Færslusöfn

Rödd sérviskunnar

Inngangur

„Menn verða að kunna að nýta sér feilnóturnar í þjóðfélagssymfóníunni, koma sér fyrir á réttum stöðum, undirbúa, bjarga sér. Ekkert er eins flatt og alger samhljómur. Eitthvað verður að stinga, kljúfa heildir…“
Frændi Rameaus

„Ofvöxtur persónueinkenna á sér paradís í hálfsiðun þjóða.“
Halldór Laxness

1

Íslendingar hafa löngum skemmt sér við að segja sögur af einkennilegum mönnum. Að lýsa manni af listfengi hefur verið talinn höfuðkostur góðs sagnamanns, og þá þykir ekki verra að söguefnið sé bitastætt: athafnaskáld, sérvitringur, fyllibytta, kvenskörungur, háskakvendi.

Þessi mikli áhugi á litríkum persónum er auðvitað ekkert séríslenskt fyrirbæri þótt hann virðist hafa orðið mun lífseigari hér á landi en t.d. í Frakklandi, ættlandi þeirra kumpána sem hér eru að klæðast íslenskum búningi. Frakkar hafa vitaskuld skemmt sér við að segja sögur af skrítnum mönnum og stórkarlalegum, og nægir þar að minna á persónugallerí Rabelais1 og skáldsöguna Jakob forlagasinni og meistari hans2 eftir Diderot, svo ég nefni tvö dæmi um bækur sem hafa nýverið komið út á íslensku.

Í Frænda Rameaus er þó ekki eingöngu verið að lýsa skringimenni skemmtunarinnar vegna, þótt það saki auðvitað ekki að hann er skrautlegur karakter, heldur notar Diderot hann í aðra röndina sem átyllu til að gagnrýna samtíma sinn, franskt samfélag 18. aldarinnar, sýna fram á það hvernig offágun og ofsiðun eru ekkert annað en lygi og hræsni, oft hættuleg. Sérvitringurinn er ekki einnar stéttar maður, heldur er honum hampað við borð hinna ríku einn daginn en varpað á dyr og verður að betla sér til framfæris næsta dag. Þar af leiðandi hefur hann, svipað og hinn spænski forveri hans „picaro“, sá sem píkörsku bókmenntirnar eru kenndar við, orðið vitni að misheiðarlegu hátterni ólíkra stétta þjóðfélagsins og hefur frá mörgu að segja. Sérvitringurinn hefur meiri fjarlægð á menn, málefni og þjóðfélag en meðaljóninn. Hann lítur allt gestsaugum og getur því lagt margt gott til málanna, þótt einnig geti oltið upp úr honum tóm þvæla. Hér gæti orðtakið góðkunna, „Oft ratast kjöftugum satt á munn“, átt nokkuð vel við. En hvað er satt, hvað er þvæla og hver er þess umkominn að skera úr um það? Þetta eru nokkur þeirra viðfangsefna sem Diderot er að glíma við í þessari bók.

2

Frændi Rameaus kristallar viðhorf sem kemur mjög skýrt fram hjá Diderot og skoðanabræðrum hans í Frakklandi og víðar í Evrópu um miðbik 18. aldarinnar, þróun í átt til einstaklingshyggju í nútímaskilningi þess orðs: að hver maður sé sérstakur og einstakur, og hafi fullan rétt til þess að vera það. Þess vegna eigi menn að hlusta á hann, jafnvel þótt þeir séu ekki sammála honum, jafnvel þótt þeir séu hærra settir í valda- og virðingarstiga þjóðfélagsins og ef til vill einmitt þess vegna. Þessi hugmynd er síðan hluti af þeirri hugmyndadeiglu sem er ættuð frá Forn-Grikkjum en átjándu aldar menn þróuðu síðar áfram og átti eftir að geta af sér þjóðskipulag sem nú telst vera með því merkara sem evrópsk menning hefur lagt til heimsmenningarinnar: lýðræði.

Skoðanaskipti eru ein af meginforsendum lýðræðisins, og segja má að hlutverk Diderots í hópi þeirra menntamanna sem voru í fremstu víglínu á hans tíð hafi verið að leiða menn saman, efna til skoðanaskipta. Sem annar ritstjóraAlfræðibókarinnar þurfti hann að fá menn til liðs við þau miklu áform, hann varheimspekingurinn par excellence í þeim hópi og var því stundum kallaður „bróðir Platón“. Enda var hann ekki bara fjölfróður heldur síforvitinn og leitandi. Hann leitaði upplýsinga um aðskiljanlegustu mál til vina sinna, svo sem um tónlist hjá Rousseau og Rameau, um höggmyndalist hjá Falconet, um málaralist hjá Chardin, um læknisfræði hjá Bordeu eða um efnafræði hjá Rouelle. Og hann stakk oft niður penna til að styðja vini sína Holbach, Raynal og Rousseau, en einkum virðist hann þó hafa verið þeim mikilvægur innblástur því menn voru upphafnir og eldheitir í anda þegar þeir höfðu rætt við hann, enda eru til fjölmargar heimildir um samræðusnilld Diderots. Vissulega kom fyrir að hann væri ekki í skapi til að hitta fólk og langaði til að vera einn með sjálfum sér, en samtalið var honum alla tíð andleg nauðsyn. Hugsun Diderots var díalektísk, hann hafði þörf fyrir viðmælanda til að sjá hlutina frá sem flestum sjónarhornum. Það er því skiljanlegt að hann hafi byggt obbann af verkum sínum á samtölum, ýmist beint3 eða óbeint.4 Að þessu leyti þykir Diderot hafa lyft hinni bókmenntalegu samræðulist á nýtt og æðra þróunarstig.

Margt hefur verið rætt og ritað um þetta efni, en einna merkasta framlagið er ritgerð japanska fræðimannsins Yoichi Sumis sem leiddi meðal annars gild rök að þeirri kenningu sinni að samtali mannanna tveggja í þessari bók mætti líkja við skáktafl. Annar þeirra teflir fram tiltekinni fullyrðingu, hinn kemur með mótrök sem breyta stöðunni í samtalinu (skákinni) eða hreinlega með svo sterk mótrök að hann „drepur“ það sem viðmælandinn sagði.5 Þeir reyna að skáka hvor öðrum. Samtalið er þannig nokkurs konar list, íþrótt eða leikur í sama skilningi og skákin, leikur sem eðli sínu samkvæmt lýtur tilteknum lögmálum og reglum sem þátttakendum ber að virða um leið og þeir beita hugarfluginu til að klekkja á andstæðingnum, leikur sem ýmist er ærslafullur eða háalvarlegur, rétt eins og lífið sjálft.

3

Um miðja átjándu öldina var ritskoðun franska konungsveldisins enn nokkuð ströng þótt menn kæmust upp með ýmislegt ættu þeir vin og verndara á réttum stöðum. Kirkjan gætti þess eins og henni frekast var unnt að menn héldu sig innan þeirra siðferðismarka sem hún setti, þótt þau tök sem hún hafði á þjóðinni hefðu mjög slaknað frá því sem áður var, enda var menntun ekki lengur alfarið í höndum kirkjunnar. Þó voru mönnum sem vildu ræða opinskátt nýjar hugmyndir og þjóðfélagsmál ýmsar leiðir opnar. Einkum reyndu „heimspekingarnir“ nýju að njóta frelsis á fjórum stöðum: í salonum, úti í sveit, í almenningsgörðum Parísar og á kaffihúsunum.

Fyrirbærið „salon“ er einn af lyklunum til að skilja andrúmsloft 18. aldarinnar í Frakklandi. Þetta voru menningarleg einkasamkvæmi fína fólksins þar sem ræddar voru bókmenntir og listir. Þar voru jafnvel haldnar myndlistarsýningar sem Diderot skrifaði um fyrstur manna og lagði þannig grunninn að myndlistarrýni nútímans. Saloninn hafði um miðja átjándu öld verið athvarf frjálslyndra aðalsmanna, menntamanna og betri borgara þar sem fólk kom saman til að borða, drekka, ræða landsins gagn og nauðsynjar. Og daðra, enda ríkti talsvert frelsi í kynferðismálum á þessu tímabili eins og berlega kemur fram í verkum höfunda á borð við Sade, Denon og Laclos. Um miðbik aldarinnar voru salonarnir mestmegnis haldnir heima hjá nýríkum borgurum, gjarnan konum eins og frú Geoffrin, forríkri konu sem var þekkt um alla Evrópu. Ennfremur má nefna merkiskonuna Julie de Lespinasse, fátæka konu sem hafði ung gerst handgengin markgreifaynjunni Deffand en þegar Deffand þessi varð blind á efri árum var hlutverk Lespinasse lengi vel að lesa fyrir hana. En kerlu þótti sem unga konan skyggði um of á sig í samkvæmislífinu og rak hana frá sér, þannig að Lespinasse opnaði sinn eigin salon. Þangað fóru margir ungu heimspekinganna að venja komur sínar, þar á meðal hennar ástkæri d’Alembert, vinur Diderots og samstarfsmaður viðAlfræðibókina.

Það fór mjög í taugarnar á valdamönnum, hirðmönnum og aðli að saloninn skyldi þróast frá því að vera einkasamkoma þeirra og listamanna sem þeir höfðu velþóknun á og verða fremur vettvangur borgaralegrar hugsunar og meiri léttleika en áður tíðkaðist. Rithöfundum var æ sjaldnar boðið til hirðarinnar og samskipti heimspekinganna og aðalsins fóru síversnandi, ef frá eru taldir nokkrir aðalsmenn sem beinlínis tóku þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem var að eiga sér stað, eins og Helvétiushjónin eða Holbach barón.

En mönnum þótti líka ákaflega gott að viðra sjálfa sig og hugmyndirnar í sveitinni: Holbach barón bauð oft vinum sínum, ekki síst Diderot, í höllina sína í Grandval. Frú Epinay bauð Rousseau og Grimm til sín í Chevrette. Voltaire tók á móti fjölmörgum aðdáendum sínum í Ferney, í Ölpunum skammt frá svissnesku landamærunum. Rousseau hélt sig hins vegar nokkuð til hlés, enn lengra frá París, einkum eftir að slitnaði upp úr vinskap hans við alfræðibókarmennina.

Fólk sækir í kyrrðina í sveitinni, en kaffihúsin laða það til sín af öðrum ástæðum. Þar er líf og fjör, menn af ólíkum stéttum og með ólíka menntun skiptast á skoðunum um allt og ekki neitt, grípa í spil eða skák. En þar eru málin líka rædd af innlifaðri alvöru og fréttir sagðar af því sem máli skiptir. Kaffihúsum þessa tíma í París má þannig á vissan hátt líkja við heita pottinn á Íslandi nú á tímum.

Fólk sem allajafna stundar kaffihúsin á vetrum færir sig út í almenningsgarðana á sumrin: í Tuileriesgarðana, Lúxemborgargarðinn, en einkum þó garðinn við Palais Royal þar sem nýjustu fréttir berast milli manna eins og eldur í sinu og ungt fólk stígur í vænginn hvert við annað eins og fram kemur í inngangi Diderots að Frænda Rameaus.

4

Þrjú verk hafa skipt mestu máli við að halda nafni Denis Diderots á lofti í menningar- og bókmenntasögunni: Franska alfræðibókin, sem hann ritstýrði ásamt d’Alembert, skáldsagan Jakob forlagasinni og meistari hans, og svo Frændi Rameaus. Sé flett upp í kennsluskrám háskóla hér og þar um heiminn á Netinu erFrændi Rameaus það verka hans sem langoftast bregður fyrir.6 Undanfarnar tvær aldir hefur þetta verk haldið áfram að koma á óvart, setja menn úr jafnvægi, kveikja síendurnýjaðan rannsóknaráhuga háskólamanna, en ekki nóg með það, heldur einnig áhuga listmálara, rithöfunda, kvikmyndagerðarmanna, tónlistarmanna og leikhúsfólks víða um heim.7

Ritunar- og útgáfusaga þessa verks er með þvílíkum ólíkindum að sú saga ein og sér væri efni í heila bók, en hér verður einungis stiklað á stóru. Diderot skrifaði fyrsta uppkastið að Frænda Rameaus á árunum 1761–62. Þegar hann hófst handa við verkið var hann í djúpri listrænni kreppu. Ástæðan fyrir henni voru vonbrigði hans með viðtökur tveggja leikrita hans sem höfðu verið sett upp í París skömmu áður, auk þess sem hann hafði þá nýlega verið hafður að háði og spotti á leiksviði þegar gamanleikurinn Heimspekingarnir eftir Palissot var frumsýndur, nánar tiltekið 2. maí 1760. Það leikrit olli heiftarlegum deilum og var sú leiksýning mikið persónulegt áfall fyrir Diderot, því að hann reyndi þá í fyrsta sinn á eigin skinni hvað menn geta lagst lágt. Gamanleikurinn var settur upp með fulltingi yfirvalda og var af hópi manna fagnað sem meistarastykki, en þjónaði þeim tilgangi einum að hafa „heimspekingana“ svokölluðu að háði og spotti og lýsti þeim sem siðlausum auðnuleysingjum. Einna hraksmánarlegust var þó lýsingin á manni að nafni Dortidíus, það er að segja Diderot, sem varð nú aðhlátursefni Parísarbúa. Hann tók þessu þó af ótrúlegri stillingu, vinum sínum til nokkurrar undrunar. En þetta var geymt en ekki gleymt og Diderot hugsaði andstæðingum sínum þegjandi þörfina.

Frændi Rameaus er þannig í aðra röndina heiftúðugt uppgjör höfundarins við samtíma sinn og andstæðinga. Hann skemmtir sér við að segja frá því að Palissot yrki vísur um vini sína, stingi undan þeim, hafi sofið eða ætlað að sofa hjá eiginkonu útgefanda síns. Hann ræðst harkalega gegn fjármálastjóranum Bertin, en hugmyndin að Heimspekingunum kviknaði einmitt heima hjá honum, og gegn leikkonunni Hus sem lék aðal kvenhlutverkið í gamanleikritinu. Og margir fleiri verða fyrir barðinu á háðfuglinum Diderot, sem gerir það að verkum að Frændi Rameaus hefur umtalsvert menningarsögulegt gildi.

Frændi Rameaus er fyrst og fremst satíra, eða háðsádeila, eins og fram kemur í titlinum. Ætlun höfundarins var einkum að lýsa þeim mönnum sem lifa sníkjulífi á öðrum, skríða fyrir öðrum, vilja láta skríða fyrir sér og leyfa öðrum að éta úr lófa sér, en einnig að ná sér hressilega niðri á andstæðingum sínum á sviði bókmennta og heimspeki. Og það má sannarlega segja að honum hafi tekist það, því að margt af því ágæta fólki væri sennilega löngu gleymt ef nöfn þess stæðu ekki í þessari bók þótt ekki sé víst að hún sé sá minnisvarði sem það hefði helst kosið sér.

5

Diderot var alla tíð ötull bréfritari og í bréfunum greinir hann gjarna frá minnstu smáatriðum í lífi sínu, en þar minnist hann varla á þetta verk. Hann talar einu sinni um Jean-François Rameau, frændann, sem hann segist hafa hitt sem snöggvast á sjötta áratugnum. Diderot var oft og einatt heldur kærulaus þegar kom að því að fínpússa og fága eigin verk, en þennan texta átti hann eftir að taka upp hvað eftir annað og endurskoða eftir að hann gerði fyrsta uppkastið að því sumarið 1761. Fyrst árið 1762, síðan 1767, 1773–74, árið 1778 og árið 1782 og enn einu sinni þegar hann var sennilega að hreinskrifa það með eigin hendi og fól síðan Grimm vini sínum það til varðveislu. Hann ætlar aldrei að hætta að krukka í það, jafnvel þótt hann kvarti hástöfum yfir „þessari pússningavinnu sem er svo vandasöm, erfið, þreytandi, slítandi, leiðinleg og ætlar aldrei að taka enda“.

Þótt Diderot barmi sér leggur hann þetta á sig vegna þess að hann veit að sjálfs sín vegna verði honum að takast það sem honum mistókst í leikritum sínum: að höndla lífið með öllum sínum andstæðum, veita þeirri fjölbreytni og ólgu sem býr í þessu efni í fagurfræðilegan farveg.

Frændi Rameaus er svo úthugsað verk að fljótt á litið virðist einhver tilfinninga- og hugmyndaríkur höfundur hafa hrist það fram úr erminni. En það er öðru nær eins og hér hefur verið drepið á. Menn hafa leitað söguþráðarins í verkinu og segja það sundurlaust. Það er hins vegar ekki söguþráður sem heldur þessari bók saman, heldur hugmyndaleg framvinda. Goethe kom auga á þetta á sínum tíma og talaði um „stálkeðjuna sem fléttur hylja augum okkar“.8

Öfugt við Voltaire og Rousseau, sem lögðu mikla alúð og vinnu í frágang verka sinna, var Diderot í sérstöku höfundarsambandi við eigin verk. Hann hélt sig alla tíð í vissri fjarlægð frá þeim og skrifaði ekki alltaf undir þau. Hann hafði um tuttugu ára skeið með höndum ritstjórn Alfræðibókarinnar, auk þess sem hann skrifaði fjölmargar greinar í hana, og virðist að því loknu hafa fengið óbeit á hinum efnislega þætti bókmenntanna og virtist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á því að verk hans kæmu út á bók. Þegar hann lést árið 1783 voru verk hans mjög dreifð og ýmist hluti af heild, eins og í Alfræðibókinni og Sögu Indlandanna tveggja, eða birtust í handskrifuðum útgáfum eins og tímaritinu Corréspondance littéraire, sem dreift var til á annars tugar frjálslyndra tignarmanna í Evrópu, einkum í Þýskalandi, og það leið á löngu þar til menn gátu nálgast heildarverk hans á bók. Og enn þann dag í dag kemur fyrir að menn þykjast kannast við rödd og handbragð Diderots í ýmsum nafnlausum textum.

Verk Diderots eru í senn fjölbreytt og ólík innbyrðis, og er sagan að baki mörgum þeirra ærið dularfull, en þó er sagan að baki Frænda Rameaus einna dularfyllst og flóknust. Fundist hafa fimm handrit að verkinu, en þar af er aðeins eitt ritað með hendi höfundarins. Sagan af hinum ýmsu útgáfum þeirra spannar hundrað og fimmtíu ár og margt óvænt hefur komið á daginn, líkt og í verkinu búi angi af þeirri sérvisku og ólíkindalátum sem einkenna höfundinn.

6

Fyrsta útgáfan af Frænda Rameaus var þýsk þýðing Goethes á bókinni sem kom út í maí 1805, tuttugu og tveimur árum eftir að Diderot lést. Öllu betra vegarnesti út í heiminn var varla hægt að hugsa sér, enda þótt verkið hafi nokkuð liðið fyrir þetta heimafyrir, því margir Frakkar tóku Diderot með varúð vegna þess að Þjóðverjar voru hrifnir af honum. En eintakið sem Goethe þýddi eftir hafði borist honum frá Pétursborg. Það var uppskrift af handriti sem dóttir Diderots, Angélique Vandeul, hafði sent Katrínu miklu Rússakeisara, verndara Diderots og vinkonu, ásamt fjölda annarra handrita að honum látnum. Þýskur hermaður, Klinger að nafni, hafði komist yfir uppskriftina og ákvað að reyna að koma henni í sem allra best verð. Þannig hlaut þetta „siðleysislega siðlega“ (eins og Goethe orðar það) verk þau örlög að því var komið á framfæri vegna þess að þessi tiltekni ungi maður var blankur. Árið 1798 lét Klinger útgefandann Knoch frá Riga hafa handritið, en honum tókst ekki að selja það og lét bróður Schillers hafa það árið 1801. Schiller fékk handritið í hendur, áttaði sig strax á því að hér var merkilegt efni á ferðinni og taldi Goethe á að þýða það árið 1804 í Leipzig. Goethe fékk brennandi áhuga á þessu verkefni og gaf ritið út árið 1805 undir titlinum: Rameaus Neffe, ein Dialog von Diderot. Það liðu síðan átján ár þar til verkið sá dagsins ljós á frönsku. Fyrsta franska útgáfan kom út árið 1821 og var þar um að ræða þýðingu De Saurs og Saint-Geniès á þýskri þýðingu Goethes. Árið 1823 gaf útgefandinn Brière textann út með leiðréttingum sem voru gerðar með hliðsjón af nokkuð „snurfusuðu“ handriti sem var í eigu Angélique Vandeul, dóttur Diderots. Árið 1875 gefa þeir Assézat og Tourneaux verkið út og byggja á áður óþekktu handriti. Síðan er verkið enn gefið út árið 1883 (Isambert) og 1884 (Tourneaux), en þær útgáfur eru báðar byggðar á handritinu sem Katrínu miklu var afhent árið 1785. Þá gerist það fyrir hreina tilviljun árið 1891 að grúskari nokkur, Georges Monval að nafni, er að gramsa í gömlum bókum og handritum á bökkum Signu, einkum í safni harmleikja sem höfðu verið í eigu La Rocehefoucauld-Liancourt greifa, og finnur þar handrit sem Diderot gekk frá með eigin hendi, það eina sem hann gekk sannanlega frá sjálfur. Monval birti það sama ár, eða 1891. Þar var eflaust á ferðinni handritið sem Diderot hafði falið Grimm vini sínum til varðveislu en Grimm tók það með sér heim til Gotha 1792 og þar var það geymt að honum látnum. Nú á tímum eru til fjölmargar afbragðsgóðar útgáfur með ítarlegum skýringum, bæði fræðilegar útgáfur og það sem stundum eru kallaðar „lesútgáfur“ til almenningsnota.

7

Hér er ekki rúm til að rekja nákvæmlega hið flókna hugmyndalega samhengi þessa verks, enda á það að standa fyrir sínu. Þó verður að telja nauðsynlegt að setja það í samhengi við þann tíma sem það er skrifað á, annars vegar heimspekilegt samhengi og hins vegar bókmenntalegt og listrænt samhengi, einkum með tilliti til þeirrar tónlistarumræðu sem átti sér stað í Frakklandi um og uppúr miðri 18. öld. Í henni kristallast þau menningarlegu og pólitísku tímamót sem voru skammt undan.

Form þessa verks er það sem á frönsku er kallað „un dialogue philosophique“ sem mætti þýða „heimspekileg samræða“. Heimspekileg samræða er vitaskuld eldforn hefð sem má rekja aftur til fornaldarinnar: sá sem veit fræðir þann sem ekki veit. Í þessari bók er það hins vegar ekki svona einfalt. Enda þótt þjóðfélagsleg staða „Mín“ og „Hans“ sé greinilega afmörkuð í upphafi kemur fljótlega í ljós að Frændinn veit sitt af hverju sem heimspekingurinn veit ekki. Frændinn er lífsreyndur og hefur kynnst fleiri hliðum mannlífsins en heimspekingurinn, en hann hefur hins vegar ekki nema takmarkaða hæfileika til að nýta þessa reynslu og þekkingu sér til framdráttar og á þess vegna allt sitt undir góðvild annarra og kenjum. En það kemur líka í ljós að hinn háttvirti heimspekingur hefur ekki alltaf notið jafn mikillar virðingar og veraldargengis og hann gerir þegar samtal þeirra á sér stað, og smám saman fara þeir að samsama sig hvor öðrum, nálgast það jafnvel að hafa hlutverkaskipti. Þannig bregður Diderot á leik með þetta hefðbundna form samræðunnar, til að það þjóni betur ætlunarverki hans, nefnilega því að skekja stoðir ríkjandi gildismats um háa og lága, visku og heimsku, þekkingu og fáfræði.

Diderot er ekki mjög kerfisbundinn hugsuður eins og ýmsir heimspekingar bæði á undan honum og eftir honum hafa verið. Hann er sífellt að leita, spyrja spurninga, stunda heimspeki, fílósófera, en hann hefur engan áhuga á því að búa til lokað og endanlegt heimspekikerfi. Þetta hefur stundum flækst fyrir mönnum og er eflaust ein ástæðan fyrir því að hann hefur ekki eignast eins marga „andlega afkomendur“9 og félagar hans, Voltaire og Rousseau. En þessi frjósama og ókerfisbundna leit hans kann einmitt líka að vera ástæðan fyrir því að hann hefur mjög sótt á í seinni tíð, enda er margt í hugsun hans „póstmódernískt“ eins og heimspekingurinn og leikritaskáldið Eric-Emmanuel Schmitt bendir á í bók sinni um heimspeki Diderots: „Diderot hugsar og hugsar sig um leið og hann hugsar.“10

8

Sígildi Frænda Rameaus felst meðal annars í því að verkið er merkileg heimild um miklar og heitar umræður um tónlist sem áttu sér stað í Frakklandi á þessum tíma, enda frændinn í bókinni frændi hins mikla Rameaus, þáverandi hirðtónskálds og áhrifamanns í tónlistarheiminum. Í stuttu máli snerist deilan um það hvort Frakkar ættu að hlusta á hefðbundna franska og að margra dómi allþunga tónlist eða léttari ítalska tónlist. Sjónarmiðin voru svipuð þeim sem þekkjast á ýmsum sviðum listarinnar enn í dag: annars vegar þjóðleg, gamaldags og dálítið þunglamaleg tónlist, hins vegar útlend, nútímalegri og léttari tónlist. Þessi umræða skiptir máli til skilnings á verkinu, þannig að hér verður stiklað á stóru lesendum til glöggvunar.

Árið 1752 hófust hinar svokölluðu Bouffonsdeilur, en þær spruttu af því að ítalskur leik- og söngvahópur sýndi Servar Padrona eftir Pergolesi11 í París. Sýningin olli því að hirðin skiptist í tvennt í afstöðu sinni, með konungi annars vegar og drottningu hins vegar. Rousseau, sem á þessum tíma hafði unnið mikinn sigur með óperunniLe Devin de village gagnrýndi mjög hina frönsku óperuhefð í Bréfi um tónlistina árið 1753 og eins var hann afar gagnrýninn í þeim greinum sem hann skrifaði um sama efni í Alfræðibókina. Þessi heita umræða risti mjög djúpt, stóð lengi og snerti marga.

Nú á tímum myndu menn kalla þetta þáverandi deilu um módernismann í listum, listræna umbyltingu og endurmat á öllum listgreinum, ekki bara tónlistinni. Á þessum tíma notar ljóðræni harmleikurinn einungis gömul og föst ljóðform og sækir mjög efnivið í fornar goðsögur, en gamanóperan hikar ekki við að fara nýjar leiðir, fást við önnur viðfangsefni og tekst þannig að spinna saman tónlist og söguþráð. Gamanóperan var vettvangur þar sem menn gátu gert tilraunir með sviðsetningar og prófað nýjar leiðir til að láta tónlist og texta hljóma saman, léttar aríur eða „aríettur“ eins og til dæmis í verkum tónskálds á borð við Dauvergne.12Tilfinningaþrungin og háleit atriði taka við af hástemmdum ljóðaflutningi. Í stað íburðarmikilla og flókinna uppsetninga á goðsögnum koma nú látlausari leiksýningar, gjarna nokkuð tilfinningaþrungnar, og gerast úti í sveit. Einkum kemst þessi tegund uppsetninga mjög í tísku uppúr 1760. Frændinn vitnar í tvær aríur af þessu tagi eftir Philidor.13 Gamanóperan notfærir sér það sem er að gerast í leiklist og skáldsagnaskrifum og sækir jafnvel efnivið sinn þangað.14 Þessar tilraunir til að semja tónlist út frá leikritum og skáldsögum voru Diderot mjög að skapi, en í leikritum sínum var hann einmitt að reyna að vinna gegn harmleikjunum og klassísku óperunni, reyna að búa til nýtt og ferskara listform fyrir svið, form sem stundum hefur verið kallað „borgaralegt drama“. Það þykir heldur hallærislegt nú til dags og er nánast aldrei sett á svið, en er engu að síður merkilegur kafli í þróunarsögu leikhússins. Brúðkaup Fígarós eftir Mozart er sennilega besta dæmið um frábært listaverk sem sprottið er upp úr þessari hugmyndadeiglu, þeirri viðleitni manna að flétta betur saman söguþráð og tónlist en áður þótti nauðsynlegt.

Framlag Diderots til rannsókna á sviði tónlistar eins og það endurspeglast íFrænda Rameaus og víðar er stórmerkilegt, vegna þess að þar birtast bæði hans eigin hugmyndir um tónlist og þar er að finna samantekt um þær djúpstæðu breytingar sem eiga sér stað í listum á þessum tíma, ekki síst í tónlist.

9

Í samfélagi sem ekki er eins fullkomið og það heldur sig vera getur rödd sérviskunnar jafnframt verið rödd viskunnar. Með því að gefa Frændanum orðið er Diderot að leyfa þessari rödd að hljóma, jafnvel þótt hann slái ýmsa varnagla og mótmæli orðum hans oft kröftuglega. Þessi aðferð hefur síðan verið notuð víða, t.d. hjá Dostojevskí í verkum eins og Fávitanum. Í þessu sambandi má minna á orð Halldórs Laxness um „ofvaxin persónueinkenni“ í íslenskum og rússneskum bókmenntum, en hann segir á einum stað í Gerska ævintýrinu: „Ofvöxtur persónueinkenna á sér paradís í hálfsiðun þjóða. Hjá okkur íslendíngum, sem stöndum um mart á siðmenníngarstigi rússa, eru ofvaxin persónueinkenni næsta algeing, og eignast ekki síður en með rússum blífanlegan samastað í listum, að minstakosti bókmentum. Í löndum þar sem siðmenníng er mjög almenn og tiltölulega jafn-útbreidd, ósjaldan á kostnað sjálfrar menníngarinnar, verða menn hver öðrum líkir og ofvaxin persónueinkenni sjaldgæf svo almenníngur lítur ósjálfrátt á slíkar manngerðir sem kleppsmat og stendur stuggur af þeim. Siðmenníng hefur ekki rúm fyrir hina ópkendu, ofstækisfullu áherslu sem einstaklíngur frumstæðs þjóðfélags leggur í persónu sína, orð og gerðir.“15

Ég held að Diderot hefði getað tekið undir þessi orð hins íslenska skáldbróður síns, og hann er raunar á svipuðum slóðum í innganginum þegar hann segir um sérvitringana í París:

Þeir stöðva mig einu sinni á ári, þegar ég hitti þá, vegna þess að skaplyndi þeirra er gerólíkt annarra og þeir rjúfa þá niðurdrepandi einhæfni sem er til komin vegna menntunar okkar, siðvenja og almennrar kurteisi. Komi einhver þeirra inn í hóp fólks, þá er hann eins og ögn af geri sem gerjast og hleypir nýju lífi í hluta af því sem honum er eiginlegt. Hann hristir, hann skekur; hann fær menn til að samþykkja eða formæla, leiðir sannleikann í ljós, bendir á góðmennin, afhjúpar afstyrmin og þá fer hinn skynsami maður að hlusta og reyna að skilja heim hans.

Ofvaxnar persónur eins og Frændi Rameaus falla þannig ekki að þeirri siðmenningu sem Diderot gagnrýnir. Slíkt fólk er ekki nógu slægt og grimmt til að spjara sig í þessu umhverfi og verður því undir, lendir utan garðs.

Frænda Rameaus má því skilja sem lofgjörð til þess að vera öðruvísi, vera sérstakur, óvæntur. Margt hugsandi fólk virðist hafa æ meiri áhyggjur af því að hinn vestræni heimur sé að verða sífellt einsleitari, allir séu að verða steyptir í sama mótið, hugsi eins. Ef til vill er ótti fólks við þessa þróun ein skýringin á því hversu sígrænt þetta verk er enn þann dag í dag, enda hljómar rödd sérviskunnar þar í öllu sínu veldi.

Að lokum vil ég þakka þeim sem hafa lagt þessari þýðingu lið á einn eða annan hátt. Fyrst ber að nefna menningardeild franska sendiráðsins í Reykjavík, sem gerði mér kleift að dveljast hluta sumarsins 1998 í C.I.T.L. þýðingamiðstöðinni í Arles í Suður-Frakklandi, en einnig langar mig að þakka þeim Gunnari Ágúst Harðarsyni, Vilhjálmi Árnasyni og Merði Árnasyni fyrir gagnlegar ábendingar.

 

Reykjavík í mars 2000

 

Friðrik Rafnsson

 

Tilvísanir

1. Sjá Gargantúi og Pantagrúll í þýðingu Erlings E. Halldórssonar (Mál og menning, 1993).

2. Sjá Jakob forlagasinni og meistari hans eftir Denis Diderot. Friðrik Rafnsson þýddi (Mál og menning, 1996).

3. Hann samdi a.m.k. fimm önnur verk sem teljast vera heimspekileg samtöl og eru af svipuðum toga og Frændi Rameaus: Mystification, Le rêve d’Alembert, Entretien d’un père avec ses enfants, Supplément au voyage de Bougainville og Entretien d’un philosophe avec la maréchale de ***.

4. Skáldsögur hans, t.d. Jakob forlagasinni og meistari hans, eru að stórum hluta í formi samtala.

5. Sjá: Yoichi Sumi: Le Neveu de Rameau, caprices et logiques du jeu (Éditions France Tosho, Tókíó, 1975).

6. Raunar má geta þess að þegar þetta er skrifað eru þessi verk einu sem undirrituðum hefur tekist að finna í heild á Netinu.

7. Sjá nánar um þetta og fleira á merkum vef um 18. öldina: http://tornade.ere.umontreal.ca/~melancon/csecs.tdm.html

8. Þessi tilvitnun kemur fram í útgáfu Jean Fabre á Frænda Rameaus frá 1963.

9. Sjá: Eric-Emmanuel Schmitt: Diderot ou la philosophie de la séduction (Albin Michel, 1997). Þess má ennfremur geta að á árunum 1998–2000 sýndi Þjóðleikhúsið verk Schmitts Abel Snorko býr einn við miklar vinsældir. Auk þess hefur Schmitt skrifað leikrit um Diderot sem nefnist Le libertin.

10. Eric-Emmanuel Schmitt: Diderot ou la philosophie de la séduction (Albin Michel, 1997). „Diderot pense et se pense en pensant.“ (bls. 14).

11. Giovan Battista Pergolesi (1710–36) var ítalskt tónskáld.

12. Tvær óperur hans vöktu mesta athygli á þessum tíma: Le Devin de village (1752) og La Coquette corrigée (1753).

13. Maréchal-ferrant og Jardinier et son Seigneur.

14. L’École de la jeunesse eftir Duni (1761) er byggð á samnefndri sögu Lillo og Tom Jones (1761) eftir Philidor er byggð á samnefndri sögu Fieldings. Árið 1769 semur Monsigny verk upp úr Le Déserteur, skáldsögu eftir Louis-Sébastien Mercier, og þannig mætti lengi telja.

15. Halldór Laxness: Gerska ævintýrið. Minnisblöð (Önnur útgáfa, Helgafell, Reykjavík, 1983, bls. 162–163).

 

« Til baka

Vofa gengur nú ljósum logum um heiminn – Vofa Marx!

Friðrik Rafnsson og Torfi H. Tulinius þýddu. Tímarit Máls og menningar 2/1994

 

Eftirfarandi viðtal birtist í franska tímaritinu Passages á hausti sem leið. Emile Malet, ritstjóri tímaritsins, tók það ásamt Brigitte Sohm, Cristinu de Peretti, Stéphane Douailler og Patrice Vermeren. Viðtalið er birt í TMM með sérstöku leyfi Jacques Derrida og Passages, en Derrida dvaldist hér á Íslandi og hélt fyrirlestra í septembermánuði 1993.

Oft fær maður á tilfinninguna – og það virðist vera tilfinning sem gætir jafnt í Bogota, Santíagó í Chile, Prag, Sófíu, París og Berlín – að hugsun þín snúist einkum um líðandi stund. Tekur þú undir þetta? Ert þú heimspekingur samtímans, eða að minnsta kosti heimspekingur sem hugsar samtíð sína?

Jacques Derrida: Getur nokkur verið viss um að hann sé að því? Og eitt er að vera „heimspekingur samtímans“ og annað er að „hugsa samtíð sína“. Í báðum tilfellum þyrfti að gera eitthvað annað og meira en að skoða og lýsa: vera þátttakandi, vera hluti af og vera með. Í þann hátt mundi hugsun manns „snerta fólk“ og maður hefði áhrif, hversu lítil sem þau væru: maður „skiptir sér af málum“, eins og sagt er, málum sem eiga sér stað hér og nú í samtíma sem aldrei er fyrirfram gefinn. Það er ekki til neinn fyrirfram ákveðinn mælikvarði á það hvort hugsun manns snýst um líðandi stund, eða svo ég haldi mig við orðalag ykkar, hvort maður „hugsar samtíð sína“. Hjá mörgum fer þetta alls ekki saman. En þetta eru spurningar sem ég treysti mér varla til að svara undirbúningslaust. Við verðum því að halda okkur við þann tíma sem við höfum til ráðstöfunar hér og nú. Það að hugsa um samtíma sinn er ákveðnari afstaða nú en nokkru sinni fyrr, einkum ef maður tekur þá áhættu að tala opinberlega, því tímarammi slíkrar tjáningar er búinn til. Hann er tæknilegur tilbúningur. Viðburðurinn sjálfur, tími þessa opinbera gjörnings, er veginn, metinn, afmarkaður, „forsniðinn“, „settur af stað“ í „fjölmiðlaapparati“ (við skulum notast við þessi orð til einföldunar). Þetta er raunar atriði sem mætti liggja yfir fram í hið óendanlega. Mér er spurn: hver gæti hugsað samtíma sinn nú á dögum, og einkum þó, hver gæti fjallað um hann án þess að velta fyrir sér því sem kallað er opinber vettvangur, því sem í pólitískri samtíð okkar tekur sífelldum breytingum að formi og inntaki vegna áhrifa nýrrar fjarskiptatækni sem menn burðast við að kalla upplýsingamiðlun eða boðskipti?

Spurningin snerist ekki einungis um „nútíðina“ heldur einnig um það sem kallað er „tíðindi“. En mig langar í stuttu máli að draga fram tvö einkenni þess sem í seinni tíð hefur talist til tíðinda. Einkennin ná langt út fyrir mína eigin reynslu eða annarskonar heimspekilega reynslu af hinum svokölluðu „tíðindum“, þau eiga við tíðindi almennt og yfirleitt. Í því skyni gæti verið gagnlegt að búa til samsett orð: tíðindasmíð og tíðindakostir. Með fyrra orðinu er átt við að fréttir, tíðindi, séu tilbúningur einn, þær séu smíðaðar: menn verða fyrst að gera sér grein fyrir því að tíðindi eru tilbúningur og síðan geta þeir snúið sér að því að athuga hvers konar tilbúningur þau eru. Fréttir, eða tíðindi, eru ekki sjálfgefnar heldur bókstaflega framleiddar, síaðar og matreiddar með aðferðum og tækjum sem eru gerð af manna höndum, þar sem raðað er í forgangsröð og búinn til tignarstigi til að þjóna öflum og hagsmunum sem hvorki þolendur né gerendur (þeir sem segja fréttir og hlusta á þær, sem stundum geta einnig verið „heimspekingar“, en eru ævinlega túlkendur) gera sér nægilega grein fyrir. Einu gildir hversu merkilegur, óviðjafnanlegur, áleitinn, sársaukafullur eða sorglegur sá „raunveruleiki“ sem er í „fréttum“ kann að vera, hann berst okkur ævinlega eftir leiðum sem eru tilbúningur einn. Það er ekki hægt að koma auga á þennan raunveruleika nema með því að spyrna við fæti, draga í efa o.s.frv. Hegel hafði rétt fyrir sér þegar hann hvatti þá heimspekinga sem voru samtíða honum til að lesa blöðin á hverjum einasta degi. Ef menn ætla að axla þessa ábyrgð núna verða þeir að gera sér grein fyrir því hvernig dagblöð, vikublöð og sjónvarpsfréttir verða til og hverjir standa að þeim. Þeir þyrftu að kynna sér þá starfsemi sem fer fram á fréttastofum og hvernig lestrarvélar sjónvarpsfréttamanna eru mataðar. Þetta skiptir gífurlegu máli: þegar sjónvarpsfréttamaður eða stjórnmálamaður virðist tala við okkur, heima í stofu hjá okkur, og horfir beint í augun á okkur, þá er hann (eða hún) að lesa texta af skjá, fara með orð sem einhver annar hefur skrifað annars staðar og á öðrum tíma, stundum er þetta jafnvel texti sem fjöldi manna hefur soðið saman, jafnvel einhverjir ónafngreindir menn úti í bæ.

– Þú átt við að hverjum og einum beri skylda til að halda uppi stöðugri gagnrýni á það sem þú kallar tíðindasmíði. En þú segir „þeir þyrftu“ . . .

J.D.: Já, þar væri um að ræða gagnrýna menningu, einhvers konar menntun, en ég myndi aldrei segja „þeir þyrftu“, ég léti mér aldrei koma til hugar að tala um skyldur heimspekingsins eða þjóðfélagsþegnsins, án þess að slá tvo eða þrjá varnagla.

Fyrsta atriðið snertir þjóðernið (til að svara á vissan hátt ákveðinni merkingu sem mátti lesa úr spurningu ykkar: rétt eins og þið væruð nýkomin frá útlöndum þar sem þið hefðuð haft spurnir af mér og vilduð fá viðbrögð. Ég hefði gjarna vilja leggja dálítið út af þessu, en ég sleppi því hér). Eitt af því sem stöðugt síar fréttirnar, enda þótt heimurinn sé að verða sífellt alþjóðlegri, er hið þjóðlega, héraðsbundna, eða svæðisbundna, – eða hið vestræna – það hefur ævinlega forgang. Þetta er það sem kemur alltaf fyrst í öllum fréttum og ákvarðar forgangsröðina (fyrst íþróttir, svo stjórnmálamenn, en ekki stjórnmál, og loks menningarfréttir, sem er raðað niður eftir því hve athyglisverðar og skiljanlegar þær þykja). Þessi forgangsröð veldur því að ótal aðrir atburðir hafna utan sviðsljóssins: þeir atburðir sem talið er að þjóðin hafi engan áhuga á og hafa takmarkaða þýðingu fyrir þjóðina, þjóðtunguna, lífshætti þjóðarinnar og lífsmunstur. Í „fréttum“ er óafvitandi lögð áhersla á hið þjóðlega, hið framandi er útilokað, jafnvel stundum innanlands, jafnvel þótt þar séu hvorki þjóðernisofstæki, ákveðin áform né vísvitandi yfirlýsingar á ferðinni, jafnvel þegar fjallað er um efni eins og „mannréttindi“ og slíkt. Einstaka fréttamenn gera lofsverðar tilraunir til að brjóta þessa reglu, en það er hægara sagt en gert og þegar allt kemur til alls er þetta nokkuð sem er ekki undir atvinnufréttamönnum komið. Við megum ekki gleyma þessu, síst nú þegar gamlar þjóðernisstefnur eru farnar að taka á sig nýja mynd með því að beita fjölmiðlatækni sem er hvað „háþróuðust“ sér til framdráttar (hinir opinberu ljósvakamiðlar í Júgóslavíu fyrrverandi eru sláandi dæmi um þetta). Annars má geta þess svona í leiðinni að ýmsir hafa séð ástæðu til að efast um gagnrýnina á þjóðernishyggjuna, eða til að einfalda myndina mjög, um afbyggingu [déconstruction, þetta er eitt af grundvallarhugtökunum í heimspeki Derrida. Aths. þýð.] þeirrar hugsunar sem miðar allt út frá Evrópu. Mörgum þykir ekkert vera frétt nema það snerti þjóð eða efnahagsmál, sumsé svið þar sem lögmál markaðarins gilda, hvort sem um samvinnu eða átök er að ræða. Það er eins og menn séu blindir á allt það sem flytur með sér dauðann í nafni þjóðernis, og það í sjálfu hjarta Evrópu.

En nú sem endranær byggist harmleikurinn á mótsögn eða tvöfaldri fullyrðingu eins og þessari: upplýsingar virðast berast frá sífellt fleiri heimshornum, en í raun berast þær okkur frá æ færri miðlum og dreifingarkerfum sem eru að komast í færri og færri hendur. Ég minni á það sem átti sér stað í Persaflóastríðinu. Þá komu vissulega um stundarsakir upp sérstakar kringumstæður, því menn vöknuðu til vitundar um þessa samþjöppun og sumir mótmæltu henni, en við megum ekki gleyma því að ofbeldi viðgengst stöðugt víða um heim, alls staðar þar sem átök eiga sér stað, í Miðausturlöndum jafnt sem annars staðar. „Þjóðernisleg“ andspyrna gegn þessari samræmingu sem lítur út fyrir að vera alþjóðleg reynist því nauðsynleg. Hér fara málin hins vegar að flækjast.

Annar varnagli: alþjóðlega tíðindasmíðin, einkarétturinn á því sem er „fréttnæmt“, miðstýringin á því hvað er frétt og hvað ekki, virðist haldast í hendur við þá þróun sem nú fleygir mjög fram og kölluð er „bein útsending“ þar sem allt gerist á svokölluðum raunverulegum tíma, í núinu. Það er alltaf eitthvað leikrænt við öll þessi „viðtöl“ og þau ýta undir dýrkunina á því sem sett er á svið í beinni útsendingu. Dagblað kýs ævinlega að birta viðtal við höfund og myndir af honum, fremur en að birta grein sem krefst þess að vera lesin vandlega og metin samkvæmt þeim upplýsingum sem þar koma fram. Hvernig er hægt að nýta sér nýjustu tækni tilbúinnar útsendingar en gagnrýna um leið falsið og blekkinguna sem í henni er fólgin? Það er umfram allt nauðsynlegt að hamra á því og sýna fram á að „bein útsending“ og „raunverulegur tími“ eru aldrei hrein: þess konar útsendingar sýna okkur hlutina aldrei beint og milliliðalaust, þær gefa okkur aldrei kost á skynjun sem væri laus úr viðjum túlkunar og tæknilegrar meðhöndlunar. Þetta er nokkuð sem ekki er hægt að sýna fram á nema með hjálp heimspekinnar.

Loks má bæta því við að enda þótt nauðsynlegt sé að sjá í gegnum tíðindasmíðina verður að varast að þessi gagnrýni hugsunarháttur snúist upp í andhverfu sína. Slík gagnrýni má ekki láta undan þeirri freistingu að fara að lepja upp það sem fyrir er og blekkja blekkinguna, hafna því að eitthvað gerist. Ef svo færi myndu menn segja: „Þetta er allt eitt og sama ofbeldið, sama þjáningin, bæði dauðinn og stríðið, þetta er allt tilbúið, uppdiktað, sniðið að þörfum fjölmiðlanna. Það gerist ekki neitt, þetta er allt saman einn blekkingarvefur.“ Ef menn ganga eins langt og hægt er í því að afbyggja tíðindasmíðina verða þeir einnig að varast að ánetjast nýhugmyndafræði gagnrýninnar og muna að afbygging sem er sjálfri sér samkvæm er ekki einungis hugsun sem snýst um það sem er einstakt, og þar með um viðburðinn og það sem gerir hann algerlega einstakan, heldur einnig að „fréttaflutningur“ er ærið sundurleitt og mótsagnakennt fyrirbæri. Hann getur tekið breytingum og á að gera það, honum er bæði kleift og skylt að efla þekkingu, leita sannleikans og vinna í þágu lýðræðis framtíðarinnar með öllu sem því fylgir, rétt eins og hann hefur oft gert. Það er sama hversu gervilegur og yfirgangssamur fréttaflutningurinn kann að vera, maður vonar vissulega að hann beygi sig fyrir því sem á sér stað, fyrir því sem ber hann uppi. Og hann vitnar um, jafnvel þótt það sé þvert gegn vilja þeirra sem stýra honum.

– Þú stakkst áðan upp á öðru orði, þar sem ekki var verið að tala um tæknina og tilbúninginn, heldur um möguleika, þá kosti sem fyrir hendi eru.

J.D.: Já, ef okkur gæfist tími til þess myndi ég fara nánar út í enn eitt einkenni „tíðindanna“, þess sem er að gerast núna, þess sem nú er verið að gera við fréttirnar. Ég myndi leggja sérstaka áherslu á hvað tæknin er gervileg (tilbúin mynd, tilbúið rúm og þar af leiðandi tilbúinn atburður) og heimspekingurinn getur sennilega ekki lengur stillt henni upp sem andstæðu þess raunveruleika sem við lifum og hrærumst í. Það er ekki lengur hægt að stilla þessu upp eins og forðum þegar talað var um andstæðurnar orku og framkvæmd, dynamis og energeia, möguleikann sem felst í efninu og því sem mótar það, telos, og þar af leiðandi hugmyndina um framfarir, o.s.frv. Hann hefur áhrif á þann atburð sem á sér stað, á tímann og rúmið, málflutninginn, „upplýsingarnar“, í stuttu máli sagt allt sem viðkemur fréttunum svokölluðu, hinum óhagganlega raunveruleika þess sem talið er vera nútíð. Heimspekingur sem „hugsar samtíð sína“ verður nú á tímum meðal annars að fylgjast vandlega með umsvifum og afleiðingum þessa mögulega tíma. Hann verður að fylgjast með tækninýjungum, en einnig að hafa það hugfast að það sem okkur virðist nýtt minnir yfirleitt á það sem fyrir var ef vel er að gáð.

– Mættum við biðja þig að víkja að einhverju áþreifanlegra sem er efst á baugi núna?

J.D.: Ykkur finnst ef til vill að ég hafi nú um stund reynt að víkja mér undan að svara spurningunni sem þið lögðuð fyrir mig. Ég svara henni ekki beint. Sumir hugsa ef til vill sem svo: hann er að sóa tímanum, sínum eigin og okkar, til einskis. Eða: hann er að reyna að vinna tíma, fer undan í flæmingi. Það er nokkuð til í því. Það sem fólk þolir verst, hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða í dagblöðunum, er að menningarvitar taki sér tíma eða sói tíma annarra. Þetta er ef til vill eitt af því sem þyrfti að breyta í fréttum: breyta hrynjandinni. Sagt er að atvinnumennirnir í fjölmiðlunum sói engum tíma. Hvorki eigin tíma né annarra. Þeir eru einatt nokkuð vissir um að sér takist það. Þeir vita hvað tíminn kostar, þótt þeir viti ekki endilega hvers virði hann er. Hvers vegna hafa menn ekki velt þessu nýja atriði í fjölmiðlunum fyrir sér, í stað þess að kvarta undan þögn menntamanna? Og hvers vegna hafa menn ekki velt fyrir sér áhrifunum af þessari hrynjandi? Hún getur orðið til þess að þagga niður í hluta menntamanna (þeim sem þurfa tíma til nauðsynlegrar greiningar og neita að einfalda hlutina til að laga sig að tilteknum ramma sem þeim er settur), hún getur þaggað niður í þeim eða drekkt röddu þeirra í hávaðanum frá öðrum – í það minnsta þar sem ákveðin hrynjandi og tungutak er áskilið. Þess háttar tími, tími fjölmiðlanna, veldur þáttaskilum. Upplýsingar berast á annan hátt en áður milli fólks, annars staðar, boðskiptabrautirnar breytast, menn taka að haga máli sínu á annan hátt opinberlega. Eitthvað sem ekki er hægt að sjá, heyra, lesa, getur verið virkt og áhrifamikið þegar það er komið upp á risastóran skjá á sýningu. Þessi breyting á því hvernig menn koma fram opinberlega hefur í för með sér að menn verða að setjast niður og vinna. Og það er verið að vinna að þessu, enda þótt sú vinna sé misjafnlega vel séð meðal þeirra sem málið snertir helst. Þögn þeirra sem lesa, hlýða á eða horfa á fréttamiðlana, auk þeirra sem vinna við að greina þá, er ekki eins mikil og ætla mætti þegar litið er til þess að miðar þessir virðast lokaðir fyrir öllu því sem ekki lýtur lögmáli þeirra; þeir heyra það hvorki né sjá, og koma þannig í veg fyrir að það berist til annarra. Nú er þetta orðið ærið öfugsnúið: fjölmiðlafár út af einhverju sem ekkert er breiðir þögn yfir þá sem tala og starfa af einhverju viti. En þegar fólk fær upplýsingar eftir öðrum leiðum sperrir það eyrun. Lögmál tímans er skelfilegt fyrir núið, það heldur fólki sífellt í voninni, kemur því jafnvel inn hjá fólki að allt gerist fyrr en varir. Hér væri einnig nauðsynlegt að víkja að hinum raunverulegu skorðum sem settar eru rétti fólks til að svara fyrir sig (og þar af leiðandi þeim skorðum sem lýðræðinu eru settar): þær byggjast á því, og það hefur ekkert með ritskoðun að gera, að með allri tækninni sölsa fjölmiðlarnir undir sig opinberan tíma og rúm.

Ef ég leyfi mér þrátt fyrir allt að nema staðar, taka mér stöðu, því það er einnig aðferð til að hugsa samtímann, er það einmitt til þess að reyna eftir bestu getu að svara spurningu ykkar. Til að axla þessa ábyrgð er nauðsynlegt að átta sig á því til hvers slíkt viðtal er og hverjum það er ætlað, einkum þó viðtal við mann sem skrifar bækur, kennir eða birtir greinar, á annan hátt, í annarri hrynjandi, við aðrar aðstæður þar sem hann orðar hugsun sína á allt annan hátt. Viðtali er ætlað að fanga augnablikið, eins og ljósmynd: svona er það sem tiltekinn maður berst á tilteknum stað og stund við að svara viðmælendum sínum, rétt eins og skepna í sjálfheldu. Til dæmis sá sem hér situr. Þegar minnst er á fréttir við hann, á það sem er að gerast á hverjum degi í heiminum, hann beðinn um að segja álit sitt á því í stuttu máli, þá hrökklast hann aftur inn í greni sitt eins og hundelt kvikindi, kemur með hvern útúrdúrinn á fætur öðrum, slær hvern varnaglann á fætur öðrum, ætlar aldrei að koma sér að efninu og er sífellt að gefa í skyn að „þetta sé nú ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera“ (nokkuð sem veldur kvíða eða hlátri hjá heimskingjum sem halda að allt sé svo einfalt) eða þá að „menn flæki oft málin til að komast hjá því að svara, en einföldunin sé enn öruggari undankomuleið“. Hér hafið þið hugsanlega ljósmynd: þetta eru líklegustu viðbrögð mín við spurningu eins og þeirri sem þið lögðuð fyrir mig. Það er hvorki vanhugsað né þaulhugsað. Það felst í því að neita ekki að svara spurningu en svara henni með því að taka alla þá útúrdúra sem þurfa þykir.

Þið gerðuð til dæmis greinarmun á „heimspekingi samtímans“ og „heimspekingi sem hugsar samtíð sína“. Og að ykkar dómi ber fremur að kalla mig hinu síðara en hinu fyrra. Þetta má skilja á ýmsa vegu. Tiltekinn heimspekingur kann að glíma við samtíð sína, það sem samtíðarmenn hans eru að sýsla, það sem er að gerast núna, án þess að leggja mikið á sig í leit að svari við því hvaða gildi felast í þessari svokölluðu samtíð. Er sá maður heimspekingur samtímans? Já og nei. Annar heimspekingur getur farið nákvæmlega öfugt að: hann getur sökkt sér í hugleiðingar um samtímann og lífið í samtímanum án þess að skeyta hið minnsta um það sem er að gerast í heiminum eða umhverfis hann. Nei og já. Samt sem áður er ég viss um að enginn heimspekingur myndi samþykkja þennan kost. Rétt eins og allir sem reyna að stunda heimspeki þyrfti ég hvorki að hætta að hugsa um augnablikið né návist þess í núinu, né heldur um það sem sviptir okkur því um leið og það hefur veitt okkur það. Eins og til dæmis í því sem við kölluðum tíðindasmíði hér áðan. Hvernig er hægt að beita þessu á veruleikann hér og nú? Með hvaða hætti er hægt að nálgast þessa spurningu? Hvað er það sem felst í þessum spurningum? Er hér ekki í raun og veru um að ræða lögmálið sem öllu stjórnar, beint eða óbeint? Ég reyni að lúta því. Þetta lögmál er utan seilingar, það er handan alls.

En nú segið þið eflaust að þetta sé enn ein flóttaleið mín og undanbrögð til að komast hjá því að tala um það sem þið kallið samtíðina eða fréttirnar. Spurningin sem ég sendi ykkur þar með til baka er þessi: hvað þýðir það eiginlega að tala um samtíðina? Vitaskuld má auðveldlega sýna fram á að ég sé maður sem ekki fjallar um vandamál sem snerta samtíðina, fréttir, stjórnarfarsmál eða einfaldlega stjórnmál. Þannig væri hægt að tína fram (ekki biðja mig að gera það) ótal dæmi, tilvitnanir, nöfn, dagsetningar, staði og svo framvegis. En mér dettur ekki í hug að fara að dansa þennan fjölmiðladans og nota þetta tækifæri til að réttlæta sjálfan mig og gjörðir mínar. Mér finnst ég ekki hafa neinn rétt til þess og það er sama hvað ég geri mikið til að axla mína pólitísku ábyrgð, ég verð aldrei viss um að ég geri nóg.

En ég reyni líka að hafa hugfast að það er oft ótímabær meðhöndlun á því sem kallað er fréttir sem er „uppteknust af“ núinu. Með öðrum orðum: það að glíma við samtímann, t.d. sem heimspekingur, felst ef til vill í því að rugla ekki stöðugt saman samtímanum og því sem er helst í fréttum. Það er hægt að nálgast núið á ská, ef svo má segja, anakrónískt, sem er vænlegra til árangurs en að nálgast það beint. Vandinn, áhættan eða heppnin, ef til vill hið óútreiknanlega, yrðu þannig ótímabær en ættu sér engu að síður stað á réttum tíma: þetta og ekkert annað gerðist á réttum tíma, vegna þess að hann er tímaskekkja sem hnikað er til (eins og réttlætið sem skortir ætíð mælikvarða, sem er fráleitt nákvæmt eða jarðbundið og gerólíkt því réttarfari sem ætti að stjórnast af því), tímaskekkja sem er enn nálægari en fréttirnar, mun hæfari til að glíma við þá einstöku og víðfeðmu þætti sem einkenna innbrot þess sem er annað inn í rás sögunnar. Þess háttar innbrot er ævinlega ótímabært, það felur í sér spádóm eða messíanisma, og til þess arna hefur það hvorki þörf fyrir að berja bumbur né að sýna sig opinberlega. Það getur haldið sig nánast í skugganum. Eins og við komum inn á hér áðan er ekkert sérlega oft skrifað um þessa „dýpri“ samtíð í dagblöðunum þessa dagana. Og það þýðir heldur ekki að viku eða mánaðarrit velti sér upp úr þessu efni.

Svarið, ábyrgt svar við áríðandi fréttum, krefst þessara fyrirvara. Svarið felst í því að vera ósammála eða á skjön við hið ótímabæra, í því að stilla tímaskekkjuna rétt af. Það er í senn nauðsynlegt að vera öðruvísi, horfa úr ákveðinni fjarlægð, spyrna við fæti og flýta sér um leið. Menn verða að bera sig rétt að til að nálgast sem allra mest það sem er að gerast í fréttunum. Í hvert einasta skipti, og hvert skipti er annað skipti, það fyrsta og síðasta. Hvað sem því líður þá kann ég vel við það þegar mönnum tekst (það tekst svo sjaldan, eflaust er það ómögulegt og alltént er ekki hægt að innræta mönnum það) í senn að vera algerlega með á nótunum og standa um leið utan tímans. Og áhugi minn á tengingu eða samruna þessara andstæðna er ekki einungis smekksatriði. Þetta er lögmál þess að svara eða þess að axla ábyrgð, lögmál þess sem er annað.

– Hvaða samband sérð þú milli þessarar tímaskekkju eða þessara ótímabæru atburða og þess sem þú kallar ekki mismun heldur skilafrest?

J.D.: Nú getum við aftur velt upp dálítið heimspekilegri fleti á þessu máli, komið aftur að því sem við ræddum um í upphafi þegar við vorum að tala um núið og návistina og þar af leiðandi einnig um skilafrest sem oft hefur verið stillt upp á neikvæðan hátt, sem einhverju sem veldur seinkun, dregur úr áhrifum, stöðvar, og slær því á mikilvægi augnabliksins, einkum á sviði siðferðis og stjórnmála. Ég hef aldrei litið á skilafrest og það að eitthvað sé áríðandi sem andstæður. Mætti ég ef til vill segja þvert á móti? Þá væri ég enn að einfalda. „Í sama tíma“ og skilafresturinn gefur til kynna samband (tengsl) – samband við það sem er annað, þ.e. það sem gerir annað einstakt – snýst hann einnig og um leið um það sem koma skal, um það sem ber að höndum án þess að hægt sé að hafa stjórn á því, um það sem kemur á óvart og er því áríðandi og ófyrirsjáanlegt: flýtirinn sjálfur. Hugmyndin um skilafrestinn er þannig á sama tíma hugmynd um það sem er á ríðandi, um það sem ég get hvorki tileinkað mér né haft stjórn á, vegna þess að það er annað, öðruvísi. Skilafresturinn snýst fyrst og fremst um viðburðinn sjálfan, það sem gerir viðburðinn einstakan. (Þess vegna sagði ég áðan að skilafresturinn hefði síður en svo það hlutverk að draga úr vægi viðburðarins, draga hann niður í tilbúið hlutleysi eins og tíðkast í fjölmiðlunum.) Enda þótt skilafresturinn feli óhjákvæmilega í sér „um leið“ (þessi „um leið“, þessi „sami tími“ sem aldrei næst að stilla saman, þessi öld sem „úr liði er“, eins og Hamlet segir, þ.e. tími sem er truflaður, bilaður, úr hlutföllum) gagnstæða tilhneigingu til að ná aftur stjórn á viðburðinum, snúa útúr honum, losa um hann, sníða broddinn af honum og dauðanum sem skilafresturinn stefnir að. Skilafrestur er því hugsun sem reynir að mæta því sem kemur eða mun koma, hugsun sem reynir að gefa sig viðburðinum á vald, þ.e. sjálfri reynslunni, að svo miklu leyti sem reynslan er óumflýjanlega að leitast við „á sama tíma“ að ná utan um það sem kemur: þannig tekur hún-og tekur ekki- mið af því sem er annað. Skilafresturinn væri ekki fyrir hendi án þess sem er áríðandi, yfirvofandi, án flýtis, án óhjákvæmileika, án hinnar ófyrirsjáanlegu komu þess sem er annað, þess sem við tökum að öllu leyti mið af og tillit til.

– Hvaða merkingu hefur það, með hliðsjón af þessu, að tala um viðburð?

J.D.: Það er annað nafn yfir það sem ekki er hægt að smækka eða afneita (eða aðeins, ef þið viljið heldur, að afneita) í því sem gerist. Það er annað nafn yfir sjálfa reynsluna, sem er alltaf reynslan af einhverju öðru. Viðburðurinn lætur ekki innlima sig í neitt annað hugtak, jafnvel ekki veruhugtakið. Setningar eins og: „Það er“ og „að það verði eitthvað frekar en ekkert“ heyra ef til vill fremur undir reynsluna af viðburðinum heldur en hugsunina um veruna. Koma viðburðarins er það sem ekki er hægt að -og aldrei má- koma í veg fyrir, hún er annað nafn yfir sjálfa framtíðina. Þetta þýðir ekki að það sé gott í sjálfu sér að hvað sem er gerist eða ekkert; og ekki heldur að það eigi að hætta að reyna að afstýra því að sumt eigi sér stað (annars væri engin ákvarðanataka, engin ábyrgð, af siðferðilegum, stjórnmálalegum eða öðrum toga). Yfirleitt reynir maður aldrei að koma í veg fyrir viðburði nema maður haldi að þeir loki framtíðinni eða beri í sér dauðann, að þeir séu viðburðir sem binda enda á möguleikann á viðburði og útiloka jákvæða og opna afstöðu gagnvart komu þess sem er annað. Það er í þessum punkti sem hugsun um viðburðinn opnar leið fyrir eitthvað sem er í ætt við messíanisma, alveg sama þó það sé sértækt, formlegt eða eyðilegt, alveg sama þó það sé eins laust við að vera „trúarlegt“ og hugsast getur. Það er einnig í þessum punkti sem þessi skírskotun til hins messíanska verður ekki skilin frá réttlætinu, en ég greini hér enn á milli réttlætis og laga og réttar. (Ég sting upp á að gera þennan greinarmun íForce de loi [Í krafti laganna, aths. þýð.] og Spectres de Marx [Vofur Marx, aths. þýð.], þar sem þetta er í raun fyrsta fullyrðingin). Ef viðburðurinn er það sem kemur, hendir, sækir mann heim, þá nægir ekki að segja að þessi koma „sé“ ekki, að hún tilheyri ekki neinni tegund verunnar. Nafnorðið koman eða sögnin að koma tæma ekki heldur merkingu orðsins „komdu“ sem þó er mynd af sama orði. Í öðrum skrifum mínum hef ég oft leitast við að greina boð eins og þessi, þetta ákall sem beygir sig ekki undir veru neins sem er. Þó það beinist til einhvers tjáir það hvorki þrá, skipun, bæn, né beiðni, sem það boðar vissulega og getur búið í haginn fyrir. Það þarf að hugsa viðburðinn á grundvelli þess að segja „komdu“ en ekki öfugt. „Komdu“ er sagt við hinn, við aðra sem enn hafa ekki verið ákvarðaðir sem persónur, sem sjálfsverur, sem jafningjar (að minnsta kosti í merkingu útreiknanlegs jafngildis). Það er þetta „komdu“ sem skapar skilyrði fyrir reynslunni af komunni, af viðburðinum, af því sem kemur eða kemur fyrir. Þess vegna skapar það einnig skilyrði fyrir því sem ekki er hægt að segja fyrir um, vegna þess að það kemur frá öðrum. Það eru ekki til nein fyrirfram gefin viðmið fyrir messíanismann. Ef slík viðmiðun væri til, ef hægt væri að sjá fyrir, ákvarða fyrirfram, forrita, þá gerðust hvorki viðburðir né sögur (en eins þversagnarkennt og það kann að virðast þá er af sömu ástæðum ekki hægt að útiloka með fullri rökvísi þessa síðustu tilgátu, því það er næstum óhugsandi að ekki sé til viðmiðun af einhverju tagi). Viðburðir og saga geta ekki gerst nema eitthvert „komdu“ opnist og beinist að einhverjum, að einhverjum öðrum, sem ég get ekki og má ekki ákveða hver er fyrirfram, hvorki sjálfsvera, ég, vitund, né jafnvel dýr, guð eða manneskja, maður eða kona, lifandi eða ekkilifandi (það verður að vera hægt að kalla á vofu, að höfða til hennar, til dæmis, og ég held ekki að þetta dæmi sé aðeins eitt af mörgum; kannski eru afturgöngur og það sem maður segir „komdu aftur“ við upphaf og endi þess að segja „komdu“). Sá eða sú sem sagt er „komdu“ við má ekki láta ákvarða sig fyrirfram. Sökum þessarar algeru gestrisni er sá sem kemur útlendingur, komumaður. Ég má ekki biðja þennan algera komumann að framvísa skilríkjum sínum, segja mér hver hann sé, með hvaða skilyrðum ég muni taka á móti honum, hvort hann muni aðlagast eða ekki, hvort ég muni geta „tekið hann inn“ í fjölskylduna, þjóðina, eða ríkið. Ef þetta er alger komumaður, þá má ég ekki bjóða honum neinn samning og ekki setja honum nein skilyrði. Ég má það ekki og get það raunar ekki eðli málsins samkvæmt. Þess vegna nær það sem líkist hér siðfræði gestrisninnar langt út fyrir siðfræði, og um fram allt út fyrir réttarfar eða stjórnmál. Ef til vill nær jafnvel sjálf fæðingin, sem þó svipar til þess sem ég er að reyna að lýsa, ekki að jafngilda þessari algeru komu. Fjölskyldur undirbúa fæðingu, þær skapa henni skilyrði, ræða hana fyrirfram, skapa henni táknrænt rúm sem dregur úr höggi komunnar. En þrátt fyrir væntingarnar, þrátt fyrir að barnið sé á vissan hátt nefnt fyrirfram, þá er ekki hægt að útiloka hið ófyrirsjáanlega, barnið sem kemur er ófyrirsjáanlegt, það er rætt um það eins og það sé upphaf annars heims, eða annað upphaf þessa heims.

Ég hef lengi glímt við þetta ómögulega hugtak: messíönsk koma. Ég reyni að útskýra hvernig á að nota það í texta sem ég skrifaði um dauðann og kemur út á næstunni, Apories (Óleysanleg rökvandamál), og einnig í bókinni um Marx sem ég var að ljúka við. Það erfiðasta er að réttlæta, að minnsta kosti til bráðabirgða, lýsingarorðið „messíanskur“: um er að ræða reynslu sem fyrirfram er gefin sem messíönsk, en um leið fyrirfram varnarlaus gagnvart sjálfri biðinni, gagnvart því sem aðeins verður ákvarðað eftir á af viðburðinum. Biðin er eins og eyðimörk í eyðimörkinni (en þær benda hvor á aðra), eyðiland hins messíanska án messíanisma og því laus við kenningu eða kreddu. Það er aðeins þessi þurra bið án viðmiðunar sem haldið er eftir úr hinum þremur miklu trúarbrögðum Bókarinnar, sambandið við það sem getur komið, eða aldrei komið, en ég fæ eðli málsins samkvæmt ekkert að vita um. Nema að það varðar réttlætið, í dularfyllsta skilningi þess orðs. Og þar af leiðandi byltinguna, vegna þess sem tengir atburðinn og réttlætið við þetta algera rof í fyrirsjáanlegu samhengi sögulegs tíma. Rof heimsslitafræðinnar innan markhyggjunnar. Hér verður að skilja þetta tvennt að, og það er alltaf erfitt. Það er hægt að gerast fráhverfur myndmáli, eða málskrúðsfræði, jafnvel vissri byltingarpólitík, ef svo má að orði komast, ef til vill að gerast fráhverfur allri byltingarpólitík, en það er ekki hægt að hafna byltingunni án þess að hafna um leið viðburðinum og réttlætinu.

Viðburðinum er ekki hægt að lýsa einfaldlega sem einhverju sem gerist. Það getur rignt í kvöld, eða ekki, það verður ekki alger viðburður vegna þess að ég veit hvað regn er, ef ég veit það og að svo miklu leyti sem ég veit það, og svo er það ekki eitthvað algerlega einstakt og annars konar. Það sem þá kemur fyrir er ekki alger koma.

Komumaðurinn þarf að vera allt annar. Hann er sá sem ég vænti þess að vænta ekki. Biðin eftir honum er búin til úr ekkibið, bið án þess sem við köllum viðmiðun í heimspeki, vegna þess að þekking byggir upp væntingu, dregur úr nýnæmi. Ef ég er viss um að eitthvað gerist, gerist ekkert. Ég á stefnumót við einhvern, ef til vill Krist, ef til vill vin minn, en ef ég vænti hans, og er viss um að hann kemur, verður hann ekki komumaður, a.m.k. ekki í þessum skilningi. En auðvitað getur koma einhvers sem ég vænti einnig komið mér á óvart á einhvern annan hátt, og þá væri það í hvert skipti eins og einhver óheyrð heppni, sem væri alltaf ný, og þess vegna að koma fyrir mig aftur og aftur. Laumulega, leynilega. Og það getur einnig gerst að komandinn komi ekki, eins og Elí. Það er í hinu síopna bili sem möguleiki ekkikomunnar skapar, í algerum vonbrigðum hennar, sem ég get nálgast viðburðinn: hann er líka það sem kynni aldrei að gerast.

– Þýðir þetta að viðburður sé ekki viðburður, nema hann sé óvæntur?

J.D.: Já, einmitt.

– Ef við tökum nýlegt dæmi, kom það þér á óvart að öfgastefna til hægri og viss vinstri hugsun blandast saman, eins og rætt hefur verið um undanfarið?

J.D.: Þarna er heldur betur verið að þröngva mér aftur til að fást við „málefni líðandi stundar“. Þið hafið rétt fyrir ykkur: ef við viljum að mark sé tekið á því sem við vorum að segja rétt í þessu, þá er ekki hægt að færast undan því að svara þessari spurningu. „Blandan“ sem þið töluðuð um er flókin, en ef til vill ekki jafn ósennileg og hún virðist í fyrstu. Það þarf að fara mjög varlega í sakirnar og það er erfitt við aðstæður sem þessar: taka þyrfti mið af miklum fjölda eiginleika eða upplýsinga (hvaða hægri öfgastefna, hvaða „vinstri hugsun“, o.s.frv., hvaða „blanda“, hver, hvar og hvenær, innan hvaða marka? o.s.frv.). Áður en við lítum á sérkennilegustu og afbrigðilegustu dæmin, sem alltaf eru áhugaverðust, því í þeim felst – í þessu sem öðru – mesta nýjungin, skulum við rifja upp nokkur atriði almenns skilnings, algengar hugsunarleiðir og þekktar röksemdafærslur: þetta er ekki í fyrsta skiptið sem afstaða ákafra vinstrimanna skarast á vissum sviðum við afstöðu öfgasinnaðra hægrimanna. Sem dæmi má taka að viss andstaða gegn Evrópusamrunanum getur kynt undir stefnur með þjóðernislegu yfirbragði bæði til hægri og til vinstri, þótt þær byggi annars á ólíkum hvötum og mismunandi greiningu á ástandinu. Margir vinstri menn hafa réttilega áhyggjur af því hvað öflugustu ríkin í ESB leggja mikla áherslu á efnahagsmál. Þeir hafa einnig áhyggjur af peningastjórnun og pólítískri stefnu þessara ríkja, og því gæti ákveðinn hluti vinstrihreyfingarinnar í reynd gert bandalag við þjóðernisstefnu og andevrópska hugsun öfgamanna til hægri. Upp á síðkastið hefur Le Pen [leiðtogi öfgasinnaðra þjóðernissinna. Ats. þýð] lagt mikla áherslu á andstöðu sína við „fríverslunarstefnu“ og „efnahagslega frjálsræðisstefnu“. Þótt aðrar hvatir búi að baki hjá honum, getur þessi tækifærissinnaði málflutningur gert hann að „traustum bandamanni“, eins og sagt var forðum, þeirra sem beina vinstrisinnaðri gagnrýni að þeim kapítalíska rétttrúnaði og peningahyggju sem tröllríður Evrópu um þessar mundir. Aðeins árvekni og skýr viðbrögð, hvort sem það er í orðum eða gerðum, geta leyst úr slíkum flækjum, greint þær í sundur. Hættan á að þessari tvenns konar afstöðu verði ruglað saman er stöðug, alvarlegri en nokkru sinni fyrr, ef til vill er hún „í reynd“ óhjákvæmileg: t.d. í kosningum. Jafnvel þótt maður reyni – eins og ávallt ber að gera – að gera greinarmun á eigin afstöðu og annarra, í þeim forsendum sem maður gefur sér, í öllu því sem líkist því að „gera grein fyrir atkvæði sínu“, hvort sem það kemur fram á prenti, í orði, í aðgerðum, eða við þær aðstæður sem skapast við kosningar (og hver skapar þær einmitt?), þá verður aldrei hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að atkvæðin gegn Evrópusamrunanum frá vinstri eru lögð saman við þau sem koma frá hægri. Og hið sama gildir um atkvæðin frá hægri og vinstri sem greidd eru til stuðnings Evrópusamrunanum. Eins og þið vitið er einnig til vinstrisinnað fólk sem er endurskoðunarsinnað (ég tek það fram, eins og ávallt á að gera, að þetta orð á við þá sem neita því að Shoah, helför Gyðinga, hafi átt sér stað) og hefur fallið í gryfju Gyðingahaturs (nema hatrið hafi gert það að endurskoðunarsinnum). Sumt af þessu fólki byggði afstöðu sína, á misruglaðan hátt þó, á grundvallarandúð á Ísraelsríki, eða, enn þrengra, á vandlætingu á framkomu Ísraelsríkis, jafnvel allt frá því það var stofnað. Myndi slíkur ruglingur standast heiðarlega og hugrakka greiningu? Menn verða að geta verið á móti tiltekinni stefnu tiltekinnar ríkisstjórnar Ísraels án þess að vera í grundvallaratriðum á móti tilvist þessa ríkis (ég myndi jafnvel segja: þvert á móti!), og án þess að vera á móti Gyðingum eða síonisma. Ég gæti gengið enn lengra með annarri tilgátu: að hafa áhyggjur af því hvernig stofnun þessa ríkis bar að sögulega, af þeim aðstæðum sem gerðu hana mögulega og af því sem á eftir kom, þarf ekki að hafa í för með sér nokkur svik við Gyðingsdóminn, jafnvel þegar Gyðingar sjálfir, jafnvel Gyðingar sem eru hlynntir síonisma, spyrja sig þessara spurninga. Það að vera á móti Ísraelsríki eða á móti stefnu þess í reynd þarf hvorki nauðsynlega að hafa í för með sér Gyðingahatur, né andsíonisma, né einu sinni endurskoðunarstefnu, í þeirri merkingu sem ég notaði orðið í rétt áðan. Nefna mætti veigamikil dæmi um slíka afstöðu (t.d. Buber, svo dæmi sé tekið úr fortíðinni).

En svo við höldum okkur við prinsíp og almenn atriði, haldið þið ekki að það sé skylda okkur í dag að tala gegn því að öllu sé ruglað saman og að verjast þessum ruglingi frá báðum hliðum? Annars vegar höfum við þjóðernissinnaðan rugling þeirra sem eru að færast af vinstri yfir á hægri væng stjórnmála, af því þeir rugla öllum áætlunum sem hægt er að gera um Evrópu saman við stefnuna sem rekin er í dag, og einnig andgyðinglegan rugling þeirra sem sjá ekki muninn á gagnrýni á ísraelska ríkið og andÍsraelisma, eða andsíonisma, eða Gyðingahatri, eða endurskoðunarstefnu, o.s.frv. Hér eru taldir upp að minnsta kosti fimm möguleikar sem verður að halda algerlega aðgreindum. Þetta merkingarrek er því alvarlegra, frá pólítísku, vitsmunalegu, heimspekilegu sjónarmiði að það ógnar frá báðum hliðum, ef svo má segja, jafn mikið þeim sem láta undan því og þeim sem hins vegar veitast að því með því að tileinka sér þankagang sem er bein andhverfa þess sem hinir hafa tileinkað sér. Rétt eins og það væri ekki hægt að gera eitt án þess að gera hitt, til dæmis að vera á móti þeirri stefnu sem nú er fylgt við sameiningu Evrópu án þess að vera í grundvallaratriðum andEvrópusinni. Eða eins og maður gæti ekki spurt sig spurninga um Ísraelsríki, framkomu þess í fortíð og nútíð, jafnvel um aðdragandann að stofnun þess og það sem gæti hafa fylgt í kjölfarið í hálfa öld, án þess að vera Gyðingahatari eða andsíonisti eða endurskoðunar og afneitunarsinni, o.s.frv. Þessi samhverfa speglun þeirra sem eru andstæðingar verður til þess að forheimskandi ruglingur tengist hryðjuverkastarfsemi. Það þarf harðfylgi og hugrekki til að berjast gegn duldum herbrögðum (dyljandi, dulrænum) ruglingsins. Eina ábyrga svarið við þessari tvöföldu ógn er að gefast aldrei upp á því að skilja að og greina í sundur. Ég mundi segja: að gefast aldrei upp á Upplýsingu þeirra, þ.e. á því að slíkt fari fram opinberlega (og það er ekki eins auðvelt og ætla mætti). Þessi andspyrna er ennþá brýnni vegna þess að gagnrýnin endurskoðun á sögu þessarar aldar er nú að fara í gegnum hættulegt ókyrrðartímabil. Það er orðið nauðsynlegt að lesa upp á nýtt, túlka aftur, grafa upp gömul skjöl, skipta um sjónarhorn o.s.frv. Hvernig fer ef öll pólítísk gagnrýni og öll ný túlkun á sögunni verður sjálfkrafa tengd endurskoðunar og afneitunarstefnunni? Eða ef hver sá sem spyr um fortíðina, eða með almennari hætti um hvernig sannleikur verður til í sögunni, á það á hættu að vera ákærður um að búa í haginn fyrir endurskoðunarstefnu? (Ég nefni í Vofum Marx sérlega ógeðfellt dæmi um slíka forheimskun í útbreiddu bandarísku dagblaði.) Yrði það ekki vatn á myllu hvers konar kreddustefnu ef upp risi saksóknari með landráðaákæru í hvert skipti sem einhver reynir að bera fram nýjar spurningar, trufla þá sem hafa góða samvisku, grafa undan klisjum, í hvert skipti sem einhver reynir að flækja eða hugsa upp á nýtt, út frá nýjum forsendum, málflutning vinstrimanna eða greininguna á kynþáttastefnu eða Gyðingahatri? Auðvitað verður að leitast við að gefa slíkum ákærum eins lítið tilefni og mögulegt er með því að viðhafa fyllstu varúð, jafnt þegar tekið er til máls, þegar greina á eitthvað, og þegar látið er að sér kveða á opinberum vettvangi. Og það er satt að engin fyrirheit um algera tryggingu gegn þessu verða nokkurn tímann gefin. Ef nauðsyn krefði mætti nefna nýleg dæmi þessu til stuðnings.

Ég ætla að koma aftur að spurningu ykkar eins og hún var orðuð. Spurt var: „Kom þessi blöndun þér á óvart?“ Svar mitt var almenns eðlis og varðaði grundvallaratriði: hér eru nokkur skilningsskemu, nokkrar rökraðir sem hægt er að nota til að þessi blanda verði ekki jafn undarleg og hún virðist í fyrstu, og enn fremur, hér er skýringin á því hvers vegna ekki má blanda öllu saman. Hvað einstöku tilfellin varðar, en þau eru áhugaverðust, þá þyrfti lengri tíma og aðrar aðstæður til að greina þau. Þau eru vettvangur „hins óvænta“ og tafarinnar. Milli hinna almennustu röklegu ferla (mestur fyrirsjáanleiki) og þess einstaka sem er ófyrirsjáanlegast, þá kemur skema taktsins. Til dæmis var vitað um ótrúverðugleika og innbyggt hrun alræðisríkja AusturEvrópu síðan á sjötta áratugnum, það var daglegt brauð fólks af minni kynslóð (ásamt hinni gömlu tuggu um „endalok sögunnar“, „endalok mannsins“, o.s.frv., sem nýlega hefur verið lappað upp á af mönnum eins og Francis Fukuyama). Það sem var hins vegar ekki hægt að segja fyrir um var takturinn, hraðinn, dagsetningin: t.d. dagsetningin á hruni Berlínarmúrsins. Í árunum 1986 og 1987 hefði enginn í heiminum getað sagt fyrir um það með neinni vissu. Ekki að þessi taktur sé ofar skilningi. Það er hægt að greina hann eftir á og taka þá tillit til nýrra áhrifavalda sem sérfræðingar fyrri tíma kunnu ekki skil á. (Í fyrsta lagi hnattræn stjórnmálaleg áhrif almennra fjarskipta: öll sú röð atburða, sem merki á borð við fall Berlínarmúrsins er hluti af, hefði verið óhugsandi og óskiljanleg án ákveðins þéttleika fjarskiptanetsins, o.s.frv.)

– Ef við höldum óbeint áfram með það sem þú varst að segja, þá er hlutfall innflytjenda ekki hærra nú en fyrir fimmtíu árum. Þó virðast innflytjendurnir koma á óvart núna. Svo virðist sem þeir hafi komið flatt upp á þjóðfélagið og stjórnmálamenn. Málflutningur bæði hægri og vinstrimanna beinist gegn því að innflytjendur flykkist ólöglega inn í landið, en virðist nú bera meiri og meiri keim af útlendingahatri.

J.D.: Að þessu leyti má segja að í orði kveðnu sé einkum áherslumunur á milli þeirra flokka sem kenna sig við lýðræði. Yfirlýst stefna þeirra er í grófum dráttum sú sama. Menn eru sammála um þetta: enga ólöglega innflytjendur, enga óþarfa, óarðbæra og truflandi gestrisni. Um þessar mundir ganga menn fram af meira harðfylgi en áður, andrúmsloftið er breytt, munurinn er umtalsverður. En meginreglan er óbreytt: það verður að vernda þjóðfélagið, þjóðarlíkamann gegn of miklum áhrifum, það er að segja vernda þær hugmyndir sem þessi líkami heldur að hann eigi að hafa um sjálfan sig (það má geta þess svona í leiðinni að ef maður hugsar út frá þessum forsendum yrði að banna hvers konar líffræðilega og menningarlega ígræðslu en það hefði víðtækar afleiðingar – nema afleiðingarnar yrðu engar, dauðinn myndi kveðja dyra orðalaust). Þegar François Mitterand [þáverandi forseti Frakklands. Aths. þýð.] talaði um að umburðarlyndið ætti sér ákveðin takmörk (margir okkar brugðust opinberlega við þessum ummælum sem hann missti út úr sér og var síðan maður, eða nógu slyngur, til að leiðrétta) þá var hann með þessum klaufalegu mismælum að segja það sem lýðræðisöfl til vinstri og hægri, raunar einnig hægri öfgamenn, eiga sameiginlegt: það mega ekki vera neinir komumenn, í þeirri merkingu sem við töluðum um áðan, það verður að hafa stjórn á því hvað kemur, sía straum innflytjenda.

Vitaskuld geri ég mér grein fyrir því að það sem ég sagði áðan um komumanninn er nokkuð sem stjórnmálamenn myndu aldrei sætta sig við, það er að segja ef stjórnmálin taka mið af og grundvallast á hugmyndinni um sjálfstæða heild sem kölluð er þjóðríki. Það er ekki til eitt einasta þjóðríki sem gæti sem slíkt lýst yfir eftirfarandi: „Við bjóðum alla velkomna, við setjum engar hömlur á innflytjendur.“ Eftir því sem ég best veit, ef til vill getið þið komið með dæmi um hið gagnstæða, þá miðast hvert einasta þjóðríki við að geta haft eftirlit með landamærum sínum, við það að geta bannað mönnum að flytjast ólöglega inn í landið og geta fylgst nákvæmlega með þeim sem fá að setjast að í landinu eða fá þar hæli. Hugtakið landamæri er grundvöllur hugtaksins þjóðríki, og jafnframt takmörk þess.

Þegar þetta liggur ljóst fyrir geta menn notað hugtakið eftir hentugleikum, en sá pólitíski munur, hver sem hann kann annars að vera, er aukaatriði í samanburði við þá meginreglu að stjórnmálin séu þjóðleg. Í henni felst að setja síu á inngönguleiðirnar og banna ólöglega innflytjendur enda þótt menn viti mætavel að það er ógerlegt og jafnvel (enn einn tvískinnungshátturinn) óæskilegt við vissar efnahagsaðstæður.

Það er ekki hægt að byggja hefðbundna stjórnmálastefnu þjóðríkis á því sem ég sagði áðan um hinn algera komumann. En þótt mér sé fyllilega ljóst að ummæli mín hér áðan um hann séu ópólitísk og óviðunandi frá sjónarmiði stjórnmálanna, þá held ég því engu að síður fram að sú stjórnmálastefna sem heldur ekki fast í meginregluna um skilyrðislausa gestrisni er ekki lengur réttlát. Hún heldur ef til vill áfram að eiga sér stoð í lögum (sem ég aðgreini hér enn frá réttlætinu), lagalegan rétt, en hún sé ekki lengur réttlát. Og hún hefur fyrirgert réttinum til að fjalla um réttlæti svo mark sé á takandi. Raunar þyrfti, en það er ekki hægt að gera því skil hér, að reyna að gera greinarmun á því að marka stefnu í innflytjendamálum og virða rétt fólks til að leita pólitísks hælis. Svo þverstæðukennt sem það annars kann að virðast, þá er réttur manna til að biðjast hælis af pólitískum ástæðum (hann er enn viðurkenndur í Frakklandi, af pólitískum ástæðum) ekki eins pólitískur vegna þess að hann stangast í orði kveðnu ekki á við hagsmuni þess þjóðríkis sem veitir þeim viðtöku. En fyrir utan hvað það er erfitt að gera greinarmun á innflutningi og pólitísku hæli, er nánast ómögulegt að einangra hreinar pólitískar ástæður þess að menn gerast útlagar, þær sem samkvæmt stjórnarskrá okkar eiga að vera rökin fyrir veitingu pólitísks hælis. Þegar öllu er á botninn hvolft er atvinnuleysi í erlendu ríki merki þess að lýðræðið sé ekki sem skyldi þar í landi og ákveðið form pólitískra ofsókna. Auk þess, og það er hluti af dæminu, eiga hin auðugu ríki heimsins að einhverju leyti sök á þeim kringumstæðum sem valda því að menn flytjast úr landi eða hrökklast í útlegð (þó ekki væri nema vegna þeirra vaxta sem skuldsettar þjóðir þurfa að greiða af erlendum skuldum). Hér erum við komin að mörkum stjórnmála og lögfræði: það er alltaf hægt að sýna fram á að réttur manna til að hljóta pólitískt hæli geti verið enginn eða ótakmarkaður. Þetta hugtak er með öðrum orðum ennþá ákaflega opið og sveigjanlegt enda þótt menn hafi litlar áhyggjur af því nema á róstusömum tímum. Það þarf að taka þetta hugtak til gagngerrar endurskoðunar, vilji menn komast eitthvað áfram með þessa umræðu, eða hreinlega skilja hana (t.d. umræðuna milli þeirra sem vilja halda tryggð við stjórnarskrána og manna eins og Charles Pasqua [þáverandi innanríkisráðherra Frakka, en hann beitti sér fyrir afnámi laga um Frakkland sem griðland ofsóttra. Aths. þýð.] sem vilja breyta ákvæðum hennar um pólitískt hæli til samræmis við forna og nýja „franska þjóð“, sem þá væri skyndilega ekki lengur orðin sú sama sem kaus sér þessa stjórnarskrá). En ég ætti að reyna að koma mér að því að svara spurningu ykkar. Þið sögðuð að svo virtist sem „þjóðfélag og stjórnmálamenn“ nútímans hafi „orðið undrandi“. Undrandi á straumi innflytjendanna eða á útlendingahatrinu?

– Í útlendingahatrinu.

J.D.: Stjórnmálamenn, bæði þeir sem komust til valda hér í Frakklandi eftir 1981 og þeir sem hafa tekið við af þeim síðan, hafa ekki beinlínis lagað sig að sjálfu útlendingahatrinu heldur hafa þeir lært að notfæra sér það eða misnota til að blekkja borgarana. Stjórnmálamennirnir togast á um ákveðinn hluta kjósenda, þess hluta sem er mjög upptekinn af „öryggismálum“ (rétt eins og talað er um heilbrigðismál, enda er sagt að málið snúist um heilbrigði þjóðarlíkamans sem á allt sitt undir öflugu heilbrigðiskerfi), kjósendur Þjóðarfylkingarinnar (Front National) sem tala um þjóðarlíkamann nánast eins og um raunverulegan, líffræðilegan líkama væri að ræða (nánast líffræðilegan, því hugarórar þjóðernissinna, rétt eins og málflutningur pólitíkusanna, spretta oft af þess konar lífrænum samlíkingum). Mig langar að skjóta því inn hér til dæmis að nýlega hélt Le Pen ræðu (sjá Le Monde 24.8.1993) sem var eins og venjulega stórmerkileg fyrir það að málflutningurinn var í senn skarplegur og staurblindur. Le Pen vill að hinni hefðbundnu hugmynd um landamærin sem varnarlínu verði varpað fyrir róða og í stað hennar verði tekin upp hugmynd (sem er í senn gamaldags og hentug) um „lifandi himnu sem hleypir því inn sem er æskilegt en hinu ekki“. Lifandi vera gæti ef til vill orðið ódauðleg ef hún gæti síað allt af slíkri nákvæmni, en þá þyrfti hún fyrst að deyja eða láta deyða sig af ótta við utanaðkomandi áhrif, áhrif frá öðru. Þetta er ástæðan fyrir því að kynþáttahatarar, líffræðingar, líffærafræðingar, þjóðfræðingar og stundum heimspekingar lífsins gefa sig svo oft á vald e.k. dauðaleik. Áður en ég vík að öðru langar mig að árétta eftirfarandi, sem kann að fara fyrir brjóstið á ansi mörgum: sá sem ætlar sér að hafa eftirlit með innflytjendum, og þá gildir einu hvort hann er hægri eða vinstrisinnaður, útilokar ólöglegan innflutning fólks og ætlar að láta hinn hlutann lúta lagaboði, gengst í raun og veru og hvort sem honum líkar það betur eða verr inn á þær líffræðilegu forsendur sem Le Pen gefur sér, en þær eru hvorki meira né minna en forsendur þjóðarfylkingar (front þýðir í senn fylking og enni, og ennið nýtur einmitt verndar af hörundinu, „líffæri“ sem velur og hafnar: það hleypir einungis í gegn því sem getur aðlagast líkamanum, sem er eins og efnin í líkamanum, eða í mesta lagi ýmsum efnum sem eru „holl“ fyrir líkamann: innflytjanda sem lagar sig auðveldlega að aðstæðum, sem er hreinn innflytjandi). Menn verða að horfast í augu við þessa flóknu staðreynd: þetta er nokkuð sem er og verður hluti af stjórnmálum svo lengi sem þau snúast fyrst og fremst um þjóðríkið. Og þegar menn verða að viðurkenna, rétt eins og allir aðrir, að þeir geti ekki annað en reynt að vernda það sem þeim finnst vera eigin heild, þegar þeir vilja setja lög um innflytjendur og rétt manna til að öðlast pólitískt hæli (eins og tilfellið er með bæði hægri og vinstrimenn), þá eiga þeir í það minnsta ekki að fara að þenja sig að óþörfu og kenna pólitíska mannasiði með því að vísa í meginreglurnar miklu sem liggja til grundvallar lýðræðinu. Í sama hátt og Le Pen kemur alltaf til með að eiga erfitt með að réttlæta, eða stilla það af, hvernig „himnan“ síar, þá verður sífellt erfiðara að koma í veg fyrir að þessi hugtök og röksemdafærslur smiti hver aðra, enda þótt þær gefi sig út fyrir að vera andstæður: nú á tímum er til nýverndarstefna til hægri og vinstri, bæði hvað varðar efnahagsmál og búsetu fólks, til eru menn á vinstri og hægri væng stjórnmálanna sem aðhyllast afnám viðskiptahafta og það er til hægrisinnuð og vinstrisinnuð nýþjóðernisstefna. Öll þessi nýhyggja verður til þess að upphaflegar grundvallarreglur eru teknar að smita hver aðra með þeim afleiðingum að dularfull tengsl myndast milli þeirra, tengsl sem koma fram í málflutningi þeirra, pólitísku starfi eða kosningabaráttu. Með því að að viðurkenna þetta flæði milli hugmynda, að hagsmunatengslin milli þeirra hafa riðlast, er maður hvorki að halda á lofti ópólitískum málflutningi né segja sem svo að enginn munur sé lengur á hægri og vinstri og að „hugmyndafræðin sé dauð“. Þvert á móti er ég með þessu að skora á menn að takast bæði formlega og efnislega á við þessa skelfilegu riðlun, en það þarf nauðsynlega að rjúfa hana ef takast á að hugsa stjórnmálin upp á nýtt, tala um stjórnmálin á annan hátt, skilgreina socius öðruvísi, einkum með tilliti til þegnanna og þjóðríkisins yfirleitt, og í víðara samhengi með tilliti til sjálfsmyndar okkar og sjálfsveru. Hvernig í ósköpunum á maður að geta talað um þetta í innskoti í viðtali? En eins og þið vitið eru þessi vandamál samt allt annað en sértæk og óhlutbundin nú á tímum. Svo ég komi nú aftur að því, þá veltur meirihlutinn hér í Frakklandi á 1 eða 2% í forsetakosningum, 10 til 15% í öðrum kosningum. Því snýst spurningin um það hvernig eigi að laða, vekja áhuga, heilla (hræða og hughreysta í senn) það brot útlendingahatara sem greiðir Þjóðarfylkingunni atkvæði sitt.

Þetta vekur enn frekari spurningar: hvers vegna nær Þjóðarfylkingin að nýta sér þessa hræðslu eða kynda undir óþolinu? Hvers vegna reyna menn ýmist að tileinka sér málflutning Þjóðarfylkingarinnar eða notfæra sér glundroðann sem hún hefur valdið innan raða hefðbundinna hægrimanna, í stað þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir (uppfræða fólk og taka til hendinni í efnahags- og félagsmálum) til að bæla niður þessar tilfinningar. Og allt er þetta að eiga sér stað enda þótt straumur innflytjendanna hafi haldist alveg stöðugur: svo virðist sem hann hafi haldist nánast óbreyttur undanfarna áratugi. Er það eitthvað sem kemur flatt upp á menn? Þegar maður reynir að hugsa málin koma þau síður flatt upp á mann. Það mátti svo sem búast við þessu, er viðkvæði manna eftir á, þegar þeir átta sig á því sem hafði farið fram hjá þeim, þegar þeir líta öðruvísi á málið (til dæmis á vaxandi atvinnuleysi, minnkandi hlutverk landamæra milli Evrópuríkjanna, almennan og vaxandi áhuga á trúmálum, auknar kröfur fólks um að fá sérkenni sín viðurkennd – í trúmálum, menningarmálum og að mega tala tungumál sitt – ekki síst meðal innflytjendanna, allt gerir þetta það að verkum að þjóðfélaginu sem veitir þeim viðtöku virðist standa meiri ógn af innflytjendunum, enda þótt hlutfall þeirra sé óbreytt). En viðburður sem heldur áfram að vera viðburður, er koma, aðflutningur: það er það sem heldur áfram að koma á óvart og þvælast fyrir mönnum að skilja eftir að það er komið. Þegar barn kemur í heiminn, en barnið er fyrsta mynd hins algera komumanns, er hægt að athuga orsakir og forsendur hvort sem menn vilja gera það á nótum erfðafræðinnar, ættfræðinnar, skoða táknrænt gildi atburðarins, eða hvað annað sem vera skal. Jafnvel þótt hægt yrði að komast til botns í þeirri sundurgreiningu verður óvissuþátturinn aldrei fullkomlega afmáður. Það verður samt sem áður einhver talandi til staðar, einhver ómissandi, algert frumkvæði, nýtt upphaf heimsins. Þótt það leysist upp við greiningu að lokum, eða verði að gjalti, er það samt ögn af einhverju sem er algert. Saga Frakklands, menning, trúarbrögð og tungumál eru sprottin af aðkomufólki, einkum þó af börnunum sem ýmist voru innflytjendabörn eða ekki, en altént algert aðkomufólk. Verkefni heimspekings og þar með hvers sem er, til dæmis borgaranna, er að reyna að rýna eins djúpt og kostur er í atburðinn, gera hann skiljanlegri, þar til greiningin nær til þess sem kemur. Það sem gerir eitthvað nýtt, er ekki frekar þetta en hitt, heldur sú staðreynd að allt sem er dagsett gerist aðeins einu sinni, (staður og stund) og það er alltaf annaðhvort fæðing eða dauði sem sem við merkjum á þennan hátt. Enda þótt menn sæju fall Berlínarmúrsins fyrir, gerðist það einn góðan veðurdag, og það kostaði nokkur mannslíf til viðbótar (áður en hann var rifinn og meðan á því stóð) og einmitt þess vegna verður sá atburður ekki aftur tekinn. Það eina sem ekki er hægt að greina til hlítar er fæðing og dauði: ávallt upphaf heimsins og endir . . .

– Er það sem stendur eftir, þegar viðburður hefur verið greindur, hið óafbyggjanlega? Er eitthvað óafbyggjanlegt til, og hvað mundi það þá vera?

J.D.: Ef eitthvað er ekki hægt að afbyggja, er það réttlætið. Réttarfarið, réttarkerfið er hins vegar sem betur fer hægt að greina sundur og saman, það má endalaust bæta. Sem stendur hallast ég helst að því að réttlæti sé besta dæmið um fyrirbæri sem ekki er hægt að afbyggja, það sem knýr afbygginguna áfram, réttlætir hana. Það er jákvæða reynslan af því þegar hið ókunna birtist sem slíkt: það er heilladrýgra að það gerist en ekki (þetta er reynsla af viðburðinum sem ekki er hægt að gera grein fyrir með aðferðum verufræðinnar: að eitthvað verði, að eitthvað sé fremur en ekkert). Það er betra að vera opinn gagnvart framtíðinni, þetta er það sem afbyggingin gefur sér, það sem hún hefur ævinlega sótt hreyfiafl sitt til og tengir hana, rétt eins og sjálfa framtíðina, við það sem er annað, við takmarkalausa reisn þess sem er annað. Þá er ég einnig að tala um lýðræðið sem koma skal. Það má ímynda sér allskyns mótbárur gegn þessu. Þessa til dæmis: „Stundum er betra að þetta eða hitt gerist alls ekki. Réttlætið krefst þess að þessi eða hinn atburðurinn (það sem „að höndum ber“) eigi sér ekki stað. Viðburður er ekki æskilegur sem slíkur, framtíðin er ekki „skilyrðislaust ákjósanlegri““. Vissulega, en það má alltaf sýna fram á að þegar maður vill síður að þetta gerist en hitt sé maður með réttu eða röngu að loka sjóndeildarhring, eða draga sjóndeildarhring (orðið merkir ystu mörk), loka á allt sem framandi er, loka á sjálfa framtíðina. Hér er á ferðinni messíönsk formbygging (jafnvel messíanismi – í kveri því sem ég skrifaði um Marx geri ég greinarmun á hinu messíanska sem almennri vídd mannlegrar reynslu og á öllum hugsanlegum messíanismum) sem tengir saman órjúfandi böndum fyrirheit þess sem kemur, ófyrirsjáanleika framtíðarinnar og réttlætið. Ég get ekki rakið þá röksemdafærslu hér og viðurkenni að orðið réttlæti kann að orka tvímælis. Ég er ekki að tala um réttarfarið, ég er að tala um annað og meira en grunn mannréttindanna, ekki um réttláta skiptingu gæða né heldur virðingu fyrir annarri manneskju í hefðbundinni merkingu þess hugtaks. Ég er hér að tala um reynslu okkar af öðrum sem öðrum, þá staðreynd að ég leyfi honum að vera hann sjálfur, en það þýðir að gefa af sér án þess að krefjast neins í staðinn, án þess að fara fram á neitt eða kveða upp dóm. Hér liggur leið mín um hugsun sem nokkurra forvera minna, enda þótt ég fari frjálslega með hana hér sem annars staðar: hugsun Levinas þegar hann skilgreinir einfaldlega samband okkar við aðra sem réttlæti („samband okkar við annað fólk, það er að segja réttlæti“) og þá þverstæðukenndu hugsun sem fyrst örlaði á hjá Plótinosi og Heidegger tók síðar upp, og Lacan enn síðar: að gefa ekki einungis það sem maður á heldur það sem maður á ekki. Þetta er nokkuð sem nær út fyrir núið, eignarréttinn, endurgjald, og eflaust einnig réttarfarið, siðferðið og stjórnmálin enda þótt þessi síðastnefndu svið ættu að sækja þangað innblástur og von.

– Er heimspekin ekki um leið að glíma við hugmyndina um að eitthvað, og hugsanlega hið versta, gæti snúið aftur?

J.D.: Jú, hún „glímir“ einmitt við það, berst gegn því að hið versta snúi aftur og það á fleiri en einn hátt. Fyrst vil ég segja að allt það sem boðaði heimspeki Upplýsingarinnar eða kom í kjölfar hennar (ekki einungis skynsemisstefnan, sem hangir ekki endilega saman við upplýsingastefnuna, heldur framfarasinnuð, teleólógísk, mannleg, gagnrýnin skynsemisstefna) hefur barist gegn því að „hið allra versta“ snúi aftur, nokkuð sem uppfræðsla og þekking á fortíðinni ættu að geta afstýrt. Enda þótt baráttuaðferðir Upplýsingarinnar hafi oft á tíðum tekið á sig mynd særingar eða afneitunar getur maður ekki annað en stutt og tekið undir þessa heimspeki frelsunar. Ég hef trú á því að hún eigi framtíðina fyrir sér og hef aldrei verið sammála yfirlýsingum manna um að allt tal um uppreisnir og byltingar sé liðin tíð. En með þessu er maður um leið að benda á að hið gagnstæða sé hugsanlegt: að vænta megi alls hins versta, að hvatir dauða og kynþáttahaturs fái aftur að leika lausum hala, saga framþróunar stöðvist, sagan verði sögulaus, o.s. frv. Og það er ekki hægt að einskorða Upplýsinguna við 18. öldina. Síðan er til önnur leið, enn róttækari, sem heimspekin getur beitt til þess að „glíma við“ eða berjast gegn því að hið versta snúi aftur: hún felst í því að vilja ekki vita af (hafna, særa út, afneita, allt eru þetta aðferðir sem þarfnast greiningar) öllu því sem viðkemur því að bölið endurtekur sig: lögmál vofunnar sem ekki lýtur neinum verufræðilegum lögmálum (draugurinn eða afturgangan er hvorki nálægur né fjarverandi, hann hvorki er né er ekki, það er heldur ekki hægt að höndla hann með þrætubókarlist), né heldur heimspeki sjálfsverunnar, hlutverunnar eða vitundarinnar (þess sem er til staðar) sem einnig er ætlað, rétt eins og verufræðinni eða heimspekinni, að „kveða niður“ drauginn. Og því einnig að skella skollaeyrum við ákveðnum kenningum sálgreiningarinnar um vofuna og endurtekningu hins versta sem er ógnun við hvers konar sögulegar framfarir. (Við þetta má bæta að annars vegar er þetta einvörðungu ógnun við ákveðna hugmynd um framfarir og að framfarir almennt eigi sér því aðeins stað að þessi ógn vofi yfir þeim; hins vegar má nefna að í sálgreiningunni, ekki síst hjá Freud, gætir vanþekkingar á eðli og formgerð hins vofulega, þetta er djúpstæð vanþekking, hárfín, sveiflukennd, og hennar gætir jafnt í raunvísindum sem í heimspeki.) Já, vofan getur snúið aftur á sama hátt og hið versta, en án slíkrar afturgöngu, ef maður neitar að horfast í augu við hana, neitar maður sér um minni, arfleifð, réttlæti, um allt sem hefur gildi handan lífs og dauða, og er mælikvarði á það hvort menn hafa lifað lífinu með reisn eða ekki. Þetta er nokkuð sem ég hef reynt að gefa til kynna annars staðar en finnst erfitt að draga saman í grófum dráttum hér. En ég vænti þess að þegar þið talið um „að hið versta snúi aftur“ séuð þið að hugsa um það sem er næst okkur í tíma, það sem átti sér stað í Evrópu fyrir stríð.

– Já.

J.D.: Og ekki eingöngu í Evrópu, höfum það hugfast. Að þessu leyti á hvert og eitt land sér sína eigin sögu og eigið minni. Svona í fljótu bragði sýnist mér að það sem átti sér stað í Frakklandi fyrir síðari heimsstyrjöld, meðan á henni stóð, og jafnvel enn frekar í Alsírstríðinu, hafi yfirskyggt allt annað og valdið því að það hefur fallið í gleymsku. Þessi vaxandi þögn er sérdeilis þétt, öflug og hættuleg. Þetta samsæri þagnarinnar lætur smátt og smátt undan síga, með hléum og á mótsagnakenndan hátt, fyrir hreyfingu sem beinist að því að létta á minninu (einkum hinu opinbera minni, ef svo má segja, opinberri réttlætingu þess, sem er aldrei í takt við sagnfræðilega þekkingu eða minni einstaklingsins, ef það er hægt að tala um eitt óflekkað minni). Ístæður og afleiðingar þessa innsiglisrofs eru mótsagnakenndar, einmitt vegna þessarar vofu. Í sama tíma og hins versta er minnst (til að heiðra minninguna, sannleikann, fórnarlömbin, o.s.frv.) má hvenær sem er búast við endurkomu hins versta. Ein vofan vekur upp aðra. Og þegar menn sjá að ein er að rísa upp frá dauðum þá gerist það oft að önnur fylgir á eftir. Höfum hugfast hvað mönnum finnst nú áríðandi að minnast þess opinberlega sem átti sér stað á Vel’d’Hiv’ [þegar lögreglan í París smalaði Gyðingum saman í hjólreiðahöllinni Vel’ d’Hiv. og afhenti þá nasistum sem fluttu þá í útrýmingarbúðir. Aths. þýð.] eða að lýsa vissri ábyrgð á hendur franska ríkinu fyrir allt hið „versta“ sem átti sér stað meðan Frakkland var hernumið af Þjóðverjum, einmitt þegar (og vegna þess að) margt bendir til þess að sagan sé að endurtaka sig, í allt öðru samhengi þó, ýmist í sama búningi eða öðrum búningi þjóðernishyggju, kynþáttahaturs, útlendingahaturs og gyðingahaturs. Endurminningarnar vekja hver aðra upp, magna hver aðra upp, særa hver aðra, heyja eilíf hjaðningavíg. Þegar illskeyttustu vofurnar snúa aftur, vekjum við upp vofur fórnarlamba þeirra til að heiðra minningu þeirra, en einnig, og þar verður ekki skilið á milli, til að styðja við baráttuna sem háð er í dag og fyrst og fremst fyrir þau fyrirheit sem í henni felast, í þágu framtíðarinnar, því án hennar hefði baráttan ekkert gildi: í þágu framtíðarinnar, það er að segja út fyrir mörk núsins, út fyrir allar lifandi verur sem geta sagt „núna, ég“. Spurningin um vofuna er einnig spurning um framtíðina og það réttlæti sem hún kann að fela í sér. Þessi tvöfaldi uppvakningur veldur óhjákvæmilega glundroða. Menn rugla því sem hliðstætt er saman við það sem er eins: „Nákvæmlega það sama er að endurtaka sig, nákvæmlega það sama.“ Nei, tilfellið er að þegar viðburður endurtekur sig tekur hann nokkrum breytingum vegna þess að samhengið er annað. Þegar draugur rís upp aftur kemur hann til baka á nýjan hátt í hvert sinn, á nýjum stað, í nýju samhengi sem menn verða að fylgjast með af kostgæfni ef þeir ætla ekki að segja og gera hvað sem er.

Í gær hringdi þýsk blaðakona í mig (það var útaf „áskorun“ nokkurra evrópskra menntamanna um að „vera á varðbergi“ sem mér fannst ég verða að undirrita ásamt fleirum – það væri hægt að segja heilmikið um þetta plagg og út frá því, en okkur gefst ekki tími til þess að gera það af neinu viti). Hún hafði áttað sig á því að þetta hafði af augljósum ástæðum mælst vel fyrir meðal þýskra menntamanna, enda er ástandið í Þýskalandi viðkvæmt um þessar mundir, og í framhaldi af því var hún að velta því fyrir sér hvort þarna væri komin upp svipuð staða og forðum þegar Zola skrifaði greinina „Ég ákæri“. Hvar er Zola í dag? spurði hún. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að enda þótt ég bæri mikla virðingu fyrir Zola væri ég ekki sannfærður um að hann væri eina eða besta fyrirmyndin til að skrifa einhverskonar „ég ákæri“ nú á tímum. Allt hefur breyst, opinber vettvangur, leiðir til að miðla upplýsingum og ákvarðanaferli, samband valds og leyndar, ímynd menntamannsins, rithöfundarins, blaðamannsins, o.s.frv. Það er ekki endilega svo að það sé úrelt að ákæra, heldur er formið og staðurinn þar sem ákæran birtist úrelt. Vitaskuld má ekki gleyma Dreyfusmálinu, en það getur ekki endurtekið sig sem slíkt.

Í stuttu máli sagt, til að hugsa (en hvað þýðir þá „að hugsa“?) það sem þið kölluðuð „að hið versta snúi aftur“ þyrfti að fara út fyrir verufræðina, heimspeki lífs eða dauða, rökfræði þeirrar veru sem gædd er vitund, til að nálgast sambandið milli stjórnmálanna, sögunnar og afturgöngunnar.

– Þú komst inn á þetta í bókinni Um andann, Heidegger og spurninguna.

J.D.: Rétt er það, allt frá fyrstu setningu beindist sú bók fyrst og fremst að einkennilegri rökfræði um andann sem vofu. Ég glími við þetta „viðfangsefni“ á annan hátt, en vonandi þannig að það hreyfi við mönnum, í bók minni um Marx. Sú bók er ekki andleg frekar en bókin um Heidegger var andandleg, en samt sem áður má segja að ákveðin þörf knýi mig til að beita þverstæðukenndum aðferðum, í það minnsta á yfirborðinu, til að taka ákveðinn anda hjá Heidegger með fyrirvara, gerast málsvari anda, ákveðins anda, eins þeirra anda eða þeirra vofa sem finna má hjá Marx.

– Þú ræddir nokkuð um Marx á einu af námskeiðum þínum í Ecole Normale Supérieure á áttunda áratugnum, vísaðir a.m.k. í hann.

J.D.: Ég gerði meira en að vísa í hann, og ef mér leyfist að árétta það, á fleiri en einu námskeiði. Í þessari litlu bók reyni ég að ganga lengra og útskýra þessar aðstæður, ákveðna þögn, hið flókna en ég held nána samband milli afbyggingarinnar og tiltekins „anda“ sem er fólginn í marxismanum.

– Hvað veldur því að þú kveður þér hljóðs í dag um Marx?

J.D.: Ég á bágt með að spinna fram svar við þessari spurningu í fáum orðum. Þessi litla ritsmíð um Marx var upphaflega fyrirlestur sem ég flutti í apríl sl. í Bandaríkjunum, við opnun ráðstefnu sem bar yfirskriftina „Whither Marxism?“ (Hvert stefnir marxisminn?, en þetta er einnig orðaleikur: er marxisminn að visna burt?). Ég er að leggja drög að vinnu út frá texta Marx, með allt það sem tengist þema hins vofukennda hjá honum (þ.e. skiptigildi, blæti, hugmyndafræði, o.m.fl.). Bókin er öðrum þræði hugsuð sem eins konar pólitískur gjörningur, því ég er að reyna að spyrna fæti við kreddukenndri sátt um að Marx sé dauður, um að gagnrýni á kapítalismann sé lokið, um endanlegan sigur markaðarins, við þeirri hugmynd að lýðræðið, efnahagsleg frjálshyggja og sú tegund rökvísi sem henni fylgir séu tengd órjúfanlegum böndum, o.s.frv. Ég reyni að sýna hvar og hvernig þetta samkomulag verður ríkjandi, og stundum klúrt í ofsagleði, sem er í senn áhyggjufull og grettin, sigri hrósandi og manísk (það er með vilja sem ég nota orðalag Freuds um visst stig í sorgarferlinu: þetta rit um vofur fjallar einnig um sorg og stjórnmál). Finnst ykkur ekki brýnt að rísa upp gegn nýrri andmarxískri kreddu? Mér finnst hún ekki aðeins afturhaldssöm og fordómafull í flestum birtingarmyndum sínum, heldur einnig blind gagnvart eigin mótsögnum, að hún heyri ekki brestina sem boða eyðileggingu hennar: nýr „risi á brauðfótum“. Ég tel nauðsynlegt að berjast gegn þessari kreddu og þeirri pólitík sem henni fylgir einmitt vegna þess að hún stríðir gegn straumi tímans (annað viðfangsefni bókarinnar er það sem stríðir gegn straumi tímans í stjórnmálum, tímaskekkjan, það sem kemur án þess að nokkur hafi átt von á því, o.s.frv. Þetta samræmist vitaskuld því sem við sögðum áðan um hið messíanska, um viðburðinn, réttlætið og byltinguna).

Skyldan að rísa upp hvílir jafnt á herðum allra, en fyrst og fremst á þeim sem spornuðu alltaf gegn vissum marxískum rétttrúnaði, þótt þeir hafi aldrei verið andmarxistar eða andkommúnistar, meðan slíkur rétttrúnaður var ríkjandi, a.m.k. í vissum hópum (en fyrir menntamenn af minni kynslóð var það um langt skeið). En fyrir utan og til stuðnings þessari afstöðu sem ég er að taka, þá er ég að hefja samræðu við texta Marx, samræðu sem stýrist af spurningunni um vofuna (en hún er tengd spurningum um endurtekningu, sorg, arf, viðburðinn og hið messíanska, um allt það sem nær út fyrir verufræðilegar andstæður fjarveru og nærveru, sýnilegs og ósýnilegs, lifandi og dauðs, og tengist því fyrst og fremst spurningunni um gerviliminn sem „draugalim“, um tæknina, um sjónvarpstæknilegar eftirlíkingar, um gervimyndir, um sýndarrými, o.s.frv. Við komum hér aftur að þemum sem við vorum að ræða áðan: tíðindasmíð og tíðindakostir). Þið munið fyrstu setninguna í Kommúnistaávarpinu: Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans. Ég rannsaka, snuðra svolítið í kringum allar vofurnar sem Marx er bókstaflega með á heilanum, sem Marx er sjálfur að ofsækja. Hann eltir þær uppi alls staðar, hann er á eftir þeim, en þær eru einnig að elta hann: í 18. brumaire, í Auðmagninu, en fyrst og fremst í Þýsku hugmyndafræðinni þar sem sett er fram gagnrýni (óendanleg af því hún er hugfangin, fangin, hlekkjuð) á því hve Stirner er upptekinn af draugum. Ofskynjun hins síðarnefnda er þó þegar orðin gagnrýnin og Marx á í mestu erfiðleikum með að komast frá henni.

Ég reyni að lesa úr þessari rökfræði hins vofukennda í verkum Marx. Ég stilli þessari vinnu upp við hliðina á (ef svo má að orði komast) því sem er að gerast í dag í heiminum, við hlið nýs opinbers vettvangs sem hefur breyst vegna „endurkomu trúarbragðanna“, eins og sagt er, og vegna fjarskiptatækninnar. Hvað er sorgarferlið, setji maður það í samband við marxismann? Hvað er þetta ferli að reyna að særa í burtu? Hið ofurmargræða orð og hugtak conjuration [særing eða samsæri á íslensku, þýð.] (a.m.k. á þremur tungumálum, frönsku, ensku og þýsku) gegnir jafn mikilvægu hlutverki í riti mínu og orðið og hugtakið arfur. Að erfa er ekki fyrst og fremst að þiggja eitthvað, eitthvað sem er gefið, sem maður getur síðan átt. Að erfa er virk fullyrðing. Vissulega er orðið við skipun en í arfi felst einnig frumkvæði, að undirrita, eða kvitta fyrir (fr. contresigner) það sem maður þiggur eftir nokkra umhugsun. Þegar maður erfir eitthvað, þá velur maður, skoðar, dregur eitthvað fram, gefur því nýtt gildi. Ég held líka, án þess að ég geti sýnt fram á það hér, að í allri arfleiðslu búi mótsögn og leyndardómur (þetta er rauður þráður í bók minni og tengir snilligáfu Marx við snilld Shakespeare – sem Marx hafði svo mikið dálæti á og vitnaði svo oft til, einkum leikritanna Tímon frá Aþenu og Ys og þys út af engu – og við föður Hamlets sem gæti vel verið aðalpersóna bókarinnar).

Tilgáta: það er alltaf fleiri en einn andi. Um leið og talað er um andann er minnst á anda, á vofur, og hver sá sem erfir kýs einn anda fremur en annan. Maður velur á milli vofanna eða á milli skipananna sem koma frá hverjum anda, síar og sigtar. Það er því aðeins arfur ef það sem manni er fengið í arf er margbreytilegt og mótsagnakennt, nógu leyndardómsfullt til að ögra túlkuninni, krefjast hinnar ótakmörkuðu áhættu virkrar túlkunar. Það er hér sem þarf að taka ákvörðun og axla ábyrgð. Þegar ekki eru nein tvíbönd (e. doublebind), er engin ábyrgð. Arfurinn þarf að halda einhverju óákvarðanlegu eftir.

Ef það að erfa er að samþykkja og taka undir skipun, og er ekki aðeins eitthvað sem maður á eða fær, heldur eitthvað sem manni er gert að lesa fram úr, þá erum við aðeins það sem við erfum. Vera okkar er arfur, tungumálið sem við tölum er arfur. Hölderlin segir eitthvað á þá leið að okkur hafi verið fengið tungumál til að bera vitni um þá arfleið sem við erum. Ekki arfleifðina sem við höfum eða fáum, heldur þann arf sem við erum, frá upphafi til enda. Við erum það sem við tökum í arf. Og við tökum tungumálið í arf en það gerir okkur kleift að bera vitni um að við erum það sem við erfum. Þetta er þversagnarkenndur hringur sem við þurfum í senn að eiga við og rjúfa með ákvörðunum sem taka reglur í arf og finna upp sínar eigin, en óhjákvæmilega án þess að hafa tryggar viðmiðunarreglur. Að segja að arfur sé ekki eign sem manni er fengin, en að við séum erfingjar frá upphafi til enda, ber því á engan hátt vott um fastheldni á gamla siði eða afturhaldssemi. Við erum meðal annars erfingjar Marx og marxismans. Ég reyni að skýra í bókinni hvers vegna í þessu tvennu felist viðburður sem enginn og ekkert getur þurrkað út, ekki einu sinni, alls ekki, skrímsli alræðisins. (Það urðu til margar tegundir alræðis og allar stóðu þær í einhvers konar sambandi við marxismann, en það leysir ekki vandann að líta á þær sem afskræmingu á honum eða svikinn arf.) Jafnvel þeir sem ekki hafa lesið Marx, þekkja ekki einu sinni nafn hans, jafnvel andkommúnistar eða andmarxistar eru erfingjar Marx. Svo má bæta því við að ekki er hægt að erfa Marx án þess að erfa Shakespeare, Biblíuna og ýmislegt annað.

– Þú yrðir þá ekki hissa þótt kommúnisminn kæmi aftur, í öðru formi og til annarra nota, jafnvel þótt hann yrði kallaður öðru nafni? Og það sem gæti orðið til þess að hann kæmi aftur væri þörfin fyrir nýja von í hverju samfélagi?

J.D.: Það er það sem við kölluðum réttlæti áðan. Ég hef enga trú á því að kommúnisminn komi aftur í formi Flokksins (flokksformið er vafalaust smám saman að hverfa úr stjórnmálum, þótt leifar þess gætu vitaskuld reynst lífseigar) og heldur ekki að aftur komi allt það sem gerði okkur fráhverf vissum marxisma og vissum kommúnisma. Ég vona að það komi ekki aftur, það er næstum því öruggt að svo verði ekki en það þarf samt sem áður að sjá til þess að svo verði ekki. En margt bendir til að sama uppreisn í nafni réttlætisins verði aftur tilefni gagnrýni sem verði innblásin af marxisma, sem verði í anda marxisma. Þetta er eins og nýtt Alþjóðasamband, án flokka, án skipulags, án félagssamtaka; það leitar, það þjáist, því finnst að hlutirnir geti ekki gengið svona lengur, það viðurkennir ekki hina „nýju skipan heimsmála“ sem verið er að reyna að troða upp á okkur, líst illa á málflutninginn sem boðar þessa nýju skipan. Þessi uppreisnargjarni óróleiki mun finna aftur í anda marxismans einhverja krafta sem enn hafa ekki fengið nöfn: enda þótt þeim svipi stundum til frumatriða gagnrýni, þá reyni ég að skýra að þeir séu ekki, og ættu ekki að vera, aðeins gagnrýni, aðferð, fræðikenning, heimspeki eða verufræði. Það myndi taka á sig allt annað form og myndi kalla á allt annars konar lestur á Marx, en hér er ekki á ferðinni lestur í textafræðilegri eða akademískri merkingu þess orðs, það snýst ekki um að hefja aftur til virðingar eins konar marxisma samkvæmt bókstafnum. Í bók minni er ég þvert á móti að deila á tísku sem tekur bitið úr hugsun Marx: nú þegar marxisminn er dauður, og marxískar stofnanir orðnar vopnlausar, er því haldið fram að loksins sé hægt að lesa Auðmagnið og önnur rit Marx í fræðilegri ró og næði. Að Marx eigi að fá þá stöðu sem hann á skilið, stöðu mikils heimspekings vegna þess að rit hans (í „innbyrðis skiljanleika þeirra“ eins og Michel Henry orðar það) tilheyra hinni miklu hefð verufræðinnar. Nei, ég reyni að útskýra hvers vegna við eigum ekki að friðþægja okkur með þess háttar endurmati.

– Þú hefur ávallt haldið fram siðferðislegri og pólitískri ábyrgð afbyggingarinnar. Hvaða munur er á henni og gömlu hugmyndinni um skyldu menntamannsins til að taka afstöðu?

J.D.: Ég hef hvorki löngun né leyfi til að kasta rýrð á það sem þú kallar „gömlu hugmyndina“ um að menntamaðurinn eigi að taka afstöðu. Sérstaklega í Frakklandi. Voltaire, Hugo, Zola og Sartre eru í mínum huga aðdáunarverðar fyrirmyndir. Fyrirmynd veitir manni innblástur, stundum er manni um megn að fylgja henni en maður verður umfram allt að forðast að herma eftir henni þegar maður býr við aðstæður sem eru – við vorum að tala um það rétt áðan – allt aðrar. Eftir þennan fyrirvara, þá finnst mér ég geta sagt – með talsverðum einföldunum þó – að dirfska þeirra við að taka afstöðu hafi einmitt gert ráð fyrir viðmælendum sem hægt væri að nefna og að samræður ættu sér stað: annars vegar var félags og stjórnmálalegur vettvangur og hins vegar menntamaðurinn sem hafði sína orðræðu, sína málskrúðstækni, sitt höfundarverk, heimspeki sína, o.s.frv. Hann kom og „lét að sér kveða“ eins og sagt er, tók þátt í því sem var að gerast á einhverjum tilteknum vettvangi og tók þar afstöðu. Í tilfellum sem þessum er menntamaðurinn hvorki að velta fyrir sér né reyna að breyta uppbyggingu hins opinbera vettvangs (fréttamiðlum, fjölmiðlum, framsetningarháttum, o.s.frv.). Hann er heldur ekki að reyna að breyta eðli tungumáls síns eða því kerfi hugmynda eða fræðikenninga sem liggur til grundvallar afskiptum hans. Með öðrum orðum beitir hann menntun sinni og virðingu sem rithöfundur (dæmin sem ég tók áðan voru af Frökkum sem nutu vinsælda fyrir bókmenntaverk fremur en fyrir heimspekiskrif) í þágu pólitísks málstaðar, réttar og stundum einhvers handan réttarins, þ.e. réttláts málstaðar. Ég segi ekki að Hugo eða Sartre hafi aldrei efast um þetta sérstaka form íhlutunar menntamannsins, eða reynt að breyta því. Ég er aðeins að segja að í þeirra augum var það hvorki stöðugt né aðkallandi viðfangsefni. Þeir voru ekki sömu skoðunar og Walter Benjamin, sem taldi að fyrst og fremst ætti að greina kerfið og breyta því, en ekki einvörðungu að gefa því innihald, hversu byltingarkennt sem það annars kynni að vera. Kerfið sem um ræðir er ekki aðeins valdastofnanir tækni eða stjórnmála, það hvernig útgefendur eða fjölmiðlar tileinka sér hlutina, uppbygging hins opinbera vettvangs (þ.e. ætlaðir viðtakendur málflutningsins eða þeir sem okkur er sagt að séu það). Það er einnig ákveðin rökfræði, málskrúðsfræði, reynsla af tungumálinu, öll sú setmyndun sem tungumálið byggir á. Að spyrja sig þess konar spurninga, og jafnvel spurninga um þær spurningar sem þröngvað er upp á okkur eða okkur er kennt að séu hinar „réttu“ spurningar, að spyrja sig jafnvel um spurningarformið í gagnrýninni, að láta sér ekki nægja að spyrja sig heldur að hugsa hvað það sé þetta veð sem spurningin leggur sig að, er ef til vill sú ábyrgð sem kemur á undan þeirri að láta til sín taka opinberlega. Ef til vill er þetta skilyrðið fyrir því að það sé hægt. Þetta dugir ekki eitt og sér en það hefur heldur aldrei komið í veg fyrir að menn tækju afstöðu.

– Ef þú leyfir, vildum við gjarnan spyrja þig um ögn persónulegra málefni. Það er eitthvað sem er að koma aftur, í vissum heimshluta, meðal annars inn í umræðuna í Alsír. Það er ákveðinn málflutningur um Alsír sem haldið er á lofti af sumum stjórnmálamönnum, jafnvel menntamönnum, sem segja að Alsír hafi aldrei verið til sem þjóðríki, öfugt við Marokkó eða Túnis, og að þetta skýri ólguna í landinu. Það vanti eitthvað í þetta land. Hvað sýnist þér um það sem er að gerast, burtséð frá tilfinningahliðinni?

J.D.: Þið segið að þetta sé persónuleg spurning. Ég ætla mér ekki þá dul að bera þjáningar mínar eða þær áhyggjur sem ég kann að hafa saman við þær sem nú eru hlutskipti svo margra Alsírbúa, bæði í Alsír og hér í Frakklandi. Ég veit ekki hvað gæti veitt mér rétt til að segja að Alsír sé ennþá land mitt. Leyfið mér þó að minna ykkur á að ég yfirgaf ekki alsírska grund fyrstu nítján ár ævinnar. Ég hef farið þangað reglulega síðan, og eitthvað í mér hefur aldrei farið þaðan. Það er rétt að einingu Alsírs virðist ógnað í dag. Landið rambar á barmi borgarastyrjaldar. Það hefur tekið fjölmiðla í Frakklandi langan tíma að átta sig á því sem hefur verið að gerast í mörg ár, undirbúningur valdatöku, morðin, andspyrnuhreyfingin, og svar valdhafanna sem er enn meiri valdbeiting, pyntingar, fangabúðir. Eins og ávallt í harmleikjum, er sökina ekki að finna hjá einhverjum einum aðila: FIS (Íslamska frelsishreyfingin) og ríkisvaldið gætu ekki í senn barist og styrkt hvort annað í hinu sígilda samspili (hryðjuverka og valdbeitingar, öflugur stuðningur meðal fjölmennra lágstétta við hreyfingu sem hefur þurft að verða að leynisamtökum vegna ofsókna ríkisvalds sem er í senn of valdamikið og valdalaust, lýðræðisþróun í blindgötu, o.s.frv.). Þessi hræðilega viðureign gæti ekki haldið áfram með tilheyrandi blóðsúthellingum saklausra fórnarlamba ef ekki væri til staðar þriðji þátturinn, einfaldur og nafnlaus. Hér á ég við efnahagsástandið í landinu, fólksfjölgunarvandann, atvinnuleysið og þá leið sem valin var fyrir löngu til uppbyggingar í efnahagslífinu. Þessi þriðji þáttur kyndir undir viðureign sem ég hefði kannski ekki átt að lýsa sem átökum tveggja jafnstæðra afla. (Sumir alsírskir vinir mínir gagnrýna þessa lýsingu; þeir telja að valdbeiting ríkisvaldsins og ógilding kosninganna hafi verið eina mögulega svarið við valdaránstilraun sem búið var að undirbúa lengi og beindist gegn sjálfu lýðræðinu; það er hægt að skilja þessa afstöðu en það verður að finna leið til að ræðast við, skiptast á skoðunum, leið sem getur bundið enda á vopnaskakið og ýtt undir þá þróun sem nú hefur verið stöðvuð). Og þá er komið að því sem ég nefni þriðja nafnlausa aðilann, því sé hann tekinn inn í myndina sjáum við að ábyrgðin á ástandinu nú nær langt aftur og varðar ekki einvörðungu Alsírmenn. Ég minni á það sem við sögðum áðan um hinar táknrænu Erlendu skuldir. Þær eru að sliga landið. Það verður að minna á þetta, ekki til að unnt verði að efna enn einu sinni til réttarhalda, heldur til að vekja athygli á samábyrgð okkar. Með fullri virðingu fyrir því sem heyrir fyrst og fremst undir sjálfa ríkisborgara Alsír, þá erum við öll tengd þessu, berum öll ábyrgð, sérstaklega við Frakkar af allt of augljósum ástæðum. Við getum ekki skorast undan þessari ábyrgð, m.a. gagnvart þeim fjölda Alsírbúa sem reynir að láta ekki undan ofstækinu og öllum þeim sem reyna að hræða fólk til hlýðni. Þið vitið að þeir leggja líf sitt að veði. (Fórnarlömb morðanna sem framin hafa verið upp á síðkastið eru oft menntamenn, fréttamenn og rithöfundar; þetta þýðir þó ekki að gleyma eigi hinum fjölmörgu óþekktu fórnarlömbum; það er í þessum anda sem við komum nokkur saman, að frumkvæði Pierre Bourdieu, í Stuðningsnefnd alsírskra menntamanna (Comité international de soutien aux intellectuels algériens (CISIA); en nokkrir af stofnendum nefndarinnar hafa þegar orðið fyrir morðhótunum.) Þið voruð að segja að sumir teldu að tilvist Alsírs sem ríkis væri ekki aðeins erfið, heldur að ríkið hefði aldrei átt sér lífrænan, náttúrulegan eða stjórnmálalegan tilvistargrundvöll. Það er hægt að skilja þetta á ýmsa vegu. Ein leiðin væri að nefna sundrungu og skiptingu þessarar þjóðar sem samanstendur af Aröbum og Berbum, öll þau tungumál sem töluð eru í landinu, skilin milli þjóðarbrota, milli handhafa trúarlegs og hernaðarlegs valds. Fljótlega yrði niðurstaðan sú að þegar öllu væri á botninn hvolft hefðu nýlenduherrarnir skapað þetta þjóðríki, eins og svo oft í nýlendusögunni, og erfiðleikarnir í dag stöfuðu einmitt af þeim stofnunum sem nýlendustefnan skildi eftir sig. Ég get ekki farið út í langa sögulega greiningu hér, en myndi þó segja að þetta væri í senn rétt og rangt. Vissulega varð Alsír ekki til sem slíkt, innan núverandi landamæra og í formi þjóðríkis, fyrr en á nýlendutímabilinu. En þó má ekki horfa framhjá því að eining myndaðist undir nýlendustefnunni, gegn henni og í gegnum hana. Öll þjóðríki eiga að baki ámóta erfiða, mótsagnakennda og flókna sögu frelsunar og undirokunar. Öll eiga þau rætur að rekja til ofbeldis; og þótt eðli og hlutverk þjóðríkja sé að vera grundvöllur laga, grundvallast lögin ekki á neinu náttúrulögmáli eða fyrirframgefnum rétti, hvað svo sem menn segja og kenna börnum sínum. Það er ekki hægt að draga einingu í efa á þeim forsendum að hún hafi orðið til vegna sameiningar. Jafnvel velheppnaðar sameiningar eða stofnanir komast ekki upp með að sveipa það hulu gleymsku að á undan þeim var hvorki náttúruleg eining né stofnun. Eining ítalska þjóðríkisins, sem einnig er mjög nýleg, gengur nú í gegnum stormasamt tímabil. En er réttmætt að draga tilverurétt þess þjóðríkis í efa, eins og sumir freistast vafalaust til að gera, og ekki einvörðungu í sagnfræðilegum tilgangi, á þeirri forsendu að stofnað var til þess fyrir stuttu og að það hefur verið búið til, eins og öll þjóðríki? Það eru ekki til neinar náttúrulegar einingar, aðeins sameiningarferli sem eru mismunandi stöðug, stundum orðin vel stöðug eftir langan tíma. En öll stöðug ríki sem við þekkjum, allt sem er stöðugt á þessu sviði hefur orðið til af því að stöðugleika hefur verið komið á. Ísrael gæti verið annað dæmi um nýtt ríki sem var stofnað, eins og öll ríki, í krafti ofbeldis, ofbeldis sem einvörðungu er hægt að réttlæta eftir á, ef stöðugleiki sem komið verður á, annaðhvort innanlands eða á alþjóðavettvangi, gerir því kleift að sveipa sig ótryggri gleymsku. Við erum enn ekki komin að því. Við lifum á tímabili upplausnar þjóðríkja yfirleitt og því er hugsun sem þessi áleitin. Þessi hugsun snýst einnig um það sem tengir (eða tengir ekki) lýðræðishugtakið við borgararétt (ríkisfang) og þjóðerni.

Eining Alsírs er vissulega í hættu en öflin sem þar heyja harðvítugt stríð eru ekki, eins og oft er sagt, Vesturlönd og Austurlönd, eða lýðræðið og Íslam, eins og þau væru hvor um sig afmörkuð heild, heldur fleiri en ein útfærsla á lýðræðinu, á fulltrúahugtakinu eða ríkisfanginu – en þó fyrst og fremst fleiri en ein túlkun á Íslam. Ein af skyldum okkar er að gefa þessari fjölbreytni gaum og hvetja linnulaust til að ekki sé öllu ruglað saman.

Friðrik Rafnsson og Torfi H. Tulinius þýddu. Þeim Merði Árnasyni og Páli Skúlasyni eru færðar sérstakar þakkir fyrir yfirlestur og ábendingar.

« Til baka