Færslusöfn

Hlutverk heimspekinnar í samfélaginu

eftir Max Horkheimer

[I.]

Þegar minnst er á eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði eða sagnfræði, dettur mönnum yfirleitt eitthvað áþreifanlegt í hug. Komi upp skiptar skoðanir þá er hægt að slá upp í alfræðiritum eða viðurkenndum kennslubókum, ellegar leita álits sérfræðinga í viðkomandi greinum. Skilgreiningar á þessum vísindum er hægt að leiða beint af stöðu þeirra í nútímasamfélagi. Þótt þessar fræðigreinar muni að líkindum taka miklum framförum á ókomnum tímum og sumar þeirra, t.d. eðlisfræði og efnafræði, -eigi eftir að renna saman í eitt sér þó enginn ástæði til að skilgreina þær öðru vísi en í samræmi við þá vísindalegu starfsemi, sem nú fer fram undir áðurnefndum heitum.
Öðru máli gegnir um heimspeki. Setjum sem svo að við spyrjum háskólakennara í heimspeki hvað heimspeki sé. Ef við erum svo lánsöm að hitta á sérfræðing sem ekki er haldinn almennri andúð á skilgreiningum, mun hann láta okkur slíka skilgreiningu í té. Ef við síðan sættum okkur við þessa skilgreiningu, munum við þó að líkindum brátt komast að raun um að hún er hvorki viðtekin né viðurkennd af öllum. Nú getum við leitað til annarra sérfræðinga eða kynnt okkur eldri eða yngri fræðirit um þessi efni. Með því yrðum við einungis enn ruglaðri í ríminu. Margir hugsuðir, sem taka meið af Platoni og Kant, líta á heimspekina sem nákvæma og sjálfstæða vísindagrein sem hefur sitt eigið rannsóknarsvið og sín sérstöku viðfangsefni. Á seinni tímum hefur Edmund Husserl verið einn helsti málsvari þessa viðhorfs. Aðrir hugsuðir, svo sem Ernst Mach, líta á heimspekina sem gagnrýna framþróun og samþættingu einstakra vísindagreina í eina heild. Bertrand Russell er einnig þeirrar skoðunar að verkefni heimspekinnar sé „rökgreining og í kjölfar hennar rökræn samþætting“.1 Hann er í því tilliti fyllilega sammála L.T. Hobhouse, sem heldur því fram, að heimspekin miði að „samþættingu vísindanna í eina heild“.2 Þetta viðhorf má rekja til Augustes Comtes og Herberts Spencers, en þeir litu á heimspekina sem heildarniðurstöðu mannlegrar þekkingar. Þannig líta sumar á heimspekina sem sjálfstæða vísindagrein, en aðrir telja, að hún sé ekki annað en stoðgrein.
Þó að flestir höfundar heimspekirita undirstriki vísindaeðli heimspekinnar, hafa þó ýmsir merkir hugsuðir gersamlega hafnað þeirri skoðun. Í augum Schillers, sem hafði að líkindum meiri áhrif sem heimspekingur en leikritaskáld, var markmið heimspekinnar fólgið í því að samræma hugsanir manna og gerðir í anda fagurfræðinnar. Allt skyldi mælt á kvarða fegurðarinnar. Önnur skáld, svo sem Hölderlin og Novalis, halda fram líkri skoðun og jafnvel hreinræktaðir heimspekingar eins og Schelling nálgast oft slík sjónarmið í verkum sínu. Henri Bergson staðhæfir einnig fullum fetum að heimspekin sé náskyld listinni og alls engin vísindi.
En þarmeð er ekki öll sagan sögð. Ekki einungis eru deildar meiningar um hið almenna hlutverk heimspekinnar heldur einnig um inntak hennar. Enn eru til hugsuðir sem telja að heimspekin fáist eingöngu við æðstu lögmál og hugtök verunnar, og endanlega við þekkingu á guði. Þetta á við um lærisveina Aristótelesar og svokallaða ný-tómista. Þá má nefna þá skyldu hugmynd að heimspekin fjalli um hið frumtæka (Apriori). Alexander lýsir henni sem „reynsluathugun á því sem er óháð reynslunni eða fer á undan henni og á þeim vandamálum sem leiða af tengslum reynslunnar við það sem er gefið á undan henni“ (rúm, tími, guðdómur).3 Aðrir, sem eiga rætur að rekja til enskra skynhyggjumanna og fræða þeirra Fries og apelts, líta á heimspekina sem vísinda hinnar innri reynslu. Samkvæmt kenningu rökfræðilegra pósitívista eins og Carnaps, fæst heimspekin aðallega við vanda mannlegs máls. Windelband og Rickert, sem eiga sér einnig marga áhangendur í Ameríku, halda því á hinn bóginn fram að viðfangsefni heimspekinnar séu hin altæku gildi, fyrst og framst sannleikurinn, fegurðin, hið góða og hið heilaga.
Loks má nefna þann djúpstæða ágreining sem uppi er um aðferðir í heimspeki. Allir svonefndir ný-kantistar líta svo á að heimspekileg iðja sé í því fólgin að greina hugtök og rekja þau til þeirra frumþátta sem öll þekking byggist á. Bergson og Max Scheler líta á „innsæi í eðli hlutanna“ (Wesenschau) sem grundvallaratriði heimspekilegrar íhugunar. Sú aðferð sem beitt er í fyrirbærafræði Husserls og Heideggers er algjör andstæða gagnrýninnar reynsluspeki Machs og Avenariusar, og rökvísindi Russells, Whiteheads og fylgifiska þeirra eru í beinni andstöðu við díalektík Hegels. Að mati Williams James ræðst heimspekileg hugsun manna fyrst og fremst af skaphöfn þeirra og reynslu.
Hér hefur verið drepið á allar þessar skilgreiningar til að sýna að í heimspekinni horfa málin öðru vísi við en í öðrum menntagreinum. Þótt menn greini þar á um marga hluti, ríkir samt einhugur um meginatriði. Forvígismenn í einstökum greinum eru að mestu sammála um viðgangsefni og aðferðir. Í heimspekinni gildir hinsvegar hið gagnstæða. Þegar heimspekingar freista þess að afsanna kenningar annarra skóla, hafna þeir venjulega öllum undirstöðuatriðum viðkomandi kenninga sem alröngum. Auðvitað gildir þetta ekki um alla heimspekinga. Díalektísk heimspeki sem trú er meginforsendum sínum hlýtur að hneigjast til þess að viðurkenna ákveðinn sannleikskjarna einstakra kenninga og finna honum stað innan eigin kenningar. Aðrir heimspekiskólar, svo sem nútíma-pósitívismi, eru mun ósveigjanlegri að þessu leyti og neita því einfaldlega að mjög stór hluti heimspekinnar, sérstaklega hin háreistu heimspekikerfi fyrri tíðar, hafi nokkurt þekkingarlegt gildi. Af öllu þessu er ljóst að sá sem tekur sér orðið „heimspeki“ í munn, á varla annað sameiginlegt með þeim sem til heyra en fáeinar, óljósar hugmyndir um merkingu þessa orðs.

[II.]

Hinar einstöku vísindagreinar snúa sér að vandamálum sem verður að glíma við af því að þau eru sprottin úr lífi manna í nútímasamfélagi. Hin aðskiljanlegu viðfangsefni og umfjöllun þeirra í einstökum vísindagreinum eiga, þegar allt kemur til alls, rætur að rekja til þarfa mannlegs samfélags í nútíð og fortíð. Það þýðir á hinn bóginn ekki að sérhver vísindaleg rannsókn fullnægi beinlínis einhverri brýnni þörf. Margar vísindalegar athuganir hafa leitt til niðurstaðna sem mannkynið gat fyllilega verið án. Vísindin gjalda sinn toll þeirri almennu orkusóun sem blasir við á öllum menningarsviðum. En framvinda þeirra fræðigreina sem vafasamt er að hafi gildi fyrir samtímann umsvifalaust, er hluti þeirrar heildarvinnu sem er nauðsynleg forsenda vísinda- og tækniframfara. Minnumst þess að ákveðnar greinar stærðfræðinnar, sem í fyrstu virtust einungis leikur, reyndust síðar afa nytsamlegar. Þó að í ýmsum vísindarannsóknum felist ekki umsvifalaust notagildi búa þær samt yfir möguleikum á að koma að gagni, þótt það kunni um sinn að vera óljóst. Eðli sínu samkvæmt er starf vísindamannsins til þess fallið að auðga líf samtímans. Starfsvið hans er að mestu leyti fyrirfram ákvarðað. Tilraunir til að hnika mörkum milli einstakra vísindasviða, koma á fót nýjum greinum og gera þær sífellt sérhæfðari í senn, má allar rekja til samfélagslegra þarfa. Þessara þarfa gætir jafnframt í ríkum mæli, þó óbeint sé, í stofnunum og fyrirlestrasölum háskólanna, að ekki sé minnst á efnafræðitilraunastofur og tölfræðideildir stórra iðnfyrirtækja og heilbrigðisstofnana.
Heimspekin hefur ekkert slíkt haldreipi. Að sjálfsögðu er mörgum óskum til hennar beint. Hún á að leysa úr vandamálum sem vísindin leiða annað hvort hjá sér eða takast á við á ófullnægjandi hátt. En samfélagið þekkir enga mælistiku fyrir heimspekina: hún getur ekki bent á neinn áþreifanlegan árangur. Það sem einstakir heimspekingar afreka stöku sinnum í þessu tilliti byggist á því starfi sem ekki telst til heimspeki í þröngum skilningi. Við þekkjum t.d. stærðfræðilegar uppgötvanir Descartes og Leibniz, sálfræðirannsóknir Humes og eðlisfræðikenningar Ernst Machs. Andstæðingar heimspekinnar fullyrða líka að þegar heimspekin hafi eitthvert gildi sé hún í raun ekki heimspeki heldur vísindi. Allt annað í kerfum hennar sé einungis þvættingur; það sem þar er haldið fram sé stundum uppörvandi, oftast þó leiðinlegt og ævinlega gagnslaust. Heimspekingar sýna á hinn bóginn þóttafullt skeytingarleysi gagnvart áliti umheimsins. Allt frá réttarhöldunum yfir Sókratesi er bersýnilegt að samband þeirra við raunveruleikann eins og hann er, og sérstaklega við það mannfélag sem þeir lifa í, er spennu hlaðið. Þessi spenna leiðir oft til beinna ofsókna. Á öðrum tímum lýsir hún sér í því að menn skilja ekki málflutning þeirra. Þeir verða að lifa í leynum, hvort heldur í orðsins fyllstu merkingu eða í andlegum skilningi. Vísindamenn hafa líka lent í útistöðum við samfélagið. En hér verðum við að snúa við því sem áður var sagt um greinarmun heimspeki og vísinda: oftast voru ástæður fyrir ofsóknum á hendur slíkum hugsuðum ekki vísindalegar kenningar, heldur heimspekileg viðhorf þeirra. Hinir óbilgjörnu ofsækjendur Galíleís meðal jesúíta viðurkenndu að honum hefði verið frjálst að fylgja sólmiðjukenningu sinni eftir opinberlega, ef hann hefði markað henni hæfilegan heimspekilegan og guðfræðilegan ramma. Enda hafði Albertus Magnus fjallað um þessa kenningu í höfuðriti sínu Summa, án þess að verða fyrir nokkru aðkasti af þeim sökum. Þegar allt kemur til alls snúast átökin milli vísindamanna og samfélags, að minnsta kosti á síðari tímum, ekki um grundvallarhugtök, heldur um einstakar kenningar, sem ekki eru í náðinni hjá valdhöfum í tilteknu landi, þó að þær séu gjarnan umbornar og þeim jafnvel haldið hátt á loft af ráðamönnum annarra landa á sama tíma.

[III.]

Andóf heimspekinnar gegn raunveruleikanum á sér rætur í innri forsendum hennar sjálfrar. Heimspekin hvikar ekki frá því að athafnir og markmið manna þurfi ekki að lúta blindri nauðsyn. Hvorki vísindaleg hugtök né samfélagsgerðin, hvorki ríkjandi hugsunarháttur né ráðandi siðir, skulu viðurkennd fyrir sakir vanans eins, né skyldu menn láta stjórnast af þeim á gagnrýnislausan hátt. Broddur heimspekinnar beinist gegn hefðum og uppgjöf andspænis mikilvægustu vandamálum tilverunnar. Hún hefur jafnvel tekið að sér það vanþakkláta hlutverk að bregða ljósi hugsunarinnar á það hátterni og þau tengsl manna sem hafa skotið svo djúpum rótum að þau virðast eðlislæg, óumbreytanleg og eilíf. Hér mætti reyndar hreyfa þeirri mótbáru, að með uppgötvunum sínum og tækninýjungum komi vísindin líka í veg fyrir að menn festist í fari vanans. Ef við berum okkar tíma saman við líf manna fyrir þrjátíu, fimmtíu eða hundrað árum, getum við með sanni sagt að vísindin hafi skekið á grunni sínum gamla siði og venjur. Rökvæðingin (Rationalisierung) hefur ekki aðeins sett marki sitt á iðnaðar- og samgöngu tæki, heldur einnig á listina. Þar nægir að tilfæra eitt dæmi. Á fyrri tíð vann leikritaskáldið á sinn sérstæða hátt úr þeim mannlegu vandamálum sem á það leituðu, fjarri öllum heimsins glaumi. Ef verk þess kom fyrir almennings sjónir, atti skáldið þarmeð hugsun sinni til átaka í heimi raunveruleikans og stuðlaði þannig að andlegum framförum sjálfs síns og annarra. Á okkar dögum hafa fjölmiðlar og kvikmyndir leitt til nær fullkominnar rökvæðingar í framleiðslu og viðtöku listaverka. Þegar kvikmynd er framleidd, er fjöldi sérfræðinga kallaður til og frá upphafi er engin listræn hugmynd höfð að leiðarljósi, heldur eingöngu tekið mið af smekk fjöldans, sem fyrrnefndir sérfræðingar hafa áður kannað ítarlega og fara svo eftir. Þegar almenningsálitið tekur listrænni framleiðslu illa, þá er ástæðan yfirleitt ekki sú að hún sé í eðli sínu upp á kant við ríkjandi ástand, heldur er orsakanna að leita í röngu mati framleiðenda á viðbrögðum almennings og fjölmiðla. Svo mikið er víst að hvergi gætir fullkomins stöðugleika á nokkru sviði iðnaðarins, hvort heldur um er að ræða efnislega eða andlega framleiðslu. Siðir og venjur fá ekki nægan tíma til þess að festast í sessi. Undirstöður nútímasamfélags breytast í sífellu fyrir atbeina vísinda. Það er ekki til sú starfsemi í efnahags- og stjórnarkerfinu, sem ekki er stöðugt verið að einfalda og endurbæta.
Sé hinsvegar skyggnst eilítið dýpra kemur í ljós að þrátt fyrir öll þessi fyrirbrigði nútímans hefur hugsun manna og háttalag ekki tekið eins miklum framförum og halda mætti. Þvert á móti eru athafnir manna, að minnsta kosti í stórum hluta heimsins, snöggtum vélrænni en fyrr á tímum, þegar lifandi hugsun og sannfæring stýrði gerðum þeirra. Tækniframfarirnar hafa jafnvel átt þátt í að renna stoðum undir gamlar blekkingar og skapa nýjar, án þess að skynsemin fengi þar rönd við reist. Sú allsherjarútþynning og iðnvæðing, sem orðið hafa á menningarlegum sviðum, leiða til þess að mikilvægir andlegir vaxtarbroddar ná ekki að þroskast eða þeir koðna jafnvelniður. Ástæðan kann að vera rýrt innihald þess sem fyrir menn er borið, vanmáttur hugsunarinnar og eins hitt að ákveðnir skapandi hæfileikar einstaklinga séu að glatast. Jafnt rómantískir sem framsæknir höfundar hafa fjallað um hina tvíeinu sigurgöngu vísinda og tækni í verkum sínum. Paul Valéry reifaði þetta efni mjög skilmerkilega fyrir skömmu. Hann segir frá því þegar hann á barnsaldri var tekinn með í leikhús til að sjá ævintýraleikrit. Það var drengur ofsóttur af illum anda, sem ekki skirrðist við að beita öllum þeim djöfullegu klækjum sem hugsast gátu til að skelfa drenginn og ná á honum tangarhaldi. Þegar hann var háttaður sóttir andinn jafnvel að honum með vítislogum og árum. Herbergið virtist skyndilega umbreytast í úthaf og sængin í segl. Varla var einn árinn horfinn þegar annar birtist. Að lokum hættu þó þessar ógnir að hafa áhrif á unga áhorfandann og þegar þessi djöflagangur virtist ætla að upphefjast á nýjan leik, hrópaði hann: „Byrjar nú þessi asnaskapur aftur“. Valéry klikkir út með því að segja að einn daginn hæti mannkynið sýnt sömu viðbrögð við uppgötvunum vísindanna og furðuverkum tækninnar.
Ekki eru allir heimspekingar – og síst af öllu sá sem þetta ritar – sammála bölsýnislegu viðhorfi Valérys til vísindalegra framfara. En hitt er rétt að hvorki árangur vísindanna sem slíku né endurbætur á framleiðsluaðferðum iðnaðarins jafngilda raunverulegum framförum mannkynsins. Á því leikur enginn vafi að efnisleg, tilfinningaleg og andleg eymd manna getur vaxið þrátt fyrir framfarir í vísindum og iðnaði. Vísindi og tækni eru einungis hlutar af samfélagsheildinni og það er vel hugsanlegt að þrátt fyrir allar framfarir á þessum tilteknu sviðum, fari öðrum hlutum heildarinnar, jafnvel heildinni sjálfri, aftur: að mannfólkið eigi við sífellt meiri eymd og óhamingju að stríða, að einstaklingurinn þurrkist út sem slíkur og þjóðirnar stefni í glötun. Við eigum því láni að fagna að búa í landi [Bandaríkjunum] þar sem landamæri sem gætu orðið tilefni styrjalda hafa verið afnumin yfir hálfa heimsálfu. En í Evrópu hækkuðu tollmúrarnir í sífellu á sama tíma og samgöngutækin urðu hraðskreiðari og betri, fjarlægðirnar skruppu saman og lífsvenjur urðu líkari. Þjóðirnar vígbjuggust af kappi og samskipti ríkjanna sem og innanlandsaðstæður þróuðust sífellt nær styrjaldarástandi, þar til stríðið braust að lokum út. Þessar aðstæður urðu jafnframt alls ráðandi í öðrum heimshlutum og enginn veit hvort og hve lengi afgangurinn af heiminum er fær um að halda velli gegn afleiðingunum í öllu þeirra veldi. Það er ekkert því til fyrirstöðu að skynsemishyggja á afmörkuðum sviðum fari saman við almenna andskynsemishyggju. Athafnir einstaklinga sem með réttu eru taldar skynsamlegar og nytsamlegar í daglegu lífi geta reynst til óþurftar, já skaðlegar fyrir samfélagið. Þess vegna er rétt að minnast þess á tímum eins og nú eru, að hinn besti vilji til að skapa eitthvað nytsamlegt getur haft þveröfug áhrif – einfaldlega af því að þessi vilji er blindur gagnvart því sem er handan við mörk sérgreinar hans eða starfs, af því að hann einblínir á það sem liggur beinast við og misskilur þess rétta eðli, sem einungis er hægt að skýra í víðara samhengi. Orð Nýja testamentisins, „þeir vita ekki hvað þeir gjöra“ eiga einungis við illvirkja. Ef þessi orð eiga ekki að gilda fyrir mannkynið allt má ekki einskorða hugsunina við sérfræði og það að læra eitthvert nytsamlegt starf – slík hugsun lýtur þeim efnislegu og vitsmunalegu forsendum sem alla jafna teljast sjálfsagðar og sem þröngva mannlegum tilgangi inn í þau hversdagslegu tengsl sem verða til og er viðhaldið nánast í blindni.

[IV.]

Þess var áður getið að ávallt ríkti spenna milli heimspekinnar og veruleikans og að sú spenna væri ekki sambærileg við það andstreymi sem vísindin mæta stundum af hálfu samfélagsins. Ástæða þess er sú að heimspekileg hugsun er ekki endaslepp, heldur freistar hún þess að ná haldi á öllum þeim þáttum tilverunnar sem yfirleitt er litið á sem óviðráðanleg öfl eða eilífi lögmál. Í réttarhöldunum yfir Sókratesi var einmitt um þetta að tefla. Gegn þeirri kröfu að hlýðnast hinum guðlegum siðaboðum og laga sig skilyrðislaust að fornhelgum hefðum, hélt hann því fram að mennirnir ættu að gera sér ljósa grein fyrir forsendum breytni sinnar og ráða örlögum sínum sjálfir. Guð mannsins byggi í honum sjálfum, nefnilega í skynsemi hans og vilja. Nú á tímum er ekki lengur deilt um guði í heimspekinni, en heimsástandið er ekki síður alvarlegt en á dögum Sókratesar. Við féllumst á þetta ástand, ef við kysum að halda því fram að sættir hefðu tekist milli skynseminnar og veruleikans og sjálfræði manna væri tryggt í nútímasamfélagi. Heimspekinni er ekki síður færst að fella neinn slíkan dóm og einmitt þess vegna er hún ekki síður mikilvæg nú en fyrrum.
Af þessum ástæðum verða umræður í heimspeki, jafnvel þótt þær varði einungis sjálft heimspekihugtakið, svo miklu róttækari og miskunnlausari en í vísindunum. Andstætt öðrum fræðigreinum er starfssvið hennar ekki glöggt afmarkað í viðtekinni samfélagsskipan. Sú skipan mála sem þar ríkir og það gildismat, sem tengist ríkjandi ástandi, eru meðal viðfangsefna heimspekinnar sjálfrar. Vísindin eru fær um að byggja kenningar sínar á staðreyndum sem vísa þeim veginn. Heimspekin hefur hins vegar aldrei annað en sjálfa sig og sín eigin fræði til viðmiðunar. Það er sýnu meira mál fyrir heimspekina að ákvarða viðfang sitt en fyrir hinar einstöku vísindagreinar, jafnvel þótt þær á okkar tímum gefi snöggtum meiri gaum að aðferðafræðilegum vandamálum en áður var. Að framansögðu má ljóst vera hvers vegna heimspekin hefur leikið mun stærra hlutverk í lífi Evrópubúa en meðal Ameríkumanna. Landvinningar, að viðbættum sérstökum sögulegum aðstæðum, hafa haft það í för með sér að ákveðnar deilur og átök, sem hvað eftir annað blossuðu upp vegna ríkjandi samfélagshátta í Evrópu, gerðu minna vart við sig í Ameríku, enda fór mest orka manna þar í að nema land og sinna daglegum verkum. Öll hin helstu vandamál þar voru framan af leyst a hagnýtan hátt og sú spenna, sem við sérstakar sögulegar aðstæður hefur orðið driffjöður fræðilegrar hugsunar, skipti þar yfirleitt sáralitlu máli. Í samanburði við rannsóknir og uppsöfnun staðreynda, hefur fræðileg hugsun jafnan setið á hakanum í Ameríku. Hvort sem þessi iðja fullnægir þeim kröfum sem einnig hér eru með réttu gerðar til þekkingarinnar, er vandamál sem ekki er hægt að reifa að sinni.
Þær skilgreiningar ýmissa seinni tíma höfunda, svo sem þeirra sem vitnað var til hér að framan, leiða tæpast í ljós þær eigindir heimspekinnar sem skilja hana frá öllum sérgreinum vísinda. Ófáir heimspekingar hafa litið öfundaraugum til starfsbræðra sinna í öðrum fræðum, sem eru mun betur settir að því leyti að þeir hafa skýrt afmarkað starfssvið og sinna störfum sem enginn efast um að séu nytsamleg fyrir samfélagið. Þessir höfundar rembast við að „selja“ heimspekina sem sérstaka vísindagrein, eða alltént að sýna fram á að hún sé notadrjúg fyrir ýmsar aðrar greinar. Í þessu gervi er heimspekin ekki lengur gagnrýnandinn, heldur ambátt vísindanna og samfélagsins í heild. Þetta sjónarmið nærist á þeirri skoðun að sú hugsun sé ómöguleg sem ekki heldur sig innan þess fræðilega ramma sem ríkir í vísindum og freistar þess að skyggnast lengra en sjóndeildarhringur núverandi samfélags nær. Hugsuninni beri fremur að auðsýna lítillæti og þiggja með þökkum þau verkefni sem upp koma vegna síbreytilegra þarfa stjórnsýslu og iðnaðar og leysa þau eftir viðurkenndum reglum. Spurningar einsog þær hvort þessi verkefni séu – með tilliti til forms þeirra og innihalds – til nokkurrar þurftar á okkar tímum, hvort sú samfélagsgerð sem elur þau af sér sé mannkyninu samboðin – slíkar spurningar eru í augum þessara lítillátu heimspekinga hvorki vísindalegar né heimspekilegar, heldur hljóti hver og einn að svara þeim í samræmi við skoðanir sínar og gildismat. Svör við þeim séu smekksatriði og fari eftir skapgerð hvers og eins. Eina heimspekilega afstaðan sem felst í þessu sjónarmiði er það neikvæða viðhorf að engin raunveruleg heimspeki sé til, að fræðileg hugsun megi sín einskis gagnvart örlagaríkustu vandamálum mannlegrar tilveru, í stuttu máli: heimspekileg efahyggja og tómhyggja.

[V.]

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að aðgreina umrædda afstöðu til heimspekinnar frá annarri sem finna má í verkum ýmissa félagsfræðinga nútímans. Þeir leggja heimspekina að jöfnu við hugmyndafræði og félagslegt hlutverk hennar.4 Samkvæmt þessari kenningu er heimspekileg hugsun, eða réttara sagt hugsunin sem slík, tjáning á ákveðnum félagslegum aðstæðum. Sérhver samfélagshópur, t.a.m. þýsku „júnkararnir“, skapi sitt eigið hugtakakerfi sem samræmist félagslegri stöðu þeirra, sem og ákveðnar aðferðir og hugsunarstíl. Öldum saman hafi líf „júnkaranna“ dregið dám af sérstökum erfðareglum. Tengsl þeirra við konungsvaldið, sem yfir þeim drottnaði, svo og við undirsáta þeirra, hafi borið sterkan svip af erfðaveldi. Af þessu leiddi að hin náttúrulegu og reglubundnu kynslóðaskipti, hið náttúrulega ferli, var allsráðandi í hugsun þeirra. Þeir hafi skoðað allt undir sjónarhorni hins lífræna og hinna náttúrulegu tengsla. Hin frjálslynda borgarastétt, sem átti allt sitt undir velgengni í viðskiptum og lært hafði af reynslunni að peningar væru samnefnari allra hluta, hafi á hinn bóginn tileinkað sér sértækari og vélrænni hugsunarhátt. Heimspeki hennar og þankagangur einkennist ekki af stigveldi heldur af flatri framsetningu. Sama gildi um aðra hópa bæði fyrr og síðar. Heimspeki Descartes verði t.a.m. að skoða með tilliti til þess, hvort hugtök hennar svari fremur til aristókratískra og jesúistískra hópa við hirðina, embættisaðalsins, eða til hugmynda hinnar lægri borgarastéttar og lágstéttanna. Sérhvert hugsunarform, öll verk heimspekinnar og annarra menningargreina, tilheyri ákveðnum samfélagshópi sem ali þau af sér og þau séu þarmeð órjúfanlega samtvinnuð tilveru hans. Hver einasta hugsun sé „hugmyndafræði“.
Þetta sjónarmið hefur tvímælalaust nokkuð til síns máls. Margar þær hugmyndir sem útbreiddar eru á okkar dögum reynast ekki annað en blekkingar þegar þær eru raktar til samfélagslegs uppruna síns. En það nægir hinsvegar ekki að eigna þær einhverjum tilteknum samfélagshópi, einsog fyrrnefnd félagsfræðikenning gerir. Menn verða að skyggnast dýpra og rekja þær til þeirrar sögulegu þróunar sem umræddir samfélagshópar eru sjálfir sprottnir úr. Við skulum taka dæmi. Í heimspeki Descartes gegnir hin vélræna, eða öllu heldur stærðfræðilega hugsun, mikilvægu hlutverki. Það er jafnvel unnt að halda því fram að öll þessi heimspeki byggist á alhæfingu stærðfræðilegrar hugsunar. Okkur er að sjálfsögðu í lófa lagið að leita uppi samfélagshóp sem í hugsun dregur dám af fyrrnefndum skoðunarhætti og eflaust myndum við líka finna slíkan hóp í samtíð Descartes. Erfiðara en um leið nær réttu lagi væri að kanna framleiðsluhætti þeirra tíma og sýna hvernig einstaklingur úr upprennandi borgarastétt var til þess knúinn vegna starfa sinna í verslun og handiðju að ástunda nákvæmt reikningshald, ef hann vildi treysta og efla samkeppnisstöðu sína á markaðnum. Hið sama gilti um þá sem voru eins konar umboðsmenn hans í vísindum og tækni, en uppgötvanir þeirra og önnur vísindastörf höfðu mikla þýðingu í þeirri linnulausu baráttu milli einstaklinga, borga og þjóða, sem setti mark sitt á nýöldina. Það var sjálfsagt mál fyrir alla þessa einstaklinga að skoða heiminn undir sjónarhorni stærðfræðinnar. Og vegna þess að umrædd stétt varð í tímans rás dæmigerð fyrir samfélagsheildina, breiddist þessi skoðunarháttur langt út fyrir raðir borgarastéttarinnar sjálfrar. Skýringar félagsfræðinnar eru ófullnægjandi. Við þörfnumst miklu fremur víðtækrar söguskoðunar. Að öðrum kosti er hætt við að við tengjum mikilsverðar heimspekikenningar við þýðingarlitla samfélagshópa eða þá sem ekki skipta sköpum, ellegar rangtúlkum mikilvægi ákveðins hóps og þar með heildarsamhengi viðkomandi menningar. En það er samt ekki sú mótbára sem þyngst er á metunum í þessu sambandi. Þegar hið staðlaða hugmyndafræðiúrtak er notað um alla hugsun þá hvílir það, þegar allt kemur til alls, á þeirri hugmynd að ekki sé til neinn heimspekilegur né yfirhöfuð nokkur sannleikur, að öll hugsun sé rígbundin þeim aðstæðum sem menn lifa við. Þannig séu ákveðnar hugsunaraðferðir og niðurstöður sérkenni hverrar stéttar og hafi einungis gildi fyrir viðkomandi stétt. Þesskonar viðhorf til heimspekilegra hugmynda gerir alls ekki ráð fyrir að unnt sé að rannsaka þær á hlutlægan hátt; það felur jafnframt í sér algert skeytingarleysi gagnvart hagnýtu gildi þeirra og takmarkast við meira eða minna flókna niðurröðun hugmyndanna eftir samfélagshópum. Þetta á svo að fullnægja kröfum heimspekinnar. Við sjáum hæglega að umrædd félagsfræðikenning, sem hefði það reyndar í för með sér, ef menn fylgdu henni eftir, að heimspekin legði upp laupana sem slík og rynni saman við félagsfræði, er ekkert annað en endurtekning þeirrar efahyggju sem gagnrýnd var hér að framan. Henni er ekki í mun að bregða birtu á samfélagslegt hlutverk heimspekinnar, heldur gegnir hún sjálf einfaldlega því hlutverki að draga allan mátt úr framsýnni hugsun og stemma stigu við áhrifum hennar.

[VI.]

Hið sanna samfélagshlutverk heimspekinnar er fólgið í gagnrýni á ríkjandi ástand. Það þýðir ekki neitt yfirborðskennt nöldur um einstaka hugmyndir eða aðstæður, líkt og heimspekingurinn væri ekki annað en skoplegur sérvitringur. Það þýðir ekki heldur að heimspekingurinn kvarti og kveini yfir einstökum misfellum og bendi á leiðir til úrbóta. Höfuðmarkmið slíkrar gagnrýni er að koma í veg fyrir að menn glati sér í þeim hugmyndum og þeirri breytni sem núverandi samfélagsskipan þröngvar upp á þá. Menn eiga að öðlast skilning á samhenginu milli starfsemi sinnar sem einstaklinga og þess sem hún leiðir af sér, milli sinnar eigin tilvistar og samfélagsins í heild, milli hversdagslegra fyrirætlana sinna og þeirra háleitu hugmynda sem þeir aðhyllast. Heimspekin afhjúpar þá mótsögn sem menn eru flæktir í, þar eð þeir eru neyddir til þess að styðjast við sundurlausar hugmyndir og hugtök í hversdagslífinu. Það sem hér er átt við skýrist af því sem nú fer á eftir. Markmið vestrænnar heimspeki í sinni fyrstu fullsköpuðu mynd hjá Platoni var að hafna einsýnum viðhorfum og upphefja þau í víðtækara og sveigjanlegra hugsanakerfi sem félli betur að veruleikanum. Í hverri samræðunni af annarri sýnir Sókrates hvernig viðmælendur hans flækja sig án afláts í mótsögnum þegar þeir halda of fast við sín einsýnu sjónarmið. Lærimeistarinn sýnir fram á að ein hugmynd leiðir óhjákvæmilega til annarrar, því að hver einstök hugmynd getur aðeins haft merkingu í heildarsamhengi hugmyndanna. Lítum t.d. á samtalið um eðli hugrekkisins í samræðunni Laches. Þegar viðmælandi meistarans hamrar á þeirri skilgreiningu að hugrekki felist í því að leggja ekki á flótta úr orustu, leiðir Sókrates honum fyrir sjónir að við ákveðnar aðstæður sé slíkt háttalag engin dygð, heldur fífldirfska – t.d. þegar allur herinn hörfar og einn maður ætlar sér að sigra óvinina. Hið sama gildir um það sem kallað er sófrosyne og gróflega væri hægt að þýða með „hófsemi“ eða „nægjusemi“. Sófrosyne er tvímælalaust dygð. En hún verður hinsvegar afar hæpin ef hún er gerð að einasta markmiði athafnanna og ekki byggð á þekkingu allra annarra dygða. Hana er einungis auðið að skilja sem einn lið í breytni sem í heild sinni er rétt. Svipuðu máli gegnir um réttlætið. Góður vilji, viljinn til að breyta réttlátlega, er í eðli sínu fagur. En þessi huglæga viðleitni hrekkur ekki til. Þær athafnir geta ekki kallast réttlátar sem sprottnar eru af góðum ásetningi en missa algerlega marks í framkvæmd. Þetta gildir jafnt um framtak einstaklinga og ríkisins. Sérhver aðgerð getur orðið til bölvunar, þrátt fyrir góðan ásetning frumkvöðuls hennar, ef hún er ekki byggð á víðtækri þekkingu og er í samræmi við aðstæður. Það sem er – strangt tekið – lagalega rétt, getur orðið argasta óréttlæti, segir Hegel í líku samhengi. Í framhaldi af því má minna á samlíkingu sem fyrir kemur í samræðunni Gorgías: iðnir bakarans, kokksins og skraddarans eru afar gagnlegar sem slíkar. En þær geta orðið skaðlegar einstaklingum og mannkyninu öllu, ef ekki er tekið tillit til heilbrigðissjónarmiða. Hafnir, skipasmíðastöðvar, borgarmúrar og skattar eru í sama skilningi nytsamleg fyrirbæri. Sé almannaheill hinsvegar ekki höfð að leiðarljósi, geta þessir nauðsynlegu þættir öryggis og velferðar orðið að eyðileggingaröflum.
Þesskonar fyrirbæri mátti reyndar greina á millistríðsárunum í Evrópu, þegar stjórnlaus ofvöxtur varð á einstökum sviðum samfélagsins: risavaxnar framkvæmdir, gífurleg skattabyrði, hrikalegur vöxtur herja og vígbúnaðar, kúgandi agi, einhliða ástundun náttúruvísinda o.s.frv. Í stað skynsamlegrar skipulagningar á innri og ytri málefnum ríkisins, kom til örrar útþenslu á einstökum sviðum siðmenningarinnar á kostnað heildarinnar. Andstæður mögnuðust og það varð mannkyninu örlagaríkt. Sú krafa Platons að heimspekingar stjórni ríkinu þýðir ekki að slíkir stjórnendur skuli valdir úr hópi þeirra sem semja kennslubækur í rökfræði. Faghugsun þekkir ekkert annað en gróðann í viðskiptalífinu, ekkert nema valdbeiting á hernaðarsviðinu og jafnvel í vísindum ekkert annað en árangur innan einstakra greina. Sé slíkri þröngsýni ekki haldið í skefjum, þá leiðir hún til allsherjarglundroða í samfélaginu. Í augum Platons jafngilti heimspekin þeirri viðleitni að sameina hin margvíslegu öfl og greinar þekkingar á þann veg að þessir þættir, sem einir og sér geta verið skaðlegir, bæru í sameiningu ríkulegan ávöxt. Að þessu miðaði krafa hans um að heimspekingar færu með völdin. Þess vegna hafði hann illan bifur á vinsælum skoðunum, sem einskorðast við tilteknar hugmyndir, þótt þær geti reyndar átt rétt á sér um stundarsakir. Skynsemi hrærist í kerfi hugmyndanna. Hún fer frá einni hugmynd til annarrar og þannig er hún fær um að skilja sanna þýðingu hverrar um sig og beita henni til samræmis við mikilvægi hennar fyrir þekkinguna í heild.
Þessum díalektíska skilningi beittu hinir miklu heimspekingar sögunnar í glímu sinni við brýnustu vandamál mannlífsins. Hugsun þeirra miðaði ævinlega að því að koma skynsamlegri skipan á mannlegt samfélag. Á blómaskeiði heimspekinnar að minnsta kosti jafngilti slíkt skipulag því að hugmynd hins góða yrði gerð að raunveruleika. Þessu markmiði skyldi náð með því að gera hugtök bæði hversdagsmálsins og vísindanna skýrari og hnitmiðaðri með hjálp svonefndrar díalektíkur, svo og með því að ala einstaklingana upp til réttrar hugsunar og breytni. Þótt Aristóteles líti svo á í Metafysika (Frumspeki) sinni að sjálfsrýni sálarinnar og fræðileg sýn á heiminn jafngildi hinni æðstu gæfu, segir hann þó afdráttarlaust að slík hamingja sé einungis hugsanleg við ákveðnar efnislega forsendur, og ákveðin samfélagsleg og efnahagsleg skilyrði. Platon og Aristóteles deildu ekki með Anisþenesi og Kýníkerum þeirri skoðun að skynsemin væri fær um að taka sífelldum framförum hjá mönnum sem lifðu hundalífi í orðsins fyllsta skilningi, né heldur að viska og veraldleg eymd gætu haldist í hendur. Réttlátt samfélag var í þeirra augum nauðsynleg forsenda fyrir þroska andlegra hæfileika manna og þessi hugmynd er undirstaða allrar vestrænnar mannúðarstefnu (húmanisma).

[VII.]

Sá sem leggur sig eftir að skilja seinni tíma heimspeki, ekki bara af yfirborðskenndum handbókum, heldur með því að sökkva sér sjálfur ofan í sögu hennar, mun komast að raun um að samfélagsvandinn er ein mikilvægasta driffjöður hennar. Í því sambandi nægir að minna á Hobbes og Spinoza. Tractatus theologico-politicus var eina höfuðritið sem út kom eftir Spinoza meðan hann lifði. Djúptæk greining á verkum annarra hugsuða, svosem Leibniz og Kants, leiðir í ljós að samfélagsleg og söguleg frumhugtök liggja einmitt til grundvallar sértækustu köflunum í verkum þeirra, köflum er heyma kenningar um frumspeki og forskilvitlega rökfræði. Án þessara frumhugtaka eru þau vandamál, sem umræddir höfundar reyndu að leysa, bæði óskiljanleg og óleysanleg. Ítarleg greining á því sem raunverulega dylst að baki hreinfræðilegum vandamálum heimspekinnar er þess vegna eitt af forvitnilegustu verkefnum nútímarannsókna á sögu hennar. Slík athugun á reyndar lítið skylt við þær yfirborðslegu tilraunir félagsfræðinnar til að skýra tengsl heimspeki og veruleika, sem áður var vikið að. Svipuð verkefni bíða reyndar jafnframt lausnar á sviði bókmennta- og listasögu.
Að frátöldu því mikilvægi sem rannsókn samfélagslegra vandamála gegnir bæði leynt og ljóst í heimspekinni, skal enn einu sinni undirstrikað að samfélagslegt hlutverk hennar er ekki fyrst og fremst fólgið í slíkum rannsóknum, heldur í því að efla gagnrýna og díalektíska hugsun. Heimspekin er skipuleg og þrjóskufull viðleitni til að greiða veg skynseminnar í heiminum. Þess vegna er staða hennar jafn tvísýn og umdeild og raun ber vitni. Hún er óþæg, óbilgjörn og kemur að engum beinum notum, hún er mönnum semsagt til skapraunar. Hún getur hvorki státað af viðurkenndri mælistiku á árangur sinn, né neinum óvéfengjanlegum sönnunum. Staðreyndarannsóknir eru vissulega krefjandi, en þar vita menn þó að minnsta kosti að hverju þeir ganga. Á hinn bóginn forðast menn yfirleitt í lengstu lög að takast á við flókin og ruglingsleg vandamál sjálfra sín vegna og annarra; slíkt vekur hjá mönnum kvíða og ugg. Í verkaskiptu samfélagi nútímans er slíkum vandamálum beint til heimspekinga eða guðfræðinga. Ellegar menn hugga sig við þá tilhugsun að örðugleikarnir líði hjá og þegar öll kurl komi til grafar, þá sé allt einsog það á að vera. Síðasta öld evrópskrar sögu hefur þó sýnt með óyggjandi hætti að hversu öruggir sem menn þykjast vera, eru þeir þó ófærir um að búa sér lífsskilyrði í samræmi við hugmyndir sínar um mennskuna (Humanität). Gljúfur er á milli þeirra hugmynda, sem þeir byggja á dóma sína um sjálfa sig og heiminn, og þess félagslega veruleika, sem þeir endurskapa með athöfnum sínum. Þess vegna eru hugmyndir manna og skoðanir bæði tvíræðar og rangsnúnar. Á okkar tímum ramba þeir á barmi ógæfunnar, eða eru þegar fallnir ofaní hyldýpið. Í mörgum löndum eru menn svo lamaðir vegna nálægðar villimennskunnar að þeir eru nærri óhæfir til að taka á sig rögg og gera eitthvað sjálfum sér til bjargar. Þeir eru einsog kanínur andspænis hungruðum merði. Kannski geta menn stundum komist af án gagnrýninnar heimspeki; vöntun á slíkri heimspeki niðurlægir hinsvegar mennina nú um stundir og gerir þá berskjaldaða gagnvart ofbeldinu. Sú staðreynd að ákveðin kenning getur orðið að blóðlausri og innantómri hughyggju eða afskræmst í þreytulegt og merkingarlaust slagorðagjálfur, þýðir ekki að þetta séu hennar sönnu myndir (hvað leiðindi og flatneskju varðar, þá finnu heimspekin slíkt mun oftar í svonefndum staðreyndarannsóknum). Á þeim tímum sem við nú lifum hefur framvinda sögunnar skipað heimspekinni í brennidepil samfélagsveruleikans og samfélagsveruleikanum sömuleiðis í brennidepil heimspekinnar.
Vert er að gefa sérstakan gaum þeim mikilvægu umskiptum sem orðið hafa í þessu efni frá tímum hinnar sígildu fornaldar. Platon hélt því fram á Eros (ástarhvötin) gerði hina vitru hæfa til að öðlast þekkingu á frummyndunum. Þannig tengdi hann þekkinguna ákveðnu siðferðilegu eða sálrænu ástandi, sem í grundvallaratriðum getur verið til staðar á hvaða sögulega tíma sem er. Þess vegna leit hann jafnframt svo á að ríkishugmynd sín væri ekki bundin við ákveðin söguleg skilyrði, heldur væri þar um að ræða eilífa skynsemishugsjón. Samræða Platons um lögin (Nomoi) var í raun málamiðlun, tímabundið millistig, sem á engan hátt hnikaði hinni eilífu skynsemishugsjón. Ríki Platons er staðleysa (útópía) í líkingu við þær sem útmálaðar hafa verið allt frá byrjun nýaldar og framá okkar daga. En útópían er ekki lengur það form sem hæfir heimspekilegri umfjöllun um samfélagsvandann. Menn hafa gert sér ljóst að mótsagnir hugsunarinnar verða ekki leystar með hreinni fræðilegri íhugun. Þar þarf að koma til ákveðin söguleg þróun sem við getum ekki hlaupið frá hugsuninni einni. Þekking á sér ekki einungis sálfræðilega og siðferðilegar forsendur, heldur jafnframt samfélagslegar. Það er hvorki skynsamlegt né fullnægjandi að lýsa fullkomnu stjórnarfari og byggja slíka lýsingu á hugmyndum einum.

[VIII.]

Í stað útópíunnar sem hátinds allra heimspekikerfa kemur því fræðileg lýsing á þeim raunverulegu aðstæðum og tilhneigingum sem geta leitt til betra mannlífs. Þetta hlýtur að hafa víðtæk áhrif á innviði og þýðingu heimspekinnar. Nútímaheimspeki tekur undir það háleita sjónarmið heimspekinga fornaldar að þroskamöguleikar mannkynsins séu miklir og bjartsýni sé réttlætanleg með tilliti til þeirra hæfileika sem mennirnir búa yfir. Mestu hugsuðir sögunnar vísa þeirri staðhæfingu alsskostar á bug að menn séu í eðli sínu óhæfir til að lifa góðu lífi og búa sér ákjósanlegustu samfélagsaðstæður. Í því sambandi nægir að minna á hin fleygu orð Kants um útópíu Platons: „Ríki Platons hefur löngum verið haft í flimtingum sem dæmigerðir draumórar um fullkomið samfélags, sem einungis geti þrifist í heilabúi hins veruleikafirrta hugsuðar. Brucker þótti skoplegt að heimspekingurinn héldi því fram að aldrei myndi þjóðhöfðingi vera góður stjórnandi nema hann hefði eignast hlutdeild í frummyndunum. Það væri þó fremur við hæfi að fylgja þessari hugsun eftir og freista þess (þarsem hinn ágæti hugsuður lætur staðar numið) að varpa á hana nýju ljósi en að ýta henni til hliðar undir því eymdarlega yfirskini að hún sé einfaldlega óframkvæmanleg . . . Því ekkert er skaðlegra og heimspekingi ósamboðnara heldur en hin lágkúrulega tilvísun til reynslu sem talin er ganga í berhögg við slíka hugsun, reynslu sem alls ekki væri til ef ráðstöfunum væri á réttum tíma hagað eftir frummyndunum en ekki hráum hugtökum sem – einmitt vegna þess að þau eru smíðuð úr reynslu – gera allan góðan ásetning að engu.“5
Allt frá dögum Platons hefur heimspekin verið þ´vi sjónarmiði hughyggjunnar trú að unnt sé að gera skynsemina heimakomna meðal manna og þjóða. Hún hefur einungis hafnað þeirri fölsku hughyggju sem lætur sér nægja að halda á loft hugmynd fullkomleikans án þess að skeyta nokkuð um það hvernig unnt sé að gera þessa hugmynd að veruleika. Í veröld nútímans er trúnaður við hinar æðstu hugsjónir, andspænis heimi sem forsmáir þær, órjúfanlega bundinn þeirri allsgáðu ósk að efla megi skilning manna á þeim forsendum sem nauðsynlegar eru til að gera fyrrnefndar hugsjónir að veruleika á jörðu.
Víkjum nú enn, áður en yfir lýkur, að ákveðnum misskilningi sem áður hefur verið minnst á. Ólíkt því sem tíðkast í stjórnmálum og viðskiptum, táknar gagnrýni í heimspekinni ekki fordæmingu þess sem gagnrýnt er, ekki skammir um hinar og þessar athafnir, né heldur eintóma höfnun og frávísun. Að vísu getur gagnrýnin verið mjög neikvæð við vissar aðstæður. Þess finnast dæmi á hellenskri tíð. Það sem hér er átt við með orðinu gagnrýni er sú sífellda viðleitni í hugsun og verki að gleypa ekki án íhugunar og af sljóum vana við ríkjandi hugmyndum, hegðunarmynstri og samfélagsaðstæðum. Það er sú viðleitni að koma á samræmi milli einstakra hliða mannlífsins og tengja þær almennum hugsjónum og markmiðum samtímans. Þessu fylgir að komast fyrir uppruna fyrrnefndra hugsjóna og markmiða, greina milli yfirborðsins og þess sem undir býr og rannsaka undirstöðurnar; í stuttu máli að öðlast raunverulegan skilning á veruleikanum. Þótt Hegel hafi kennt okkur margt var andúð á þeim sérstöku þjóðfélagsaðstæðum sem hann lifði svo fjarri honum, að Prússakonungur kallaði hann til Berlínar til að innræta stúdentum hlýðni við yfirvöld og gera þá ónæma fyrir pólitísku andófi. Hegel lagði sig allan fram að þessu leyti og lýsti því yfir að prússneska ríkið væri „veruleiki siðgæðishugsjónarinnar“. En vegir hugsunarinnar geta verið sérkennilegir. Til að kenna nemendum sínum að sigrast á einsýni og takmörkunum hversdagslegrar skynsemi og efla með þeim skilning á gagnkvæmum tengslum hugsunar og veruleika. Að auki varð hann að kenna þeim að skilja flókna og mótsagnakennda gerð sögunnar, grafast fyrir hugmyndir um frelsi og réttlæti í lífi þjóða og átta sig á að þjóðfélög líða undir lok þegar grundvallarlögmál þeirra eru úr sér gengin og skapast hefur frjór jarðvegur fyrir ný samfélagsform. Sú staðreynd að Hegel varð að skóla nemendur sína í heimspekilegri hugsun hafði þegar fram í sótti tvíbentar afleiðingar fyrir prússneska ríkið. Þegar til lengdar lét reyndist þessi tilsögn skaðlegri fyrir hið afturhaldssama ríki en sú gagnsemi sem hlaust af því formlega lofi sem á það var borið. Skynsemin er veikur bandamaður afturhaldsins. Ekki voru tíu ár liðin frá dauða Hegels (óskipað var í embætti hans þann tíma), þegar Prússakonungur kallaði til eftirmann til þess að uppræta „drekasæði hinnar hegelsku algyðistrúar“ og berjast gegn „uppvöðslusemi og ofstæki lærisveina hans“.
Því verður ekki haldið fram að þeir heimspekingar sögunnar hafi í raun verið framsæknastir sem gagnrýndu flest og glaðbeittastir veifuðu einhverskonar stefnuskrám. Svo einfalt er málið ekki. Heimspekikenningar eru jafnan marghliða og hver þessara hliða getur haft hin aðskiljanlegustu söguleg áhrif. Það gerist ekki nema á mjög óvenjulegum tímum, eins og á dögum frönsku upplýsingarinnar, að heimspekin verði beinlínis að pólitísku baráttutæki. Á því tímabili tengdu men orðið heimspeki ekki einkum við rökfræði og þekkingarfræði, heldir við árásir á klerkaveldi og ómannúðlegt réttarfar. Með útrýmingu ákveðinna fordóma opnaðist raunveruleg sýn á nýjan og betri heim. Hefð og trú voru tvö máttugustu varnarvirki hins gamla stjórnarfars (ancien régime) og atlögur heimspekinnar voru beinlínis sögulegar athafnir. Á okkar tímum skiptir það ekki lengur sköpum að veitast að trúnni. Í alræðisríkjunum, þar sem hetjuskap og háleitri lífsskoðun er freklegast haldið að mönnum, eru hvorki trú né nokkur lífsskoðun allsráðandi, heldur dapurleg meðalmensska og alger doði einstaklinga andspænis örlögum sínum og öllu því sem að ofan kemur. Mikilvægasta verkefnið á okkar tímum er að tryggja að hæfileikinn til fræðilegrar hugsunar og þeirrar breytni sem henni fylgir, glatist ekki framar, ekki heldur á friðartímum síðar meir þegar hlekkir vanans kunna að sljóvga menn og gera þá gleymna á þann stóra vanda sem samtíð okkar á við að etja. Við verðum að berjast fyrir því að geigvænlegir atburðir samtíðarinnar dragi ekki allan kjark úr mannkyninu, að trúin á mannsæmandi, friðsamlegt og hamingjuríkt samfélag framtíðarinnar hverfi ekki af jörðinni.
(1940)

Þýðendur Arthúr Björgvin Bollason
og Þröstur Ásmundsson

Tilvísanir

1. Bertrand Russell, „Logical Atomism“ í Contemporary British Philosophy, útg. J.H. Muirhead, I, 1925, bls. 379.
2. L.T. Hobhouse, „The Philosophy of Development“, sama rit, bls, 152.
3. S. Alexander, Space, Time, and Deity, 1. bd., London 1920, bls. 4.
4. Sjá Karl Mannheim, Ideologie und Utopie, Bonn 1929.
5. I. Kant, Kritik der reinen Vernunft, A 316 og áfr.; B 372 og áfr.

« Til baka