Inngangur ritstjóra að Hug 2007

eftir Geir Sigurðsson

Íslenskir heimspekingar hafa í gegnum tíðina tekið sér fjölbreytt verkefni fyrir hendur og sinnt hinum ólíklegustu störfum, enda er þá að finna í nær öllum geirum þjóðfélagsins. Líkt og Þales forðum daga með ólífupressubraski sínu hafa þeir sýnt og sannað hæfni sína og getu til að nýta þau tækifæri sem veröldin opnar í stöðugum umhleypingum sínum og komast jafnvel til efna og pólitískra áhrifa – hafi þeir á annað borð áhuga á slíku. En öðru fremur hafa íslenskir heimspekingar verið áberandi á sviði menntunar, og þá ekki bara sem kennarar heldur hafa þeir leitast við að benda á mikilvægi þess að menntun miði að því að efla jafnt bókvit sem siðferðis- og félagsþroska manneskjunnar – að „manna“ manneskjuna – en einskorðist ekki við miðlun þekkingar eða einbera starfsþjálfun fyrir vinnumarkaðinn.
         Allt frá því að Sókrates hóf að stunda heimspeki sem gagnrýna samræðu hefur menntun í þessum skilningi gengið eins og rauður þráður í gegnum sögu heimspekinnar. Þótt heimspekingar hafi vissulega ekki alltaf vísað beint til menntunar hafa þeir þó á öllum tímum lagt sig í líma við að opna augu viðmælenda sinna og lesenda fyrir því sem býr að baki yfirborði hversdagsins, í því skyni að þeir öðlist skilning á raunverulegu samhengi hlutanna og myndi sér gagnrýnið viðhorf til skoðana og gildismats sem þeir sjálfir og aðrir láta í ljósi í orði eða á borði, jafnt með sjálfum sér sem á vettvangi samfélagsins. Með öðrum orðum hafa heimspekingarnir leitast við að efla skarpskyggni, skilning, gagnrýni, víðsýni, þroska og skynsemi – markmið sem öll heyra, eða ættu að heyra, menntun til. Raunar má ekki gleyma því að þessi viðleitni takmarkast ekki við vestræna hugsuði heldur hefur hana einnig verið að finna á meðal heimspekinga innan annarra menningarheilda og hún hefur síst verið veikari í fornum heimspekihefðum Indlands og Kína en í hinni grísku arfleifð Vesturlanda. Konfúsíski hugsuðurinn Xunzi sem uppi var á 3. öld f.Kr. minnir til dæmis á, í fyrstu setningu ritgerðasafns síns, að menntun sé verkefni sem nær aldrei lokamarki sínu heldur þurfi ávallt að leggja rækt við hana á meðan samfélög manna eru við lýði.
          Í ljósi þessa mikla og eðlilega áhuga heimspekinga um víða veröld og á öllum tímum á menntun er orðið löngu tímabært að Hugur geri henni sérstök skil og því er „heimspeki menntunar“ í víðum skilningi þema þessa heftis. Í grein sinni „Skóli og menntastefna“ ríður Ólafur Páll Jónsson á vaðið með þá grundvallarspurningu hvort raunveruleg menntastefna sé fyrir hendi í íslensku menntakerfi nútímans en umfjöllun hans lýtur að verulegu leyti að þeim áhersluatriðum sem drepið er á hér að ofan. Hann endurvekur fyrri umræðu um þetta efni sem Páll Skúlason og fleiri brautryðjendur íslenskrar heimspeki hafa bryddað á og gerir um leið gagnrýna úttekt á framvindu íslensks skólakerfis á undanförnum árum. Segja má að Ármann Halldórsson fylgi gagnrýni Ólafs Páls eftir, en í grein sem ber titilinn „Sjálfstæð hugsun og rýnandi rannsókn“ bendir hann á að þrátt fyrir vilja og góða viðleitni flestra sem hlut eiga að máli hafi gengið illa að innleiða raunverulegar umbætur á íslensku skólakerfi og fá kennara til að taka upp virkari kennsluaðferðir í því skyni að efla sjálfstæða og gagnrýna hugsun nemenda. Helsta ástæðan er sú, að mati Ármanns, að kennarar eigi erfitt með að beita þessum aðferðum þar sem þá skorti þekkingarfræðileg og jafnvel tilfinningaleg tengsl við þær. Hann leggur til að „gerendarannsóknir“, sjálfsgagnrýnar rannsóknir á heimspekilegum grunni sem miða að því að auka vitund rannsakandans um forsendur og eðli eigin rannsókna, séu ákjósanleg leið til að mæta þessum vanda. Kristján Kristánsson, sem um áraraðir hefur helgað sig heimspeki menntunar, rekur endahnútinn á þemagreinarnar með ritgerð sinni „Menntun, sjálfsþroski og sjálfshvörf“. Áhersla hans er á „sjálfshvörf“ eða þær breytingar sem verða á einstaklingnum í námi og mætti einnig kenna við „sjálfsþroska“. Í því tilliti tekur hann til gagnrýninnar umfjöllunar þrjár áhrifamiklar kenningar um sjálfið og leggur mat á hæfni þeirra til að gera fullnægjandi grein fyrir sjálfshvörfum. Slíkt mat er um leið mat á gildi kenninganna sem slíkra því þær eru augsýnilega ófullnægjandi ef þær megna ekki að útskýra hvernig sjálfshvörf eiga sér stað.
          Annað efni Hugar að þessu sinni er ekki síður safaríkt. Í áleitnu viðtali rekur Róbert Jack garnirnar úr einum helsta sérfræðingi Íslendinga á sviði forngrískrar heimspeki, Eyjólfi Kjalari Emilssyni, og fær hann til að hugsa með sér upphátt um viðhorf sín til heimspekinnar með bæði fróðlegum og skemmtilegum hætti. Eins og heimspekingar til forna skildu mæta vel er samtalsformið einkar heppilegt til að þróa og setja fram skýrar og skiljanlegar hugmyndir um margslungin efni. Þó er sá þáttur í ímynd heimspekinga óneitanlega sterkur að þeir séu illskiljanlegir. Páll Skúlason og Bryan Magee taka báðir á þessu efni, með talsvert mismunandi hætti þó, og er ekki laust við að nokkurar spennu gæti í ólíkum nálgunum þeirra og efnistökum. Páll spyr hvað felist í því að leitast við að skilja heimspeking, hvað það sé sem þurfi að öðlast skilning á. Spurningin kallar nefnilega á frekari útfærslu á því hvað heimspekin sé eða hvernig hún hafi mótast. Páll leggur áherslu á ástundun heimspekinnar sem persónulega skilningsleit innan vébanda sögulegs veruháttar. En vegna þess hversu veigamikil hin tiltekna persóna er í þessu ferli, segir Páll, eru tilraunir til að skilja sérhverja heimspeki út frá sögulega skilyrtum kringumstæðum dæmdar til að mistakast. Skiljanleiki heimspekinnar er einnig umfjöllunarefni Bryans Magee sem fjallar um sambandið á milli ritfærni heimspekinga og dýpt þeirra sem hugsuða. Flókinn texti, segir hann, er engan veginn merki um djúpa heimspekilega hugsun, heldur kemur flækjustigið oftar en ekki til vegna vangetu, leti eða jafnvel meðvitaðra tilrauna höfundarins til að virðast merkilegri hugsuður en hann er í raun og veru. Í einkar lipurri þýðingu Gunnars Ragnarssonar varar Magee við slíkum tilraunum og gerir kröfu um aukinn skýrleika í skrifum heimspekinga. Ástæðu óskýrleikans segir hann ósjaldan vera hégómagirni, þá staðreynd að á ritvellinum eru heimspekingarnir of uppteknir af sjálfum sér og áliti annarra á þeim, í stað þess að helga sig viðfangsefninu sem slíku.
          Í grein sem ber heitið „Hugur einn það sér“, en Hugur er samt fús að deila með lesendum, gagnrýnir Jón Ásgeir Kalmansson siðfræðinga samtímans fyrir að taka lítið sem ekkert tillit til þáttar ímyndunaraflsins í nálgunum sínum, heldur byggja á þurrum kenningum, meginreglum og beitingu þessara meginreglna. Siðfræðingar virðast óttast að ímyndunaraflið dragi úr hlutlægni siðfræðinnar og geri hana duttlungafulla en Jón segir þessa vanrækslu hennar byrgja okkur siðferðilega sýn og í raun firra siðfræðina frá mannlegu lífi. Hann sýnir hversu mikilvægt hlutverk ímyndunaraflið hefur leikið í sögu heimspekinnar og setur fram hugmyndir um hvernig megi nýta sér það í siðfræðilegum rannsóknum.
Hvers eðlis er sá veruleiki sem hagfræðin fæst við? Þetta er ein þeirra grundvallarspurninga sem Stefán Snævarr varpar fram í umfjöllun sinni um gildi hagfræðinnar. Stefán kallar þennan veruleika „hagtextann“. Hann er mannlegur merkingarveruleiki en ekki náttúrulegur lögmálsveruleiki eins og hagfræðin virðist gefa sér. Af því leiðir að viðleitni hagfræðinnar til að setja fram lögmál að fordæmi náttúruvísindanna er dæmd til að mistakast, enda hefur sýnt sig að forspárgildi hagfræðinnar er æði takmarkað. Stefán fjallar um þau margvíslegu áhrif sem túlkunarfræði og skilningsfélagsfræði hafa haft á hagfræðina á undanförnum áratugum og setur fram eigin útfærslu á „skilningshagfræði“ sem nálgast viðfang sitt sem texta og leggur því fremur fyrir sig túlkun í stað þess að leita orsakaskýringa.
Að þessu sinni hefur Hugur að geyma tvær greinar um bækur. Sú fyrri kann að virðast nokkuð „innmúruð“ ef svo má segja, því þar fjallar einn greinarhöfundur þessa heftis, Jón Ásgeir Kalmansson, um bók annars, Ólafs Páls Jónssonar. Þetta endurspeglar þó fyrst og fremst öfluga virkni þessara fræðimanna um þessar mundir. Bók Ólafs Páls, Náttúra, vald og verðmæti, er heimspekileg greining á umhverfis- og lýðræðismálum þeim sem mikið hafa verið á döfinni á undanförnum árum, en hún hefur vakið mikla athygli jafnt innan sem utan íslensks fræðaheims.
           Síðari bókargreinin tekur á ádeiluritinu Bréfi til Maríu eftir Einar Má Jónsson sem gagnrýnendur hafa ýmist lofað óspart eða talið meingallað. Greinarhöfundar, þeir Davíð Kristinsson og Hjörleifur Finnsson, sem sjálfir hafa getið sér orð fyrir ögrandi skrif, taka þó annan pól í hæðina, rýna vandlega í heimspekilega þætti bókarinnar og gera meira að segja gagnrýna úttekt á þeirri gagnrýni sem hún hefur hlotið. Hvert svo sem endanlegt mat þeirra á bókinni kann að vera er ljóst að hún hefur veitt þeim nokkurn innblástur og þeir gera gaumgæfileg skil á ýmsum þeim málefnum sem Einar Már bryddar upp á, til að mynda þjóðernishyggju, velferðarsamfélaginu, marxisma og nýfrjálshyggju. Þannig er greinin jafnframt prýðilegur „stökkpallur“ fyrir umræðu um samfélagsmál og er enginn vafi á því að hún mun vekja margvísleg viðbrögð meðal lesenda Hugar.
          Við hæfi er að vekja athygli á því að Hugur er nú kominn af táningsskeiði og verður tvítugur á árinu 2008. Í tilefni þessara merku tímamóta hyggst ritstjóri gera allt sem í hans valdi stendur til að koma næsta hefti út á sjálfu afmælisárinu og hvetur því heimspekinga nær og fjær að senda inn framlög hið fyrsta. Ennfremur ber ritstjóri þá von í brjósti að kvenkyns heimspekingar láti meira til sín taka á ritvelli íslenskrar heimspeki en verið hefur á undanförnum árum. Er opinn Hugur fyrir því að hlutur þeirra fari vaxandi í komandi tíð.
          Fyrir hönd Félags áhugamanna um heimspeki vill ritstjóri að lokum færa HF-verðbréfum þakkir fyrir afar rausnarlegan og ekki síður kærkominn fjárstuðning.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *