eftir Geir Sigurðsson
Á liðnum áratugum hafa framtíðarhorfur veraldarskipulagsins verið á hverfanda hveli. Tvípóla átök kommúnisma og kapítalisma liðu að mestu undir lok með falli járntjaldsins og við tók svokölluð hnattvæðing undir merkjum hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar þar sem Bandaríkin hafa verið í forystuhlutverki. Almennt var búist við því að þetta „nýja veraldarskipulag“ myndi standast tímans tönn og væri komið til að vera. En á meðal ófyrirséðra afleiðinga hnattvæðingarinnar var hraður efnahagsuppgangur í Kína og á Indlandi og ljóst varð að þessi lönd myndu sporna gegn yfirráðum Bandaríkjanna og evrópskra bandamanna þeirra í heiminum. Viðvarandi hrun fjármálamarkaða á Vesturlöndum sem hófst fyrir skemmstu hefur nú enn aukið líkurnar á því að á 21. öldinni muni þungamiðja efnahagslegra og pólitískra valda færast til Asíu í auknum mæli. Þessi vestræna uppfinning, hnattvæðing fjármálamarkaðanna, virðist því koma Vesturveldunum sjálfum í koll þegar öllu er á botninn hvolft. Samtímis hefur Asíu vaxið mjög fiskur um hrygg og því mætti segja að nú sé að fæðast enn eitt veraldarskipulagið þar sem vestræn gildi og viðhorf, sem ráðið hafa ríkjum í heiminum á undangenginni öld, hljóta að láta nokkuð undan síga gagnvart fjölmenningarlegri sjónarmiðum.
Þótt fræðileg heimspeki sé óneitanlega treg til að fylgja eftir samtímahræringum á borð við þessar er óhjákvæmilegt að þær finni sér jafnframt leið inn í hana. Marx gamli hafði án efa rétt fyrir sér er hann hélt því fram að yfirbyggingin endurspegli efnahags- og valdaafstæður, því vestræn heimspeki hefur óneitanlega verið í oddaaðstöðu í akademískri heimspekiástundun háskóla um allan heim á meðan efnahagsleg og pólitísk yfirráð Vesturveldanna í heiminum hafa verið ótvíræð. En nú eru breytingar í vændum sem háskólaheimspekin getur ekki leitt hjá sér – enda þótt hún vildi kannski helst stinga höfðinu í sandinn.
Þema Hugar á þessu tuttugasta afmælisári tímaritsins er kínversk heimspeki og endurspeglar það þá þörf að innleiða nýjar menningarlegar áherslur í heimspekina. Allt frá uppruna sínum í Grikklandi hinu forna hefur vestræn heimspeki skilið sjálfa sig sem sannleiksleit en vera má að hún hafi tekið of stórt upp í sig og að betur sé við hæfi að skilja hana sem dýpstu tjáningu menningarlegs sjálfs- og heimsskilnings. Fjölmargir vestrænir heimspekingar hafa einmitt beitt heimspekinni og greint hana með það að markmiði að öðlast betri skilning á þeim forsendum sem hafa alið af sér þá tilteknu og engan veginn óhjákvæmilegu tegund hugsunar um líf og umhverfi mannsins er hefur einkennt og mótað vestræna menningu. Kínversk heimspeki, sem varð til og mótaðist í nokkurri einangrun frá öðrum menningarstraumum, hefur aldrei lagt áherslu á eiginlega sannleiksleit, heldur ávallt gengist við menningarlegum sérkennum sínum. Hún býður því upp á áhugaverða og annars konar nálgun á jafnt náttúru sem mannheim, nálgun sem ber að taka alvarlega og mun vafalaust leika sífellt stærra hlutverk í heimspekiástundun um allan heim á komandi árum.
Seint á árinu 2007 átti ritstjóri því láni að fagna að hitta að máli hinn mikilsvirta samanburðarheimspeking og konfúsíska umbótahugsuð, Henry Rosemont Jr., er hann dvaldi á Íslandi við kennslu og fyrirlestrahald og ræða við hann um þróun og áhrif konfúsíusarhyggju í samtímanum. Afraksturinn birtist í þessu hefti Hugar. Rosemont telur að konfúsíusarhyggja setji fram hugmyndir um uppbyggingu, viðhald og þróun samfélagslífs sem taki þeim hugmyndum fram er verið hafa ráðandi í vestrænni siðfræði og samfélagsheimspeki á undanförnum áratugum. Hann gagnrýnir harðlega þá tilhneigingu vestrænna heimspekinga að sniðganga asíska hugmyndastrauma og segir nauðsynlegt að læra ekki einungis um þá heldur einnig af þeim til að unnt sé að koma sér niður á ásættanlegt veraldarskipulag í samtímanum.
Í svipaðan streng tekur náinn samstarfsmaður Rosemonts, Roger T. Ames, í grein sinni „Heimhvörf hnattvæðingar og uppstreymi menninga“ sem hér birtist. Ames lítur svo á að hnattvæðingu eigi ekki að skilja hefðbundnum skilningi sem nútímavæðingu að hætti hins vestræna nútíma, heldur megi skilja hana öðrum og heimspekilegri skilningi sem nýtt tækifæri til að opna sig gagnvart framandi menningarlegum sjónarmiðum er áður hafa verið lítt aðgengileg. Þessi framvinda hefur jafnframt í för með sér aukna áherslu á staðbundna hugsun og sér Ames dæmi um þetta í mikilli endurvakningu pragmatismans ameríska. Hann sér um leið fyrir sér að einokun evrópskrar hugsunar innan heimspekinnar hljóti að vera á enda runnin og að raunveruleg samræða á milli ólíkra hugmyndastrauma geti nú loks hafist fyrir alvöru.
Tvær frumsamdar greinar eftir íslenska höfunda um kínverska heimspeki er að finna í heftinu og eru þær ekki síst merkar fyrir það að setja fram drög að orðaforða á íslensku um þá framandi hugsun sem hér er á ferðinni. Ragnar Baldursson, sem hefur öðrum fremur stuðlað að auknum skilningi Íslendinga á kínverskri menningu og samfélagi í ræðu og riti, skrifar fróðlegan inngang að einu vinsælasta kínverska heimspekiritinu á Vesturlöndum, Daodejing eða Bókinni um veginn og dygðina, en Ragnar vinnur um þessar mundir að fyrstu íslensku þýðingu þessa margbrotna rits úr frummálinu.
Jón Egill Eyþórsson leiðir svo lesendur um undraheim eins torskildasta grundvallarrits kínverskrar heimspeki, Yijing, eða Breytingaritningarinnar. Segja má að rit þetta hafi verið sameiginleg undirstaða flestra kínverskra heimspekiskóla til forna og lagt línur að þeirri heimsfræði sem liggur þeim til grundvallar. Þrátt fyrir uppruna í óræðum spádómum Kína til forna er heimspekilegt gildi þessa rits ótvírætt, enda hefur það verið tekið til rannsóknar og túlkað af sérfræðingum á sviði kínverskrar heimspeki í ein tvö árþúsund og er ekkert lát á því í samtímanum.
Auk þemagreinanna birtast í Hug að þessu sinni sjö greinar, en þar af eru sex frumsamdar af íslenskum heimspekingum. Svavar Hrafn Svavarsson gerir víðreist um helstu stórvirki Platons í þekkingarfræðilegri greiningu sinni á frummyndakenningunni. Hér er á ferðinni umfangsmikil ritskýring sem útlistar skilning Platons á frummyndunum, þann mun sem hann taldi vera á þeim og skynhlutum og ekki síst ástæður hans fyrir því að setja fram þessa áhrifamiklu kenningu sína.
Viðfangsefni Eyju Margrétar Brynjarsdóttir í grein sinni „Skilið á milli“ er sá heimspekilegi vandi að gera ásættanlega grein fyrir huglægni. Eyja gerir úttekt á því hvernig tekið hefur verið á huglægni í nokkrum helstu kenningum þekkingarfræðinnar, þ.á m. samhengishyggju og afstæðishyggju, en leiðir að því líkur að nálgun þeirra sé á villigötum. Þar er gengið út frá því að huglægni geri kröfu um villulausan ágreining aðila sem eru ósammála um huglæga eiginleika, t.d. smekksatriði, þ.e. að þeir hafi báðir rétt fyrir sér. Að mati Eyju er hér þó um frumspekilegt afstæði að ræða sem sé ekki nauðsynleg forsenda fyrir því að gera ráð fyrir huglægum eiginleikum.
Þema síðasta heftis Hugar var heimspeki menntunar. Í afmælisheftinu heldur sú umræða áfram og vonandi er til að dreifa viðvarandi áhuga á þessu mikilvæga efni. Í grein sinni í þessu hefti sýnir Ólafur Páll Jónsson með skemmtilegum hætti hvað felst í því að vera gagnrýnin manneskja. Hann færir sannfærandi rök fyrir því að hin klassíska ímynd af gagnrýninni manneskju sem einangruðum hugsuði, líkt og listamaðurinn Rodin setti fram í samnefndri höggmynd, sé villandi, ófullnægjandi og jafnvel hættuleg. Raunverulega gagnrýnin manneskja þarf ekki einungis að vera hugsandi, heldur einnig virk í athöfnum sínum. Þannig gerir gagnrýnin jafnframt kröfu um siðferðilega ábyrgð og meðvitund um það samfélagslega samhengi sem manneskjan hrærist í.
Heimspeki í skólum hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu og er í talsverðum vexti. Í febrúar 2009 fer til dæmis fram stór samnorræn ráðstefna um slíka heimspeki á vegum Heimspekistofnunar Háskóla Íslands. Á meðal þeirra sem hafa látið til sín taka á þessu sviði er Jóhann Björnsson en í grein sinni í heftinu fjallar hann um þær heimspekilegu aðferðir og nálganir sem hann hefur hannað og beitt í grunnskólum í því skyni „að spilla æskunni“ að hætti Sókratesar, þ.e. efla gagnrýna hugsun þeirra, skilningsþorsta og spurulsemi, nokkuð sem stjórnmálamönnum stendur jafnan mikill stuggur af, jafnvel í lýðræðissamfélagi þar sem slíkir eiginleikar ættu þó að teljast til nauðsynlegra dygða.
Franski fyrirbærafræðingurinn Maurice Merleau-Ponty hefði orðið 100 ára í ár, hefði honum enst aldur, og af því tilefni var ákveðið að endurskoða og fínpússa þýðingu Páls Skúlasonar og Jóns Laxdals Halldórssonar á formálanum að einu þekktasta riti hans, Fyrirbærafræði skynjunarinnar (Phénoménologie de la perception), er út kom árið 1945. Mikill fengur er að því að þessi krefjandi texti birtist nú loks á prenti í endanlegri gerð, enda hefur hann verið notaður við kennslu við Háskóla Íslands í óbirtu handriti um nokkra hríð. Við hóp þýðenda bætist nú Björn Þorsteinsson sem bar þýðinguna gaumgæfilega saman við frumtextann og lagði til ýmsar breytingar til bóta.
Sami Björn er höfundur greinarinnar „Valsað um valdið“ sem valsar allvíða um hugmyndaheim þeirra nútímaheimspekinga sem öðrum fremur hafa einbeitt sér að manneðlinu og þeim samfélagslegu skorðum sem því hafa verið settar með takmarkandi skilgreiningum. Athygli Björns beinist einkum að leiðum „samfélagsvélarinnar“ til að hafa með þessum hætti hemil á afbrigðum kynhneigðar, en hann sýnir að skapandi veruháttur mannsins – eðli hans – hljóti að „flækja“ kynhvötina eins og nánast allt annað sem honum er áskapað af hendi náttúrunnar. Í ljós kemur að samkynhneigð er, þegar allt kemur til alls, í fullkomnu samræmi við „eðli“ mannsins.
Síðasta grein heftisins er eftir Gunnar Harðarson og tekur hún á spennu í umfjöllun Jean-Pauls Sartre um samfélagslegt hlutverk bókmennta. Sartre virðist gerast sekur um ákveðna ósamkvæmni hvað varðar siðferðilega og pólitíska skyldu rithöfunda. Gunnar ber þessa afstöðu Sartres saman við það hlutverk sem Italo Calvino ætlar rithöfundum en það reynist vera talsvert annað eðlis.
Að þessu sinni birtast þrír ritdómar í heftinu um heimspekirit á íslensku, þ.e. tvö frumsamin verk og eina þýðingu.
Siðfræðistofnun og Heimspekistofnun Háskóla Íslands styrktu útgáfu heftisins og færir ritstjóri Hugar þeim bestu þakkir fyrir kærkominn stuðning. Að lokum vill ritstjóri nota tækifærið og óska Hug til hamingju með tvítugsafmælið. Hann er nú kominn af unglingsskeiði en framtíð hans er björt sem aldregi fyrr.