Heimspekinám í Princeton University

eftir Geir Þ. Þórarinsson

Heimspekideild Princeton háskóla er talin vera ein sú besta í heimi og skartar hún heimsfrægum heimspekingum á ýmsum sviðum. Eitt þeirra sérsviða þar sem Princeton skarar fram út er fornaldarheimspeki en Heimspekideildin og Klassíkurdeildin í Princeton bjóða sameiginlega upp á doktorsnám í fornaldarheimspeki. Og það vill svo til að Klassíkurdeild Princeton háskóla er einnig talin vera í fremstu röð. Hér er komin ástæða þess að ég sótti um í Princeton; ég hugði á nám í fornaldarheimspeki og leitaði eðlilega að besta staðnum til þess að nema þau fræði. Ég vildi líka stunda nám á stað þar sem ég gæti átt möguleika á að njóta þess besta úr báðum heimum, þar sem ég gæti fengið að sökkva mér ofan í nútímaheimspeki, grískar og latneskar bókmenntir og fornaldarsögu engu síður en í fornaldarheimspekina sem ég hugðist einbeita mér að. Þess vegna var sameiginleg námsleið á vegum Heimspeki- og Klassíkurdeildar kjörin fyrir mig.

Þegar kom svo að því að sækja um fóru að leita á mig efasemdir, því get ég ekki neitað. Ef ég myndi einungis sækja um í toppskólum væri alls óvíst að ég kæmist einhvers staðar inn. Átti ég erindi í þennan skóla? Væri það ef til vill hybris að ætla sér í bestu skólana? Ég komst þó að þeirri niðurstöðu að það væri einungis ein leið til að komast að raun um hvort ég ætti möguleika á að komast inn; sækja um. Og raunar sá ég í hendi mér að ég ætti meiri möguleika á að komast inn en að vinna í lottó. Ég tók mið af ráði Virgils – hamingjan brosir við hugdjörfum – og ég sótti því um á þeim stöðum sem taldir voru bestir. Þremur mánuðum síðar var komin upp allt önnur staða. Nú hafði ég fengið svör frá skólunum og varð ég að velja hvert ég vildi fara. Það reyndist mér mikill höfuðverkur en að lokum ákvað ég að fara til Princeton og hef ekki séð eftir því.

Þótt Heimspeki- og Klassíkurdeildin bjóði sameiginlega upp á doktorsnám í fornaldarheimspeki hér í Princeton eru nemendur þó eftir sem áður formlega skráðir annað hvort í Heimspekideild eða Klassíkurdeild. Skilyrðin sem nemendur þurfa að uppfylla eru ekki alveg þau sömu í báðum deildum. Í Heimspekideild þurfa nemendur að ljúka 10 einingum (units). Þetta geta þeir gert með ýmsu móti, t.d. með því að skrifa rannsóknarritgerð (hver ritgerð gefur eina einingu) eða með því að standast munnlegt próf (hvert próf gefur eina einingu). Gerðar eru kröfur um dreifingu eininga þannig að tiltekinn fjöldi þarf að vera í siðfræði, tiltekinn fjöldi í þekkingarfræði eða frumspeki og þar fram eftir götunum. Allir nemendur þurfa að ljúka að minnsta kosti einni einingu í rökfræði en nemendur ná sér yfirleitt í þá einingu með því að ljúka einhverju námskeiði eða málstofu í rökfræði. Að auki þurfa nemendur í fornaldarheimspeki að ljúka einhverjum einingum í nútímaheimspeki. Með þessu móti er nemendum gefið töluvert frelsi til þess að vinna sjálfstætt. Það hvílir ekki á þeim nein skylda að ljúka sem sitja námskeið en flestir gera það þó til þess að fræðast og fá andlega örvun.

Sjálfur er ég skráður í Klassíkurdeildina en þar eru kröfurnar ekki alveg þær sömu. Ég þarf að ljúka að minnsta kosti 12 námskeiðum eða málstofum á framhaldsstigi og skrifa að minnsta kosti sex rannsóknarritgerðir. Fimm námskeiðanna mega vera utan deildarinnar en þótt ekki hvíli á mér skylda til þess að ljúka námskeiðum í heimspeki annarri en fornaldarheimspeki er ég þó hvattur til þess, enda er, eins og áður sagði, markmiðið með sameiginlegri námsleið af þessu tagi það að gera nemendum kleift að njóta þess besta úr báðum deildum. Þetta þykir mér vera einn stærsti kosturinn við námið sem ég er í. Ég hef frelsi til þess að halda áfram að mennta mig bæði í heimspeki og fornfræði. Auk þessa eru svo ýmis próf sem þarf að standast, t.d. þýðingarpróf í grísku, latínu, þýsku og annað hvort frönsku eða ítölsku að ógleymdum hinum alræmdu generalsprófum sem eru yfirleitt þreytt á þriðja ári. Venjulegir fornfræðinemar þurfa að standast fjögur slík próf (í grískum og latneskum bókmenntum, sögu Grikklands og sögu Rómar) og er hvert þeirra í tveimur hlutum, skriflegum hluta og munnlegum. Ég slepp með tvö auk heimspekiprófsins (það er aðeins eitt próf í Heimspekideild).

Segja má að heimspekin sem hér er stunduð sé svonefnd rökgreiningarheimspeki (eða „analýtísk“ heimspeki), en þó er það rangnefni að vissu leyti. Rökgreiningarheimspeki byggði upphaflega á þeirri hugmynd að leysa mætti flest ef ekki öll heimspekileg vandamál með svokallaðri rökgreiningu eða hugtakagreiningu og heimspeki ætti að einskorðast við það. Þeir eru sennilega fáir sem eru þessarar skoðunar enn þá. Um miðja 20. öld víkkaði skilningur heimspekinga á því hvað rökgreiningarheimspeki væri. Nú var einnig farið að stunda svonefnda málgreiningu eða greiningu á venjulegu mæltu máli. En þetta er ekki heldur það sem rökgreiningarheimspekingar gera nú um mundir. Það er enginn sem einskorðar sig lengur við greiningu af neinu slíku tagi. Eftir sem áður má segja að heimspekin hér sé stunduð í anda rökgreiningarheimspekinnar, þar sem rík áhersla er lögð á röksemdafærslur, skýrleika og nákvæmni og að verulegu leyti á tungumálið – en það einskorðast alls ekki við analýtísku heimspekina svonefndu. Og raunar má segja að öll góð heimspeki sé analýtísk heimspeki í þessum skilningi; því heimspeki er jú öðru fremur rökræða, tungumálið er óneitanlega mikilvægt fyrir heimspekina bæði aðferðafræðilega og sem heimspekilegt viðfangsefni, og svo skipta skýrleiki og nákvæmni máli í heimspeki rétt eins og í öllu öðru fræðastarfi. En rökgreiningarheimspekingarnir voru margir hverjir áhugalitlir um sögu heimspekinnar og sumir vildu helst bara alls ekki fjalla um hana. Eins og frægt er fullyrti Quine „Philosophy of science is philosophy enough!“ Hann kenndi líka aldrei námskeið um sögu heimspekinnar nema einu sinni um Hume. Gamli kennarinn hans Quines, Rudolf Carnap, þverneitaði að kenna námskeið um Platon; hann vildi einungis kenna sannleikann. Þetta viðhorf var reyndar fjarri því að vera algilt, því menn eins og J.L. Austin og Gilbert Ryle höfðu þónokkurn áhuga á fornaldarheimspeki. En þess má geta að hér er fornaldarheimspekin einnig stunduð í anda rökgreiningarheimspekinnar (og það er reglan fremur en undantekningin a.m.k. í enskumælandi skólum). Það var Gregory Vlastos sem stofnaði fornaldarheimspekinámið hér upp úr miðri 20. öldinni en hann stuðlaði öðrum mönnum fremur að því að hleypa lífi í umræður um fornaldarheimspeki í hinum enskumælandi heimi. Vlastos hafði einmitt orðið fyrir miklum áhrifum frá rökgreiningarheimspekingum og nútímarökfræði og fjallaði um sín fræði í þeim anda.

Kennslan hér í skólanum er mjög góð. Hver einasti kennari er með allt sitt á hreinu. Maður skynjar undir eins að þetta er fólk sem veit um hvað það er að tala. En það eru gerðar til manns miklar kröfur og oft er farið ansi hratt yfir. Vinnuálagið er líka töluvert. Ef ég ætti að kvarta undan einhverju í þessu sambandi væri það helst lengdin á kennslustundum, þrír tímar í senn. Ég veit ekki betur en að rannsóknir sýni að nemendur haldi ekki einbeitingu í meira en 40 mínútur eða svo í fyrirlestrum. Samt er okkur haldið þarna inni að því er virðist endalaust lengi í einu og stundum líða tveir, jafnvel tveir og hálfur tími þar til kennarinn tekur eftir því að við eigum eftir að taka fimm mínútna kaffipásuna okkar. Og vinnuálagið er slíkt að síðasta klukkutímann er ég orðinn óþreygjufullur og vil komast heim eða á bókasafnið til að geta haldið áfram að lesa. Því mér er ætlað að lesa svo mikið að það er nánast engin leið að komast yfir allt efnið hvort sem er. Lífið er stutt en leslistinn langur!

En það er engin spurning um að það veitir manni andlega örvun að vera innan um stóran hóp af góðum nemendum sem eru allir á bólakafi í sömu fræðum og maður sjálfur. Samneyti nemenda og kennara er líka mikið og gott. Allir kennarar hér hafa svonefnda „open door policy“ sem þýðir að hvenær sem kennarinn er við á skrifstofunni er maður velkominn i heimsókn til að ræða um hvað svo sem manni liggur á hjarta, námið eða fræðin eða bara allt milli himins og jarðar. Einu sinni í viku er „coffee hour“ inni á Prentice library sem er bókasafn deildarinnar (okkar Soffíubúð) og þá er boðið upp á kaffi og kökur. Koma þá bæði kennarar og nemendur saman og fá sér kaffi og spjalla. Þá hafa kennarar svonefnt „party budget“ sem gerir þeim meðal annars kleift að bjóða nemendum í málstofum sínum út að borða þegar misserinu lýkur. Í fornaldarheimspeki höfum við líka leshóp þar sem framhaldsnemar og kennarar í fornaldarheimspeki úr báðum deildum koma saman einu sinni í viku og lesa og ræða einhvern texta yfir glasi af góðu víni (sem er að sjálfsögðu í boði skólans).

Sagt hefur verið um Háskóla Íslands að akkillesarhæll þess sé bókasafnið. Það má til sanns vegar færa að engan veginn er veitt nægum fjármunum til safnsins enda er það einungis um einn tíundi hluti að stærð miðað við venjulegt háskólabókasafn hér í Bandaríkjunum. Firestone library er aðalbókasafn Princeton háskóla og er það er meðal stærri háskólabókasafna í Bandaríkjunum. Ekki er hægt að kvarta undan bókakostinum. Hér eru allar bækur til sem mann gæti mögulega vantað. Og ef þær skyldu vera í láni er hægt að fá þær annað hvort í gegnum venjuleg millisafnalán eða gegnum „borrow direct“ sem er millisafnalánskerfi Ivy League skólanna (að Harvard undanskildum). Annars hafa fornfræðinemar þrjú lesherbergi á þriðju hæð Firestone og þar er bókakosturinn betri en á Landsbókasafni Íslands í þessum fræðum; þessar bækur eru einungis ætlaðar okkur og eru ekki til útláns. Ég verð raunar að játa að þegar ég kom fyrst inn á safnið var ég hálfpartinn hræddur um að týnast og rata ekki aftur út og svelta svo einhvers staðar á bakvið hillu með rykugum bókum (og raunar fæ ég enn þá þessa tilfinningu þegar ég þvælist eitthvert niður á aðra eða þriðju kjallarahæð þessa völundarhúss). Mér fannst safnið yfirþyrmandi stórt og flókið í fyrstu og ég saknaði hálfpartinn gömlu bókhlöðunnar og Dewey kerfisins sem ég var farinn að kunna utanað. En Dewey kerfið dugar einfaldlega ekki á svona stórum söfnum. Ég var hins vegar eldsnöggur að læra á bókasafnið og hef nú tekið ástfóstri við því. Það eina sem fer í taugarnar á mér er tvöfalt flokkunarkerfi safnsins. Hér áður fyrr var notast við Richardson kerfið (sem var hannað fyrir Princeton og er hvergi notað annars staðar), en nú eru allar bækur flokkaðar samkvæmt flokkunarkerfið Library of Congress; nema þær bækur sem voru upphaflega í Richardson kerfinu, þær eru vitaskuld enn þá flokkaðar samkvæmt því. Þetta tvöfalda flokkunarkerfi gerir safnið flóknara en það þarf að vera.

Gott bókasafn og góð rannsóknaraðstaða kostar mikið. Góðir kennarar eru líka dýrir (nema á Íslandi þar sem það viðhorf virðist ríkja að kennarar eigi helst að vera láglaunastétt) og sömuleiðis kostar mikið að viðhalda háu hlutfalli kennara miðað við fjölda nemenda. Gestafyrirlesarar, tíðar ráðstefnur, ráðstefnustyrkir, ferðastyrkir og námsstyrkir, íþróttaaðstaða og þar fram eftir götunum, allt krefst þetta mikilla fjármuna. Ef það er eitthvað sem þessi skóli á, þá er það peningur. Útgjöld skólans á einu ári nema tæplega 58 milljörðum króna. Það er meira en ellefu sinnum útgjöld HÍ og þó eru einungis um 6500 nemendur hér. Eignir skólans eru að minnsta kosti helmingi meiri en heildartekjur ríkissjóðs Íslands árið 2002.

En það þarf vissulega að huga að fleiru að en einungis aðstöðunni sem skólinn hefur upp á að bjóða. Andrúmsloftið á staðnum og staðsetning skólans skipta ekki síður máli fyrir vellíðan nemenda og þar með fyrir afköst þeirra og árangur. Og er þetta ekki síðan bara snobbað og íhaldsamt pakk sem rottar sig saman í þessa vellauðugu einkaskóla? Ég get ekki sagt að ég hafi beinlínis haldið það þótt ég verði að viðurkenna að ég hafi haft einhverjar óljósar fyrirfram myndaðar hugmyndir um fólkið og lífið hér í Princeton áður en ég kom hingað. Ég hafði heyrt brandara um skólann: Hversu marga Princeton nemendur þarf til að skipta um ljósaperu? Tvo, einn til að blanda martini og annan til að hringja á rafvirkjann. Það er styst frá því að segja að hugmyndir mínar reyndust allar rangar. Andrúmsloftið er mun frjálslyndara og þægilegra en ég hafði haldið. Staðsetning skólans er líka fremur góð. Bærinn Princeton er rólegur smábær í New Jersey fylki mitt á milli New York og Philadelphiu. Lestarferðin í stórborgina tekur um klukkustund. Þar má finna allt sem hugurinn girnist. En í Princeton er aftur á móti fátt sem truflar mann og bærinn er auk þess miklum mun öruggari staður en stórborgin. Þeir sem hyggja á framhaldsnám erlendis ættu að mínum dómi ekki síður að huga að þessu en öðru.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *