Af jarðlegum skilningi eftir Atla Harðarson

Ritdómur

eftir Jón Ólafsson

Atli Harðarson:

Af jarðlegum skilningi

Háskólaútgáfan, 2001. 180 bls.

Af jarðlegum skilningi er ekki stór bók, hana mætti jafnvel kalla kver, en þó setur höfundurinn sér ekki lítil markmið með henni. Hann ætlar sér ekki aðeins að útskýra hvað felst í veraldarhyggju um heiminn og mannlífið. Hann ætlar sér einnig að færa rök fyrir veraldarhyggju. Atli telur að við hljótum að aðhyllast veraldarhyggju ef við gerum okkur grein fyrir þýðingu uppgötvana í vísindum og heimspeki á undanförnum tveimur öldum. Margir hafa skrifað stærri bækur fyrir minni markmið og mörgum hefur tekist verr upp en Atla Harðarsyni.

Af jarðlegum skilningi er jafnvel meira en þetta. Hún er líka persónulegt „manifesto“ ef svo má að orði komast. Atli færir ekki bara rök fyrir ákveðinni heimspekilegri afstöðu. Hann trúir lesandanum líka fyrir því hvaða vandi vakti áhuga hans á heimspeki og hvernig undraheimur stýrifræði og sjálfsprottins skipulags varð til þess að hann heillaðist af heimspekilegum viðfangsefnum. Hvað er heillandi við þennan heim? Jú, hann er heillandi fyrir það hvað hann er hversdagslegur. Að þegar öllu er á botninn hvolft skulum við geta sótt skýringar á flóknum og að því er virðist óveraldlegum hlutum í einföld og hversdagsleg módel.

Þannig er boðskapur Atla á þessa leið: Veraldarhyggja, í bland við raunhyggju, er sú afstaða til hlutanna sem líklegust er til að skila okkur haldbærum niðurstöðum. Við eigum að halda okkur við hinn jarðlega skilning jafnvel þó að með honum gefum við möguleika á endanlegri fullvissu upp á bátinn. Ævintýri tilverunnar er ekki fólgið í að skilja eða höndla æðri veruleika heldur í því að sjá og skynja uppsprettur hinnar endalausu fjölbreytni heimsins sem við erum náttúrlegur hluti af.

Veraldarhyggja og saga heimspekinnar

Bókin skiptist í fjóra kafla og er fyrsti kaflinn eins konar inngangur en í lok hans gerir höfundur grein fyrir heildarhugsun verksins. Þó að þessi upphafsstíll henti þeim lesendum ágætlega sem eru kunnugir efninu og þurfa ekki hvatningu eða útskýringu til að renna sér í gegnum bókina er þessi skipan dálítið misráðin ef ætlunin er að vekja áhuga stærri hóps. Örstuttur formáli nægir engan veginn til útskýra hvað fyrir höfundinum vakir. Í rauninni er það því ekki fyrr en á blaðsíðu 30 sem lesandinn fær yfirsýn.

Fyrsti kaflinn fer að mestu í hugleiðingar um hvert heimspekingar sögunnar hafa sótt skýringar sínar á skipan hlutanna annarsvegar, hvernig sjálfsprottið skipulag og fáeinar einfaldar grunnsetningar geta verið skýring á flóknu atferli hinsvegar. Kaflinn er í heild læsilegur og fræðandi. Hinsvegar er ekki laust við að Atli leyfi sér alhæfingar sem stundum eru villandi. Það er til dæmis mikil einföldun á heimspekisögunni að halda því fram að veraldarhyggja hafi komið fram með gríska heimspekingnum Demokritosi en svo verið slegin af og ekki endurvakin á ný fyrr en með Galíleo, Gassendi „og fleiri afreksmönnum“1.

Það er líka einföldun að segja að Aristóteles og Platón hafi kennt að öll viturleg skipan „ætti sér guðdómlegar orsakir“2. Í fyrsta lagi er mikill munur á Aristótelesi og Platóni í þessum efnum. Aristóteles hafnaði frummyndakenningu Platóns sem er tilraun til að skýra efnisheiminn með samsvörun við frummyndir hlutanna handan rúms og tíma. Aristóteles var einmitt meiri veraldarhyggjumaður en Platón og þó að hann hafi ekki verið afdráttarlaus veraldarhyggjumaður í skilningi Atla þá orkar mjög tvímælis að slá heimspeki hans og Platóns saman með þeim hætti sem Atli gerir. Í öðru lagi er orðalagið, „guðdómlegar orsakir,“ hæpið. Þó að samkvæmt kenningu Platóns hljótum við að líta til æðri veruleika, handan rúms og tíma, til að skilja veruleika okkar hér og nú, þá vantar þá eingyðistrú í heimspeki hans sem blandar trú á Guð saman við þá heimspekilegu hugmynd að einhverskonar upphafs-orsakavaldur standi að baki framvindu efnisheimsins. Sá andlegi veruleiki sem Platón lýsir er mótaður af allt öðrum hugmyndaheimi en kristin heimspeki miðalda, jafnvel þó að þessi kristna heimspeki sæki að einhverju leyti til Platóns.

Þess vegna skyldu menn varast að alhæfa um heimspekisöguna alla fram á nýöld. Staðreyndin er sú að veraldarhyggja á djúpar rætur í vestrænni heimspeki. Atli gerir sig sekan um nokkra þröngsýni þegar hann heldur því fram að veraldarhyggja taki ekki að þróast fyrr en á nýöld. Þegar öllu er á botninn hvolft þarf veraldarhyggja ekki að vera um allt eða ekkert. Það er hægt að vera veraldarhyggjumaður um eitt en ekki annað alveg eins og hægt er að vera efahyggjumaður um sumt án þess að vera efahyggjumaður um allt.

Stærðfræði og eðlisfræði

Þróun stærðfræðinnar er viðfangsefni 2. kafla og þar tengir Atli skemmtilega saman yfirlit um uppgötvanir í stærðfræði og hugmyndir manna um heimspekilegar undirstöður stærðfræðinnar. Hér er Atli augljóslega í essinu sínu og vald hans á viðfangsefninu fer ekki á milli mála.

Það er vandaverk að skrifa yfirlit yfir þróun stærðfræðinnar þannig að aðgengilegt sé og læsilegt og þó að yfirlit Atla sé bæði greinargott og mátulega ítarlegt þá er framsetningin stundum í stífara lagi svo að minnir á kennslubókartexta frekar en texta ætluðum upplýstum almenningi. Nú getur vel verið að svona hafi Atli einmitt ætlað sér að hafa þetta og að markhópur hans sé fyrst og fremst þeir sem leggja stund á heimspeki í framhaldsskólum og í háskólum. Raunar grunar mann að svo kunni að vera því að Atli er sjálfur kennari í framhaldsskóla og hefur margoft kennt námskeið á háskólastigi. Engu að síður finnst þeim sem þetta skrifar kennslubókarstíllinn í þessum kafla vera galli á bókinni, það hefði verið gaman að sjá léttari og meira áhugavekjandi umfjöllun um þróun stærðfræðinnar og þýðingu einstakra uppgötvana langt út fyrir heim stærðfræðinnar.

Atli ber saman tvær miklar uppgötvanir, aðra í stærðfræði, hina í eðlisfræði og veltir fyrir sér áhrifum þeirra á heimspeki og hugsunarhátt í vísindum. Þetta eru annarsvegar sú uppgötvun að rúmfræði Evklíðs standist ekki í raun, hinsvegar afstæðiskenning Einsteins sem hratt eðlisfræði Newtons af stalli. Atli bendir á að afleiðingarnar hafi orðið ólíkar. Stærðfræðingar tóku þann kostinn að líta svo á að Evklíðsk rúmfræði væri að öllu leyti sönn um viðfangsefni sitt, en viðfangsefnið væri takmarkaðra heldur en álitið hefði verið um margra alda skeið. Eðlisfræðingar hefðu hinsvegar kyngt því að eðlisfræði Newtons væri röng, hún lýsti raunveruleikanum ekki rétt. Hún væri áfram nothæf, þrátt fyrir afstæðiskenninguna, þar sem villan kæmi ekki í ljós fyrr en farið væri að fást við aðrar stærðir en raunin væri um flest hversdagsleg viðfangsefni. Þessi munur er athyglisverður. Hversvegna gátu stærðfræðingar ekki gert það sama og eðlisfræðingarnir, sætt sig við að Evklíðsk rúmfræði er röng? Svar Atla er að rökhyggja stærðfræðinga á 19. öld ásamt löngun þeirra til að halda stærðfræðinni kirfilega aðgreindri frá raunvísindum hafi ráðið mestu um þetta3. Í lok kaflans verður hinsvegar ljóst hvaða leið Atli vill sjálfur fara. Hann telur að tengsl stærðfræðinnar við veruleikann sé lykilatriði. Stærðfræði sé tilkomin í glímu manna við ýmsan vanda og að sú hugmynd standist ekki að hægt sé að gera grein fyrir stærðfræðilegri þekkingu án tengsla við einhvern veruleika utan stærðfræðinnar. Stærðfræðin er á endanum leið til að kerfisbinda reynslu af áþreifanlegum hlutum4.

Kaflinn er því í heild meira en yfirlit yfir sögu stærðfræðinnar. Hann er einnig tilraun til að færa rök fyrir raunhyggja um stærðfræði. Það er umhugsunarefni hvort röksemdafærslan er nægilega skýr eða öflug. Undirrituðum finnst talsvert vanta á að svo sé. Atli rekur söguna vel og sýnir ágætlega fram á að raunhyggja er nú á dögum miklu alvarlegri kostur en hún var fyrir 100 árum þökk sé heimspekingum á borð við Quine. Hann leggur minni áherslu á rök, sem þarf ekki að vera galli, en eykur hinsvegar kennslubókarsvip bókarinnar.

Leikir og gildi

Leikjafræði hefur á síðustu áratugum verið stunduð með ágætum árangri við að nálgast vandamál á hinum ýmsu sviðum vísinda og fræða og ekki síst í hagfræði. Hún á víða við ef hófs er gætt í túlkunum en þriðji kafli bókarinnar er í og með tilraun til að beita leikjafræði á viðfangsefni siðfræðinnar. Atli útskýrir þróun og inntak leikjafræðinnar í skemmtilegu yfirliti um hana og upphafsmann hennar John von Neumann. Leikjafræði snýst í stuttu máli um það hvort hægt sé að beita skynsamlegri aðferð til að móta hernaðaráætlun eða leikfléttu. Hún er með öðrum orðum tilraun til að finna aðferð til að meta kosti út frá einföldu módeli þar sem útkoman ræðst meðal annars af aðgerðum mótaðila.

Vangaveltum um leikjafræði og beitingu hennar blandar Atli saman við útlistun á þróunarkenningu Darwins og siðfræði David Humes. Útúr þessu kemur sú siðfræðilega veraldarhyggja sem Atli heldur fram og segir í stuttu máli að það sé engin þörf á yfirnáttúrlegri uppsprettu siðferðisins til þess að hægt sé að tala af fullu viti um gildi og gildisdóma, færa rök fyrir siðferðilegri afstöðu og móta hana skynsamlega.

Atla tekst vel að gera grein fyrir afstöðu sinni, það er ekki fjarri lagi að hún minni á klassiskan pragmatisma, ekki síst sumt af því sem John Dewey skrifaði. Atli bendir á að leikjafræði ein og sér sé ekki líkleg til að leiða af sér skynsamlega hegðun þegar litið er til hagsmuna heildarinnar. Gera verði ráð fyrir því að mannleg hegðun mótist af fjölmörgum þáttum sem erfitt er að hemja innan módelsins. Atli sér mannlega breytni í grunninn í ljósi löngunar manna til að hámarka hag sinn annarsvegar, þarfar þeirra fyrir öryggi og hlýju hinsvegar. Leikreglurnar eru nauðsynleg forsenda samfélagsins, en leikreglur eru lítils virði ef ekki er farið eftir þeim og ekki er við því að búast nema samfélagið veiti þá festu og öryggi sem menn þarfnast5.

Atli hefur lag á að segja flókna sögu í ljósi einfaldra skýringa og það gerir þennan kafla bókarinnar sannfærandi. Hann gerir ágæta grein fyrir siðfræði David Humes og með hjálp þróunarkenningarinnar færir hann rök fyrir því að veraldarhyggja um siðferði sé mun álitlegri kostur heldur en kenningar sem leiða siðferðileg rök af algildum reglum. Þannig bendir Atli á að það er hægur vandi að sýna fram á hvernig hjálpsemi, fórnfýsi og aðrir þættir mannlegs siðferðis geta orðið til án þess að gert sé ráð fyrir að óeigingjörn breytni ráðist af skynsemislögmáli eða einhverri annarri reglu utan mannlegrar reynslu og tilfinninga. Hið raunverulega verkefni siðfræðinnar virðist Atli þannig álíta fólgið í því að sjá hvernig samspil tilfinninga og skynsemi getur af sér margvíslegar reglur mannlegrar breytni í samlífi og samskiptum. Þannig er vel hægt að rökstyðja siðadóma án þess að halda því fram að gildismat réttlætist af sjálfstæðri tilvist verðmæta. Ef siðferðileg afstaða virðist oft fjarri hagsmunum manna og hversdagslegum löngunum þeirra þá er skýringarinnar á því að leita í langri þróun menningarinnar sem hefur mótað mannkynið og skapað dygðir sem einu nafni má kalla reynsludygðir. Hagur samfélagsins liggur í því að menn hafi sem mesta ástæðu til að þróa og viðhalda skynsamlegum leikreglum. Siðferðið er samkvæmt þessu sjálfsprottið og best er hlúð að því með því að láta það njóta sín, með því að skapa það öryggi og frelsi sem gerir mönnum kleift að treysta því að það borgi sig að fara eftir leikreglunum.

Sú trú á framþróun í skjóli frjálslyndisskipulags og vísinda sem einkennir umfjöllun Atla gefur rökum hans ferskan blæ þó að vissulega megi með sanni segja að hér fari rök hins íhaldsama frjálshyggjumanns. En er greinargerð Atla fyrir undirstöðum siðlegrar breytni nægileg? Hugsanlegt væri að fallast á að svo sé ef maður er tilbúinn til að samþykkja það sem virðist vera forsenda Atla að sú lýðræðisskipan sem nú er að ryðja sér til rúms í heiminum sé farvegur „reynsludygða og formlegra réttinda“6. Um þetta má hafa ýmsar efasemdir. Vald og ofbeldi er oft falið á bakvið yfirbragð lýðréttinda og vísindin eru langt frá þeirri hreinskiptnu sannleiksleit sem Atli trúir á. Þó að menningin sé vaxin upp úr ríki náttúrunnnar og siðferði sé mögulegt án yfirnáttúrlegs löggjafa þá er staðreyndin engu að síður sú að menningin lýtur stjórn og valdi sem drefist ekki jafnt. Menningin einkennist einmitt af því að framfarir og þekking skapa vald. Þessvegna er erfitt að fallast á að siðfræði sem einblínir á sjálfstýrð kerfi, manneðli og veraldarhyggju um siðferðileg verðmæti sé fullnægjandi.

Hugsandi vélar

Í síðasta kafla bókarinnar fjallar Atli um tilraunir tuttugustu aldar heimspekinga og stærðfræðinga til að gera grein fyrir hugsun með reiknimódelum og er umfjöllun hans sem fyrr upplýsandi og skýr. Það sem vakir fyrir Atla er að því er virðist fyrst og fremst að sýna fram á að allar helstu uppgötvanir síðustu áratuga beini okkur í eina átt: Burt frá öllum bábiljum um yfirnáttulega gerð mannshugarins. Hann fjallar stuttlega um gervigreindarfræði og deilur um hvort tölvur geti hugsanlega líkt eftir mannshuganum eða hvort hugarstarf sé í grundvallaratriðum frábrugðið því sem gerist þegar tölvur framkvæma reikniaðgerðir. Þó að Atli gerir sér engar grillur um að tölvur muni taka mönnum fram um vitsmuni í nánustu framtíð þá hafnar hann þeirri skoðun að mannshugurinn hafi sérstöðu, eða að sjálfsveran sé eitthvert einkenni mannlegrar hugsunar. Sjálfsveran, eða hugmyndin um einskonar innri áhorfanda að öllu hugarstarfi, sem gefi mannshuganum einhverskonar einingu er að áliti Atla í besta falli gagnleg ímyndun. Því meir sem við rannsökum mannshugann, því flóknari samsetning ólíkra og mistengdra þátta kemur í ljós og því minni virðist eining hans vera í raun.

Þessi lokakafli er ofurlítið endasleppur en gerir þó sitt gagn. Hann leiðir til lykta það ferðalag sem sem Atli hefur boðið lesandanum á með sér. Sú ferð er fyllilega þess virði að hún sé farin; ég man ekki eftir að hafa lesið jafn greinargóða bók á íslensku um þau viðfangsefni heimspekinnar sem Atli beinir sjónum að. Af jarðlegum skilningi er vel skrifuð og skemmtileg bók sem tengir þróun vísinda ágætlega saman við mörg helstu vandamál heimspekinnar. Hún er mikill fengur fyrir þá sem vilja lesa sér til um þýðingu helstu vísindauppgötvana fyrir hugmyndir um mannlegt eðli og samfélag. Og hún er skrifuð af sannfæringu eindregins veraldarhyggjumanns sem þreytist ekki á að benda lesandanum á að nútímavísindi eru uppspretta ríks mannskilnings.

Jón Ólafsson

 

Tilvísanir

1. Bls. 26-27.

2. Bls. 26.

3. Bls. 49-50.

4. Bls. 73.

5. Bls. 126

6. Bls. 126.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *