eftir Guðmund Heiðar Frímannsson
Ástríður Stefánsdóttir og Vilhjálmur Árnason: Sjálfræði og aldraðir. Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan 2004. 196 bls.
Sjálfræði er ein mikilvægustu gæði í lífi hvers og eins. Sjálfræði er ekki forn dyggð heldur hefur hún hlotið virðingarsess sinn í verkum heimspekinga nýaldar. Ef finna ætti upphafsmann þess að gera sjálfræði að mikilvægustu dyggð samtímans þá er sennileg réttast að benda á verk þýska heimspekingsins Immanuels Kants (1724–1804) en sjálfræði hafði bæði verið rætt meðal heimspekinga fyrr og það komu fleiri að þeirri þróun á átjándu öldinni að gera sjálfræði hátt undir höfði svo að á tuttugustu öldinni er sjálfræði næstum orðið dyggðin eina. Það þarf ekki að setja á neinn langan lestur til að skýra hvernig á þessu stendur. Samfélagsþróunin frá átjándu öldinni hefur verið á þann veg að frjáls markaður hefur sífellt styrkst og aukist og einstaklingshyggja hefur skotið dýpri rótum í samfélögum Evrópu og víðar. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að sjálfræði hefur orðið æ meira áberandi í orðræðu siðfræðinga.
Sjálfræði merkir að ráða sér sjálfur samkvæmt orðanna hljóðan á íslensku og alþjóðlega orðið autonomos merkir að setja sjálfum sér lög. Til að njóta sjálfræðis þarf að uppfylla tvö skilyrði. Annars vegar þá þarf hver einstaklingur að hafa hæfileika til að ráða sér sjálfur sem þýðir að hann verður að geta valið skynsamlega á milli kosta og framkvæmt val sitt. Hins vegar þá þarf hann að hafa möguleika sem hann getur valið á milli. Það fyrra þýðir að það þarf að vera fyrir hendi tiltekið ástand innra með hverjum einstaklingi til að hann fái notið sjálfræðis, hið síðara þýðir að það þarf að koma til ytra ástand, ástand í samfélagi, til að hann fái notið sjálfræðis. Samfélagsþróunin á Íslandi og í öðrum þróuðum löndum hefur mótast af þessu markmiði að hverjum og einum standi alltaf eða oftar en ekki fleiri kostir en einn í boði við flestar ákvarðanir sínar.
Um hið innra ástand gildir að það hefur kannski ekki mikið breyst síðustu tvær aldirnar en þó verður að segja að þekking hefur aukist sem er nauðsynleg til að gera sér grein fyrir ólíkum kostum. En margvíslegir innviðir persónanna hafa reynst flóknari og ráðast af flóknu samspili sálarlífs og umhverfis sem við skiljum sennilega ekki til fulls enn. Sumir vilja halda því fram að aukin einstaklingshyggja í þróuðum samfélögum grafi undan jafnvægi í sálarlífinu, valdi vansæld fjölda fólks, sé jafnvel hugsanleg skýring á sumum skafönkum nútímasamfélags á borð við fíkniefnaneyslu, drykkjuskap og ofbeldi. Mér virðast engin rök til að fallast á það, en það er ástæða til að taka eftir því samt að eðlilegt sálarlíf krefst þess ekki einvörðungu að við ráðum okkur sjálf heldur líka að við getum lifað háð öðrum. Á eðlilegri mannsævi þá eru upphafsárin, fyrstu fimmtán til tuttugu árin, þannig að við öðlumst ekki eðlilegan þroska nema vera háð öðrum manneskjum og á lokaskeiði ævinnar þá er hlutskipti okkar þannig að við hljótum að vera háð öðru fólki um margvíslega hluti til að geta lifað eðlilegu lífi. Síðan lenda flestir í því að veikjast meira eða minna alvarlega og þá hangir líf okkar á því að aðrir aðstoði okkur. Á þessum skeiðum ævinnar er hlutdeild annarra í okkar eigin lífi ríkari en ella, líf okkar gæti ekki gengið eðlilega nema vegna þessarar hlutdeildar annarra. Þetta eru mikilvægar staðreyndir í allri umræðu um sjálfræði.
Ástríður Stefánsdóttir og Vilhjálmur Árnason hafa gefið út bók um sjálfræði og aldraða. Í henni eru raktar niðurstöður úr nokkuð ítarlegri könnum sem gerð var á högum aldraðra og dregnar nokkrar ályktanir af henni en í upphafi gera höfundar grein fyrir siðferðilegum forsendum rannsóknarinnar og þeim lagalega bakgrunni sem málefni aldraðra byggja á. Bókin er vel upp byggð, skrifuð á skýru og einföldu máli, niðurstöður raktar vel og skipulega. Bókin er í heild markvert framlag til umræðu um stöðu og meðferð aldraðra. Hún getur þjónað bæði þeim sem vinna við aðhlynningu aldraðra og þeim sem móta stefnu í þessum málaflokki. Það er fyrirsjáanlegt nú þegar þessi bók kemur út að þessi málaflokkur mun verða æ viðameiri í heilbrigðis- og félagsþjónustu á Íslandi á næstu áratugum. Það ættu í reynd þegar að vera í framkvæmd viðamiklar rannsóknir á högum og aðstæðum aldraðra og á því hvernig best verður stuðlað að sem mestum lífsgæðum þeirra á komandi tíð, þó ekki væri af annarri ástæðu en þeirri að fleiri milljarðar króna á hverju ári munu í nánustu framtíð renna til þessa málaflokks. En því er ekki að heilsa. Þessi rannsókn er því afar tímabær og hefur vonandi áhrif til þess að auka rannsóknir í þessum málaflokki.
Bókin skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta rekur Vilhjálmur fræðilegar forsendur í siðfræði fyrir sjálfræði en meginforsendan er að manneskjurnar eru þeirrar gerðar að þær þurfa að geta mótað líf sitt sjálfar og þroskað með sér það viðhorf að þær eigi að gera það. Það eru hins vegar ýmis atriði í dæmigerðum aðstæðum aldraðra sem gera það að verkum að þetta getur reynst erfitt: hæfileikarnir dvína, sjúkdómarnir sækja að, aldraðir þurfa í æ ríkara mæli aðstoð við hversdagslega hluti á borð við að klæða sig, matast, fara í bað. Það sem einkum skapar erfiðar spurningar um hlutskipti og örlög aldraðra í nútímanum er sú staðreynd að velferðarsamfélagið hefur búið til stofnanir sem annast um aldraða.
Á síðustu áratugum hafa aldraðir í miklum mæli sótt inn á þessar stofnanir þegar þeir hafa haft til þess aldur. En stofnunum fylgja vandkvæði sem fyrst og fremst koma fram í því að þær draga úr vilja þeirra sem þar dvelja til að stjórna lífi sínu sjálfir, hvetja til þess að það sé eðlilegt að láta aðra sjá um ýmsa sjálfsagða hluti sem maður gæti séð um sjálfur. Það er ekki svo að þetta sé ásetningur neins heldur skapa aðstæðurnar allar þetta. Það er svo alveg sérstakur kapítuli að í mörgum löndum þá eru þessar stofnanir ekki starfi sínu vaxnar, sinna ekki sjálfsögðum hlutum, rýja gamalt fólk inn að skinninu og niðurlægja það. Það virðist sem betur fer ekki vera stór vandi í okkar kerfi heldur fremur sá sem skoðaður er í þessari rannsókn, að ekki er í nægilegum mæli hugað að því að gamalt fólk getur ráðið lífi sínu sjálft rétt eins og við hin.
Ástríður rekur þá löggjöf sem gildir um málefni aldraðra, hvernig hún hefur þróast og hverjir eru helstu veikleikar þess að hafa sérstaka löggjöf um einn aldurshóp. Þetta er mjög þarfur kafli í bókinni vegna þess að sú umgjörð sem löggjöfin mótar þessum málaflokki endurspeglast síðan í andrúmslofti stofnananna sjálfra eins og kemur fram í könnuninni. Sú gagnrýni sem Ástríður setur fram á löggjöfina virðist mér réttmæt en ég held samt sem áður að ekki sé ástæða til að vanmeta þörfina á löggjöf sem þessari til þess að draga fram mikilvægi þessa málaflokks. Aldraðir sem hópur hafa verið að breytast og úrræðin sem standa þeim til boða hafa líka breyst. Það er fyrirsjáanlegt að sú þróun haldi áfram.
Mér virðist könnunin prýðilega upp byggð og spurt um þá hluti sem varða alla og skipta máli fyrir langflesta. Höfundarnir draga fram þrjá hluti sem þeir telja mestu skipta í niðurstöðunum. Í fyrst lagi að vistmenn á elliheimilum hafi minna rými til daglegra athafna en á heimilum sínum. Í öðru lagi að vistmenn sætti sig við minna rými til athafna en á heimilum sínum. Í þriðja lagi að sú reynsla að elliheimili séu stofnanir hafi afdrifarík áhrif á mat fólks á sjálfræði. Þessi atriði eru öll þannig að þau styðjast við atriði sem koma fram í könnuninni. Ég held samt að það sé engin ástæða til að ætla að tillitsleysi um sjálfræði sé útbreitt á íslenskum vistheimilum fyrir aldraða. Af þessari könnun virðist mér fyrst og fremst ástæða til að álykta að þetta atriði eigi að vera til stöðugrar skoðunar á vistheimilum. Við skulum nefnilega ekki gleyma því að á venjulegu heimili þá getur hver og einn ekki látið eigin smekk ráða vali á öllum þeim hlutum sem máli skipta. Áferð venjulegs heimilis er ævinlega niðurstaða samkomulags þeirra sem þar búa. Þetta á líka við um vistheimili en eins og höfundar bókarinnar benda réttilega á þá væri það til verulegra bóta að vistmenn hefðu meiri áhrif á ýmsar ákvarðanir.
Það er ánægjulegt að íslenskir heimspekingar taki þátt í reynslurannsóknum með félagsvísindamönnum. Það er löngu kominn tími til þess að þeir efli samstarf sitt við félagsvísindamenn. Að þessu leyti sætir þessi bók líka tíðindum.