosophy (Guð og heimspekin), op. cit., bls. 140.

17. New York Times, 21. jan. 1965.

18. Ópera eftir Richard Strauss með texta eftir Hugo von Hofmannsthal.

19. The Fourfold Root of the Principle of Sufficient Reason (Hin ferfalda rót lögmáls hinnar fullnægjandi ástæðu), London, 1891, bls. 42-43.

20. Sjá kappræðu hans við F. Copleston um tilvist Guðs í Um tilvist Guðs (Fimm ritgerðir um trúarheimspeki. Arnór Hannibalsson ritstýrði), Reykjavík 1982, bls. 80 o.á. (Haraldur S. Blöndal þýddi).- Þýð.

21. Sovereign Reason (Skynsemin í öndvegi), Glencoe, Ill., 1954, bls. 30.

22. An Introduction to Metaphysics (Inngangur að frumspeki), bls 6-7.

23. Psychiatry Today (Geðsjúkdómafræði nú á dögum), bls. 112.

24. Essays of a Humanist (Huganir húmanista), London, 1964, bls. 107-108.

25. The World as Will and Idea (Heimurinn sem vilji og hugmynd), 3 bindi, þýtt (á ensku) af R.B. Haldane og J. Kemp, London, 1883, kafli 50.

26. Ensk þýðing í sex bindum á Heimspekilegri orðabók var gefin út í London árið 1824 af J. og H. L. Hunt. Kaflann sem tilfærður er í textanum er að finna í 6. bindi, bls. 358.

27. Some Problems of Philosophy (Nokkrar ráðgátur heimspekinnar), New York, 1911, bls. 38-40.

28. Ibid., bls. 46.

29. “The Sense of Subjectivity“ (Merkingin í huglægni), Review of Existential Psychology and Psychiatry, 1962, bls. 54.

30. Tractatus Logico-Philosophicus, 6.5 og 6.51, skáletur Wittgensteins.

31. Wittgenstein und der Wiener Kreis (Wittgenstein og Vínarhringurinn), Oxford 1967, viðauki B, bls. 245. (Sjá einnig síðu 227), skáletur Waismanns.

32. Op. cit., bls. 54-55.

33. Op. cit., bls. 4.

34. Ibid., bls.10.

35. Tractatus Logico-Philosophicus, 6.41.

36. Heidegger, op. cit., bls 2.

37. Op. cit., 6. bindi, bls. 357-358.

« Til baka

Inngangur að heimspeki

Bryan Magee og Isaiah Berlin ræða saman

Inngangur

Magee Í upphafssamræðunni í þessari þáttaröð er ætlunin að glíma við nokkrar grundvallar­spurningar. Hvers vegna skyldi maður hafa áhuga á heimspeki yfirleitt? Hvers vegna skiptir hún máli? Hvað er hún, nákvæmlega?

Heimspekingurinn sem ég hef boðið til að ræða þessar spurningar hefur getið sér alþjóðlegan orðstír. Hann er Sir Isaiah Berlin, félagi í Allra sálna garði í Oxford, ævisöguritari Karls Marx og sérstaklega nafntogaður fyrir þekkingu á hugmyndasögunni.1

UMRÆÐA

Magee Hvaða ástæðu getur þú gefið manni til að fá áhuga á heimspeki ef hann hefur ekki þegar fengið hann af sjálfsdáðum eða með atbeina skólakerfisins?

Berlin Ja, í fyrsta lagi eru heimspekilegar spurningar áhugaverðar í sjálfum sér. Þær fjalla oft um ósagðar forsendur sem margar venjulegar skoðanir byggjast á. Fólk vill ekki að forsendur þess séu rannsakaðar um of – því fer að líða illa þegar það er látið kanna á hverju skoðanir þess byggjast í raun og veru – en í reynd eru forsendur margra venjulegra skoðana sem teljast til almennrar skynsemi efni í heimspekilega greiningu. Þegar þær eru kannaðar á gagnrýninn hátt reynast þær stundum langtum ótraustari og merking þeirra og það sem í þeim felst miklu óljósara en virtist við fyrstu sýn. Með því að rannsaka þær auka heimspekingar sjálfsþekkingu manna.

Magee Okkur finnst öllum óþægilegt að láta kanna forsendur okkar út fyrir viss mörk og handan þeirra marka streitumst við öll á móti því. Hvers vegna erum við svona?

Berlin Ég býst við að það sé sumpart af því að fólki finnst ekki gott að láta rekja sig sundur um of – að láta afhjúpa rætur sínar og skoða þær nákvæmlega – og sumpart vegna þess að athafnaþörfin sjálf útilokar svona lagað. Sé maður virkur þátttakandi í einhverju samfélagi er það hamlandi og kannski að lokum lamandi ef stöðugt er verið að spyrja: „Hvers vegna gerirðu þetta? Ertu viss um að markmiðin sem þú stefnir að séu sönn markmið? Ertu viss um að það sem þú ert að gera brjóti ekki á einhvern hátt í bága við siðareglur eða lífsreglur eða hugsjónir sem þú mundir segja að þú tryðir á? Ertu viss um að sum af gildum þínum rekist ekki hvert á annars horn og að þú viðurkennir það ekki fyrir sjálfum þér? Þegar þú ert flæktur í einhvers konar vandræði ertu þá ekki stundum svo hræddur við að horfast í augu við þau að þú lítur undan og reynir að koma ábyrgðinni af þér yfir á eitthvert breiðara bak – ríki, kirkju eða stétt eða einhvern annan félagsskap sem þú tilheyrir – kannski yfir á hinar almennu siðareglur venjulegs, heiðvirðs fólks – en ættirðu ekki sjálfur að hugsa vandræðin til enda?“ Of mikið af þessu dregur kjark úr fólki eða pirrar það, grefur undan sjálfstrausti þess og skapar auðvitað mótspyrnu.

Platon lætur Sókrates segja að órannsakað líf sé ekki þess virði að lifa því. En væru allir þjóðfélagsþegnar efagjarnir menntamenn sem sífellt væru að rannsaka forsendur skoðana sinna yrði yfirleitt ekkert úr framkvæmdum. Séu forsendur samt ekki kannaðar, og látnar eiga sig, geta samfélög steinrunnið: skoðanir verða að kreddum, ímyndunaraflið brenglast, hugsunin verður ófrjó. Samfélögum getur hnignað sem afleiðing þess að leggjast til svefns í þægilegu rúmi einhverrar kreddu sem ekki hefur verið dregin í efa. Eigi að hreyfa við ímyndunaraflinu, eigi vitsmunirnir að starfa, eigi andlegt líf ekki að fjara út og eftirsókn eftir sannleik (eða réttlæti eða lífsfyllingu) ekki að stöðvast, verður að draga ósagðar forsendur í efa og véfengja það sem tekið er sem gefið fyrirfram – alltént nægilega mikið til að halda samfélaginu á hreyfingu. Menn og hugmyndir þokast að nokkru leyti áfram með föðurmorði þar sem börnin drepa, ef ekki feður sína, þá að minnsta kosti skoðanir feðra sinna og mynda sér nýjar skoðanir. Á þessu byggist þróun, framför. Og í þessu ferli hafa þeir algeru lykilhlutverki að gegna sem spyrja þessara truflandi spurninga og eru gífurlega forvitnir um svörin. Yfirleitt eru ekki margir slíkir einstaklingar í nokkru samfélagi. Þegar þeir stunda þessa iðju skipulega og markvisst og beita röklegum aðferðum sem eru sjálfar opnar fyrir gagnrýninni rannsókn eru þeir kallaðir heimspekingar.

Magee Geturðu gefið einhver dæmi um forsendur sem þörf er á að véfengja?

Berlin Samræður Platons eru elsta og frjóasta heimildin um umræðu um grundvallargildi, viðleitni til að draga í efa hefðbundna visku. Allir góðir heimspekingar hafa gert þetta. Og maður finnur dæmi um þetta í skáldsögum eða leikritum eftir höfunda sem fjalla um slík efni – hugsaðu til aðalpersónanna í leikritum Ibsens, Við upphafið (On the Eve) eftir Turgenjev eða Lengstu ferðinni(The Longest Journey) eftir E. M. Forster. En ef til vill er þekktustu dæmin að finna í stjórnmálaheimspeki eða siðfræði nútímans. Tökum til að mynda tal um frelsi eða tal um jafnrétti (sem heimurinn er um þessar mundir fullur af). Tökum formálsorðin að Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Ég man þau ekki orðrétt …

Magee „Við teljum þessi sannindi vera augljós að allir menn séu skapaðir jafnir, að þeir séu frá skaparans hendi gæddir tilteknum óafsalanlegum réttindum, að meðal þessara réttinda séu líf, frelsi og hamingjuleit . . .“

Berlin Þakka þér fyrir. Réttindi, gott og vel. Hvað eru réttindi? Spyrjirðu venjulegan borgara hvað réttindi séu nákvæmlega vefst honum tunga um tönn, hann getur ekki gefið skýrt svar. Hann kann að vita hvað það er að traðka á réttindum einhvers eða að réttur hans sjálfs til einhvers sé virtur að vettugi, en hvað er það nákvæmlega sem verið er að traðka á eða virða ranglega að vettugi? Er það eitthvað sem maður ávinnur sér eða hlotnast við fæðingu? Er það eitthvað sem er stimplað á mann? Er það eitthvert eðliseinkenni mannveru? Er það eitthvað sem einhver hefur gefið manni? Ef svo er, hver? Og hvernig? Er hægt að veita réttindi? Verða þau afnumin? Af hverjum? Með hvaða rétti? Eru til réttindi til að veita eða ógilda önnur réttindi? Hvað merkir það? Getur maður misst réttindi? Eru til réttindi sem eru snar þáttur af eðli manns á sama hátt og hugsun er, eða það að geta andað eða valið milli þessa eða hins? Er það þetta sem átt er við með náttúrlegum réttindum? Sé svo, hvað er átt við með ‘náttúru’ í þessu sambandi? Og hvernig veit maður hver slík réttindi eru?

Menn hafa verið mjög ósammála um hvað réttindi séu. Tökum til dæmis sautjándu öldina þegar mikið var talað um réttindi. Þess ber að minnast að það var borgarastríð í Englandi þar sem eitt aðaldeilumálið snerist um það hvort guðlegur réttur konunga væri til. Við erum mjög vantrúuð á þetta nú á dögum en auðsætt er að til voru menn sem trúðu á þennan rétt. Þeir trúðu því að konungar væru sérstakar verur sem Guð hefði gætt sérstökum réttindum. Það voru til aðrir menn sem trúðu því að engin slík réttindi væru til, að þau væru einber uppspuni guðfræðinga eða skálda. Hvernig rökræddu þeir? Hvers konar röksemdir kom hvor deiluaðilinn um sig með? Hvers konar röksemdir sannfærðu fólk? Undir lok sautjándu aldar var franskur rithöfundur sem velti þessu fyrir sér: Ef Frakklandskonungur hefði hug á að framselja einhverja þegna sína til Englandskonungs hvað mundu þessir þegnar hugsa um framsalið. Og svar hans var í raun að þeir hefðu engan rétt til að hugsa; þeir ættu bara að hlýða; þeir væru þegnar; konungurinn hefði fullkominn rétt til að gera við þegna sína það sem honum þóknaðist. Sjálf hugmyndin að hægt væri að leyfa þeim að hugsa um, eða jafnvel draga í efa, ákvarðanir hans jaðraði við guðlast. Jæja, við vísum þessu á bug, en þetta var samt nokkuð sem var viðurkennt af fjölda fólks sem trúði á stigveldi – að hinn andlegi heimur, jafnt sem efnisheimurinn, væri lagskipt bygging. Hver mannvera ætti sína réttu stöðu í þessari stigveldisheild og ætti að gegna þeim hlutverkum sem staða hennar í hinum mikla samfélagspýramída krafðist. Þetta er nokkuð sem fólk trúði á öldum saman. Síðan komu hugsuðir sem neituðu þessu og sögðu að ekkert slíkt stigveldi væri til, að menn væru jafnir, þeir líktust hver öðrum við fæðingu og væru allir gæddir tilteknum náttúrlegum þörfum, hæfileikum og löngunum, og allir hefðu tiltekin óhagganleg náttúrleg réttindi. Hvað snerti þessi réttindi væru þeir jafnir. Kjarni málsins hjá mér er að þær tegundir röksemda sem hægt er að færa fram fyrir báða málsaðila í deilu af þessu tæi eru tilhlýðilegt heimspekilegt viðfangsefni. Hvaða önnur fræðigrein en heimspekin gæti fjallað um þær? Og þetta eru grundvallarmál sem hafa valdið mönnum miklum áhyggjum lengi, mál sem blóðugar styrjaldir hafa verið háðar út af og byltingar hafa verið gerðar í nafni þeirra.

Magee Ég er viss um að margir mundu segja: „Nú já, það sem þú segir er satt en samt sem áður er það allt í rauninni bara orðaskak. Það er allt saman sértekningar. Maður þarf ekki að íþyngja höfðinu með öllu þessu til þess að lifa lífinu – það kemur raunverulegu lífi, daglegu lífi, ekkert við – og því meir sem maður flækist í svona nokkuð því óhamingjusamari verður hann.“

Berlin Já, það kann að gera mann óhamingjusamari en samt sem áður er til fólk sem vill í raun og veru pæla í þessum hlutum. Það langar til að vita hvers vegna það lifir eins og það lifir og hvers vegna það ætti að gera það. Þetta er öldungis náttúrleg mannleg löngun sem sumar hugmyndaríkustu, greindustu og gáfuðustu manneskjurnar skynja dýpst. Vissulega er það orða­skak – en þá er þess auðvitað að gæta að orð eru ekki bara orð, spilapeningar í einhverjum textafræðilegum leik. Orð tjá hugmyndir. Málið vísar til reynslu og tjáir hana og umbreytir henni.

Magee Þú hefur gefið mér dæmi um heimspekilegar spurningar um stjórnmál með því sem þú sagðir um réttindi. Geturðu nú gefið einfalt dæmi um heimspekilega spurningu sem er siðferðileg til aðgreiningar frá spurningu um stjórnmál?

Berlin Jæja, ég skal segja þér sögu sem maður nokkur sagði mér um reynslu sína í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var breskur leyniþjónustufulltrúi í Frakklandi sem undir styrjaldarlok þurfti að yfirheyra franskan svikara sem franska andspyrnuhreyfingin hafði handsamað. Svikarinn hafði unnið fyrir Gestapó og andspyrnuhópurinn var í þann veginn að taka hann af lífi. Breski leyniþjónustufulltrúinn bað um leyfi til að yfirheyra hann fyrst af því að hann hafði ástæðu til að halda að maðurinn kynni að búa yfir upplýsingum sem gætu hjálpað til við að bjarga saklausu fólki frá dauða eða pyndingu. Nú, hann fór að hitta þennan Gestapónjósnara, kornungan mann, sem sagði við hann: „Hvers vegna ætti ég að svara spurningum þínum? Ef þú getur lofað mér að ég haldi lífi, skal ég svara. En ég veit að þessir menn ætla að drepa mig á morgun og ef þú getur ekki lofað mér að ég haldi lífi hví í ósköpunum ætti ég þá yfirleitt að tala?“ Hvað hefði breski fulltrúinn átt að gera í þessum kringumstæðum? Skylda hans sem fulltrúi leyniþjónustunnar var að toga út eins miklar upplýsingar og hann gat – líf margra einstaklinga kunni að vera undir því komið – en hann gat þó aðeins gert þetta með því að ljúga. Það hefði ekkert gagnað að segja: „Ég skal gera það sem ég get til að fá þá til að þyrma lífi þínu“, eða eitthvað í þeim dúr. Hann vissi að hann gat ekkert gert til að forða manninum frá aftöku og maðurinn hefði séð í gegnum alla viðleitni til að komast hjá að gefa afdráttarlaust loforð. Hefði fulltrúinn sagt hiklaust: „Ef þú talar við mig skal ég bjarga lífi þínu“, þá hefði ungi maðurinn bölvað honum í sand og ösku þegar hann uppgötvaði að hann hafði verið blekktur.

Þetta virðist mér vera dæmi um siðferðilegt vandamál, þess háttar mál sem siðferði snýst um. Nytjahyggjumaður kynni að segja: „Auðvitað verðurðu að segja ósatt ef líkur eru til að það auki mannlega hamingju eða dragi úr mannlegri óhamingju.“ Sömu niðurstöðu kæmust þeir að sem telja hermannaskyldu eða skyldu við föðurlandið til æðstu gilda, einkum á ófriðartíma. En önnur atriði kunna að koma til: skilyrðislaus trúarleg boðorð; rödd samviskunnar; samband manns við mann: Hvernig er hægt að segja manni sem er dæmdur til dauða voðalega lygi? Hefur hegðun hans svipt hann öllum rétti til að farið sé með hann eins og mannveru? Er ekki til eitthvað sem maðurinn á skilyrðislausan rétt á að krefjast? Ein af söguhetjum Dostojevskís segir að væri hann spurður hvort hann væri reiðubúinn að kaupa hamingju milljóna manna því verði að eitt saklaust barn væri pyndað mundi hann hafna því. Var svar hans augljóslega rangt? Nytjahyggjumaður mundi neyðast til að segja: „Já, það var augljóslega rangt – tilfinningasamt og rangt.“ En vitan­lega erum við ekki öll sama sinnis. Sum okkar telja að maður hafi fullkominn rétt til að segja: „Ég mun ekki pynda saklaust barn. Ég veit ekki hvað gerist næst, en það eru vissir hlutir sem enginn má gera, sama hvað það kostar.“

Nú, hér stangast á tvö heimspekileg viðhorf. Annað er kannski, í göfugustu merkingu, nytjahyggjulegt (eða þjóðræknislegt), hitt byggist á viðurkenningu á algildum, altækum reglum. Það er ekki í verkahring siðfræðingsins að fyrirskipa manni hvort þessara grundvallarviðhorfa hann eigi að tileinka sér: en honum ber að útskýra fyrir honum um hvaða málefni og gildi er að ræða, að kanna og leggja mat á rökin með og móti ýmsum niðurstöðum, að gera ljósa þá lífshætti sem hafa rekist á, þau lífsmarkmið sem hann verður að velja milli, og ef til vill hvað það kostar. Að lokum verður maðurinn auðvitað að taka á sig persónulega ábyrgð og gera það sem hann telur vera rétt. Val hans verður skynsamlegt ef hann gerir sér grein fyrir forsendunum sem það byggist á og frjálst ef hann hefði getað valið öðruvísi. Að velja þannig getur verið mikil kvöl. Að hlýða skipunum hugsunarlaust er auðveldara.

Magee Eitt gott við dæmin um siðferðileg og pólitísk vandamál sem þú varst að gefa er að það er öldungis ekkert málvísindalegt við þau. Ég vildi að því væri oftar þannig háttað um vandamálin sem siðfræðingar rökræða á prenti – alltént þar til nú fyrir stuttu. Eitt sem vekur furðu margra leikmanna sem reyna að lesa heimspeki og gerir marga afhuga henni er sú uppgötvun að svo mikið af heimspekilegri umræðu snýst um orð, um tungumálið. Geturðu útskýrt, með orðalagi sem mundi réttlæta það fyrir leikmanni, hvers vegna þessu er svona farið?

Berlin Ég skal gera mitt besta. Nútímaheimspekingar, sumir þeirra, hafa gert sjálfum sér óleik, að því er almenning áhrærir, með því að halda því fram að þeir fáist aðallega við tungumálið. Fólk heldur að þá hljóti að vera eitthvað ómerkilegt við það sem þeir gera – að þeir fáist við málið í sama skilningi sem orðabókahöfundar eða málfræðingar eða málvísindamenn, og ef svo er, séu orðabókahöfundarnir og málfræðingarnir betri í því. Samt eru þeir að fást við málið vegna þess að þeir álíta að við hugsum í orðum, að orð séu stundum sjálf athafnir og að þess vegna sé rann­sókn á málinu rannsókn á hugsuninni, reyndar á lífsviðhorfum, lífsháttum. Þegar maður stendur andspænis þessum erfiðu heimspekilegu spurningum sem ekkert augljóst svar er við getur hann byrjað með því að spyrja sig: „Hvers konar spurning er þetta? Hvers konar svari erum við að leita að? Líkist hún þessari tegund spurningar eða líkist hún hinni? Er það spurning um staðreynd? Er það spurning um rökfræði, um vensl milli hugtaka? Eða sambland af þessu? Eða líkist hún engu af þessu? Þessi flokkun á hugtökum er allerfið, en allir góðir heimspekingar hafa gert þetta og eru að gera það, hvað svo sem þeir kunna að kalla það. Það er ekkert rangt við að kalla þetta að skýra málfarslegan rugling – nema hvað það hefur villt um fyrir hinum óvarkáru eða illviljuðu. Ruglingur af þessu tæi getur leitt til óskýrleika í hugsun – sem getur svo aftur leitt til villimennsku í verki.

Magee Skoðanir nasista á kynstofnum byggðust á margs konar ruglingi, þar með töldum ruglingi af þessu tæi, var það ekki?

Berlin Jú – þessi ruglingur var sumpart byggður á reynslu, sumpart ekki. Sjálf hugmyndin um óæðri mann – sú hugmynd að til séu tilteknar óæðri mannverur – gyðingar, sígaunar, slavar eða svertingjar, eða hver sem væri, og að samfélaginu stafi ógurleg hætta af þeim og þess vegna ætti að útrýma þeim – þessi hryllilega sannfæring byggðist án efa að hluta til á ósönnum skoðunum á því hvers eðlis atferli þessa fólks er. En hugmyndin um óæðra mannkyn, um hvað það merkir að vera af óæðra kyni og, í sambandi við þetta, hvað við eigum við með orðinu ‘mannlegur’, hvað mannlegt eðli er, hvað gerir mannveru að mannveru, hvað það er að vera óæðri og æðri, og vitanlega hvað leiðir af því, hvað réttlætir að pynda eða drepa hina ‘óæðri’ – þetta eru heimspekilegar spurningar, ekki reynsluspurningar. Þeir sem kvarta yfir því að þær séu léttvægar, einber könnun á máli og málnotkun, ættu að íhuga að líf fólks var – og er enn – undir þeim komið.

Magee Sumir málspekingar hafa haldið því fram að með því að sundurgreina málnotkun okkar séu þeir að leysa okkur úr álögum málsins. Með öðrum orðum séu það ekki þeir sem eru í álögum þess, heldur við.

Berlin Vissulega. Ég mundi segja að þetta væri eitt af því gagnlegasta sem þeir gera fyrir mannkynið. Þetta er ástæða þess að þeir eru álitnir hættulegir menn af þeim sem vilja að upprunalegri notkun málsins sé haldið og óttast að sundurgreining á málinu dragi úr áhrifamætti þess. Það var þýska skáldið Heine sem sagði okkur að virða ekki að vettugi hinn hægláta heimspeking í vinnustofu sinni vegna þess að hann getur verið áhrifamikil og ógnvekjandi persóna. Og að telja hann ekkert annað en meinlausan lærdómsfausk sem fæst við mörg ómerkileg verkefni sé að vanmeta mátt hans. Hefði Kant til að mynda ekki dregið guð rökhyggjuguðfræðinganna í efa gæti verið að Robespierre hefði ekki látið hálshöggva konunginn. Heine varaði Frakka, sem hann átti þá heima hjá, við því að þýsku hughyggjufrumspekingarnir – fylgismenn Fichte, Schellings og þeirra líka – væru ofstækistrúarmenn sem létu hvorki ótta né nautnalöngun aftra sér og mundu einn góðan veðurdag rísa upp í hamslausri heift og leggja vestræna siðmenningu í rúst. Hann lýsti því yfir að þegar þetta mikla frumspekilega áhlaup steypti Evrópu út í styrjöld og eyðileggingu mundi franska byltingin virðast barnaleikur einn. Heine var ekki í neinum vafa, því hann hafði upplifað það sjálfur, um að máttur heimspekilegra eða frumspekilegra hugmynda (til dæmis hugmynda Hegels sem hann sótti fyrirlestra hjá) getur verið mjög mikill – óbeinn en víðtækur, að heimspekingar væru ekki meinlausir froðusnakkar heldur mikið afl til góðs og ills, meðal ægilegustu óviðurkenndu löggjafa mannkyns.

Magee Og allt vegna orða sem þeir skrifa á pappír eða láta út úr sér í fyrirlestrum. Hvernig tungumál og veruleiki tengjast í og gegnum heimspekilega iðju er mikil ráðgáta. Jafnvel þegar um er að ræða spurningar sem virðast vera blátt áfram eins og „Hvað er réttur?“ sem þú notaðir áðan sem dæmi: Er maður að spyrja út í merkingu orðs eða er maður að spyrja út í eðli óhlutbundins fyrirbæris sem er til á einhvern hátt jafnvel þótt það sé óhlutbundið? Hvers konar spurning er spurningin „Hvað er réttur?“

Berlin Það sem þú ert að segja, held ég, er þetta: „Hvernig komumst við að því hvers konar röksemdir mundu fá mann til að fallast á þá staðhæfingu að hann hafi tiltekinn rétt – segjum, rétt á hamingju – eða á hinn bóginn að hann hafi hann ekki?“ Mig rámar í að hafa lesið einhvers staðar að þegar maður nokkur sagði við Lúter að menn ættu rétt á hamingju, eða að markmið lífsins væri hamingja, hafi hann sagt: „Hamingja? Nei! LeidenLeidenKreuz! Kreuz!“ („Þjáning, þjáning; krossinn, krossinn“.) Þetta er kjarni vissra tegunda kristinnar trúar, ein dýpsta sannfæringin, veruleikasýn, sem mikill fjöldi fólks með fullu viti hefur byggt líf sitt á. Þetta er vissulega ekki ómerkilegt. Maður getur sagt að verið sé að fást við orð – lykilorð, en orð engu að síður. Maður getur sagt að við séum aðeins að spyrja „Hvað merkir orðið ‘kross’? Hvað merkir orðið ‘þjáning’?“ En það er ekki málið. Við erum ekki málfræðingar, við erum ekki orðabókahöfundar. Til þess að komast að raun um hvað þessi orð merktu fyrir Lúter eða aðra honum líka, hvað þau merkja íþessari merkingu orðsins ‘merkja’, er gagnslaust að fletta þeim upp í orðabók.

Magee En spurningin er ekki enn alveg ljós. Sé maður ekki að reyna að komast að merkingu þeirra í þeirri merkingu, hvert nákvæmlega er þá eðli þess, hvað svo sem það er, sem hann er að reyna að komast að? Þegar allt kemur til alls hafa sumir mestu snillingar mannkynssögunnar verið að pæla í spurningum af þessu tæi í tvö eða þrjú þúsund ár, en samt án þess að komast að neinum almennt viðteknum niðurstöðum. Þetta bendir alltént til þess að spurningarnar séu eitthvað sérstakar, svo ekki sé meira sagt. Kannski er ekki hægt að svara þeim. Kannski er það ekki til sem maður er að leita að.

Berlin Ja, við skulum spyrja okkur: „Hvers konar spurningum er hægt að svara?“ Með nokkurri ofureinföldun mætti segja að það séu tveir stórir málaflokkar sem hægt er að segja nokkuð ákveðið um að hægt sé að gera út um – að minnsta kosti fræðilega séð ef ekki alltaf í reynd. Annar flokkurinn er flokkur venjulegra reynsluspurninga, spurninga um hvað sé til í heiminum, hluti af því tæi sem venjuleg athugun eða raunvísindi fást við. „Eru til svartir svanir í Ástralíu?“ Já, þeir eru til; þeir hafa sést þar. „Úr hverju er vatn myndað?“ „Það er myndað úr ákveðnum tegundum sameinda.“ „Og sameindirnar?“ „Þær eru myndaðar úr frumeindum.“ Hér erum við í ríki sannreynanlegra, eða alltént afsannanlegra, fullyrðinga. Almenn skynsemi fer líka svona að: „Hvar er osturinn?“ „Hann er í skápnum.“ „Hvernig veistu það?“ „Ég hef gáð.“ Þetta telst fullkom­lega nægilegt svar við spurningunni. Í venjulegum kringumstæðum mundi ég ekki efast um þetta, og þú ekki heldur. Þetta eru kallaðar reynsluspurningar, spurningar um staðreyndir sem er gert út um annaðhvort með venjulegri almennri skynsemi eða, í flóknum tilvikum, með haminni athugun, með tilraun, með því að staðfesta tilgátur og svo framvegis. Þetta er ein tegund spurninga.

Svo er önnur tegund spurninga – sú tegund sem stærðfræðingar eða rökfræðingar spyrja. Þar samþykkir maður tilteknar skilgreiningar, tilteknar ummyndunarreglur um hvernig eigi að leiða út setningar af öðrum setningum, og reglur um afleiðslu sem gera manni kleift að leiða niðurstöður af forsendum. Og það er líka mengi reglna sem hægt er að prófa rökvensl setninga með. Þetta gefur manni alls engar upplýsingar um heiminn. Ég á við formlegar greinar sem virðast algerlega aðskildar frá spurningum um staðreyndir: stærðfræði, rökfræði, leikjafræði, skjaldarmerkjafræði. Maður finnur ekki svarið með því að líta út um gluggann eða á skífu, horfa í sjónauka eða gá í skápinn. Ef ég segi þér að kóngurinn í skák gangi bara einn reit í einu þýðir ekkert fyrir þig að segja: „Jæja, þú segir að hann gangi bara einn reit í einu en kvöld eitt var ég að horfa á taflborð og sá kónginn ganga tvo reiti.“ Þetta teldist ekki afsönnun á staðhæfingu minni vegna þess að það sem ég er í raun og veru að segja er að það sé regla í skák að kóngnum sé aðeins leyft að ganga einn reit í einu, að öðrum kosti sé reglan brotin. Og hvernig veistu að reglan er sönn? Reglur eru ekki yrðingar af því tæi sem geta verið sannar eða ósannar, ekki frekar en skipanir eða spurningar. Þær eru einfaldlega reglur: Annaðhvort viðurkennir maður þessar reglur eða hann viðurkennir einhverjar aðrar. Hvort slíkt val er frjálst eða ekki, og hver sé staða þessara reglna, eru heimspekilegar spurningar, hvorki háðar reynslu né formlegar. Ég skal reyna að útskýra hvað ég á við eftir andartak.

Eitt aðaleinkenni þeirra tveggja tegunda spurninga sem ég hef nú nefnt er að til séu afgerandi og skýrar aðferðir til að finna svörin. Það getur verið að maður viti ekki svarið við reyndarspurningu en hann veit hvers konar svar hæfir spurningu af þessari gerð, hvar hugsanleg svör er að finna. Ef ég spyr: „Hve lengi lifði Sesar?“ getur verið að þú vitir ekki hve mörg ár hann lifði en þú veist hvernig á að fara að til að komast að því. Þú veist hvers konar bókum á að fletta upp í. Þú veist hvers konar heimild væri heimild fyrir svarinu. Ef ég spyr: „Eru ófleygir fuglar í Thailandi?“ veistu kannski ekki svarið en þú mundir vita hvað þyrfti að gera til að komast að því. Sama á við um stjörnufræði. Þú veist ekki hvernig hin hliðin á einhverri fjarlægri plánetu lítur út af því að þú hefur aldrei séð hana en þú veist að gætirðu flogið þangað, eins og nú er hægt að fljúga til tunglsins, mundirðu kannski sjá það. Í formlegum fræðigreinum eru líka óleyst vandamál, en þar eru líka viðteknar aðferðir til að leysa þau. Maður veit að ekki er hægt að leysa stærðfræðiþraut með því að horfa, snerta eða hlusta. Sömuleiðis gefur algebrurökleiðsla ein og sér ekki svör á reynslusviðinu. Mörkin sem ég hef dregið milli þessara sviða eru of skörp: Tengslin milli lýsandi staðhæfinga og formlegra eru í raun töluvert flóknari, en að orða þau á þennan afdráttarlausan hátt dregur fram það atriði sem ég vil leggja áherslu á. Það er þetta: Milli þessara tveggja flokka spurninga eru aðrar spurningar sem ekki er hægt að svara á annan hvorn veginn. Það eru margar slíkar spurningar og þar á meðal eru heimspekilegar spurningar. Fljótt á litið virðist mér eitt af aðalsmerkjum heimspekilegrar spurningar vera þetta: maður veit ekki hvar skal leita að svarinu. Einhver segir við þig: „Hvað er réttlæti?“ eða „Ræðst sérhver atburður af undanfarandi atburðum?“ eða „Hver eru markmið mannlífsins? Ættum við að sækjast eftir hamingju eða stuðla að félagslegum jöfnuði, réttlæti, guðsdýrkun eða þekkingu – jafnvel þótt þetta leiði ekki til hanmingju?“ Nákvæmlega hvernig fer maður að því að svara þessum spurningum? Eða gerum ráð fyrir að einhver sem hneigist til að hugsa um hugmyndir segi við mann: „Hvað áttu við með ‘raunverulegur’? Hvernig greinirðu milli raunveruleika og sýndar?“ Eða spyr: „Hvað er þekking? Hvað vitum við? Getum við vitað nokkuð með vissu?“ Hvað gerir maður til að finna svör við svona spurningum, þar sem skortir vísinda- eða fræðigrein sem hægt er að vísa til og segja: „Sjáðu nú til, það eru til sérfræðingar. Þeir geta sagt manni hvað gott og rétt er, þeir geta sagt manni hvort allt ræðst af orsökum og líka hvort hamingjan er hið rétta markmið fyrir manneskjur og hvað réttindi og skyldur, þekking, veruleiki og sannleikur eru, og allt slíkt. Hlustaðu bara á þá.“ Stærðfræðingur getur vitanlega svarað stærðfræðilegum spurningum. En þú heldur ekki, er það, að til séu óskeikulir siðapostular eða frumspekingar sem geta gefið algerlega skýr svör sem allar manneskjur sem gætu skilið rökfærslu þeirra hljóta að fallast á? Þessar spurningar virðast leiða af sér ráðgátur strax í upphafi, vandamál um það hvar skuli leita svara. Enginn veit gjörla hvernig á að gera út um þessar spurningar. Venjulegu fólki sem spyr sig þessara spurninga þráfaldlega hættir til að komast í andlegt krampaástand sem varir þar til það hættir að spyrja þeirra og fer að hugsa um aðra hluti.

Magee Nú ertu kominn að því sem er svo mikið grundvallaratriði að ég vildi gjarnan styrkja stöðu okkar áður en við höldum lengra. Þú ert að segja að í leit sinni að þekkingu hafi menn yfirleitt spurt tvenns konar spurninga. Fyrst eru það spurningar um heiminn – maðurinn er alltaf að reyna að afla sér þekkingar á umhverfi sínu og ná tökum á því, eða kannski bara að komast af. Þessum spurningum um heiminn verður einungis svarað, þegar til kastanna kemur, með því að skoða hann: með rannsókn, athugun, prófun, tilraun og svo framvegis. Slíkar spurningar varða staðreyndir – eða, eins og heimspekingar komast að orði, þær eru spurningar um reynslu. Önnur tegund spurninga er af óhlutbundnari eða formlegri gerð – til að mynda spurningar í stærðfræði eða rökfræði, eða, eins og þú varst að nefna, leikjafræði eða skjaldarmerkjafræði. Spurningar af þessari gerð snerta tengsl milli hluta í formlegum kerfum og þess vegna getum við ekki fengið svörin við þeim með því að skoða heiminn. Að segja þetta er þó alls ekki að segja að þær séu fjarri venjulegum viðfangsefnum okkar. Eitt formlegt kerfi sem við notum jafnan í daglegu lífi er talnareikningur – já, við notum það bókstaflega á hverjum degi þegar við teljum hluti, segjum hvað klukkan er, fáum peninga til baka og þar fram eftir götunum. Óhlutbundið kerfi getur verið gríðarlega gagnlegt og mikilvægt í daglegu lífi okkar.

Það eru því tveir stórir flokkar spurninga sem við kunnum að fást við með árangri: reyndar­spurningar, sem fela það í sér að skoða staðreyndirnar, og formlegar spurningar sem fela það í sér að tengja saman hluti innan formlegs kerfis. Næstum allar spurningar, og þess vegna næstum öll þekking, lenda í annarri af þessum tveimur körfum. En heimspekilegar spurningar gera það ekki: Það er nánast aðalsmerki heimspekilegrar spurningar að hún lendir í hvorugri körfunni. Spurningu eins og „Hvað er réttur?“ er hvorki hægt að svara með því að líta út um gluggann né með því að kanna innra samhengi formlegs kerfis. Sem sagt, maður veit ekki hvernig á að fara að því að finna svarið. Þú ert að segja að heimspekin byrji þar sem maður er með áleitna spurningu án þess að hafa skýran skilning á hvernig skuli leita að svarinu.

Berlin Þú hefur orðað það miklu betur en ég. Miklu skýrar.

Magee En ekki fyrr en þú hafðir sagt það – ég hafði þína framsetningu til að ganga út frá.

Berlin Ég samþykki endurframsetningu þína – hún er mikil bragarbót.

Magee En spurningin heldur samt áfram að sækja á mann. Hvað getum við gert varðandi spurningar sem við vitum ekki hvernig skuli svara?

Berlin Nú, við verðum að spyrja: „Hvers vegna ættum við að dást að einhverjum þeirra hugsuða sem hafa fjallað um þær? Við dáumst að þeim, held ég, vegna þess að þeim hefur tekist að umorða þær á þann hátt að tiltekin svör virðast alltént sennileg. Þegar ekki er til nein viðurkennd aðferð til að gera eitthvað þá gerum við það sem við getum. Við einfaldlega prófum okkur áfram. Við segjum: „Þegar ég spyr spurningar eins og ‘Hafa allir hlutir tilgang?’ hvers konar spurning er það? Hvers konar svörum er ég að leita að? Hvers konar röksemdafærsla mundi fá mig til að halda að ákveðið svar væri rétt eða rangt eða jafnvel þess virði að velta því fyrir sér?“ Þetta er það sem heimspekin snýst um. E. M. Forster sagði einu sinni, held ég (ég játa að ég man ekki hvar): „Allt líkist einhverju; hverju líkist þetta?“ Þetta er það sem maður hefur tilhneigingu til að byrja með að spyrja þegar um er að ræða heimspekilegar spurningar. Sögulega séð virðist þetta hafa gerst: Vissar mikilvægar, reyndar afar þýðingarmiklar, spurningar virðast eiga heima í þessu tvíbenta ástandi. Menn hafa haft djúpar áhyggjur af þeim – sem er ekki nema eðlilegt þar sem þeir voru mjög mikið að fást við grundvallargildi. Kreddumenn, eða menn sem hreinlega féllust efasemdalaust á yfirlýsingar helgra bóka eða innblásinna kennara, höfðu ekki áhyggjur. En það hefur líklega alltaf verið til fólk sem hafði efasemdir um þetta og spurði sig: „Hvers vegna ættum við að fallast á þessi svör? Þeir segja þetta eða hitt en erum við viss um að þeir viti það? Hvernig getum við verið viss um að þeir viti? Þeir segja að Guð (eða stundum Náttúran) segi þeim það – en Guð (líkt og Náttúran) virðist gefa ólíku fólki ólík svör. Hver þeirra eru rétt?“

Sumar spurninganna hafa verið umorðaðar þannig að þær lenda þá í annarri hvorri körfunni okkar (sögulega talað). Ég skal útskýra hvað ég á við. Tökum stjörnufræði. Á fjórtándu öld var skynsamlegt að líta á stjörnufræði sem heimspekilega grein því að staðhæfingar hennar voru ekki eingöngu reynslustaðhæfingar og þær voru ekki formlegar. Til dæmis var álitið að plánetur­nar hlytu að hreyfast á hringlaga brautum af því að hringurinn var hin fullkomna flatarmynd. Hver svo sem er staða þeirrar fullyrðingar að hringurinn sé hin fullkomna flatarmynd – ég býst við að hún kynni að teljast formleg á einhvern hátt – þá virðist hin lengra komna fullyrðing, að plánetur sem voru hugsaðar á fullkominni hreyfingu hlytu að hreyfast í hringi og gætu ekki annað, hvorki vera reynslustaðhæfing né formleg staðhæfing. Ekki er hægt að sanna hana – eða nein nauðsynleg sannindi – með athugun eða tilraun. Það er ekki heldur hægt að sanna alhæfingu sem byggist á staðreyndum um hvað plánetur eru eða gera eingöngu með rökfræðilegri eða stærðfræðilegri sönnun. Svo framarlega sem menn vissu að stjörnur hlytu að hegða sér á ákveðinn hátt, og engan annan, en plánetur yrðu hins vegar að fara eftir ákveðnum öðrum brautum – svo framarlega sem menn töldu sig vita þetta, vita það á frumspekilegum eða guðfræðilegum forsendum – þá var öldungis rétt að líta á þessa fræðigrein sem heimspekilega. Og þetta átti ekki síður við um hið náskylda svið, stjörnuspekina. Síðan varð stjörnufræðin, eins og allir vita, smám saman ágæt athugunarvísindi. Hún losaði sig við frumspekilegar forsendur sínar og er nú eðlilegt svið náttúruvísindanna sem beita aðferðum tilgátu og afleiðslu og eru háð reynsluprófunum. Þannig hætti hún, eins og vera ber, að vera heimspekileg.

Eitt af því sem er athyglisvert við feril heimspekinnar er að hún er stöðugt að losa sig við tiltekna hluta sína í aðra af körfunum tveim, reyndarkörfuna og þá formlegu. Ég held að það hafi verið Austin heitinn, starfsbróðir minn, sem einu sinni orðaði þetta með því að segja að sól heimspek­innar gefi smátt og smátt frá sér mikið magn brennandi lofttegunda og þær verði sjálfar plánetur og öðlist sjálfstætt líf. Í sögu heimspekinnar er að finna meiriháttar dæmi um þetta ferli. Þannig var til að mynda hagfræðin hluti af heimspekinni þegar hún var flækt í margar frumspekilegar forsendur, en svo varð hún smám saman, eða er að verða, sjálfstætt rannsóknarsvið.

Magee En jafnvel þegar hin ýmsu rannsóknarsvið hafa klofið sig út úr af eigin rammleik – líkt og, eins og þú segir, hagfræði eða stjörnufræði (sálfræði í gær, málvísindi í dag) – stendur eftir heimspeki þessara ólíku vísindagreina. Það væri ekki rétt að segja að strax og þær hafa klofið sig út úr hafi þær engin frekari tengsl við heimspeki.

Á öllum starfssviðum eru ákveðin lykilorð – eða ég kýs heldur að segja undirstöðuhugtök – sem fólk notar. Eðlisfræðingar eru sífellt að tala um ljós, massa, orku, hraða, þyngd, hreyfingu, mælingu, tíma. Stjórnmálamenn eru stöðugt að nota orð eins og ‘frelsi’, ‘jafnrétti’, ‘félagslegt réttlæti’. Lögfræðingar eru látlaust að nota orð eins og ‘sekt’, ‘sakleysi’ – og ‘réttlæti’ líka, þó þeir meini eitthvað annað með því. Venjulega ver fólkið sem starfar á þessum sviðum mjög litlum tíma í að rökræða um orðin eða hugtökin sem það notar – ég mundi veðja um að flestir eðlisfræðingar rökræða aldrei á ævinni sín á milli um hvað ljós sé eða hvað þeir eiga við með orðinu ‘orka’. En nú kemur einhver náungi og segir: „Já, en hvað nákvæmlega meinum við með orðinu ‘ljós’? Hvað meinum við með orðinu ‘orka’? Hvað meinum við með orðinu ‘mæling’? Jafnvel enn meira viðeigandi væri að spyrja, hvað erum við að gera þegar við mælum eitthvað?“ Við köllum þennan mann vísindaheimspeking og umræðan um slíkar spurningar kallast vísindaheimspeki. Sömuleiðis höfum við mann sem kallast stjórnmálaheimspekingur sem spyr: „Hvað nákvæmlega meinum við með ‘frelsi’? Hvað meinum við með ‘jafnrétti’?“ Og það er jafnvel til réttarheimspekingur sem spyr: „Hvað nákvæmlega meinum við með ‘réttlæti’?“ Í rauninni er til heimspeki hverrar fræðigreinar eða starfsemi og hún felst ekki einungis í útlistun á þeim hugtökum og líkönum sem einkenna hana heldur einnig í gagnrýninni umræðu um markmið hennar og aðferðir og þau sérstöku form röksemdafærslu, sönnunargagna og aðferða sem hæfa hverri þeirra. Heimspekin getur með öðrum orðum leitast við að útlista hvaða hugtök sem er eða rökgreina hvaða starfsemi sem vera skal. Þetta er það sem Wittgenstein átti við þegar hann hélt því fram að heimspekin væri starfsemi en ekki kenningabálkur. Af þessu leiðir vitanlega að starfsemi heimspekinnar er sjálf undirorpin heimspekilegri rannsókn og það er reyndar svo að gífurlegur fjöldi slíkra rannsókna á sér látlaust stað meðal heimspekinga. Í verki er auðvitað áhugaverðast að íhuga þá starfsemi fyrir utan heimspekina sem er á einhvern hátt grundvallar­atriði í mannlífinu – þótt ég telji að heimspekingar hafi í gegnum söguna haft of þrönga skoðun á því hver þessi starfsemi sé. Ennfremur er það svo í verki að áhugaverðustu hugtökin til að rann­saka eru grundvallarhugtök, hvort heldur það eru hugtök í hversdagslegri notkun eða sérstaklega notuð á einhverju sérstöku sviði mannlegrar hugsunar eða starfsemi. Það sem heimspekingar reyna að gera í slíkum rannsóknum er að grafast fyrir um það sem við göngum út frá í hugsun okkar: að kanna, og draga fram í dagsljósið og gera okkur ljóst, hverjar eru hinar huldu forsendur sem leynast í grunnhugtökum okkar, og einnig í því hvernig við notum þessi grunnhugtök, og sem er þar með smyglað inn í niðurstöður okkar – og það þýðir inn í skoðanir okkar og athafnir.

Berlin Ég hygg að þetta sé rétt. Sumir sundmenn lamast ef þeir byrja að hugsa um hvernig þeir synda. Eðlisfræðingar framkvæma hið raunverulega sund. Spurningin um hvað þarf til að synda, eða hvað það merkir að synda, þær spurningar eru auðveldari viðfangs fyrir utanaðkomandi athugendur. Vísindamenn sem eru góðir í að rökgreina hugtökin sem þeir nota eru ákaflega sjaldgæfir fuglar, en þeir eru þó til: Einstein og Planck, til dæmis, vissu muninn á orðum um orð og orðum um hluti, eða á hugtökum og reynslugögnum. Og mér detta fleiri í hug, sem betur fer enn meðal okkar, sem vita þetta og tala af heimspekilegu viti. En venjulega hættir jafnvel hinum gáfuðustu í þeirra hópi til að vera of niðursokknir í starf sitt til að geta staðið álengdar og kannað hinar ósögðu forsendur sem starf þeirra og skoðanir eru reistar á.

Magee Hefur þér nokkurn tíma dottið í hug að spurningar eins og „Hvað er ljós? Hvað er gott? Hvað er tími?“ eru furðulega líkar spurningum barna?

Berlin Já, mér hefur vissulega oft dottið einmitt þetta í hug. Börn eiga ekki vanda til að spyrja „Hvað er tími?“ Ég held að barn kynni að segja: „Mig langar til að hitta Napóleon.“ (Þetta virðist eðlilegt að til að mynda áhugasamt barn sögukennara vilji.) Faðirinn segir við barnið: „Þú getur það ekki. Hann er dáinn.“ Þá segir barnið: „Nú, hvers vegna ætti það að koma í veg fyrir það?“ Sé faðirinn nógu glúrinn mun hann útskýra fyrir barninu að dauði Napóleons hafi orðið til þess að líkami hans leystist upp niðri í jörðinni, að upphaflegir efnispartar hans tvístruðust og að ekki sé hægt að vekja þá sem grafnir eru upp frá dauðum. En sé barnið líka glúrið gæti það spurt: „Hvers vegna er ekki hægt að safna öllum pörtunum saman aftur?“ Kennslustund í eðlisfræði eða líffræði fylgir kannski í kjölfarið. Að henni lokinni segir barnið kannski: „Nei. Þetta er ekki það sem ég var að biðja um. Mig langar ekki til að sjá Napóleoni safnað saman núna: Mig langar til að fara til baka og sjá hann eins og hann var í orustunni við Austerlitz. Það mundi ég vilja.“ „Jæja, þú getur það ekki,“ segir faðirinn. „Hvers vegna ekki?“ „Vegna þess að þú getur ekki farið til baka í tíma.“ „Hvers vegna get ég það ekki?“ Nú höfum við fengið heimspekilegt vandamál. Hvað er hér átt við með ‘getur ekki’? Er að geta ekki farið til baka í tíma tjáð með sams konar ‘getur ekki’ og þegar sagt er „Tvisvar tveir getur ekki verið sjö“ eða þeirri tegund ‘getur ekki’ sem felst í „Þú getur ekki keypt sígarettur klukkan tvö eftir miðnætti af því að það er bannað með lögum“? Eða er það líkara ‘getur ekki’ í „Ég get ekki munað“ eða í „Ég get ekki gert mig níu feta háan með því einungis að óska þess“? Hvers konar ‘getur ekki’ svarar „Viltu leyfa mér að sjá orustuna við Austerlitz“? Við erum undir eins komin á kaf í heimspeki. Einhver kann að segja barninu „Þú getur það ekki vegna eðlis tímans“. En þá segja einhverjir heimspekilega sinnaðir einstaklingar: „Nei, nei, hlutir eins og tími og eðli hans eru ekki til. Staðhæfingar um tíma er hægt að þýða yfir í staðhæfingar um það sem gerist ‘áður’ og ‘eftir’ og ‘samtímis’. Að tala um tíma eins og hann væri einhvers konar hlutur er frumspekileg gildra.“ Við erum nú komin á fulla ferð. Fæstir feður vilja svara spurningum ágengra barna sinna á þennan hátt. Þeir segja þeim bara að þegja, að spyrja ekki kjánalegra spurninga, að fara burt og hætta að vera til vandræða. En þetta er sú tegund spurninga sem kemur stöðugt aftur. Og heimspekingar eru menn sem leiðast þær ekki eða eru hræddir við þær. Þær fara ekki í taugarnar á þeim og þeir eru reiðubúnir að fást við þær. Börn eru vitanlega að lokum vanin á bæla þessar spurningar niður. Því er nú verr. Börnin sem eru ekki algerlega skilyrt þannig verða stundum heimspekingar.

Magee Heldurðu að það sé kannski af þessari ástæðu eitthvað barnslegt við heimspekinga?

Berlin Ekki endilega. En sumar spurningarnar sem þeir spyrja eru að því er virðist einfaldar, frekar líkar sumum spurninganna sem Sókrates spyr í samræðum Platons, spurningum af því tæi sem venjulegt fólk getur ekki svarað og vísar því á bug, stundum með nokkurri óþolinmæði. Hins vegar eru, að sjálfsögðu, ekki allar spurningarnar sem heimspekingar spyrja einfaldar. Vísindaheimspekingur nú á dögum mun líka eiga vanda til að spyrja spurninga á borð við „Hvað er kvarki?“ ‘Kvarki’ er mjög dularfullt hugtak í eðlisfræði. Er kvarki eitthvað sem á sér sjálfstæða tilveru? Hlutur? Hreyfing? Samband milli hluta? Hvað er svarthol? Rými, gat? Eru kvarkar svart­hol? (Hvað eru göt af þessari gerð?) Eða kannski þau séu stærðfræðiformúlur – rökfræðileg tæki á borð við ‘og’ eða ‘nokkur’ eða ‘hver’ sem getur ekki svarað til neins í hinum svokallaða raunverulega heimi? Eða er kvarki sambland af hinu raunverulega og rökfræðilega? Hvernig er orðið notað? Er nóg að segja „Við notum orðið ‘kvarki’ í eftirfarandi vísindalegum formúlum eða röksemdafærslum“? Það virðist ekki alveg nóg. Sameindir eru sennilega raunverulegir hlutir. Frumeindir líka. Rafeindir, róteindir, gammageislar og nifteindir eru öllu vafasamari. Eða hvað með skammta? Þeir rugla fólk í ríminu. Manni er sagt frá einhverju – rafeind – sem stekkur frá einni braut til annarrar án þess að fara óslitið gegnum millibilið, ef okkur leyfist að tala þannig. Hverju líkist þetta? Getur venjuleg hugsun ímyndað sér slíkt? Hér er eitthvað prima facie óskiljanlegt. Það er eins og að segja: „Ég er með svolítinn verk í ökklanum – og nú er hann í hnénu – en auðvitað þarf hann ekki að hafa farið óslitið upp eftir fætinum vegna þess að það er engin ‘hann’: fyrst einn verkur á einum stað, svo annar, eins og sá fyrri, á öðrum stað?“ Er þetta svarið? Maður gæti sagt: „Þessi verkur er farinn úr fætinum á mér og er kominn í handlegginn“, og er þá gefið í skyn að hann hafi einhvern veginn farið upp; en maður meinar þetta ekki bókstaflega. Fyrst var verkur hérna, svo var verkur þarna: ekkert á milli. Er það svona? Er þetta gagnleg líking? Eða er það allt öðruvísi? Leiða svör af þessu tæi til fáránlegra, afar villandi myndlíkinga? Lýsir vísindamál nokkru? Eða er það einungis, líkt og stærðfræði og rökfræði, beinagrind, ekki hold, lýsandi eða skýrandi máls? Eða er þetta líka rangt? Gott og vel – hvernig fer maður að því að svara? Eðlisfræðingar geta sjaldan hjálpað manni? Þeir segja manni hvað þeir gera og síðan er það heimspekingsins að segja: „Nú, það er svona sem þeir nota þetta orð. Þeir nota það á x-hátt, ekki á y-hátt. Þegar þeir segja ‘kvarki’, þegar þeir segja ‘róteind’, þegar þeir segja ‘skammtastökk’ er notkun þeirra á orðinu líkari því hvernig við hin notum þetta orð eða hitt – og alls ekki líkt því hvernig við notum þetta orð hérna eða þetta þarna. Við skulum því ekki gera það glappaskot að gefa okkur að það sé einhver einföld líking milli þess sem þeir segja og þess hvernig málið er notað í daglegu lífi, annars munum við komast að rangri eða fáránlegri niðurstöðu eða byggja upp ónauðsynlegt frumspekikerfi.“

Magee Sumir heimspekingar skilja það sem þú ert nú að tala um sem hina dæmigerðu heimspekilegu iðju. Við gerum öll það sem kallast ‘kvíavillur’ – það er að segja okkur hættir til að nota hugtak eins og það sé af allt annarri gerð en það í raun og veru er. Og vegna þess að við gerum okkur ekki grein fyrir þessu leiðir það okkur út í alls konar villur og rugling. Og verkefnið sem er sérkennandi fyrir heimspekinginn, telja sumir, er að ráða fram úr þessum ruglingi og sýna okkur hvar og hvernig við lentum á villigötum. Einn nútímaheimspekingur sem hélt þessari skoðun skörulega fram var Gilbert Ryle. Í frægustu bók sinni hélt hann því fram að okkur hætti til að gera mjög alvarlega kvíavillu í sambandi við hugtakið hug. Okkur hættir til að hugsa um hugann eins og ósýnilegan hlut sem býr í líkamanum líkt og draugur í vél, stjórnaði henni innan frá, sæti þarna inni og hefði leyndan aðgang að flæði líkamslausrar reynslu upp á eigin spýtur. Þetta er, heldur Ryle fram, algerlega rangt líkan og það leiðir okkur út í endalausan rugling og villur. Hann reyndi að sýna fram á þetta með allítarlegri hugtakagreiningu og bókin er helguð þessari greiningu – þess vegna heitir hún Hugtakið hugur. Vildi maður færa fram rök gegn honum væri hægt að gera það á tvo höfuðvegu, og það er nokkuð dæmigert. Annaðhvort gætum við neitað að við notuðum hugtakið á þann hátt sem hann segir að við gerum eða við gætum fallist á að við gerðum það en neitað að það hefði hinar villandi afleiðingar sem hann segir það hafa. Margar rökræður milli heimspekinga, um önnur hugtök, eru af þessari gerð.

Berlin Ryle hefur tilhneigingu til að vera of atferlissinnaður fyrir minn smekk – en ég er sammála, útlistun hugtaka er vissulega eitt af verkefnum heimspekinnar og kannski eitt af aðalverkefnum hennar. En heimspekingar reyna líka að vekja athygli fólks á hinum raunverulegu málefnum sem tengjast því að bera fram spurningarnar sem þeir skýra.

Magee Ég held þú verðir að segja dálítið meira um þetta. Eitt af því sem leikmaður á erfiðast með að skilja er hvernig raunverulega hjálp er hægt að fá frá því að reyna að svara spurningum sem ekki er hægt að gera út um. Hvernig getur manni miðað áfram?

Berlin Gott og vel, það er hægt að komast eitthvað áleiðis í átt til svars. Með því að skýra hugtökin upppgötvar maður stundum að spurningin hefur ekki verið rétt orðuð – maður kemst til dæmis að því, eins og ég var að reyna að segja hérna áðan, að efnislegri spurningu eða reynsluspurningu er ruglað saman við formlega spurningu. Ég skal gefa þér annars konar dæmi úr siðfræði – sviði sem gott er að taka dæmi af vegna þess að flestir verða að fást við siðferðileg vandamál í lífi sínu. Segjum að við spyrjum spurningar sem er sumpart siðferðileg og sumpart pólitísk, venjulegt vandamál á sjúkrahúsi. Það eru til nýrnavélar. Þær eru dýrar. Ekki eru margar til. Allmargt fólk þjáist af nýrnasjúkdómi sem þessi vél mundi skipta sköpum fyir. Ættum við að nota þær fáu vélar sem til eru einungis fyrir hæfileikaríkt og mikilsháttar fólk sem að okkar dómi gerir samfélaginu mikið gagn? Ef mikill vísindamaður þjáist af nýrnasjúkdómi, ætti eina vélin sem við eigum að vera tekin frá handa honum einum? Sé barn að deyja sem vélin gæti bjargað, hvernig gerum við upp á milli þeirra? Hvað eigum við að gera? Ættum við að spyrja okkur spurninga á borð við þessa: „Hvor þessara einstaklinga á eftir að gera samfélaginu meira gagn?“ Þetta er kveljandi spurning um raunhæft val. Það er ekki hlutverk siðfræðingsins að svara spurningunni og segja: „Bjargið hinum mikla vísindamanni“ eða „Bjargið barninu“. Hann kann að gera það sem manneskja, en sé hann þar að auki góður siðfræðingur er hann í aðstöðu til að útskýra fyrir okkur þau atriði sem hér er um að ræða. Hann mun segja: „Hvert er markmið ykkar? Að hverju leitið þið? Látið þið ykkur eingöngu varða hamingju mannkynsins? Er hún hið eina sem þið takið tillit til? Sé svo þá er líklega rétt að bjarga vísindamanninum vegna þess að hann mun sennilega gera meira gagn en þetta grandalausa barn. Eða trúið þið líka að allar manneskjur hafi viss grundvallarréttindi og að allir eigi sömu kröfu til að vera bjargað og að ekki megi einusinni spyrja hvor af tveimur manneskjum sé ‘mikilvægari’? Er þetta hugsun ykkar? „Jæja þá,“ gæti hann haldið áfram, „hér er togstreita milli gilda. Annars vegar trúið þið á að auka mannlega hamingju en á hinn bóginn trúið þið einnig að eitthvað sé rangt við að flokka kröfur til lífs – og önnur grundvallarréttindi – og búa þannig til stigveldi af kröfum þar sem ætti að vera jöfnuður. Þið getið ekki bæði sleppt og haldið. Þessi markmið stangast á.“

William Goldwin, tengdafaðir Shelleys, hafði engar slíkar efasemdir. Hann segir sögu þar sem hinn frægi, háheilagi franski erkibiskup Fénelon, sem var uppi undir lok sautjándu aldar, er látinn horfast í augu við það vandamál að stökkva inn í logana til að bjarga einkaþjóni og stofna eigin lífi í hættu. Godwin hélt því fram að þar sem Fénelon væri greinilega langtum mikilvægari fyrir þróun mannkynsins en þjónninn hefði það verið ‘réttlátt’ hjá þjóninum sjálfum að kjósa heldur að Fénelon lifði en hann sjálfur. Af þessu hlýtur að leiða að það væri ekki aðeins, ef svo má segja, leyfilegt fyrir Fénelon að bjarga ekki þjóninum, það væri hreint og beint rangt fyrir hann að reyna að gera það. Og ef þú segir: „Hvað! Þú fordæmir hetjuskap? Vissulega ber að dást að öllum fyrir að fórna lífi sínu fyrir líf annarrar manneskju, eða hvað?“ Godwin er nauðbeygður til að svara: „Vissulega ekki. Það er óskynsamlegt val.“ En gerum ráð fyrir að það sé konan þín eða móðir þín sem eru í lífshættu? Svar Godwins er skýrt (ég vitna í hann eftir minni): „Kona mín eða móðir eru kannski fábjánar, skækjur, illgjarnar, lygnar, svikular. Séu þær það, hvaða máli skiptir að þær eru mínar? Hvaða töfrar eru fólgnir í eignarfornafninu „mín“ sem kollvarpar ákvörðunum eilífs sannleika?“ – eða etthvað þess háttar. Þetta er ofstækisfull, rökrétt nytjahyggja sem við vísum kannski skiljanlega á bug, en enginn vafi leikur á því að þetta er heimspekilegt ágreiningsefni. Og Godwin var ekki heldur í neinum vafa um svarið sem hver rökrétt hugsandi maður mundi hiklaust gefa. Þetta hjálpar alltént til að gera málið ljóst. Ef við höfnum svari Godwins vitum við hverju við erum að hafna og við erum að minnsta kosti á leiðinni að komast að því hvers vegna við gerum það.

Magee Þegar þú sagðir í dæminu um nýrnavélina að góður siðfræðingur segði okkur ekki hvað við ættum að gera, þá sagðirðu eitthvað sem skiptir afar miklu máli fyrir þessa umræðu. Fjöldi fólks kemur til heimspekinnar og vill að því sé sagt hvernig það á að lifa – eða vill fá greinargerð um heiminn og með henni greinargerð um lífið – en mér virðist að það að vilja alltént hið fyrra sé að vilja afsala sér persónulegri ábyrgð. Maður ætti ekki að vilja að manni sé sagt hvernig á að lifa. Og þess vegna ætti maður ekki að koma til heimspekinnar í leit að endanlegum svörum. Það er allt annað mál að leita skýringar á lífi sínu eða skýringar á hvað felst í sérstökum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir svo að við getum á áhrifaríkari hátt tekið ábyrgð á okkur sjálfum og tekið ákvarðanir með fyllri, skýrari skilningi á því sem er í húfi.

Berlin Það sem þú segir er sorglegt – en ólíkt flestum siðapostulum er ég þér sammála. Flestir vilja að þeim séu gefin svör. Turgenjev sagði einu sinni að einn vandinn við skáldsögur sínar – ein ástæðan fyrir því að þær færu í taugarnar á sumum lesenda þeirra – væri að rússneskur lesandi á hans tíma (og reyndar til dagsins í dag, getum við bætt við) vildi að sér væri sagt hvernig hann ætti að lifa. Hann vildi hafa það alveg á hreinu hverjar væru hetjurnar og hverjir þorpararnir. Turgenjev vildi ekki segja honum þetta. Tolstoy lætur ekkert fara milli mála um þetta, Dostojevskí ekki heldur, og allmargir aðrir rithöfundar gefa þetta mjög skýrt til kynna. Hjá Dickens er ekkert vafamál hver er hver – hver er góður og hver ekki. Í verkum George Eliot er ekki heldur mikill vafi. Ljóst er hverjum Ibsen dáist að og hvern hann fyrirlítur eða hverjum hann vorkennir. En Turgenjev sagði að allt sem hann gerði væri að lýsa manneskjum eins og hann sæi þær. Hann vildi ekki veita lesandanum leiðsögn. Hann sagði lesandanum ekki hvorum megin hann, höfundurinn, stóð. Og þetta, hélt Turgenjev fram, gerði almenning ráðvilltan, það pirraði fólk, léti lesendum eftir að ráða sjálfir fram úr málum, en það er fólki meinilla við. Tsjekov hermdi þetta eftir en ólíkt Turgenjev kvartaði hann ekki. Vissulega höfðu þeir rétt fyrir sér. Það er ekki hlutverk siðfræðingsins, frekar en það er hlutverk skáldsagnahöfundarins, að veita fólki leiðsögn í lífinu. Hlutverk hans er að láta það horfast í augu við málin, við svið mögulegra athafnleiða, að útskýra fyrir því hvað það gæti valið og hvers vegna. Hann ætti að leitast við að varpa ljósi á þá þætti sem um er að ræða, leiða í ljós eins marga möguleika og unnt er og hvað í þeim felst, sýna hvers eðlis hver möguleiki er, ekki út af fyrir sig heldur sem þáttur í víðara samhengi, kannski í heilum lífsmáta. Ennfremur ætti hann að sýna hvernig það að opna einar dyr kann að leiða til þess að opna eða loka öðrum dyrum – með öðrum orðum að leiða í ljós að sum gildi eru óhjákvæmilega ósamrýmanleg og stangast á – að þau eru oft ósammælanleg. Eða, til að orða það lítið eitt öðruvísi, að benda á tap og ávinning sem felst í einhverjum verknaði, heilum lífsmáta, oft ekki með tilliti til þess sem er mælanlegt heldur með tilliti til algildra reglna eða gilda sem ekki er ætíð hægt að samræma. Þegar siðfræðingur hefur á þennan hátt sett einhverja athafnaleið í siðferðilegt samhengi, staðsett hana á siðferðilegu landakorti, tengt eðli hennar, ástæðu og markmið við gildaklasann sem hún tilheyrir, dregið fram sennilegar afleiðingar hennar og það sem í henni felst og skiptir máli, komið með rök með henni eða móti, eða bæði með henni og móti, með allri þeirri þekkingu, skilningi, rökleikni og siðferðilegu skynbragði sem hann hefur til að bera – þá hefur hann unnið sitt starf sem heimspekilegur ráðgjafi. Það er ekki hlutverk hans að prédika eða hvetja, hrósa eða fordæma, einungis að útlista og upplýsa. Á þann hátt getur hann hjálpað, en þá er það hvers einstaklings eða hóps að taka sjálfstæða ákvörðun, í ljósi þess sem hann trúir og sækist eftir (en af því ljósi getur aldrei verið nóg). Heimspekingurinn getur ekki gert meira en að gera eins ljóst og honum er unnt hvað er í húfi. En það er að gera heilmikið.

Þessu má andmæla með því að flestir siðfræðingar og stjórnmálaheimspekimgar, frá Platóni og Aristótelesi til Kants og Mills og Moores, og virtustu hugsuðir okkar daga, hafi gert hið gagnstæða – það er að segja sagt mönnum hvernig á að greina gott frá vondu, rétt frá röngu og mælt með réttum formum mannlegrar breytni, og að þetta virðist einfaldlega ósamrýmanlegt skoðun minni að aðalhlutverk heimspekinga sé að meta rök með og móti og gera ljóst hvað felst í mögulegum valkostum, ekki að gefa til kynna hvað sé rétt. En þessu er ekki þannig háttað, því sé það sem ég segi hér að framan rétt hefur heimspekin tvíþættu hlutverki að gegna: að rannsaka og sérstaklega að gagnrýna forsendur gildisdóma sem menn fella eða sem felast í athöfnum þeirra. En hún fæst líka við aðrar, oft fyrsta stigs spurningar, nánar tiltekið spurningar sem fara hvorki í reyndarkörfuna né hina formlegu og gera það kannski aldrei. Þar sem mér virðast gildisspurningar tilheyra þessum milliflokki vil ég ekki að sá skilningur verði lagður í orð mín að gagnrýni á hinar almennu reglur slíkra fyrsta stigs spurninga eða dóma sé utan við svið heimspekinnar – því fer fjarri. Ég er aðeins að segja að heimspekingar séu ekki endilega betri í að leysa tiltekin hegðunarvandamál en aðrir menn, að því tilskildu að hinir síðarnefndu hafi nægilega skýran skilning á rökunum með og móti þeim afleiðingum eða meginreglum sem hið tiltekna vandamál vekur til umhugsunar um. Þetta jafngildir því í raun og veru að segja að hver sá sem reynir að finna almenn svör við vandamálum sem viðurkenndar raun- og rökvísindagreinar og aðferðir hafa ekki með að gera er að stunda heimspekilega iðju, hvort sem hann veit það eða ekki, og að tilraunir til að finna svör við spurningum um grundvallaratriði sem varða gildi eru sérstaklega gott dæmi um þetta.

Magee Löngu fyrr í samræðunni notaðirðu orðalagið ‘markmið lífsins’ og ég vísa til þess aftur vegna þess að það skiptir máli þegar hér er komið sögu. Ég er nokkuð viss um að flestir telja að heimspekin snúist einmitt um markmið lífsins og að heimspekingar séu menn, kannski óvenjulega vitrir eða gáfaðir menn, sem hugsa djúpt – og ræða látlaust hver við annan – um hver sé merking lífsins eða hver tilgangur þess ætti að vera. Að hvaða marki mundir þú segja að heimspekingar geri þetta í raun og veru?

Berlin Sumir gera það, að sjálfsögðu. Merkustu heimspekingarnir hafa alltaf gert það. En sjálfar spurningarnar eru fremur óljósar. Ef þú segir: „Hver er merking lífsins?“ vaknar næst sú spurning eða ætti að vakna (þetta hljómar eins og smásmygli eða undanbrögð en þarf ekki að vera það: maður getur ekki og ætti ekki að forðast hana): „Hvað áttu hér við með ‘merkingu’?“ Ég veit hver merking þessarar setningar er vegna þess að það eru reglur sem stjórna notkun orða í því skyni að tjá hugmyndir, vitneskju, leiðbeiningar eða hvað sem vera skal. Ég held að ‘merking lífsins’ í slíkum setningum merki í raun og veru ‘tilgangur lífsins’. Til voru grískir hugsuðir, undir áhrifum frá Aristótelesi, og miðalda- og endurreisnarhugsuðir, kristnir menn eða menn undir áhrifum frá kristninni – eða, ef út í það er farið, undir áhrifum frá gyðingdómi – sem voru alveg sannfærðir um að allt í heiminum hefði tilgang. Hver hlutur og hver skepna höfðu verið sköpuð með tilgang annaðhvort af Guði (eins og guðstrúarmenn töldu) eða af Náttúrunni (eins og grískir heimspekingar og lærisveinar þeirra töldu). Að skilja eitthvað var að skilja til hvers það var. Þú gast kannski ekki fundið svarið af þvi að þú varst ekki Guð (eða Náttúran) og ekki alvitur. En einhverja hluti vissirðu vegna þess að þeir voru veittir mönnum sem opinberuð sannindi eða vegna þess að þú varst gæddur einhvers konar frumspekilegri innsýn í markmiðin sem náttúrulegt var fyrir hluti eða skepnur að stefna að. Væri þessu þannig háttað var vit í spurningunni um merkingu eða tilgang. Þá sagðirðu: „Menn eru skapaðir, skulum við segja, til að tilbiðja Guð og þjóna honum“, eða: „Þeir eru skapaðir til að þroska alla hæfileika sína“ eða „til að öðlast hamingju“, eða hvert svo sem markmiðið var samkvæmt heimspeki þinni. Þú lýstir yfir einni kenningu um tilgang skapaðra og óskapaðra hluta eða manna, aðrir höfðu aðra skoðun á þessu, og um þetta var rökrætt í tvö þúsund ár. Á sautjándu öld rofnaði þessi hefð: Spinoza, til að mynda, neitaði að það væri vit í að spyrja hvort hlutir almennt hefðu nokkurn tilgang. Hlutir hafa tilgang ef við setjum þeim tilgang. Klukka hafði tilgang vegna þess að við bjuggum hana til í ákveðnum tilgangi – til að sýna tímann eða, væri hún gömul og ekki lengur nothæf en falleg, þá hafði hún tilgang af því að ég notaði hana til að skreyta vegginn minn: það var tilgangur hennar, settur henni af mér, og væri nákvæmara að lýsa honum sem mínum tilgangi. Og tæki einhver annar hana og notaði í einhverjum öðrum tilgangi þá breyttist tilgangur ‘hennar’ í samræmi við það. En ef þú spyrðir: „Hver er tilgangur kletts? Hver er tilgangur grasblaðs?“ er svarið kannski: „Enginn, þau eru bara þarna.“ Þú gætir lýst þeim, þú gætir fundið lögmálin sem stjórna þeim, en sú hugmynd að allt hefði tilgang var einfaldlega ekki sönn. Spurningin hvort allt hafi tilgang eða ekki er dæmigert heimspekilegt viðfangsefni sem heilmikið hefur verið rökrætt um frá báðum hliðum.

Ég held að flestir sem spyrðir væru nú á dögum um hvort þeir teldu allt sem er til hafa tilgang kynnu að efast um það. Ég held að flestir trúaðir kristnir menn, gyðingar eða múslimar kynnu að fallast á þá skoðun að jurtir og dýr, skulum við segja, hafi verið sköpuð til að þjóna mönnum og allir hlutir í heiminum til að þjóna Guði og því um líkt. En þessi skoðun er engan veginn skoðun allra. Hún er guðfræðilegt viðfangsefni, en hún er líka heimspekilegt viðfangsefni. Hvað gæti hugsanlega talist rök til stuðnings þeirri staðhæfingu að allt hafi tilgang? Hvað mundi vera rök gegn henni? Eða öllu heldur, er jafnvel nokkurt vit í að segja að allt hafi tilgang? Ef allt hefur tilgang ertu þá viss um að þú skiljir hvað orðið ‘tilgangur’ merkir? Venjulega er hægt að skilgreina eiginleika með tilliti til einhvers af sömu tegund sem skortir hann. Þú veist hvað blátt er vegna þess að þú berð það saman við eitthvað sem er öðruvísi á litinn – grænt, gult. Þú skilur hvað það er að hafa tilgang vegna þess að þú skilur líka hvað það merkir að hafa hann ekki. En hljótiallt sjálfkrafa að hafa tilgang vegna þess að þetta er hluti af því að það er það sem það er, vegna þess að ekki er hægt að hugsa sér að nokkuð, raunverulegt eða ímyndað, geti skort sinn sérstaka tilgang – hefur þá orðið ‘tilgangur’ nokkra skýra merkingu eða notkun, fyrst það gerir engan greinarmun á hlutum? Og sé tilgangur ekki altækur eiginleiki hvernig komumst við að því hvað hefur hann og hvað ekki? Þetta er nokkuð sem snertir mannlífið mjög djúpt – og er, vel á minnst, gott dæmi um mjög óakademísk rök sem skipta meginmáli fyrir mannlega hegðun. Því hafi allt tilgang fylgir margt mikilvægt í kjölfarið: svo sem raunveruleiki náttúrlegra réttinda, eðli mannlegra markmiða, hvað fólki leyfist og leyfist ekki að gera, hvað er mannlegt og ómannlegt, hvað er náttúrlegt og hvað ónáttúrlegt. Þegar til að mynda fólk talar um ónáttúrlegt barn – siðferðilega ófreskju – eða ónáttúrlegan löst, gefur það í raun og veru í skyn, með réttu eða röngu, að mannverur hafi verið skapaðar í ákveðnum tilgangi og þessi frábrigði gangi með einhverjum hætti gegn honum.

Magee Þú talar eins og fólk af þessari gerð sé að gefa í skyn að til sé fyrirbæri eins og náttúrlegur löstur.

Berlin Ég held það geri það. Það mundi halda að til væri fyrirbæri eins og náttúrlegur löstur. Ákveðnir lestir væru hugsaðir sem venjulegir, meiri eða minni háttar, lestir af því tæi sem allir hafa tilhneigingu til, en aðrir lestir væru afskræmdir, rangsnúningur á náttúruskipaninni sem hinn rétti tilgangur hluta er að halda uppi. Í vissum skilningi er þetta umræða um merkingu orða – en fáránlegt væri að segja að það snerist eingöngu um orðnotkun.

Magee Til er vel þekkt heimspeki í nútímanum – kannski sú áhrifamesta og sú sem víðast er rædd – sem gefur fólki öll svörin, leggur því til fullkomna skýringu á heiminum, sögunni og lífinu almennt, úthlutar öllu og öllum tilgang: nefnilega marxisminn. Heldurðu að þetta greini hann frá öðrum tegundum heimspeki?

Berlin Nei, ekki þetta, held ég, eða ekki þetta eitt sér. Höfundar mikilla frumspekikerfa reyndu líka að gera þetta: Platon, Aristóteles, stóumenn, Tómas frá Akvínó. Meðal seinni tíma hugsuða reyndu Hegel og Auguste Comte að fjalla um alla reynsluna. Munurinn er sá að marxisminn, þegar hreyfingin er tekin sem heild, vill afnema heimspeki í eldri merkingunni í þágu vísindanna um samfélagið sem hann gerir tilkall til að vera. Marxisminn gerir kröfu til að vera nákvæm vísindaleg kenning um söguna, um hvernig menn hafa þróast frá fyrstu tímum. Þessi þróun er sögð ráðast af vexti hæfileika mannsins til að framleiða efnisleg gæði. Framleiðsla – hver stjórnar framleiðslutækjunum – hráefni, verkfæri, menn, hvernig þetta er notað, hvað gert er við framleiðsluvöruna – þetta ákvarðar allt annað: dreifingu valds – hverjir eru hinir ríku og hinir snauðu, hver er herra og hver er þræll eða ánauðugur, hver er húsbóndi og hver þjónn eða bóndi eða verkamaður í verksmiðju, eða slátrari eða bakari eða kertastjakaframleiðandi – í raun og veru alla samfélagsgerðina. Efnahagsgerð samfélags er talin ákvarða lög þess, stjórnmál, listir, vísindi, ríkjandi viðhorf. Hvort sem fólk gerir sér grein fyrir þessu eða ekki hlýtur, samkvæmt þessari skoðun, allt sem menn hugsa, ímynda sér og vilja að endurspegla hagsmuni ráðandi stéttar. Þess vegna er hið fyrsta sem spyrja skal um hugmyndir, gildi og hugsjónir, sem vitanlega fela í sér og láta í ljós heil viðhorf, ekki, til að mynda, ‘eru þau sönn’? eða ‘eru þau góð í sjálfum sér’? heldur ‘hvaða hagsmunum eru þau til framdráttar’? Hvaða atvinnustétt koma þau að gagni? Sagan er eins og sjónleikur þar sem aðalpersónurnar eru atvinnustéttir sem eiga í sífelldu stríði. Allar hugmyndir, þar með taldar heimspekikenningar, eru vopn í þessu stríði. Fræðilega séð getur ekki verið nein hlutlægni, engin staða hafin yfir baráttuna sem leyfði manni að mynda sér yfirvegaða, óhlutdræga skoðun. Marxisminn er í grundvallaratriðum félagsfræðileg kenning, kenning um félagslega þróun mannskynsins, saga framfara sem hefur óhjákvæmilega í för með sér styrjaldir og byltingar og ósegjanlega grimmd og eymd, en leikrit sem endar vel. Sannleikur og lygi, rétt og rangt, fegurð og ljótleiki, ráðast af stéttarhagsmunum.

Af þessu leiðir að heimspeki sem sjálfstæð fræðigrein hlýtur að renna saman við vísindalega félagsfræði hugmynda – heimspekikenningar ber að skoða og meta með tilliti til hins almenna viðhorfs (hugmyndafræði) sem þær eru kjarninn í og þetta viðhorf ræðst svo aftur af þörfum þeirrar stéttar sem hefur þetta viðhorf. Heimspekingar á borð við Kant og Russell kunna að halda að þeir séu að leita hlutlægra svara – og jafnvel veita þau – við spurningum um eðli efnislegra hluta, orsakalögmálsins eða mannlegrar þekkingar og að þessi svör, ef þau eru sönn, séu eilíflega sönn og að leitin að þeim sé óhlutdræg. En haldi þeir þetta hafa þeir rangt fyrir sér. Slík vandamál koma upp sem hugsunarafurðir sérstaks ástands tækninnar á hverjum tíma og eignaréttartengsla, og þess vegna félagslegra tengsla, sem stafa af því. Þau leika sitt hlutverk í stéttastríðinu og ættu að skoðast í ljósi þessa stríðs. Heimspekileg vandamál er því á endanum ætíð hægt að afhjúpa sem vandamál verklegrar starfsemi. Að vera upptekinn af hreinni kenningu kann stundum að reynast einbert dulargervi, leið til að sneiða hjá félagslegum vandamálum af hálfu þeirra sem eru ekki reiðubúnir að horfast í augu við þau og kann þess vegna að reynast eins konar þegjandi samþykki til að varðveita óbreytt ástand – samfélag sem er stjórnað af léns- eða auðvaldsstofnunum. Strax og maður skilur þessa grundvallarstaðreynd, sem hefur ummyndandi áhrif, þarf hann ekki framar að vera fórnarlamb óþekktra afla sem hjá einföldum sálum valda hjátrú og skelfingu og hjá þeim veraldarvanari trúarlegum, frumspekilegum og heimspekilegum blekkingum. Nú hefur maður eignast vísindi – eins áreiðanleg, alltént fræðilega séð, og eðlisfræði, efnafræði eða líffræði: og þetta gerir manni kleift að skipuleggja líf sitt skynsamlega í ljósi þekkingar á félagslegu eðli mannsins og tengslum þess við hinn ytri heim.

Þetta er hin yfirgripsmikla krafa sem marxistar af öllum skoðanagerðum gera. Þeir líta á heimspekikerfi fortíðarinnar sem visst mörg viðhorf sem hafa komið fram í tímans rás – svokallaða ‘hugmyndafræði’ – sem rísa og hníga með þeim félagslegu skilyrðum sem geta þau af sér. Í þessum skilningi vilja marxistar losna við heimspekina og breyta henni í félagsvísindi, sem í staðinn fyrir að það leysi heimspekileg vandamál leysir þau upp í vandamál verklegrar starfsemi – umfram allt félagslegrar og pólitískrar starfsemi sem marxisminn þykist hafa fundið vísindaleg svör við. Fyrir mér er þetta minnst sannfærandi hluti allrar stefnuskrárinnar. Ég mundi segja að það kunni vel að vera rétt hjá marxistum að tískur í hugsun eigi sér rætur í félagslegri starfsemi, en ekki að vandamálin sem koma upp á meðan starfsemin varir hverfi með henni, enn síður að hún leysi þau. Rúmfræði kann að hafa sprottið af þörfum arkitekta í fornöld – pýramídasmiða eða fyrirrennara þeirra; efnafræði kann að eiga sér upphaf í göldrum. En vandamál um grannfræði og erfðalykla, eða vandamál á borð við „hvers konar yrðing er ‘ekki er hægt að finna ferning með sama flatarmál og hringur’?“ verða ekki leyst með verklegri starfsemi. Aðeins rökhugsun getur leyst fræðileg grundvallarvandamál – stærðfræðileg, heimspekileg, lagaleg, málvísindaleg, líffræðileg, eðlisfræðileg, efnafræðileg – og vinnur oft á háu sértekningarstigi, eftir því sem hvert mál krefst. Kreddan um einingu fræðilegrar kenningar og verklegrar starfsemi er án efa meiriháttar framlag til vissra þekkingarsviða – til að mynda félagslegra fræða – og kann að hafa róttækar afleiðingar fyrir siðfræði og fagurfræði; en hún er ekki (svo orð Marx sjálfs séu notuð) höfuðlykill að hinu fræðilega sviði eins og það leggur sig, jafnvel sem rannsóknaraðferð. Það kann að vera að Marx, sem skrifaði ekkert kerfisbundið verk í heimspeki, hafi ekki gert neitt tilkall til að hafa skapað allsherjarvísindi, ólíkt þekktustu lærisveinum hans, en fyrir þeim er marxisminn höfuðvísindi sem á lykilinn að öllum mannlegum rannsóknum þar sem aðferð díalektískrar efnishyggju er altæk og algild. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ekki trúverðugt í neinni hinna óteljandi túlkana orðsins ‘díalektískur’ hjá málsvörum marxismans.

Magee Geta marxismans til víðtækrar skírskotunar – sem fer nú kannski dvínandi en var einu sinni sterk – stafaði sumpart af því að hann bauð fram nokkur skýr og auðskilin líkön: sögulíkan og samfélagslíkan og þess vegna líkan af sambandi manns við mann. Án tillits til heimspekilegrar stöðu marxismans kem ég hér að spurningu sem mig langar til að bera upp við þig, spurningunni um hlutverk líkana í hugsun – og mikilvægi þess að við gagnrýnum þau, en það er heimspekileg iðja. Ég talaði hér áðan um hvernig eitt af verkefnum heimspeki og heimspekinga sé að útlista hugtök; en það er reyndar aðeins eitt verkefnið. Hugtök eru, ef svo má að orði kveða, byggingareiningar hugsunar okkar og vitanlega notum við ekki aðeins byggingareiningar í hugsun okkar heldur einnig byggingar. Þær eru oft kallaðar ‘líkön’. Til dæmis þegar talað er um samfélagið hugsa sumir um það eins og einhvers konar vél sem er sett saman af mönnum til að vinna tiltekin verk, þar sem allir hinir mismunandi hlutar sem hreyfast tengjast hver öðrum á tiltekna vegu. En aðrir hugsa um það sem einhvers konar lífveru, eitthvað sem vex líkt og lifandi hlutur, með sama hætti og eikartré vex upp af akarni. Hvort sem maður nú hugsar um samfélagið sem einhvers konar vél eða sem einhvers konar lífveru getur það haft gífurlegar hagnýtar afleiðingar vegna þess að maður fær þá – eftir því hvort þessara líkana er ráðandi í hugsun hans – umtalsvert ólíkar niðurstöður og viðhorf hvað snertir ríkisvald, stjórnmál og félagsleg vandamál yfirleitt, ekki síst hvað snertir tengsl einstaklings og samfélags. Maður hefur þá einnig ólíkt viðhorf til fortíðarinnar og til þess með hve margvíslegum hætti breytingar geta átt sér stað.

Það er vafasamt hvort við getum hugsað yfirleitt án þess að nota líkön, en hvað sem því líður hafa þau áhrif á, móta og takmarka hugsanir okkar á alls konar vegu sem við gerum okkur yfirleitt ekki grein fyrir. Eitt af hlutverkum heimspekinnar er, er það ekki, að afhjúpa líkönin sem leggja til hina (oft) duldu byggingu hugsana okkar og að gagnrýna þau?

Berlin Já, mér virðist þetta vera rétt. Marxisminn sjálfur er ágætt dæmi um það sem þú átt við. Marxisminn byggir líkön sín á einhverju sem líkist nokkuð þróunarkenningu sem hann beitir á alla hugsun og veruleika.

Ég hef lengi talið að saga stjórnmálaheimspekinnar sé að miklu leyti saga breytilegra líkana og að rannsókn þessara líkana sé mikilvægt heimspekilegt verkefni. Alloft er besta leiðin til að útskýra hluti fyrir fólki að nota einskonar hliðstæðu, fara frá hinu þekkta til hins óþekkta. Maður finnur að hann stendur frammi fyrir ráðgátukenndum spurningum: „Hvað er maðurinn?“, „Hvað er mannlegt eðli?“ Maður gæti byrjað með því að svipast um eftir hliðstæðum. Mannlegt eðli líkist nokkuð – hverju? Segjum að við lítum á dýrafræði, við vitum heimikið um hana; eða grasafræði, við vitum heilmikið um hana líka. Hvers vegna skyldi ekki tekið á spurningum um mannlegt eðli með sama hætti? Við erum á leið að grundvalla almenn vísindi um allar skepnur í náttúrunni – vísindi um lífið í öllum myndum þess – eða það var allútbreidd skoðun, að minnsta kosti þegar á átjándu öld – hvers vegna ættum við þá að gera ráð fyrir að mannverur séu öðruvísi? Dýrafræðingar hafa þróað aðferðir til að kanna, til dæmis, samfélög bjóra eða býflugna. Með tímanum, lýsti Condorcet yfir, munum við hafa vísindi um manninn byggð á sömu traustu náttúrufræðilegu lögmálunum.

Það var Whitehead, held ég, sem sagði að heimspekin væri einungis neðanmálsgreinar við Platon, vegna þess að það var Platon sem bar upp flestar stóru spurningarnar sem við höfum verið að fást við æ síðan. Kannski hafði Russell rétt fyrir sér í því að veita Pýþagorasi viðurkenningu fyrir sumt af þessu. Þessir grísku heimspekingar hugsuðu sér stærðfræðina sem dæmi um þekkingu í sinni tærustu mynd eða þekkingarviðmið og töldu þess vegna að hægt væri að útskýra alheiminn rétt með stærðfræðinni einvörðungu. Veruleikinn var stærðfræðilega skipulögð bygging þar sem allt passaði nákvæmlega, eins og til að mynda í rúmfræðinni. Aristóteles kaus heldur líffræðilegt líkan af þróun og fullkomnun. Stóumenn hölluðust að eðlisfræðilegum líkingum eða hliðstæðum. Hin gyðing-kristilega hefð notar hugmyndina um skyldleika – um fjölskylduna: um samband föður við börn sín og samband þeirra við hann og hvert annað – til að varpa ljósi á samband Guðs við manninn og samband manns við mann. Á sautjándu öld reyndu menn að útskýra eðli samfélagsins út frá lagalegum líkönum – þar á hugmyndin um samfélagssáttmálann sem hin félagslegu grunntengsl rætur sínar. Nýtt líkan er tekið upp vegna þess að það er talið varpa nýju ljósi á eitthvað sem hingað til var hulið. Mönnum finnst gamla líkanið ekki hæfa reynslu okkar í raun og veru, til að mynda stigveldislíkan miðalda þar sem hin eilífa skipan alheimsins var hugsuð sem pýramídi með Guð efst og lægri stéttir sköpunarinnar neðst, þar sem allar skepnur og dauðir hlutir hafa sitt eigið ákveðna hlutverk sem þeim er úthlutað af Guði – og volæði er einskonar misgengi, til marks um að maður misskilji stöðu sína í hinni guðlegu skipan. Erum við í raun sannfærð um að það eitthvað eiginlega frábært við konunga, eða hina miklu foringja, eða lénsherra, sem aðra menn skorti um aldur og eilífð? Er þetta í samræmi við það sem við vitum um eðli manna og tengsl þeirra? Hvað réttlætir þá stjórnmálaskipan sem við föllumst á sem skynsamlega – með öðrum orðum, hvert er svarið við spurningunni hvers vegna einn maður ætti að hlýða öðrum? Vissulega er samþykki – látið í ljós með hugmyndinni um samfélagssáttmálann – eini réttmæti grundvöllur félagslegs og pólitísks fyrirkomulags, eða hvað? Þannig frelsar nýja líkanið mann frá áþján hins gamla.

En þá er þess að gæta að þetta nýja líkan skyggir svo aftur á sannleik sem gamla líkanið afhjúpaði – starfsskyldu einstaklinga og hópa: gilda, starfsgreina, fagsviða og stétta – til að leggja sitt af mörkum í almannaþágu, samfélagskenndina, tilfinninguna fyrir friðsamlegri samvinnu í þjónustu sameiginlegra markmiða – andstætt við sókn í persónulegan ávinning sem býsna oft var hugsaður á efnishyggjulegum nótum, sem kenningin um samfélagssáttmálann virtist hafa smættað félagsleg bönd, hollustu í stjórnmálum og persónulegt siðferði, niður í. Þess vegna er samfélagssáttmálalíkanið svo aftur leyst af hólmi af enn öðru líkani byggðu á hliðstæðu við líf jurta og dýra sem frelsar menn frá hinum vélgengishyggjulega forvera sínum. Og á eftir þessu kemur enn annað byggt á hugmyndinni um frjálsan og sjálfkrafa listrænan sköpunarmátt sem fyllir eldmóði menn og samfélög sem mótuð eru af afburðaleiðtogum eins og listaverk eru sköpuð af ljóðskáldum, málurum og tónskáldum. Stundum er líkanið samsett úr nokkrum slíkum hugmyndum – erfða-mannfræðilegum eða lífrænum-sálfræðilegum og svo framvegis. Hver er skýringin á þessari runu viðmiða eða líkana, hvert með sitt samsvarandi tungutak, ímyndir og hugmyndir sem eru í senn merki um og þættir ekki aðeins í fræðilegri kenningu heldur einnig í verklegri starfsemi og umbreyta hvoru tveggja stundum á byltingarkenndan hátt? Hluta af svarinu við þessari mikilvægu en óljósu spurningu er að finna í þeirri staðreynd að á ýmsum tímum í sögunni verða til mismunandi þarfir og vandamál sem geta vissulega valdið vandræðum: mönnum finnast gömlu skoðanirnar hvorki útskýra það né leggja fram lausnir á því sem þeim hluta samfélagsins sem er næmastur og virkastur í siðferðilegum og pólitískum efnum þykir sérstaklega þjakandi. Orsakir þessa ferlis kunna oft að vera efnahagslegar, jafnvel þótt það sé ekki öll skýringin eins og marxistar álíta. En hverjar svo sem þær eru birtist ferlið á meðvituðu stigi í því að breyta siðferðilegum og pólitískum kenningum og hugsjónum sem til grundvallar liggja hin breytilegu ‘höfuðlíkön’ af mönnum og samfélögum sem menn hafa meðvitað og ómeðvitað hliðsjón af í hugsun og athöfn.

Magee Það virðist furðulegt að svo margir sem vilja líta á sig sem venjulega, raunsæja, hagsýna menn skuli vísa á bug gagnrýninni rannsókn á líkönum sem óhagnýtri iðju. Dragi maður ekki fram í dagsljósið forsendur hugsunar sinnar verður maður einfaldlega fangi ríkjandi rétttrúnaðar í öllum málum. Þannig verður líkan kynslóðar manns eða líkan líðandi stundar fangelsi manns án þess að hann geri sér einu sinni grein fyrir því.

Berlin Vissulega.

Magee Í öllu falli, hvað gæti hugsanlega verið hagnýtara en áhrif sumra þeirra hugmynda sem við höfum þegar talað um? Þær hafa haft bein og augljós áhrif á amerísku byltinguna, frönsku byltinguna og rússnesku byltinguna, svo dæmi séu nefnd. Öll trúarbrögð heimsins og allar marxísku ríkisstjórnirnar, svo aðrar séu ekki nefndar, eru dæmi um hvernig heimspekilegar hugmyndir geta haft og hafa bein hagnýt áhrif á mannverur. Því er sú skoðun að heimspekilegar hugmyndir séu einhvern veginn úr tengslum við raunverulegt líf sjálf úr tengslum við það. Hún er með öllu óraunsæ.

Berlin Ég er alveg sammála. Haldi venjulegt fólk annað þá er það vegna þess að sumir heimspekingar hafa stundum notað óþarflega torskilið mál í umfjöllun sinni um þessi efni. En auðvitað má ekki kenna þeim alfarið um þetta. Verði maður virkilega niðursokkinn í einhverja grein kemst maður ekki hjá því að verða einnig niðursokkinn í smáatriðin. Enda þótt hinir miklu heimspekingar hafi ætíð talað þannig að þeir gátu náð til venjulegs fólks – svo að það hefur alltént í einhverri einfaldaðri útgáfu skilið kjarna máls þeirra – þá hefur minni háttar heimspekingum stundum hætt til að verða of uppteknir af smáatriðum greinarinnar. Russell sagði einu sinni eitthvað sem mér virtist mjög skarplega athugað – og kom mér nokkuð á óvart að það skyldi koma frá honum: að aðalhugmyndir hinna miklu heimspekinga séu í meginatriðum einfaldar. Útfærsluna í smáatriðum er ekki að finna í því sem ég hef kallað, kannski með því að einfalda um of, líkön þeirra af heiminum, ekki í grunnmynstrunum sem þeir skyggndu eðli og líf manns og heims með, heldur í vörn þeirra fyrir þessum hugmyndum gegn raunverulegum eða ímynduðum mótbárum. Þar koma vitanlega heilmikil hugkvæmni og mikið tæknilegt orðfæri til skjalanna. En þetta er aðeins hinn flókni vopnabúnaður, stríðsvélarnar á brjóstvirkjunum, til að bægja frá öllum hugsanlegum andstæðingum. Virkið sjálft er ekki flókið: rökleiðsla, máttur röksemda, snýst að jafnaði um árás og vörn, en er ekki hluti af sjálfri aðalhugmyndinni – sem er skýr, auðskilin og tiltölulega einföld. Enginn sem les þá með athygli getur verið í miklum vafa um hver sé kjarninn í hugmyndum Platons eða Ágústínusar, Descartes eða Lockes, Spinoza eða Kants um heiminn. Og þetta á alveg eins við um flesta heimspekinga samtímans sem njóta einhverrar virðingar: á grundvallarsannfæringu þeirra leikur sjaldan vafi og hún er skiljanleg venjulegu fólki. Hún er ekki torskilin eða einungis aðgengileg sérfræðingum.

Gunnar Ragnarsson þýddi

Birt á Heimspekivefnum 21. maí 2004.

 

Tilvísanir

1. Viðbótarfróðleikur um viðmælanda Magees: – Auk þess að njóta mikillar virðingar fyrir víðtæka þekkingu í hugmyndasögu er Isaiah Berlin (1909–1997) í umtalsverðu áliti sem stjórnmálaheimspekingur. Í þeirri grein heimspekinnar mun hann vera best þekktur fyrir greinarmuninn sem hann gerði á neikvæðu og jákvæðu frelsi í ritgerðinni Two Concepts of Liberty (Tvö hugtök um frelsi) sem kom út 1959 og birtist á íslensku árið 1994 í ritinu Heimspeki á 20. öld (Ritstj. Ólafur Páll Jónsson og Einar Logi Vignisson, Heimskringla gaf út). Einnig er fræg ritgerð hans Historical Inevitability (Sögulegur óumflýjanleiki) frá 1954. [þýð.]

 

« Til baka

Ludwig Wittgenstein

eftir Gilbert Rylei

Frumlegur og áhrifamikill heimspekingur, Ludwig Wittgenstein, Austurríkismaður sem að lokum gerðist breskur ríkisborgari, kom til Englands skömmu fyrir heimsstyrjöldina fyrri til að leggja stund á verkfræði. Gagntekinn af rökfræðilegum og heimspekilegum vandamálum um eðli stærð­fræðinnar, fluttist hann árið 1912 til Cambridge til að starfa með Bertrand Russell. Í heims­styrjöldinni sem í hönd fór þjónaði hann í austurríska hernum og varð að lokum stríðsfangi. Á þessu tímabili skrifaði hann sína einu bók, hinn fræga Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræði­leg ritgerð um heimspeki) sem kom út árið 1922 í heldur óáreiðanlegri enskri þýðingu. Hann kenndi í austurrískum þorpsskóla um nokkurt skeið og komst þá í nána heimspekilega snertingu við nokkra af leiðandi félögum í Vínarhringnum. Árið 1929 sneri hann til Cambridge þar sem mikilvægi hugmynda hans hafði fljótt hlotið viðurkenningu. Hann varð prófessor árið 1939. Hluta af seinni heimsstyrjöldinni var hann sjúkraliði við Guy’s Hospital (í Lundúnum). Árið 1947 sagði hann upp prófessorsstöðunni. Auk Tractatusar birti hann aðeins eina grein um ævina.
Síðustu tuttugu árin birti hann ekkert, að því er ég best veit; sótti engar ráðstefnur í heimspeki; hélt enga fyrirlestra fyrir utan Cambridge; átti ekki bréfaskipti við neinn um heimspekileg efni og var andvígur því að jafnvel glósur úr fyrirlestrum sínum og umræðum í Cambridge kæmust í um­ferð. Hann var engu að síður óþreytandi að ræða heimspekileg málefni við áhugasama nemend­ur og nokkra starfsfélaga, hagfræðinga, stærðfræðinga, eðlisfræðinga og heimspekinga. Þrátt fyrir þetta hafa öldur frá smátjörninni hans sem hann gætti af svo miklu kappi breiðst út um heim­spekilega hugsun mikils hluta hins enskumælandi heims. Heyra má heimspekinga sem aldrei hittu hann – og fáir okkar gerðu það – tala á hans nótum um heimspeki; og nemendur sem kunna varla að stafa nafnið hans fitja nú upp á nefið út af hlutum sem honum líkaði illa lyktin af. Hvaða máli hefur hann þá skipt fyrir heimspekina?
Það er tilgangslaust að reyna að segja fyrir um dóm sögunnar yfir samtíðarmanni. Ég verð að reyna að gera þetta um mann sem hefur forðast alla birtingu á hugmyndum sínum síðastliðin þrjátíu ár. Það sem ég býð upp á er því mengi skoðana og túlkana á því sem er að hluta til ekki nema ómur af einberu bergmáli.
Frá tímum Lockes til Bradleys höfðu heimspekingar rökrætt viðfangsefni sín eins og um sálfræðileg efni væri að ræða. Vissulega voru vandamál þeirra oft ósvikin heimspekileg vanda­mál en þeir fjölluðu um þau á sálfræðilegum forsendum. Og þá sjaldan að þeir spurðu sig hvað þeir væru að rannsaka, áttu þeir vanda til að segja að þeir væru að rannsaka hvernig hugurinn starfar alveg eins og náttúruvísindamenn rannsaka efnishluti. Þau ‘hugvísindi’ sem þeir ræddu byggðust ýmist á raunhyggju eða hughyggju, eftir því hvort þeir voru, í grófum dráttum, meira undir áhrifum frá efnafræði en guðfræði eða öfugt.
Fyrir hálfri öld voru heimspekingar þó farnir að koma fótunum upp úr þessum sálfræðilegu stígvélum. Því nú var farið að stunda sálfræði í tilrauna- og lækningastofum, svo að stofusálfræði varð tortryggileg. Sú staðreynd skipti þó enn meira máli að rökfræðilegar ógöngur höfðu nýlega verið leiddar í ljós við sjálfar rætur hreinnar stærðfræði. Stærðfræðingar þörfnuðust líflína sem þeir gátu ekki útvegað sjálfir. Rökfræðingar urðu að ráða fram úr rökfræði stærðfræðinnar og þeir gátu ekki byggt hana á uppgötvunum raunvísinda, síst svo þokukenndra vísinda sem sál­fræðinnar. Um hvað fjalla rökfræði og heimspeki ef þær byggjast ekki á sálfræðilegum rann­sóknum?
Á fyrstu tuttugu árum þessarar aldar gáfu margir heimspekingar annað svar við þessari spurningu, platonskt svar. Heimspekin rannsakar ekki hugann og því síður efnishluti; hún rann­sakar íbúa þriðja sviðs, þar sem búa sértekningar eða hugtök, möguleikar, eigindir, tímalausar alstæður, tölur, sannindi, ósannindi, gildi og merking. Þessi hugmynd gerði þeim sem hana að­hylltust kleift að halda til streitu að heimspekin væri vísindi um eitthvað en neita því að hún ætti sér eitthvert venjulegt viðfangsefni; að verja sjálfstæði hennar sem fræðigreinar en neita því að hún væri bara ein vísindagrein meðal annarra; að gefa henni stöðu vísindagreinar en viðurkenna að hún væri ólík vísindunum. Spurningin: „Um hvað fjalla heimspeki og rökfræði?“ fékk nýtt svar, en þó svar með uggvænlega draumkenndum blæ. Það var svar þeirra Freges og Russells.
Í Vín stóðu hugsuðir frammi fyrir svipaðri spurningu, en frá gagnstæðu sjónarhorni. Í hinum enskumælandi heimi hafði verið gengið út frá því að heimspekin væri hugvísindi og teldist því systir eðlisfræði, efnafræði, dýrafræði o.s.frv., en í hinum þýskumælandi heimi var aftur á móti almennt gengið út frá því að heimspekin væri ekki systir heldur móðir annarra vísindagreina − jafnvel kennslukona. Einhvern veginn höfðu heimspekiprófessorar þar slíkt kennivald að þeir gátu sagt jafnvel vísindamönnunum fyrir verkum. Að sjálfsögðu voru heimspekingar rétta fólkið til að skera úr um hvort kenningar Darwins, Freuds og Einsteins væru sannar.
Seint á nítjándu öld hafði Mach gert uppreisn gegn þessari skoðun að frumspekin væri kennslukonuvísindi. Upp úr 1920 varð þessi uppreisn að byltingu. Vínarhringurinn vísaði á bug þeirri goðsögn að frumspeki gæti leyst úr spurningum í eðlisfræði, líffræði, sálfræði eða stærð­fræði. Frumspekin væri hvorki kennslukona vísindanna né systir þeirra; hún væri alls ekki vísindi. Afstæðislögmál Einsteins er dæmið sem sýnir þetta best. Tilkall prófessora í heimspeki til að hrekja þetta lögmál var tilhæfulaust. Vandamál í vísindum verða aðeins leyst með vísindalegum aðferðum og þær eru ekki aðferðir heimspekinga.
Í Englandi var spurningin því þessi: Hverjir eru þeir sérstöku eiginleikar sem raunvísindin skortir en rökfræði og heimspeki hafa til að bera þannig að skírskota verður til þeirra þegar hin fyrrnefndu lenda í ógöngum? Í Vín var spurningin þessi: Að því gefnu að heimspekingar geta ekki ráðið fram úr vísindalegum vandamálum, hverjir eru hinir röklegu kostir vísindalegra aðferða sem heimspekilegar aðferðir skortir? Andstæðan milli heimspeki og vísinda var dregin upp á báðum stöðum. Í Vín þar sem sjálfstæði vísindanna var vefengt var markmiðið að afhjúpa kröfur heim­spekinnar sem kennslukonuvísindi. Í Englandi, þar sem sjálfstæði vísindanna var ekki að ráði dregið í efa, að undantekinni sálfræði, var andstæðan dregin upp til að fá fram hin jákvæðu ein­kenni rökfræði og heimspeki. Í Vín var litið á heimspekina sem sníkjudýr sem sygi blóð; í Englandi sem læknandi blóðsugu.
Spurningin kom í sinni ensku mynd til Wittgensteins. Og því væri ekki hægt að telja hann til rökfræðilegra raunhyggjumanna. Rökdeilur þeirra voru ekki hans, og leit hans að hinu jákvæða hlutverki rökfræði og heimspeki varð ekki þeirra fyrr en löngu seinna. Hann var undir áhrifum frá Frege og Russell, ekki frá Mach. Sjálfur hafði hann ekki fundið fyrir hinni dauðu hönd aka­demískrar heimspeki sem var dragbítur á jafnvel vísindalega hugsun í Þýskalandi og Austurríki og er það enn. Þvert á móti hjálpaði hann til við að festa hinar rökfræðilegu líflínur fyrir stærð­fræðingana.
Ég vil sýna hvernig Wittgenstein umbreytti og svaraði því sem var ætíð meginspurning hans: „Hvað geta heimspekingar og rökfræðingar gert og hvernig ættu þeir að gera það?“
Ég hef sagt að eftir langa fangelsisvist í sálfræðilegu málfari hafi heimspekin um nokkurt skeið verið endurhýst í platonsku málfari. En það var aðeins skammtímahæli, því ekki leið á löngu þar til eitthvað vakti heimspekingana til vitundar um hið draumkennda eðli hins nýja hælis sem þeir höfðu reynt að láta sér standa á sama um. Russell komst að því í rannsóknum sínum á frum­reglum stærðfræðinnar að hann gat ekki með góðu móti komist hjá að búa til staðhæfingar sem höfðu þann rökfræðilega óþægilega eiginleika að þær voru sannar einungis að því tilskildu að þær væru ósannar og ósannar einungis að því tilskildu að þær væru sannar. Sumar þessara staðhæfinga sem kollvörpuðu sjálfum sér virtust vera innbyggðar í sjálfan grunninn sem átti að gera stærðfræðina áreiðanlega. Það var meiriháttar leki í þurrkvínni sem þeir Frege og Russell höfðu smíðað fyrir stærðfræðina.
Russell fann bót fyrir lekann. Til grundvallar hinum þekkta greinarmuni á sannleik og ósannindum liggur róttækari greinarmunur á merkingu og merkingarleysi. Bæði sannar og ósannar staðhæfingar hafa merkingu, en sumar yrðingar, með orðum og byggingu staðhæfinga, eru hvorki sannar né ósannar heldur merkingarlausar – og ekki merkingarlausar vegna orðalags eða málfræði, heldur af röklegum ástæðum. Staðhæfingarnar sem kollvörpuðu sjálfum sér voru af þessari gerð, hvorki sannar né ósannar heldur merkingarleysur í mynd staðhæfinga. Takið eftir að það er aðeins um fyrirbæri eins og samsettar yrðingar sem hægt er að spyrja hvort hafi merkingu eða séu merkingarlausar. Þeirrar spurningar væri ekki hægt að spyrja um hugræn ferli eða um platonska hluti. Rökfræðin getur því ekki fengist við þetta, heldur fæst hún við það sem hægt er eða ekki hægt að segja á merkingarbæran hátt. Viðfangsefni hennar er tungumálið enda þótt verkefni hennar séu alls ekki verkefni í málvísindum.
Í Tractatusi Wittgensteins er þessi afmarkaða niðurstaða alhæfð. Öll heimspeki og öll rökfræði eru rannsóknir á því hvað ljær einhverju sem sagt er merkingu eða gerir það merkingarlaust. Vísindin miða að því að segja sannleikann um heiminn; heimspekin miðar að því að leiða aðeins í ljós rökgerð þess sem hægt er að segja satt eða jafnvel ósatt um heiminn. Þetta er ástæðan fyrir því að heimspekin er hvorki systir vísindanna né foreldri. Hlutverk hennar er ekki að fjölga vísindalegum staðhæfingum, heldur að leiða í ljós rökgerð þeirra.
Wittgenstein byrjar með því að athuga hvernig setning, kort, skýringarmynd eða líkan geta lýst eða jafnvel gefið talsvert villandi lýsingu á staðreyndunum. Orðin ‘London’ og ‘suður’ ein sér eru ekki sönn eða ósönn. Og ekki getur einstakur punktur á pappírsörk verið nákvæmt eða ónákvæmt kort. Setningin „London er fyrir norðan Brighton“ er sönn. Sömu orðin í annarri röð svo sem „Brighton er fyrir norðan London“ eru ósönn. Í röðinni „Suður er London fyrir Brighton“ eru þau hrærigrautur sem er hvorki sannur né ósannur heldur merkingarleysa. Eigi punktar á blaði að gefa rétta eða ranga lýsingu á því í hvaða átt Brighton er frá London þarf að vera punktur fyrir hvora borg um sig og það þarf að setja þá samkvæmt einhverri venju um áttastrikin á kompásnum. Eigi staðhæfing, kort eða skýringarmynd að vera rétt eða röng þarf fjölda orða eða merkja; en fleira þarf til, einingarnar verður að setja saman á ákveðna vegu. Og til grundvallar því að staðhæfingin eða kortið gefi sanna lýsingu að hluta vegna þess hvernig einingunum er raðað saman liggur sú staðreynd að það ræðst algerlega af þeim almenna hætti sem einingarnar eru settar saman á hvort útkoman getur talist merkingarbær staðhæfing eða kort. Sumir samsetningar eru útilokaðar. Hvaða reglur útiloka þær?
Í Tractatusi komst Wittgenstein að þeirri óþægilegu niðurstöðu að þessar samsetningarreglur er ekki hægt að setja fram á merkingarbæran hátt. Tilraun til að segja í hverju munurinn á merkingarbæru og merkingarlausu tali sé fólginn er að fara yfir skilin milli merkingarbærs og merkingarlauss tals. Heimspekilegar vangaveltur geta reyndar opnað augu okkar fyrir þessum formgerðarreglum en þær geta ekki endað með merkingarbærri framsetningu á þeim. Heim­spekin er ekki vísindagrein; hún getur ekki gefið af sér vísindakenningar. Samt sem áður getur hún verið leikin eða klaufsk, vel heppnuð eða misheppnuð. Viðleitnin lætur okkur sjá það sem við þurfum að sjá. Líkt og gerist í námi í tónlist eða tennis leiðir nám í heimspeki ekki til þess að við getum sagt hvað við höfum lært, þó við getum, eins og í tónlist og tennis, sýnt hvað við höfum lært.
Nú er það rétt að heimspekilegum skýrleika er náð með því að leggja mat á rökfærslur frekar en með því að setja fram kenningar. En það er rangt að allt heimspekilegt tal sé merkingarlaust tal. Wittgenstein hafði sjálfur sagt mjög áhrifaríka hluti og að tala á áhrifaríkan hátt er ekki að bulla. Hvað hafði leitt hann til þessarar óþægilegu niðurstöðu? Þegar hann skrifaði Tractatus var hann, að ég hygg, undir of miklum áhrifum frá hliðstæðunum sem hann dró milli þess að segja hluti og búa til kort, skýringarmyndir og líkön. Vissulega er það svo að eigi merki á blaði að skrá sótthita eða töluð orð að mynda merkingarbæra staðhæfingu verður að raða merkjunum og orðunum samkvæmt reglum og venjum. Því aðeins að merkingarnar á grafpappír hjúkrunar­konunnar séu á kerfisbundinn hátt tengdar við aflestrana á hitamælinum sem teknir eru hver af öðrum daglega geta þær gefið rétta eða þess vegna ranga mynd af breytingunum á sótthita sjúklingsins. Því aðeins að orðum sé raðað samkvæmt ýmsum flóknum almennum reglum verður útkoman sönn eða ósönn staðhæfing.
Setjum nú svo að við bæðum hjúkrunarkonuna að sýna á annarri pappírsörk, ekki ganginn í sótthita sjúklingsins, heldur reglurnar um að tákna hitann í honum með merkjum á grafpappír, þá yrði hún ráðþrota. Og ekki heldur er hægt að kortleggja sjálfar reglurnar og venjurnar sem gilda um kortagerð. Wittgenstein hélt því fram á sambærilegan hátt í Tractatusi að heimspekingnum eða rökfræðingnum sé ómögulegt að segja hvað það er sem gerir sagða hluti merkingarbæra eða merkingarlausa. Hann getur sýnt það en ekki sagt það. Eftir Tractatus áttaði hann sig á því að enda þótt það að segja hluti líkist því að draga upp mynd eða kortleggja hluti, en það var í því samhengi sem hann dró líkinguna upphaflega, þá er það ekki að öllu leyti sambærilegt. Rétt eins og hjúkrunarkonan getur sagt, en þó ekki sýnt, hvernig sótthitakortið gefur rétta eða ranga mynd af hitanum í sjúklingnum þannig getur heimspekingurinn sagt hvers vegna, til dæmis, staðhæfing vísindamanns hefur merkingu eða er merkingarlaus. Það eitt sem væri fáránlegt mundi vera setning sem þættist gefa umsögn um eigin merkingu eða merkingarleysi.
Tractatus hefur tvö ólík en tengd markmið. Hið fyrra, sem ég hef lýst í grófum dráttum, er að sýna bæði hvað heimspekin er ekki, nefnilega einhver tegund vísinda, og hvað hún er, nefnilega starfsemi sem kannar rökgerð þess sem sagt er, til að mynda í einhverri vísindakenningu. Hið síðara, sem ég ætla ekki einusinni að reyna að lýsa, er að sýna hvers konar rannsókn form­rökfræði er. Hér kem ég að almennu atriði um Tractatus. Megináhugi Wittgensteins hafði frá upphafi verið á rökfræði stærðfræðinnar og þar af leiðandi á hinum rökfræðilegu þverstæðum sem voru lekinn mikli í þurrkvínni sem Frege og Russell höfðu smíðað. Þess vegna hneigðist hann til og var til þess búinn að þröngva öllu sem hægt er að segja á merkingarbæran hátt inn í hin fáu staðhæfingamynstur sem rökfræði stærðfræðilegra staðhæfinga vinnur með. Hann notaði íðorðaforða hennar, táknmál og reikniaðgerðir við könnun sína á ýmsum heimspekilegum við­fangsefnum og, umfram allt, á meginviðfangsefni sínu, sjálfu eðli heimspekilegrar hugsunar. Þar af leiðandi er Tractatus í ríkum mæli lokuð bók fyrir þeim sem skortir þennan tæknilega búnað. Fáir geta lesið bókina án þess að skynja að eitthvað mikilvægt sé að gerast, en meira að segja fáir sérfræðingar geta sagt hvað það er.
En þetta eru ekki sögulok. Kannski er þetta aðeins formálinn. Því eftir að hafa verið óvirkur í nokkur ár sneri Wittgenstein sér aftur að heimspekinni. Kenning hans eftir það er áberandi ólík því sem hann kenndi í Tractatusi. Hún hafnar meira að segja hluta Tractatusar.
Í fyrsta lagi þröngvar hann ekki öllum yrðingum inn í hin fáu mót rökfræði stærðfræðinnar. Þessu fylgir uppreisn gegn mótum af öllum gerðum. Reglur rökfræðikerfa og sértekningar heim­spekikenninga eru eins og skór kínverskra kvenna sem aflöguðu fætur þeirra og meinuðu þeim að ganga á þeim. Heimspekileg útlistun er eftir sem áður rannsókn á yrðingum en hún er ekki lengur rannsókn gegnum raufarnar á stensli rökfræðings eða dilkadráttur eftir flokkunarkerfi háskólanna. Málfar Wittgensteins er ekki lengur eins og Russells að ræða við stærðfræðinga um torskilin efni heldur eins og Sókratesar að ræða hversdagslegar hugmyndir við óuppfrædda unga menn. Hann einskorðar sig heldur ekki lengur við að útlista staðhæfingar vísindanna. Hann kannar nú rökgerð alls þess sem við öll segjum líkt og Moore.
Í öðru lagi telur hann ekki lengur að heimspekingar séu dæmdir til að reyna að segja hið ósegjanlega, þó ég telji að aðalviðfangsefni hans sé áfram vandamálið um eðli, verkefni og aðferðir heimspekinnar. En nú forðast hann að segja nokkuð almennt um eðli heimspekinnar, ekki vegna þess að það væri að segja hið ósegjanlega, heldur vegna þess að það væri að segja eitthvað að hætti háskólamanna og þess vegna eitthvað sem gerði hlutina óskýra. Í heimspeki gera alhæfingar hlutina óskýra. Það á að kenna eðli heimspekinnar með því að sýna raunveruleg dæmi um hana. Eins og læknisfræðinemi lærir skurðlækningar með því að fylgjast með og framkvæma aðgerðir á dauðum og lifandi viðföngum þannig lærir heimspekinemi hvað heim­speki er með því að fylgjast með og framkvæma aðgerðir á einstökum talsmátum sem leiða okkur í ógöngur. Þannig flakkaði Wittgenstein, að því er virðist stefnulaust, því að hann setti ekki fram nein markmið, frá einni áþreifanlegu ráðgátunni til bræðra hennar, frænda og frænkna, foreldra og félaga, og sýndi hvað gerir þær ruglandi og hvernig skuli leysa þær – sýndi en sagði ekki; fór gegnum lausnaskrefin en tók ekki saman handbók um þau; kenndi færni, en mælti ekki fyrir um kenningu.
Eina uppáhaldsaðferð hans mætti kalla ‘tesmökkunaraðferðina.’ Tesmakkarar slengja ekki sýnishornunum saman í tvo eða þrjá allsherjarflokka. Öllu heldur smakka þeir á hverju sýnishorni fyrir sig og reyna að staðsetja það við hliðina á næstu nágrönnum þess, og það er ekki aðeins með tilliti til eins aðgreinanlegs eiginleika heldur út frá margvíslegum ólíkum eiginleikum. Þannig sýndi Wittgenstein dæmigerða notkun tiltekinnar yrðingar með því að bera hana saman við aðrar sem stig af stigi víkja frá henni í ýmsu tilliti og í ýmsar áttir. Hann sýndi hvernig sláandi líkindi geta farið saman með mikilvægum mun sem venjulega er ekki tekið eftir og hvernig við freistumst til að reiða okkur um of á það sem er líkt með þeim og ruglumst því í ríminu vegna hins dulda munar á þeim.
Enda rannsaka heimspekingar yrðingar ekki af handahófi. Leitinni að rökgerð þeirra er þröngvað upp á okkur af þeirri staðreynd að við erum þegar lent í ófyrirséðum flækjum. Hvers vegna lendum við í ógöngum? Ég set hér fram upphugsað dæmi. Við stöndum okkur að því að tala að líkt og lest hægir á sér og nemur staðar þannig kynni tíminn sjálfur einn góðan veðurdag að hægja á sér og stöðvast. Við skiptum lestinni í vagna og vögnunum í klefa. Við skiptum mánuði í vikur og vikum í daga. Þegar lest fer fram hjá mér eru nokkrir vagnar komnir fram hjá, aðrir eru enn ókomnir og ákveðinn klefi í einum vagni er beint á móts við mig. Ég horfi á farþegana í honum gegnum gluggann. Svona hlýtur tíminn að vera. Síðasta vika er farin, næsta vika er enn ókomin en ég get horfst á við farþegana í Núinu. Þar sem lestir hægja alltaf á sér og stoppa einhvers staðar, hvað lætur þá tímann renna áfram svona linnulaust? Gæti ekki Núið verið síðasti klefinn í aftasta vagninum? En samt auðvitað ekki; það væri enn eitthvað fyrir aftan hann, þó það væri ekki annað en vindurinn. Þið sjáið að það er freistandi, en einnig að það hljómar eins og þvættingur, að tala um síðasta klefa tímans. Hvers vegna getum við sagt það um tímann sem líkist mjög því sem við segjum með réttu um lestir, þegar engar réttar ályktanir um tímann samsvara sumu sem leiðir réttilega af því sem við segjum um lestir? Til að svara þessari spurningu yrðum við að skoða fjölmörg afbrigði þess sem við segjum um lestir, ár og vinda; um skuggaspil, regnboga og speglanir; um sólskífur og dagatöl; um talnaröðina, daga vikunnar og mínútur dagsins. Og þá sjáum við kannski hvers vegna við hurfum smátt og smátt frá og höfum ekki lengur tilhneigingu til að hverfa frá réttum ályktunum af algengri orðnotkun um lestir til samsvarandi ályktana af nokkuð svipaðri orðnotkun um tímann. Við sjáum að við höfum lagt of mikið á tilteknar hliðstæður milli talsmáta, og að við vorum svo gagntekin af líkani sem við héldum upp á að við höfðum haldið áfram að nota það þar sem það átti ekki lengur við. Og nú vitum við að vissu leyti hvað tíminn er þó ekki sé til nein styttri eða betri leið til að segja / útlista það en að fara aftur í gegnum sams konar mállega tesmökkun.
Ég verð að ljúka máli mínu. Wittgenstein hefur vakið okkar kynslóð heimspekinga til umhugsunar um heimspekina sjálfa. Það er að sjálfsögðu mögulegt að manneskja verði afar íhugul um eðli og aðferðir einhverrar starfsemi án þess að verða neitt betri í að inna hana af hendi. Margfætlan í kvæðinu kunni vel að hlaupa þar til hún fór að velta því fyrir sér hvernig hún færi að því. Kannski erum við orðin dálítið óörugg um hlutverk okkar. En niðursöllun Wittgensteins á þeirri hugmynd að heimspekin sé eins konar vísindi hefur alltént gert okkur árvökul um verkfæri okkar. Við reynum ekki lengur að leysa vandamál okkar með rökfærsluaðferðum sem eiga við til að færa sönnur á kennisetningar eða staðfesta tilgátur. Nánar tiltekið höfum við lært að gaum­gæfa vandlega hvað hægt er að segja og hvað er ekki hægt. Það sem G. E. Moore hafði iðkað frá árdögum tuttugustu aldar hlýtur stuðning frá Wittgenstein. Og ég býst við að þegar tjaldið lyftist þá munum við einnig komast að raun um að efnistök og aðferðir Wittgensteins hafa aukið afl, umfang og nákvæmni þeirra aðferða sem Moore hefur svo lengi beitt til að kanna í smáatriðum rökgerð þess sem við segjum.

Magdalen College, Oxford

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísun

i. Þessi ritgerð var upphaflega erindi sem enski heimspekingurinn Gilbert Ryle (1900–76) flutti í þættinum Third programme í breska ríkisútvarpinu 26. maí 1951, rúmum mánuði eftir andlát Wittgensteins (1889–1951). Það var prentað í heimspekitímaritinu Analysis, 12. árgangi, 1. hefti, í október sama ár.
Eins og fram kemur í erindi Ryles er Tractatus – fullt heiti Tractatus Logico-Philosophicus (Rökfræðileg ritgerð um heimspeki) – eina bók Wittgensteins sem kom út meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en tveimur árum seinna (1953) sem Philosophical Investigations (Rannsóknir í heimspeki), höfuðritið í svokallaðri „seinni heimspeki“ Wittgensteins, kom út. Síðan hafa komið út margar bækur eftir Wittgenstein og skulu hér nefndar The Blue and Brown Books (1958), Remarks on the Foundations of Mathematics (1956; endur­skoðuð útg. 1978), Philosophical Grammar (1969) og On Certainty (1969). Eftir að „tjaldið lyftist“, svo vísað sé til niðurlagsorða höfundar eftirfarandi ritgerðar, má með sanni segja að málspekin hafi blómstrað með Rannsóknir í heimspeki eftir Ludwig Wittgenstein að leiðarljósi.
Höfuðrit Ryles, The Concept of Mind (Hugtakið hugur) kom út 1949 og telja menn að þar gæti umtalsverðra áhrifa frá seinni heimspeki Wittgensteins. Ryle hefur verið vel kunnugur breyttri afstöðu Wittgensteins til heimspeki eins og ljóst er af erindi hans. The Blue and Brown Books höfðu lengi verið í umferð í vélritaðri „leynilegri“ útgáfu og má telja víst að Ryle hafi haft þessa texta undir höndum. Einnig þekkti hann Wittgenstein persónulega. Þessar bækur eru eiginlega drög eða uppkast að Rannsóknum í heimspeki.
Seinni heimspeki Wittgensteins hefur haft feikileg áhrif, einkum í hinum enskumælandi heimi þar sem segja má að málspeki (e. linguistic philosophy) í anda Wittgensteins hafi ráðið ríkjum. Hún hefur ekki aðeins haft áhrif á heimspeki heldur einnig á mannfræði, félagsvísindi og fleiri greinar. Mikið hefur verið og er enn skrifað um þennan áhrifamikla og umdeilda hugsuð, bæði til lofs og lasts. Þess skal getið að Bláa bókin kom út í Lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags árið 1998 í þýðingu Þorbergs Þórssonar, með ýtarlegum og fróðlegum inngangi eftir Þorstein Gylfason. Og árið 2000 kom út í sama ritaflokki bókin Ógöngur (Dilemmas) eftir Gilbert Ryle í þýðingu Garðars Á. Árnasonar. Á Heimspekivefnum er til nokkuð efni um Wittgenstein og heimspeki hans.

 

Menntun tilfinninga

eftir John Macmurray1

Meðal skólamanna er vaxandi viðurkenning á því að brýna nauðsyn beri til að mennta tilfinning­arnar rétt.2 En mér virðist ekki vera neinn samsvarandi skilningur á eðli viðfangsefnisins svo að viðleitni til að fullnægja þörfinni hefur, þegar allt kemur til alls, einkennilega tilhneigingu til að ónýta markmiðið. Hinar hefðbundnu aðferðir sem hafa nú sem betur fer að mestu leyti verið lagðar niður, eða hafa alltént fallið í ónáð, hafa verið þær að beita ströngum aga þar sem börnum er refsað og þau bæld niður. Það mundi almennt vera viðurkennt að í sínum verstu myndum var þessi gamaldags agi hrottafenginn og að líklegt væri að í grundvallaratriðum reyndust afleiðing­arnar hörmulegar. „Lögreglumanns“-afstöðu kennarans til barnsins hefur að mestu leyti verið skipt út fyrir mannúðlegri afstöðu. En þó er ástæða til að spyrja hvort eldri afstaðan hafi ekki verið skárri en sumar þeirra aðferða sem hafa komið í staðinn, einkum þær sem byggjast á því að höfða til „betra eðlis“ barnsins. Hinar eldri ögunaraðferðir, þó að þær byggðust á ótta, forðuðust samt hinar lúmskari hættur að notfæra sér náttúrlega ástúð barnsins og virðingu þess fyrir valdi.
      Ég hygg við verðum að fallast á að menntun tilfinninganna er ögun eðlislægra viðbragða manndýrsins. En spurningin sem skiptir máli snýst um hvað átt er við með aga. Fyrsti greinar­munurinn sem við verðum að gera er greinarmunur á aga sem er þröngvað upp á með valdi og þess aga sem uppgötvast í reynslunni. Þessar tvær tegundir aga eru í grundvallaratriðum ólíkar. Það kann að vera auðveldara að skilja þennan greinarmun með vísun til vitsmunalífsins. Hægt er að aga hugsunina, eins og gert var á miðöldum, með kennivaldi. Kreddufesta miðalda sagði við hugsuðinn: „Þetta er sannleikurinn. Þú verður að læra að hugsa á þann hátt að þú komist að þessum og þessum niðurstöðum. Gerirðu það ekki er hugsun þín slæm hugsun vegna þess að við vitum að þessar niðurstöður eru hinar sönnu.“ Slík ögun hugsunar, eins og við ættum öll að vera sammála um, er hugsanakúgun. Henni tekst að tryggja samræmi hjá öllum hugsuðum og forðast þannig ágreining og deilur. En hún gerir það með því að gera út af við sjálfar uppsprettur raunverulegrar hugsunar. Í samanburði við þetta er nútíma vísindaleg hugsun frjáls og ókreddu­bundin. En hún er ekki óöguð. Hún finnur agann í viðleitninni að afla þekkingar, í hinu óþvingaða vitsmunalega starfi sjálfu. Hún er öguð af þeirri nauðsyn að tryggja raunverulega samsvörun hugmyndanna og þess sem hugsunin er um. Afleiðingin er fjöldinn allur af kenningum og niður­stöðum, stöðug barátta milli hugsuða sem eiga í samkeppni, sannkallað hugmyndastríð. Samt erum við öll sammála um að slíkt frelsi sé einmitt aflvaki hugsunar; og alltént í orði styðjum við frelsi einstaklingsins til að hugsa sjálfstætt.
      Munurinn á hinum tveimur tegundum aga á tilfinningasviðinu er nákvæmlega sá sami. Agi valdsins hefur að markmiði að tryggja bælingu þeirra tilfinninga sem eru álitnar óviðurkvæmilegar og hlúa að tilfinningum sem eru lofsverðar og góðar. Þetta er án efa gerlegt. Það stuðlar að sam­ræmi, að árekstralausum félagslegum samskiptum, að því að viðhalda hefðinni. En það tekst einungis með því að gera út af við hina frjálsu sjálfkvæmni tilfinningalífsins. Gegn þessu kreddubundna valdi verðum við að beina trú okkar á frelsi einstaklingsins til að finna til sjálfur, að þroska eigin tilfinningagáfur og leitast við að uppgötva gildi lífsins, ekki með því að viðurkenna samræmdar góðar tilfinningar og ekki heldur með því að þröngva fræðilegum hugmyndum um góðleik upp á tilfinningalíf sitt, heldur með frjálsri tjáningu eigin tilfinninga. Víst er að þetta felur í sér aga, en sá agi er allt annars eðlis. Það er sá agi sem fæst með stöðugri viðleitni til að uppgötva hin raunverulegu gildi lífsins sjálfur.
      Menntun tilfinninganna ætti því að vera yfirveguð viðleitni til að kenna börnum að finna til af eigin hvötum, í sama skilningi og vitsmunaleg menntun þeirra ætti að vera viðleitni til að kenna þeim að hugsa sjálfstætt. Svo framarlega sem við leggjum upp með þá ósögðu forsendu að við vitum hvernig fólk ætti að finna til og það sé hlutverk okkar að kenna nemendum okkar að finna þannig til, því verr sem okkur tekst það því betra. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hve veikburða og óburðugt tilfinningalíf okkar er og átta okkur á því að einmitt af þeirri ástæðu eru hugmyndir okkar um hvað sé góð tilfinning og hvað ekki einnig veikburða og ef til vill ósannar. Þá förum við kannski að uppgötva hvað við getum gert til að þroska hjá börnum hinn dýrmæta hæfileika til óþvingaðs tilfinningalífs sem hefur verið svo vanþroska hjá okkur. Ein fyrsta afleiðing svo djúpstæðrar viðhorfsbreytingar yrði eflaust sú að við mundum viðurkenna að það sé jafn fráleitt að leggja tilfinningalega menntun barna í hendur kennara sem hafa óburðugt eða vanþroska tilfinningalíf og það er að fela vitsmunalega menntun þeirra kennurum sem eru vitgrannir og heimskir.
      Þetta er helsta viðhorfsbreytingin sem við þörfnumst. Ef við gefum okkur að við nálgumst spurninguna um tilfinningamenntun í þessum anda þá getum við haldið áfram og spurt ítarlega hvernig hægt sé að framkvæma hana í megindráttum. Við verðum þá að veita því athygli að tilfinningalífið er í eðli sínu skynrænt og að menntun tilfinninga er fyrst og fremst þjálfun skilningarvitanna. Flest sem okkur mistekst í menntun skilningarvitanna stafar af því að við lítum á þau frá verklegu sjónarmiði sem tæki til að ná hagnýtum markmiðum, með þeim afleiðingum að við þjálfum þau, að svo miklu leyti sem við menntum börn yfirleitt í hinu skynræna lífi þeirra, til að nota skilningarvitin í hagnýtum tilgangi. Hins vegar er tilfinninganæmið snar þáttur í mannlegu eðli og það verður að þroska það vegna þess sjálfs. Við verðum að mennta börn til að gera hið skynræna líf þeirra auðugt og fallegt: að sjá til þess að sjá, að heyra til þess að heyra, að lykta, bragða og snerta vegna lífsgleðinnar sem fólgin er í þeim skynjunarhæfileikum sem þau eru gædd.
      Slík menntun mundi stefna að því sem William Blake kallaði einu sinni í augnabliksinnblæstri „fágun hins skynræna“. Á hinu grófara vísindalega fræðimáli okkar gætum við kallað það þroskun skynrænnar greiningar og samstillingar. Það sem fær okkur til að óttast birtingarmyndir hins skynræna lífs er hve gróft það er og óheflað, og þetta er einungis til marks um hið frumstæða, vanþroskaða eðli þess. Það er einmitt þetta sem viðeigandi menntun skilningarvitanna verður að fást við. Hún verður að finna leið til að þroska hæfileika skilningarvitanna til að komast á það stig að þau greini á hárfínan og fágaðan hátt það sem þau skynja, og hæfileikann til að samstilla og samræma greiningu þeirra. Gróf og óhefluð tjáning tilfinninga er ævinlega afleiðing þess að skynjunin er gróf og skortir fágun. Að bæla niður slíka móðgandi tjáningu tilfinninga (sem er í megindráttum það sem við stefnum enn að) skiptir máli fyrir lífsgæðin. Sé eðli manns gróft er nauðsynlegt að hafa hemil á því þó ekki sé nema vegna annarra. En hlutverk menntunar er að gera slíkar hömlur óþarfar með því að fága eðlið sem þær eru nú lagðar á.
      Það eru bein tengsl, sem liggja til grundvallar öllu lífi, milli skynvitundar og verklegra athafna. Hægt er að hafa hemil á og koma í veg fyrir þessi tengsl upp að vissu marki, en aldrei full­komlega. Mannlífið, líkt og allt líf, fullkomnar sig einungis í tengslum beinnar skynjunar við athöfn sem tjáir það sem hún hefur orðið áskynja. Hugsunina skortir þessa beinu svörun í athöfn við meðvitaðri skynjun. Vitsmunagreind getur þess vegna aldrei komið í staðinn fyrir beina skynræna athöfn. Hún getur auðgað hana með því að lyfta henni á hærra stig eða rýrt hana með neikvæði og bælingu. Annað sviðið í menntun tilfinningalífsins er því svið óþvingaðrar tjáningar. Hin skynræna vitund um heiminn vegna hennar sjálfrar, án dulinna hvata eða ástæðna, er tilfinninganæmi okkar, og það fullkomnar sig, sé það ekki hindrað, í athöfnum sem eru óþvinguð tjáning tilfinninga, athöfnum sem eru framkvæmdar vegna þeirra sjálfra en ekki vegna einhvers markmiðs utan við þær. Slík tjáning tilfinninga í athöfn – hvort heldur í tali, söng eða hreyfingum – er í fyrstu gróf og ruglingsleg. Hlutverk menntunar er ekki að breyta sjálfsprottnu eðli hennar heldur að fága hana og fíngera, viðhalda sjálfsprottnu eðli hennar svo að þróun yndisþokka og fágunar í athöfn sé ætíð án annarrar hvatar eða ástæðu en tjáningargleðinnar. Að öðru jöfnu fara saman fágun í tjáningu og fágun í skyngreiningu svo það er ekki þörf fyrir tvenns konar þjálfun heldur aðeins eina tegund þjálfunar þar sem þroskun fágaðrar skyngreiningar fæst með viðleitni til að tjá það sem er skynjað og viðleitnin til að þroska skyngreininguna er framkvæmd með viðleitni til að tjá hana í athöfn af einhverju tæi. Það er ekki í mínum verkahring að ákveða aðferðir sem þetta skuli gert með. Þeir sem hafa það starf að gera tilraunir með kennsluaðferðir munu eiga létt með að finna upp slíkar aðferðir svo framarlega sem þeir gera sér ljóst hvað það er sem þeir vilja þroska. Það sem skiptir mestu máli að hafa efst í huga er að menntun tilfinningalífsins, hvort sem það er skynvitund eða tjáningarathafnir, má ekki hafa neina dulda eða hagnýta ástæðu. Þetta er menntun í sjálfkvæmni og þess vegna eru bæði vitundin og athafnirnar sem hún leitast við að fága og þroska markmið í sjálfum sér. Við erum að leitast við á þessu sviði að skerpa vitund barna um heiminn sem þau lifa í eingöngu vegna hennar sjálfrar af því að það gerir þau færari um að njóta lífsins. Við erum að leitast við að þroska fágun í tjáningu vegna þess að það er gott í sjálfu sér, ekki í neinum skilningi vegna þess sem kann að vera hægt að ávinna sér með því.
      Ljóst er að þegar slík menntun kemst á ákveðið stig verður hún menntun í starfsemi lista­mannsins. Það er óhjákvæmileg afleiðing af réttri menntun tilfinninganna. Það er þroskun hinna listrænu til aðgreiningar frá hinum vísindalegu hæfileikum manneðlisins. Ég get því lagt áherslu á boðskap minn með tilvísun til þess sem er rangt við slíka listræna menntun eins og hana er venjulega að finna í skólanámskránni. Hún gerir menntun í list að vitsmunalegri eða vísindalegri starfsemi og verður ekki þjálfun í listrænum vinnubrögðum heldur þjálfun hugans í greiningu og skilningi á listrænum vinnubrögðum annarra. Rétt þjálfun hinna listrænu hæfileika, eins og ég hef lýst henni, er þjálfun í skynjun og tjáningu sem í fyllingu tímans mundi þroska til hins ýtrasta hæfileika barnsins til að vera listamaður, það er að segja að skynja heiminn fagurlega með sínu eigin tilfinninganæmi og tjá þessa skynjun í óþvinguðum eða sjálfsprottnum athöfnum einungis vegna gleðinnar sem fylgir því að gera það.
      Engin þörf er á að útfæra þessa grunnhugmynd frekar. Ég vil heldur vekja athygli á afleiðingum þess að láta undir höfuð leggjast að mennta tilfinningalífið á þennan hátt sem er í grundvallaratriðum eina leiðin til að mennta það. Mig langar til að láta í ljós þá skoðun mína að það að vanrækja þessa hlið á menntun barns, eða bregðast í því, er að bregðast fullkomlega í mikilvægasta menntunarstarfinu.
      Tilfinningalífið er ekki bara hluti af mannlegu lífi eða ein hlið á því. Það er ekki, eins og við höldum svo oft, sett skör lægra, eða lægra skipað, en hugurinn. Það er kjarni og meginþáttur mannlífsins. Vitsmunirnir spretta upp af því, eiga rætur sínar í því, sækja næringu sína og viðurværi í það, og eru hinn óæðri félagi í mannlífsbúskapnum. Þetta stafar af því að vitsmunirnir gegna í meginatriðum hlutverki verkfæris. Að hugsa er ekki að lifa. Í versta falli er það staðgengill þess, í besta falli leið til að lifa betur. Eins og komið hefur fram er tilfinningalífið líf okkar, bæði sem vitund um heiminn og sem athafnir í heiminum, að svo miklu leyti sem því er lifað vegna þess sjálfs. Gildi þess felst í því sjálfu, ekki í neinu utan við það sem það er leið til að öðlast. Menntun sem gerir sér fulla grein fyrir hlutverki sínu hlýtur að hafna því að meðhöndla mannlífið eins og leið að markmiði. Hún hlýtur að leggja áherslu að eina skylda sín sé að þroska hinn áskapaða hæfileika til fulls mennsks lífs. Öll sönn menntun er menntun í að lifa.
      En afleiðing þess að einbeita sér að menntun vitsmunanna þannig að menntun tilfinninganna verður útundan er einmitt að koma í veg fyrir þetta markmið. Vegna þess að vitsmunirnir fást við leiðirnar til að lifa getur einskorðuð einbeiting að þjálfun þeirra, og að setja tilfinningalífið skör lægra, aðeins leitt til þess að gera nemendur okkar færa um að ákveða leiðirnar til mennsks lífs en mjög lítið til að lifa því. Hún mun óhjákvæmilega skapa tækjaskilning á lífinu þar sem allar mannlegar athafnir verða metnar sem leiðir að markmiði, aldrei vegna þeirra sjálfra. Þegar það er varanleg og almenn tilhneiging í einhverju þjóðfélagi að beina athyglinni að vitsmununum og þjálfun þeirra þá verður afleiðingin þjóðfélag sem safnar völdum og með völdum auðnum til hins góða lífs en hefur engan samsvarandi þroskaðan hæfileika til að lifa hinu góða lífi sem það hefur safnað auðnum til. Þetta er að mínu viti alveg greinilega það ástand sem við erum nú í og hin evrópska menning okkar. Við höfum gífurleg völd og gífurleg auðæfi; við dýrkum skilvirkni og velgengni en við kunnum ekki að lifa afbragðsvel. Ég mundi rekja þetta ástand mála næstum algerlega til þess að við höfum vanrækt að mennta tilfinningalífið.
      Önnur afleiðing þessarar vanrækslu hlýtur að vera eyðilegging heildar. Vitsmunirnir geta aðeins fjallað um lífið í pörtum vegna þess að þeir eru verkfæri. Þeir verða að sundurgreina og sértaka. Það er í tilfinningalífinu sem eining persónuleikans, bæði einstaklingsbundin og félagsleg eining hans, er raungerð og henni haldið við. Það er í tilfinningaríkum athöfnum sem þessi eining er tjáð. Tilfinningarnar eru sameinandi þátturinn í lífinu. Að vanrækja að þroska tilfinningalífið leiðir því til sértekningar og sundurgreiningar, til þess að menn geta ekki séð lífið staðfastlega og sem heild. Þegar vitsmunirnir taka völdin er sérhæfing óhjákvæmileg afleiðing, sérstakar hliðar mannlegra athafna eru gerðar að fullkomnum hugmyndum um lífið, hluti kemur í stað heildar. Afleiðingin er sundrun í lífinu og samhengisleysi í hugsun og reynd. Bæði einstaklingar og samfélag munu smitast af hinni þröngu sýn sérfræðingsins sem gerir jafnvægi, hrynjandi og heildarsýn óraunhæf og jafnvel óhugsandi. Hér birtist aftur vanræksla okkar að mennta tilfinningalífið í samkeppni langana innra með okkur sem við getum ekki samhæft, í samkeppni öndverðra krafna og hagsmuna, í flokkadráttum innan samfélags okkar. Enda þótt kringumstæðurnar hafi þröngvað upp á okkur vitsmunalegum skilningi á nauðsyn þess að öðlast einingu og heildarsýn í samfélagslífi okkar, þjóðlegu og alþjóðlegu, erum við ófær um að raungera þá einingu sem við höfum svo brýna og meðvitaða þörf fyrir.

                                                                                                    Gunnar Ragnarsson þýddi

Aftanmálsgreinar

1. John Macmurray (1891–1976) var prófessor í siðfræði við háskólann í Edinborg í Skotlandi á árunum 1944–1958.
     Macmurray var eftirsóttur fyrirlesari og voru greinarnar í Reason and Emotion upphaflega fyrirlestrar. Reyndar má segja það um flestar bækur hans. Bókin Freedom in the Modern World samanstendur af fyrirlestrum sem hann flutti í Breska ríkisútvarpið (BBC) 1930 og 1932 og nutu gríðarlegra vinsælda, einkum fyrri fyrirlestraröðin, Reality and Freedom (12 lestrar). Þeir komu út á bók 1932 sem hefur verið endurprentuð nokkrum sinnum og útg. með nýjum inngangi 1992.
     Macmurray var afkastamikill rithöfundur. Af öðrum verkum hans nefni ég hér Interpreting the Universe (1933; ný útg. 1996), The Boundaries of Science: a Study in the Philosophy of Psychology (1939), The Self as Agent (1957) og Persons in Relation (1961). Tvö síðastnefndu verkin voru endurútgefin 1991 og 1995. Sameiginlegur titill þeirra er The Form of the Personal. Þau byggjast á skosku Gifford fyrirlestrunum sem Macmurray flutti í háskólanum í Glasgow 1953–1954.
     Þessi frumlegi og róttæki hugsuður hefur að mestu leyti verið sniðgenginn af akademísku heimspeki­hefðinni. Hann hefur hins vegar haft umtalsverð áhrif á guðfræðinga, sálfræðinga, menntunarfræðinga og félags- og stjórnmálahugsuði. Grundvallarhugtök í heimspeki hans eru athöfn (e. action), gerandi (e. agent), persóna (e. person) og vinátta (e. friendship). Heimspeki hans mætti kalla „persónuhyggju“ (e. personalism) sem er ein tegund af tilvistarspeki.
     Athöfnin kemur á undan hugsuninni, „ég geri“ á undan „ég hugsa“. Macmurray gerir uppreisn gegn kartesískri tvíhyggju og þar með vestrænni heimspekihefð. Að því leyti má flokka hann með Heidegger, Wittgenstein og bandarísku pragmatistunum sem allir reyna að brjótast undan oki hefðarinnar – komast út úr Descartes!
     Macmurray er einn örfárra heimspekinga sem leggur sérstaka áherslu á tilfinningalífið. Fyrstu þrjár greinarnar í Reason and Emotion heita „Reason in the emotional life“. Kenning hans um „emotional rationality“ er sett fram rúmum sex áratugum á undan kenningu Daniels Goleman um „emotional intelligence“ í samnefndu riti, sem byggist á heilarannsóknum og þróunarrökum.

2. Þýtt úr greinasafninu Reason and Emotion, 6. prentun 1947. útg. með nýjum inngangi 1992. Greinin kom fyrst út í tímaritinu The New Era árið 1932.

Prinsessan og heimspekingurinn

eftir Godfrey Vesey

Prinsessan og heimspekingurinn1

ER LÍF EFTIR DAUÐANN?

Í ágripi Hugleiðinga um frumspeki (1641) skrifaði René Descartes (1596–1650):

Það sem ég hef sagt hrekkur til að sýna nógu skýrt að tortímingu hugans leiðir ekki af hrörnun líkamans og einnig til að gefa mönnum von um líf eftir dauðann.

Til að „sýna nógu skýrt“ að það geti verið líf eftir dauðann greip Descartes ekki til meintra uppgötvana andatrúarmanna. Hann sótti ekki miðilsfundi eða neitt þess háttar. Það sem hann gerði var að loka sig inni og hugsa. Hann hugsaði um hvað hann gæti, og gæti ekki, mögulega dregið í efa. Hann gat ómögulega efast um að hann væri að hugsa og þess vegna að hann væri til. Jafnvel almáttugur blekkjari hefði ekki getað blekkt hann um hans eigin tilvist. En slíkur blekkjari, taldi hann, kynni vel að hafa blekkt hann um allt líkamlegt. Það var ekkert í hinni óyggjandi staðreynd að hann hugsaði sem tryggði að hann hefði líkama. Hann gat hugsað um sjálfan sig sem andlega veru eingöngu. Og vissulega gat það ekki verið Guði um megn að hafa skapað hann sem andlega veru eingöngu. En þá eru hugur hans og líkami í raun og veru að­greindir jafnvel þótt svo vilji til að þeir eru sameinaðir í þessu jarðneska lífi. En séu þeir í raun og veru aðgreindir þá getur annar þeirra, hugurinn, haldið áfram að vera til þegar hinn, líkaminn, er dáinn og grafinn.

Niðurstaðan var aðlaðandi og ekki auðvelt að sýna fram á að rökfærslan væri ógild. En sú kenning að maðurinn sé tveir aðgreindir hlutir, eingöngu andleg sál annars vegar og eingöngu efnislegur líkami hins vegar, var vandkvæðum bundin. Helstu vandkvæðin voru þau að skilja hvernig hinar tvær ólíku ‘verundir’ geti orkað hvor á aðra. Hvernig getur það sem tekur ekki rúm, sálin sem er eingöngu andleg, hreyftlíkamann eins og hún að áliti Descartes hlýtur að gera þegar fólk hreyfir sig viljandi? Og hvernig getur ‘heilahræring’, eins og Descartes kallar það, fram­kallað skynjun í huganum, eins og hún að hans áliti hlýtur að gera þegar fólk skynjar hluti?

Descartes tók vel gagnrýni á verk sín. Sumt af henni kom frá öðrum heimspekingum, mönnum með traustan orðstír og víðkunnar skoðanir, eins og Thomas Hobbes (1588–1679) og Antoine Arnauld (1612–1694). Andmæli þeirra gegn Hugleiðingum hans og svör Descartes voru gefin út með Hugleiðingunum. En önnur skoðanaskipti voru ekki birt meðan hann lifði. Ein slík voru langvarandi bréfaskipti hans við Elísabeti prinsessu af Bæheimi, dóttur Friðriks kjörfursta sem Descartes hafði einu sinni verið í stríði gegn. Descartes skrifaðist á við hana frá 1643 til dauðadags, og verkið þar sem hann gerði rækilegasta grein fyrir sambandinu milli sálar og líkama, Hræringar sálarinnar (1649) var upphaflega samið handa henni.

Í bréfi til Elísabetar dagsettu 28. júní 1643 gerði Descartes það sem kynni að virðast merkileg tilslökun. Elísabet hafði skrifað að sér fyndist erfitt að skilja hvernig sálin, ef hún er eingöngu and­leg, geti valdið breytingu í líkamanum. Hún ætti miklu auðveldara með að ímynda sér að sálin sé efnisleg og taki rúm – hafi það sem heimspekingar kalla ‘rúmtak’ – heldur en að hún gæti, þar sem hún er óefnisleg, hreyft líkama og orðið fyrir áhrifum frá breytingum í honum. Descartes svaraði:

Yðar hátign gerir þá athugasemd að það sé auðveldra að eigna sálinni efni og rúmtak en að eigna henni afl til að hreyfa líkama og vera hreyfð af honum án þess að hafa neitt efni. Ég vildi nú biðja yðar hátign að telja yður frjálst að eigna sálinni ‘efni og rúmtak’.

Gæti Descartes í raun og veru hafa meint þetta? Gæti hann í raun og veru hafa ætlað að gera til­slökun sem var svona skaðleg yfirlýstri skoðun hans sem er að sálin sé aðgreind frá líkamanum einmitt með því að vera ekki efnislegur hlutur?

Samtalið sem fer hér á eftir svarar þessari spurningu. Ég hef ímyndað mér fund með Descartes, heimspekingnum, og Elísabeti, prinsessunni, og byggt rökræðu þeirra á bréfunum sem þau skrifuðu hvort öðru á fimmta áratug 17. aldar. Ég hef tekið mér dálítið skáldaleyfi. Ekki er öll rökin sem eignuð eru Elísabeti að finna í bréfum hennar til Descartes. Notkun rúmfræðidæmis undir lok samtalsins, sérstaklega, kemur ekki úr bréfaskriftum þeirra Descartes og Elísabetar heldur úr andmælum sem Antoine Arnauld hafði uppi gegn Hugleiðingunum. En leitast hefur verið við að koma ekki með heimspekilegar hugmyndir frá seinni öldum.

PRINSESSAN OG HEIMSPEKINGURINN

[Samtal og tónlist í stórum sal]

DESCARTES . . . Frú, sá heiður sem yðar hátign sýnir mér með því að bjóða mig velkominn er meiri en ég þorði að vona. Það er mjög hughreystandi ekki aðeins að njóta velvildar yðar bréflega heldur að hitta yður.

ELÍSABET Ekkert að þakka, herra. Bréf yðar hafa veitt mér mikla ánægju.

DESCARTES Ég er yðar hátign afar þakklátur fyrir að lesa þau. Jafnvel þegar þér sjáið hve illa ég útskýri mál mitt hafið þér samt þolinmæði til að hlusta á mig.[Stutt þögn] En segið mér, frú, hvernig get ég hjálpað yður og hvaða viðfangsefni valda yðar hátign enn heilabrotum? Þegar ég les merkin um hugsanir yðar á blaði finn ég sannarlega undraverðan skilning á þeim óhlut­bundnu efnum sem ég skrifa um. En núna, þar sem ég sé frammi fyrir mér líkama slíkan sem málarar gefa englum sem þessar guðdómlegu skoðanir streyma frá, er ég gagntekinn líkt og maður nýkominn til himna. Hverju sem þér spyrjið um mun ég svara, ef ég get.

ELÍSABET Við skulum færa okkur í hljóðlátara herbergi.

[Þau færa sig í hljóðlátara herbergi og setjast]

ELÍSABET Ég skrifaði yður, þér munið, um eðli sálarinnar. Ég spurði yður hvernig sálin, ef hún er óefnislegur hlutur, geti hreyft líkamann. Það hlýtur að vera að eigi einn hlutur að hreyfa annan þá verður sá fyrri að vera í efnislegri snertingu við þann síðari. Ég get ekki leikið á sembalinn minn án þess að snerta nóturnar með fingrunum. Hvernig getur sálin, ef hún er eingöngu andleg, snert líkamann til þess að valda breytingum í honum?

DESCARTES Fyrirgefið mér, frú, ég svaraði þessari spurningu, var það ekki?

ELÍSABET Þér svöruðuð bréfi mínu en ég held ekki að þér hafið svarað spurningu minni. Þér skrifuðuð að fólk haldi að þyngd sé eitthvað sem hreyfir hluti og hreyfir þá án þess að þeir séu snertir. Þyngd lætur laufin falla til jarðar og þetta er augljóslega ólíkt því hvernig ein kúla lætur aðra hreyfast þegar hún rekst á hana. Með öðrum orðum – og mér skildist að þetta væri það sem þér ættuð við – við höfum hugmynd um að einn hlutur hreyfi annan án þess að snerta hann.

DESCARTES Aha . . . þér eruð mér þá sammála.

ELÍSABET [Stutt þögn – heldur áfram ráðvillt] En það hvernig þyngd hreyfir laufin er mjög ólíkt því hvernig sálin hreyfir líkamann. Þyngd er ekki óefnisleg á þann hátt sem sálin, samkvæmt yður, er óefnisleg. Hún er ekki – hvernig á ég að orða það? – þyngd er ekki andlegt afl. Það sem ég skil ekki er hvernig hugsun getur valdið líkamlegri hreyfingu. Þér eruð ekki að segja að hún geri það með þyngd, eða hvað? Hvað sem öðru líður veit ég ekki hvað þetta merkir.

DESCARTES Nei, nei, nei, nei, nei. Ég á við að við höfum hugmynd um að hlutir hreyfist án þess að aðrir hlutir séu í efnislegri snertingu við þá. [Stutt þögn] Reyndar er þessari hugmynd misbeitt þegar við notum hana til að skilja hvers vegna hlutir falla til jarðar. Í Eðlisfræði minni sýndi ég fram á að þyngd hluta er ekki í raun eitthvað aðgreint frá þeim. En við höfum þessa hugmynd og ég tel að okkur hafi verið gefin hún til þess að skilja hvernig sálin hreyfir líkamann. Ef við getum, með því að nota þessa hugmynd, skilið hvernig sálin hreyfir líkamann þá getum við líka skilið hvernig sál manns og líkami eru sameinuð.

ELÍSABET [Grípur fram í] Ójá, en nú verðið þér að útskýra. Vegna þess að ef þér bara segið að sál og líkami séu sameinuð, og látið þar við sitja, er ég í raun og veru engu nær. Hvernig getur það sem er andlegt verið sameinað því sem er líkamlegt, efnislegt, ‘hefur rúmtak’? Herra, ég fellst á að sál og líkami séu sameinuð, en eigi ég að skilja hvernig sálin getur orkað á líkamann verð ég að skilja forsendu sameiningar þeirra. Hvernig eru sál og líkami, tvær aðgreindar verundir, sameinuð?

DESCARTES [Hugsandi á svip] Nú, það er ekki með vitinu, en með því skiljum við sálina, sem við getum líka skilið sameiningu sálar og líkama. Það er ekki heldur með vitinu og hjálp ímyndunar­aflsins. Þá eru einungis skilningarvitin eftir. Það er því með atbeina skilningarvitanna sem við skiljum sameiningu sálar og líkama. Þegar við hugsum heimspekilega um þessi efni gerum við okkur grein fyrir því að líkami og sál eru aðgreind, en hvað reynslu okkar snertir er eins og þau væru eitt. Þegar ég lyfti handleggnum, eða er með verk í bakinu, finnst mér ég sjálfur ekki vera aðgreindur frá handleggnum eða bakinu. En ég veit, engu að síður, að sál mín er aðgreind frá líkama mínum.

ELÍSABET Þér eruð að segja að manni finnist eins og sál og líkami séu sameinuð?

DESCARTES Einmitt.

ELÍSABET En það skýrir ekki hvernig þau eru sameinuð, er það? Þér sögðuð að við skiljum sameiningu sálar og líkama með skilningarvitunum. En að vita  sálin orkar á líkamann er ekki að vita hvernig. [Þögn] Sjáið þér, mér virðist að orki sál og líkami hvort á annað þá ættum við að geta skilið hvernig þau gera það. Skilningarvitin virðast ekki láta slíka þekkingu í té. [Descartes svarar ekki enn] Það var vegna þess að ég skildi ekki hvernig óefnisleg sál gæti orkað á efnislegan líkama sem ég stakk upp á að sálin, í verund sinni sem aðgreindri frá starfsemi sinni, hljóti að vera efnisleg. Ef að hugsa, vilja og svo framvegis er eitthvað semlíkaminn gerir, í stað þess að vera eitthvað sem andleg vera aðgreind frá líkamanum gerir, kemur vandamál mitt ekki upp.

DESCARTES En hvað eigið þér við með ‘verund’? Það eru athafnir sálarinnar – að hugsa, vilja o.s.frv. – sem gera hana að þeirri verund sem hún er. Hugsun er eðli sálarinnar, alveg eins og ‘rúmtak’ – að taka rúm – er eðli efnisins. Engin verund getur haft tvenns konar eðli.

ELÍSABET [Hneyksluð] Samt man ég greinilega að þér sögðuð í bréfi að ég gæti „eignað sálinni efni og rúmtak“.

DESCARTES Hvenær var það?

ELÍSABET Fyrir um þremur árum, held ég.

DESCARTES Í hvaða sambandi?

ELÍSABET Ég get fundið bréfið fyrir yður. [Hún gramsar] Já, hérna er það. Ég skal finna staðinn . . . Aha! „Yðar hátign segir að það sé auðveldara að eigna sálinni efni og rúmtak en að eigna óefnislegum hlut getu til að hreyfa efnislegan hlut og vera hreyfður af honum. Ég vildi nú biðja yðar hátign að vera frjáls að því að eigna sálinni efni og rúmtak . . .“

DESCARTES Aha, en hvernig er framhaldið?

ELÍSABET „ . . . sálinni efni og rúmtak, því að það er ekkert annað en að hugsa sér sálina eins og hún sé sameinuð líkamanum. “

DESCARTES [Glaðlegur] Sjáið þér! Ég var enn að tala um að sálin væri sameinuð líkamanum. Sálin hefur í vissum skilningi rúmtak. Til dæmis þegar við finnum til verkja og sársauka í ýmsum hlutum líkamans . . . Setjum svo að maður stingi sig í fingurinn á snælduteini . . .

ELÍSABET Eruð þér ekki að rugla mér saman við aðra prinsessu?

DESCARTES Ég sagði „setjum svo“. Setjum svo að maður stingi sig á snælduteini. Maður finnur til sársauka. Hvar finnur hann til sársaukans? Að vissu leyti er það næstum því eins og sálin væri útþanin um allan líkamann, jafnvel út í fingurna. En að tala þannig er að tala einungis um tilfinningu. Sársaukinn er ekki í raun og veru í fingrinum, hann er í sálinni. Maður veit með vitinu að hann er ekki í fingrinum þar sem maður veit með vitinu að sálin, sem finnur til sársauka, er óefnisleg. Til að vita sannleikann í málinu verðum við að treysta vitinu.

ELÍSABET Vitið, segið þér, segir okkur að sálin sé óefniskennd. En er vitræn skynjun okkar á sálinni nægilega skýr? Kannski ef við hefðum skýrari skynjun á eðli hennar mundi okkur verða ljóst að hún er í rauninni efniskennd. Er ekki að minnsta kosti sá möguleiki?

DESCARTES Ekki ef röksemdafærslan í Hugleiðingum mínum fær staðist. Þér munið, ég ímyndaði mér að ákaflega máttugur, illur andi gerði allt sem hann gæti til að blekkja okkur?

ELÍSABET Já.

DESCARTES Hann kann að blekkja mig um allt sem kemur líkama mínum við, en þegar kemur að hugsun minni – ja, þá getur hann ekki blekkt mig. Um það get ég ekki efast. [Hægt og með áherslu] Þess vegna, að svo miklu leyti sem ekki er hægt að blekkja mig um tilvist mína, er ég ekkert meira en hugsandi hlutur.

ELÍSABET Samþykkt. En þetta er „það sem ekki er hægt að blekkja mann um“. Spurningin sem ég er að bera fram er ólík. Hún er ekki um það sem maður veit eða veit ekki. Hún er um það sem er í raun og veru. Ég er að halda því fram að enda þótt maður geti ímyndað sér að hann sjálfur hafi ekki líkamlega eiginleika kunni það samt sem áður að vera staðreynd að hann hafi þá.

DESCARTES Nei. Þær kunna að virðast gerólíkar spurningar – spurningin um það sem ég veit eða veit ekki og spurningin um það sem er í raun og veru – en svo er ekki. Þær tengjast.

ELÍSABET Hvernig? Hvernig tengjast þær?

DESCARTES Ja, það varðar í raun og veru möguleika. Ef það er mögulegt að hugsun eigi sér stað aðgreind frá líkama þá . . .

ELÍSABET [Grípur fram í] En er það mögulegt? Það er spurningin?

DESCARTES Gott og vel, ég er að koma að því. Ég sagði ‘ef’. Ef það er mögulegt að hugsun og líkaminn séu til hvort í sínu lagi þá . . .

ELÍSABET [Óþolinmóð] Já, já, þá er það-sem-framkvæmir-hugsunina ekki líkaminn. Ég skil það mætavel. En það sem þér verðið að gera er að losna við ‘ef’-ið. Það er að segja, þér verðið að sýna fram á að hugsun geti átt sér stað aðgreind frá líkama.

DESCARTES Einmitt, og það er hér sem það sem ég veit og veit ekki kemur til skjalanna.

ELÍSABET Haldið þér áfram.

DESCARTES Nú, ég veit með vissu að ég er að hugsa og um leið get ég efast um að ég hafi líkamlega eiginleika. Ég get því skynjað annan hlutinn, hugsunina, aðgreindan frá hinum. Og fyrst þessi skynjun er skýr og greinileg hlýtur það að vera mögulegt að annar hluturinn sé til að­greindur frá hinum.

ELÍSABET Andartak. Þér sögðuð „fyrst þessi skynjun er skýr og greinileg“.

DESCARTES Já.

ELÍSABET Og þér munduð segja að ef þér skynjuðuð sjálfan yður skýrt og greinilega sem ekkert meira en hugsandi hlut þá leiddi af því að þér gætuð verið til sem hugsandi hlutur?

DESCARTES Já.

ELÍSABET Og þess vegna að þér séuð í raun og veru ekkert meira en hugsandi hlutur?

DESCARTES Hárrétt.

ELÍSABET Einmitt það. Sjáið til, er ekki mögulegt að skynjun manns sé skýr en einungis svo langt sem hún nær? Og að hún nái ekki nógu langt til að maður viti sannleikann? Með öðrum orðum, er ekki mögulegt að maður hafi í raun og veru líkamlega eiginleika enda þótt þekking manns á sér sjálfum nái ekki út fyrir andlega eiginleika hans?

DESCARTES Nei. Það verður að greina á milli skýrleika og fullkomleika. Vissulega kann að vera eitthvað við mig sem ég hef ekki skynjað skýrt. En það hefur ekki áhrif á það sem ég hef skynjað skýrt. Og með því að ég hef skynjað skýrt að ég er hugsandi hlutur veit ég að ég get verið til sem slíkur. Það er að segja, ég veit að það sem ég er viss um – vitsmunahæfileiki minn – nægir mér til að vera til með. Og nægi hann mér til að vera til með þá er ég í raun og veru aðgreindur frá öllu líkamlegu.

ELÍSABET Sem sagt, frumforsenda röksemdafærslu yðar er: Ef ég get skynjað skýrt að eitthvað er svona-og-svona þó ég geti ekki skynjað skýrt að það sé þetta-og-þetta þá get ég verið til einungis sem svona-og-svona.

DESCARTES Já.

ELÍSABET En hugleiðið nú þetta dæmi. Þríhyrningur er flatarmynd sem afmarkast af þremur beinum línum.

DESCARTES Humm.

ELÍSABET Þetta er eitthvað sem flestir vita. En það vita ekki allir að horn þríhyrnings eru saman­lagt tvö rétt horn. Það er að segja, einhver kynni að vita mætavel að eitthvað væri þríhyrningur en vita þó ekki þessa viðbótarstaðreynd um hornin. Nú, samkvæmt rökfærslu yðar ætti að vera mögulegt að til væri þríhyrningur sem hefði ekki hornasummu tveggja réttra horna. Sjáið þér hvað ég á við?

DESCARTES Já, það er sama atriðið og faðir Arnauld setti fram í fjórðu andmælunum gegn Hugleiðingum mínum. En ég fellst ekki á að þetta séu hliðstæð dæmi. Og ég segi hvers vegna í svari mínu til hans.

ELÍSABET Ég verð að líta á það aftur. [Þögn] Sjáið þér, það er ekki að ég vilji ekki trúa yður. Nema þér hafið á réttu að standa í því að sálin sé aðgreind frá líkamanum sé ég ekki hvernig getur verið nokkur von um líf eftir dauðann. Sé það einhver hluti líkama míns sem hugsar og vill þá eru það endalok mín þegar hann hrörnar í dauðanum. Ennfremur, samkvæmt skoðun yðar hefur Guð skapað manninn í sinni mynd. Aðeins ef við skynjum okkur sjálf sem einungis andlegar verur getum við hugsað um Guð á sama hátt. Þessar hugsanir eru mér dýrmætar, herra Descartes. Ég fellst á þær sem trúaratriði en ég vildi að trú og skynsemi færu saman. [Andvarpar] Sálin verður þreytt á hinum þungbæra líkamshjúpi sínum. Það koma stundir þegar ég þrái að losna úr honum til hamingjusamara lífs í upphæðum.

DESCARTES Frú, ég veit um útlegðina sem vofir yfir yður og ég harma að það er ekkert sem ég get gert til að hjálpa.

ELÍSABET En það er, herra Descartes. Það er. Bréf yðar eru mér mikil huggun og ég vona að þér haldið áfram að skrifa. Þannig munu mánuðirnir virðast vikur og vikurnar dagar.

DESCARTES Ég vildi að ég gæti orðið yður að veigameira liði. Ég vildi . . .

ELÍSABET [Grípur fram í] Farið nú, góði herra. Farið út og gerið yður heimakominn hjá hirðinni sem hefur dæmt mig í útlegð. Snúið hjarta hennar og hug til heimspeki eins og þér hafið snúið hjarta mínu og hug. Það er hennar böl sem ég verð að umbera. Mildið það ef þér getið . . .

AÐ REKA BURT DRAUGINN ÚR VÉLINNI

Tvær spurningar sem Elísabet prinsessa spyr í samtalinu eru: (1) Er hin vitræna skynjun okkar á sálinni nægilega skýr til að við vitum að hún sé óefnisleg? og (2) Ef sálin er óefnisleg hvernig getur hún orkað á líkamann?

Báðum þessum spurningum var töluverður gaumur gefinn af heimspekingum sem skrifuðu eftir daga Descartes. Breski raunhyggju-heimspekingurinn John Locke (1632–1704) gaf neikvætt svar við hinni fyrri. Hugmynd okkar um andlega verund, sagði hann, er hugmynd um ‘eitthvað sem gert er ráð fyrir ég veit ekki hvað’ sem ‘stendur undir’ hugsun og vilja („hæfileikanum til að koma hlut á hreyfingu með hugsun“). Á svipaðan hátt er hugmynd okkar um efnislega verund hugmynd um eitthvað sem við vitum ekkert um nema að hún ‘stendur undir’ þéttleika og „hæfileikanum til að miðla hreyfingu með höggi“. Af því að þessu er svona háttað getum við ekki vitað hvort ‘undirstaða’ hugsunar er ekki sami hluturinn og ‘undirstaða’ þéttleika,

þar eð ógerlegt er fyrir okkur, með því að ígrunda hugmyndir okkar án opinberunar, að uppgötva hvort almættið hefur ekki gefið sumum efniskerfum, sem eru stillt á viðeigandi hátt, hæfileika til að skynja og hugsa, . . . þar eð það er, hvað snertir hugmyndir okkar, ekki miklu fjarri skilningi okkar að hugsa okkur að Guð geti, ef honum þóknast, bætt við efnið hæfileika til að hugsa en að hann bætti við það annarri verund með hæfileika til að hugsa. Fyrst við vitum ekki í hverju hugsun er fólgin né hvers konar verundum almættinu hefur þóknast að gefa þennan hæfileika . . . 2

Descartes taldi sig auðvitað hafa sannað að það sé óefnisleg verund sem hugsar en ekki, eins og við mundum segja, mannvera; enn síður ‘efniskerfið’ sem er heili mannveru. Efasemdir Elísabetar prinsessu um rökleiðslu hans hafa verið settar fram á gagnorðan hátt af A. M. MacIver:

Descartes reyndi að sanna á órækan hátt að það sem hugsar í okkur hljóti að vera rúmtakslaust og byrjaði út frá cogito (= ég hugsa). Ég veit að ég er til af því að ég hugsa og ég veit þetta með vissu; en vitandi að ég er til veit ég ekki hvort ég hef rúmtak, vegna þess að ég get, þótt ég sé viss um eigin tilvist, samt dregið í efa tilvist allra efnishluta. Þess vegna er ályktað að ‘ég’-ið sem er vitað með vissu að er til sé hugsandi hlutur en ekki hlutur sem hefur rúmtak – eða með öðrum orðum óefnislegur hugur. Þessi rökleiðsla, með yfirlýstri niðurstöðu sinni, byggist á þeirri einföldu rökvillu að gera ráð fyrir að ef við vitum ekki með vissu að eitthvað er staðreynd þá vitum við með vissu að það er ekki staðreynd: Ef ég veit að ég er til en veit ekki hvort ég hef rúmtak eða ekki þá veit ég að ég hef ekki rúmtak.3

MacIver bendir á að ályktun Descartes brjóti í bága við hversdagslegan talsmáta okkar :

Ef við föllumst á hina platonsku og cartesísku lýsingu á manneðlinu ættum við strangt tekið að segja „ég hugsa“ en „líkami minn situr“ og „líkami minn gengur“, og væri þessi talsmáti mönnum eðlilegur þá mundi þetta (eða eitthvað sem gerði sama greinarmun) vera eðlileg málnotkun. En í rauninni segir hversdagsmálið jöfnum höndum „ég hugsa“,„ég sit“, „ég geng“ – og gefur í skyn að fljótt á litið sé frumlagið í hverju tilviki hið sama.4

Sú skoðun að það sé eitt frumlag, nefnilega mannvera, þannig að hægt sé að nota um það jöfnum höndum bæði umsagnir eins og ‘hugsa’ og umsagnir eins og ‘ganga’, er skoðun sem P. F. Strawson hefur fært rök fyrir í bók sinni Einstaklingar (Individuals).5 Úrslitaskref í röksemda­færslunni er „að nauðsynlegt skilyrði þess að eigna einhverju vitundarástand yfirleitt sé að það skuli eignað alveg sömu hlutunum og tilteknir líkamlegir eiginleikar, tiltekið líkamlegt ástand o.s.frv.“6

MacIver telur að hin raunverulega ástæða Descartes fyrir að trúa því að frumlagið sem hugsar sé rúmtakslaust hafi ekki verið sú sem hann gaf í cogito–rökleiðslunni. Hann telur að hin raunveru­lega ástæða hans hafi verið skoðun hans að hægt væri að skýra hegðun hluta með rúmtak á vélrænan hátt, og að þar sem hugsun er augljóslega ekki vélrænt ferli gæti það ekki verið hlutur með rúmtak sem hugsar.7

Í bók sinni Hugtakið hugur (The Concept of Mind) styður Gilbert Ryle skýringu MacIvers á því hvernig á því stóð að Descartes trúði á rúmtakslausa verund:

Þegar Galileo sýndi fram á að aðferðir sínar við vísindalegar uppgötvanir gátu látið í té vélræna kenningu sem tæki til allra hluta í rúminu fann Descartes hjá sér tvær hvatir sem stönguðust á. Sem maður með vísindalega snilligáfu gat hann ekki annað en stutt staðhæfingar aflfræðinnar, en sem trúaður og siðaður maður gat hann ekki fallist á hina óþægilegu viðbót við þessar staðhæfingar, eins og Hobbes hafði gert, nefnilega að mannlegt eðli sé einungis ólíkt gangverki í klukku að því leyti að það sé flóknara. Hið andlega gæti ekki bara verið afbrigði hins vélræna.
Descartes og þeir heimspekingar sem á eftir komu notfærðu sér eðlilega en ranglega eftirfarandi undankomuleið. Úr því að orð um andlega hegðun má ekki túlka þannig að þau tákni að vélræn ferli eigi sér stað verður að túlka þau þannig að þau standi fyrir óvélræn ferli; . . . þó að sumar hreyfingar tungu og útlima manna séu afleiðingar vélrænna orsaka hljóta aðrar að vera afleiðingar orsaka sem eru ekki vélrænar, þ.e. sumar stafa af hreyfingu efnisagna, aðrar af starfsemi hugans.8

Einn aðalvandinn við að fallast á þessa skoðun um ‘óvélrænar orsakir’ er sá sem Elísabet lét í ljós, vandinn að skýra hvernig óefnislegir hugir geti valdið breytingum í efnislegum líkömum.

Það eru tvær leiðir til að bregðast við heimspekilegu vandamáli eins og þessu. Önnur er að fallast á hugtökin sem það er sett fram með og reyna að svara því með þeim. Hin leiðin er að hafna hugtökunum, nefnilega að sýna fram á að einhvers konar villa hafi verið gerð við fram­setningu vandamálsins. Ryle fer síðari leiðina. Hann segir að ‘frumhugtakavilla’ hafi átt sér stað með því að lýsa muninum á hinu efnislega og andlega sem „mismuni innan hins sameiginlega ramma hugtakanna ‘hlutur’, ‘efni’, ‘eiginleiki’, ‘ástand’, ‘ferli’, ‘breyting’, ‘orsök’ og ‘afleiðing’“.9

Að fallast á hugtökin sem vandamálið hefur verið sett fram með er að reyna að svara spurning­unni: „Ef sálin er óefnisleg hvernig getur hún orkað á líkamann?“ Einn heimspekingur sem reynir að svara þessari spurningu er Nicolas Malebranche (1638–1715).

Sé hugtökunum sem vandamálið hefur verið sett fram með hafnað stendur samt sem áður eftir einhvers konar spurning sem krefst svars. Í þessu tilviki er það spurningin: „Ef viljaverknað ber ekki að skilja sem líkamshreyfingu, sem orsakast af athöfn ‘vilja’, hvernig ber þá að skilja hann?“

Útdrætti úr ritum Descartes (þar á meðal nokkur bréf hans til Elísabetar prinsessu), Lockes, MacIvers, Strawsons, Ryles og Malebranche varðandi þetta efni er að finna í bókinni Líkami og hugur (Body and Mind), ritstjóri G. N. A. Vesey. Þetta er safn útdrátta úr ritum fjörutíu og eins heimspekings frá Descartes að telja um vandamálið um samband líkama og hugar.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Hið ímyndaða samtal franska 17. aldar heimspekingsins René Descartes og Elísabetar prinsessu af Bæ­heimi er eftir enska heimspekinginn Godfrey Vesey (f. 1923) sem var um langt árabil prófessor við Opna há­skólann í Bretlandi. Samtalið birtist, ásamt inngangi og eftirmála, í bókinni Philosophy in the Open (1978, önnur prentun) sem er hluti af kennsluefni háskólans í heimspeki og var fyrst útvarpað á áttunda áratugnum. Þýð.

2. An Essay concerning Human Understanding, Bók IV, 3. kafli.

3. MacIver (1936) „Is there Mind-Body Interaction?“ Proceedings of the Aristotelian Society, 36. árg., bls. 101.

4. Sama rit, bls. 99.

5. Strawson (1964), 3. kafli.

6. Sama rit, bls. 102.

7. MacIver, sama rit, bls. 102.

8. Ryle (1963), bls. 20

9. Sama rit.

 

« Til baka

Raunverulegt frelsi

Raunverulegt frelsi1

Frelsi: jákvætt eða neikvætt?

eftir Maurice Cranston

 

Í fyrirlestri sínum ‘Tvö hugtök um frelsi’ ber Sir Isaiah Berlin það sem hann kallar „hugmyndina um neikvætt frelsi“ saman við „hugmyndina um jákvætt frelsi“.2 Neikvætt frelsi er frelsið sem Leibniz er reiðubúinn að veita Adam: „Hugleiðið Adam rétt áður en hann syndgaði. Honum er frjálst að gera það sem hann vill. Hvers meira getur hann beðið?“

Um jákvætt frelsi, eða frjálsræði, skrifar Berlin:

Hin ‘jákvæða’ merking orðsins ‘frelsi’ á rætur að rekja til þeirrar óskar einstaklings að vera sinn eigin herra. Ég vil að líf mitt og ákvarðanir séu undir mér sjálfum komnar, en ekki ytri öflum af neinu tæi. Ég vil vera verkfæri míns eigin vilja, ekki vilja annarra manna. Ég vil vera sjálf en ekki hlutur, vil hrærast af ástæðum, af meðvituðum ætlunum sem eru mínar eigin, en ekki af ytri orsökum, ef svo má að orði kveða. Ég vil vera einhver en ekki enginn. Ég vil vera gerandi sem tekur sjálfur ákvarðanir og stjórnar sér sjálfur en lætur ekki stjórnast af ytri náttúru eða öðrum mönnum eins og hann væri hlutur, dýr eða þræll sem er ófær um að gegna mannlegu hlutverki og setja sér sín eigin markmið og lífsreglur og framfylgja þeim. Þetta er alltént hluti þess sem ég á við þegar ég segi að ég sé vitiborinn og að vit mitt greini mig sem mannveru frá öllu öðru í heiminum.

Það er áherslan á vitið sem gerir þetta að meira en aðeins jákvæðri framsetningu á sömu óskinni um frelsi og lýst er á neikvæðan hátt með því að segja að ekki sé um að ræða þvingun eða nauðung. Sé litið á vitið, ekki eins og David Hume (1711–1776) hugsaði sér það, sem „ambátt ástríðnanna“, heldur sem hæfileiki sem getur ákveðið sín eigin markmið þá er möguleiki á togstreitu milli málsvara neikvæðs frelsis (óhindraðrar fullnægingar náttúrlegra hneigða) og jákvæðs frelsis (til dæmis að raungera hið ‘sanna’ eðli mannsins). Enda má líta svo á að hið sanna eðli mannsins sé ekki eðli einstaklings heldur eðli samfélagsmeðlims. Þá kann það sem eru hagsmunir hans sem einstaklings að vera víðs fjarri því sem eru sannir hagsmunir hans sem samfélagsmeðlims. Ennfremur getur verið að vitsmunahæfileiki hans sé ekki nægilega þroskaður til að hann beri kennsl á hina sönnu hagsmuni sína. Honum kann að virðast að verið sé að ganga á frelsi sitt í þágu einhverrar hugsjónar sem hann kannast ekki við.

Með tilliti til greinarmunar Isaiahs Berlins er Voltaire (1694–1778), í eftirfarandi samræðu, talsmaður neikvæðs frelsis; Rousseau (1712–1778) er jákvæðs frelsis.

Samræðan er eftir Maurice Cranston, prófessor3 í stjórnmálafræði við London School of Economics, Lundúnaháskóla.

FRELSI

 

VOLTAIRE Jæja, minn kæri Rousseau, þeir eru þá að reka þig frá Frakklandi. Trúðu mér, þú átt samúð mína. Mér þótti ákaflega leitt að heyra að Samfélagssáttmáliþinn hefði verið bannaður.4

ROUSSEAU Ég hefði átt von á að þú gleddist, Voltaire. Ég veit að þú ert ósammála öllu sem ég skrifa.

VOLTAIRE Vitaskuld, ég tel það hafa verið rangt af þér að skrifa þessa bók. En þeir gerðu meira rangt með að banna hana en þú gerðir með því að skrifa hana.

ROUSSEAU Ef þú telur að rök mín séu staðlausir stafir þá sé ég ekki hversvegna þú ættir að vilja að nokkur læsi hana.

VOLTAIRE Vegna þess að ég trúi á frelsi.

ROUSSEAU Æ! frelsi. Þetta er eitt sem þú og ég kynnum að vera sammála um, Voltaire, eitt atriði af hundrað.

VOLTAIRE Við kynnum að vera það, ef þú bara vissir hvað frelsi merkir, en því miður, það er bara of augljóst að þú veist það ekki.

ROUSSEAU Með frelsi á ég ekki við taumleysi, eins og mig grunar stundum að þú gerir.

VOLTAIRE Hvað er taumleysi annað en það hvernig fólk notar frelsi sitt? Eini munurinn á frelsi og taumleysi býr í huga áhorfandans. Bæði orðin nefna sama fyrirbærið en ‘frelsi’ er notað af manni sem líkar það sem hann sér og ‘taumleysi’ er notað af manni sem mislíkar. Ég er ekki mikið gefinn fyrir að mislíka svo að ég nota ekki oft orðið ‘taumleysi’. Ég læt það orð eftir prestum eða hreintrúarmönnum, eins og þér, minn kæri Rousseau.

ROUSSEAU Ég er ekki púritani nema í þeim skilningi að ég var borinn og barnfæddur í Siðbótarkirkju Genfar, sem ég hef hvað eftir annað gert uppreisn gegn.

VOLTAIRE Engu að síður ert þú ósvikið barn Kalvíns. Síðast þegar við hittumst þráttuðum við, manstu ekki, af því að þú vildir láta koma í veg fyrir að leikhús yrði opnað í Genfarborg en ég vildi að það yrði leyft. Ég var hlynntur frelsi en þú varst á móti því. Okkar venjulegu viðhorf, Rousseau.

ROUSSEAU Þú segir að ég sé á móti frelsi, Voltaire, vegna þess að þú veist ekki hvað frelsi merkir.

VOLTAIRE Þú getur varla haldið því fram að þú hafir verið málsvari frelsis þegar þú krafðist þess að ríkið bannaði menningarstofnun.

ROUSSEAU Leikhús eru ekki menningarstofnanir. Þau eru afþreying og skemmtun sem grafa undan hinni sönnu menningu fólks. Þau frelsa ekki; þau spilla. Þau eru ekki mjög frábrugðin vændishúsum. Borg án leikhúsa og vændishúsa er frjálsari en borg sem hefur þau. Genf hefur, þrátt fyrir alla galla sína, meira frelsi en París.

VOLTAIRE Sem eitt leikritaskáld við annað verð ég að viðurkenna að það vekur furðu hjá mér að þú skulir líta á leikhúsið sem spillingarstofnun. En þú hefur samt alltaf vakið furðu hjá mér, Rousseau. Það er neðanmálsgrein í Samfélagssáttmálaþínum sem mér virðist vera fullkomið dæmi um furðulega hugmynd þína – eða ranghugmynd – um frelsi. „Í lýðveldinu Genúa,“ skrifar þú, „er orðið ‘frelsi’ letrað á hlekki refsifanganna. Og þetta,“ bætirðu við, „er mjög viðeigandi áletrun.“ Þarna höfum við í stuttu máli alla frelsisheimspeki Rousseaus: hinn frjálsi maður er maður í hlekkjum.

ROUSSEAU Þvættingur, Voltaire. Ég legg til að orðið ‘frelsi’ sé viðeigandi í fangelsi af því að frelsi samfélagsins í heild þarfnast þess að allir glæpamenn séu einangraðir. Glæpir gera út af við frelsið, alveg eins og lestir. Aðeins gott samfélag getur verið raunverulega frjálst.

VOLTAIRE Þetta hefur auðvitað verið sagt áður, einkum af Rannsóknarréttinum kaþólska. Þegar þeir pynta mann telja þeir sig vera að koma honum aftur til sannleikans og Guðs, og þeir telja sér þess vegna trú um að það sem þeir gera sé að gefa honum frelsi.

ROUSSEAU Það sem Rannsóknarrétturinn gerir er illt, en rökfærslan er nokkuð skynsamleg. Það er hægt að neyða mann til að vera frjáls.

VOLTAIRE Já, þennan frasa hef ég líka lesið í Samfélagssáttmála þínum: þversögn, ef ég má orða það þannig, sem engin fyndni er í.

ROUSSEAU Henni er ekki ætlað að vera fyndin. Ég læt þann stíl eftir rithöfundum sem þurfa að krydda hversdagslega lágkúru sína til að gera hana boðlega.

VOLTAIRE Sannleikurinn er oft hversdagslegur, jafnvel sannleikurinn um frelsið. Að vera frjáls er að vera óþvingaður. Þetta er það sem orðið ‘frelsi’ merkir. Það er allt mjög einfalt og hversdagslegt. Sé maður neyddur er hann þvingaður. Og þar sem hann getur ekki rökfræðilega séð verið þvingaður og óþvingaður í senn er ekki hægt að neyða hann til að vera frjáls.

ROUSSEAU Maður er frjáls ef hann velur í fyllsta skilningi þess orðs. Sé hann knúinn af einhverri lítilmótlegri ástríðu eða blindaður af fávisku velur hann ekki í raun og veru. Hægt er að beita valdi til að láta mann íhuga val sitt og velja þannig rökvíslega. Það er ástæðan fyrir því að það er fullkomlega rökrétt að tala um að neyða mann til að vera frjáls.

VOLTAIRE Svo það er þetta sem veitir þér rétt til að segja að fangarnir í Genúa séu frjálsir menn.

ROUSSEAU Ég sagði ekki að þeir væru það. Ég segi aðeins að ef refsing gerir mann betri þá hjálpar hún til að gera hann frjálsan. Líf glæpamanns er meiri ánauð en fangelsi og fjötrar því glæpir hneppa sálina í ánauð en sýnilegir fjötrar hindra aðeins hreyfingu líkamans.

VOLTAIRE Oft er sagt að dálítil heimspeki sé hættuleg5: og það er hún ef hún gerir rithöfundum af þínu sauðahúsi kleift að telja fólki trú um að frelsi sé ánauð og ánauð frelsi.

ROUSSEAU Þetta er ekki það sem ég sagði. Þú varst ekki að hlusta á mig.

VOLTAIRE Rousseau, ég hef hugsað um frelsi í langtum fleiri ár en þú. Ég er sextíu og sjö ára en þú getur ekki enn verið orðinn fimmtugur …

ROUSSEAU Ég verð fimmtugur í sumar, fái ég að lifa svo lengi.

VOLTAIRE Ég held ég hafi byrjað að skilja hvað frelsi merkir í raun og veru fyrir þrjátíu árum þegar ég var útlagi í Englandi. Englendingar vita betur en nokkur önnur þjóð í Evrópu hvað frelsi merkir, og til eru ummæli eftir enskan heimspeking, Thomas Hobbes, sem hafa alltaf setið í mér: „Frelsi þegnanna er þögn laganna.“

ROUSSEAU En Thomas Hobbes var enginn málsvari hinnar ensku frelsishugmyndar. Reyndar vildi hann snúa fólki gegn henni og til fylgis við fagnaðarerindi sitt um ótakmarkað einveldi.

VOLTAIRE Kannski það. En það er annað mál. Ég vitnaði í þessi orð vegna þess að þau lýsa svo vel hvað frelsi er. Því meira sem lögin banna því minna frelsi höfum við, og því minna sem lögin banna því meira frelsi höfum við. Englendingar eru frjálsari en Frakkar vegna þess að ensk lög leyfa þeim að trúa og tilbiðja eins og þeim þóknast og gefa út það sem þeim þóknast og svo framvegis. Frakkar eru ófrjálsari en Englendingar sökum þess að frönsku lögin þröngva kaþólsku trúnni upp á þjóðina og leyfa ritskoðun og þar fram eftir götunum. Hobbes dregur þetta mjög vel saman þegar hann segir að frelsi þegnanna sé þögn laganna.

ROUSSEAU Þú segist hafa fræðst um frelsi í Englandi, Voltaire. Væri þá ekki betra að vitna í Locke í staðinn fyrir Hobbes? Því er það ekki Locke sem er talinn vera málsvari hins enska viðhorfs til frelsis? Hafirðu lesið Locke manstu líklega að hann neitar sérstaklega því sem Hobbes heldur fram. Locke segir að lögin skerði ekki frelsi. Hann segir: „Lögin auka frelsi.“

VOLTAIRE Ef þú lest Locke vandlega, Rousseau, muntu sjá að hann notaði orðið ‘lög’ í frekar sérstakri og takmarkaðri merkingu. Með ‘lögum’ á hann ekki við kerfi settra laga sem er haldið uppi í þessu eða hinu konungsríki eða lýðveldi. Með ‘lögum’ á Locke einungis við þær reglur sem vitibornir menn koma sér saman um að lifa samkvæmt. Hann neitar að kalla tilskipanir ranglátra valdhafa virðingarheitinu lög. En Hobbes notar orðið ‘lög’ á langtum kunnuglegri hátt, eins og hann útskýrir sjálfur, og á við fyrirskipanir einvaldsins. Með ‘einvaldi’ á hann auðvitað við þjóðhöfðingjann og allar stjórnarstofnanirnar. Öll sett lög eru lög í skilningi Hobbes. Þannig að ef við erum sátt við að nota orð Hobbes eins og hann notar þau hljótum við að vera honum sammála um að því meira sem lögin fyrirskipa eða banna því minna er frelsi fólksins.

ROUSSEAU Ég er þér ekki sammála, Voltaire, ekkert frekar en ég er sammála Hobbes. En mér líkar mjög vel að heyra þig vitna í kennivald hans vegna þess að ég hef oft talið þig vera fremur líkan honum í brennandi áhuga þínum á upplýstu einveldi.

VOLTAIRE Ég hef engan brennandi áhuga á upplýstu einveldi. Ég fellst á það sem pólitíska nauðsyn fyrir Frakkland vegna hins sérstaka sögulega ástands þar í landi sem þú sem Svisslendingur skilur ekki. Fullveldi í Frakklandi er ekki eitt og óskipt eins og í sumum löndum sem búa við aðra stjórnskipan. Konungurinn er ekki eina valdamiðjan hér, alls ekki. Það eru aðrar uppsprettur ófrelsis, eins og til dæmis kirkjan og lénsaðallinn sem íþyngja þjóðinni langtum meira en nokkur konungur Frakklands hefur nokkurn tíma gert. Ljóst er því að eigi frelsisréttindi manna í Frakklandi að aukast þarf að afnema kúgun annarra en konungsvaldsins. Og einungis konungur gæti tekist það verk á hendur.

ROUSSEAU Ég skil ekki hversvegna þú andmælir orðum mínum um að þvinga menn til að vera frjálsir þegar þú heldur því fram að þetta sé einmitt það sem hinu upplýsta einveldi þínu er ætlað að gera: að beita valdi til að skapa aðstæður þar sem menn eru frjálsir.

VOLTAIRE En það er ekki að þvinga neinn til að vera frjáls. Það er spurning um að beita valdi til að gera út af við óvini frelsisins sem er mjög ólíkt og gagnlegra fyrirtæki. Eins og Locke er mér ljóst að frelsi í þessum heimi getur aldrei verið algert. Við getum ekki beðið um algert frelsi en aðeins um eins mikið frelsi og mögulegt er.

ROUSSEAU Ég neita því ekki að lögin eru ekki eins þjakandi í Englandi og að Englendingar telja sig vera frjálsa. Og kannski eru þeir frjálsir á kosningatímum þegar þeir kjósa sér valdhafa, en lengst af eru þeir ekki frjálsir sökum þess að þeir búa við lög sem konungur þeirra og þing búa til. Frjálsir menn eru menn sem búa til sín eigin lög.

VOLTAIRE Þingið er fulltrúi þjóðarinnar.

ROUSSEAU Það gerir kröfu til að vera það en er það ekki, því að strax og þingmennirnir hafa verið kjörnir breytast þeir úr þjónum í húsbændur. Enginn maður getur verið fulltrúi annars í því að setja lög. Eigi menn að vera frjálsir verða þeir að setja lög milliliðalaust og í eigin persónu.

VOLTAIRE En hvernig er það hægt nema í einhverju forngrísku lýðræðisríki?

ROUSSEAU Það er enn gert í sumum svissneskum kantónum; og það væri hægt að gera það á öðrum stöðum ef fólk vissi hvað frelsi merkir. Og það merkir ekki að lögin láti mann í friði: það merkir að taka virkan þátt í löggjafarstarfinu.

VOLTAIRE En, minn kæri Rousseau, jafnvel í skrítnu sögunni sem þú segir íSamfélagssáttmála þínum er fólkið fullvalda aðeins að nafninu til. Þú lætur fólkið samþykkja lögin, að vísu, en það eru lög sem hafa verið sett saman fyrir það af utanaðkomandi aðila sem er kallaður löggjafinn og auk þess er lögunum framfylgt af embættismönnum.

ROUSSEAU Í upphafi bókarinnar útskýri ég það sem ég er að reyna að gera: að lýsa í stórum dráttum þeim stofnunum sem mundu gera mönnum eins og þeir eru kleift að vera bæði frjálsir og undir stjórn. Og venjulegir menn eins og þeir eru núna eru of fávísir til að setja saman lagabálka.

VOLTAIRE Auðvitað eru þeir það: og er ekki löggjafi þinn jafn mikið upplýstur einvaldur og hvaða konungur sem ég kynni að styðja?

ROUSSEAU Ég hugsa mér að löggjafinn sannfæri fólk en skipi því ekki fyrir.

VOLTAIRE Í stuttu máli sagt verður hann að hafa samþykki fólksins: sem er einmitt það sem þingbundinn konungur hefur. Þú segir mér að ég mæli með, án þess að vita það, að þvinga menn til að vera frjálsir. Ég segi þér að þú mælir með, án þess að viðurkenna það, upplýstu einveldi sem felur í sér meiri harðstjórn en nokkuð sem ég mundi umbera.

ROUSSEAU Það er gífurlegur skoðanamunur milli okkar. Þú vilt láta fólkið fela fullveldi í hendur konungi; ég held því fast fram að það verði sjálft að hafa það.

VOLTAIRE Mér er ljóst, Rousseau, að líkt og allir Genfarbúar leggurðu mikið upp úr orðum eins og ‘lýðveldi’ og ‘fullveldi fólksins’. En það sem allt þetta glæsilega mál þýðir er að í Genf er engin ein konungsætt heldur ráð auðugra borgaralegra fjölskyldna við stjórnvölinn í ríkinu. Í staðinn fyrir konungsríki hafið þið fámennisstjórn, og því miður er hún ekki sérlega upplýst.

ROUSSEAU Þú getur talað með eins mikilli fyrirlitningu og þér þóknast um Genf, en ég sé að þú hefur búið þér heimili alveg við borgarmörkin svo þú getur komist undan inn í þessa borg ef frönsku yfirvöldin snúast gegn þér.

VOLTAIRE Og til baka yfir borgarmörkin aftur ef þess skyldi gerast þörf. En þér ferst varla að áfellast mig fyrir þetta, minn kæri Rousseau, þar sem mér er vel kunnugt um að þú ert á leiðinni til Neuchâtel til að leita verndar hjá fyrrverandi vini mínum, Friðriki Prússakonungi, upplýstum einvaldi í eigin augum, þó ekki lengur svo upplýstum í mínum augum.

ROUSSEAU Ég er eltur, Voltaire, eins og dádýr. Mér gefst ekki alltaf tóm til að spyrja hver eigi landið þar sem ég leita hælis.

VOLTAIRE Þú ættir að láta elta þig eins og ref, eins og ég hef verið eltur, og þá mundirðu kannski læra eitthvað af slægð hans.

ROUSSEAU Ég hef enga löngun til að vera slægur. Ég hef andstyggð á lygum, uppgerð og falsi af hvaða tæi sem er. Raunar held ég að menn sem ekki unna góðmennsku geti ekki skilið hvað frelsi merkir. Til að vera sannarlega frjáls þarf að vera góður maður.

VOLTAIRE Það er nóg að vera frjáls; það er engin þörf á að vera ’sannarlega’ frjáls. Góður maður er sá sem notar betur frelsi sitt, en vondur maður hefur alveg eins mikið frelsi séu ytri kringumstæður hans hinar sömu. Frelsi er ekki forréttindi hinna dygðugu einna; og við skulum vona að svo verði aldrei því annars mundu vera afar fáir frjálsir menn í heiminum.

ROUSSEAU En hvernig geturðu í alvöru vísað á bug tengslunum milli frelsis og góðmennsku?

VOLTAIRE Ég vísa þeim ekki á bug en þau verða fljótlega frumspekilegt úrlausnarefni sem við gætum rökrætt til eilífðarnóns og aldrei útkljáð. Spurningin „Er Englendingur frjálsari en Frakki“ er pólitísk spurning og spurning sem ég tel að hægt sé að gefa mjög ákveðið svar við. Jafnvel þú sem telur ekki að Englendingar séu frjálsir að því marki sem þeir gætu verið það, jafnvel þú, Rousseau, mundir vera mér sammála um að þeir séu að minnsta kosti frjálsari en Frakkar.

ROUSSEAU Valdhafarnir hjá þeim eru vafalaust umburðarlyndari.

VOLTAIRE Og þú mundir fallast á að það sé mikils virði?

ROUSSEAU Já, í vissum skilningi er það mikils virði. Ég kann jafnvel sjálfur að verða nauðbeygður til að treysta á umburðarlyndi þeirra og leita hælis í Englandi, eins og þú gerðir einu sinni.

VOLTAIRE Og ef þú gerir það vona ég að þú fræðist eins mikið og ég fræddist í Englandi um frelsi sem meginreglu raunhæfra stjórnmála. Þegar þú segir, minn kæri Rousseau, að frelsi sé aðeins mögulegt í samfélagi góðra manna sem stjórna sér sjálfir þá ertu að tala eins og heimspekingur um hluti sem eru til í huganum. Þegar ég segi að við verðum að hafa frelsi í Frakklandi á ég í raun og veru aðeins við að við ættum að hafa í Frakklandi það sem Englendingar hafa í Englandi, eða eitthvað svipað því.

ROUSSEAU En hversvegna að biðja um svo fátæklega eftirlíkingu frelsis? Hversvegna ekki að biðja um frelsið sjálft?

VOLTAIRE Þú mátt kalla það fátæklega eftirlíkingu frelsis en ég lít ekki þannig á það. Ekki þegar ég sé bækur mínar bannaðar hér í Frakklandi en seldar hindrunarlaust í Englandi; ekki þegar ég sé að vinir mínir sem aðhyllast mótmælendatrú eru látnir sæta dómsmorði, eru pyntaðir eða settir í fangelsi – eins og ég hef séð í allt of mörgum tilvikum; og lít síðan á England og sé að alls konar önnur trúarbrögð blómstra óáreitt. Nei, minn kæri Rousseau, frelsið missir ekkert af töfrum sínum fyrir mig þótt það sé, eins og það hlýtur óhjákvæmilega að vera, ófullkomið.

ROUSSEAU Ófullkomið frelsi er ekki fullgilt frelsi. Menn eru annaðhvort frjálsir eða þeir eru ekki frjálsir. Ef þeir sætta sig við það sem þú kallar ófullkomið frelsi munu þeir aldrei vita hvað raunverulegt frelsi er.

VOLTAIRE En þarna held ég að þér skjátlist hrapallega. Í stjórnmálum er alls ekki um það að ræða að menn séu frjálsir eða ekki frjálsir: þeir geta annaðhvort verið ófrjálsari eða frjálsari; þeir verða aldrei algerlega frjálsir. Það sem er skynsamlegt að stefna að er að fá eins mikið frelsi og unnt er að fá. Að hverfa frá hinu ómögulega og fá eins mikið og unnt er af hinu mögulega.

ROUSSEAU Þú talar af mælsku fyrir málamiðlun, Voltaire. Eins og þú hefur alltaf gert. Stássstofu-uppreisnarmaður. En einhvern veginn held ég ekki að Frakkland sætti sig lengi við það sem þú býður upp á. Ég held að þegar frelsisþráin grípur Frakka muni þeir vilja frelsið allt: lýðveldi líkt og í Róm til forna þar sem hver maður er borgari og borgarinn er löggjafi.

VOLTAIRE Og ef þeir vilja það munu þeir öðlast það?

ROUSSEAU Það er auðvelt að innleiða frelsi: vandinn er að halda því.

VOLTAIRE Heldurðu að erfiðleikarnir verði yfirstignir?

ROUSSEAU Nei, Voltaire, ég er ekki bjartsýnismaður.

VOLTAIRE Ó, en það er ég. Ég bið um minna en þú. En ég vona ekki bara, ég vænti þess að sjá það verða að veruleika.

ROUSSEAU Sextíu og sjö ára gamall?

VOLTAIRE Ég ætla að verða ódauðlegur.

ROUSSEAU Þá hefurðu einhverja trú, þrátt fyrir allt, á líf eftir dauðann?

VOLTAIRE Ögn af trú.

ROUSSEAU Bara ögn af trú og gnótt af von. Voltaire, það er engin furða að þú ert kallaður rödd þessarar aldar. Ég er öðruvísi en þið hinir. Ég hef óendanlega mikla trú en varla nokkra von.

VOLTAIRE Jæja, ég er hræddur um að það sé þín ógæfa. Þú ættir að biðja þess, eins og ég geri, að trú þín verði tekin frá þér og þú fáir vonina aftur.

Leiðsögn um frekari lestur

Hentug útgáfa af Samfélagssáttmálanum er þýðing Maurice Cranstons. Nokkrar af hugmyndum Cranstons sjálfs um frelsi eru útfærðar í bók hans Frelsi.

Bókin Fjórar ritgerðir um frelsi (Four Essays on Liberty) eftir Sir Isaiah Berlin hefur þegar verið nefnd.6 Tvær aðrar bækur sem verðskulda að vera lesnar í tengslum við samræðuna eru Stjórnmál Voltaires (Voltaire’s Politics) eftir Peter Gay og Menn og borgarar: rannsókn á samfélagskenningu Rousseaus (Men and Citizens: a Study of Rousseau’s Social Theory).

Í samræðunni segir Rousseau: „Maður er frjáls ef hann velur í fyllsta skilningi þess orðs.“ Að velja „í fyllsta skilningi“ merkir að valið sé skynsamlegt. Sá sem er „knúinn af einhverri lítilmótlegri ástríðu“ velur ekki í raun og veru.

Sá heimspekingur sem hefur þróað þennan greinarmun – á rökviti eða rökhugsun annars vegar og ástríðu eða tilhneigingu hins vegar – á kerfisbundnastan hátt er Immanúel Kant (1724–1804). Kant varð fyrir miklum áhrifum frá Rousseau. Reyndar má lesa Fyrstu bók, 8. kafla í Samfélagssáttmálanum sem inngang að siðfræði Kants. Með Kant er maður kominn út í alldjúp heimspekileg vötn.

 

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Enska heitið er ‘True Liberty’. Textann er að finna í bókinni Philosophy in the Open (1. útg. 1974, önnur prentun 1978). Hluti af námsefni í heimspeki hjá Opna háskólanum í Bretlandi. – Höfundur formála og eftirmála samræðunnar er ritstjóri bókarinnar, Godfrey Vesey. – Síðustu málsgrein eftirmálans er sleppt.

2. Íslenska þýðingu á þessum fyrirletri (í styttri útgáfu) er að finna í bókinni Heimspeki á tuttugustu öld sem kom út hjá Heimskringlu 1994. Þýðandi: Róbert Víðir Gunnarsson.

3. Upplýsingar frá 1978. – Maurice Cranston (f. 1920) hefur skrifað ævisögu Rousseaus og þýtt Samfélagssáttmálann á ensku.

4. Samfélagssáttmálinn kom út í lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags árið 2004. Þýðendur: Björn Þorsteinsson og Már Jónsson.

5. Þessi furðulega setning er kannski skiljanleg í sögulegu ljósi. Höfundur samræðunnar mun hér hafa í huga ‘spakmæli’ sem rekja má til enska vísindaheimspekingsins Francis Bacons (1561–1626) og er á þá leið að ‘dálítil heimspeki geri mann að guðleysingja en heilmikil heimspeki snúi honum til guðstrúar.’ (Er að finna í ritgerð eftir Bacon sem ber heitið Of Atheism).

6. Í upphafi formálans nefnir höfundur fyrirlestur Berlins ‘Tvö hugtök um frelsi’ sem er ein ritgerðin í þessari bók. Hann nefnir ekki bókina.

 

« Til baka

Samtal við Karl R. Popper

Karl Popper og Bryan Magee ræðast við1

Magee Karl Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 og átti þar heima fram á fertugsaldur. Hann var aldrei í Vínarhringnum. Enda þótt áhugamál hans væru flest hin sömu og þeirra var hann ósammála kenningum þeirra. Það mætti næstum því segja að fyrsta bókin hans, Logik der Forschung – sem þýðir bókstaflegaRökfræði rannsóknar – hafi verið skrifuð gegn Vínarhringnum. Þótt hún kæmi út haustið 1934 birtist hún því miður ekki í enskri útgáfu fyrr en aldarfjórðungi síðar (undir heitinu The Logic of Scientific Discovery). Mér er nær að halda að heimspeki heillar kynslóðar í Englandi kynni að hafa orðið öðruvísi ef bókin hefði birst fyrr.

Popper fór frá Vínarborg árið 1937 og var styrjaldarárin á Nýja Sjálandi. Þar skrifaði hann, á ensku, tveggja binda verk sem gerði hann fyrst verulega frægan meðal enskumælandi fólks: Opna samfélagið og fjandmenn þess (The Open Society and its Enemies). Þetta er stórbrotin og kröftuglega rökrædd framsetning á málstað lýðræðis og gegn alræði – og einnig gegn helstu heimspekilegum andstæðingum lýðræðis, einkum Platoni og Marx. Minna rit, Örbirgð söguhyggjunnar(The Poverty of Historicism), sem fjallar um aðferðir fræðilegra félagsvísinda, var upphaflega gefið út sem greinaflokkur um leið og Opna samfélagið og má líta á þessi tvö rit sem samstæður. Á sama hátt má líta á ritiðTilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations) sem samstæðu við hina frjóu frumsmíð, Rökfræði rannsóknar. Síðan 1945 hefur Popper verið breskur þegn og starfað við Hagfræðiskóla Lundúna (London School of Economics), þar sem hann lét nýlega af störfum sem prófessor í rökfræði og vísindalegri aðferðafræði.

Sir Karl, ég veit það frá fyrri samtölum okkar að þú lítur svo á að það að vera heimspekingur sé eitthvað sem þurfi að biðjast afsökunar á. Hvers vegna?

Popper Já, ég get ekki sagt að ég sé stoltur af að vera kallaður heimspekingur.

Magee Það er undarlega að orði komist. Af hverju segirðu það?

Popper Í langri sögu heimspekinnar eru þær heimspekilegu röksemdafærslur miklu fleiri sem ég ber kinnroða fyrir en hinar sem ég er stoltur af.

Magee En augljóst er að þú telur að minnsta kosti einhvers virði að vera heimspekingur, jafnvel þótt það sé ekkert til að vera hreykinn af.

Popper Ég held ég geti borið fram afsökun – einhvers konar vörn fyrir tilvist heimspekinnar eða ástæðu fyrir því að þörf er á að hugsa um heimspeki.

Magee Og hver mundi hún vera?

Popper Hún er sú að allir hafa einhverja heimspeki: við öll, þú og ég, og hver sem er. Hvort sem við vitum það eða ekki tökum við fjölmargt sem sjálfsagðan hlut. Þessar ógagnrýnu hugmyndir sem við göngum út frá eru oft heimspekilegs eðlis. Stundum eru þær sannar eða réttar, en oftar eru þessar heimspekilegu skoðanir okkar rangar. Hvort við höfum rétt eða rangt fyrir okkur er aðeins hægt að uppgötva með gagnrýnni rannsókn á þessum heimspekilegu skoðunum sem við tökum sem gefnar án gagnrýni. Ég held því fram að þessi gagnrýna rannsókn sé verkefni heimspekinnar og réttlætingin fyrir tilvist hennar.

Magee Hvað mundir þú nefna úr samtímanum sem dæmi um ógagnrýna heimspekilega kreddu sem þarfnast gagnrýnnar rannsóknar?

Popper Mjög áhrifamikil heimspeki af því tæi sem ég hef í huga er sú skoðun að þegar eitthvað „slæmt“ gerist í samfélaginu, eitthvað sem okkur geðjast ekki að, svo sem stríð, fátækt og atvinnuleysi, þá hljóti það að stafa af einhverjum vondum ásetningi, einhverju skuggalegu ráðabruggi: Einhver hefur gert það „viljandi“, og auðvitað græðir einhver á því. Ég hef kallað þessa heimspekilegu kreddu samsæriskenninguna um samfélagið. Það er hægt að gagnrýna hana, og ég hygg að unnt sé að sýna fram á að hún er röng: Það er margt sem gerist í samfélaginu sem leiðir óviljandi og ófyrirséð af því sem við höfum gert.

Samsæriskenningin um samfélagið er ein af mörgum ógagnrýnum heimspekilegum skoðunum sem skapa þörf fyrir gagnrýna rannsókn. Þær eru að minni hyggju afsökun fyrir að vera heimspekingur. Þessar röngu heimspekikenningar hafa mikil áhrif og einhver ætti að fjalla um þær og gagnrýna.

Magee Geturðu nefnt einhver önnur dæmi?

Popper Fjölmörg. Mjög skaðlega heimspeki má orða á þessa lund: „Efnahagslegir og pólitískir hagsmunir manns ráða ætíð skoðunum hans.“ Ákaflega oft er þessu aðeins beitt gegn andstæðingnum í eftirfarandi formi: „Ef þú hefur ekki sömu skoðun og ég hlýtur þú að láta stjórnast af einhverjum skuggalegum efnahagslegum hvötum.“ Það sem er slæmt við þessa tegund heimspeki er að úti er um alvarlega umræðu sé fallist á hana. Og hún slævir áhuga á því að komast að sannleikanum um hlutina. Því að í staðinn fyrir að spyrja: „Hver er sannleikurinn í þessu máli?“ spyr fólk einungis: „Hvað kemur þér til að halda þessu fram.“ Og þetta er augljóslega spurning sem skiptir litlu máli.

Ámóta heimspeki, einnig háskalega, og um þessar mundir gífurlega áhrifaríka, má orða á þessa leið: „Rökleg umræða er aðeins möguleg milli manna sem eru sammála um grundvallaratriði.“ Þeir sem leggja trúnað á þetta halda því líka fram að útilokað sé að ræða af skynsamlegu viti um grundvallarspurningar. Stundum er þessi heimspeki varin með eftirfarandi staðhæfingu: „Með því einu móti að hvor fallist á annars grundvallarhugmyndir í upphafi getum við vænst þess að ná samkomulagi í röklegri umræðu.“ Þessi heimspeki lætur nokkuð líklega og skynsamlega í eyrum en hún hefur skelfilegar afleiðingar. Því hún sundrar mannkyninu í hópa – menningarhópa – sem geta ekki ræðst við af skynsamlegu viti heldur aðeins háð stríð. Þetta er ekki einungis léleg heimspeki, heldur, að minni hyggju, ósönn heimspeki – heimspeki sem hægt er að hrekja, þó ekki á þá lund að ég geti hrakið hana á fáeinum mínútum. En tilvist hennar og feiknaleg áhrif er, að minni hyggju, ein afsökunin fyrir því að vera heimspekingur.

Magee Þú heldur þá þessu fram: Við stundum öll heimspeki í þeim skilningi að við höfum öll heimspekilegar skoðanir og breytum eftir þeim. En venjulega er okkur ekki ljóst að það sem við erum að gera er að viðurkenna gagnrýnislaust að skoðun eða kenning sé sönn.

Popper Já.

Magee Og sumar af þessum kenningum eru réttar, segirðu, en aðrar eru ekki aðeins rangar heldur einnig skaðlegar. Og þú segir að hið raunverulega hlutverk heimspekinnar sé að kanna á gagnrýninn hátt heimspekilega fordóma okkar sem við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir og að leiðrétta þá sem þurfa leiðréttingar við.

Popper Einmitt. Annars held ég ekki að þörfin á að leiðrétta það sem atvinnuheimspekingar segja væri nægileg málsbót fyrir tilvist heimspekinnar.

Magee Það er þveröfugt við skoðun Moores.2 Hann sagði einu sinni að heimurinn sjálfur legði ekki til vandamál sem kæmu sér til að vilja hugsa heimspekilega – að hann hefði einungis orðið heimspekingur vegna þess hve fjarstæðar kenningar aðrir heimspekingar hefðu látið sér um munn fara.

Popper Að minni hyggju leiðir þetta til einskonar heimspekilegrar innræktar. Það mundi gera heimspekina of sérhæfða, að fyrirmynd nútíma raunvísinda. Ég hygg að sterk rök megi færa gegn þessari sérhæfingu í vísindunum sem er allt of mikið í tísku, og rökin gegn sérhæfingu í heimspeki eru enn sterkari.

Magee Þú nefnir nútíma raunvísindi – mér skilst þú hafir fengið einhverja þjálfun í þeim, er það ekki?

Popper Jú. Nám mitt hófst reyndar á sviði stærðfræði og eðlisfræði og fyrsta kennarastaða mín var við framhaldsskóla í þessum greinum. En ég var aldrei sérfræðingur og ég vann alltaf við það sem ég hafði mestan áhuga á. Í eðlisfræði var ég einungis áhugamaður, stundaði hana aldrei að atvinnu. Ritgerð sem ég skrifaði til að fá kennararéttindi í stærðfræði var um frumsetningar rúmfræðinnar og seinna vann ég að því að finna frumsetningar í líkindafræði.

Magee Var þetta þungamiðja rannsóknarsviðs þíns?

Popper Það er erfitt að segja. Ég gæti kannski sagt að rannsóknir mínar hafi snúist um aðferðir raunvísindanna, einkum nútíma eðlisfræði, eða svo ég noti nýtískulegra heiti, heimspeki vísindanna. Annars hef ég mörg önnur áhugamál.

Magee Hverjar voru meginhugmyndirnar í fyrstu bók þinni, Rökfræði rannsóknar?

Popper Meginhugmyndin var sú, hygg ég, að í ljósi hinnar nýju þyngdaraflskenningar Einsteins væru allar eldri skýringar á því hvernig raunvísindin ganga fyrir sig og á eðli vísindalegrar þekkingar rangar.

Magee Hvernig þá?

Popper Sú skoðun var almennt ríkjandi að vísindin, eða vísindaleg þekking, væru sérstaklega örugg eða mjög áreiðanleg tegund þekkingar; einnig að hún væri árangur af athugunum og tilraunum. Athugun og tilraun kæmu okkur til að setja fram tilgátu. Þegar hún væri athuguð og prófuð, aftur og aftur, yrði hún viðurkennd sem staðfest eða sönnuð vísindaleg kenning. Þetta var í stuttu máli hin viðtekna skoðun. Ég sá að hún var orðin óverjandi vegna véfengingar Einsteins á kenningu Newtons – árangursríkustu og mikilvægustu kenningu sem nokkru sinni hafði verið sett fram og viðurkennd.

Magee Hvers vegna telurðu kenningu Newtons svona einstæða?

Popper Newton lét okkur skiljast í fyrsta sinn eitthvað um heiminn sem við lifum í. Og í fyrsta sinn höfðum við góða og gilda ástæðu til að ætla að við hefðum kenningu sem væri rétt. Því kenning Newtons gerði okkur kleift að spá nákvæmlega um nýjar afleiðingar – svo sem um frávik frá lögmálum Keplers – og þessar spár stóðust hin rækilegustu próf. Mesti árangur kenningarinnar var vitaskuld uppgötvun reikistjörnunnar Neptúnusar. Sú uppgötvun snéri yfirvofandi ósigri upp í sigur.

Magee Geturðu farið svolítið nánar út í þetta?

Popper Athuganirnar á reikistjörnunni Úranusi sýndu smávegis misræmi við spárnar sem leiddar voru af kenningu Newtons. Þá bentu þeir Adams í Englandi og Leverrier í Frakklandi á að þetta sýndarmisræmi mætti skýra ef gert væri ráð fyrir að til væri reikistjarna utar í sólkerfinu sem hefði ekki enn sést. Báðir reiknuðu út stöðu þessarar óþekktu reikistjörnu og Galle í Berlín var ekki lengi að finna hana. Ég hygg að þetta hafi verið furðulegasti og mest sannfærandi árangur sem mannlegir vitsmunir hafa nokkurn tíma náð, enda þótt það verði að viðurkennast að svipaðar velheppnaðar spár hafa síðan orðið ekki ótíðar. Alltént efuðust fáir, eftir þennan mikla árangur, um að kenning Newtons væri rétt. Venjan var að líta svo á að kenningin hefði verið sönnuð með aðleiðslu3 sem byggðist á athugunum. En nú kom Einstein fram með kenningu sem stríddi gegn henni. Skoðanir um kosti þessarar nýju kenningar voru ákaflega skiptar, og þær eru enn skiptar. Sumir eðlisfræðingar ríghalda enn í kenningu Newtons af ýmsum ástæðum.

Magee Hvorri ert þú hlynntur?

Popper Ég tel kenningu Einsteins hafa yfirburði yfir kenningu Newtons, en það er reyndar ekki aðalatriðið hjá mér.

Magee Hvert er þá aðalatriðið?

Popper Það er að öll athugunargögnin sem færa má til stuðnings kenningu Newtons má einnig nota til að styðja afar ólíka kenningu Einsteins. Þetta sýnir ótvírætt að okkur skjátlaðist hreinlega þegar við töldum að segja mætti að kenning Newtons væri staðfest eða sönnuð með aðleiðslu, á grundvelli athugunargagnanna. Það sýnir ennfremur að því verður ekki haldið fram að neinkenning sé sönnuð með aðleiðslu. Því ekki gat verið um tilkomumeira samræmi milli kenningar og athugunargagna að ræða en þar sem kenning Newtons var. Ef þetta nægði ekki einusinni til að sanna kenninguna með aðleiðslu þá var ljóst að ekki nokkur skapaður hlutur entist til þess.

Magee Er þetta ástæðan til þess að þú hvarfst frá aðleiðslukenningunni?

Popper Já. Í grundvallaratriðum er rökstaðan ákaflega einföld. Ótaldar athuganir á hvítum svönum geta ekki sannað þá kenningu að allir svanir séu hvítir: Fyrsti svarti svanurinn sem sést getur hrakið hana. Stuðningur athugana við kenningu Newtons var vitanlega langtum tilkomumeiri vegna hinna hárfínu mælinga sem kenningin sagði mjög nákvæmlega fyrir um. En fyrsta raunverulega misræmið getur hrakið eða afsannað hana.

Magee Og vitaskuld kom slíkt misræmi fyrir – eitthvað varðandi reikistjörnuna Merkúr, ef mér skjátlast ekki.

Popper Já, en þetta misræmi var ákaflega lítið og kynni að vera hægt að skýra það (eins og Dicke benti á) innan ramma kenningar Newtons. Það sem ég á við er ekki aðallega það að kenning Newtons hafi verið hrakin ella þá að kenning Einsteins hafi afdráttarlaust leyst hana af hólmi. Ég á frekar við það að síðan Einstein kom fram með kenningu sína sem stríðir gegn kenningu Newtons, þá vitum við að jafnvel mesta forsagnargengi, jafnvel ströngustu prófanir, geta ekki sannað kenningu með aðleiðslu. Þetta hlýtur að valda gerbreytingu á viðhorfi okkar til raunvísinda. Það merkir að okkur skjátlaðist um vísindalega þekkingu, að vísindakenningar yrðu alltaf reistar á tilgátum, að það gat alltaf gerst að jafnvel best sannprófaða vísindakenningin yrði leyst af hólmi af betri kenningu. Allt sem við gátum sagt var að betri kenningin yrði að rúma einhvern af vel heppnuðum og vel prófuðum forverum sínum sem færi nærri því rétta. Á þennan hátt mundi hún einnig skýra hvers vegna forveri hennar hafði staðið sig vel.

Magee Geturðu þá tekið saman hina nýju vísindaskoðun sem þú komst að?

Popper Það er þá fyrst að aldrei má líta svo á að vísindakenning hafi verið endanlega sannreynd eða sönnuð. Í annan stað var eitthvað í grundvallaratriðum rangt við þá skoðun að vísindaleg vissa (eða líkindi) aukist eftir því sem endurteknum athugunum eða tilraunum fjölgar. Öllu heldur gegna athugun og tilraun einvörðungu hlutverki prófana. Þessar prófanir eru því mikilvægari þvistrangari sem þær eru. Til að mynda hafði uppgötvun Neptúnusar verið ákaflega ströng prófun. Samt sem áður sannaði hún ekki kenningu Newtons. Allt þetta kom mér til að lýsa vísindalegum prófunum á kenningu sem tilraunum til að hrekjahana. Kenning var góð og gild svo lengi sem hún stóðst prófanir – svo lengi sem hún stóðst tilraunir okkar til að hrekja hana eða afsanna. Og væri hún hrakin kom fram þörfin fyrir nýja skýringarkenningu sem átti að skýra bæði velgengni ogvankanta hinnar fyrri kenningar.

Magee Hvað gerist ef við getum ekki fundið viðunandi kenningu í staðinn fyrir þá kenningu sem hrakin hefur verið?

Popper Þá héldum við auðvitað áfram að nota gömlu afsönnuðu kenninguna þar til betri kenning fyndist, en við mundum nota hana með þeirri vitneskju að eitthvað væri bogið við hana. Það væri um að ræða óútkljáðan vanda og við vissum fyrirfram hvaða lágmarksskilyrðum ný kenning yrði að fullnægja til að teljast áhugaverð lausn á þessum óútkljáða vanda.

Magee Og auðvitað var það með vandalausnarökfræðinni (problem solving logic) sem þú sleist þig lausan frá hefðbundinni raunhyggju með miklum glæsibrag. Má ég nú taka saman í stuttu máli höfuðatriðin fram að þessu? Allt frá tímum Bacons4hefur hin hefðbundna skoðun á því hvernig þekkingu miðar áfram verið eitthvað á þesa leið: Vísindamenn safna gögnum með athugunum og tilraunum þar til þeir eru búnir að fá svo mikið að tiltekin almenn einkenni fara að koma í ljós. Þeir setja fram tilgátur sem byggðar eru á þessum almennu einkennum. Síðan freista þeir þess að styrkja tilgáturnar með frekari athugunum og tilraunum. Í þeim tilfellum þar sem tilraunir þeirra bera árangur er tilgátan staðfest sem lögmál – og viti menn! enn einum leyndardómi náttúrunnar hefur verið lokið upp. Þessi meinta aðferð við að komast að lögmálum með alhæfingu út frá athuguðum dæmum er það sem þekkt er undir nafninu aðleiðsla. En þín skoðun á málinu var allt önnur. Þú boðaðir þá furðulegu kenningu að engin aðleiðsla sé til. Hugmyndin, sagðirðu, lýsir ekki því sem vísindamenn gera í raun og veru og hún er ekki heldur rökgrundvöllur eða forsenda þess sem þeir gera.

Popper Já, ég var og er á annarri skoðun. Samkvæmt henni eru menn og dýr fædd með mikla eðlislæga þekkingu – ráð til að bregðast við aðstæðum, væntingar. Nýfætt barn væntir þess að fá næringu og umönnun. Vænting þess, meðfædd getgátuþekking, getur þó brugðist. Ef svo fer getur það dáið nema því takist einhvern veginn að leysa vandamál sín. Sú staðreynd að meðfædd þekking okkar getur brugðist sýnir að jafnvel hún er einungis getgátur. Ennfremur er það skoðun mín að við lærum ekki með því að athuga hluti, eða með því að tengja atriði saman í huganum, heldur með því að reyna að leysa vandamál. Vandamál kemur upp hvenær sem getgátur okkar eða væntingar bregðast. Við freistum þess að leysa vandamálin með því að breyta getgátum eða tilgátum. Þessar nýju bráðabirgðatilgátur eru könnunarloftbelgir okkar – reynslulausnir okkar. Brugðið getur til beggja vona um lausnir: nýtt atferli, ný tilgáta, ný kenning geta komið að gagni eða misst marks. Þannig lærum við með því að prófa okkur áfram (by trial and error), eða nánar tiltekið með bráðabirgðalausnum og með því að útrýma þeim ef þær reynast rangar. Eins og H. S. Jennings sýndi fram á árið 1910 notar meira að segja amaban þessa aðferð.

Magee En – eins og þú sjálfur hefur bent á einhvers staðar – aðferðin er ekki nákvæmlega sú sama þegar hún er notuð af amöbunni og þegar hún er notuð af Einstein.

Popper Alveg rétt, þar er mjög mikilvægur munur á. Hann er þessi: Á forvísindalegu stigi er okkur meinilla við að okkur kunni að skjátlast. Við ríghöldum því í getgátur okkar í lengstu lög. Á vísindalegu stigi leitum við skipulega að mistökum, að villum okkar. Þetta er stórkostlegast: Við erum vísvitandi gagnrýnin til þess að hafa upp á villunum. Því er það að á forvísindalegu stigi er okkur oft sjálfum tortímt, útrýmt, ásamt kenningum okkar; við förumst með þeim. Á vísindalegu stigi reynum við skipulega að útiloka rangar kenningar – við reynum að láta þær deyja í okkar stað. Þetta er hin gagnrýna útilokunaraðferð. Það er aðferð raunvísindanna. Hún gengur út frá því að við getum skoðað kenningar okkar á gagnrýninn hátt – eins og eitthvað utan við okkur sjálf. Þær eru ekki lengur huglægar skoðanir – heldur hlutlægar tilgátur.

Almenn mynd vísindanna er því svona: Við veljum eitthvert áhugavert viðfangsefni. Við stingum upp á djarfri kenningu sem bráðabirgðalausn. Við reynum eftir bestu getu að gagnrýna kenninguna, og þetta þýðir að við reynum að hrekja hana. Takist okkur að hrekja hana reynum við að koma fram með nýja kenningu sem við gagnrýnum svo aftur, og þar fram eftir götunum. Með þessu móti höfum við lært heilmikið jafnvel þótt okkur lánist ekki að koma fram með viðunandi kenningu: Við höfum lært eitthvað um viðfangsefnið. Við vitum hvar vandinn liggur. Allri aðferðinni má lýsa í stuttu máli með þessum orðum: djarfar tilgátur í taumi strangrar gagnrýni, þar með taldar strangar prófanir. Og gagnrýni og prófanir eru tilraunir til að hrekja eða afsanna.

Magee Og athugun og tilraun koma ekki til skjalanna fyrr en á öðru stigi?

Popper Samkvæmt skoðun minni eru athugun og tilraun í meginatriðum leiðir til að prófa kenningar. Það má því líta svo á að þær heyri til hinni gagnrýnu umræðu um kenningarnar.

Magee Af viðhorfi þínu leiðir að við vitum í raun og veru aldrei neitt – að einungis er um að ræða mismunandi óvissustig . . .

Popper Orðin „vitneskja“ eða „þekking“ og „vissa“ eru til í ýmsum merkingum. „Ég veit“ er til í mjög nákvæmri merkingu sem lýsa má svona: „Ég veit“ merkir „Ég trúi og ég hef fullnægjandi ástæðu til að trúa, þ.e.a.s. það er útilokað að mér skjátlist.“ Þú hefur á réttu að standa þegar þú segir að í þessari merkingu vitum við aldrei: Það er alltaf mögulegt að skjátlast. En ég tel að þetta sé léttvægt og minni háttar mál. Það sem máli skiptir er greinarmunurinn á vitneskju eða þekkingu í huglægri merkingu og vitneskju eða þekkingu í hlutlægri merkingu.

Magee Þú ættir kannski að útskýra þennan greinarmun.

Popper Þekking í huglægri merkingu er tilhneigingar til að aðhafast á tiltekna vegu eða trúa tilteknum hlutum eða segja tiltekna hluti. Þekking mín er tilhneigingarmínar, þekking þín er tilhneigingar þínar. Þekking í hlutlægri merkingu er talaðar eða skrifaðar eða prentaðar staðhæfingar – staðhæfingar eða kenningar sem koma fyrir í tilteknu samhengi, til að mynda í vísindatímaritum. Kenning Newtons eða kenning Einsteins eru dæmi um þekkingu í hlutlægri merkingu. Tilhneigingar Newtons til að setja kenningu sína á blað, eða ræða hana, eru dæmi um þekkingu í huglægri eða persónulegri merkingu. Um leið og hann setti fram hugmyndir sínar í orðum og skrifaði þær var líka komin þekking í hlutlægri merkingu. Báðar tegundir þekkingar eru óvissar eða getgátu- eða tilgátukenndar.

Magee En er í raun og veru þessi reginmunur hvað varðar röklega stöðu á þekkingunni sem ég hef í höfðinu og sömu þekkingu settri á blað?

Popper Já. Að koma hugmyndum okkar í orð, eða það sem betra er, að skrifa þær á blað, skiptir mjög miklu máli. Því með þessu móti verða þær gagnrýnanlegar. Áður voru þær hluti af okkur sjálfum. Við kunnum að hafa haft efasemdir. En við gátum ekki gagnrýnt þær á sama hátt og við gagnrýnum staðhæfingu sem sett er fram í orðum eða, það sem er enn betra, skriflega greinargerð. Orðið „þekking“ er því til í að minnsta kosti einni mikilvægri merkingu – merkingunni „kenningar settar fram í orðum og lagðar fram til gagnrýni.“ Þetta er það sem ég kalla „þekkingu í hlutlægri merkingu.“ Vísindaleg þekking telst til hennar. Það er þessi þekking sem er geymd í bókasöfnum frekar en í höfðinu á okkur.

Magee Og þú telur þekkinguna sem geymd er í bókasöfnum mikilvægari en þá sem geymd er í höfðinu á okkur.

Popper Langtum mikilvægari, frá öllum sjónarmiðum, jafnvel frá því mjög svo huglæga sjónarmiði sem er sú ánægja sem við höfum sjálf af þekkingunni. Því það sem við höfum ánægju af er kenningin sjálf. Segjum að annar hvor okkar komi fram með nýja hugmynd, en það er mjög ánægjuleg reynsla. Þá er að líta á hlutlæg tengsl hennar við hlutlægu gömlu hugmyndirnar og við vandamálin sem við leysum með nýju hugmyndinni; og þessi tengsl eru snar þáttur af ánægjunni. Og vitanlega hefðum við aldrei gert neina uppgötvun ef við hefðum ekki fyrst náð tökum á einhverjum þeirra hlutlægu kenninga sem fyrir eru og á hlutlægri stöðu vandamála – eða með öðrum orðum, ef við hefðum ekki lesið bækur og tímarit um vísindaleg efni. Og allt þetta merkir þekkingu í hlutlægum skilningi. Ennfremur er drjúgur hluti af ánægjunni einmitt fólginn í því að við „leggjum skerf til þekkingarinnar“ eins og frægt orðtak segir. Við erum eins og verkamenn sem hjálpa til við smíði byggingar, eins og verkamenn að smíða dómkirkju . Það skiptir reyndar máli fyrir ánægjuna að skerfurinn sem við leggjum fram er skerfur til vaxtareða þróunar þekkingar í hlutlægri merkingu.

Magee Mig langar til að hverfa aftur að spurningunni um vissu og óvissu. Er það rétt hjá mér að þegar þú talar um vöxt eða þróun þekkingar þá eigir þú í raun og veru aðeins við vöxt eða þróun tilgátukerfa – þó vafalaust vel gagnrýndra og strangt prófaðra tilgátna?

Popper Já. Allar kenningar okkar eru tilgátur.

Magee Og vöxturinn kemur til sem afleiðing af gagnrýni?

Popper Fyrir atbeina strangrar og hugvitsamrar gagnrýni sem hjálpar okkur að afhjúpa ný vandamál og fyrir atbeina djarfra og hugvitsamra ágiskana sem hjápa okkur að leggja fram nýjar og róttækar kenningar sem bráðabirgðalausnir á þessum vandamálum.

Magee En ef við vitum í rauninni aldrei neitt á hverju byggist þá gagnrýnin? Á hvaða forsendum föllumst við á sumar tilgátur og höfnum öðrum?

Popper Forsendurnar koma frá gagnrýninni umræðu um hinar ýmsu stríðandi kenningar. Í þessum gagnrýnu umræðum reynum við að meta kenningarnar frá því sjónarmiði hvort þær eru sannleikanum samkvæmar eða ekki. Eða með nákvæmara orðalagi, við reynum að bera þær saman með því að spyrja hver þeirra virðist komast næst sannleikanum.

Magee En ef engin vissa er til, engin þekking, hvað áttu þá við með „sannleikanum“?

Popper Samsvörun við staðreyndir. Við vitum hvað það merkir að kenning samsvari staðreyndum jafnvel þó við getum ekki skorið úr um hvort hún gerir það í raun og veru eða ekki.

Magee Þú notar orðið „sennileiki“ um það sem þú kallar nálægð eða nálgun við sannleikann, er það ekki?

Popper Jú. Í umræðunni um kenningarnar reynum við að komast að því hver þeirra sé sennilegust. Í henni er stundum að finna góðar og gildar ástæður fyrir því að taka sumar hinna stríðandi kenninga fram yfir aðrar frá þessu sjónarmiði. En þegar best lætur er aðeins um að ræða að verja með skynsamlegum rökum á þennan hátt val einnar kenningar frekar en annarrar. Og komi einhver fram með aðra kenningu á morgun þá getur verið að samkeppnisstaðan milli kenninganna breytist og þar með val okkar.

Magee Og þess vegna hefurðu sagt að við getum aldrei fært fullnægjandi rök fyrir því að tiltekin kenning sé sönn, þó að við getum stundum réttlætt eða rökstutt á fullnægjandi hátt að við tökum eina kenningu farm yfir aðra.

Popper Einmitt. Heimspekingar hafa venjulega reynt að réttlæta kenningu eða trú okkar á einhverja kenningu. Þetta er ekki hægt. En sé heppnin með okkur getum við réttlætt það að við höllumst að einni kenningu frekar en annarri. Ég hef til dæmis sýnt fram á hvers vegna við getum réttlætt það að hallast að þyngdaraflskenningu Einsteins, jafnvel þó við virðum að vettugi sönnunargögnin um hreyfingu Merkúrs.

Magee Kemur það málinu ekki við á þessu stigi að spyrja hvernig?

Popper Í fyrsta lagi getum við sýnt fram á að fyrir hvern vanda sem hægt er að leysa með kenningu Newtons er hægt að fá lausn hjá kenningu Einsteins sem er að minnsta kosti jafn nákvæm. Þetta má orða á þá leið að upplýsingainntak eða reyndarinntak kenningar Einsteins sé að minnsta kosti jafn mikið og kenningar Newtons. Síðan getum við haldið lengra og sýnt fram á að kenning Einsteins hefur meira inntak en kenning Newtons af því að hún leyfir okkur að bera upp og leysa vandamál um útgeislun og flutning ljóss í þyngdarsviðum sem eru kenningu Newtons um megn. Ég hef sýnt fram á að meira reyndarinntak kenningar Einsteins þýði að hún er betur prófanleg en kenning Newtons og þess vegna betur staðfestanleg. Og endanlega getum við sýnt að hún er í reynd betur staðfest, jafnvel þó við sleppum Merkúrsdæminu. En þar sem hinn gagnrýni samanburður var gerður með það fyrir augum að kanna hvor kenningin kæmist nær sannleikanum þá getum við sagt í stuttu máli að niðurstaðan bendi til þess að kenning Einsteins virðist nú sem stendur vera nær sannleikanum en kenning Newtons.

Magee Þegar þú segir „nú sem stendur“ skilst mér að þú eigir við „í ljósi þess hvernig umræðan stendur núna“?

Popper Já.

Magee Þessi hugmynd, hvernig umræðan stendur núna, innleiðir hún ekki afstæðishyggjuþátt?

Popper Nei. Að vísu kemur hún inn með sögulegan þátt, en ekki afstæðishyggjuþátt. Sérhver staðhæfing eða kenning sem er orðuð á ótvíræðan hátt er annaðhvort sönn eða ósönn; þriðji möguleikinn e r ekki til. En ein ósönn eða röng kenning getur verið nær sannnleikanum en önnur. Og það getur líka verið að ein sönn eða rétt kenning hafi meiri sannleik að geyma en önnur. Hún kann að hafa meira „sannleiksinntak“ eins og ég kalla það.

Magee Dæmi?

Popper Ef við segjum að klukkuna vanti nú þrjár mínútur í tólf, þá er sú staðhæfing blátt áfram ósönn að hana vanti fimm mínútur í tólf, en hún er nær sannnleikanum en staðhæfingin að annaðhvort vanti hana tíu mínútur í tólf eða eða hún sé tíu mínútur yfir tólf. Einnig hefur ósanna staðhæfingin að klukkuna vanti nú fimm mínútur í tólf meira sannleiksinntak en óljós sönn staðhæfing eins og „klukkan er nú milli ellefu og eitt“. Það er að segja, stærri flokk sannra staðhæfinga leiðir af henni.

Magee Hvernig stendur á því að þú hefur alla ævi aðallega fengist við raunvísindi og raunvísindalega þekkingu frekar en aðrar tegundir þekkingar?

Popper Miklir vísindamenn og byltingarkenndar kenningar þeirra vöktu aðdáun hjá mér. Auk þess eru raunvísindi einungis almenn skynsemi í öflugri mynd. Gagnrýni er hluti af almennri skynsemi. Það er hluti af almennri skynsemi að leggja skoðanir sem byggjast á almennri skynsemi fram til gagnrýni. Og raunvísindin eru einfaldlega árangurinn af þessari gagnrýni.

Magee Þú hefur spurt: „Hvað eru vísindi?“ Og aðferðin sem þú leggur til að notuð sé til að draga mörkin milli vísinda og ekki-vísinda (non– science) er eitt merkasta farmlag þitt til heimspeki.

Popper Tillaga mín er að telja kenningu til raunvísinda ef við getum sagt til um hvers konar atburður það væri sem við mundum fallast á að væri afsönnun á kenningunni. Eða með öðrum orðum, kenning telst til raunvísinda ef hún er fræðilega séð afsannanleg. Kenning sem getur ekki stangast á við neinn mögulegan eða hugsanlegan atburð er, samkvæmt þessari skoðun, utan við raunvísindi.

Magee Við skulum hafa þetta alveg á hreinu – þú segir ekki að það sem er utan við raunvísindi þurfi endilega að vera ósatt eða rangt. Enn síður merkingarlaust.

Popper Nei. Við getum ekki lagt raunvísindin og sannleikann að jöfnu því við álítum að kenningar Newtons og Einsteins teljist báðar til raunvísinda, en þær geta ekki báðar verið sannar og vel má vera að báðar séu ósannar. En þær eru báðar prófanlegar, og það þýðir að standist þær ekki prófanir eru þær afsannaðar eða hraktar. Ég tek því prófanleika, eða hrekjanleika, sem mælikvarða á vísindalegt einkenni kenningar.

Magee Þeir sem voru í Vínarhringnum, reyndar allir rökfræðilegir raunhyggjumenn (logical positivists), héldu því fram að sérhver staðhæfing utan við raunvísindin væri bókstaflega merkingarlaus, bókstaflega þvættingur. Þú samþykktir þetta aldrei.

Popper Nei, það gerði ég ekki. Að mínum dómi telst staðhæfing sem er óhrekjanleg ekki til raunvísinda, en það gerir hana ekki merkingarlausa. Margar vísindakenningar okkar hafa þróast upp úr óprófanlegum forvísindalegum kenningum. Rekja má sögu kenningar Newtons alla leið aftur til Anaximanders og Hesíóds, og hin forna frumeindakenning var óprófanleg þar til um 1905. Reyndar hafa flestar vísindakenningar sprottið upp úr forvísindalegum sögnum. Ég teldi það villandi að kalla þessar sagnir „merkingarlausar“ . . . En svo virðist sem gagnrýni mín á kenningar rökfræðilegra raunhyggjumanna um merkingarleysi hafi hlotið allvíðtæka viðurkenningu.

Magee Reyndar hefurðu aldrei fengist mikið við spurningar um merkingu yfirleitt, er ekki svo? Og þú hefur ekki heldur talið tungumálið sjálft skipta öllu máli. Þetta er því merkilegra sem það gerist á stað og tíma þar sem mestöll heimspeki beinist að tungumálinu á einn eða annan hátt. Hvað kemur þér til að taka þess afstöðu?

Popper Ég held þú hafir ekki skilið afstöðu mína rétt. Satt er það að ég hef ekki áhuga á merkingarleysisvandanum, og mér leiðast líka rökræður um merkingu orða. Og það er einnig rétt að þeir sem kalla sig stundum heimspekinga tungumálsins eða málspekinga hafa áhuga á þeim merkingarvandamálum sem ég hef hreint engan áhuga á. En ef þú ert að segja að ég telji tungumálið ekki mikilvægt þá er það alrangt. Mundu bara hvað ég sagði um hlutlæga þekkingu. Ég held að ekkert sé eins mikilvægt og tungumálið. Ég er með kenningu og samkvæmt henni er það málið sem gerir okkur mennsk og samkvæmt henni er mannleg vitund – sjálfsvitundin – afleiðing málsins. Ég hef ekki áhuga á að vera með heimspekilegar vangaveltur yfir merkingu orða, sumpart vegna þess að ég hygg að jafnvel dýr geti lært merkingu orða. En mannlegt mál byrjar með lýsandi notkun setninga, eða svo ekki sé eins þurrlega til orða tekið, það byrjar með því að segja frá.

Magee Ég hafði reyndar ekki misskilið þig þótt ég hafi kannski komist klaufalega að orði. Það sem ég vildi láta koma fram var að þú hefur ekki áhuga á að greina merkingu orða. Geturðu útskýrt hvers vegna?

Popper Já. Að hafa áhyggjur út af orðum og merkingu þeirra er einhver elsta dægrastytting í heimspeki. Platon víkur að því hvað eftir annað að fræðarinn Pródikos hafi haft áhuga á að greina milli ólíkra merkinga orða, og þörfin fyrir þessa greiningu hefur því verið kölluð (af Svend Ranulf) „Pródikosarreglan“. Þessi regla var ný og mikilvæg árið 420 f. Kr., en núna eru sum okkar kannski búin að læra þessa lexíu. Það eru til áhugaverðari viðfangsefni, jafnvel á þessu sviði.

Magee Eins og hver?

Popper Að gera sér grein fyrir því að orð ber að nota til þess að setja fram kenningar og að sérstakur áhugi á orðum og merkingu þeirra leiðir til innantóms orðagjálfurs. Ég hef lýst því yfir í þrjátíu ár að skilgreiningar séu innantómar og hef hrakið þá hjátrú að viljum við vera nákvæm þá megum við til að skilgreina orðin sem við notum. Ég reyndi að berjast gegn áhrifum þessarar hjátrúar sérstaklega á sviði félags- og stjórnmálaheimspeki, en árangurslaust. Stjórnmálaheimspekingar halda áfram að skrifa blaðsíðu eftir blaðsíðu þar sem þeir bera saman skilgreiningar. Til dæmis var nýlega gefin út bók um alræðisstefnuna þar sem bornar voru saman um það bil fjórtán skilgreiningar á „alræðisstefnu“, og var þar líka að finna eina sem mér var eignuð, enda þótt ég fengi þessar átölur neðanmáls: „af því að Popper kemur aldrei með skýra skilgreingu á alræðisstefnunni“. Höfundinum sást yfir að ég hafði, í sjálfri bókinni sem hann vitnar í, fært rök gegn því innantóma orðaskaki sem stafar af því að leita nákvæmni í skilgreiningum.

Magee Fólki sem veit ekkert um verk þín mætti fyrirgefast þó það haldi að stjórnmálaheimspeki þín komi vísindaheimspeki þinni lítið við. En það sem þú hefur í raun og veru gert er að færa út skoðun þína á náttúruvísindunum til félagsvísindanna – er það ekki rétt? Með öðrum orðum, heimspeki þín á þessum tveimur, að því er virðist ólíku sviðum, er öll af sama toga.

Popper Það má kannski segja að um sé að ræða ýmsar sameiginlegar hugmyndir. Til dæmis verða okkur alltaf á mistök, í stjórnmálum sem annars staðar, en við getum reynt að læra af mistökunum. Að vera reiðubúin að læra af mistökunum, og að vera á varðbergi gagnvart þeim, kalla ég skynsemisafstöðuna. Hún er ávallt andstæð valdboðsstefnu. Á stjórnmálasviðinu er sú aðferð að læra af mistökum aðferð sem byggist á frjálsri gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnar og umræðum um þær.

Magee Og þú hefur byggt skilgreiningu þína á lýðræði á þessu frekar en á hugmyndinni um stjórn meirihlutans.

Popper Ég vil alls ekki skilgreina lýðræði. Þar að auki er það ekki meirihlutinn sem stjórnar: Sama hvaða flokkur vinnur í kosningunum, þá stjórna hvorki þú né ég. En ég ætti að gera ljóst að ég greini á milli tvenns konar ríkisstjórna. Aðra tegundina getum við losnað við án blóðsúthellinga; hina getum við ekki losnað við án blóðsúthellinga og kannski alls ekki. Ég legg til að kalla fyrri tegundina lýðræði og þá síðari harðstjórn. En ekkert er undir orðum komið. Það sem hins vegar skiptir máli er þetta: Eigi eitthvert land til stofnanir sem gera kleift að skipta um stjórn án ofbeldis og hópur manna reynir að beita ofbeldi af því að þeim tókst ekki að ná völdum án þess, þá er þessi verknaður, hvað sem mennirnir kunna að hugsa eða hafa í hyggju, tilraun til að koma á stjórn sem er haldið uppi með ofbeldi og verður ekki losnað við án ofbeldis, eða með öðrum orðum, þeir eru að freista þess að koma á harðstjórn. Enda þótt þetta liggi í augum uppi hugsar fólk venjulega ekki svona langt.

Magee Hvers vegna hefur svona mikið af stjórnmálaheimspeki þinni verið í formi árásar á kenningar um fullkomið samfélag eða draumórastefnur?

Popper Það er margt í samfélagi okkar sem er grimmdarlegt, ljótt, heimskulegt og ranglátt. Það er alltaf mikið rúm fyrir umbætur. Fólk hefur ætíð dreymt um betri heim og sumir þessara drauma hafa verið aflvaki samfélagslegra umbóta. En eins og ég hef sýnt fram á í riti mínu Opna samfélaginu eru draumar um fullkomið samfélag háskalegir. Púritanar gerðu sér vonir um að koma á fullkomnu þjóðskipulagi, og það gerði Robespierre líka. Það sem hvor þeirra gerði að veruleika var ekki himnaríki á jörðu heldur helvíti ofbeldisfullrar harðstjórnar.

Magee Sumar af vanræktum uppgötvunum þínum í stjórnmálaheimspeki hafi aðrir enduruppgötvað á eigin spýtur. Til dæmis að taka er Djilas sem hafði verið einn af framámönnum í kommúnistaheiminum. Hann setti fram í riti sínu Hin nýja stétt,5sem nú er orðið klassískt, hugmyndir sem þú hafðir birt löngu áður í Opna samfélaginu. Og aftur útlistar síðasta bók hans Ófullkomna samfélagið í löngu og ítarlegu máli setninguna: „Það er sannfæring mín að samfélag geti ekki verið fullkomið“. Hann álítur nú að sú hugmynd að samfélag geti verið fullkomið sé kórvillan hjá kommúnistum.

Popper Ég hygg að þú hafir á réttu að standa um Djilas. Hann hefur á löngum þjáninga- og fangavistarárum komist að skoðunum sem aðrir komust að með gagnrýnni hugsun. Einhvern veginn finnast mér niðurstöður hans tilkomumeiri og dýrmætari.

Magee En við erum nú vitni að greinilegri endurvakningu áhuga meðal gáfaðs æskufólks einmitt á þeim höfundum og kenningum sem þú beindir spjótum þínum gegn: Hegel, Marx, sálgreiningu og tilvistarstefnu. Hver er skýring þín á þessu?

Popper Það hefur alltaf verið tilhneiging til að svipast um eftir viskusteininum – einhverri allrameinabót. Núverandi ástand telst tæplega til nýjunga – nema hvað skynsemi í umræðum hefur raunalega hrakað. Það stafar sumpart af því að fólki finnst að of mikið hafi verið talað og það hafi ekki leitt til neins. Það er því ekki lengur í tísku að rökræða við andstæðinginn. Menn reyna ekki lengur að komast að því hvað sé bogið við röksemdafærslu andstæðingsins. Menn kyngja einhverri tilkomumikilli kenningu í heilu lagi. Þetta er skiljanleg tilhneiging en hörmuleg ef hún verður sérkenni ungra menntamanna. Hún sýnir að vitsmunalegum gæðakröfum og vitsmunalegri ábyrgð hefur hrakað. Dæmi um hugsunarleysi þessarar tegundar andrökhyggju er núverandi stjórnleysistíska. Vissulega ættum við að standa gegn auknu skrifræði og vexti ríkisvaldsins. En mér er fyrirmunað að skilja að sama fólkið og hlýtur að gera sér grein fyrir að stjórnleysi á alþjóðavettvangi þýðir kjarnorkustríð geti trúað því að unnt sé að búa við stjórnleysi innanlands án þess að flækjast í kjarnorkustríð.

Magee Þó að þú hafir ekki gefið út bók í nokkur ár þá hefurðu stöðugt verið að skrifa greinar, ritgerðir, halda fyrirlestra og svo framvegis. Hvað hefurðu einkum verið að fást við nú í seinni tíð?

Popper Ég hef verið að vinna að mörgum efnum: að kenningunni um það sem ég kalla „heim 3“, en með því á ég við hinn hlutlæga heim þeirra verka sem mannshugurinn hefur búið til. Þessi heimur samanstendur af hlutlægri þekkingu – heimi vísindalegra viðfangsefna, kenninga og rökræðna – en einnig heimi hlutlægra listaverka. Annað áhugaefni mitt og skylt þessu er þróunarkenningin. Og tengsl milli þessara tveggja sviða er kenningin um mannlegt mál, sérstaklega frá líffræðilegu sjónarmiði. Þetta hefur ennfremur komið mér til að hugsa dálítið um spurninguna um samband líkama og hugar.

Magee Þetta er urmull viðfangsefna. Að hverju ertu að vinna þessa dagana, bókstaflega talað?

Popper Ég er að svara gagnrýnendum mínum.

Magee Fyrir næsta bindi í Bókasafni lifandi heimspekinga sem helgað er verkum þínum?6

Popper Já.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Samtalið milli vísindaheimspekingsins Karls Poppers og Bryans Magees, heimspekings og rithöfundar, sem hér birtist fór fram í Breska ríkisútvarpinu, BBC, veturinn 1970-71. Er það eitt af þeim samtölum sem Magee átti þennan vetur við tólf breska heimspekinga, auk Poppers, þar á meðal Anthony Quinton, Stuart Hampshire, David Pears, Alfred Ayer, Gilbert Ryle, Peter Strawson og Bernard Williams. Samtölin komu út í bók skömmu eftir að þau voru flutt undir heitinu Modern British Philosophy (Kom fyrst út hjá Secker & Warburg 1971 og Paladin 1973). Rétt er að geta þess að Bryan Magee hefur skrifað ágæta bók um heimspeki Poppers – Popper – sem kom fyrst út 1973 í bókaflokknum Modern Masters (Fontana Paperbacks) og hefur verið endurprentuð ótal sinnum. Þá hefur hann einnig átt samræður við fleiri himspekinga í hinum enskumælandi heimi. Veturinn 1978 var frimmtán samræðum sjónvarpað og jafnmörgum 1987. Úr þeim urðu síðan til bækurnar Men of Ideas (BBC, 1978) og The Great Philosophers (BBC, 1987). [Sú síðarnefnda kom út í íslenskri þýðingu árið 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar]. Til skýringar á ávarpinu Sir skal þess getið að Bretadrottning sæmdi Popper þeirri nafnbót. Popper lést í London 17. september 1994, 92 ára að aldri.

2. George Edward Moore (1873–1958). Enskur heimspekingur. Einn af frumkvöðlum rökgreiningar­heimspeki.

3. Aðleiðsla er viðtekin þýðing á induction, en kennarar í heimspeki við Háskóla Íslands munu vera farnir að nota orðið tilleiðsla í staðinn – til betri aðgreiningar frá afleiðslu (deduction) í framburði, að mér skilst.

4. Francis Bacon (1561 – 1626). Enskur heimspekingur, rithöfundur og aðferðafræðingur í raunvísindum, m.m. Spámaður vísindabyltingarinnar.

5. Hin nýja stétt eftir Milovan Djilas kom út hjá Almenna bókafélaginu árið 1958 í þýðingu Magnúsar Þórðarsonar og Sigurðar Líndals.

6. Ritið sem helgað er verkum Poppers í The Library of Living Philosophers kom út 1974 í tveimur bindum. Er það stærsta ritið í þessum bókaflokki. Hluti þess er sjálfsævisaga þar sem Popper gerir rækilega grein fyrir hugmyndum sínum og þróun þeirra. Ævisagan sem ber heitið Leit sem ekki er lokið (Unended Quest) hefur verið sérprentuð. Undir lok samtalsins minnist Popper á kenningu sína sem hann kallar ‘heim 3’ eða þriðja heim. Um þessa kenningu fjallar hann m.a. í Hlutlægri þekkingu og í hinu mikla verki sem heitir Sjálfið og heili þess (The Self and Its Brain. – Springer International, 1977. Leiðrétt prentun 1981). Popper er höfundur fyrsta hluta þessa verks en taugalíffræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Sir John Eccles skrifar annan hluta. Þriðji hluti samanstendur af tólf samræðum milli höfundanna tveggja. Í þrískiptingu Poppers er ‘heimur 1’, eða fyrsti heimur, efnisheimurinn og ‘heimur 2’, eða annar heimur, öll huglæg reynsla okkar og hugsun, bæði meðvituð og ómeðvituð. Varla þarf að taka það fram að hér er um að ræða hugmyndir sem eru mjög umdeildar meðal heimspekinga.

 

« Til baka

Skipulagsrökin

eftir Ben Dupré

Litist um í veröldinni: Skoðið heildina og alla hluta hennar, og þið munuð komast að raun um að hún er ekkert annað en risavaxin vél sem greinist í óendanlegan fjölda smærri véla sem aftur greinast á sama hátt, út fyrir mörk mannlegrar skynjunar og sálargáfna. Allar þessar margvíslegu vélar, og jafnvel smæstu hlutar þeirra, eru samstilltar með þvílíkri nákvæmni að allir, sem á annað borð hafa virt þær fyrir sér, hrífast til aðdáunar. Furðuleg samhæfing markmiða og leiða í gervallri náttúrunni líkist nákvæmlega mannaverkum sem sprottin eru af ásetningi, hugsun, visku og viti þótt hún taki þeim langt fram. Úr því afleiðingarnar líkjast hver annarri hljótum við að álykta eftir öllum líkingareglum að orsakirnar séu einnig svipaðar og höfundur náttúrunnar sé áþekkur manns­andanum, enda þótt hann sé gæddur langtum stórbrotnari sálargáfum í hlutfalli við mikilleika þess verks sem hann hefur unnið. Með þessum reynslurökum, og þeim einum saman, gerum við hvort tveggja: að sanna tilvist guðdóms og líkingu hans við mannsanda og mannvit.

Þessa gagnorðu framsetningu skipulagsrakanna fyrir tilvist Guðs leggur David Hume í munn formælanda þeirra Kleanþesar í bókinni Samræður um trúarbrögðin (Dialogues Concerning Natural Religion) sem kom út að honum látnum árið 1779.1 Ætlun Humes var að setja rökin fram í þeim tilgangi að hrekja þau – og flestir telja að honum hafi tekist með ágætum að rífa þau í tætlur. En það er til marks um varanleika og aðdráttarafl þessara raka að þau lifðu ekki aðeins af niðursöllun Humes heldur hafa þau haldið áfram að skjóta upp kollinum í breyttum búningi til þessa dags. Þótt áhrif þeirra hafi kannski verið í hámarki á 18. öld er hægt að rekja upphaf þeirra aftur til fornaldar og þau hafa reyndar aldrei farið úr tísku.

Hvernig rökin virka.

Ævarandi styrkur skipulagsrakanna byggist á því áhrifamikla og almenna innsæi að fegurð, skipulag, margslungin gerð og að því er virðist tilgangur í heiminum kringum okkur geti einfaldlega ekki verið afurðir tilviljunarkenndra og hugsunarlausra náttúruferla.2 Mönnum finnst að það hljóti að vera til einhver gerandi sem er gæddur óhugsanlega miklum vitsmunum og færni sem þarf til að skipuleggja og búa til öll dásamlegu fyrirbærin í náttúrunni. Þau eru svo afbragðsvel upphugsuð og hönnuð til að gegna hinum margvíslegu hlutverkum sínum. Tökum mannsaugað sem dæmi: Það er svo flókin smíð og furðulega vel lagað að tilgangi sínum að það hlýtur að hafa verið hannað til þess.

Rökfærslan byrjar með því að telja upp nokkur eftirlætisdæmi um slíka (að því er virðist) hugvitssemi í náttúrunni og heldur venjulega áfram með því að benda á hliðstæðu við smíðisgripi manna sem sýna greinilega merki uppruna síns. Þannig að rétt eins og úr, svo dæmi sé tekið, er listilega hannað og smíðað í ákveðnum tilgangi og fær okkur til að álykta um tilvist úrsmiðs, þannig fá hin óteljandi merki um, að því er virðist, ætlun og tilgang í náttúrunni okkur til að álykta að hér sé líka hönnuður að verki: arkitekt fær um að skipuleggja og hanna undur alheimsins. Og eini hönnuðurinn með afl til að ráða við slíkt verkefni er Guð.

Gallar á hönnun.

Þrátt fyrir varanlegt aðdráttarafl skipulagsrakanna hafa komið fram nokkrar alvarlegar mótbárur gegn þeim, frá Hume og öðrum. Eftirfarandi mótbárur eru meðal hinna skæðari.

Rökfærsla út frá hliðstæðu gengur út á að halda því fram að séu tveir hlutir nægilega líkir í ákveðnum þekktum atriðum þá sé réttlætanlegt að gera ráð fyrir að þeir líkist einnig í öðrum, óþekktum atriðum. Menn og sjimpansar eru nægilega líkir lífeðlis- og atferlislega svo að gera má ráð fyrir að þeir, líkt og við, finni til sársauka, svo dæmi sé tekið (þó við getum aldrei vitað það með vissu). Styrkur hliðstæðurökfærslu ræðst af því hve mikil líking sem máli skiptir er milli hlutanna sem bornir eru saman. En líkingaratriðin milli smíðisgripa manna (t.d. myndavéla) og náttúrlegra hluta (t.d. augna í spendýrum) eru í raun tiltölulega fá, svo að allar niðurstöður sem við komumst að með hliðstæðu­rökum eru haldlitlar í samræmi við það.

Skipulagsrökin virðast berskjölduð fyrir vítarunu. Ef hin undursamlega fegurð og skipulag alheimsins þarfnast hönnuðar, hve miklu frekar þarfnast hans þá ekki þessi undraheimur og arkitektinn á bak við þetta allt? Ef við þurfum hönnuð lítur út fyrir að við þurfum yfirhönnuð og síðan yfir-yfirhönnuð og svo koll af kolli.

Það sem helst mælir með skipulagsrökunum er að þau útskýra hvernig náttúruundur eins og manns­augað verða til og virka svo vel. En það eru einmitt slík undur og hæfni þeirra til að gegna ákveðnu hlutverki sem hægt er að útskýra með kenningu Darwins um þróun með náttúruvali, án nokkurra yfirnáttúrlegra afskipta vitiborins hönnuðar. Guðlegi úrsmiðurinn virðist hafa misst vinnu sína til blinda úrsmiðsins.

Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að skipulagsrökin hafi verið samþykkt þá eru takmörk fyrir því hve mikið hefur í raun og veru verið viðurkennt. Margir „smíðisgripir“ náttúrunnar kynnu að benda til þess að þeir hafi verið hannaðir af nefnd svo að við gætum þurft teymi guða, og við erum áreiðanlega ekki takmörkuð við eitt. Næstum því allir náttúrugripir, hversu mikilfenglegir sem þeir eru almennt, eru ekki alfullkomnir í einstökum atriðum. Bendir ekki gölluð hönnun til gallaðs (ekki-almáttugs) hönnuðar? Almennt séð gerir hið mikla böl í heiminum siðferði skapara hans tortryggilegt. Og vitaskuld er engin knýjandi ástæða til að ætla að hönnuðurinn, hversu gott verk sem hann vann, sé enn á lífi.

Guðlegi úrsmiðurinn og sá blindi.

Í bók sinni Náttúrleg guðfræði frá 1802 setti guðfræðingurinn William Paley fram eina frægustu út­listun á skipulagsrökunum. Ef svo vildi til að maður fyndi úti í óbyggðum armbands- eða vasaúr mundi hann óhjákvæmilega álykta af hinni flóknu gerð og nákvæmni smíðinnar að það hlyti að vera handaverk úrsmiðs. Á sama hátt er maður, þegar hann skoðar hin undursamlegu verk náttúrunnar, knúinn til að álykta að þau hljóti líka eiga sér skapara – Guð. Með vísun til hinnar myndrænu líkingar Paleys lýsir breski líffræðingurinn Richard Dawkins náttúruvalsferlinu sem „blindum úrsmið“ vegna þess að það mótar í blindni hinar flóknu formgerðir náttúrunnar án nokkurrar framsýni, tilgangs eða stefnu.3

Fínstilling í alheimi.

Sum nútímaafbrigði af skipulagsrökunum byggja á því hve afar ólíklegt er að öll skilyrðin í alheimi hafi verið nákvæmlega eins og þau urðu að vera til þess að líf gæti þróast og dafnað. Hefðu einhverjar af hinum mörgu breytum, svo sem þyngdarkrafturinn og upphaflegur hiti alheimsins sem var að þenjast út, verið örlítið öðruvísi mundi líf ekki hafa myndast. Í stuttu máli virðist vera vísbending um svo nákvæma fínstillingu alheimsins, að gera verði ráð fyrir að hún sé verk ákaflega máttugs fínstillara. En ólíklegir hlutir gerast. Það er ótrúlega ólíklegt að maður fái gríðarstóran happdrættisvinning en það er mögulegt, og fengi maður vinninginn mundi hann ekki telja að einhver hefði hagrætt útkomunni honum í hag – hann mundi þakka hana óvenjulegri heppni. Það kann vel að vera ólíklegt að líf þróaðist, en það er aðeins vegna þess að það gerðist að við erum hér til að hafa orð á því hve ólíklegt það var – og til að draga rangar ályktanir af hve ólíklegt var að það gerðist!4

Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Þessi bók kom út í íslenskri þýðingu undirritaðs árið 1972 (önnur útg. 2002) sem Lærdómsrit hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Strangt tekið ætti hún að heita Samræður um náttúrleg trúarbrögð.

2. Skipulagsrökin (e. the argument from design) eru einnig þekkt undir heitinu tilgangsrökin (e. the teleological argument). ‘Teleological’ er leitt af gríska orðinu telos sem merkir ‘markmið’ eða ‘til­gangur’ vegna þess að hugmyndin sem liggur rökunum til grundvallar er að tilgangurinn sem við (að því er virðist) uppgötvum í starfsemi náttúrunnar sé vísbending um markvissan geranda sem ber ábyrgð á henni.

3. Bók Dawkins The Blind Watchmaker kom fyrst út 1986 og var endurprentuð með viðbæti 1991.

4. Þýtt úr bókinni 50 Philosophy Ideas You Really Need to Know eftir Ben Dupré sem kom út árið 2007. Heimspekivefurinn fékk góðfúslegt leyfi Quercus-útgáfunnar til þess að birta þessa þýðingu.

Stöðvið allar klukkurnar

Um ofríki tímans1

eftir Julian Baggini

Timburmenn eru kannski augljósustu og beinustu orsakir dapurra hugsana á nýársdag, en til er önnur, dýpri orsök. Jafnvel þótt við höfum átt gleðileg jól og okkur hafi vegnað vel á liðnu ári er breytingin á dagatalinu óþægileg áminning um að tímaþjófurinn er nýfarinn burt með enn eitt ár. Og hann er miskunnarlaus þjófur sem mun halda áfram að taka frá okkur hverja klukkustund, mínútu og sekúndu þangað til við eigum engan tíma eftir. Hvort heldur hann þrammar áfram eða tifar hjá virðist tíminn vera óvinur okkar á augnablikum sem þessum.

Hvað sem því líður, þegar til þess kemur að heyja stríð gegn honum erum við eins og krakkar sem kasta steinum í skriðdreka. Áramótaheitin geta verið ein örvæntingarfull leið til að reyna að hraða okkur og koma í verk öllu sem við höfum verið að fresta áður en tíminn rennur út. En það skiptir ekki máli hve fast við getum fylgt tímanum eftir, hann hleypur okkur alltaf af sér að lokum. Þegar Dickens ákvað að senda Scrooge drauga fortíðar, nútíðar og framtíðar valdi hann vofurnar þrjár sem sækja að okkur öllum.

Ef við getum ekki unnið sigur á tímanum getum við þá friðmælst? Það er ein af vanræktustu spurningum í lífsspekinni. Leiða má rök að því að eðli okkar sem tímavera sé ein af mikilvægustu staðreyndum tilveru okkar. Við getum ekki vænst þess að rekja sundur merkingu lífsins nema við skiljum merkingu tímans. Sem sagt, ef ekki er hægt að stöðva hraðan gang tímans er þá alltént hægt að beisla hann?

Ég mundi með fyrirvara stinga upp á að við gætum að minnsta kosti lært að ganga í takt við hann. Tíminn er fyrsta flokks dæmi um hvernig veruleikinn er sambland af hinu hlutlæga og huglæga – af þeim hlutum sem eru svona hvort sem okkur líkar það eða ekki og af þeim hlutum sem breytast eftir því hvernig við skynjum þá. Ef við eigum að friðmælast við tímann þurfum við, svo heilagur Frans frá Assísi sé misnotaður, hugarró til að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt um hann, hugrekki til að breyta því sem við getum og, umfram allt, skilning til að vita hvað er hvað.

*

Að hægt er að upplifa og skilja tímann á ólíka vegu er ljóst af því á hve margbreytilegan hátt menn hafa gert sér hugmyndir um hann í sögunni og þvert yfir menningarheima. Heimspekingurinn Sir Bernard Williams2 heitinn, svo dæmi sé tekið, hélt því fram að alltént í vestrænni menningu hefði sögulegur tími verið fundinn upp af Þúkýdídesi á fimmtu öld f. Kr. Fyrir daga Þúkýdídesar, hélt Williams fram, var fortíðin formlaust tímarými þar sem enginn greinarmunur var gerður á goð­sögu og sögu, og enginn skilningur þar sem fólk sá nútíðina eins og hún tilheyri sömu óslitnu tímaröðinni þannig að framtíð okkar verði fortíð kynslóða framtíðar.

Þetta virðist okkur nú á dögum óskiljanlegt vegna þess að við erum svo vön að sjá heiminn gegnum linsu sögulegs tíma að við getum varla ímyndað okkur neina aðra leið. En hægt er að fá einhverja hugmynd um hvernig væri að hafa þessa forsögulegu heimsskoðun. Við sæjum allar frásagnir af fortíðinni eins og börn sjá Ódysseifs- og Ilíonskviðu. Spurningin um hvort þær stæðu fyrir goðsögu eða sögu vaknaði ekki, sumpart sökum þess að skýr greinarmunur hefði ekki enn verið gerður. Við mundum skilja þær þannig að þær hefðu að geyma einhver atriði sem væru staðreyndir og önnur sem væru skreytni, og við hefðum engan sérstakan áhuga á að greiða úr hvað væri hvað. En, og það skiptir meira máli, við mundum ekki spyrja hvenær nákvæmlega þær gerðust. Það er engin tímasetning hjá Hómer eða í Biblíunni. Sú fáránlega hugmynd að heimurinn væri skapaður fyrir 6010 árum kviknar aðeins vegna þess að nútímamaður hefur þann skilning að sé Sköpunarsagan sönn þá hljóti að vera hægt að tímasetja fyrsta dag sköpunar­innar. Að höfundar Biblíunnar töldu slík smáatriði ekki mikilvæg segir okkur ekki að þeir hafi talið sig vera að skrifa ævintýri. Það sýnir bara á hve ólíkan hátt við komum skipan á fortíðina.

Sú hugmynd að setja öll ár á einn kvarða er í raun furðulega ný af nálinni. Tímatöl af einni eða annarri gerð hafa verið til í þúsundir ára. En að henda reiður á árunum með einni samfelldri röð er miklu nýlegar til komið. Til að mynda á kínverska tímatalið rætur sínar að rekja til 14. aldar f. Kr., en það telur árin í 60-ára hringrásum, ekki í endalausri röð, og hefur hvert ár nafn en ekki númer.

Jafnvel tímatalarunur sem teygjast þúsundir ára aftur í tímann voru upphugsaðar langtum nær okkur í tíma. Samkvæmt indverska kaliyuga tímatalinu erum við nú á árinu 5108. En, samkvæmt Amartya Sen3, er sennilegt að núllpunktur tímatalsins hafi ekki verið settur fyrr en á seinni hluta fimmtu aldar e. Kr. Á sama hátt er núllpunktur gregoríska tímatalsins fæðing Krists en það var ekki upphugsað fyrr en á 16. öld.

Jafnvel nú á dögum sjáum við hvernig ólíkir menningarheimar hafa ólíka sýn á líðandi tímans. Fulltrúi Maós Zedongs Chou En-lai komst prýðilega að orði um frönsku byltinguna þegar hann sagði að það væri of snemmt að dæma um þýðingu hennar. Þetta langtíma sjónarmið er í algerri mótsetningu við vaxandi skammtímahyggju hins vestræna sjónarhorns þar sem fréttir fluttar allan sólarhringinn dæma söguna um leið og hún gerist og þar sem fréttir sem talað er um eins og þær skiptu höfuðmáli einn daginn eru týndar og tröllum gefnar einungis nokkrum dögum seinna. Morðin í Ipswich, svo að dæmi sé tekið, virðast fjölmiðlaheiminum nú þegar eins og fornaldar­saga sem verður aðeins minnst aftur þegar réttarhöld færa okkur eitthvað nýtt til að tala um.

Þessi munur á skynjun er ekki bara fræðilegur: Hann snertir hvernig fólk breytir og lifir. Í ný­afstöðnu stríði við Ísrael, til dæmis, sagði Hizbollah stuðningsmaðurinn og klerkurinn Sayed Ali blaðamanninum Ghaith Abdul-Ahad: „Þolinmæði er okkar höfuðdygð, við getum beðið dögum, vikum og mánuðum saman áður en við gerum árás. Ísraelar eru alltaf óþolinmóðir í orustu og hernaðarlist.“ Í langdregnum átökum er hin vestræna tímahröðun veikleiki.

Þessi munur sýnir að nokkru leyti hvernig hugmyndir um tímann og tímaskynjun eru ekki alger­lega óhagganlegar. Samt getur verið að þessi djúpstæði menningarlegi munur virðist ekki koma þeim okkar að miklu gagni sem erum gegnsýrð af siðvenjum okkar eigin tíma. Við getum aldrei upplifað tímann eins og Grikkir fyrir daga Þúkýdídesar upplifðu hann. En það þýðir ekki að við getum ekki gert einhverjar breytingar á því hvernig við tengjumst líðandi daganna og áranna. Tíminn er ekki endalaust auðmótanlegur en einhvern sveigjanleika hefur hann.

*

Ef við lítum á heimspeki tímans finnum við þó oftar en ekki ráðgátur sem eru vitsmunalega örvandi en tilvistarlega ófrjóar. Hinar fornu þverstæður Zenons, svo dæmi sé tekið, eru heillandi ráðgátur sem hafa víðtæk áhrif á stærðfræðilegar hugmyndir svo sem óendanleika og markgildi, en þær koma alls ekkert við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir á nýársdag þegar við heyrum lífsklukkuna telja niður.

Svipað er að segja um frægustu nútíma rannsókn á heimspeki tímans í hinum enskumælandi heimi sem kom út fyrir næstum því hundrað árum. Í Óraunveruleika tímans velti John McTaggart fyrir sér tveimur andstæðum skoðunum á tímanum. Samkvæmt ‘A raðar’ viðhorfinu er einungis nútíðin til. Fortíðin er ekki lengur til og framtíðin er enn ókomin. Á hinn bóginn, samkvæmt ‘B raðar’ viðhorfinu, eru allir atburðir til á kvarðanum fyrri og síðari. ‘Nú’ er bara sá hluti raðarinnar sem er til staðar hjá vitundinni, en það er ekkert meira eða minna raunverulegt en fyrir tveimur mínútum eða hundrað ókomin ár.

McTaggart hélt því fram að hvorug hugmyndin lýsti tímanum á fullnægjandi hátt og að þessvegna væri tíminn ekki raunverulegur. Þetta er heimspekilega heillandi efni en frá sjónarhóli þeirra sem eru að reyna að lifa lífinu í tíma gagnar það ekki mikið að vera sagt að hann sé blekking. Blekking sem ekki verður komist undan er raunveruleiki, um allt sem máli skiptir.

Sem betur fer er þó ekki öll heimspeki jafn gagnslaus fyrir þau okkar sem hafa áhyggjur af því að haldið er áfram að rýra gildi tímans. Immanuel Kant lofar góðu með yfirlýsingu sinni að besta leiðin til að skoða tíma og rúm sé ekki að líta á þau sem einkenni veruleikans sem hugurinn reynir að skilja heldur sem einkenni hugans sem við notum til að skilja veruleikann.

Hin snjalla hugmynd Kants, eins og svo mikið af heimspeki, virðist liggja alveg í augum uppi einungis eftir að hún hefur verið sett fram. Við getum aðeins upplifað eitthvað yfirleitt af því að hugurinn kemur skipulagi á reynsluna bæði í tíma og rúmi. Tíminn er ekki eitthvað sem við skynjum í reynslunni, hann er forsenda þess að hafa einhverja reynslu yfirhöfuð. Að halda að tíminn tilheyri veruleikanum fyrst og síðan reynslunni er eins rangsnúið og að halda að flöskur séu gerðar til að hæfa lögun vínsins.

*

Skrefið sem Kant steig var afgerandi þar sem það kom tímareynslunni fyrir í kjarna mannlegs eðlis. Í einum skilningi gerði þetta tímann huglægan vegna þess að það tengist meira því hvernig við upplifum heiminn en heiminum sjálfum. En í öðrum skilningi gerði það tímann hlutlægan vegna þess að án hans er ekki mögulegt að við upplifum neitt. Tíminn er fastur ás sem alla reynslu verður að teikna á.

Á meginlandi Evrópu voru hugmyndir Kants um síðir þróaðar á heimspekisviði sem er þekkt undir heitinu fyrirbærafræði. Í grófum dráttum skildu fyrirbærafræðingar á borð við Heidegger lexíu Kants þannig að eina leiðin til að rannsaka tilvist og ‘veruleika’ væri með því að kanna skynjun okkar. Það væri útilokað að rannsaka heiminn eins og hann er í sjálfum sér vegna þess að slíkur heimur er okkur óaðgengilegur.

Kannski var dýpsti hugsuðurinn um mikilvægi tímans fyrir mannlega tilvist danski tilvistar­spekingurinn Søren Kierkegaard sem sagði að lífið verði aðeins skilið afturábak en það verði að lifa því áfram. Hugsun hans fór samt langt út fyrir slík kröftug, áhrifamikil spakmæli. Það þurfti Kant til að benda á mikilvægi tímans fyrir mannlega reynslu, en það þurfti Kierkegaard til að benda á mótsagnirnar í kjarna tímanlegrar tilvistar.

Kierkegaard var mjög trúaður hugsuður og var grundvallarspurning hans sjálfs hvernig hann gæti verið kristinn. Sem betur fer fyrir heiðingjana meðal okkar leiddi leit hans hann samt til nokkurra altækari hugmynda. Kristni hans var engu að síður lykillinn að þessu því að það var í persónu Krists sem hann sá holdi klædda mótsögn mannlegrar tilvistar.

Jesús var rökleg vitleysa. Hann var sonur Guðs, allur mannlegur en samt allur guðlegur, endan­legur og óendanlegur í senn. Röklega séð er slík sameining fjarstæða. Eigi að síður sá Kierke­gaard merki um þessa fjarstæðu hjá okkur öllum.

Annars vegar tilheyra mannverur því sem hann kallaði listræna sviðið. Það tengist ekki list eða smekk heldur því hvernig við erum bundin við augnablikið. Tíminn er alltaf nú, aldrei fyrir mínútu eða klukkustund í framtíðinni. Við getum ekki sloppið við augnablikið sem er ástæðan fyrir því að margir hafa haldið því fram að eina leiðin til að lifa sé að grípa það. En Kierkegaard taldi þó að lífsspekin í carpe diem (gríptu daginn) ynni gegn sjálfri sér. Það er ekki hægt að grípa eitthvað sem er sífellt á hreyfingu. Fyrir þá manneskju sem lifir aðeins fyrir andartakið er hver nýr dagur, mínúta eða sekúnda óskrifað blað, og það sem hefur gerst í fortíðinni skiptir engu máli. Fagur­kerinn er sí og æ að reyna að drekka úr uppsprettulind lífsins með því að nota sigti.

Að lifa í augnablikinu gengur ekki vegna þess, hélt Kierkegaard fram, að við erum ekki aðeins listrænar verur heldur siðrænar. Aftur er fagorðið villandi því að grundvallareinkenni hins siðræna sviðs tilverunnar er ekki að það innleiði siðferðið (þótt það geri það) heldur að það nær út yfir augnablikið. Þó að það sé satt í einum skilningi að við séum bundin augnablikinu er það líka satt að við erum lifandi verur með fortíð og framtíð. Það er meginatriði í mennsku okkar að við höfum minni, gerum áætlanir og gefum loforð, tökumst á hendur verk og höfum skyldur. Manneskja sem gerir ekkert af þessu er ekki frjáls andi heldur er hún varla mennsk.

Á margan hátt hvetur nútímalíf á Vesturlöndum til slíkrar afmennskunar með því að neytenda­kapítalismi tekur ætíð óhjákvæmilega hið nýja fram yfir hið gamla. „Skiptið um, gerið ekki við“ á í síauknum mæli ekki eingöngu við neysluvörur heldur kringumstæður og sambönd. Nútíma sál­fræðiþvaðrið um að „gefa sér lausan tauminn“ og „skipta um vist“ er í takt við þetta virðingarleysi fyrir fortíðinni en samt er manneskjan sem getur gefið sér lausan tauminn og skipt um vist án mikillar fyrirhafnar vafalaust bara ímynd yfirborðsmennsku.

Hugsanlega tengist einstaklingshyggja nútímalífs einnig þessari áherslu á hið listræna. Þegar við beinum athygli að sjálfum okkur og útilokum aðra einbeitum við okkur æ fastar að nútíðinni. Að hugsa um sjálfan sig yfir lengra tímabil er óhjákvæmilega að staðsetja sig í einhverri menningu, í tengslum við líf annarra, og sem einstakling sem félagsleg samskipti móta og breyta. Siðræna sjálfið á sér djúpstæðar félagslegar og sögulegar rætur. Það grefur undan ein­staklingshyggju okkar, sem við metum svo mikils, að viðurkenna þetta og er þannig ein hlið á til­veru okkar sem við vanrækjum í vaxandi mæli.

Sú áskorun að vera fullkomlega mennskur er því að lifa þannig að við metum að verðleikum bæði hið listræna og siðræna eðli okkar sem lifandi vera sem eru hvort tveggja: fastar í líðandi stund en lifa samt út fyrir hana. Fyrir Kierkegaard var það þetta sem gerði kristnina svo aðlaðandi vegna þess að í Kristi fól það í sér hina mótsagnakenndu sameiningu beggja sviða í þriðja sviði – hinu trúarlega.

Fyrir þau okkar sem höfum ekki kristna sannfæringu – en það var út frá henni sem hann gekk, ekki þangað sem röksemdafærslur hans leiddu hann – er þessi lausn kannski ekki svo girnileg. Eru þá til aðrar leiðir að leysa þverstæðuna sem Kierkegaard lagði fyrir okkur?

Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir sem einstaklingar sem reyna að lifa endanlegu lífi sínu er að staðsetja nútíðina rétt með tilliti til framtíðar og fortíðar á þann hátt að meta allar þrjár að verðleikum. Við þurfum að skilja fortíðina til að halda áfram í framtíðinni, persónulega og pólitískt. Við þurfum einnig að hafa framtíðarskyn til að gera nútíðina meira en bara röð af skammæjum upplifunum – þótt þær eigi líka sinn stað í fjölbreyttu mannlífi.

En til viðbótar við nútíðina eina sér þurfum við áform, metnað, drauma, sem og vitund um af­leiðingar athafna okkar. Samt sem áður megum við ekki einblína um of á framtíðina eða fortíðina, ella glötum við nútíðinni. Og þar sem öll augnablik, liðin og ókomin, eru upplifuð fyrst og fremst sem nútíð, glötum við öllu ef við glötum henni.

*

Hvernig getum við afrekað þetta? Ég er ekki sannfærður um að til sé eitt einfalt svar. Mörgum sem skrifa um þetta efni hættir til að fjalla um alla eins og við værum nákvæmlega eins. En að því gefnu að tímaskynjun er greinilega breytileg ættum við að gera ráð fyrir að til væru fleiri en ein leið til að lifa í sátt og samlyndi við tímann. Eins og samtímaheimspekingurinn Galen Strawson hefur bent á virðast sumir eðlilega lifa meira í augnablikinu, en aðrir hafa meiri áhuga á liðnum tíma og ókomnum. Það er eins og við höfum innri klukkur og dagatöl og að lifa í takt við þau krefjist þess að mismunandi líf gangi með mismunandi takti.

Það kynni einfaldlega að vera svo að það skipti ekki máli hvaða afstöðu maður tekur til líðandi tímans svo framarlega sem maður tekur hana með heilum hug og ábyrgðartilfinningu. Rokkarinn Lemmy lifir samkvæmt kjörorðinu „fæddur til að tapa, lifi til að vinna“, og hann lifir frá degi til dags með slíkri staðfastri samkvæmni að einhvern veginn gengur það hjá honum, þvert ofan í venjulegt siðferði og læknavísindi.

Andstætt við þetta eru flestir sem slá um sig með klisjunum um carpe diem – „Lífið er ekki hve oft þú dregur andann, það er hve mörg andartök gera þig orðlausan af hrifningu“ eða „Það eru ekki árin í lífi þínu, það er lífið í árum þínum“ – að selja rómantískan uppspuna. Þeir eru eins og Hómer Simpson í þættinum þar sem hann heldur sig eiga aðeins eftir einn dag ólifað sem af­leiðingu þess að borða eitrað sushi. Þegar hann að lokum áttar sig á að það hefur ekki verið eitrað fyrir honum í raun og veru hrópar hann: „Ég er á lífi! Upp frá þessum degi strengi ég þess heit að lifa lífinu út í ystu æsar!“ Og síðan sjáum við hann setjast í sófann og glápa á sjónvarpið, eins og venjulega. Líkt og Hómer sýna fæst okkar andartakinu bara ekki þá hollustu sem krafist er af lífi sem veðjar öllu á það.

Að grípa daginn er oft ruglað saman við að upplifa eins margt og mikið og mögulegt er. Bækur og sjónvarpsþættir telja upp hluti eins og kvikmyndirnar sem þú verður að sjá, golfholurnar sem þú verður að leika, bjórtegundir sem þú verður að prófa og náttúruundur sem þú verður að sjá, allt áður en þú deyrð. (Ég er ekki að búa neitt af þessu til.) En æ ofsalegri hraði við að safna upplifunum er á engan hátt að láta hvert augnablik skipta máli. Að grípa er kannski ekki rétta sögnin til að nota um augnablikið, að njóta kynni að vera betra. Til að njóta einhvers þarf vissa stillingu sem og ákafa löngun til að hafa ánægju af öllum þeim góðu hlutum sem lífið hefur að bjóða. Því miður lifum við í samfélagi skyndifullnægingar þar sem að njóta er alltof fátítt. Jafnvel það sem við erum hvött til að hafa nautn af er varla líklegt til að gera lífið þess virði að lifa því – við hljótum að sækjast eftir meira en að njóta bita af fjöldaframleiddu súkkulaði í baðinu.

Búddahugtakið ‘aðhygli’ útskýrir þetta kannski betur. Búddatrúarmenn iðka aðhygli í hugleiðslu en einnig í einhverjum mæli alltaf. Aðhygli snýst um að hyggja vel að upplifun augnabliksins en hún á ekkert skylt við óseðjandi græðgi neysluhyggjunnar í nýjar upplifanir. Ennfremur virðist iðkun Búddatrúarmanna þroska bæði nútíðarskyn og hugarró gagnvart líðandi tímans. Hlutir taka eins langan tíma og þeir taka og það er tilgangslaust að vera að flýta sér áður en tíminn rennur út. Hinsvegar kann þetta bara að vera ein leið til að sætta okkur við tímaeðli okkar sem er ekkert meira eða minna ‘rétt’ en sældarhyggja Lemmys sé henni fylgt af trúmennsku. Og það eru eflaust til aðrar leiðir líka.

En hvernig svo sem við reynum að komast í takt við líðandi tímans þá eru nokkur mistök sem við ættum virkilega að forðast. Hvorki Búddatrúarmaðurinn né rokkarinn snaróði eru tímasóarar en þeir eru ekki heldur hinir stórkostlegu tímaþjarkar sem eru með troðfulla dagbók en njóta þó sjaldan í raun og veru neinna þeirra hluta sem þeir troða inn í hvern dag. Nútíðin er háll fiskur sem við getum ekki fangað ef við gerum enga tilraun til að klófesta hann en sem gengur okkur úr greipum ef við hrifsum hann of harkalega.

Við ættum ekki heldur að blekkja okkur með því að, þvert á reynsluna, þá sé í raun og veru til óendanlega mikill tími þegar allt kemur til alls. Það getur verið erfitt að sætta sig við dauðleikann og er það ástæðan fyrir því að þegar hann kemur flatt upp á fólk þá er algengasta viðbragðið einskonar skelfing sem miðaldrakrísan er dæmi um. Jafnvel þótt til sé einhvers konar líf eftir dauðann er afar ósennilegt að það líkist nokkuð þessu lífi. Ef við tryðum því í alvöru þá væru þær ekkjur sem giftust aftur fjölveriskonur.

*

Til að friðmælast við tímann þurfum við að sætta okkur við það sem við getum ekki breytt um hann. Hann er endanlegur. Við upplifum hann aðeins í eina átt, alltaf í nútíð en aldrei úr tengslum við fortíð eða framtíð lengur en nokkur hverful augnablik. Við fáum mest út úr honum ekki með því að bölsótast út í þessar óbreytanlegu staðreyndir heldur með því að lifa á viðeigandi hátt í samræmi við þær og í samræmi við einstaklingseðli okkar. Umfram allt þurfum við að sætta okkur við að einmitt það sem gerir okkur kleift að upplifa nokkuð yfirhöfuð er að tíminn heldur stöðugt áfram, og að kvarta yfir því að tíminn líði er þá að mótmæla einmitt því sem gerir hvaða tilveru sem er einhvers virði mögulega í fyrsta lagi.

Við ættum þessvegna að taka nýja árinu opnum örmum, sætta okkur við að það muni einnig líða og þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess að lífið heldur áfram eins og það ætti að gera og hlýtur að gera. Að segja að við verðum að grípa daginn er aðeins einn þriðji af sannleikanum: Við verðum líka að grípa fortíðina og framtíðina einnig.

                                                                                                Gunnar Ragnarsson þýddi

Neðanmálsgreinar

1. Julian Baggini er breskur heimspekingur og rithöfundur. Hann er meðstofnandi og ritstjóri tímaritsins The Philosophers’ Magazine og hefur m.a. skrifað bækurnar What’s it All About? Philosophy and the Meaning of Life (2004), Atheism: A Very Short Introduction (2003) og Making Sense: Philosophy Behind the Headlines (2002).
Grein þessi birtist í breska blaðinu The Independent 1. janúar 2007. – Þýð.

2. Bernard Williams (1929–2003). Talinn einn af áhrifamestu breskum heimspekingum á seinni hluta 20. aldar, einkum á sviði siðfræði.

3. Amartya Sen (f. 1933) er indverskur hagfræðingur og heimspekingur. Hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði 1998.

Töfrar málspekinnar

Bernard Williams og Bryan Mage ræða saman

INNGANGUR

Heitin tvö ‘málspeki’ (‘linguistic philosophy’) og ‘málgreining’ (‘linguistic analysis’) eru notuð til að tákna sama fyrirbærið: aðferð í heimspeki sem þróaðist aðallega í hinum engilsaxneska heimi og náði fullum þroska á fimmta og sjötta áratug þessarar aldar. Ég hygg að það sé sanngjarnt að segja að aðferð nánast allra sem síðan hafa fengist við heimspeki hafi orðið fyrir áhrifum frá henni. Hinar tvær miklu miðstöðvar þessarar heimspeki voru Oxford og Cambridge. Í Oxford var áhrifamesti einstaklingurinn J. L. Austin1 og í minna mæli Gilbert Ryle. Í Cambridge var það tvímælalaust Wittgenstein. Þessir og aðrir einstaklingar sem áttu hlut að máli voru, eins og gefur að skilja, ólíkir innbyrðis, en þeir áttu tilteknar grundvallarkennisetningar sameiginlegar. Kannski má orða þær helstu á eftirfarandi hátt:

Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar haft tilhneigingu til að spyrja spurninga á borð við „Hvað er sannleikur? . . . Hvað er fegurð? . . . Hvað er réttlæti?“ á þeirri forsendu að því er virðist að hvert þessara orða standi fyrireitthvað – kannski eitthvað ósýnilegt eða óhlutbundið en í öllu falli eitthvað sem á sér eigin tilvist óháð því hvernig orðin eru notuð. Það var eins og heimspekingarnir væru að reyna að brjótast gegnum spurninguna, brjótast gegnum tungumálið, til einhvers ekki-mállegs veruleika sem stæði bak við orðin. Jæja, málspekingarnir komu til skjalanna og sögðu að þetta væri kórvilla – og það sem meira er, villa sem flækir okkur í alls konar öðrum alvarlegum villum í hugsun okkar. Það eru, sögðu þeir, engir sjálfstæðir hlutir sem þessi orð tengjast. Tungumálið er mannaverk: við fundum upp orðin og við ákveðum notkun þeirra. Að skilja hvað orð merkir er ekkert meira eða minna en að kunna að nota það. Tökum til dæmis hugmynd eins og ‘sannleika’: þegar maður skilur til fulls hvernig á að nota orðið ‘sannleikur’ rétt – og skyld orð eins og ‘sannur’, ‘sannsögli’ og svo framvegis – þá skilur maður til fulls merkingu þess. Þessi merking er einfaldlega heildarsumma mögulegrar notkunar orðsins, ekki einhver sjálfstæður hlutur sem er til í einhverjum ekki-mállegum heimi.

Í framhaldi af þessu sögðu málspekingar að eina fullnægjandi leiðin til að rökgreina frumhugtök mannlegrar hugsunar – eða hugtökin sem við reynum að ná tökum á heiminum með eða eiga samskipti hvert við annað með – sé að rannsaka hvernig þau eru í raun og veru notuð. Og að iðka málspeki felst í því að framkvæma slíkar rannsóknir. Reyndar er frægasta bókin í málspeki kölluðRannsóknir í heimspeki (eftir Wittgenstein). Venjulega var slík rannsókn gerð á einu hugtaki í einu – það gat til dæmis verið hugtakið hugur (sem er heiti á því sem er sennilega önnur frægasta bók í málspeki, eftir Gilbert Ryle). Nokkrum árum eftir útgáfu þessara tveggja bóka – bókar Ryles 1949 og Wittgensteins 1953 – hafði málgreining gífurleg áhrif á heimspekina. Á þessum árum fór hún alltént að hafa áhrif á það hvernig greinin var iðkuð af næstum öllum í hinum enskumælandi heimi. Maður sem hefur dvalið mörg ár í Oxford og Cambridge, Bernard Williams2, ræðir þetta við mig. Hann er prófessor í heimspeki í Cambridge og mun innan skamms segja þeirri stöðu lausri og taka við rektorsstöðu í King’s College. Hann var á fyrstu námsárum sínum í Oxford þegar málspekin stóð þar með mestum blóma.

UMRÆÐA

Magee Málspekin táknaði brotthvarf frá því sem hafði tíðkast áður. Og það sem hafði tíðkast áður var fyrst og fremst rökfræðileg staðreyndahyggja3 ( Logical Positivism). Með öðrum orðum var rökfræðileg staðreyndahyggja ríkjandi rétttrúnaður einnar kynslóðar, málspeki annarrar. Ein leið fyrir okkur til að lýsa málspekinni er þá að tala um muninn á henni og rökfræðilegri staðreyndahyggju.

Williams Ég held við höfum verið mjög meðvituð um mismuninn, kannski meðvitaðri um hann en þeir sem skoða þetta allt saman seinna. Aðalmunurinn, held ég, var þessi: Staðreyndahyggjan taldi að mælikvarðinn á merkingarbæra orðræðu og þekkingu væri raunvísindin. Hún viðurkenndi að til væru einnig aðrar tegundir orðræðu, en samkvæmt henni var mælikvarðinn á hvort önnur orðræða væri merkingarbær mælikvarði raunvísindanna. Fyrir staðreyndahyggjunni var heimspeki heimspeki raunvísinda en málgreiningin, eða málspekin, gerði sér aftur á móti fulla grein fyrir að orðræða er af margvíslegu tæi. Það væru til margir ólíkir talsmátar, margar ólíkar tegundir merkingar auk vísindalegrar merkingar og verkefnið var að reyna að uppgötva hvernig þessar margvíslegu aðrar tegundir, sem og hinar vísindalegu, virkuðu en ekki að mæla allt með mælikvörðum raunvísinda og dæma hinar tegundirnar merkingarlausar.

Magee Rökfræðilegir staðreyndasinnar sögðu skýrt og skorinort, var það ekki, að staðhæfingar sem ekki væri hægt að sannprófa með reynslu væru merkingarlausar?

Williams Jú, að undanskildum staðhæfingum í stærðfræði eða rökfræði sem voru taldar sannar einungis í krafti merkingar orða. En vissulega voru allar staðhæfingar í siðfræði eða fagurfræði eða trúarbrögðum og reyndar margar hversdagslegar sálfræðilegar staðhæfingar merkingarlausar samkvæmt mælikvarða staðreyndahyggjunnar.

Magee Og uppgangur málspekinnar hafði þau áhrif að mörg orðræðusvið sem rökfræðilegir staðreyndasinnar höfðu látið róa voru tekin inn aftur.

Williams Já, auðvitað. Að vissu leyti hafði hún mjög umburðarlynda afstöðu. Það sem hún var reiðubúin að segja var þetta: „Heimspeki snýst um að gera sér grein fyrir hvernig við notum orð, um tegundir merkinga sem þau hafa, um lífshættina sem þær eru hluti af. Ef þessir orðræðuhættir eru til þá eru þessir lífshættir til og það þarf að skilja þá.“

Magee Þannig að þegar rökfræðilegir staðreyndasinnar hefðu sagt að sérstaklega trúarlegt tal væri merkingarlaust vegna þess að engin leið væri til að sannprófa neitt af því kynnu málgreiningarsinnar hins vegar að hafa sagt: „Nú jæja, áður en við dæmum þetta merkingarlaust skulum við skoða vandlega hvað nákvæmlega hugtökin sem verið er að nota eru og hvernig þau eru notuð – hvernig þau virka innan þessa sérstaka orðræðuheims.“

Williams Já. Vitanlega er frekar kaldhæðnisleg hlið á þessu öllu af þeirri ástæðu að enda þótt málspekin væri, eins og þú segir, vingjarnlegri í garð trúarlegrar orðræðu en staðreyndahyggjan hafði verið, þá sýndi staðreyndahyggjan henni þá virðingu, í vissum skilningi, að sýna fram á að hún væri merkingarlaus út frá forsendum hennar, reynsluforsendunum. Málgreiningarsinnum hætti dálítið til að segja: „Nú jæja, hér höfum við þennan orðræðuhátt sem er einn lífsmáti líkt og hver annar“ – og þetta var þegar óbeint að túlka trúna á róttækan húmanískan hátt. Málgreiningin hafði tilhneigingu til að líta á trú, og trúarsannfæringu, bara sem mannlífsform, sem tjáningu á mannlegum þörfum. Og þó það séu margir, þar með taldir nú margir í klerkastétt, sem væru sammála þessu, var það ekki hin hefðbundna hugmynd allra um trúarsannfæringu.

Magee Þegar við höfum nú greint málspeki frá rökfræðilegri staðreyndahyggju er annar greinarmunur sem við ættum að gera í upphafi umræðu okkar og það er greinarmunurinn á málspeki (linguistic philosophy) og heimspeki málsins (philosophy of language). Þessi tvö heiti eru svo lík að þeim sem þekkir ekki til heimspeki mætti fúslega fyrirgefast að blanda þeim saman eða að telja að þau væru heiti á sama fyrirbærinu.

Williams Hér er um mikilvægan greinarmun að ræða. Heimspeki málsins, eins og ég skil hana, er ein grein heimspeki, eitt svið heimspekinnar. Hún er sá hluti heimspekinnar sem fæst einkum við spurningar sem tungumálið sjálft vekur. Þetta er nú blómstrandi og á margan hátt tæknileg grein og vitanlega stendur hún mjög nálægt fræðilegum málvísindum. Á hinn bóginn er málspeki, eða málgreining, ekki ein grein heimspeki heldur heimspekileg aðferð, aðferð sem hægt væri að beita við heimspekilegar spurningar sem koma upp í öllum greinum. Hún býður upp á leið til að fást við spurningar, hvort heldur í frumspeki, siðfræði eða hverju sem er, og leggur einkum áherslu á að vera meðvitaður um málið sem þessar spurningar eru settar fram á.

Magee Málspekin gaf visst fyrirheit, var það ekki? Hugmyndin var að það væri ekkert innihald í neinum hluta hugtakakerfis okkar sem við sjálf hefðum ekki sett og þess vegna væri enginn afgangur, ekkert eftir, jafnskjótt og búið væri að framkvæma rækilega greiningu á því hvernig hugtak virkaði. Þetta þýddi að heimspekileg rannsókn gæti leitt til þess að vandamálið væri endanlega leyst.

Williams Já. Frasinn sem svo oft var notaður, og ég held að heyrist stundum enn, er ‘ekki leyst heldur leyst upp’. Hugmyndin var að mörg hinna hefðbundnu vandamála hefðu byggst á misskilningi, á óhóflega einföldum hugmyndum um hvernig tungumál okkar virkaði og þegar maður gerði sér grein fyrir hvernig málið virkaði í raun og veru – þegar við færum að skilja merkinguna sem við höfðum í raun og veru gefið orðum okkar – þá sæjum við að það væri ekki hægt að setja bara tiltekin orð saman og vona að þau fyndu sinn eigin áfangastað, ef ég má orða það þannig. Hugsunin gæti ekki bara þotið gegnum orðin og komist til veruleikans. Það væri einungis það sem við gerðum sem ákvæði merkingu spurninganna. Þessu tengist að margar af spurningum heimspekinnar reyndust alls ekki vera, hver þeirra um sig, nein ein spurning. Þær voru oft safn ólíkra vandamála, ólíkra ráðgátna, sem höfðu verið settar undir einn hatt til einföldunar. Og þegar maður sá í gegnum þetta og hafði sundurgreint vandamálin uppgötvaði hann að mörg hinna hefðbundnu vandamála heimspekinnar höfðu ekki verið leyst heldur horfið. Það þurfti ekki lengur að spyrja þeirra. Og fyrirheitið sem þetta gaf var stórkostlegt – og ákaflega spennandi. Það voru í raun og veru menn sem sögðu að allri heimspeki yrði lokið eftir fimmtíu ár. Hún myndi öll heyra sögunni til.

Magee Vegna þess að þegar búið er að rökgreina öll grunnhugtökin út í hörgul verður ekkert eftir til að gera.

Williams Eða við munum alltént hafa losnað við þau hugtök sem voru tilefni hinna djúpstæðu heimspekilegu vandamála.

Magee Samt er þetta í ósamræmi við annað fyrirheit sem málspekin gaf. Rökfræðilegir staðreyndasinnar héldu heimspekinni undir yfirráðum raunvísindanna, en eins og þú útskýrðir áðan voru málspekingarnir reiðubúnir að íhuga hvað sem er. Ein afleiðing af þessu var að litið var svo á að heimspekilegum aðferðum mætti beita við bókstaflega öll orðræðusvið. Það er engin ástæða til þess að við ættum ekki, á þeirri forsendu, að hafa heimspeki læknisfræði, heimspeki hagfræði, heimspeki fólksfjöldakenningar, heimspeki íþrótta – heimspeki alls afdráttarlaust (en einungis ‘alls’ í merkingunni ‘hvers sem er’). Tökum læknisfræði til dæmis. Nokkur sérkennandi hugtök hennar og aðalhugtök eru ‘heilbrigði’, ‘sjúkdómur’ og ‘lækning’ sem öll verða mjög ráðgátukennd strax og farið er að hugleiða þau í alvöru. Hægt væri að beita heimspekilegum greiningaraðferðum við þau og útlista með því orðræðu á sviði læknisfræði. Nú, einmitt sú staðreynd að hægt væri að gera þetta á bókstaflega öllum orðræðusviðum býður upp á endalaust verkefni.

Williams Já. Ég held ekki að neinn hafi nokkurn tíma álitið að unnt væri að útlista öll hugtök. Þeir álitu að unnt væri að leysa helstu vandamálin upp. Og það stafar af því að til var skoðun á því hvaðan helstu vandamálin kæmu. Auðvitað eru heimspekilegar spurningar um hugtök sem þarf að svara um læknisfræði – til að mynda þegar um andlegt heilbrigði er að ræða hefur sumum þótt sjálft hugtakið geðveiki ráðgátukennt – og heimspekileg rannsókn hefur farið fram á þeim grunni. En hvað snertir viðfangsefni málspekinnar reyndust aðalvandamálin koma upp með tvennu móti. Í fyrra lagi með ákaflega almennum hugtökum – ekki hugtökum sem eru eins sérstök og heilbrigði heldur hugtökum sem koma upp alls staðar eins og hugmyndin um að eitthvað sé það sama og eitthvað annað, eða hugmyndin um að eitthvað orsaki eitthvað annað, eða hugtökin um tíma og rúm. Þetta eru hugmyndir sem við notum á öllum orðræðusviðum og hið afar almenna einkenni þeirra verður tilefni meginbálks heimspekilegra vandamála. Síðari mikilvægi flokkur grundvallarvandamála var þau sem talin voru koma upp á mörkunum milli ólíkra tegunda orðræðu, til dæmis á mörkunum milli þess að tala um efnislega hluti og tala um sálræna hluti. Bókin eftir Ryle sem þú nefndir, Hugtakið hugur, var umfram allt tilraun til að beita aðferðum málgreiningar við spurningar á borð við: „Hvernig vitum við að annað fólk hafi reynslu? Hvað er það fyrir lifandi hlut að hafa hugsanir?“ Nú voru þetta vissulega ekki ný vandamál – sett þannig fram voru þau mjög gömul vandamál í heimspeki. Aðalatriðið var að maður tæki eitthvert svið þar sem vandamálin voru mjög knýjandi og notaði þessar nýju aðferðir. Þá myndu vandamálin ekki líta út eins og áður. Þau myndu leysast upp í flokk aðgreindra hugtakalegra viðfangsefna sem við gætum kannski ráðið við.

Magee Hvert var – fyrir utan fyrirheitið um að leysa öll vandamál upp sem er augljóslega aðlaðandi – hið sérstaka aðdráttarafl máspekinnar fyrir svona margt og svona vel gefið fólk? Því hún hafði, þegar öllu er á botninn hvolft, gífurlegt aðdráttarafl. Fólk smitaðist af henni næstum því eins og sjúkdómi.

Williams Fyrir því voru ástæður á ýmsum stigum. Ein þeirra var að þessi heimspeki sýndi, í svo til öllum sínum myndum, einhverja andstæðu milli þess að vera sprottin af djúpum og alvarlegum hvötum og þess að nota hversdagslegan stíl. Dæmin voru hversdagsleg. Það var vísvitandi tilraun til að forðast allt uppblásið heimspekilegt fagmál. Það var ekki háfleygt, og vegna þess að manni fannst um leið að hann væri í raun og veru að gera eitthvað mikilvægt, þó það liti ekki endilega þannig út, þá veitti þetta sérstaka tegund af því sem mætti kalla sókratíska ánægju, þar sem hið hversdagslega efni þjónaði því sem við vissum öll að væri dýpri tilgangur. Útkoman var nokkuð ólík eftir því hvort um Wittgenstein-stíl eða Oxford-stíl var að ræða, en hinn síðarnefndi var oft vísvitandi og háðslega þurr og gerði um leið í því að eltast við greinarmun vegna þess hvað það var gaman. Til er athugasemd höfð eftir Austin sem var fræg á sínum tíma. Hann hélt málstofur þar sem rökræddur var munurinn á að gera eitthvað í ógáti (inadvertently), fyrir mistök (by mistake), af slysni (accidentally) og svo framvegis, og á einhverju stigi spurði einhver þátttakandinn iðulega: „Prófessor Austin, hvaða stór heimspekivandamál varpa þessar rannsóknir ljósi á?“ Og Austin var vanur að svara: „ Í grófum dráttum: á þau öll.“

Magee Margir létu blekkjast af því hve dæmin voru léttvæg. Enda þótt málspekingar, eins og þú segir, tækju vísvitandi upp úrdráttarstíl og notuðu dæmi sem virtust léttvæg höfðu þeir gilda ástæðu til að nota dæmi af því tæi. Hún var sú að þeir vildu ekki að neitt í því sem þeir sögðu ylti á dæmunum.

Williams Það er rétt. Ég hygg að hluti hugmyndarinnar hafi verið að tæki maður eitthvert augljóslega stórbrotið eða áhrifamikið eða að því er virtist djúpt hugsað dæmi þá stæði hann frammi fyrir tveim valkostum: annaðhvort var það í raun og veru djúpt hugsað og þá væri það næstum því áreiðanlega of flókið og erfitt til að byrja með – við hefðum átt að komast þangað með því að taka eitthvert hversdagslegra málefni fyrst – eða það væri ekki djúpt hugsað og aðdráttarafl þess væri bara falskt. Af þessari afar mikilvægu ástæðu setti málspekin til hliðar hefðbundið orðfæri heimspekinnar. Bæði Oxford- og Wittgenstein-gerðin drógu í efa hefðbundna hugmynd um djúphygli eða dýpt. Þær höfðu auðvitað ólíkan stíl, eins og ég vék að. Þar sem Oxford-stíllinn beitti háði og hugvitssemi og forðaðist hátíðleika þá arfleiddi Wittgenstein hins vegar fylgismenn sína að háleitum kröfum um heilindi og alvöru og trúarlegri óbeit á hugvitssemi. Heimspekingur nokkur sagði einu sinni við mig að það hefðu alltaf verið tvær ólíkar ástæður fyrir því að iðka heimspeki – forvitni og sáluhjálp, og þær samsvara nokkurn veginn þessum tvenns konar stíl og ólíku aðdráttarafli þeirra. En báðar þessar stíltegundir leituðu skilnings í hinu hversdagslega og með atbeina þess, og báðar vöktu gremju með því að gera að engu venjubundnar væntingar til heimspekinnar að hún væri djúpt hugsuð en veitti samt huggun.

Má ég bæta einu við um ódramatísku eða hversdagslegu dæmin? Sjálfur tel ég að notkun þeirra hafi verið langtum skynsamlegra fyrirtæki þegar talað var um skynjun eða þekkingarfræði en hún var þegar talað var um siðfræði eða stjórnmál. Það er athyglisvert að í rauninni þreifst stjórnmálaheimspeki alls ekki þegar málspekin réð ríkjum. Hugtökin um hið dramatíska og alvarlega eru sjálf stjórnmálaleg og siðferðileg hugtök, en það á ekki við um að sjá, vita, telja og önnur slík hugtök.

Magee Ég geri ráð fyrir að enn önnur hlið á aðdráttarafli málspekinnar hafi verið innræting hollrar sjálfsvitundar um notkun málsins, innræting næstum því nýrrar tegundar ábyrgðar – viðurkenning þess að það skiptir í raun og veru máli að maður tjái sig óaðfinnanlega skýrt.

Williams Ég held það skipti máli hvers eðlis þessi sjálfsvitund var. Það er athyglisvert að enda þótt sumir hafi gagnrýnt málspekina fyrir að vera smásmuguleg eða bara orðabókarleg eða léttvæg að þessu leyti, eða fyrir að hafa of miklar áhyggjur af smáatriðum í framsetningu, þá er þetta í rauninni sama krafan og iðulega er gerð af skáldum – til að mynda af Auden í mörgum verka hans og af Yeats – sem fannst að einhvern veginn sé heiðarleiki hvað varðar merkingu, að segja hvorki meira né minna en maður meinar, og að gera sér grein fyrir hvað þetta er, vörn gegn upplausn, ótta og sýndarmennsku.

Magee Það er lítið um skrif þar sem þetta sjónarmið er sett fram, er það ekki: Karl Kraus, George Orwell. . . .

Williams Jú – andstaðan gegn spillingu hugans með óskýru málfari. Við verðum að hafa hugfast að Wittgenstein kom frá Vín þar sem þetta hafði lengi verið mikið áhyggjuefni. Í Oxford hefði það ekki verið orðað þannig vegna þess að það hefði hljómað frekar hástemmt, en í raun var þetta án efa hluti af ástæðunni og að mínum dómi mikilvægur hluti.

Magee Ég hygg að í Oxford, þar sem við báðir stunduðum nám í greininni, hafi þessi áhersla á skýrleika, á ábyrgð, á að gaumgæfa rækilega smávægilegan merkingarmun, verið ágæt þjálfun hugans alveg burtséð frá heimspekilegri þýðingu hennar.

Williams Já. Hún hafði vissulega mjög jákvæðar hliðar. Ég held það verði að segjast að hún hafði einnig einhverjar neikvæðar hliðar hvað þetta varðar.

Magee Ég vil koma að þeim seinna, ekki alveg strax. Við höfum talað um hollustuna við skýrleika en þetta vekur undireins eina eða tvær aðrar spurningar. Flestir myndu vera sammála því að Wittgenstein í seinni heimspeki sinni væri nafntogaðastur allra málspekinga, en enginn gæti sagt að hann væri skýr. Þvert á móti. Og ég vil tengja þetta við annað atriði sem þú vilt kannski heldur taka sér. Ég veit það ekki; ég ætla hvort eð er að segja þetta núna. Vegna ástríðufullrar hollustu við skýrleika höfðu málspekingar djúpa (og ég meina djúpa) fyrirlitningu á sumum heimspekingum sem eru ekki skýrir vegna þess að þeir eru ekki skýrir. Þar sker Hegel sig úr. Á fyrstu námsárum okkar í Oxford-háskóla var Hegel vísað á bug með algerri fyrirlitningu af flestum atvinnuheimspekingum, aðallega vegna þess að hann er svo óskýr. Það var skopast að verkum hans og þau kölluð ‘rusl’, ‘þvættingur’, ‘ekki verð alvarlegrar vitrænnar umhugsunar’. En þetta var samt augljóslega – alltént er okkur það ljóst nú – misskilningur. Með öðrum orðum, skýrleika var gefið gildi í heimspeki sem nú er hægt að sjá greinilega að hann hafði ekki.

Williams Ég hygg að skýrleiki reynist vera flóknara hugtak en menn, eða sumir menn, töldu á þeim tíma. Ég hygg að dæmið um Hegel sé margslungið. Ég held ekki að það hafi bara verið af því að hann var erfiður; það var vegna þess að hann var erfiður á tiltekinn hátt. Til dæmis held ég ekki að Kant hafi nokkurn tíma orðið fyrir annarri eins höfnun og þú talar um, en ég held ekki að neinn gæti sagt að Kant, eða mál Kants, væri framúrskarandi auðvelt. Ég held það verði líka að bæta því við að það voru vissar sögulegar ástæður fyrir því að Hegel var hugmyndafræðilega tortryggilegur. Hann var talinn tengjast alræðisbrenglunum í þýskri vitund. Þetta hefur sennilega verið villa, en algeng tegund villu. Það var sögulegt samhengi. En það er rétt hjá þér að skoðunin á sögu heimspekinnar var afar takmörkuð og stjórnaðist að vissu leyti af einhverju hugtaki um skýrleika. Ef við snúum okkur frá þessu að muninum sem við höfum vikið að á stíl Wittgensteins og til að mynda stíl Austins og orðum þennan mun með því að segja að stíll Austins sé skýr á þann hátt sem stíll Wittgensteins er það ekki, þá held ég að við hljótum að meina að Austin sé einhvern veginn þurrari eða bókstaflegri en Wittgenstein. Það eru mjög fáar setningar í Rannsóknum í heimspeki eftir Wittgenstein sem eru ekki fullkomlega blátt áfram setningar. Í þeim er ekki vafasöm málfræði eða torskilin nafnorð.

Magee Það sem er erfitt að skilja er hvers vegna hann hefur skrifað þær. Maður skilur það sem hann segir en ekki hvers vegna hann segir það.

Williams Það er rétt. Það eru setningar eins og: „Ef ljón skyldi tala mundum við ekki skilja það.“ Spurningin er: „Hvers vegna stendur þetta þarna?“ Og ég held að ein ástæða fyrir því að erfitt er að skilja það sé óvissa, mjög djúpstæð óvissa, um að hvaða marki það tengist röksemdafærslu. Hjá Austin, eða mörgum öðrum málspekingum sem við gætum nefnt, eru skilmerkilegar röksemdafærslur. Það er mikið af ‘þess vegna’ og ‘úr því að’ og ‘af því að’ og ‘það verður nú sannað á tiltekinn hátt’. Hjá Wittgenstein eru ákaflega fáar röksemdafærslur. Verkið samanstendur af undarlegum samtölum hans við sjálfan sig og spakmælum, áminningum, hlutum af þessu tæi, og þetta tengist mjög róttækri skoðun sem hann hafði á heimspeki að hún hefði alls ekkert að gera með sönnun eða röksemdafærslu. Við ættum að nálgast heimspekina, segir hann á einum stað, með því að safna áminningum um hvernig við tölum venjulega, nokkuð sem heimspekinni hættir til að fá okkur til að gleyma.

Magee Það er ekki ólíkt því að reyna að fá fólk til að sjá hluti á tiltekinn hátt – en það gera listaverk almennt, einkum leikrit og skáldsögur.

Williams Ásamt þeirri hugmynd að þegar við sjáum hlutina á þennan hátt sjáum við þá samt á þann hátt sem er óspilltur af fræðilegum ofureinföldunum heimspekinnar. Ekkert annað afbrigði málspekinnar var eins róttækt og Wittgenstein hvað varðar sönnun. En það var þessi tilhneiging sem þau deildu öll með honum að endurheimta margslungna gerð venjulegrar reynslu. Hugmyndin um skýrleika er hér tengd því að setja margslungna gerð í staðinn fyirir óskýrleika. Heimspekinni leyfist að vera flókin af því að lífið er flókið. Og ein hinna miklu ásakana á hendur fyrri heimspekingum er að enda þótt þeir hafi verið óskýrir, erfiðir og hátíðlegir, það sem þeir hafi í raun og veru gert sé að einfalda hlutina allt of mikið. Þeir gerðu til að mynda mikið úr andstæðunni milli sýndar og veruleika, en hugmyndin er að hugsi maður í raun og veru um á hve margvíslega vegu hlutir geta virst vera eitt eða raunverulega verið annað og þar fram eftir götunum – eða hvað mætti ætla að ‘veruleikinn’ væri – þá kemst hann að raun um að öll hugsanatengsl okkar um þetta eru langtum flóknari en þeir eða við höfðum upphaflega gert ráð fyrir.

Magee Fyrir fáeinum mínútum vorum við að tala um hvernig, við skulum segja fyrir tuttugu árum, í hinni nýju dögun málspekinnar menn hneigðust til að halda að með því að nota hinar nýju aðferðir yrði búið að leysa grundvallarvandamál heimspekinnar eftir svo sem tuttugu ár. Jæja, þessi tuttugu ár eru nú liðin og grundvallarvandamál heimspekinnar eru enn hjá okkur. Sem sagt, enda þótt málspekin hefði þá umtalsverðu kosti sem við höfum verið að tala um þá var greinilega eitthvað í grundvallaratriðum rangt í væntingum hennar til sjálfrar sín, og kannski þess vegna í hugmynd hennar um sjálfa sig. Við skulum nú tala um gallana á henni.

Williams Heimspekingar hafa oft séð dögun af annarri öld. Við getum undireins skráð um það bil fimm byltingar í heimspeki, þar sem menn hafa sagt: „Hvers vegna hefur heimspekin verið á villigötum? Nú er hún komin á rétta braut.“ Þeim hættir öllum til að rekast á vandamál sinna eigin aðferða áður en mjög langt um líður og málspekin var ekki ein um það. Ég tel að aðaltakmörkun hennar hafi verið að hún vanmat mikilvægi kenninga. Umfram allt vanmat hún mikilvægi kenninga innan heimspekinnar (þó hjá Wittgenstein væri varla hægt að kalla þetta vanmat – öllu heldur algera höfnun). Hún hafði þar að auki þá tilhneigingu að vanmeta einnig mikilvægi kenninga í öðrum greinum. Ég held ekki að hún hafi haft mjög skýra hugmynd um mikilvægi kenninga meira að segja í vísindunum.

Magee Leyfðu mér að ganga úr skugga um að mér sé ljóst hvað þú átt við þegar þú talar um að vanmeta mikilvægi kenninga. Málgreiningarsinnum hætti til að taka upp eitt hugtak í einu með flísatöngum sínum og láta það undirgangast rækilega greiningu – stundum, til að mynda hjá Austin, nánast í einangrun frá öllu öðru, það er að segja án nokkurrar vísunar til skýringarkenningar sem bakgrunns. Er það þetta sem þú átt við?

Williams Það er hluti af því. En það snýst ekki aðeins um umfang rannsóknarinnar (Austin og aðrir lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða skyld hugtök eða hugtakaflokka) heldur einnig um ástæðuna fyrir henni. Ég held að það sem okkur hætti til að gera hafi verið að taka fyrir einhvern greinarmun eða andstæðu og fara vandlega í saumana á þessu og á hinum ýmsu blæbrigðum sem kynnu að tengjast því og koma skipan á þau eða setja þau fram, án þess að íhuga nægilega vel hvaða bakgrunnur gerði þennan greinarmun frekar en einhvern annan áhugaverðan eða mikilvægan.

Magee Þið stunduðuð greinina í smáskömmtum og reyndar var ‘í smáskömmtum’ orðasamband sem þið sjálfir notuðuð oft til að lýsa starfsemi ykkar, var það ekki?

Williams Iðulega. ‘Í smáskömmtum’ var lofsyrði. Austin notaði afhjúpandi hliðstæðu. Þegar kvartað var um margföldun greinarmunar benti hann á að til væru þúsundir tegunda af einhverri gerð skordýra og spurði: „Hversvegna getum við ekki bara fundið sambærilegan greinarmun í tungumálinu?“ Ja, svarið er vitanlega að ástæður okkar fyrir því að greina tegundir bjallna hverja frá annarri eiga sér rætur í tilteknum fræðilegum skilningi á því sem aðgreinir tegundir, skilningi sem þróunarkenningin lætur í té. En hafi maður ekki einhvern fræðilegan skilning að bakgrunni er hvað sem er jafn ólíkt hverju öðru sem er og manni sýnist.

Magee Með öðrum orðum, maður verður að hafa viðmið. Og þetta viðmið er kenning.

Williams Ég held það verði að segjast, og það var ekki nægilega viðurkennt. Það var misjafnt hjá mönnum að hve miklu leyti þeir sögðu að hægt væri að iðka heimspeki í smáskömmtum en ég hygg að viðurkenning þess að vandamálin væru einungis ákveðin, greinarmunurinn einungis látinn í té, af bakgrunni einhvers fræðilegri eða kerfisbundnari skilnings – þetta atriði hygg ég að mönnum hafi oftar sést yfir.

Magee Hér áðan var ég að tala um hvernig málspekingar voru reiðubúnir að beita verkfærunum á hvert sem er af ýmsum orðræðusviðum. Þegar hér er komið í umræðu okkar má tengja þessa staðreynd við einn hinna alvarlegu galla á málspekinni. Málspekingum hætti of mikið til að líta á heimspeki sem aðgreinda frá öllum viðfangsefnum, eða alltént aðgreinanlega frá þeim. Ég minnist þess að einn af virtustu heimspekingum landsins sagði við mig fyrir um fimmtán árum: „Maður þarf ekki að vita neitt til að vera góður heimspekingur. Maður þarf bara að vera greindur og hafa áhuga á faginu.“

Williams Jæja, hann var vissulega heiðarlegri en sumir. Ég held að margir hafi hugsað þetta en hafi ekki verið svo ósvífnir að segja það. Kannski þetta sé nokkuð athyglisverð söguleg athugasemd um hvernig hlutirnir litu út, eins og þú gefur í skyn. Þetta er að vissu leyti önnur hlið á því sem við sögðum hér á undan um hinn byltingarkennda skilning þessarar heimspeki. Hann virkaði að hluta með því að láta manni finnast að eðli heimspekinnar hefði verið misskilið, að menn hefðu iðkað heimspeki rétt eins og þeir væru að kortleggja hið heimspekilega svið eða fást við sérstaka tegund yfirvísinda, og nú hefðum við nýja vitund um heimspeki sem þýddi að við gætum ekki gefið okkur að hún væri þannig. Og eins og ég hef þegar sagt var Wittgenstein haldinn djúpstæðum efasemdum um að heimspeki gæti verið til nema sem andlegar truflanir sem eiga sér stað þegar hugmyndir okkar um okkur sjálf lenda á villigötum. Þessi byltingarkennda tilfinning hvað varðar heimspeki gerði einnig marga djúpt – og óhóflega – meðvitaða um hvað heimspeki væri og ýtti undir þá tilfinningu að hún væri gerólík öllu öðru. Þetta hvatti svo aftur fólk til að álíta að vísindin, til dæmis, gætu ekki verið heimspekileg í sjálfum sér, gætu ekki haft neitt heimspekilegt við sig. Hérna var heimspekin og þarna voru hinar eiginlegu vísindagreinar. Ég held að menn geri sér nú enn einu sinni mjög ljósa grein fyrir að einhverjir hlutar vísinda eru sjálfir heimspeki vísinda, einhverjir hlutar málvísinda eru heimspeki málvísinda, mikið af sálarfræði er heimspeki sálarfræði. Það eru til svið þar sem þörf er fyrir bæði heimspekilega færni og þekkingu í vísindum eða öðrum greinum sem máli skipta. Tvískiptingin milli heimspeki og alls annars fær á endanum ekki staðist.

Magee Að rjúfa þannig tengsl heimspekinnar við aðrar greinar gerði aðferðina líka gallaða með öðrum hætti: það leiddi til skorts á sögulegum skilningi. Það var mjög lítill skilningur hjá málspekingum á því að hugtökin sem þeir rökgreindu ættu sér sögu. Þeir gáfu furðulega lítinn gaum að áformum þeirra málnotenda sem þeir voru að rökræða málnotkun hjá þegar þetta voru fyrri tíðar menn. Það sem gerir allt þetta enn furðulegra er að þeir settu sjálfir notkun í fyrsta sæti sem mælikvarða á merkingu en leiddu aftur á móti alltaf hjá sér þá einföldu staðreynd að notkun orða er sífelldum breytingum undirorpin.

Williams Ég held að þarna sé um tvö ólík atriði að ræða. Annað gengur út á það að öll hugtök eigi sér sögu. Hvaða hugtak sem vera skal á sér einhverja sögu, og hvað það snertir tel ég að þeir hafi haft verjanlega afstöðu þó hún væri dálítið þröngsýn, en hún var þessi: „Við skulum líta á það núna sem kerfi sem gegnir ákveðnu hlutverki.“ Þetta var að vissu leyti eins og ákveðin tegund mannfræði.

Magee En þegar þeir fjölluðu um hugmyndir Lockes eða Descartes eða einhvers annars látins heimspekings þá hætti þeim til að rökræða við hann eins og hann væri starfsbróðir á sömu kennarastofu.

Williams Þegar komið er að sögu heimspekinnar þá vaknar vitanlega öðruvísi spurning og á því leikur alls enginn vafi að afstaðan til mikils af heimspeki fortíðar hafði það sem kalla mætti sterk einkenni tímaskekkju. Þá athugasemd að meðhöndla heimspeki fortíðar eins og hún væri skrifuð í heimspekitímarit í þessum mánuði gerði einhver til að hrósa þessari aðferð. Ég held ekki að við viljum fara út í kenninguna um sögu heimspekinnar og um þessa frekar furðulegu leið til að fást við hana, en það er sanngjarnt að segja að reyndar er hún nokkuð frjó og örvandi og hefur reyndar fengið þróttmeiri arf en sumar tegundir heimspekisögunnar sem láta sér óhóflega annt um að vera ekki bendlaðar við tímaskekkju.

Magee Við höfum verið að tala um gallana á málspekinni og ég held að sérhver þeirra sem við höfum fjallað um sé raunverulegur. Nú langar mig til að vekja máls á einum sem þú telur kannski ekki vera raunverulegan. Hann er engu að síður algengastur af öllum aðfinnslum. Þeir sem eru ekki heimspekingar hafa ætíð haft, og hafa enn, tilhneigingu til að líta á málspekina sem ómerkilega. Málspekingar, hafa þeir alltaf sagt , eru ‘bara að leika sér með orð’, þeir eru ‘léttúðugir’ og svo framvegis. Hvað mundir þú vilja segja um þetta?

Williams Ja, svarið við þessu er að sumt af henni var vitanlega svona. Sumt af henni var smásmugulegt, léttvægt og leiðinlegt. En alltaf og á öllum tímabilum, og hver sem stundar heimspekina, þá eru að minnsta kosti níutíu prósent hennar, samkvæmt ríflegu mati, frekar léleg og munu aldrei vekja áhuga neins síðar meir nema sagnfræðinga. Þetta á við um margar greinar en það á kannski sérstaklega við um heimspeki. Það er því ekki að undra að mikið af málspekinni sé heldur lélegt – af því að mikið af heimspeki af öllu tæi er heldur lélegt. Málspekin var léleg með sérstökum hætti, sem sé þeim að hún var léttvæg, léttúðug og smásmuguleg í stað þess að vera hástemmd, innantóm og leiðinleg eins og mikið af annarri heimspeki er. Heimspeki getur verið léleg með tvennu móti: Hún getur annaðhvort verið smásmuguleg eða hún getur verið húmbúkk. Málspekin sérhæfði sig í að vera léleg með því að vera smásmuguleg. Það er að minnsta kosti satt yfirleitt, og það er algerlega satt um Oxford afbrigðið sem gagnrýninni sem þú nefndir var sennilega beint gegn. Það ætti að koma fram að sumir sem skrifuðu í anda Wittgensteins hafa verið lélegir í hina áttina. Eins og segja mætti að Wittgenstein hafi leitað dýptar í heimspekinni en Austin hins vegar nákvæmni þá skiptust skrif lélegri fylgismanna þeirra annaðhvort í torrætt húmbúkk eða leiðinlega smásmygli. Nú jæja, verði heimspeki manns léleg þá er smásmyglin að sumu leyti virðingarverðari en húmbúkkið, einkum þegar heimspekingurinn verður að láta sér lynda að vera kennari í faginu. En að þessu frátöldu, sé farið út fyrir lélegu dæmin þá er ásökunin ekki rétt. Það sem er túlkað sem eitthvað léttúðugt: að hafa áhyggjur af hvað setningarnar merkja í raun og veru var nauðsynlegur og ómissandi hluti þeirrar tegundar sjálfskilnings hvað varðar tungumálið – láta það hljóma til að heyra nákvæmlega hvaða tón setningin myndar – sem við töluðum um hér á undan.

Magee Ég veit af fyrri rökræðum við þig að þú ert mjög andsnúinn hugmyndinni, svo vinsælli af því að hún er þægileg fyrir mann, sem kemur fram í orðum eins og þessum: „Hafðu ekki áhyggjur af því sem ég segi, það sem ég meina er það sem skiptir máli.“

Williams Það er rétt. Það var þetta sem málspeki af öllum gerðum var góð í að stoppa fólk í að segja og, það sem skiptir enn meira máli, stoppa það í að finnast. Þetta og sú hugmynd að einhvern veginn hafi ég merkinguna hérna – litla setningin mín mun reyna að tjá þér hana – en ef hún tjáir þér hana ekki þá er það vegna einhvers skorts á ímyndunarafli hjá þér. Við berum ábyrgð gagnvart orðum okkar vegna þess að við höfum ekki, að lokum, þessar merkingar bara innra með okkur, óháð því sem við höfum tilhneigingu til að segja. Setningarnar eru það sem við meinum.

Magee Þú hefur gert góð reikningsskil – hvað stendur eftir að lokum? Hver er arfurinn? Ég skal byrja og svara eigin spurningu með því að nefna eitt einfalt atriði: Arfurinn er mikill. Málspekin hefur haft áhrif á hvernig allir iðka heimspeki nú. En að því sögðu, hvað annað stendur eftir að lokum?

Williams Ja, ég held að atriðið sem við drápum á síðast, atriðið sem snertir ábyrgð okkar gagnvart því sem við segjum, standi eftir hjá okkur; einnig sú hugmynd að heimspekileg vandamál muni ekki endilega hafa það form sem hefðin gaf þeim – sú hugsun að það sem var kallað heimspekilegt vandamál er oft óróasvið sem verður að kanna með þeim næmleika sem málspekin hvatti til. Þetta er vissulega mjög jákvæð arfleifð. Þegar hún er tengd endurheimtum áhuga á kenningum sem heimspekin sýnir nú ljóslega, þá fær maður óvenjulega frjóa samsetningu. Það er þó nokkuð athyglisverð skammtíma söguleg staðreynd að, enda þótt heimspekin sé nú mjög frábrugðin því sem hún var jafnvel fyrir aldarfjórðungi, þá hefur í okkar hefð verið miklu minna um að hafna þessari leið til að iðka heimspeki en iðulega á sér stað við slíka breytingu.

Magee Sú hlið málspekiarfsins sem ég met mest er útvíkkun heimspekilegrar rannsóknar til nýrra efnissviða. Sú hugmynd að hægt sé að beita aðferðum málgreiningar við hugtök á öllum sviðum hefur leitt til þess að til hefur orðið það sem nánast má líta á sem nýjar greinar.

Williams Sú hugmynd að heimspekin fengist við að íhuga tungumálið og um leið að hún hefði ekkert sérstakt eigin viðfangsefni auðveldaði þessa framvindu. Sú staðreynd að hin ströngu mörk milli heimspeki og hinna eiginlegu vísinda hafa leyst upp að miklu leyti (þetta kom fram hér á undan) hefur nú enn frekar auðveldað hana. Málspekin stuðlaði vissulega að tilkomu þessara greina. En takmörkun þessarar heimspeki, umfram allt í Oxford-gerðinni sem var í almennari mæli umtalsverður annmarki, viss tegund bókstafshyggju, hafði samt neikvæð áhrif á hvernig þær voru stundaðar. Hún skildi ekki þá mikilvægu staðreynd að í sögu vísindanna – eða sögu heimspekinnar, ef hún er til umræðu – skipar bókstafleg nákvæmni venjulega annað sæti. Einhver hafði eitthvað nýtt að segja og vegna þess að það var ný innrás í heiminn gat varla hjá því farið að það væri óskýrt, af því að það hlaut nánast að passa illa við þá hugtakanotkun sem fyrir var. Nú, Austin neitaði þessu ekki alfarið. Hann sagði að það sem við yrðum að gera væri að útlista það allt, koma á það röð og reglu, og þá sæjum við hvar við værum stödd hver svo sem kenningin var. Þetta virðist mér núna, og ég held mér hafi virst það þá, vera ósönn mynd. Tökum til að mynda kenningu á borð við kenningu Freuds: Hún gerði nokkuð stóra innrás inn í hversdagsmál okkar. Við neyddumst til að segja hluti sem við sögðum ekki oft – gátum tæplega sagt – áður. Við urðum að segja að fólk tryði einhverju sem það vissi ekki að það tryði, að til væru ómeðvitaðar óskir og annað sem syndgaði að einhverju marki gegn mæltu máli. Mér virðist það nú alröng og ófrjó hugmynd að halda að það sem maður gerir sé að skoða hin málfarslegu tengsl, reyna að koma á þau röð og reglu og vega síðan og meta framlag Freuds. Sé framlag Freuds það sem talið er að það hafi verið þá mun það búa sér til eigið rými. Það er líkt og lifandi jurt sem breiðir úr sér – hún breytir lögun hlutanna í kringum sig. Hún býr sér til eigið rými. Málspekin vanmat í hve mikilvægum skilningi nýjar vísindalegar uppgötvanir búa sér til eigið hugtakarými – að þær, ef svo má að orði kveða, beinlínis rífa niður hluta af máli og hugsun í kringum sig með óvæntum hætti sem kann að virðast í fyrstu stjórnlaus, naumast skiljanlegur. Sú staðreynd að mikið af frjóustu hugsun okkar á einhverri tiltekinni stundu gæti varla annað en verið fálmkennd, lélega ígrunduð og óskýr, er mikilvæg hugmynd sem málspekin, að minnsta kosti í Oxford-gerðinni, hafði ekki nægilegt rúm fyrir.

Magee Það sem ég mundi vilja segja að lokum um málspekina er að hún heldur áfram að hafa, notuð sem aðferð, gífurlegt og varanlegt gildi, og að hún er einungis stórgölluð ef litið er á hana sem heildarhugmynd um heimspeki frekar en tæki. Það var reyndar tímabil á fimmta og sjötta áratugnum þegar margir heimspekingar töldu að heimspeki fælist í að gera þetta. Það var nú bara rangt. En að því tilskildu að henni sé haldið á sínum stað, sem hjálparaðferð, held ég að erfitt sé að gera of mikið úr gildi hennar.

Williams Já – svo framarlega sem fallist er á það mikilvæga atriði (ef ég má orða það þannig) að tækin sjálf og taskan sem þau koma í hafi tiltekið vitsmunalegt sköpulag sem þýðir að þau verði ekki notuð af hvaða heimspekilegum handverksmanni sem er. Sum tækjanna frá sjötta áratugnum getum við í rauninni ekki lengur notað vegna þess að hugmyndirnar sem mótuðu þau virðast nú ósannfærandi. Hins vegar verða öll tækin yfirleitt aðeins notuð af þeim sem fellst á mótandi hugmyndir þeirra – hugmyndir sem ég tel að hafi breytt á djúpstæðan hátt, og haldi áfram að breyta, hugmyndum okkar um heimspekina, tungumálið og hugann.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. John L. Austin (1911-60) var aðalmaður í hreyfingunni sem er þekkt undir heitunum málspeki, Oxford heimspeki eða heimspeki venjulegs máls. Helstu verk hans, gefin út að honum látnum, eru Sense and Sensibilia (1962) og How to Do Things with Words (1962).

2. Bernard Williams dó í júní 2003 á sjötugasta og fjórða aldursári. Þessari samræðu var sjónvarpað hjá BBC á útmánuðum 1978. – B. W. er talinn einn af merkustu og áhrifamestu breskum heimspekingum á seinni hluta 20. aldar. Af bókum hans skulu hér nefndar Descartes: The Project of Pure Enquiry (1978), Ethics and the Limits of Philosophy (1985), Making Sense of Humanity (1995) og síðasta bók hans Truth and Truthfulness (2002). – Þess má geta að Williams er viðmælandi Magees í samræðunni um Descartes í bókinni The Great Philosophers (1987) sem kom út á íslensku 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar.

3. Logical Positivism er venjulega þýtt rökfræðileg raunhyggja en þýðandi telur að ‘staðreyndahyggja’ nái betur merkingu þessa afbrigðis raunhyggjunnar (empiricism), því samkvæmt L. P. snýst öll merkingarbær orðræða, fyrir utan stærðfræði og rökfræði, um staðreyndir!

 

« Til baka