Færslusöfn

Lýðræði, Dewey og einstaklingsbundinn lífsmáti

eftir Ólaf Pál Jónsson

George Orwell hafði það til marks um spillingu tungumálsins að orð væru notuð án minnstu tilraunar til að gefa þeim ákveðna merkingu, og notkun fólks á orðinu ‘lýðræði’ er oft þessu marki brennd. Orðið stendur þá gjarnan fyrir eitthvað sem er skilyrðislaust gott – er lýðræði ekki besta stjórnarfarið? – án þess að það sé tengt við ákveðinn veruleika eða hugsjónir. Orwell segir:

Þar sem um er að tefla orð einsog lýðræði, þá er ekki nóg með að ekki sé til nein viðurkennd skilgreining, heldur hefur sú tilraun að búa hana til mætt mót­stöðu úr öllum áttum. Það er nánast undantekningarlaust litið svo á þegar við segjum að ríki sé lýðræðislegt, þá erum við að lofa það; þar af leiðir að málsvarar hvaða stjórnarfyrkrkomulags sem er að halda því fram að það sé lýðræði, og óttast að þeir kynnu að neyðast til að hætta að nota orðið ef það yrði njörvað niður við einhverja eina merkingu.1

En þótt orðið ‘lýðræði’ hafi mátt þola þessa hraksmánarlegu meðferð, þá eru þeir til sem tekið hafa upp hanskann fyrir það – og fyrir skýra hugsun almennt. Í þessu greinarkorni langar mig að gera að umtalsefni nokkrar hugmyndir Johns Dewey um lýðræði – eins og til að rifja það upp sem hann sagði fyrir nærri öld síðan. Trúr sínum pragmatisma verður Dewey seint sakaður um að tengja hugmyndina um lýðræði ekki við ákveðinn veruleika.
          Dewey lagði ríka áherslu á að orðið ‘lýðræði’, sem við tengjum alla jafna við tiltekna stjórnarhætti – þrígreiningu ríkisvaldsins og almennar kosningar – vísaði ekki síst til einstak­lingsbundins lífsmáta. Og hann hélt því jafnframt fram að þessi hugmynd hans væri síður en svo ný af nálinni.

Lýðræði sem persónulegur, einstaklingsbundinn lífsmáti felur ekki í sér neinar grundvallar nýjungar. En þegar hugmyndinni er beitt þá ljær hún gömlum hug­myndum nýja og lifandi merkingu. Þegar þessi hugmynd er virkjuð sýnir hún að öflugum andófsmönnum lýðræðisins verður einungis svarað með því að skapa persónuleg viðhorf hjá einstökum manneskjum; að við verðum að komast yfir þá tilhneigingu að halda að vörn fyrir lýðræði verði fundin í ytri athöfnum, hvort heldur hernaðarlegum eða borgaralegum, ef þær eru aðskildar frá persónu­legum viðhorfum sem eru svo inngróin að þau mynda manngerð einstak­lingsins.2

Dewey gerir ekki lítið úr ytri skilyrðum lýðræðis – lýðræðislegum stofnunum og borgaralegum rétt­indum – en hann leggur áherslu á að slíkar stofnanir eru einungis ytri skilyrði lýðræðislegs samfélags og að trúin á lýðræði er ekki trú á slíkar stofnanir heldur er hún fyrst og fremst trú á möguleika einstaklingsins. Trúin á lýðræði er trú á manneskjuna sem virka skynsemisveru. Í vörn fyrir þessa hugmynd segir hann m.a.:

Oftar en einu sinni hefur fólk úr andstæðum hornum ásakað mig um óraun­sæja, draumkennda, trú á möguleika skynseminnar og á menntun sem fylgi­fisk skynsemi. Hvað sem því líður, þá er þessi trú ekki mín uppfinning. Ég hef tekið hana upp eftir umhverfi mínu að því marki sem þetta umhverfi er innblásið af anda lýðræðisins. Því hvað er trú á lýðræði í ráðgjöf, í sannfæringu, í sam­ræðu, í upplýstu almenningsáliti sem réttir sig af þegar til lengri tíma er litið, nema trú á möguleika skynsemi hins venjulega manns til að bregðast af heilbrigðri skynsemi við frjálsu flæði staðreynda og hugmynda sem byggja á traustum grunni frjálsra rannsókna, frjálsra samtaka og frjálsra samskipta?3

Trú Deweys á möguleika lýðræðisins er þannig fyrst og fremst trú á að einstaklingar geti orðið lýðræðislegar manneskjur rétt eins og trú franska heimspekingsins Jean-Jacques Rousseau á frjálst samfélag var trú á möguleikann á frjálsum manneskjum.4  En hvað einkennir þá hina lýðræðislegu manneskju annað en að hún er frjáls og full af heilbrigðri skynsemi? Og á þessi trú Deweys erindi við okkur nú á tímum fjölmenningar þegar sú staðreynd er ófrávíkjanleg að borgararnir hafa í grundvallaratriðum ólíka lífsýn?
          Frekar en að vera úrelt, vegna fjölmenningar og sundurleitra markmiða og lífssýnar, á trú Deweys e.t.v. brýnna erindi nú en nokkru sinni fyrr. Og það er einmitt þessi einstaklingsbundna nálgun sem hér skiptir máli. Hann segir:

… lýðræðið sem lífsmáti er á rætur í einstaklingsbundinni trú í daglegri sam­vinnu við aðra. Lýðræði er sú trú að jafnvel þegar þarfir og markmið eða afleiðingar eru ólík frá einni manneskju til annarrar, felur það að temja sér að vinna saman af vinsemd – sem getur falið í sér, t.d. í íþróttum, samkeppni og kapp – ómetanlega viðbót við lífið. Með því að taka sérhvern ásteitingarstein – og þeir hljóta að verða fjölmargir – eftir því sem nokkur kostur er, út úr andrúmslofti og umhverfi valds og aflsmunar sem leið til úrlausnar og inn í umhverfi rökræðu og skynsemi, þá lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við – jafnvel djúpstæðum ágreiningi – sem einstaklinga sem við getum lært af, og að sama marki, sem vini.5

Af þessum tilvitnunum í Dewey sjáum við að grundvallar þættir hins lýðræðislega einstaklings-eðlis, eins og hann skilur það, eru bæði af toga skynsemi og tilfinninga. Þegar við eigum í ágreiningi við aðra þá leitum við lausna á vettvangi skynseminnar en, og þetta skiptir ekki síður máli, við nálgumst þá sem okkur greinir á við sem vini. Ágreiningur er alls ekki hnökrar sem æskilegt er að fjarlægja – eða breiða yfir – heldur er hann uppspretta siðferðilegra og menningar-legra verðmæta. Þetta sjónarmið fellur raunar ágætlega að nýlegum hugmyndum Chantal Mouffe um lýðræði, en hún segir m.a.:

… sjónarmið á borð við ‘ágreiningsfjölhyggju’ – sjónarmið sem sviptir hulunni af fjarstæðu þess að efna til samkomulags án útilokunar – [er] afar mikilvægt fyrir lýðræðislega stjórnmálaiðkun. Með því að vara okkur við þeirri tálsýn að nokkurn tíma sé hægt að ná fullkomnum árangri á sviði lýðræðisins neyðir hún okkur til að halda kappleik þess gangandi. Fjölhyggjulýðræðinu er lífsnauð­synlegt að ósætti hafi nægt rými og að stofnanirnar sem ósættið tjáir sig í gegnum séu ræktaðar.6

Mouffe leggur áherslu á þær stofnanir sem ósættið tjáir sig í gegnum á meðan Dewey leggur áherslu á hið persónubundna viðhorf einstaklinganna sem eiga í ósætti. En ég hygg að hvort tveggja þurfi að koma til svo að hugsjóninni um lýðræði megi þoka áfram. Lýðræði kallar á stofnanir sem ósættið fær að tjá sig í gegnum, en þessar stofnanir þarf að rækta, og það verður einungis gert á persónulegum nótum – og þá ekki síst með því að þeir sem fara með vald noti það mildilega en ekki t.d. í anda hinna stjórnlyndu athafnastjórnmála sem nú eru í móð.

Greinin birtist í Hermes • tímariti heimspekinema • árg. 2006 – 2007 • 1. tölublaði, og er birt hér með leyfi þess.

Tilvísanir

1. George Orwell, „Stjórnmál og ensk tunga“, Stjórnmál og bókmenntir, Uggi Jónsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2008, bls. 220–221.

2. John Dewey, „Creative democracy – The task before us“, The Essential Dewey, 1. bindi, Indiana University Press, 1998, bls. 341.

3. Dewey, „Creative democracy – The task before us“, bls. 342.

4. Sjá Rousseau, Samfélagssáttmálinn, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2004.

5. Dewey, „Creative democracy – The task before us“, bls. 342.

6. Chantal Mouffe, „Til varnar ágreiningslíkani um lýðræði“, Hugur, 16. ár, 2004.

« Til baka