Færslusöfn

Hálfdan Einarsson

Hálfdan Einarsson (1732–1785), guðfræðingur, fræðimaður, rektor Hólaskóla.

Fæddur að Prestbakka á Síðu 1732, sonur Einars Hálfdanarsonar og Guðrúnar Sigurðardóttur. Eftir nám í Skálholtsskóla innritaðist hann í Hafnarháskóla 1750, lauk lárviðarprófi 1753 og guðfræðiprófi 1755. Var þá skipaður skólameistari á Hólum. Var sæmdur meistaranafnbót í heimspeki 1763. Gegndi biskupsstarfi 1779 til 1784. Lést 1785.

Hálfdan sinnti heimspekikennslu við Hólaskóla og kenndi m.a. rökfræði, siðfræði og verufræði eftir kennslubókum sem lærisveinar Wolffs höfðu samið.

Hann samdi einnig íslenska bókmenntasögu, Sciagraphia (1777).

« Til baka

Hannes Árnason

Hannes Árnason (1812–1879), prestur og heimspekingur, kennari við Prestaskólann í Reykjavík.

Fæddur 11. október 1812 að Belgsholti í Melasveit, Borgarfjarðarsýslu. Stúdent frá Bessastaðaskóla 1837 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1847. Settur kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann í Reykjavík 27. september 1848 og kenndi þar uns hann fékk lausn frá starfi, 26. september 1876. Lést þremur árum síðar, 1. desember 1879.

Hannes var fyrsti kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum á Íslandi. Fyrirlestra sína byggði hann að nokkru leyti á ritum kennara síns, F. C. Sibbern, prófessors í heimspeki við háskólann í Kaupmannahöfn.

Auk þess er hans minnst fyrir hinn rausnarlega styrktarsjóð sinn sem hann stofnaði 15. ágúst 1878. Sjóðurinn var veittur sjötta hvert ár og stóð undir framfærslu styrkþegans í fjóra vetur, þrjá vetur við nám erlendis en fjórða árið átti styrkþegi að flytja fyrirlestra um efni sitt í Reykjavík. Mörg merkustu heimspekirit íslensk á fyrri hluta 20. aldar voru upphaflega til komin sem Hannesar Árnasonar fyrirlestrar (t.d. Saga mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason, Hugur og heimur eftur Guðmund Finnbogason og Einlyndi og marglyndi eftir Sigurð Nordal). Sjóðurinn brann upp á tímum óðaverðbólgu.

« Til baka

Hannes Finnsson

Hannes Finsson (1739–1796), guðfræðingur, fræðimaður og biskup í Skálholti.

Fæddur í Reykholti 1739, sonur Finns Jónssonar, síðar Skálholtsbiskups og Guðríðar Gísladóttur, innritaðist 16 ára gamall í Hafnarháskóla, tók lárviðarpróf í heimspeki 1757, lokapróf í guðfræði 1763. Stóð til boða prófessorsstaða í stærðfræði við Hafnarháskóla, en vígðist að beiðni föður síns 1776 til kirkjuprests í Skálholti og 1777 til biskups, tók þó ekki við embættinu fyrr en 1785. Lést í Skálholti 1796.

Hannes var undir miklum áhrifum frá heimspeki upplýsingarinnar, einkum Wolffs, og kenndi ýmsar greinar heimspekinnar við Skálholtsskóla út frá kennslubókum sem lærisveinar Wolffs höfðu samið.

Nokkur önnur rit: Um mannfækkun af hallærumGaman og alvara.

« Til baka

Helgi Pjeturss

Helgi Pjeturss (1872-1949) náttúrufræðingur og heimspekingur.

Fæddur 31. mars í Reykjavík, sonur Péturs bæjargjaldkera Péturssonar og Önnu Sigríðar Vigfúsdóttur. Stúdent 1891, meistarapróf (cand. mag.) í náttúrusögu og landafræði við Hafnarháskóla 1897 og doktorspróf 1905 fyrir rit um jarðfræði Íslands. Sinnti jarðfræðirannsóknum en er nú einkum þekkur fyrir heimssfræði sína sem kennd er við rit hans Nýal og fjallar um samband draumalífs við líf á öðrum hnöttum. Heimsfræði hans, sem byggist að hluta til á þýskri, rómantískri heimspeki, hefur oft gengið undir heitinu „íslensk heimspeki“ meðal fylgismanna hans (nýalssinnar).

Helgi ritaði áhugaverða grein um íslenska heimspeki til forna og telur að hugsun Íslendinga kristallist í málsháttum („Íslenzk heimspeki“, Skírnir, 1908)

Nokkur önnur rit: Nýall. Nokkur íslenzk drög til heimsfræði og líffræði (1919-1920)

« Til baka