Færslusöfn

Karl R. Popper

Karl Raimund Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 en dvaldist lengst af á Englandi, þar sem hann gegndi kennarastöðu við London School of Economics. Hann er þekktur fyrir heimspekilegt framlag sitt til bæði stjórnmála- og vísindaheimspeki. Karl Popper lést árið 1994. Gunnar Ragnarsson ritaði eftirfarandi inngangstexta með þýðingu sinni á viðtali Bryans Magee við Popper:

„Meðal almennings mun Popper þekktastur sem óvæginn gagnrýnandi marxismans og annarra kenninga sem þykjast hafa höndlað stórasannleik um mann og heim og má þar, auk marxismans, nefna sálgreiningu Freuds og þráttarhyggju Hegels. Það gefur að skilja að Popper á ekki upp á pallborðið hjá fylgismönnum slíkra kenninga.

Vínarhringurinn sem nefndur er í innganginum að samtalinu var samtök vísindalega sinnaðra heimspekinga í tengslum við háskólann í Vínarborg. Eru samtök þessi einkum tengd nafni Moritz Schlicks (1882–1936) sem var aðalhvatamaður að stofnum þeirra. Þau störfuðu á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, gáfu út tímarit, bækur og héldu ráðstefnur, en leystust upp þegar nasistar náðu völdum í Austurríki. Sumir félaganna fluttu til Bandaríkjanna og höfðu mikil áhrif á þróun heimspeki þar í landi, t.d. Rudolf Carnap (1891–1970). Heimspekingarnir í Vínarhringnum héldu fram kenningu sem kallast á ensku logical positivism og hefur fengið á íslensku nafnið rökfræðileg raunhyggja. Meginhugmynd þessarar heimspeki er sú að allt sem hægt er að segja af viti og hefur merkingu sé annaðhvort raunvísindalegs eðlis, þ.e.a.s. staðhæfingar um sannreynanleg fyrirbæri, staðreyndir, ellegar staðhæfingar í rökfræði og stærðfræði. Samkvæmt þessari tegund raunhyggju eru því til að mynda frumspekilegar og siðfræðilegar staðhæfingar bókstaflega merkingarlausar, að ekki sé minnst á guðfræði. Popper var frá upphafi eindreginn andstæðingur og óvæginn gagnrýnandi þessarar kreddu og sýndi fram á að kenningin um merkingu og merkingarleysi fengi ekki staðist. – Í sjálfsævisögu sinni (Unended Quest) segist Popper hafa gengið af rökfræðilegri raunhyggju dauðri í bók sinni Rökfræði rannsóknar.

Sem vísindaheimspekingur er Popper frægastur fyrir kenningu sína um afmörkun raunvísinda og alræmdur fyrir þá skoðun að engin aðleiðsla sé til. Eins og fram kemur í samtalinu telur hann sig hafa fundið mælikvarða sem hægt sé að nota til að draga markalínu milli raunvísinda, frumspeki og annarra fræðigreina – án þess að halda því fram að staðhæfingar í öðrum greinum en þeim raunvísindalegu séu merkingarlausar! (Magee talar um mörkin milli vísinda og ekki–vísinda). Þetta er hrekjanleikaregla Poppers og er hún sett fram gegn sannreynslu- eða sannreynanleikareglu rökfræðilegra raunhyggjumanna sem átti m.a. að útiloka frumspeki frá merkingarbærri orðræðu. Hugmynd Poppers er að hugsanlegur hrekjanleiki kenningar sé mælikvarði á vísindalegt einkenni hennar.

Einn höfuðkostur Poppers sem heimspekings er sá hve skýr hann er í framsetningu. Hann felur ekki loðna eða óljósa hugsun á bak við tvírætt eða margrætt orðalag. Hann leggur sig allan fram við að orða skoðanir sínar þannig að unnt sé að koma höggi á þær, nefnilega að gagnrýna þær. Og hann er eflaust einn mesti rökfærslusnillingur í hópi heimspekinga. Heimspekilega afstöðu sína kallar Popper gagnrýna rökhyggju (critical rationalism). En nafngiftir út af fyrir sig skipta ekki máli að hans dómi, enda þótt hann telji að ekkert sé mikilvægara en tungumálið, eins og fram kemur í samtalinu.

Bestu kynningu á þekkingarfræði Poppers og þróunarhyggju er að finna í bók hansHlutlæg þekking (Objective Knowledge. – Oxford University Press, 1972) en besta inngang að hugsun hans almennt, fyrir utan bókina Popper eftir Magee, tel ég vera að fá í safni greina eftir Popper sem birtist í bók undir heitinu Tilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations. – Routledge & Kegan Paul, 1963).“

Í greininni „Ágiskanir og afsannanir“ skýrir Popper fræga hugmynd sína um svokallaðan „afsannanleika“ vísindakenninga, sem hann taldi góðan prófstein á þær. Viðtal Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Popper snýst einkum um stjórnmálaheimspeki. Viðtal Poppers og Magees er greinargóður inngangur að öllum helstu hugmyndum Poppers.

Karl R. Popper:
Ágiskanir og afsannanir
Haukur Ástvaldsson þýddi.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson:
Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð

Bryan Magee:
Samræða við Karl R. Popper
Samræðan birtist upphaflega í Modern British Philosophy. Gunnar Ragnarsson þýddi.

Karl Popper:
Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar. Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans
Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). Gunnar Ragnarsson þýddi.

« Til baka