Er ekki tími til kominn að tengja?

Ólafur Páll Jónsson

Í lok greinarinnar „Það er allt á floti allstaðar“ rétti Skúli Sigurðsson mér ádrepuboðhlaupskeflið. Ég tek þá næsta sprett, og þótt ekki sé hlaupið í átt að settu marki þá ætlar Skúli mér að ræða um tvennt: „Í fyrsta lagi: Hvernig er unnt að túlka hugmyndina um hringrás og eilífa endurkomu mismunar? Er þetta frjó túlkun með tilliti til vísinda- og tækniþróunar 20. aldar? Í öðru lagi: Bandaríski heimspekingurinn Hilary Putnam hefur verið í nánu sambandi við stærðfræði og náttúruvísindi samtíðar sinnar. Hvernig ber að skilja þá staðreynd að hann hendir myndlíkingu Neuraths um skipasmíði úti á reginhafi á lofti? Er, þegar öllu er á botninn hvolft, gott að vera í sambandi þegar rætt er um heimspeki?“

Mismunandi endurkoma

Ég byrja á hugmyndinni um endurkomu mismunar sem þeir Davíð Kristinsson og Hjörleifur Finnson hafa nýlega gert að umræðuefni (Heimspeki verðandinnar). Nietzsche talar um eilífa endurkomu og túlkendur hans hafa löngum talað um eilífa endurkomu hins sama. Það sem kemur aftur er það sama og fór. Í fljótu bragði virðist þessi viðbót öldungis sjálfsögð. Ef það er ekki það sama sem kemur, þá getur ekki verið um endurkomu að ræða. Sömu sögu er að segja um endurtekningu. Ef það er ekki það sama sem sagt er, þá er ekki um endurtekningu að ræða. Eitt sinn var fréttamaður að reyna að fá Steingrím Hermannsson, sem þá var forsætisráðherra, til að endurtaka eitthvað sem hann kannaðist ekki við að hafa sagt. Eftir nokkurt þóf sagði Steingrímur: „Ég get ekki endurtekið nema það sem ég hef áður sagt.“ Og þar með var það mál útrætt.

En endurtekningin er ekki öll þar sem hún er séð. Mér hefur stundum verið boðið í mat vestur á Rekagranda. Sama sagan endurtekur sig alltaf: maturinn er hrein snilld. En endurtekningin er ekki fólgin í því að á borðum sé sami matur og var þar seinast, né heldur er samskonar matur á borðum. Eitt skiptið er marokkóskt lamb, annað skiptið kínverskt hlaðborð og enn annað skiptið er boðið til ósvikinnar ítalskrar kvöldmáltíðar. Það sem endurtekur sig er snilldin.

Í líffræði 20. aldar hefur hugmyndin um endurtekningu leikið stórt hlutverk. En hverskonar endurtekningu? Það sem endurtekur sig er að lífverurnar fjölga sér, bítast um brauðið og deyja. Það eru vissulega ekki sömu einstaklingarnir sem deyja aftur og aftur heldur sífellt nýir einstaklingar. En samt er eitthvað að endurtaka sig. Og í þessari sífelldu endurtekningu kynslóð fram af kynslóð finnum við líka endurkomu. Erfðavísar foreldranna ganga aftur í afkvæmunum. Það er í þessari endurtekningu, endurkomu og nýsköpun sem lykillinn að skýringamætti þróunarkenningarinnar liggur.

Árin 1887 til 1889 skrifaði Þorvaldur Thoroddsen (1855–1921) greinaflokk sem hann kallaði „Um uppruna dýrategunda og jurta“ (Um uppruna dýrategunda og jurta, „Inngangur“ og skýringar eftir Steindór J. Erlingsson, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998). Greinaflokkurinn var einskonar óður til Darwins og endursögn á Uppruna tegundanna. Á einum stað segir Þorvaldur:

Darwin sá, eins og allir, að eiginleikar dýranna ganga að erfðum, en breytast þó; afkvæmið er reyndar í öllu verulegu líkt foreldrunum, en er þó eigi alveg eins; það er eins og tilhneigingin til breytinga alltaf sé að togast á við erfðalögmálið. (bls. 140)

Árið 1910 hafði Þorvaldur hins vegar hafnað hugmyndum Darwins á þeirri forsendu að ekki væri hægt að gera grein fyrir þróun tegunda með einu saman „togi“ á milli tilhneigingarinnar til breytinga og erfðalögmálsins. Þorvaldur taldi að þróun tegundanna yrði að skýra með markhyggju; þróunin hlyti að stefna að einhverju en gæti ekki hafa orsakast af einum saman „aflfræðislögum“ (Um uppruna dýrategunda og jurta, „Inngangur“ bls. 63).

Nú trúa flestir því að þróun tegundanna sé knúin áfram af einum saman „aflfræðislögum“, en þó aðeins fyrir það að stundum eru slegin feilhögg. Erfðavísar ganga aftur, kynslóð eftir kynslóð, en þó með lítilsháttar frávikum. Það sem knýr gangverk þróunarinnar er endurtekin afritun, það sem ræður því að afraksturinn er ótrúlega fjölskrúðugt safn dýra og plantna er breytileikinn. Við gætum sem best kallað þetta endurkomu mismunar, eða endurkomu breytileikans. Að vísu er það ekki breytileikinn einn og sér sem ræður fjölskrúði lífríkisins, þar kemur líka til síbreytilegt umhverfi lífveranna, bæði dautt og lifandi, og geta þeirra til tvíkynja æxlunar.

Sífelld endurtekning og endurkoma gegna lykilhlutverki í líffræði nútímans. En skyldu þessi hugtök eiga eitthvað erindi í siðfræði? Ég ætla að láta litla dæmisögu duga sem viðbragð við þessari spurningu.

Munkarnir í klaustrinu

Í klaustri einu á miðöldum sitja munkar við daga langa og afrita bækur sem ganga síðan manna á milli. Til þess að menn hafi það lesefni sem þeir helst kjósa eru eftirsóttustu bækurnar afritaðar í fleiri eintökum en hinar sem njóta minni hylli. Í öðrum klaustrum er svipað uppi á teningnum. Og stundum berast bækur frá einu klaustri til annars þar sem nýir munkar taka til við að lesa þær og afrita. En munkarnir eru mannlegir og stundum verður þeim á: þeir missa úr staf, snúa við setningu og þegar þeir eru syfjaðir eða haldnir hugarangri yfir syndsamlegum hugsunum, þá hendir það jafnvel að röð setninganna riðlast eða setning úr annarri bók eða hugskoti afritarans slæðist inn í textann.

Eftir að munkarnir hafa setið við og afritað í lengri tíma en menn hafa skilning á þá gerist það eitt sinn sem oftar að nýr ábóti er settur yfir klaustrið. Þessi ábóti er bókhneigður og gerir gangskör að því að skrá og flokka bókasafnið. Og hvað kemur í ljós? Jú, guðfræðin er næsta fyrirferðarlítil samanborið við þann flokk sem hefur yfirskriftina „Glæpasögur“ og jafnvel hinn sem heitir „Blautlegur kveðskapur“. Fleiri flokka mætti nefna sem allir skáka guðfræðinni að stærð og eru þó fram úr hófi veraldlegir. Og nú er vitað að upphaflega voru bara til nokkrar bækur um guðfræði og það voru nákvæmlega þær bækur sem menn áttu að hafa verið að afrita allan tímann.

Það er augljóst mál, eða svo segir ábótinn að minnsta kosti, að hér er einhver sekur. Einhver hefur gerst sekur um þann hroðalega glæp að snúa útúr og afbaka guðfræðina þannig að úr er orðið hið versta safn veraldlegs skáldskapar. Fyrir svona háttalag verður refsað, bæði í þessum heimi og öðrum! Það er sett á fót nefnd til að rannsaka málið, því það er komið fram í nútímann þar sem allt er unnið í nefndum. En í ljós kemur að enginn hefur gert annað en að afrita það sem honum var sett fyrir. Sifjafræðileg rannsókn á bókakostinum leiðir í ljós að enginn er sekur um þær saknæmu bækur sem fylla hillurnar.

Í nútímanum er stundum talað um glæpi sem hafa engin fórnarlömb. Vændi er stundum nefnt sem dæmi um slíkan glæp. Ég held að það séu ekki til neinir glæpir án fórnarlamba, og sannarlega er ekki erfitt að finna fórnarlömb vændis. Hins vegar höfum við dæmi um glæpi án geranda í dæmisögunni af munkunum. Munkarnir eru ekki sekir um að hafa afbakað það sem fyrir þeim lá að afrita. Þeir eru í mesta lagi sekir um lítilsháttar ónákvæmni. Ef yfirleitt er hægt að tala um geranda í þessu tilviki, sem er valdur að þeim vítaverða bókakosti sem til er í klaustrinu, þá er það sjálft afritunarferlið, og þar með talinn bókasmekkur munkanna, sem ræður því hvaða bækur eru eftirsóttar. En jafnvel þótt við tökum okkur það bessaleyfi að segja að afritunarferlið sé gerandi í þessum glæp, þá er ekki með nokkru móti hægt að segja að gerandinn sé sakhæfur. Ferlið getur ekki borið ábyrgð á því sem af því hlýst.

Skipasmíði á reginhafi

Árið 1932 lýsti Ottó Neurath (1882–1945) hlutskipti vísindamanna með eftirfarandi líkingu:

Við erum eins og sjófarendur sem verða að endurbyggja skip sitt á reginhafi án þess að eiga þess nokkurn kost að færa það í slipp og hluta í sundur og byggja að nýju úr bestu viðum.

Þessi líking hefur orðið lífseig í heimspeki 20. aldar. Bandaríski heimspekingurinn Willard Quine (1908–2000) gerði hana að einkunnarorðum bókarinnar Word and Object, sem er hans höfuðrit og ein af áhrifamestu bókum í rökgreiningarheimspeki 20. aldar. Um sína daga, sem voru bæði margir og verkadrjúgir, endurskoðaði Quine margt af því sem hann sagði í Word and Object, en eftir stóð þó ákveðinn kjarni. Þessi kjarni var þríþættur. Í fyrsta lagi raunhyggja, sem hann hafði m.a. þegið í arf frá kennara sínum, Rudolf Carnap, í öðru lagi atferlishyggja um merkingu, sem hann sótti m.a. til bandarísku pragmatistanna, og í þriðja lagi sú sannfæring hans að mannleg þekking væri reist á fljótandi undirstöðum.

Hilary Putnam (1926–), sem var nemandi Quines og síðar samstarfsmaður á Harvard háskóla, ávaxtaði þessa líkingu. Hjá honum er skipið orðið að flota og sjófarendurnir eiga það til að stikla frá einu skipi til annars, fá hluti að láni og kasta öðrum fyrir borð. Sum skipin í flotanum hafa verið yfirgefin, önnur njóta tímabundinna vinsælda. Þetta er ruglingslegur heimur, fullur af tilviljunum og sérkennilegum atburðum, en áfram siglum við; ekki öll í sama báti, ekki öll á sömu leið og þó er aldrei að vita hvenær leiðir okkar liggja saman eða hvenær við getum þegið hjálp hvert frá öðru.

Líking Neuraths er í hróplegu ósamræmi við þá hugsjón sem sumir samverkamenn hans í Vínarhringnum og forsprakkar rökfræðilegrar raunhyggju, t.d. Alfred Ayer (1910–1989) og Rudolf Carnap (1891–1970), höfðu um traustar undirstöður vísindanna. Viðbót Putnams gengur í berhögg við þá hugsjón um einingu vísindanna, sem Ayer og Carnap og ýmsir aðrir rökpósitífistar, eins og Skúli Sigurðsson kallar þá, deildu um tíma. Putnam gerir sér engar grillur um einingu vísindanna: menn sigla á ólíkum skipum, stundum næsta einangraðir hver frá öðrum, en þó er aldrei að vita hvenær ólíkar vísindagreinar snertast. Það er aldrei að vita hvaðan gott kemur.

Hafsjór af lofti

Á öndverðri 17. öld setti ítalski vísindamaðurinn Evangelista Torricelli (1608–1647) fram þá tilgátu að jörðin væri umlukin hafsjó af lofti. Ýmsum þótti þetta vægast sagt fráleit hugmynd, aðrir voru tilbúnir að taka hana alvarlega, t.d. Blaise Pascal (1623–1662) og Robert Boyle (1627–1691). Á einum stað lýsir Boyle tilraun sem hann gerði stundum:

Ég hef stundum gert þesskonar: ég hef tekið mjóa glerpípu, nálega fjögurra feta langa, og með annað opið á henni ofan íláti fullu af kvikasilfri hef ég sogað í upp um hinn endann eins kröftuglega og ég hef getað, og látið annan mann fylgjast með kvikasilfrinu rísa og merkja við þar sem það stendur hæst, og mér hefur lærst að ég geti ekki með einu sogi lyft kvikasilfrinu mikið hærra en eitt fet. Og ég hef fengið tvo sterka menn til að soga á sama hátt, hvorn á eftir öðrum, og komist að því að hvorugur gat lyft kvikasilfrinu mikið hærra. (Selected Philosophical Papers of Robert Boyle, M.A. Stewart ritstj., Hackett Publisihing Company 1991, bls. 158)

Litlu síðar bætir Boyle við:

En sé sá sami endi á glerpípunni settu í ílát fullt af vatni, gat ég með einu sogi lyft vatninu um lóðrétta pípuna upp í munn … (sama rit, bls. 158)

Hér er fleira athyglivert en það hvað Boyle fer frjálslega með kvikasilfrið (hann skrifar þetta í kringum 1663–1664, en lést ekki fyrr en tæpum 30 árum síðar).

Á öndverðri 17. öld var vel þekkt að sogdælur dugðu ekki til að lyfta vatni hærra en 32 metra. Þetta var vísindamönnum þess tíma nokkur ráðgáta. Það var líka vel þekkt að setti maður vatn í lítið rör, lokaði fyrir annan endann með fingri en setti hinn á kaf í vatn, mátti finna hvernig fingurgómurinn togaðist inn í rörið. Hvers vegna er auðveldara að lyfta vatni en kvikasilfri með sogi? Og hvernig stendur á því að sogdælunum eru þessi takmörk sett? Hvað togar í fingurgóminn?

Hér kemur líking Torricellis um að jörðin sé umlukin hafsjó af lofti til sögunnar. Þetta er skáldleg líking, en hún átti líka eftir að vera frjó í vísindastarfi 17. aldar. Með því að taka líkingu Torricellis bókstaflega blasti við að ýmis lögmál og skýringalíkön úr vökvastöðufræði (e. hydrostatics), sem var vel þróuð fræðigrein á þessum árum, mátti nota til að skýra eiginleika lofts. Það var til dæmis augljóst hvernig mætti skýra það að fingurgómurinn togaðist inn í hálffullt rörið. Áður höfðu menn haldið því fram að það myndaðist ósýnilegur þráður úr vatnssúlunni og upp í fingurgóminn. Þráðinn kölluðu menn fúníkúlus. Það var þessi fúníkúlus sem átti að halda vatnssúlunni uppi og þá var ekki nema von að hann togaði fingurgóminn inn í rörið. En í anda líkingar Torricellis blasti við að skýra þetta fyrirbæri einfaldlega með því að það myndaðist undirþrýstingur í lokuðu rörinu miðað við andrúmsloftið fyrir utan, og þar sem andrúmsloftið þrýsti á alla kanta fingursins væri meiri þrýstingur inni í fingrinum en inni í rörinu. Og þess vegna þrýstist fingurinn inn í rörið.

Lögmál og skýringalíkön einnar fræðigreinar verða til þess að valda byltingu í annarri fræðigrein vegna þess að einhverjum dettur í hug snjöll líking. Það er engin furða að Aristóteles skuli hafa sagt að líkingar beri vott um snilligáfu.

Keðja, tré og flökkujurt

Í bók Darwins Um uppruna tegundanna (1859) er ein líking öðrum mikilvægari. Þetta er líkingin um tré lífsins sem leysti af hólmi líkinguna um keðju lífsins. Líking Darwins var byltingarkennd og gaf tilefni til að líta á gjörvallt safn lífveranna nýjum augum. Nú gátu menn spurt nýrra spurninga og jafnvel svarað sumum: Hvers vegna eru ólíkar lífverur samt svo líkar að mörgu leyti? Jú, vegna þess að þær eiga sameiginlegan forföður og formóður. Öðrum spurningum var erfiðara að svara: Hvernig var upphafið? Hvernig verða nýjar tegundir til, þ.e. hvers vegna verður tréð sífellt greinóttara eftir því sem ofar dregur?

Þorvaldur Thoroddsen, sem var um tíma einlægur fylgismaður hugmynda Darwins, snéri að lokum baki við þeim eins og áður er getið. Þorvaldur snéri þó ekki baki við líkingunni um tré lífsins. Hann taldi hins vegar að til þess að svara ýmsum þeim spurningum, sem hin nýja sýn á lífríkið gaf tilefni til að spyrja, þyrfti fleiri verkfæri en þau sem fundust í smiðjukofa Darwins. En það var ekki fyrr en hann hafði meðtekið hugmyndir Darwins að hann gat spurt þeirra spurninga sem leiddu til þess að hann snéri baki við þessum sömu hugmyndum. Við gætum kannski notað líkingu, sem Wittgenstein fékk lánaða hjá Schopenhauer og gerði fræga, og sagt að Þorvaldur hafi notað hugmyndir Darwins sem stiga sem hann sparkaði síðan um koll eftir að hafa klifrað upp hann.

Líffræði tekur stundum á sig fremur einfalda mynd. Í mendelskri erfðafræði er allt fremur skipulegt, hugmynd Darwins um uppruna tegundanna er svo einföld að hana má kenna barnaskólum, og loks höfum við fallegar myndir af því hvernig erfðaefnið er geymt í löngum tvöföldum sjálfafritandi DNA keðjum sem opnast og lokast eins og rennilás. Allt er þetta gott og blessað, nema hvað að það eru mjög fáir, ef einhverjir, sýnilegir eiginleikar sem erfast samkvæmt lögmálum Mendels, þróunarkenning Darwins er eiginlega ekki kenning og DNA afritast ekki af sjálfu sér og ekki sérlega nákvæmlega nema vegna margvíslegra viðgerðaferla sem koma við sögu. Þótt tré lífsins hafi leyst af hólmi keðju lífsins og gert mönnum kleift að spyrja nýrra og frjórra spurninga, þá hafa menn áttað sig á því að tré lífsins er ekki sérlega skipulega vaxið tré. Það er kannski kominn tími til að leggja tréð til hliðar og taka flökkujurtina í fóstur. (Sbr. „Rísóm“eftir Gilles Deleuze og Félix Guattari í Heimspeki verðandinnar). Lífið er flökkujurtarlegt, eins og dæmin sanna.

En það er ekki nóg með að lífið sé flökkujurtarlegt í eðli sínu. Líffræðin er það líka. Á fyrri hluta 20. aldar voru erfðafræði og lífefnafræði þegar orðnar mikilsverðar greinar innan líffræði. En þessar greinar voru aðskildar. Erfðafræðingarnir kunnu litla lífefnafræði og lífefnafræðingarnir kunnu litla erfðafræði. Í dag er óhugsandi að leggja stund á erfðafræði án þess að leggja einnig stund á lífefnafræði. Og ætli maður að leggja stund á þróunarfræði, verður að kunna skil á erfðafræði, en líka tölfræði og hagfræði. Hér sjáum við fyrir okkur flotann sem Putnam var að tala um. Líffræðingarnir, sem voru á rólegri siglingu á fyrri hluta 20. aldar hafa orðið að verða sér úti um tæki og tól frá öðrum skipum í flotanum til að endurbyggja sín eigin skip. Til að komast áfram er eins gott að vera flökkujurtarlegur í hugsun og háttum. Það er aldrei að vita hvaðan gott kemur.

Er ekki tími tilkominn að tengja?

„Er, þegar öllu er á botninn hvolft, gott að vera í sambandi þegar rætt er um heimspeki?“ spyr Skúli Sigurðsson og á þá við hvort gott sé að vera í sambandi við vísindi samtímans þegar menn leggja stund á heimspeki. Hið einfalda svar við þessari spurningu er „Já“. Allt frá tímum Grikkja hafa vísindin, öðrum þræði að minnsta kosti, verið viðleitni til að skilja veröldina í kringum okkur. Aflvaki forngrískra vísinda voru „Hvers vegna?“ spurningar. Heimspekinni er svipað farið. Með tækjum sínum komust Boyle og Robert Hooke (1635–1703) að þeirri niðurstöðu að loftið hefði fjaðurmagn. En hvers vegna hefur loftið fjaðurmagn? Myndast tómarúm? En hvað er tómarúm? Á 17. öld voru menn enn mjög tvístígandi yfir því hvort hugtakið um tómarúm væri yfirleitt sjálfu sér samkvæmt. Ef það er til tómarúm, þýðir það að það er til eitthvað sem er ekki neitt. Ef við samþykkjum þetta, erum við þá fallin í gryfju Parmenídesar um að játa tilvist þess sem ekki er til? Hér koma vísindin að takmörkuðum notum. Í dag hefur enginn áhyggjur af tómarúmi, en hins vegar er skammtafræði full af gátum sem ekki verða leystar nema með heimspekilegri hugsun. Og raunar er vart hægt að finna þá vísindagrein sem ekki veltir upp vandamálum sem eru heimspekileg frekar en vísindaleg. Vísindamaðurinn þarf því að vera í sambandi við heimspekina.

En þarf heimspekingurinn að vera í sambandi við vísindin? Heimspekileg kenning er tilraun til að svara spurningu eða leysa ákveðið vandamál. Þessi vandamál eru ekki endilega vísindaleg heldur tilheyra þau okkar hversdagslega lífi. Og heimspekingur getur vel unnið áhugavert ævistarf án þess að huga að vísindum samtímans. En að því leyti sem vísindin eru viðleitni til að nema áður óþekkt lönd – skilja það sem áður virtist óskiljanlegt – þá hafa þau ævinlega verið uppspretta heimspekilegra vandamála.

Það er því ljóst að það er gott að vera í sambandi – „það er tími tilkominn að tengja“ eins og Skriðjöklarnir sögðu. En hverskonar samband á þetta að vera? Það er eftirtektarvert að hlutur vísindanna er með allt öðrum hætti hjá Wittgenstein, og ýmsum af hans sporgöngumönnum, en t.d. hjá Quine og Putnam. Og þó myndu ýmsir segja að Wittgenstein og Quine væru sammála um öll aðalatriði. Í Word and Object sést berlega hversu mjög Quine vill taka mið af aðferðum vísindanna í tilraunum sínum til að svara heimspekilegum spurningum. Dæmi um þetta er að Quine leitast við að svara spurningunni um hvað merking sé með því að ímynda sér málvísindamann sem reynir að setja saman þýðingarhandbók fyrir framandi tungumál. Hjá Wittgenstein ber hins vegar lítið á vísindalegri nálgun þar sem áherslan er á tilgátur og athugunargögn, heldur tekst hann á hendur að lýsa margvíslegum tungumálaleikjum (language games).

En þótt vísindin og heimspekin séu starfsystur, þá er ekki ljóst hver verkaskiptingin er eða hvað hvor um sig á að gera. Mig langar því að afhenda Garðari Ágústi Árnasyni keflið og biðja hann að bregðast við eftirfarandi spurningum: Hvað er heimspekileg þekking? Að hvaða leyti er heimspekileg þekking ólík vísindalegri þekkingu? Þurfa heimspekingar að taka mið af vísindalegum aðferðum þegar þeir reyna að leysa heimspekileg vandamál?

7. ágúst 2003

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *