Færslusöfn

Póststrúktúralismi, marxismi, femínismi: Að valda usla eða leita að höfuðmóthverfu?

eftir Ingólf Ásgeir Jóhannesson

Fyrirlestur fluttur á málstefnu Sagnfræðingafélags Íslands Póstmódernismi – hvað nú? þann 13. október 2000, sem haldin var í tengslum við hugvísindaþing 2000. Birtist einnig á Kistunni.

Af hverju póststrúktúralismi?

 

Ég ætla að byrja á því að segja ykkur af hverju erindið mitt hefur orðið póststrúktúralismi í titlinum. Það eru tvenns konar ástæður. Önnur er sú að ég hef kynnt mér nokkuð fræðileg viðhorf sem komu á eftir strúktúralismanum og má því kalla póststrúktúralisma, eitthvað sem kemur á eftir. Þetta eru einkum hugmyndir franskra fræðimanna eins og bandarískir fræðimenn, einkum femínistar, hafa túlkað þær. Í þessum hópi er hugmyndasagnfræðingurinn Michel Foucault efstur á blaði sem gúrú póststrúktúralískra femínista, þ.e. hann er efstur á blaði þeirra sem ég hef kynnt mér, að undanskildum þó félagsfræðingnum Pierre Bourdieu sem líka hefur skilgreint mikilvæg hugtök sín sem frábrugðin strúktúralisma þótt hæpið sé að telja þau póststrúktúralísk.

Hin ástæðan er sú að mér virðast flestir þeir sem hafa áhuga á því að nota póststrúktúralískar hugmyndir til að hafa pólítísk áhrif tala um hugmyndir sínar sem póststrúktúralískar en ekki póstmódernískar. Þetta má rökstyðja enn þá betur með því að benda á að við erum enn hluti af nútímanum, módernismanum, og því getur tæpast um neinn póstmódernisma verið að ræða ennþá. Aftur á móti eru til fræðileg og pólítísk viðhorf sem koma á eftir strúktúralismanum sem væru óhugsandi án þess að til hefði verið strúktúralismi. Þess vegna getur póststrúktúralismi verið til óháð hvort póstmódernisminn er til.

Muninn á póststrúktúralisma og póstmódernisma má e.t.v. undirstrika með þeirri tilhneigingu dólgamarxista og annarra módernista að falsa orð póststrúktúralískra femínista eða annarra, og kalla hugmyndir þeirra póstmódernískar þegar viðkomandi höfundur notaði beinlínis orðið „póststrúktúralískur“ og átti við það hugtak 1. Að vísu sagði Ástráður Eysteinsson 2 í fyrirlestri að póststrúktúralisminn hefði sogast inn í póstmódernismann í upphafi þessa áratugar en jafnframt breytt honum. En ég læt það kyrrt liggja og tala um póststrúktúralisma fremur en póstmódernisma í mörgum tilvikum sem aðrir myndu láta póstmódernisma nægja. Því að pólítískt séð hefur Ástráður ekki alls kostar rétt fyrir sér – eins og ég hef útlistað.

Póststrúktúralismi og pólítísk barátta

 

Í sjálfu sér veitir póststrúktúralismi, hvort sem hann er femínískur eða marxískur eða eitthvað annað, ekki hagnýtar leiðbeiningar um skynsamlega pólítíska baráttu. Það er ekki hlutverk hans, sbr. t.d. fyrirlestur Þorgerðar Þorvaldsdóttur 4. janúar sl. um póstmódernisma og femínisma 3. Hlutverk póststrúktúralismans hefur ekki síður verið gagnrýni, nauðsynleg gagnrýni á dólgahugsunarhátt flestra marxista sem neituðu að berjast nema þeir fyndu hárrétta höfuðmóthverfu og þeirra femínista sem halda að karlar og konur séu í eðli sínu svo ólík að kynin eigi tæpast samleið í pólítískri baráttu.

En sé leitað vel í smiðjum gúrúanna frönsku, þá finnst samt ýmislegt, því að margir þessara Frakka eru, eða voru, virkir í pólítískri baráttu. Foucault 4 setti eitt sinn fram, í viðtali, fimm tesur um hvernig róttæk pólítík ætti að vera í sjón til að teljast róttæk. Hann var spurður að því af ritstjórum tímaritsins Esprit árið 1968 hvort hugsun, sem byggðist á því leita að misfellum í sögulegri þróun og takmörkunum sem kerfi leiða af sér, þýddi ekki að möguleikar á framsæknu pólítísku inngripi væru takmarkaðir: Að við værum bundin við annað af tvennu: Viðurkenningu á kerfinu eða einhvers konar óskipulegu ofbeldi til að geta breytt kerfinu.

Foucault kaus að svara hinu síðara, því að hann vildi ekki viðurkenna að kerfið gæti ekki breyst. Hann setti fram fimm atriði sem róttæk pólítík þyrfti að uppfylla. Ég ætla að tæpa á þeim:

Í fyrsta lagi: Róttæk er sú pólítík sem viðurkennir sögulegar kringumstæður og séraðstæður. Annars konar pólítík lítur á almenn gildi og frjálsan leik einstaklingsfrumkvæðis.

Í öðru lagi: Róttæk er sú pólítík þar sem leitað er að möguleikum breytinga í hinum sögulegu kringumstæðum. Annars konar pólítík lítur á algild og óhlutstæð viðmið og bíður eftir snillingi til að breyta þeim.

Í þriðja lagi: Róttæk er sú pólítík þar sem litið er á einstaklinga og viðfangsefni í margs konar samhengi þar sem hvert svið hefur eigin reglur og lögmál. Annars konar pólítík lítur á sjálfstæða vitund einstaklinga sem meginhreyfiaflið.

Í fjórða lagi: Róttæk er sú pólítík sem lítur á samhengið sem iðja fer fram í, þ.e. hvaða þættir eru líklegir til þess að öðlast gildi á tilteknum vettvangi. Sama hversu smátt er og e.t.v. mjög ólíkt eftir aðstæðum. Annars konar pólítík lítur svo á að það þurfi vekja einstaklinga af blundi ef þeir hafa ekki „rétta“ skoðun.

Í fimmta lagi: Róttæk er sú pólítík sem lítur á vísindalega orðræðu sem skapandi orðræðu í valdakerfi. Annars konar pólítík á það til að kalla eftir einhvers konar hlutleysi.

Besta dæmi þessara haustmánaða um fimmta atriðið er deila Gísla Más Gíslasonar prófessors í vatnalíffræði við þá sem vilja búa til nýjar námur í Syðri-Flóa Mývatns til viðbótar þriggja ferkílómetra námu í Ytri-Flóa 5. Hann hefur ákveðið – „áttað sig á“ myndi ég segja ef ég væri ekki að þykjast vera póststrúktúralískur – að hlutleysi vísindamannsins dugi ekki til að bjarga Mývatni. Að hann sem vísindamaður verði að leitast við að setja eigin niðurstöður í pólítískt samhengi. Að það er alveg sama hversu rækilega hann og aðrir vísindamenn sanna háskann af námuvinnslunni í Mývatni, þá finnst aldrei slíkur sannleikur um háskann af námuvinnslunni að það verði ekki pólítík sem ræður því hvort henni verður haldið áfram.

Viðmið Foucaults merkja að engin viðmið eru algild. Auðvitað ekki heldur gildi Mývatns. Gildin eru sögulegs og pólítíks eðlis. 6

Strúktúr, samsæri, sannleikur, skilningur

 

Það er að sjálfsögðu ekki neitt nýtt fyrir íslenska eða aðra sagnfræðinga að leita að sögulegum viðmiðum en ekki algildum. En e.t.v. er hér samt ný merking þess að leita að sögulegum viðmiðunum, eins og Foucault gerði með sínum „fornleifa“- eða genealógísku rannsóknum þar sem hann rakti hugmyndir til baka til þess tíma er þær öðluðust nýtt samhengi. Og það geta menn e.t.v. lært best af honum, meira en um pólítík, hvernig á að rannsaka hugmyndir, hvernig á að rannsaka þau löggildingarlögmál sem gilda á hverjum tíma og á hverjum vettvangi.

Foucault leitar ekki að földum strúktúr eins og strúktúralistar gera. Þess vegna finnst mér eðlilegt, eins og ég sagði áðan, að tala um viðhorf hans og aðferðir sem póststrúktúralisma, fremur en póstmódernisma. Nema módernisminn væri sannanlega dauður. En strúktúralistar eru ekki einir um að leita að strúktúr. Leit að földum sannleika, földu samsæri, eða algildum skilningi á sögulegum fyrirbærum er sams konar leit. Við getum sem best kallað þetta S-in fjögur: strúktúr, sannleik, samsæri, skilning.

Við sagnfræðingar leitum vissulega mikið að þessum S-um, þótt við höfum aftur á móti þessa tengingu við fortíðina sem fræði okkar snúast um – en marga vísindamenn vantar. A.m.k. við leitum við að S-unum þremur sem ég íslenskaði: Samsæri – sannleik – skilning. Við leitum síður að strúktúrnum, „algildisvélinni“.

Samt leitaði Foucault sjálfsagt að þessu öllu – en með gagnrýnu hugarfari og gagnrýnum aðferðum. Hann leitaði líka að sögulegri samsetningu þessara fyrirbæra, einkum Sannleikans. Ef til vill er Sannleikurinn lykilþátturinn í þessum S-um. Og e.t.v. er til ein mjög einföld skýring á þessu fyrirbrigði, hvort sem við köllum það sannleika, samsæri, strúktúr eða skilning. Eða réttara sagt spurning sem við eigum að spyrja: Er til eitthvert augnablik sem er „pre-discursive“? Er til heimur utan orðræðunnar – veruleiki án þess að tákna neitt? 7. Þetta er skylt spurningunni um hvort til sé atburður þar sem við gætum komist að því „hvað raunverulega gerðist“.

Epistemic reflexivity og baráttan um Mývatn

 

Hér dreg ég líka sjónarmið Bourdieus inn í. Hann hefur skilgreint hugtakið „epistemic reflexivity“. 8

Epistemic reflexivity felst í því að vísindamaður reynir ekki að finna sinn innri mann, reynir ekki að finna hvað það er sem hann skilur ekki, heldur reynir að átta sig á þekkingarfræðilegum og pólítískum forsendum fræðigreinarinnar, þekkingarfræðilegum og pólítískum forsendum orðræðunnar, forsendum þess hvað hefur gildi á hverjum vettvangi 9.

Ég treysti mér ekki til að heimfæra epistemic reflexivity á deilur Gísla Más Gíslasonar við forstjóra Kísiliðjunnar og sveitarstjóra Skútustaðahrepps. Enda er það ekki sjálfskilningur Gísla sem skiptir máli, heldur orðræðugreining á vísindum og pólítík dagsins í dag: Hefur varúðarreglan um að fara ekki út í framkvæmdir nema skaðleysi þeirra hafi verið sannað eitthvert vægi, einhvert táknrænt kapítal, í íslensku samfélagi á borð við námuvinnslunýtingu. Það er heldur ekki sjálfskilningur minn eða annarra baráttumanna gegn námuvinnslunni sem ræður úrslitum – þótt aftur á móti felist í hugtakinu epistemic reflexivity að orðræðuskilningurinn skipti máli. Og ef ég vissi hvað réði úrslitum, þá væri ég sennilega einhvers staðar að beita mér nákvæmlega í þá átt. En kannski er það ekki gagnslaust að segja ykkur glefsur úr þessari baráttusögu. Sumir þeirra sem trúa á innra gildi hluta og fyrirbrigða, þar með talið náttúrufyrirbæra, segja að það sé tilfinningin, ástin fyrir landinu sem skipti máli. Hún hafi táknrænasta gildið. Þess vegna myndum við ALDREI, sem þjóð, sætta okkur við að þrír ferkílómetrar af hrauninu á Þingvöllum yrðu grafnir niður allt að fjóra metra til að nota hraunið í ofaníburð eða e.t.v. til þess að flytja það sem byggingarefni til Þýskalands.

Ég er kominn út á hálan ís. Í þann veginn að byrja að leita algilds sannleika um baráttuna gegn námuvinnslunni úr Mývatni og þar með hætta að tala á póststrúktúralískan máta – svo að ég skal stoppa, en bara í bili, að tala um Mývatn.

Og skal fara að tala aftur um sagnfræðinga og aðferðir þeirra. Tilhneiging sagnfræðinga til að skýra frá niðurstöðum sínum sem sögum er raunar mjög gott veganesti fyrir þann póststrúktúralíska hugsunarhátt að efast um gildi alhæfinga og leita að frumlegum tengingum.

Einþráða saga, margþráða saga, stórsaga og leitin að höfuðmóthverfu

 

Ég rakst á stutta greinargerð Páls Björnssonar síðan í fyrravetur 10 þar sem hann ræðir einsögu, fjölsögu, einþráða sögu, fjölþráða sögu, margþráða sögu. Kannski ágætis líking fyrir það sem við í menntunarfræðum og kannski fleiri fræðum höfum talað um – á ensku – sem muninn á „grand“ og „small narrative“. Sigríður Þorgeirsdóttir 11 nefnir grand narrative „stórsögu“.

Að segja sögu, eins og maður sé að segja sögu: þá þarf maður að vanda sig, góður sögumaður segir yfirleitt frá forsendum sínum (ef áheyrendur þekkja ekki forsendurnar) og menn verða að meðtaka sögu hans eða hennar eins og hún er sögð. En þótt oft megi draga lærdóm af sögu, hvort heldur það er saga af atburðum gærdagsins eða saga í sagnfræðilegum skilningi, þá er ekki þar með sagt að meðtaka eigi forspárgildi stórsögunnar.

Það viðhorf marxista að leita að höfuðmóthverfu er leit að slíkri einþráða sögu með forspárgildi, grand narrative, stórsögu; strúktúr, samsæri, sannleika, skilningi. Með póststrúktúralísku orðalagi, þá er verið að leita að uppsprettu valds á EINUM stað, ekki því valdi sem er eins og net. Valdi sem dreifist út um allt og hefur jafnvel ekki uppsprettu.

Ég er sennilega ekki nógu póststrúktúralískur samt til að trúa því að það séu hvergi staðir í þessu neti þar sem samþjöppun valds er meiri en annars staðar, t.d. hjá kolkrabbanum.

Reyndar er kolkrabbalíkingin stórgóð fyrir póststrúktúralíska túlkun á valdi. Kolkrabbinn teygir angana og umvefur, á líkan hátt og póststrúktúralísk valdslíking. Líkast til er þó einhvers staðar miðpunktur, einhvers konar samsæri í kolkrabbaorðræðunni. En kolkrabbi: Hann hefur ekki beinagrind, er það nokkuð? Og veit nokkur hvar er miðja hans? Og álítum við ekki yfirleitt að hann sé byggður á mafísku samsæri?

Er þá e.t.v. engin höfuðmóthverfa? Ég treysti mér ekki til að hafna því að sumar móthverfur séu mikilvægari en aðrar. Og það að vilja valda usla á þeim stað sem hann veldur andstæðingi sem mestum skaða eða maður hefur sjálfur mestan möguleika á að valda skaða er svo sem ekki andstætt því að það geti verið til höfuðmóthverfa. Það getur vel verið að þátttaka í réttindabaráttu homma og lesbía geri ekki bara hommum og lesbíum gagn, heldur líka hálendisbaráttunni eða baráttunni fyrir verndun Mývatns.

Ég ímynda mér að þetta gæti staðist af a.m.k. tveimur ástæðum: hommar, lesbíur og ég munu vinna betur hlið við hlið í Mývatnsbaráttunni ef við vinnum líka saman í réttindabaráttu þeirra og svo getur verið að tækist – fyrir báða aðila – að skapa fleiri bandamenn. Nú tek ég ekki þetta dæmi af því af því að ég geti stært mig af að hafa verið virkur í réttindabaráttu homma og lesbía, heldur til að velja að því er virðist nokkuð óskyld pólítísk markmið minnihlutahópa og minnihlutaskoðana.

En það getur líka verið að það sé þess vegna sem baráttan fyrir Mývatni er svo erfið að við sem fyrir því berjumst erum að berjast einangraðri baráttu sem of fáir virðast telja „mikilvægasta baráttumál“ ársins í ár. Því ef baráttan tapast í ár, þá er hún e.t.v. töpuð um aldur og eilífð. Sigur gæti valdið usla sem yrði gagnlegur margvíslegri annarri réttindabaráttu. En fyrir mér er samt sigur í þessu máli meira en usli en væri e.t.v. usli fyrir flestum öðrum.

Tap getur leitt til uppgjafar. A.m.k. leið mér þannig daginn í sumar sem úrskurður skipulagsstjóra féll þar sem gefin voru fyrirheit um námuvinnslu úr Syðri-Flóa. En það er ekki síst þannig sem það að setja eina baráttu í langfyrsta sæti getur verið svo varhugavert. Gildir einu hvort það er út frá marxískri greiningu á höfuðmóthverfu, ást á tilteknu náttúrufyrirbrigði og tilfinningatengslum við það eða þekkingu á vistfræði og náttúruvernd.

En er þetta, sem ég hef talað um hér, eitthvað frábrugðið samfylkingarpólítík Dimitrofs? Ekki að öllu leyti – en þó að einu leyti að því að það er enginn sjálfkrafa, sjálfskipaður forystusauður í samfylkingar- og fjölmenningarpólítík dagsins í dag. Sem þýðir þó ekki að öll baráttumál séu jafnmikilvæg eða að það sé engin móthverfa annarri skýrari. Ef þetta er „þýtt“ yfir í hvort til er algildur veruleiki, eitthvað „pre-discursive“, þá mætti spyrja um fimmta S-ið: Skipulag. Er allt tilviljunum undirorpið ef ekki er um að ræða algild lögmál, enga algilda túlkun á veruleikanum, enga stórsögu? Án þess að svara þessu, þá langar mig að spyrja: Er það e.t.v. höfuðmóthverfa dagsins í dag hvort það er fjölmenningarþjóðfélag eða ekki? Og ég svara: Pólítísk barátta ætti að miðast við að „magna“ en ekki sundra.

Ráðstefnan heitir Póstmódernismi – hvað nú? Þegar undirbúningur ráðstefnunnar hófst var ég spurður að því hvað væri eftir póst. Þá vaknar líka spurning um hvort til sé orðinn póst-póst-ismi. Svarið er skýrt og einfalt NEI. Við erum enn í nútímanum – og alheimsvæðing kapítalismans er í algleymingi, markaðsvæðing alls mannlífs, ógnarstjórn markaðsins, eins og Bourdieu 12 kallar það. Þannig að ég fæ nú ekki séð að módernisminn, og þar með ekki afsprengi hans, póstmódernismi og póststrúktúralismi, séu beinlínis að líða undir lok. Eða nauðsyn þess að nýta hvaða vopn sem er í pólítískri baráttu.

Þegar menningarlegur margbreytileiki á Íslandi eykst, þá er vert að gefa hinum bandarísku baráttuhefðum og hugmyndum byggðum á póststrúktúralisma aukinn gaum. Í titli eru nefndir póststrúktúralismi, marxismi og femínismi. Ekki af tilviljun. Heldur af því að nám mitt í póststrúktúralískum fræðum var hjá bandarískum femínismum og öðru áhugafólki um foucaultísk og gagnrýnin fræði. Sem ég varð sjálfur að sjá um að tengja evrópskum marxísma af maóísku gerðinni 13.

 

Tilvísanir

1. Giroux 1988, sjá líka Ingólf Ásgeir Jóhannesson 1992

2. 2000

3. Þorgerður Þorvaldsdóttir 2000

4. 1978, sjá ennfremur Ingólf Ásgeir Jóhannesson 1998

5. sjá t.d. Gísli Már Gíslason 2000, Gunnar Örn Gunnarsson 2000

6. Annars staðar hef ég fjallað um hugtökin framfarir og þroska út frá sögulegri tilurð þeirra, sjá Ingólfur Ásgeir Jóhannesson 1992/1998.

7. Sjá umfjöllun mína um „the discoursing of Eyjabakkar“ í rannsóknarskýrslunni Nature as Capital

8. Ég bið ykkur að fyrirgefa mér þótt ég sé ekki eins klókur í þýðingum eins og Geir Svansson þegar hann olli usla hér í nóvember í hitteðfyrra með bráðsnjöllum þýðingum á orðfæri Judithar Butler í fyrirlestri hjá Rannsóknarstofu í kvennafræðum.

9. sjá t.d. Bourdieu og Wacquant 1992

10. Páll Björnsson 2000

11. 1998

12. 1998

13. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson 1994

 

Heimildir

 

Ástráður Eysteinsson. 2000. „Hvað er í póstinum? Um eftirköst nútímans“. Fyrirlestur í fyrirlestraröðinni Hvað er póstmódernismi?. Síða lesin 21. ágúst 2000. [Ath. breytta slóð, t.d. http://www.kistan.is/greinar_fyrirlestrar.]

Bourdieu, Pierre. 1998. Acts of resistance. Against the tyranny of the market. New York, The New Press.

Bourdieu, Pierre og Loïc J. D. Wacquant. 1992. An invitation to reflexive sociology. Chicago, The University of Chicago Press.

Foucault, Michel. 1978. „Politics and the study of discourse“. Ideology and consciousness 6:5–21.

Giroux, Henry A. 1988. „Postmodernism and the discourse of educational criticism“. Journal of education 170,3:5–30.

Gísli Már Gíslason. 2000. „Kísiliðjan og Mývatn – Hvers vegna fer þetta tvennt ekki saman?“ Morgunblaðið 28. september, bls. 48–49.

Gunnar Örn Gunnarsson. 2000. „Vísindin og Mývatn“. Morgunblaðið 30. september, bls. 50.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1994. „Farm boy from the edge of the arctic and the seduction of feminist fedagogy in the American academia“. Gender and education6:293–306

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1992. „Capable of resisting and entitled to lead: on the historical conditions of the neo-Marxist educational discourse“. Educational policy 6:298–318.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1992/1998. „Framfarir og þroski: Sögulegar hugsmíðar, afsprengi orðræðu“. Litast um af Hjallhól – vefútgáfa greina og erinda, 1981–1998.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. 1998. „Genealogy and progressive politics: Reflections on the notion of usefulness“. Foucault’s challenge. Discourse, knowledge, and power in education (ritstj. Thomas S. Popkewitz og Marie Brennan), bls. 297–315. New York og London, Teachers College Press.

Páll Björnsson. 2000. „Hugleiðing um fyrirlestur Davíðs Ólafssonar“. Síða lesin 21. ágúst 2000. [Ath. breytta slóð, t.d. http://www.kistan.is/greinar_fyrirlestrar.]

Sigríður Þorgeirsdóttir. 1998. „Póstmódernismi sem heimspekilegt hugtak“. Tímarit Máls og menningar 59,3:128–140.

Þorgerður Þorvaldsdóttir. 2000. „Femínismi og póst-módernismi“. Fyrirlestur í Norræna húsinu í fyrirlestraröðinni Hvað er póstmódernismi?. Síða lesin 21. ágúst 2000. [Ath. breytta slóð, t.d. http://www.kistan.is/greinar_fyrirlestrar.]

Skylt efni: „Gjörningsuppeldisfræði og þekkingarfræðileg orðræðurýni – Rabbað um uppeldisfræði bandaríska prófessorsins Elizabeth Ellsworth í ljósi kenninga Pierres Bourdieus um þekkingarlega orðræðurýni.“ (Enskur titill: Pedagogy of the performative and epistemic reflexivity.) Rabb á vegum Rannsóknarstofu í kvennafræðum 22. febrúar 2001.

« Til baka