Søren Kierkegaard

Søren Kierkegaard fæddist í Kaupmannahöfn árið 1813. Hann nam heimspeki við Kaupmanna­hafnarháskóla og fékk áhuga annars vegar á guðfræði og hins vegar á íróníunni, hinni heim­spekilegu aðferð Sókratesar. Ástin hafði mikil áhrif á heimspeki og lífshlaup Kierkagaards, en hann sleit trúlofun sinni við unga stúlku öllum að óvörum til að sinna trú og fræðum. Sönn trú var í huga Kierkegaards hafin yfir iðkun skipulagðra trúarbragða og er leitin að hinum sanna „riddara trúarinnar“ mikilvægt stef í verkum hans. Íróníunni beitti hann síðan til að hafa samtíðarmenn sína að háði og spotti, ekki síst kirkjunnar menn, sem hann taldi meiri trúmenn í orði en á borði.

Kierkegaard vildi heldur skoða heiminn eins og hann snýr að einstaklingnum en að leita að tæm­andi, hlutlægu, heimspekikerfi í anda Hegels. Kierkegaard er oft nefndur faðir tilvistarstefnunnar (existensíalismans), enda hafði hann mikil áhrif á helstu postula hennar, þ.á.m. Jean-Paul Sartre. Skyldleika Kierkegaards við Friedrich Nietzsche er einnig vert að nefna. Søren Kierkagaard lést árið 1855.

Greinarnar sem hér birtast eru úr fjórða tölublaði Tímarits Máls og menningar árið 2000 sem helgað var Kierkegaard. Greinarnar „Sjálfsþekking og sjálfsval“ eftir Kristján Árnason og „Að velja sjálfan sig“ eftir Vilhjálm Árnason taka báðar fyrir hugmyndir Kierkegaards um sjálfið og valið. Siðferðið og kærleikurinn eru einnig mikilvæg stef í grein Vilhjálms. Jóhanna Þráinsdóttir, þýðandi bókar Kierkegaards Uggur og ótti fjallar um skiptar skoðanir hans og íslensks guðfræðings, Magnúsar Eiríksssonar, um fjarstæður og þversagnir í sannri trú. Birna Bjarnadóttir lýkur um­fjölluninni með grein sinni „Hvers vegna er dauðinn besta gjöfinn, Kierkegaard“, þar sem hún tekur m.a. fyrir skrif Jacques Derrida um dauðann í verkum Kierkegaards.

Allar þessar greinar eru ágætis kynning á verkum Kierkegaards, en Kierkegaard-hefti TMM stendur í samhengi við útgáfu Hins íslenzka bókmenntafélags á tveimur merkum ritum hans. Lesendur eru því hvattir til að láta þau verk ekki fram hjá sér fara: Uggur og ótti er í þýðingu Jóhönnu Þráinsdóttur en Endurtekningin í þýðingu Þorsteins Gylfasonar.

Vilhjálmur Árnason:
Að velja sjálfan sig. Tilraunir Kierkegaards um mannlífið

Birna Bjarnadóttir:
Hvers vegna er dauðinn besta gjöfin?

Jóhanna Þráinsdóttir:
Er trúin þverstæða? Gagnrýni Magnúsar Eiríkssonar á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta

Kristján Árnason:
Sjálfsþekking og sjálfsval

Greinarnar eru birtar með leyfi Tímarits Máls og menningar.

« Til baka

Related Entries