Myndberar gegn myndbrjótum

eftir Einar Kvaran

Stefán Snævarr: Fra logos til mytos. Metaforer, mening og erkjennelse.(Sokrates 2003. 227 bls.)

Tengsl myndhverfinga og þekkingar eru megin viðfangsefni bókar Stefáns Snævarrs, Fra logos til mytos, sem kom út hjá Sókrates forlaginu í Kristiansand í fyrra. Stefán fjallar um eðli myndhverfinga, skilvitlega (kognitiv) virkni þeirra og merkingu, samhliða því að skoða helstu kenningar um efnið og setja fram eigin hugmyndir þar að lútandi. Stefán telur að svonefnd víxlverkunnarkenning (interaksjonisme) Max Blacks gegni lykilstöðu á þessu sviði og aðrir sem fjalli um efnið komist vart hjá að taka afstöðu til hennar (19). Stefán vinnur sjálfur út frá tveimur kenningum Blacks. Í fyrri hluta bókarinnar er fjallað um skilvitlegt hlutverk myndhverfinga en í þeim síðari er vísað til hugmynda Blacks um að virkni myndhverfinga svipi um margt til notkunar líkana í vísindakenningum.

Fyrsti kafli bókarinnar fjallar aðallega um gagnrýni Blacks á svonefnda samlíkingarkenningu um myndhverfingar. Í síðari hluta kaflans fjallar Stefán um víxlverkunarkenninguna og samlíkingarkenninguna útfrá mismunandi sjónarhornum. David Cooper, I.A. Richards, Arthur Danto, Eileen Cornell Way, Tamar Sovran, Sam Glucksberg, Eva Feder Kittay, Nelson Goodman, Jerrold Levinson og Andrew Ortony, eru meðal þeirra sem koma við sögu. Skáldlegt eðli myndhverfinga er viðfangefni annars kafla, þar sem fjallað er um hugmyndir Monroes Beardsleys og Pauls Ricœur. Stefán hafnar flestum hugmyndum Beardsleys. Hann er sammála mörgu hjá Ricœur en gagnrýnir hann þó fyrir óskýra framsetningu og skort á dæmum og skilgreiningum (67). Gagnrýni á hugmyndir Donalds Davidson og Johns Searle er meginviðfangsefni í kafla tileinkuðum svokölluðum myndbrjótum (ikonoklaster), en þeir telja að merking myndhverfinga sé ekki skilvitleg. Komið er við hjá Andrew Ortony, Þorsteini Gylfasyni, Mark Gaipa og Robert Scholes, Nelson Goodman, Michael Dummett, Evu Kittay Feder og Ray Gibbs í umfjöllun um þá kenningu Davidsons að merking myndhverfinga felist í bókstaflegri merkingu orðanna sem mynda þær (69–79). Searle fær meðal annars ávítur fyrir að gera of skörp skil milli merkingar þess sem talar (ytrers mening) og merkingar setninga og orða, og fyrir þá ályktun að myndhverfð merking einskorðist við fyrra atriðið (86). Stefán lýkur umfjöllun sinni um myndbrjótana með því að segja að þeir minni á and-módernista sem samþykki eingöngu raunsæ málverk sem „endurspegli“ raunveruleikann líkt og sönn fullyrðing endurspegli stöðu mála (92).

Stefán er hrifnari af svonefndum myndberum (ikonodulisme) (Í yfirliti á ensku fremst í bókinni segir Stefán að upprunaleg merking orðsins iconodulists sé slave of images (3). Myndþræll er því e.t.v. réttari þýðing en myndberi. Mér þótti hugtakið hinsvegar of gildishlaðið og því varð myndberinn fyrir valinu). Þeir eru andstæðingar myndbrjótanna og telja að myndhverfingar sýni eðli tungumálsins, það er að tungumálið sé í eðli sínu myndhverft. Meginviðfangsefni Stefáns eru hugmyndir Nietzsches og Derrida (Mary Hesse, Charles Taylor og Ernst Cassirer eru meðal þeirra sem einnig koma við sögu í kaflanum). Hann tekur reyndar fram að Derrida sé tæplega hreinræktaður myndberi þar sem hann afneiti því að tungumálið hafi eðli (111). Hugmynd Nietzsches um tengsl hugtaka, þar sem myndhverfing er upprunalegri en hugtakið, er rædd (99–104) og farið stuttlega í skoðanir Derrida á því hvernig aðstæður afmarka merkingu hverju sinni. Stefán er sammála myndberum um að vart sé hægt að greina á milli ólíkrar notkunar tungumálsins, svo sem ljóðrænnar málnotkunar, vísindalegs, heimspekilegs eða daglegs máls. Hinsvegar telur hann að myndberar, líkt og margir meginlandsheimspekingar, setji ekki hugmyndir sínar fram á nægilega skýran hátt (116–7).

Nálgun Lakoff-skólans er annars eðlis en áðurnefndra kenninga en þar er megináhersla lögð á að myndhverfingar séu í eðli sínu hugtök sem eigi rætur í reynslu fremur en tungumáli. Stefán kemur víða við í umfjöllun sinni um Lakoff og félaga, fjallar meðal annars um gagnrýni þeirra á víxlverkunarkenningu Blacks, mismunandi gerðir af myndhverfingarhugtökum, og áhrif myndhverfinga í siðferði og stjórnmálum (121– 6). Hann ræðir gagnrýni þeirra sem telja kenningar Lakoff-skólans gervivísindi, t.d. að þær séu óafsannanlegar, alhæft sé út frá einstökum tilvikum og að aðferðafræðin sé með þeim hætti að tilteknar forsendur leiði ekki alltaf til sömu niðurstaðna (131–7). Hann er sammála mörgum þessara gagnrýnisradda en telur samt að ýmislegt sé hægt að læra af Lakoff og félögum, svo sem að kenning Blacks sé ófullburða og að myndhverfingar sýni okkur eitt fyrirbæri í ljósi annars. Stefán segir ennfremur að Lakoff-skólinn hafi styrkt þá kenningu að myndhverfingar gegni nauðsynlegu hlutverki í hugsun og notkun tungumáls (144 –5).

Stefán setur síðan fram eigin kenningu um skilning á myndhverfingum. Grundvöllur hans er vitneskja um þekkingargildi þeirra, þ.e. að vita hvað þær tákna og hvernig (146). Í anda hugmynda Heideggers segir Stefán að myndhverfingar hafi svokölluð aletetisk (Stefán talar um að orðið „aletheia“ þýði avdekkethet á norsku eða Unverborgenkeit á þýsku, en strangt tiltekið þýðir orðið sannleikur á grísku. Afhjúpun er líklega nærri lagi sem íslensk þýðing) gildi sem séu annars eðlis en það sem einkennir empírískan sannleik (147). Hann telur að ýmis fyrirbæri sem ekki er hægt að útlista með orðum, t.d. myndir og myndræn framsetning, hafi einnig slík gildi. Í lok kaflans setur Stefán fram fyrri kenningu sína. Þar dregur hann fram sjö einkennisþætti myndhverfinga og ályktar að séu þeir allir til staðar sé um einskonar staðalmyndhverfingu að ræða (proto-typisk, 165). Í kjölfarið ræðir hann um eins konar réttarsal myndhverfinga (den metaforiske rettsalen) þar sem fyrrnefndur staðall er nýttur til að dæma um hvort tiltekin fyrirbæri uppfylli skilyrði myndhverfinga.

Næsta viðfang Stefáns er staða mynd- hverfinga gagnvart vísindum, sér í lagi náttúruvísindum. Stefán leitar aftur í kenningu Blacks um líkindi milli vísindalíkana og myndhverfinga. Í kjölfarið skoðar hann hugmynd Kjells S. Johannessen um þögla þekkingu, sem á margt sameiginlegt með myndum og myndhverfingum. Þögul þekking, þ.m.t. traustsþekking – fortrolighetskunnskap hefur tvær merkingar á norsku: Annarsvegar getur það þýtt að vera náinn einhverju eða einhverjum, hinsvegar að þekkja eitthvað vel eða vera vanur einhverju; ég held að traustsþekking sé ekki fjarri lagi sem þýðing á fortrolighetskunnskap, þ.e.kunnskap þýðir þekking eða kunnátta – felst í kunnáttu sem ekki er hægt að útskýra fyllilega með orðum eða staðhæfingum. Stefán leiðir líkur að því að skilningur á myndhverfingum felist í slíkri þekkingu (181–5).

Í lokakafla sýnir Stefán fram á að ljóðrænar myndhverfingar finnist ekki aðeins í kvæðum heldur einnig í prósa og að hægt sé að greina bókmenntir sem myndhverfingar (198–9. Eitt af dæmum Stefáns er Gamli maðurinn og hafið eftir Hemingway sem hugsanleg myndhverfingu fyrir „[…] baráttu mannsins við náttúruöflin eða baráttu aldraðs rithöfundar gegn ritstíflu (eða getuleysi).“ (199) Hann fer nánar ofan í hugmynd Johannessens um að tilfinningaleg þekking sé traustsþekking (201–3) og bætir við að skáldlegar myndhverfingar geti varpað ljósi á tilfinningar og þar af leiðandi á traustsþekkingu. Þetta er stutt með dæmum úr ritverkum Einars Más Guðmundssonar og Roberts Walsers (206–7). Í lokaorðum bókarinnar gerir Stefán stuttlega grein fyrir efnislegri framvindu hennar og setur fram síðari kenningu sína, nú um samband myndhverfinga og þekkingar, í ellefu liðum (217).

Af lestri bókarinnar má ráða að Stefán er víðlesinn og fjölfróður um myndhverfingar. Ég tel þó viðeigandi að rifja upp gagnrýni hans á Ricœur og myndbrjótana um skort á dæmum og óskýra framsetningu. Það skortir nefnilega dæmi sem sýna hvernig kenningar Stefáns virka en offramboð er af dæmum um kenningar annarra. Ójafnvægi milli meginþráða bókarinnar, þ.e. umfjöllunar um eðli og merkingu myndhverfinga, umfjöllunar um kenningar tengdar þeim og hugmynda Stefáns sjálfs, gerir það að verkum að framvinda textans og markmið verða óskýr. Ég tel því að Stefán hefði mátt leggja meiri áherslu á eigin hugmyndir en minni á samanburð og sjónarhorn annarra.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *