Færslusöfn

Kant og Rawls um þjóðarrétt

eftir Þorstein Gylfason

§1 Kant

Þjóðaréttur varðar ýmis efni: til dæmis mengun, mannréttindi, landhelgi og annan hafrétt, höfundarétt og annan einkaleyfarétt. Þjóðaréttur í okkar skilningi varð fyrst til á 17du öld í Evrópu, að hluta til upp úr margvíslegu erfðagóssi úr Rómaveldi, kaþólsku kirkjunni og keisaradæmi Karlamagnúsar, og birtist bæði í ritum lærdómsmanna eins og Hugos Grotius og sáttmálum konunga sem þeir gerðu með sér í Westfalen 1648. Þá og lengi síðan snerist þessi réttur mest um stríð og frið. Hann setti reglur um styrjaldir, og honum var ætlað að tryggja frið.

Sumir segja að hin gamla þjóðréttarhefð rísi hvergi hærra en í fáeinum smáritum Kants, einkum bæklingi hans Að eilífum friði frá 1795. 1 Um þær mundir var stríðsferill Napóleóns að hefjast svo að ekki báru skrif Kants mikinn ávöxt fyrst í stað. Kant trúði því að lýðveldi væru friðsamlegri en einveldi, og því þyrftu öll ríki að gerast lýðveldi (og þar með réttarríki) ef von ætti að vera um frið í heiminum. Eitt meinið er að Napóleón hófst til vegs í lýðveldi.

En ýmsir hrósa Kant fyrir að hafa séð lengra fram í tímann, og hafa þá í huga uppskrift hans að lýðveldum sem geri með sér þjóðabandalag sem aftur setji alþjóðalög. Þetta er uppskriftin sem þjóðir heims hafa reynt að matbúa á tuttugustu öld, einkum eftir 1945. Kant var síðasti talsmaður hinnar gömlu þjóðréttarhefðar 17du og 18du aldar. Hann var líka fyrsti hugmyndasmiður Þjóðabandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Hugmyndir hans lifa á þeim vettvangi ekki síður en í ritum Rawls. Þær lifa reyndar líka í ritum svonefndra heimsborgara sem eru andstæðingar Rawls á okkar dögum og hann þeirra.

Þess má geta að bæklingur Kants hét Að eilífum friði í höfuðið á hollenzkri krá sem hann hafði spurnir af: Zum ewigen Frieden hét hún. Á skiltinu úti yfir dyrunum, segir Kant, stóð nafnið ásamt málaðri mynd af kirkjugarði. Hann segist láta liggja á milli hluta hvort spaug veitingamannsins gildi fyrir mannkynið allt, stríðsglaða konunga, eða fyrir heimspekinga með hugsjónir.

§2 Rawls

Þjóðaréttur (The Law of Peoples) eftir John Rawls, sem út kom fyrir fimm árum hjá Harvard University Press,2 er í öllum meginatriðum sniðinn eftir Að eilífum friði.

Bækur þeirra Kants og Rawls eru býsna líkar um sum einstök atriði. Báðir leggja mikið kapp á skilgreiningar, stundum sérvizkulegar. Báðir trúa því að sómasamleg ríki–lýðveldi hjá Kant, „frjálslynd lýðræðisríki“ hjá Rawls–fari ekki í stríð hvert við annað. Kant rökstyður þetta á sinn hátt, út frá hugmyndaheimi frjálsra þegna í lýðveldum. Hjá Rawls verður þetta söguleg tilgáta sem hann sækir reyndar til annarra fræðimanna samtímans: „the democratic peace hypothesis“. Tilgátan kallar á að ýmis hernaður Bandaríkjamanna í rómönsku Ameríku (Chile, Guatemala) sé hafður til marks um að ríkin sem þar eigast við séu ekki réttnefnd lýðræðisríki. Kannski var fyrsta franska lýðveldið ekki alvörulýðveldi heldur. Hvað hefði Kant sagt um Napóleón?

Auðvitað er margvíslegur munur á bókunum. Til dæmis eru frumreglur alþjóðalaga átta hjá Rawls, en aðeins þrjár hjá Kant. (Ein af reglum Rawls kveður á um aðstoð við þjóðir í neyð. Hjá Kant er engin slík regla.) Kant bindur þjóðabandalagið við lýðveldi, eins og ég sagði, sem eru sjálfkrafa réttarríki.3 Rawls lætur bandalagið ná jafnt til „frjálslyndra lýðræðisríkja“ sem til „þokkalegra þjóðfélaga“ („decent societies“) og hefur þá einkum í huga ýmis þjóðfélög múslima á okkar dögum sem ekki búa við lýðræði. Fyrir tuttugu árum hefði hann kannski heldur tekið dæmi af ríkjunum austan tjalds. Þau voru ekki lýðræðisríki, en fullgildir aðiljar að samvinnu og sátt­málum þjóðanna, jafnvel mannréttindayfirlýsingum, svo að ekki sé nú minnzt á viðskipti. Þokkaleg þjóðfélög.

Ein breyting enn varðar réttlætingu frumreglnanna sem eiga að tryggja friðinn. Réttlæting Kants snýst einkum um lýðveldi sem hann kallar svo, og réttlæting lýðvelda styðst á endanum við siða­lögmál hans. Sá leikur þarf ekki að koma á óvart vegna þess að siðfræði Kants var að sumu leyti sniðin til að réttlæta þegnréttarkröfur frönsku byltingarinnar. Um þessa siðfræði og hlutverk hennar í stjórnarfarshugmyndum um lýðveldi og heimsborgaralegum hugmyndum um stríð og frið ætla ég ekki að segja neitt. Þess má geta að það er jafnvel umdeilanlegt hvort Kant tekst að réttlæta siðferðið á grundvelli siðalögmála sinna, og má þá nærri geta að vandinn verður ekki minni um lýðveldin og friðinn.4

Réttlæting Rawls er ekki siðfræðileg heldur stjórnfræðileg. Hún er sáttmálakenning af því tæi sem Rawls hafði áður sett fram, svo að frægt er, um þjóðfélagslegt réttlæti í einu samfélagi. Kant tilheyrði eins og Rawls sáttmálahefðinni í stjórnspeki Vesturlanda, og er einn af máttugustu höfundum hennar frá fyrri tíð. En þær hugmyndir hans koma ekki fyrir í Að eilífum friði nema rétt í svip í greinargerð hans fyrir lýðveldum.

Rýnum nú í hina stjórnfræðilegu réttlætingu Rawls á þjóðarétti. Hugmynd hans er sú að þjóða­réttur sé ekki aðeins reistur á sáttmála eða sáttmálum í þeim skilningi að sáttmála þurfi til að koma honum á, sem kann að vera óumdeilanlegt, heldur líka í hinum að þessi réttur réttlætist af sáttmála. „Rýnum í þetta,“ segi ég, en það eru raunar allt of stórt orð yfir það litla sem ég hef tóm til að segja. Kannski ætti ég heldur að segjast ætla að viðra ofurlítið hugboð um afarmikið efni.

Byrjum á dæmi frá líðandi stund, og segjum fáeina sjálfsagða hluti um það.

§3 Heimssakadómur

Nýlega tók til starfa Heimssakadómur (Hinn alþjóðlegi sakamáladómstóll), og munu um níutíu þjóðir hafa fullgilt sáttmálann um hann.5 (Það þurfti sextíu til að hann kæmist á laggirnar.) Honum er ætlað að taka við hlutverki einnota dómstóla eins og í Nürnberg og Tokyo eftir 1945, eða í Arusha og Haag á síðustu árum út af Rúanda og Júgóslavíu. Heimsdómurinn fjallar um glæpi gegn mannkyni, fjöldamorð og stríðsglæpi ef þeir verða ekki að sakamálum heima fyrir.

Það voru ekki sízt Bandaríkjamenn sem áttu upptökin að þessum dómstól, en þeir hafa ekki viljað staðfesta sáttmálann um hann í fjögur ár og eiga því ekki aðild að honum. Það hafa jafnvel heyrzt raddir vestra um að Bandaríkin ættu að réttu lagi að ná sér niðri á þeim þjóðum sem að honum standa.6 Beinasta tilefnið til að Bandaríkin misstu áhuga á dómstólnum var að þeim tókst ekki að fá því ráðið að fastafulltúar í öryggisráðinu–stórveldin–hefðu neitunarvald um málsóknir. Rökin gegn dómstólnum snúast þó mest um fullveldi ríkja–slíkur dómstóll dregur óneitanlega úr því–og síðan um hugsanlegar málsóknir af annarlegum hvötum. Bæði Kínverjar og Indverjar hafa neitað að fallast á Rómarsáttmálann um dóminn með svipuðum rökum.

Svona verða alþjóðlegir sáttmálar til. Auðvitað líka með hvers kyns málamiðlunum hér og þar ef út í það væri farið. Og jafnvel með uppgjöf á sumum sviðum. Heimssakadómur fjallar ekki um árásarstríð og ekki um hryðjuverk. Ástæðan er sögð vera sú að höfundum sáttmálans tókst ekki með neinu móti að koma sér saman um skilgreiningar á árásarstríði og hryðjuverki.

Sáttmáli um heimssakadóm er bæði skýring á því og réttlæting þess að við reynum að forðast þau verk sem hann mundi sakfella okkur fyrir, og virðum dóma hans hvort sem þeir varða okkur sjálf eða aðra. Hér kann endanlega réttlætingin að vera ósköp einfaldlega: þetta hefur orðið að samkomulagi. En Rawls er ekki að hugsa um þessi atvik, heldur um réttlætingu þjóðaréttar áður en hann er settur.

Einhver kynni að vísa til annars samkomulags sem búi að baki samkomulagi eins og því sem birtist í Rómarsáttmálanum um Heimssakadóm. Til dæmis er stundum sagt að Mannréttinda­dómstóll Evrópu hafi heppnazt jafn vel og raun ber vitni vegna þess að almennt samkomulag sé meðal þjóðanna sem að honum standa um frumatriði stjórnarfars og réttarfars. Gott og vel, þetta kann að vera skýring á því að Mannréttindadómstóllinn komst á, eða á hinu að dómar hans eru virtir í ríkjum Evrópu.

En þetta samkomulag að baki mannréttindasáttmálanum er að sjálfsögðu ekki réttlæting á ákvæðum hans. Pyndingar eða skoðanakúgun eru ekki glæpsamlegar vegna þess að þjóðir Evrópu hafa orðið ásáttar um að telja þær það. Þær eru bersýnilega glæpsamlegar af allt öðrum ástæðum: vegna þjáninga sem þær valda, eða ranglætis sem birtist í þeim. Eins liggur í augum uppi að slíkt samkomulag er ekki réttlæting fordæmingar okkar á þjóðamorðum, stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.

Það breytir að sjálfsögðu engu um glæpsamlegt eðli árásarstríða og hryðjuverka að ekki tókst að ná samkomulagi um að telja þau til glæpa eftir Rómarsáttmálanum.

§4 Réttlæting af samkomulagi

Stundum virðist sáttmáli geta réttlætt ákvæði sín. Í Kenningu um réttlæti beitir Rawls sáttmála­hugmynd í því skyni að réttlæta jafnaðarreglu um lífskjör í einu þjóðfélagi. Hér er ágrip af henni.

Segjum að tveir hópar séu í samfélagi, hæfileikafólk og hæfileikalaust. Kjör þeirra verða óhjákvæmilega ójöfn. Þá getur virzt sanngjarnt að jafna þau í nafni þeirrar hversdagslegu hugsunar að munur á náttúrlegum hæfileikum, eða forréttindi sem fólk er fætt til, sé óverð­skuldaður mannamunur. Því sé sanngjarnt að bæta þeim það upp sem fara illa út úr því happ­drætti. Hér er ekki vísað til neins sáttmála.

En við getum líka nálgast efnið á annan hátt, og þá kemur sáttmáli við sögu. Skipuleg samvinna hópanna er bersýnilega skilyrði þess að hvor þeirra um sig, og báðir saman, lifi bærilegu lífi í einu samfélagi. Hvor um sig þarf á hinum að halda. En við getum ekki ætlast til að allir taki þátt í þessari samvinnu nema skilmálarnir séu sanngjarnir. Af þessum ástæðum ætti hæfileikafólkið, ef það er skynsamt, að sætta sig við að allt sem það ber úr býtum umfram hina afskiptu ráðist af einum saman hag hinna afskiptu af þeim ójöfnuði.7

Hvernig réttlætir þetta jafnaðarregluna? Mér virðist svarið velta á þeirri hugsun Rawls að hvor hópurinn um sig þarf á hinum að halda. Þörf er sjálfkrafa ástæða til breytni, og ástæða til breytni er réttlæting þeirrar breytni. Samkomulagið ræðst af þessari þörf og þess vegna getum við litið á það sem réttlætingu reglunnar.

§5 Þjóðréttarsáttmálinn

Eitt meinið við sáttmálann sem þjóðaréttur á að vera reistur á er að þar er engin hliðstæða við þá hugsun að þegnar samfélags þurfi hver á öðrum að halda. Þvert á móti gengur Rawls að því vísu í Þjóðarétti, eins og gert var í þjóðréttarhefðinni allt frá 17du öld, að aðilarnir að slíkum sáttmála séu fullvalda ríki og í höfuðatriðum sjálfum sér næg. (Margir heimsborgarar hafa talið þetta sýna að hugmyndir Rawls séu rammlega úreltar í ljósi svonefndrar hnattvæðingar.8) Sáttmálarnir tveir, hinn þjóðlegi og hinn alþjóðlegi, eru þá ekki sambærilegir.

Alþjóðlegi sáttmálinn hjá Rawls réttlætir ekkert. Það væri nær að líta á hann sem framsetningar­máta á viðteknum hugmyndum um þjóðarétt. Rawls virðist raunar leggja mikið upp úr því í athugunum sínum á alþjóðalögum, bæði í Kenningu um réttlæti og í Þjóðarétti, að kenningar sínar réttlæti viðtekinn þjóðarétt, og meira að segja viðtekinn lágmarksþjóðarétt, til að mynda lágmarksmannréttindi og lágmarksaðstoð við þjóðir í nauðum, öðrum þræði í nafni raunsæis. Sáttmálahugmyndin þjónar þá þeim tilgangi í framsetningunni að draga fram hlutleysi réttarins. Það verður höfuðprýði hans.

En Rawls tekst ekki að réttlæta þennan rétt. Mundi Kant farnast betur?

 

Tilvísanir

1. Immanuel Kant: Zum ewigen Frieden: Ein philosophischer Entwurf í Immanuel Kants Werke (Ernst Cassirer) VI (Schriften von 1790-1796), Verlegt bei Bruno Cassirer, Berlin 1914, 425-474.

2. John Rawls: The Law of Peopes with the Idea of Public Reason Revisited, Harvard University Press, Cam­bridge, Massachusetts 1999.

3. Fólk greinir á um hvort lýðveldi Kants séu jafngildi þess sem við köllum lýðræðisríki á okkar dögum. Ég held við vitum jafnvel minna um hvað við köllum lýðræðisríki á síðustu tímum en hvað Kant kallaði lýðveldi, þótt það hafi verið annað en það sem við köllum því nafni.

4. Ég vísa forvitnum á framúrskarandi rökræðu Loga Gunnarssonar um þessi efni í bókinni Making Moral Sense, Cambridge University Press, Cambridge 2000.

5. Að sögn skrifstofu Amnesty International í Reykjavík í síma 21sta október 2004. Sjá líka fróðleik á Netinu.

6. Um þetta og fleira í þessum kafla styðst ég við Chris Brown: Sovereignty, Rights and Justice: International Political Theory Today, Polity Press, Cambridge 2002. Sjá einkum 216-223.

7. John Rawls: A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, Harvard University Press, Cambridge, Massa­chusetts 1999, §17, 86-89.

8. Sjá Alan Buchanan: „Rawls’s Law of Peoples: Rules for a Vanished Westphalian World“ í Ethics CX, 2000, 697-721.

 

« Til baka

Karl R. Popper

Karl Raimund Popper fæddist í Vínarborg árið 1902 en dvaldist lengst af á Englandi, þar sem hann gegndi kennarastöðu við London School of Economics. Hann er þekktur fyrir heimspekilegt framlag sitt til bæði stjórnmála- og vísindaheimspeki. Karl Popper lést árið 1994. Gunnar Ragnarsson ritaði eftirfarandi inngangstexta með þýðingu sinni á viðtali Bryans Magee við Popper:

„Meðal almennings mun Popper þekktastur sem óvæginn gagnrýnandi marxismans og annarra kenninga sem þykjast hafa höndlað stórasannleik um mann og heim og má þar, auk marxismans, nefna sálgreiningu Freuds og þráttarhyggju Hegels. Það gefur að skilja að Popper á ekki upp á pallborðið hjá fylgismönnum slíkra kenninga.

Vínarhringurinn sem nefndur er í innganginum að samtalinu var samtök vísindalega sinnaðra heimspekinga í tengslum við háskólann í Vínarborg. Eru samtök þessi einkum tengd nafni Moritz Schlicks (1882–1936) sem var aðalhvatamaður að stofnum þeirra. Þau störfuðu á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, gáfu út tímarit, bækur og héldu ráðstefnur, en leystust upp þegar nasistar náðu völdum í Austurríki. Sumir félaganna fluttu til Bandaríkjanna og höfðu mikil áhrif á þróun heimspeki þar í landi, t.d. Rudolf Carnap (1891–1970). Heimspekingarnir í Vínarhringnum héldu fram kenningu sem kallast á ensku logical positivism og hefur fengið á íslensku nafnið rökfræðileg raunhyggja. Meginhugmynd þessarar heimspeki er sú að allt sem hægt er að segja af viti og hefur merkingu sé annaðhvort raunvísindalegs eðlis, þ.e.a.s. staðhæfingar um sannreynanleg fyrirbæri, staðreyndir, ellegar staðhæfingar í rökfræði og stærðfræði. Samkvæmt þessari tegund raunhyggju eru því til að mynda frumspekilegar og siðfræðilegar staðhæfingar bókstaflega merkingarlausar, að ekki sé minnst á guðfræði. Popper var frá upphafi eindreginn andstæðingur og óvæginn gagnrýnandi þessarar kreddu og sýndi fram á að kenningin um merkingu og merkingarleysi fengi ekki staðist. – Í sjálfsævisögu sinni (Unended Quest) segist Popper hafa gengið af rökfræðilegri raunhyggju dauðri í bók sinni Rökfræði rannsóknar.

Sem vísindaheimspekingur er Popper frægastur fyrir kenningu sína um afmörkun raunvísinda og alræmdur fyrir þá skoðun að engin aðleiðsla sé til. Eins og fram kemur í samtalinu telur hann sig hafa fundið mælikvarða sem hægt sé að nota til að draga markalínu milli raunvísinda, frumspeki og annarra fræðigreina – án þess að halda því fram að staðhæfingar í öðrum greinum en þeim raunvísindalegu séu merkingarlausar! (Magee talar um mörkin milli vísinda og ekki–vísinda). Þetta er hrekjanleikaregla Poppers og er hún sett fram gegn sannreynslu- eða sannreynanleikareglu rökfræðilegra raunhyggjumanna sem átti m.a. að útiloka frumspeki frá merkingarbærri orðræðu. Hugmynd Poppers er að hugsanlegur hrekjanleiki kenningar sé mælikvarði á vísindalegt einkenni hennar.

Einn höfuðkostur Poppers sem heimspekings er sá hve skýr hann er í framsetningu. Hann felur ekki loðna eða óljósa hugsun á bak við tvírætt eða margrætt orðalag. Hann leggur sig allan fram við að orða skoðanir sínar þannig að unnt sé að koma höggi á þær, nefnilega að gagnrýna þær. Og hann er eflaust einn mesti rökfærslusnillingur í hópi heimspekinga. Heimspekilega afstöðu sína kallar Popper gagnrýna rökhyggju (critical rationalism). En nafngiftir út af fyrir sig skipta ekki máli að hans dómi, enda þótt hann telji að ekkert sé mikilvægara en tungumálið, eins og fram kemur í samtalinu.

Bestu kynningu á þekkingarfræði Poppers og þróunarhyggju er að finna í bók hansHlutlæg þekking (Objective Knowledge. – Oxford University Press, 1972) en besta inngang að hugsun hans almennt, fyrir utan bókina Popper eftir Magee, tel ég vera að fá í safni greina eftir Popper sem birtist í bók undir heitinu Tilgátur og afsannanir(Conjectures and Refutations. – Routledge & Kegan Paul, 1963).“

Í greininni „Ágiskanir og afsannanir“ skýrir Popper fræga hugmynd sína um svokallaðan „afsannanleika“ vísindakenninga, sem hann taldi góðan prófstein á þær. Viðtal Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Popper snýst einkum um stjórnmálaheimspeki. Viðtal Poppers og Magees er greinargóður inngangur að öllum helstu hugmyndum Poppers.

Karl R. Popper:
Ágiskanir og afsannanir
Haukur Ástvaldsson þýddi.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson:
Frjálshyggjan verður aldrei fullsköpuð

Bryan Magee:
Samræða við Karl R. Popper
Samræðan birtist upphaflega í Modern British Philosophy. Gunnar Ragnarsson þýddi.

Karl Popper:
Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar. Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans
Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). Gunnar Ragnarsson þýddi.

« Til baka

Kenningar um merkingu

eftir Árna Finnsson

(Hugur 3.–4. ár. 1990/1991, s. 57–77)

Inngangur

Hér á eftir er ætlunin að fara nokkrum orðum um kenningar bandaríska heimspekingsins Willards Van Orman Quine um merkingu eða kannski öllu heldur um kenningar um merkingu. Quine er án efa í hópi kunnustu heimspekinga seinni tíma, og áhrif hans hafa náð víða. Hann er órjúfanlega tengdur raunhyggjuheimspeki tuttugustu aldar, og hefur jafnvel haft meiri áhrif á þeim vettvangi en nokkur einn heimspekingur annar. Meðal kunnustu rita Quines má nefna ritgerðasöfnin From a Logical Point of View (1953) og Ontological Relativity and Other Essays (1969) og bókina Word and Object (1960). Í From a Logical Point of View er að finna tvær af kunnari ritgerðum Quines, en það eru ritgerðirnar „On what there is“ og „Two dogmas of empiricism“, sem birt er í þessu hefti í þýðingu Þorsteins Hilmarssonar. Í Ontological Relativity and Other Essays er að finna meðal annarra ritgerðirnar „Ontological relativity“ og „Speaking of objects“, en sú síðarnefnda, sem skrifuð er um 1957, leggur grunninn að skrifum Quines í Word and Object, og töluverðir hlutar ritgerðarinnar birtast að meira eða minna leyti aftur í þeirri bók. Í öllum þessum ritgerðum fjallar Quine um þau efni sem rakin verða hér á eftir. Í Word and Object er síðan að finna ítarlega og viðamikla greinargerð Quines fyrir heimspeki tungumálsins, og þeim vandamálum sem þar er við að glíma.

Ef draga á saman verk Quines í stuttu máli, þá má segja að helsta viðfangsefni hans hafi verið að gagnrýna og skerpa raunhyggju seinni tíma á ýmsa vegu. Líta má á verk hans sem andsvar við þeirri raunhyggju sem spratt upp á fyrrihluta aldarinnar, og má þá helst horfa til kenninga Rudolfs Carnap og annarra meðlima Vínarhringsins svokallaða. Kenningar Quines um ýmis þau efni er varða raunhyggju, verða því sennilega að skoðast í ljósi þeirra hugmynda til að skiljast til fullnustu. Hér er þó ekki ætlunin að gera með neinum hætti grein fyrir hugmyndum Carnaps eða annarra sem Quine gagnrýnir, heldur verður einungis fjallað um helstu vandamálin sem við blasa í hugmyndum Quines um kenningar um tungumál og merkingu, og hugsanleg svör við þeim vandamálum. Hér verður ekki reynt að leysa þessi vandamál á einn eða annan hátt, né heldur að gera grein fyrir því hvernig heimspekingar almennt og yfirleitt hafa tekið á þeim.

Fjölmargir hafa tekið sér fyrir hendur að bregðast við þeim vandamálum sem Quine bendir á að upp komi þegar gera á grein fyrir merkingu í tungumáli, og mætti eyða löngu máli í að lýsa þeim leiðum sem reyndar hafa verið. Hér verður þó einungis litið lítillega til kenninga annars bandarísks heimspekings, Donalds Davidson. Davidson var um tíma nemandi Quines, og hefur líkt og hann glímt talsvert við þau vandamál sem tengjast kenningum um merkingu. Helstu kenningar og hugmyndir Davidsons í þessum efnum má finna í ritgerðasafninu Inquries into Truth and Interpretation sem inniheldur 18 ritgerðir um heimspeki tungumálsins, frá árunum 1964–82.

Tungumál og merking

Þegar einhver segir eitthvað satt, hvað er það þá sem gerir fullyrðingu hans sanna. Okkur finnst gjarnan sem þar komi til tveir þættir: merking og staðreynd. Þjóðverji mælir fram fullyrðinguna: „Der Schnee ist weiss“. Í þeim töluðum orðum hefur hann sagt satt, og svo er fyrir að þakka ánægjulegri samleitni tveggja þátta: setningin sem hann mælti merkir að snjór er hvítur, og staðreyndin er einnig sú að snjór er hvítur. Hefði merkingin verið önnur, ef til að mynda „weiss“ hefði merkt grænn, þá hefði hann ekki sagt satt. Ef staðreyndirnar hefðu verið á annan veg, ef snjór hefði verið rauður, þá hefði hann á sama máta ekki sagt satt.1

Með þessum orðum hefur Quine bók sína Philosophy of Logic, og vísast myndu margir fallast umyrðalaust á þessa lýsingu hans á því hvernig tungumálið virkar. Tungumálið er óneitanlega eitthvert öflugasta tólið sem maðurinn hefur á valdi sínu, og máttur þess virðist fyrst og fremst felast í þeim eiginleika þess að geta flutt boðskap um heiminn manna á milli, eða tjáð heiminn á einhvern hátt. Þetta á sér stað á þann hátt að tungumálið ber merkingu, og boðskapurinn sem þannig er fluttur, það sem sagt er, er satt ef merking þessi er í samræmi við það sem er í heiminum. Í þessari lýsingu verður í fljótu bragði ekki séð neitt sem ekki kemur heim og saman við daglega reynslu okkar af tungumálinu og almennar hugmyndir um það.

En hvað er það nákvæmlega sem felst í þessari lýsingu? Hvað má af henni ráða um það hvernig merking á sér stað í tungumálinu? Hvernig er aðgangi okkar að þessari merkingu háttað? Hvernig er hægt að gera grein fyrir samsvörun á milli merkingar og staðreynda? Ef okkur á að takast að gera grein fyrir því hvernig tungumálið virkar, eða að móta kenningu um merkingu, þá virðumst við þarfnast svara við spurningum sem þessum. Af lýsingunni hér að framan verður hins vegar fátt ráðið um þessi atriði. Heimspekingar hafa um langan aldur verið ólatir við að reyna að ráða bót á þessu, og hafa margir þeirra reynt að auka við þessa lýsingu eða betrumbæta hana á annan veg, og móta þannig kenningu um merkingu.

Segja má að kenning Quines, sem hér verður rakin, snúist að mestu leyti um að vefengja hversdagslegar hugmyndir manna um tungumálið. Þá fá kenningar fyrirrennara hans í þessum fræðum einnig sinn skerf af gagnrýni. Þó svo að ekki séu allir á einu máli um gildi kenninga hans er sennilega óhætt að segja að honum takist býsna vel að varpa rýrð á þessar hugmyndir – honum tekst í það minnsta að sýna fram á að hugmyndir þessar eru fjarri því að vera eins einfaldar og auðveldar viðureignar og ætla mætti. Framlag Davidsons í þessum efnum er með nokkrum öðrum hætti en Quines, þar sem hann reynir að gera grein fyrir þeim skilyrðum sem setja verður kenningu um merkingu í tungumáli og síðan leitar hann leiða til að móta kenningu sem uppfyllir þau skilyrði. Hann glímir við mörg af þeim vandamálum sem Quine bendir á og telur siga leysa úr ýmsum þeirra, eða í það minnsta komast fram hjá þeim þannig að þau standi merkingu ekki fyrir þrifum. Á endanum kann jafnvel að mega sjá í kenningum hans mynd af tungumáli og merkingu, sem ekki er ýkja frábrugðin hversdagslegum hugmyndum manna í þessum efnum, þótt hún sé sett fram á nokkuð annan veg. Því má segja að kenning Davidsons sé að nokkru leyti framhald á kenningum Quines og að nokkru leyti svar við þeim. Davidson neitar því þó alfarið að hann sé í einu eða neinu að andmæla Quine.

Merking

Það fyrsta sem okkur kemur í hug þegar gera á grein fyrir merkingu er að segja orðin merkja eða standa á einhvern hátt fyrir hlutina í umhverfi okkar, eiginleika þessara hluta og tengsl þeirra innbyrðis og við okkur. Merking setninganna er síðan sett saman úr merkingu orðanna og skilningur á setningu er undir því kominn að okkur takist að tengja hvert orð þessu fyrirbæri sem nefnt er merking. Hlutirnir og eiginleikar þeirra eru þannig nefndir í ákveðnum tengslum hver við annan, og tengsl þessi endurspegla raunveruleg tengsl hlutanna í umhverfi okkar. Þannig mætti ætla að setningar tungumálsins virkuðu líkt og myndir af veruleikanum eða aðstæðum í veruleikanum. Setning er síðan sönn ef myndin sem hún dregur upp er mynd af raunverulegum aðstæðum.

Fjöldi kenninga dregur upp mynd af merkingu sem svipar til þessarar. Þar mætti sem dæmi nefna kenningu Wittgensteins í Tractatus Logico-Philosophicus.2 Þar segir hann hreint út að staðhæfingar séu myndir af veruleikanum (4.01, 4.021). Það að skilja slíka staðhæfingu segir hann síðan felast í því að vita hvað það þýðir fyrir veruleikann ef staðhæfingin er sönn (4.024), eða með öðrum orðum að vita hvaða aðstæður það eru sem staðhæfingin er mynd af (4.021). Það að vita hvortsú mynd er sönn eða ekki er hins vegar annað, og til að komast að því þarf að bera hana saman við veruleikann. Líkt og rakið var hér að framan, þá telur Wittgenstein myndirnar virka þannig að þær séu settar saman úr hlutum eða einingum sem svari til hlutanna í þeim aðstæðum sem myndin er af (2.13, 2.131). Hlutar myndarinnar standa í ákveðnum tengslum hver við annan og tengsl þessi endurspegla tengsl hlutanna í veruleikanum (2.15). Hinir einstöku hlutar myndarinnar eru okkur kunnuglegir af viðureignum okkar við aðrar slíkar myndir, eða vegna þess að hlutverk þeirra hefur verið skýrt fyrir okkur. Með þessu móti er hægt að gera grein fyrir því hvernig við skiljum slíkar myndir þrátt fyrir að við höfum aldrei rekist á þær fyrr, og eins þó að við höfum ekki reynt þær aðstæður sem myndin er af. Síðan segir Wittgenstein að þegar eitt tungumál er þýtt yfir á annað, felist þýðingin ekki í því að þýða sérhverja setningu með annarri setningu, heldur því að þýða hina einstöku hluta setninganna (4.025). Fljótt á litið verður ekki annað séð en slík lýsing á tungumálinu sé í flestum atriðum samhljóða hversdagslegum hugmyndum okkar í þessum efnum.

Quine andmælir slíkri lýsingu á tungumálinu, sem hann segir vera „goðsögn um safn þar sem sýningargripirnir eru merkingar, sem auðkenndar eru með orðunum.“3 Væri þetta hin rétta lýsing á tungumálinu, þá væri það að þýða af einu tungumáli á annað fólgið í því að skipta hreinlega um merkispjöld á sýningargripunum. Myndin sem upp er dregin með orðunum verður þannig hin saman, aðeins dregin með nýjum línum. En Quine segir þessa lýsingu ranga. Í stað þess að leita einhverra slíkra huglægra fyrirbæra sem nefna mætti merkingar orðanna, og sem standa á einhvern máta utan og ofan við tungumálið og beitingu þess, þá verðum við að líta beint til málhegðunar manna. „Merking er fyrst og fremst eiginleiki hegðunar.“4 Afstöðu þessa kennir Quine við náttúruhyggju, og rekur hana til Johns Dewey. En af henni sprettur að handan þess sem ráða má beint af málhneigðum manna og breytni er ekki unnt að tala um að orð eða setningar séu sömu merkingar. „Frammi fyrir náttúruhyggjunni er ekkert óbrigðult svar, þekkt eða óþekkt, til við þeirri spurningu hvort tvær setningar eru sömu eða ólíkrar merkingar, nema að því marki sem það svar er ráðið af málhneigðum manna, þekktum eða óþekktum.“5 Ef við föllumst á þetta verður strax ljóst að goðsögnin sem lýst var hér að framan færir okkur litlu nær merkingu í tungumáli, þar sem safnið sem þar var lýst er ekki til, eða í það minnsta stendur ekkert slíkt safn okkur opið á þessari stundu.

Það að taka tungumálið slíkum tökum hefur víðtækar afleiðingar fyrir öll málvísindi, og stundum virðist Quine jafnvel ganga svo langt að segja að fyrirbæri eins og merking og tilvísun varði alvarleg málvísindi næsta lítið. Á einum stað segir hann:

[…] Merkingar reynast hins vegar vera fyrirbæri einstakrar gerðar: merking setningar er hugmynd sú sem látin er í ljós. Nú er það svo að á meðal málspekinga samtímans er eftirtektarverður einhugur um að hugmyndin um hugmynd, hugmyndin um andlega samsvörun eininga málsins, sé minna en einskis nýt fyrir málvísindin. Mér sýnist sem atferlissinnar hafi rétt fyrir sér í því að tal um hugmyndir sé jafnvel fánýti eitt fyrir sálfræði. Gallinn við hugmyndina „hugmynd“ er að notkun hennar, líkt og vísunin til svæfingarmáttarins hjá Molière, býður heim þeirri blekkingu að eitthvað hafi verið útskýrt.6

Það var sagt hér að ekki væri hægt að ganga að því vísu að setningar væru sömu merkingar nema því aðeins að ráða mætti það af málhneigðum manna og breytni, en það er þó ekki eini vandinn. Sé tungumálið tekið þessum tökum verður erfitt að gera grein fyrir því einu hvernig ólík orð eða setningar geta verið sömu merkingar, eða því að setningar geti á einhvern veg verið sjálfljósar, sannar af sjálfum sér. Quine hefur raunar höggvið að greinarmuninum á rökhæfingum og raunhæfingum í ritgerðinni „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Enn eitt sem er ljóst er að ef farið er að ráðum Quines verður það fjarri því að vera áhlaupaverk að grafast fyrir um merkingu orða og setninga í tungumáli á vísindalegan máta, þar sem við hvert einasta skref þarf að festa kenninguna í sessi með vísun í breytni manna og hneigðir. Í kenningasmíð sinni notar Quine þá aðferð meðal annars að skoða slíka rannsókn eða þýðingu, sem hann kallar róttæka þýðingu (radical translation), til að komast að því hvar merkingu sé að finna í tungumáli og þá hvernig megi finna hana.

Róttæk þýðing

Kunnasta framlag Quines til umfjöllunar um merkingu er án efa kenning um það sem nefnt hefur verið þýðingabrigði. Sennilegast er best að ráða hvað í þeirri kenningu felst og hvað af henni sprettur, af tali Quines um róttæka þýðingu. Við skulum nú fallast á það með Quine, í það minnsta um stund, að sá efniviður sem alvarlegum málvísindamönnum ber að vinna með séu málhneigðir manna og breytni, og róttæk þýðing er þýðing á fjarlægu, áður óþekktu tungumáli, í anda þessa og þá án nokkurra þeirra hjálpartækja sem venjulega standa mönnum til boða við þýðingar. Það eina sem þýðingin er reist á er athugun á málhneigðum manna og breytni. Slík þýðing stendur að líkindum víðs fjarri öllu því sem ætla má að menn hafi lent í, en að breytir því ekki að ef okkur tekst að gera okkur hana í hugarlund þá ætti hún að sýna næsta vel hvernig merking verður aðgengileg í gegnum breytni manna.

Hugsum okkur nú málvísindamann meðal óþekkts ættbálks og setjum honum það verkefni að þýða tungu ættbálksins á grundvelli reynsluathugunar einnar saman. Það fyrsta sem honum tekst sennilega að þýða eða tengja einhver konar merkingu, eru setningar um einfalda hluti sem fyrir augu ber í umhverfinu. Ef hann þannig veitir því athygli að þegar kanína birtist innan sjónsviðsins segir einn frumbygginn „Gavagai“, gerir hann ráð fyrir að tengja megi setninguna kanínum, eða jafnvel þýða hana með orðinu „kanína“. Tilgátuna getur hann síðan prófað með frekari athugunum. Með tíð og tíma kemst hann að því hvað beri að líta á sem játun og hvað neitun í máli frumbyggjanna og þegar þar er komið getur hann prófað að leita eftir viðbrögðum þeirra við setningum sem hann hefur lært, í ólíkum aðstæðum; t.a.m. ýmist þegar kanínur eru sjáanlegar eða ekki. Hann getur jafnvel reynt að setja aðstæðurnar upp á þann veg sem honum hentar best í rannsókninni. Þótt ýmis vandamál komi upp strax á þessu frumstigi rannsóknarinnar fer þó svo á endanum að málvísindamaðurinn getur verið næsta viss um að setningunni „Gavagai“ er samsinnt ef kanína er sjáanleg en annars ekki . Tilgátan sem hann setti fram í upphafi er því sennilega rétt.7

Setningar eins og „Gavagai“ nefnir Quine atvikssetningar (occasion sentences), en það eru setningar sem eru þannig að þeim er einungis samsinnt að gefnu ákveðnu áreiti og þá því aðeins að þetta áreiti sé til staðar á því augnabliki. Andstætt þessum setningum eru síðan viðvarandi setningar (standing sentences), sem eru þannig að að því gefnu að viðkomandi hafi á einhverjum tíma orðið fyrir ákveðnu áreiti, þá samsinnir hann slíkum setningum óháð aðstæðum hverju sinni. Áreiti þau sem kalla fram samþykki við ákveðnum setningum, kallar Quine síðan áreitismerkingu (stimulus meaning) þeirra setninga.

Við skulum nú gefa okkur að með stöðugum athugunum og prófunum takist málvísindamanninum að koma sér upp talsverðu safni atvikssetninga eins og „Gavagai“ sem eru þannig að hann fari nokkuð nærri um áreitismerkingu þeirra; það er að hann geti á næsta áreiðanlegan hátt tengt þessar setningar ákveðnu áreiti líkt og hann tengdi setninguna „Gavagai“ því að kanína væri nálægt. Við getum jafnvel gefið okkur að málvísindamaðurinn geti með tíð og tíma farið að spyrja einfaldra spurninga til að renna stoðum undir þær niðurstöður sem hann hefur komist að. Til þessa þyrfti hann þó að koma sér upp einhvers konar grunni að málfræði fyrir tungumálið sem glímt er við og til að það mætti takast yrði hann að líkindum að vera kominn vel á veg í þýðingunni. Ótal önnur vandamál spretta einnig á þessari leið, svo sem í tengslum við aðrar setningar en einfaldar atvikssetningar og ýmis atriði önnur í framkvæmd athugananna. Við getum þó horft framhjá slíkum vandamálum hér án þess að það breyti á endanum miklu um niðurstöðurnar.

Þýðingabrigði og verufræðilegt afstæði

En hversu langt höfum við þá komist í átt að þýðingu á tungumáli frumbyggjanna? Við höfum þarna ákveðið safn setninga sem eru þannig að vitum undir hvaða kringumstæðum frumbyggjarnir hneigðust til að samsinna þeim og hverjum ekki. Hugsanlega gætum við síðan reynt að tiltaka setningar sem samsinnt yrði undir sömu kringumstæðum í okkar eigin tungu. Það er hins vegar augljóst að því fer fjarri að þetta dugi okkur sem þýðing á tungumáli frumbyggjanna. Við þurfum meira en aðferð til að para einhvern tiltekinn fjölda setninga á máli þeirra við setningar á okkar eigin máli. Enn eru til setningar sem eru annarrar gerðar en þær sem rannsóknin náði til, og eins er að hversu margar setningar sem við kunnum að hafa rekist á þá munu alltaf vera til aðrar setningar sem við höfum enn ekki heyrt. Þetta á í það minnsta við um öll þau tungumál sem við þekkjum. Ef þýðingin á að vera til einhvers nýt verður hún að gera okkur kleift að þýða slíkar setningar þrátt fyrir að við höfum aldrei heyrt þær fyrr. Þýðingin, eða þessi forskrift að þýðingu, þyrfti jafnvel að gera okkur kleift að mynda nýjar setningar á tungumálinu, það er setningar sem við ekki þekktum fyrir. Fyrr gætum við ekki fallist á að verkefni okkar væri að fullu lokið. Eina leiðin sem við blasir til að þetta megi takast, er í líkingu við hugmyndir Wittgensteins í Tractatusi sem nefndar voru hér að framan. Við komumst ekki af með að þýða heilar setningar með öðrum setningum, heldur verðum við með einhverjum hætti að hluta setningarnar upp í einingar og þýða síðan þessar einingar eða para við einingar á okkar eigin tungu. En ef þetta á að takast virðist ljóst að málvísindamaðurinn okkar verður að segja skilið við vettvangsathugun sína og grípa til annarra aðferða. Hann verður að setja saman einhverja tilgátu um hvernig hluta eigi setningar tungumálsins niður og hvernig fara skuli með hvern setningarhluta. Hann verður þannig að setja saman einhvers konar orðalista og reglur sem kveða á um notkun listans. Af listanum verður síðan að vera hægt að ráða hlutverk hvers einstaks setningarhluta og hvernig fara skuli með hann í þýðingunni.

Þegar að þessum hluta verkefnisins kemur er það sem þýðingabrigðin birtast. Málvísindamaðurinn hefur verk sitt með tiltekið safn setninga sem hann parar við eða þýðir með setningum á sinni eigin tungu. Verkinu heldur hann síðan áfram á þann veg að hann hlutar setningarnar upp á einhvern máta sem samræmist þessum þýðingum sem þegar eru til og gerir grein fyrir hlutverki hvers hluta fyrir sig. Tilgáturnar má síðan prófa að einhverju marki með athugunum, en eftir því sem kerfið verður viðameira og flóknara því fjarlægari verða tilgáturnar þeim athugunum sem gerðar voru, og að sama skapi verður erfiðara að ganga úr skugga um gildi þeirra. Að endingu fer svo að kerfið, eða þýðingartilgátan, stendur sem slíkt en verður ekki stutt með neinni beinni vísun til athugananna. Quine segir síðan að unnt væri að setja saman fleiri en eina slíka tilgátu, sem tengdu sömu setningar eða setningarhluta við ólíkar þýðingar á okkar tungu, en sem samræmdust þó allar jafn vel öllum þeim upplýsingum sem voru aðgengilegar í athugun okkar á tungumálinu. Þannig yrðu til tvær eða fleiri forskriftir að þýðingu, sem væru ósamrýmanlegar eða jafnvel í mótsögn hver við aðra. Og vandamálin rísa jafnvel fyrr en ætla mætti af lýsingunni hér að framan. Einföldustu atvikssetningar, sem voru það fyrsta sem málvísindamanninum tókst að henda reiður á, geta nú orðið til vandræða. Þannig verður til að mynda setningin „Gavagai“, sem í upphafi virtist næsta auðveld viðureignar, nú vandmeðfarin. Okkur er ekki nóg að vita um hana að hún standi í einhvers konar sambandi við kanínur. Við verðum að tiltaka orð eða setningarhluta sem komið gæti í hennar stað í öllum tilfellum, og gegndi þar sama hlutverki. Og þegar að þessu kemur, kemur í ljós að í hegðun frumbyggjanna og málhneigðum virðist ekkert vera að finna sem skorið gæti úr um hvort þýða ætti setninguna sem til að mynda „kanína“, „kanínuhluti“, „kanínuskeið“ (tímanlegt) eða „kanínuleiki“. Vandinn sem hér um ræðir er sá, í stuttu máli, að við höfum ekkert fyrir okkur sem skorið getur úr um hvort frumbyggjarnir hafa sama hátt og við á að tiltaka og aðgreina hluti í veruleikanum. Þannig verður jafnvel merking einföldustu atvikssetninga illnálganleg eftir leiðum beinnar reynsluathugunar, í það minnsta svo lengi sem við reynum að staðfesta merkinguna með tilvísun eða einhverju sem kemur í hennar stað. Quine segir um þetta á einum stað:

Það er eins líklegt og hvað annað, að munur á tungumálum liggi í því að þeir sem tunguna tala hafi mismunandi hátt á að skipa heiminum sjálfum í hluti og eiginleika, tíma og rúm, frumefni, krafta, anda o.s.frv. Það er engan veginn ljóst að vitlegt sé að líta svo á að orð og setningaskipan séu breytileg frá einni tungu til annarrar en að innihald þeirra sé óbreytt; þó er einmitt slíkur tilbúningur að verki þegar talað er um að setningar séu sömu merkingar, í það minnsta ef um mjög ólík mál er að ræða.8

Í sem stystu máli má segja að ef okkur á að takast að koma saman orðalistanum fyrir tungumál frumbyggjanna, þá verðum við að þröngva ákveðinni verufræði, eða ákveðnum hætti á að tiltaka hlutina og greina einn hlut frá öðrum, upp á tungumál þeirra án þess að nokkuð í hegðan þeirra eða málhneigðum gefi tilefni til. Slík verufræði er ekki aðgengileg eða opinber í tungumálinu, og því er vel mögulegt að búa til fleiri en einn orðalista sem hafa þarna mismunandi hátt á, og gefa þannig ólíkar þýðingar. – Á endanum felst vandinn sem hér um ræðir í því að hér er um tvenns konar merkingu að ræða. Annarsvegar getum við sagt að sú merking sem hægt er að tala um að birtist í málhneigðum manna og breytni, sé einskonarumtaksmerking setninga. Ef okkur á hins vegar að takast að setja saman þýðingartilgátu sem fullnægir öllum okkar þörfum, þá þurfum við að geta gert grein fyrir inntaki setninga eða setningahluta í tungumálinu. Slíkt inntak segir Quine hins vegar ekki aðgengilegt með neinum hætti í málhneigðum manna og breytni.

En nú höfum við ákveðinn hátt á að greina hlutina í okkar eigin tungumáli, sem þá er væntanlega sá háttur sem flytjum yfir á tungumál frumbyggjanna. Ennfremur þá höfum við að því er virðist, komist yfir þessa verufræði tungumálsins á meira eða minna sama máta og málvísindamaðurinn „lærði“ tungumál frumbyggjanna. Við virðumst fyrst og fremst læra tungumálið með því að upplifa beitingu annarra á því, án þess að nota til þess nokkuð annað en það sem málvísindamanninum okkar er aðgengilegt. Við getum vart ætlað annað en honum sé kleift að læra tungumálið á sama máta og barn lærir að tala. Og má þá ekki ætla að með tíð og tíma læri hann þannig þann hátt sem hafður er á aðgreiningu hlutanna í tungumálinu, sem þá væntanlega má aftur gera grein fyrir í okkar eigin tungumáli? Og ef þetta tekst, erum við þá ekki komin með það sem kalla mætti rétta eða óbrigðula þýðingu?

Slík svör duga þó ekki hér, því jafnvel í okkar eigin tungumáli er enginn slíkur gefinn háttur á að aðgreina hlutina eða fyrirbærin sem tungumálið vísar til, í þessari mynd, eiga engu síður við um okkar eigið tungumál en hvaða tungumál annað. Hér gildir það sama og áður að bein reynsluathugun á okkar eigin tungumáli getur ekki staðfest neins konar verufræði tungumálsins. Þetta þýðir þó ekki að tungumál okkar sé óskiljanlegt eða merkingarlaust. Þetta þýðir einungis að verufræði, „heimsskoðun“ eða vísindaleg kenning um náttúru fyrirbæranna, er ekki eiginlegur hluti af merkingu í tungumáli.

Þannig verður þessi merking sem við leitum eftir, afstæð gagnvart heildarskoðun okkar á heiminum. Við getum ekki gert grein fyrir merkingu í tungumáli, eftir þeim leiðum sem hér hafa verið farnar, án þess að gera grein fyrir verufræði tungumálsins. Verufræði þessi er samvaxin heildarskoðun okkar á heiminum og verður ekki fundin eða staðfest með reynsluathugun, sem fyrir Quine er sú eina aðferð sem talist getur vísindaleg í þessum efnum. Þetta verður kannski ljósara ef við lítum til þess sem Quine segir um sannreynslukenningu um skilning á tungumáli, í ritgerð sinni „Tvær kreddur raunhyggjumanna“. Sannreynslukenning um skilning er á þá leið að það að skilja setningu eða staðhæfingu, sé fólgið í því að vita hvað það þýðir fyrir veruleikann í kringum okkur ef staðhæfingin er sönn. Með öðrum orðum þá skiljum við setninguna ef við vitum hvernig við getum staðfest hana eða hnekkt. Quine víkur að þessari kenningu, þegar hann gagnrýnir smættarhyggjukredduna, sem hann kallar svo, og segir meðal annars:

Smættarhyggjukreddan helst við lýði þegar gert er ráð fyrir að með einhverju móti sé hægt að staðfesta sérhverja staðhæfingu eða hnekkja henni í einangrun frá öðrum. Gagntillaga mín sem einkum á rætur í kenningu Carnaps um efnisheiminn í Rökgerð heimsins, er að staðhæfingar okkar um heiminn þurfi ekki að standast dóm skynreynslunnar hver í sínu lagi, heldur einungis sem samstæð heild. […] Hugmyndin um að skilgreina tákn í samhengi var, eins og að var vikið, framför frá hinni vonlausu raunhyggju Lockes og Humes sem bundin var við að staðfesta einstök heiti. Frá og með Bentham var farið að líta á staðhæfingar fremur en heiti, sem þær einingar sem gagnrýni raunhyggjumanna beindist að. En það sem ég held nú fram er að jafnvel með því að gera staðhæfingar að grunneiningum höfum við riðið netið of þétt. Á endanum eru það ekki einstakar staðhæfingar, heldur vísindin í heild sem þurfa að koma heim og saman við reynsluna.9

Afstaða þessi hefur verið kennd við heildarhyggju, sem raunar er titill sem hugmyndir Davidsons hafa einnig verið felldar undir. En af öllu þessu sprettur að ef sníða á áreiðanlega reynslukenningu um merkingu, verðum við að sættast á að handan áreitismerkingar setninga og þess sem leiða má beint af henni, er ekkert það að finna sem kalla má áreiðanlega merkingu. Þennan vanda leysum við með tilgátum, sem vissulega eru ekki alveg úr lausu lofti gripnar, og með því að setja upp einhvern ramma fyrir tilvísun í tungumálinu. En eftir stendur að tilvísunarrammi þessi er og verður aldrei meira en tilgáta og ef marka má Quine er ekkert sem útilokar að til sé önnur slík tilgáta jafn góð en þó ólík okkar. Í þessum efnum erum við þess ekki umkomin að finna eitt né neitt sem skorið getur úr um hvort tilgáturnar eru réttar eða rangar. Eða eins og Quine segir:

Hinn endanlegi orðalisti er augljóslega dæmi um ex pade Herculem. En þó er þar munur á. Er við kennum Hercules af fætinum eigum við á hættu að okkur skjátlist, en við getum huggað okkur við þá staðreynd að til er eitthvað sem okkur getur skjátlast um. Hvað orðalistann varðar […] er ekki um neitt slíkt að ræða; það er ekkert að finna sem höfundur orðalistans getur haft á réttu eða röngu að standa um.10

Sannkjarakenning um merkingu

Hvert erum við þá komin í þessari viðureign okkar við merkingu í tungumáli? Ég sagði hér að framan að tungumálið væri máttugasta tólið sem maðurinn hefði á valdi sínu og að svo virtist sem máttur þess fælist fyrst og fremst í þeim eiginleika þess að geta flutt boðskap um heiminn manna á milli. Kenning um merkingu verður með einhverjum hætti að gera grein fyrir því hvernig við nálgumst þennan boðskap eða skiljum hann. Til þessa hefur hins vegar næsta fátt komið fram sem leyst gæti úr slíkum vanda. Áreitismerking setninga virðist illa til þess fallin og það sem kom í framhaldi af henni virðist litlu betra. Raunar má segja að flest sem hér hefur verið rakið hafi snúist fyrst og fremst um að sýna fram á hvar kenningu um merkingu sleppi; hvar hún komi að þeirri hindrun sem hún á endanum kemst ekki yfir.

En er þá engin von til að okkur takist að gera grein fyrir því á annan veg hvernig merkingu í tungumáli er háttað. Donald Davidson gerir tilraun í þá átt og við skulum nú líta til þess sem hann hefur fram að færa. Davidson, líkt og Quine, vill móta kenningu um merkingu í anda raunhyggju, og af því leiðir, í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan, að sú merking sem horfa verður til er umtaksmerking setninga. Annað skilyrði sem Davidson setur kenningu um merkingu höfum við einnig rekist á hér áður, en það er að kenningin verður að gera grein fyrir því hvernig við getum með tiltekinn orðaforða og takmarkað safn af reglum, skilið hverja og eina af ótölulegum fjölda merkingarbærra setninga í tungumáli. Kenningin verður, með öðrum orðum, að gera grein fyrir því hvernig merking setninga veltur á merkingu orða eða setningarhluta.11

Sú kenning sem við fyrstu sýn virðist vænlegust til að uppfylla þetta skilyrði, er án efa sú sem húr að framan var kennd við goðsögn. Það er sú kenning að orðin merktu eða stæðu fyrir hluti, eiginleika þeirra og tengsl þeirra innbyrðis, og að merking setninga væri síðan sett saman úr merkingum orðanna. Þannig yrði tungumálið nokkurs konar formlegt kerfi, sem drægi upp myndir af aðstæðum í veruleikanum eftir ákveðnum reglum. Það virkaði þannig líkt og stafrófið, sem segja má að dragi á skipulegan hátt upp myndir af málhljóðum eða orðum.

Við höfum þegar séð hverja útreið slík kenning fékk hjá Quine, og Davidson kemst að svipuðum niðurstöðum um þau efni; að okkur dugi ekki að leita einhvers konar huglægra fyrirbæra sem tiltaka mætti sem merkingu (inntak) orða og setningarhluta og skeyta síðan saman í merkingu setninga. Því leitar hann annarra leiða.

Það sem fyri honum verður er sanngildi setninga í tungumáli: það að vita hvað það er fyrir setninguna að vera sönn, er að skilja hana og þar með vita hvað hún merkir. Þessu svipar til þess sem Wittgenstein hafði fram að færa í myndakenningunni sem getið var hér að framan. Í myndakenningunni urðu hinir einstöku hlutar myndanna skiljanlegir sökum þess að við þekktum notkun þeirra af öðrum myndum, og myndirnar sem slíkar virtust einungis verða skiljanlegar af því að ákveðnar venjur giltu um beitingu hinn einstöku hluta þeirra. Í þessa sömu veru segir Davidson á einum stað:

Við afréðum hér að framan að gera ekki ráð fyrir að hinir einstöku hlutar setningar hafi merkingu, nema í þeim verufræðilega hlutlausa skilningi að þeir auki á skipulegan hátt við merkingu þeirra setninga sem þeir birtast í. […] Eitt af því sem af þessu kann að spretta er ákveðin heildarhyggja um merkingu. Ef merking setninga veltur á byggingu þeirra, og við skiljum merkingu sérhvers hluta þeirrar byggingar einungis sem sértekningu frá heild þeirra setninga sem hann birtist í, þá getum við einungis gefið merkingu setningar (eða orðs) með því að gefa merkingu allra setninga (og orða) í tungumálinu. Frege sagði að einungis innan samhengis setningar hafi orð merkingu; á sama veg gæti hann hafa bætt við að einungis innan samhengis tungumáls hafi setning (og þar af leiðandi orð) merkingu.12

Ef við nú stöndum nánast í sömu sporum og í upphafi þessarar umfjöllunar, hvar getum við þá leitað leiða til að nálgast merkingu frekar? Ég hef þegar nefnt að Davidson lítur til sanngildis setninga í tungumáli í leit að merkingu og hann leitar enn á þau mið eftir lausn á þessum vanda. Hann segir: „Kenning um merkingu í tungumáli L sýnir hvernig merking setninga veltur á merkingu orða ef hún inniheldur skilgreiningu á sannleika-í-L.“13 Síðan segir hann:

Kenningin afhjúpar ekkert nýtt um skilyrði þau sem afhjúpa þarf ef einstök setning á að vera sönn; hún gerir þau skilyrði engu ljósari en setningin gerir sjálf. Virkni kenningarinnar liggur í því að tengja kunn sannkjör sérhverrar setningar við þá hluta („orð“) setningarinnar sem birast í öðrum setningum, og eigna má sambærilegt hlutverk í öðrum setningum.14

Þessi hugmynd er sem slík alls ekki svo flókin. Það er næsta auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig tengja má sannkjör setningar og merkingu, eða kenningu um sannleika og kenningu um merkingu. Ef við til að mynda lítum enn og aftur til þýðinga, og nú í ljósi sannkjara, þá blasir við að ef merkingin er á einhvern máta bundin sannkjörum, þá blasir við að ef merkingin er á einhvern máta bundin sannkjörum, og unnt er að tiltaka sannkjör setninga á einu tungumáli, ætti að vera unnt án verulegra vandræða að tiltaka fyrir hverja setningu tungumálsins setningu á öðru máli sem hefði sömu sannkjör. Það má vera að sú þýðing sem þannig fengist væri kannski ekki sú eina rétta, en hún væri hins vegar eins rétt og nokkur þýðing gæti orðið. Af því leiðir hins vegar ekki að við værum þar með aftur komin með þýðingabrigði inn í myndina, heldur gæti þar verið um að ræða nokkuð sem okkur er öllum kunnugt, sem sé að oftar en ekki er unnt að þýða setningar á ólíka vegu án þess að við sjáum að innihald þeirra skolist á nokkurn hátt til.

Á hinn bóginn er ekki eins ljóst hvernig ætla má að í kenningu um sannleika sé unnt að tiltaka sannkjör setninga þannig að kenningin skýri hvernig þessi sannkjör hvíla á byggingu setninganna.15 Davidson telur þó með því að taka tungumálið þessum tökum, geti hann skýrt hvernig við getum með tilteknum orðaforða og tilteknu safni af reglum, skilið hverja og eina af ótölulegum fjölda setninga í tungumáli. Og þetta reynir hann að gera án þess að fjalla að nokkru marki um tilvísun einstakra orða og jafnvel án þess að fara mörgum orðum um merkingu sem slíka. Þó má draga þá ályktun að merking setninga felist í því að tengja megi þær ákveðnum staðhæfingum sem gera mætti grein fyrir eða setja fram í ákveðnu formlegu, nákvæmlega skilgreindu tungumáli, nokkurs konar yfirtungumáli. Það sem til þarf í kenningu um merkingu er því einhvers konar formlegt kerfi fyrir sannkjör í tungumálinu, sem þá dugar til að gera grein fyrir því hvað það er fyrir hverja setningu að vera sönn. Kerfið sem slíkt kveður ekki á um það hvernig við göngum úr skugga um hvort setning er í samræmi við veruleikann eða ekki. Það bætir engu við þekkingu okkar á því sem til þarf ef setning á að vera sönn. Þess í stað kveður kerfið á um byggingu setninga í tungumálinu og hvernig má ráða af þeirri byggingu ákveðin skilyrði þess að setning sé sönn. Þá er kerfi þetta ekki heldur á neinn hátt skilyrði þess að við skiljum tungumálið, það er við þurfum ekki að þekkja neitt slíkt kerfi til að skilja tungumálið, enda er það svo að enginn hefur yfir nokru slíku kerfi að ráða.

Einn vandinn sem blasir við ef við reynum að gera grein fyrir merkingu í tungumáli á þennan veg er sá að ekki nema tiltölulega lítill hluti setninga í tungumáli er þannig að unnt sé að tiltaka sannkjör þeirra. Fjöldi setninga hefur ekkert sanngildi og því engin sannkjör. Þetta er vandi sem raunar má segja að birtist bæði í myndakenningunni sem nefnd var hér að framan og í rannsóknum málvísindamannsins hjá Quine. Davidson vill leysa þennan vanda með því að við gerum fyrst grein fyrir þeim setningum sem hafa sanngildi, og skilgreinum sannkjör þeirra. Síðan eru aðrar setningar paraðar við þessar setningar í ljósi hinna einstöku setningarhluta sem þá hafa öðlast hlutverk sitt í greiningu okkar á sannkjörum. En jafnvel þó að við næðum þetta langt í því að smíða slíka kenningu um merkingu, verður í fljótu bragði ekki séð að við séum komin ýkja langt frá hugmynd þeirri sem Quine réðist á hér í upphafi. Við verðum á einhvern máta að þekkja tungumálið í heild sinni áður en við getum vænst þess að geta gert grein fyrir því hvernig hinir einstöku hlutar þess virka, og því er engan veginn augljóst að við séum komin fram hjá þeim aðfinnslum sem Quine hafði fram að færa gegn hversdagslegum skilningi okkar á tungumálinu; við getum enn ekki sagt að fullu skilið við þýðingabrigði í einhverri mynd.

Davidson talar um þrenns konar brigði sem birtast í kenningu Quines og sem ætla mætti að spryttu í kenningu um merkingu:

Í fyrsta lagi gæti verið um sannleiksbrigði að ræða; til gæti verið þýðingartilgáta (eða kenning um merkingu) fyrir tungumál, sem samræmdist öllu sem af reynsluathugn á málinu sprytti, sem telur ákveðna setningu sanna, og síðan önnur jafn aðgengileg kenning sem ekki telur þessa sömu setningu sanna. […]
Í öðru lagi gæti rökform verið óákvarðað; munur gæti verið á því hvað tvær fullnægjandi kenningar teldu vera einnefni, magnara eða umsagnir, eða jafnvel á sjálfri rökfræðinni sem byggt væri á.
Í þriðja lagi er mögulegt, jafnvel þó rökform og sanngildi væru óbrigðul, að tvær jafn aðgengilegar kenningar væru ólíkar hvað varðar tilvísun þá sem þær eignuðu sömu orðum eða setningarhlutum.16

Davidson vísar engum af þessum brigðum á bug. Af ýmsum ástæðum vill hann þó draga nokkuð úr umfangi þeirra tveggja fyrri. Til að mynda vill hann líta til fleiri þátta en áreitismerkingar setninga í glímu sinni við tungumálið, svo sem ákveðinna skoðana, langana, ætlana eða óska sem við komumst vart hjá að eigna þeim sem tala málið sem rannsaka á. Þá setur yfirtungumálið eða kerfið fyrir sannkjör, ákveðinn ramma fyrir túlkun á rökformi setninga, þannig að rökform yfirtungumálsins er á vissan máta lesið inn í tungumálið sem túlka á. Það eru hins vegar fyrst og fremst þriðju og síðustu brigðin sem varða okkur hér. Quine telur tilvísunina sem lesin er inn í tungumál, afstæða gagnvart þýðingartilgátu, eða jafnvel gagnvart verufræði sem síðan er afstæð gagnvart einhverju utan hennar – verufræðin sem Quine nefnir hér til sögunnar er sprottin af heild vísinda og heimsskoðunar og þýðingabrigðin spretta að endingu af því að þessi heild vísindanna er ekki og verður aldrei ákvörðuð í öllum atriðum.

Þarna vill Davidson fara nokkuð aðra leið. Hann er að vísu sammála því að tilvísun einstakra orða sé sem slík órannsakanleg, en lítur hins vegar ekki á það sem nokkra lausn á þeim vanda að gera hana afstæða gagnvart vali á verufræði, eða skýra hana á annan veg með verufræðilegu afstæði. Því segir hann:

Þegar hann [Quine] segir að við getum á merkingarbæran og ákvarðandi máta talað um kanínur og kanínuhluta, en þó einungis afstætt gagnvart tilvísunarramma, þá segir slíkt í raun engu meira en að þegar við tölum á þennan hátt þá hljótum við að vera að tala tungumál sem við kunnum. Það er hins vegar fulljóst að það eitt býður hvorki heim né leggur grunninn að því að við getum tiltekið nákvæmlega gagnvart hverju tal okkar er afstætt. Við getum eins og Quine segir, gert grein fyrir þessu afstæði ef við hörfum yfir í annað tungumál, en ef slíkt er nauðsynlegt einu sinni þá verður það alltaf svo, sem leiðir til vítarunu. Sé svo þá er verufræði ekki einasta „endanlega órannsakanleg“, heldur verður allt tal um tilvísun, hversu afstæð sem hún kann að vera, viðlíka merkingarsnautt og „Sókrates er hærri en“.17

En eigum við þá engra kosta völ til að gera grein fyrir tilvísun í tungumáli? Ef svo er hvernig má þá ætla að okkur takist að móta kenningu um merkingu? Ef við þannig vísum því frá að það dugi okkur að festa tilvísun með hreinum tilgátum (um orðalista) eða með því að hengja hana utaná hugmyndaheim manna eða verufræði, getum við þá leitað eitthvað annað? Sú lausn sem Davidson hefur hér fram að færa, hefur þegar verið nefnd. Hún er fólgin í því að gera ekki ráð fyrir að orð hafi merkingu (eða tilvísun) nema í þeim verufræðilega hlutlausa skilningi að þau auki á skipulegan hátt við merkingu setninga sem þau birtast í. Þannig verða hvort heldur er sanngildi setninga eða tilvísun einstakra setningarhluta afstæð gagnvart tungumálinu í heild.18 Þannig telur Davidson að greinargerð fyrir tilvísun sé ekki nauðsynlegur þáttur í kenningu um sannleika-í-tungumáli; hann telur unnt að móta merkingarfræðilega skilgreiningu á sannleika í tungumáli, sem sýni hvernig merking setninga velti á merkingu orða, án þess að í þeirri skilgreiningu sé að finna greinargerð fyrir tilvísun. Því er það að við leitum ekki í reynslunni staðfestingar á því að tilvísun orðs sé ein fremur en önnur, heldur reynum við að koma reynslunni í heild sinni heim og saman við merkingarkenning (sannleikskenningu) fyrir tungumálið. Þannig getum við ef við viljum tala um eitthvert afstæði í þessum efnum, sagt að merking sé afstæð gagnvart tungumálinu, við getum ekki, eins og kom fram hér að framan, gert grein fyrir merkingu hinna einstöku hluta tungumáls nema með því að gera grein fyrir merkingu tungumálsins alls. Tal um slíkt afstæði segir hins vegar næsta lítið sem ekki hefur alltaf blasað við. Davidson segir síðan:

Þessi hugmynd um það hvernig móta skuli merkingarkenningu er í grundvallaratriðum sprottin frá Quine. Það sem ég hef aukið við grunnhugmyndir Quines, er sú hugmynd að kenningin skuli taka sig mynd sannleikskenningar. Geri hún það, getum við á ný litið svo á að bygging setninga samanstandi af einnefnum, umsögnum og mögnurum, sem gegna venjulegu verufræðilegu hlutverki. Tilvísun fellur hins vegar fyrir borð. Hún gegnir engu nauðsynlegu hlutverki í að skýra tengslin milli tungumáls og veruleika.19

Lokaorð

Því fer fjarri að einhugur ríki um gildi kenninga þeirra Quines og Davidsons um merkingu. Menn eru jafnvel ekki á eitt sáttir um hvaða þýðingu þær myndu hafa ef þær stæðust, það er hvaða ályktanir bæri að draga af þeim. Af þeim kenningum sem hér hafa verið nefndar, má segja að einna meistur einhugur ríki um myndakenninguna og þá um það að sú kenning dugi okkur ekki til að gera grein fyrir merkingu í tungumáli.20

Við sáum hér að framan hverja útreið myndakenningin, sem ég leyfði mér að segja að svipaði til hversdagslegs skilnings á tungumáli og merkingu, fékk hjá Quine þegar við urðum vitni að því hvernig vandræði málvísindamanns Quines byrjuðu fyrir alvöru um leið og hann þurfti að grípa til einhvers sem svipaði til þessarar kenningar. Um leið var þó ljóst að málvísindamaðurinn hafði ekkert annað að grípa til. Eina leiðin sem honum virtist fær til að setja saman þýðingartilgátu sem dygði til að þýða allar setningar tungumálsins sem glímt var við, var að opna með einhverjum hætti leið að merkingu eða inntaki orða eða setningarhluta, og greina síðan hvernig merking setninga yrði til úr þessum smærri merkingareiningum. Þetta skref, sem segja má að sé á milli umtaksmerkingar setninga og inntaks orða og setningahluta, reyndist hins vegar ekki hægt að staðfesta með neinum áreiðanlegum hætti.

Ef við síðan lítum til þess sem Davidson segir, þá virðist jafnvel sem eitthvað svipað sé uppi á teningnum þar. Davidson reynir að gera grein fyrir því hvernig móta má merkingarkenningu sem við getum staðfest að einhverju marki, án þess að við þekkjum nákvæmlega ætlanir manna með orðum sínum, eða hvað þeim býr í hug. Þetta gerir hann með því að reyna að sýna fram á hvernig orðin öðlast merkingu sína af málinu sjálfu, málinu í heild sinni og notkun þess. Með því móti kemst hann hjá því að tala um tilvísun eða inntak einstakra orða, en við getum tæpast gert ráð fyrir öðru en að málið, í heild sinni, vísi á einhvern veg til heimsins. Og sannkjör setninga hljóta einnig að vera að einhverju leyti undir heiminum komin. Þannig er ósennilegt að okkur takist að gera grein fyrir sannkjörum allra setninga sem innihalda orðið „snjór“ án þess að nefna snjó til sögunnar. Tilvísunin sem hér er á ferðinni hefur vissulega tekið á sig nýjan búning, en að hún sé fallin fyrir borð er ekki eins ljóst. Ýmis önnur atriði valda því síðan að kenningu Davidsons virðist svipa til myndakenningarinnar. Hún þarfnast einhvers konar kerfis sem kveður á um hvernig raða má setningunum saman, eða hvernig ráða má í byggingu þeirra, og ef slíkt kerfi á að finnast getum við ekki leitað annað en til tungumálsins sjálfs og beitingar þess. Við verðum að reisa þetta kerfi á þeim venjum sem við þykjumst sjá að verki í tungumálinu.

Á endanum kann svo að fara að við getum sagt um myndakenninguna að til að við gætum gert endanlega grein fyrir hlutverki einstakra hluta myndanna, það er orðanna, yrðum við að þekkja tungumálið í heild sinni eða gera grein fyrir merkingu tungumálsins alls. Þegar þar er komið er stutt yfir í það að segja að orðin öðlist merkingu sína, ekki af því að þau vísi einmitt til þessa eða hins heldur af því að þetta sé einmitt það hlutverk sem þeim var ætlað að gegna í heild tungumálsins. Þar með værum við komin með kenningu sem í flestum atriðum væri samhljóða myndakenningunni – nema hvað hún gerði ekki grein fyrir tilvísun að neinu marki.

Hér er ég ekki að reyna að halda fram að kenningar þeirra Quines og Davidsons séu rangar, eða að þeir endi í sömu sporum og þeir hófu ferð sína. Að líkindum stendur það sem þeir halda fram, að myndakenningin eins og hún birtist hjá Wittgenstein, eða í hversdagslegum skilningi manna á því hvernig tungumálið virkar, sé fallin sem vísindaleg reynslukenning um tungumál og merkingu – það er næsta ljóst að ef takast á að setja fram kenningu um merkingu, sem uppfyllir kröfur þeirra, þá verðum við að losna við allt úr henni sem nefna má tilvísun eða inntak. En hugmyndin að baki myndakenningunni er fjarri því að vera fráleit – hún er fremur næsta augljós – og á endanum kann svo að fara að við komumst ekki ýkja langt frá henni hvað sem við reynum.

 

Tilvísanir

1. W.V. Quine, Philosophy of Logic, 2. útg. (Harvard University Press, Cambridge 1985 [1. útg. 1970]), s. 1.

2. Ensk þýðing Pears & McGuinnes (Routhledge & Kegan Paul, London 1981 [fyrst gefin út á þýsku 1921]). Háttur tilvísana fylgir hér málsgreinamerkingu Wittgensteins, eins og venja er.

3. W.V. Quine: „Ontological Relativity“ í Ontological Relativity and Other Essays (Columbia University Press, New York 1969), s. 27.

4. Sama rit, s. 27.

5. Sama rit, s. 29.

6. „The Problem of Meaning in Linguistics“ í From a Logical Point of View, 2. útg. (Harvard University Press, Cambridge 1980 [1. útg. 1953]), s. 47–8.

7. Nákvæma greinargerð fyrir því hvernig þessi rannsókn eða þýðing fer fram, er að finna í 2. kafla bókar Quines Word and Object. Það gerir hann einnig nákvæmari grein fyrir flokkun setninga eftir gerð þeirra og fleiri atriðum sem horft er framhjá hér.

8. „The Problem of Meaning in Linguistics“, s. 61.

9. Tvær kreddur raunhyggjumanna“, s. 50 og 51 í þessu hefti.

10. „The Problem of Meaning in Linguistics“, s. 63.

11. Davidson hefur skrifað fjölda ritgerða um merkingarkenningu sína, eða um það hvernig ætla mætti að hún yrði til. Tvær þessara ritgerða gefa nokkuð gott yfirlit yfir kenninguna, en það eru ritgerðirnar „Truth and Meaning“ og „Radical Interpretation“. Þessar ritgerðir er að finna í ritgerðasafni Davidsons Inquiries into Truth and Interpretation, og þar eru einnig aðrar ritgerðir sem taka nánar á stökum þáttum kenningarinnar.

12. Donald Davidson: „Truth and Meaning“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 22.

13. Sama rit, s. 23.

14. Sama rit, s. 25.

15. Davidson byggir í þessum efnum á grunni sem hann sækir til Alfreds Tarskis og kenninga hans um sannleikann. Verkið sem vinna þarf er að tiltaka fyrir hverja setningu p í tungumáli, samsvarandi setningu á forminu: ‘setningin p er sönn þá og því aðeins að s,’ þar sem s kveður á um sannkjör setningarinnar. Þetta er bersýnilega óvinnandi verk, þar sem fjöldi setninga í tungumáli, jafnvel þó aðeins séu teknar staðhæfingar sem hafa sanngildi, er ótakmarkaður. Því þarf að þrengja hringinn frekar og reyna að finna í málinu grunneiningar, orð og setningar, sem ætla má að séu takmarkaður að fjölda, og setja síðan saman kerfi sem gerir grein fyrir því hvernig má raða þeim grunneiningum saman þannig að útkoman verði sönn setning. – Greinargerð fyrir kenningu Tarskis má finna víða, t.a.m. í ritgerð hans „The Semantic Conception of Truth“ (Philosophy and Phenomenological Research, 4 (1944), s. 341–75); ritgerðin er endurprentuð m.a. í Semantics and the Philosophy of Language, ritstj. Leonard Linski). Útleggingar Davidsons má einnig finna í ýmsum ritgerðum hans, t.a.m. „In Defense of Convention T“ í Inquiries into Truth and Interpretation.

16. „Inscrutability of Reference“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 228.

17. Sama rit, s. 233–4.

18. Sama rit, s. 240.

19. „Reality without Reference“ í Inquiries into Truth and Interpretation, s. 225.

20. Vert er að nefna það hér að Wittgenstein, sem hér var nefndur til sögunnar sem málsvari myndakenningarinnar, hafnar kenningunni sjálfur í öllum síðari verkum sínum.

 

« Til baka

Kvenfrelsi

eftir Ónefndan

Það er sjaldan, að kvenfrelsi er nefnt á nafn í íslenskum blöðum, og þó kvenfólkið hér á landi sé dálítið farið að rísa upp úr dái menningarleysis, vankunnáttu og ófrelsis, þá er eigi þess að vænta, að jafnmikill áhugi sé vaknaður meðal kvenþjóðarinnar hér á landi fyrir almennum rétt­indum sem í öðrum löndum, þar sem menntun kvenna er fullkomnari. Vér verðum að játa, að menntunarmál kvenna hér á landi eru enn skammt á veg komin, þrátt fyrir það, þó einstakir menn hafi gengið vel fram í að beina því máli áleiðis, einkum með því að stofna kvennaskólana, sem vitanlega er ábótavant í mörgu, enn geta verið mjór mikils vísir. Vér megum vona, að Íslendingar láti eigi sitt eftir liggja, að veita kvenþjóðinni smámsaman meira jafnrétti enn nú á sér stað, og verði eigi eftirbátar nágrannaþjóðanna í þeirri grein, enda hefur alþingi með lögum um kosningar­rétt kvenna, dags. 12. maí 1882, þar sem sjálfstæðum konum er veittur kosningarréttur í sveita­málum og kirkjumálum, orðið á undan öllum nágrannaþjóðum vorum, og benda nú einkum Norðmenn á dæmi Íslendinga í þessu atriði og hvetja til að breyta eftir því. Vér ættum því síður að láta hér við staðar nema.

Kristindómurinn og skynsemin segir oss, að guð hafi skapað alla jafna sem bræður og systur og börn hins sama föður; að konum og körlum séu af náttúrunni veitt öll hin sömu réttindi til að leita sælu sinnar og fullkomnunar, álíka og blámenn og Indíánar eru jafnfrjálsbornir af náttúrunni sem hvítir menn. Og þó hafa menn verið að leitast við að sanna það af ritningunni, að konan eigi að vera manninum undirgefin; en það getur engan veginn samrýmst við anda kristindómsins. Það er ekki fyrr en á þessari öld, að almennt er farið að viðurkenna jöfnuð karla og kvenna. Ameríku-menn hafa orðið einna fyrstir til að viðurkenna réttindi kvenna og baráttan í Ameríku um afnám þrælahaldsins ruddi braut frelsishreyfingum kvenfólksins.

Ef vér lesum veraldarsöguna, sjáum vér, að kvenfólkið hefur á öllum öldum og í öllum löndum átt við harðan kost að búa, þótt ánauð þeirra hafi eigi verið alstaðar jafn óbærileg. En svo mikið er víst, að ánauð og vanvirða kvenfólksins hefur jafnan verið bölvun lands og lýða og steypt voldug­ustu þjóðum í glötunina. Hvað var það sem steypti Aþenuborg og Róm? Fremst af öllu það, að konur voru þjáðar og svívirtar og svo þrælahaldið; yfir höfuð ekkert annað en ófrelsi lýðsins.

Meðan meiri hluti mannkynsins er þannig sviptur réttindum og seldur í ánauð, þá er ekki sannra framfara að vænta. Nú er margt talað um framfarir í heiminum og svo þykir, sem öllu fleygi fram, enn þessar framfarir ganga flestar í sérstakar stefnur, og eru minni enn þær sýnast. Í sumum greinum eru framfarirnar mjög litlar, svo sem í öllu hinu siðferðislega. Enda liggur í augum uppi, að mannkynið eigi muni geta náð sönnum þroska í siðgæði meðan meiri hluti þess, kvenfólkið, sem að öllum jafnaði er ríkari að siðgæðum, er engu látinn ráða.

Það getur eigi verið aðalákvörðun kvenna, að giftast og þjóna manninum. Fyrst og fremst eru konur miklu fleiri en karlar, og svo eykst tala þeirra með ári hverju, er ekki gifta sig, svo að mikill þorri af þeim verður að vera ógiftar. Hagir ógiftra kvenna verða þó sjaldnast betri enn hinna sem giftar eru, enda ná þær að tiltölu eigi jafnháum aldri sem giftar konur.

Það var 1840, að allsherjarfundur var haldinn í Frímúrarahöllinni í Lundúnum til að ræða um af­nám þrælahalds um allan heim. Fundinn sótti fjöldi manna, og vestan um haf frá Ameríku komu konur á fundinn, er kjörnar höfðu verið til að mæta þar. Í byrjun fundarins varð þref mikið um það, hvort konunum skyldi leyfa sæti á fundinum, og einkum urðu prestarnir óðir og uppvægir og börðu við ritningunni á allar hliðar. Mælskumanni einum frá Ameríku, George Bradburn, ógnaði svo æði prestanna, að hann sagði: „Sannið þið af ritningunni, að kvenfólkið eigi að vera ófrjálst, að annar helmingur mannkynsins eigi að halda hinum í ánauð; ég held ég gæti þá ekki gert annað þarfara fyrir mannkynið, enn að brenna allar heimsins biblíur á báli.“ Síðan var gengið til atkvæða og féllu þau svo, að konunum var vikið af fundinum.

Tvær af konum þeim, er reknar voru af fundinum, hafa síðan orðið frægar fyrir framgöngu sína í framfaramálum kvenna í Ameríku. Þær heita Lucretia Mott og Elisabet Stanton. Þegar þær komu heim aftur til Ameríku, héldu þær fundi og stofnuðu félög til eflingar réttindum kvenna. Síðan hefur því máli fleygt áfram í Ameríku, og það er kunnugt, að konur njóta hvergi slíkra réttinda sem þar.

Englendingar hafa næst Ameríkumönnum látið sér hugað um að bæta kjör kvenna. Rit Stuart Mills hafa átt einna bestan og mestan þátt í því að vekja Englendinga til framkvæmda í þeim efnum. Þar er nú mjög barist fyrir kosningarrétti kvenna, og líður vart á löngu, áður konur ná þar kosningarrétti að lögum.1 Lög um fjárforræði (séreign) giftra kvenna á Englandi náðu gildi 1. janúar 1883. Helsta inntak þeirra er þetta: Sérhver gift kona hefur full fjárforráð út af fyrir sig á þeim eigum, sem hún á, eða kann að eignast, án þess maðurinn eigi þar nokkru um að ráða, eða eigi að skipta sér af samningum þeim, er hún gerir um eignir sínar. Þetta er hennar sérstök eign, en ekki mannsins. Á sama hátt getur hún eigi ráðið neinu um hans hlut af eignunum. Sameiginleg meðferð eignanna verður að vera komin undir vilja beggja þeirra.

Eftir því sem menntun kvenna fer vaxandi, má vænta þess, að þær nái meiri réttindum og hagur þeirra fari batnandi. Konur eru nú á dögum farnar að taka þátt í ýmsum störfum, sem karlmenn einir hafa áður fengist við. Þannig eru í Ameríku konur, sem flytja mál fyrir dómum og dæma mál; konur sem kenna á hinum æðri skólum, konur; sem standa fyrir stórum sjúkrahúsum; konur, sem eru verkvélameistarar, efnafræðingar, prestar; að vér ekki nefnum hinn mikla þorra af kvenlæknum. Við fjármála-stjórnardeildina í Washington eru 600 konur með góðum launum (7—8000 kr. um árið). Bókavarðarstörfum gegna konur allvíða við hin stærri bókasöfn. Í Danmörku og Svíþjóð gegnir fjöldi kvenna ýmsum póststörfum og hraðfréttastörfum. Bankastörfum gegna konur mjög víða. — Í flestum löndum er konum nú leyft að sækja fyrirlestra á háskólunum, og við suma háskóla hafa konur náð kennara-embættum. Það mun og vera almennt viðurkennt, að kvenmaðurinn hafi hér um bil hina sömu andlega hæfileika og karlmaðurinn, en hið sanna er, að vér þekkjum ekki kvenfólkið til neinnar hlítar meðan það er hulið í þokumökkvum ófrelsis og vanþekkingar. Þær hinar fáu konur, er náð hafa mikilli menntun, hafa flestar orðið frægar fyrir lærdóm og dugnað. Vér skulum aðeins nefna mad. Staël, frakkneska lærdómskonu, rithöfund og skáld, George Sand, fræga frakkneska skáldkonu og rithöfund, George Elliot, enska skáldsagn konu (heitir réttu nafni Mary Evans), Friðrikku Bremer, sænska skáldsagnakonu (sögur hennar eru þýddar á flest mál); Rósa Bonheur, frakknesk, er mjög fræg fyrir listamálverk, og svo má nefna hina frægu söngkonur, er enginn fær við jafnast, svo sem er Sarah Bernhardt, Jenny Lind og Adelina Patti og fl.; frægar konur í stærðafræði og eðlisfræði: frú Sommerville, ensk, Sofia Germain og Sofia Kowalevski (rússnesk, prófessor í stærðafræði við háskólann í Stokkhólmi); miss Martineau og mad. Chatelet, mjög frægar fyrir rit sín, o.fl.

Svisslendingar urðu fyrstir til að veita kvenfólki viðtöku á háskóla, enda er alþýðumenntun þar í landi, á mjög háu stigi. Skólarnir eru jafnan skrautlegustu og dýrustu húsin í sveitaþorpum á Svisslandi, og bændur hafa mesta dálæti á alþýðuskólunum og öllu því, sem þar er kennt. Það eru tuttugu ár síðan háskólinn í Zürich leyfði konum fyrst aðgöngu. Háskólarnir í Bern og Genf fylgdu sama dæmi, og til þessara svissnesku háskóla hefur sótt fjöldi kvenna úr öðrum löndum, einkum frá Rússlandi og Englandi.

Ítalir eru miklir framfaramenn í þessu máli. Árið 1875 var ítölskum konum leyft að sækja háskóla, og hafa þær síðan sótt þá rækilega, og margar konur hafa þar hlotið doktors-nafnbót. Fyrir skömmu hefur ítalskur kvenmaður fengið málaflutningsembætti: hún hafði áður tekið próf í lög­fræði. Hún er fyrsta kona í Evrópu, sem gegnir þeim starfa; í Ameríku er það altítt, svo sem áður er sagt.2

Vér höfum áður getið þess, að á Englandi séu kvennamálin á góðum framfaravegi. Þar sækir fjöldi kvenna háskólana, og þar er fjöldi af félögum, sem vinna að því, að efla menntun kvenna og bæta hagi þeirra á allan hátt. Vinnukonur hafa þar ýmis félög, er styðja að því, meðal annars, að jöfnuður sé gerður á kaupgjaldi karla og kvenna er vinna sömu eða líka vinnu, og reyna að sporna við því, að atvinnuleysingjar bjóði vinnu sína hver í kapp við annan fyrir lægsta kaup, enn af því hefur leitt að kvenfólki hefur verið goldið svívirðilega lítið fyrir vinnu sína. Vinnukonur á Englandi hafa oft gert samtök til að hætta vinnu um stundarsakir (verkföll), álíka og títt er meðal verkmanna, til þess að reyna að fá hærra kaup.

Frakkar eru komnir skemmra áleiðis í menningu kvenfólksins enn ætla mætti um svo frjálsa og framgjarna þjóð. Klerkarnir hafa þar verið mestu meinvættir og staðið menntuninni fyrir þroska og þrifum, og enn er það tíðast, að efnað fólk setur dætur sínar til mennta í klaustrunum. Enn klaustur­menntunin hefur aldrei verið talin holl, enda hefur þar verið lögð mest stund á, að kæfa alla frjálsa hugsun unglinganna og innræta þeim blindan guðrækniákafa og hlýðni við prestana. Eigi að síður þokar menntun kvenna talsvert áfram á Frakklandi hin síðustu ár, einkum í stórbæjunum; ganga konur þar á háskóla sem víðast annarstaðar, einkum til að nema lækningar.

Þjóðverjar eru eftirbátar annarra þjóða í menntun og menningu kvenna. Það vantar að vísu eigi, að nóg sé þar rætt og ritað um framfarir kvenfólksins, réttindi kvenna og menntun þeirra, enn það er ekki nema orðin tóm. Þar eru engir kvennaskólar, er teljandi sé, og eigi er konum heldur leyft að ganga á þýska háskóla. Hvergi meðal menntaðra þjóða er framfaramálum kvenna jafnilla tekið sem á Þýskalandi.

Á Rússlandi er einvaldsstjórn, svo sem kunnugt er og harla ófrjálsleg í flestum greinum. Enn rússneska stjórnin á þakkir skilið fyrir, hve mjög hún hefur aukið og eflt menntun kvenna. Konur ganga á ýmsa háskóla á Rússlandi, og auk þess er sérstakur háskóli í Pétursborg handa konum, er stunda lækningar. Sá skóli er svo vel sóttur, að sum ár hefur þar verið veitt viðtaka um 200 konum. Finnland lýtur Rússakeisara, enn þar hafa konur kosningarrétt í kirkjumálum og sveitamálum, álíka og hér á landi og í Svíþjóð. Á Finnlandi er og rætt og ritað um að veita konum kosningarrétt til þingsins (landdagen), og hafa æðstu umboðsmenn stjórnarinnar fylgt því máli af alefli. Hvað mundu íslenskir embættismenn og konungkjörnir þingmenn segja, ef veita ætti íslenskum konum almennan kosningarrétt? Vér treystum þeim verr enn embættismönnunum rússnesku.

Í Danmörku er menntun kvenna komin á góðan rekspöl. Með konungsboði 25. júní 1875 var konum leyft að sækja háskóla í Danmörku, og hefur það borið góðan árangur; lærðir kvenna­skólar eru þar einnig komnir á fót, og geta námskonur lært þar allt það, sem nauðsynlegt er til þess að þeim verði veitt viðtaka á háskólann. En litlar réttarbætur eru konum veittar í Danmörku, enn sem komið er, og eru Danir í þeirri grein eftirbátar margra annarra þjóða og þar hafa Íslendingar orðið þeim fremri.

Nú víkjum vér sögunni heim til Íslands. Það er satt, að Íslendingar hafa orðið fyrri til þess enn margar aðrar þjóðir að veita þeim konum, sem eru sjálfum sér ráðandi, kosningarrétt í kirkjumálum og héraðsmálum, og alþingi veitti konum einnig kjörgengi í bæjarstjórn Akureyrar, enn þessum lögum þingsins var synjað staðfestingar eingöngu vegna þessa atriðis. Þar á mót eru hér engin lög um sérstök fjárráð giftra kvenna í líking við ensk lög eða amerísk. Það er vonanda, að alþingi hafi héðan af þrek og djörfung til að halda uppi réttindum kvenfólksins og reyna að bæta smásaman hagi þeirra með nýjum lögum. Lög um sérstök fjárráð giftra kvenna teljum vér með mestu nauðsynjamálum. Að konan megi sjálf ráða eigum sínum á sama hátt og maður hennar ræður fé sínu, er svo eðlilegt, að óþarft er að færa rök fyrir því eða telja þá kosti, er því fylgja. Það er eitt, t.d., að tengdaforeldrar þurfa síður að óttast, að tengdasynir sói arfi dætra þeirra, ef þær ráða sjálfar fé sínu að lögum. Í öðru lagi getur bóndinn haft góðan hag af því, að skuldunautar geta eigi krafið konuna um skuldir hans. Í þriðja lagi er það óeðlilegt, að konan sé svipt að miklu leyti fjárráðum sínum um leið og hún giftist. Með því að giftur maður fær þannig ráð yfir eignum konu sinnar, gifta margir sig eingöngu til fjár, og er þá jafnan hætt við, að sambúð hjónanna verði eigi svo ástúðleg sem hún annars ætti að vera. Það er heldur eigi fýsilegt fyrir ungar stúlkur, sem eru í góðum efnum, að gifta sig og mega búast við því, að ráða þaðan af engu um eigur sínar. Eyðsluseggir og ráðleysingjar svalla og sólunda oft þeim eigum, sem þeir hafa fengið í hendur með konunum og steypa þeim í eymd og volæði. Flestir munu þekkja mörg dæmi til þessa, enn vér leyfum oss hér að segja frá einu dæmi úr Noregi, er sýnir hve lögunum er þar áfátt í þessum greinum álíka og hér. Haustið 1881 giftust hjón ein i Noregi. Konan var allvel fjáð, enn maðurinn var félaus. Vorið eftir strauk hann frá konunni og nam á brott með sér annars manns konu frillu taki. Leið svo nokkur tími, að ekki spurðist til þeirra. Kona strokumannsins keypti sér þá jarðarskika og fékk peninga að láni, svo að hún gat byggt sér hús og komið svo ár sinni fyrir borð, að hún gat allvel bjargast. Skömmu síðar náðist bóndi hennar og hjákona hans; var hann dæmdur í varðhald um níu mánuði og til að borga málskostnað og varðhaldskostnað beggja þeirra, svo og fatnað handa hjákonunni. Hvorugt þeirra hafði eyrisvirði handa á milli til að borga þetta fé. Var þá ekki annað fyrir hendi, enn að taka allan kostnaðinn fjárnámi hjá konu bóndans, þótt hún yrði þá öreigi. Hún kærði fjárkröfu þessa fyrir stórþinginu, og kvaðst hafa þolað nóga armæðu, þótt það bættist ekki ofan á, að hún yrði svipt aleigu sinni. Lögin heimtuðu, að konan léti aleigu sína til að borga kostnaðinn af því broti, sem maður hennar hafði framið gegn henni, eftir að hann hafði sóað miklu af eigum hennar. — Vér höfum ekki frétt, hver endir hefur orðið á máli þessu.

Ef vér lítum nú á hagi kvenna hér á landi, þá sjáum vér, að þeir eru ekki glæsilegir. Þó hefur margt breyst til batnaðar í þeim efnum hér á landi á síðustu árum. Áður voru það t.d. lög, að arfinum var ekki skipt jafnt milli samborinna systkina, heldur erfðu synirnir tvöfalt á við dæturnar. Þau óréttlátu lög eru nú fyrir löngu afnumin, enn kvenfólkið verður enn að þola margan ójöfnuð þessu líkan, bæði vegna óhaganlegra laga og ýmisrar fornrar óvenju.

Kvenfólkið hefur verið alið upp hér á landi í mestu fáfræði, og fæstir hafa hirt um, að mennta dætur sínar, gætandi ekki þess, að þekking og menntun er aðalskilyrði fyrir allri heill og hagsæld. Lengi þótti það óþarfi, að stúlkurnar lærðu að skrifa; það þótti nægja, að piltarnir kynni það að nafninu. Þessi hugsunarháttur er nú að mestu upprættur, sem betur fer, og kvennaskólarnir eiga eflaust góðan þátt í því, að efla menntun ungra kvenna hér á landi og meiri enn almennt er viðurkennt. Því að auk þess, sem þær stúlkur, er gengið hafa á kvennaskólana, hafa flestar lært eitthvað nýtilegt, eða komist eitthvað niður í nauðsynlegustu námsgreinum, þá hafa kvenna­skólarnir einnig eflt menntunarlöngun út í frá, vakið mannrænu foreldra og námfýsi ungra stúlkna. Vér ætlum ekki að dæma hér um kvennaskólana; þeir gera sjálfsagt mikið gagn, þótt þeim sé áfátt í ýmsu. Enn vér viljum víkja að öðru. Það hefur verið í ráði, að stofna alþýðuskóla í flestum sýslum landsins og alþingi hefur heitið þeim féstyrk. Með því nú að bókleg eða munnleg kennsla má vera hin sama bæði fyrir karla og konur, teljum vér æskilegt, að sýsluskólarnir veiti kennslu jafnt stúlkum sem piltum. Mætti einnig hafa kennslukonur á sýsluskólunum til að kenna stúlkum verklegar menntir og hannyrðir. Þá yrði minni þörf á eiginlegum kvennaskólum, og mætti þannig spara talsvert fé í stað þess að hafa sérstaka skóla fyrir stúlkur.

Það er algengt í Ameríku, að karlar og konur ganga á sama skóla. Ameríkumenn verja meira fé til menntunar 50 milj. manna en öll Evrópa ver til að mennta 350 miljónir. Ameríkumenn þykjast ekki vera þess megnugir, að hafa tvenna alþýðuskóla, eða bæði fyrir pilta og stúlkur, og þeir telja þar að auki marga kosti á sameiginlegri skólakennslu karla og kvenna. Almannaskólar í Ameríku veita öllum kauplausa kennslu, sem eigi eru yngri en 6 vetra eða eldri en 18 vetra; efsta deild þeirra samsvarar latínuskólum og gagnfræðaskólum í Evrópu; þar njóta piltar og stúlkur sömu kennslu og eru venjulega saman í bekkjunum án nokkurrar sundurgreiningar.

Kostir sameiginlegrar skólakennslu fyrir karla og konur eru margir og miklir. Á sama hátt og piltar og stúlkur upp alast saman á heimilunum, og læra hvort af öðru, á sama hátt á uppeldið að vera sameiginlegt í skólunum. Hvortveggja stefna að sama aðalmarki og miði, þarfnast sömu þekk­ingar og hlýða sömu siðferðislögum. Sumir hafa haldið, að sambúð karla og kvenna í skólum mundi spilla góðum siðum, enn reynslan hefur sýnt, að slíkar getsakir eru rakalausar. Heldur fer hið besta orð af skólunum í Ameríku, og einkum er lokið lofsorði á siðferði nemenda á háskólum þeim, þar sem karlar og konur eru saman að námi. Slíkir háskólar eru margir í Ameríku. En hitt er víst, að það er eigi einungis óþarft að meina ungu fólki, piltum og stúlkum, að vera saman, heldur er sú sundurgreining miklu framar skaðleg, og veldur því, að miklu hættara er en ella, að ímyndunaraflið og tilfinningarnar leiði unglingana í gönur. Á Frakklandi eru ungu stúlkurnar upp aldar í klausturklefum, og látnar forðast karlmenn sem heitan eld; en ekki þykja Frakkar siðlátari enn aðrar þjóðir. – Margir nýjustu stjórnfræðingar og framfaramenn berjast fyrir því, að almenn skólamenntun verði sameiginleg fyrir karla og konur. Um það hefur verið ritað í merkustu frakkneskum blöðum (t.d. Revue des deux Mondes) og enskum (t. d. Forthnightly Review) og frelsisblöðum á Norðurlöndum. Aug. Strindberg heldur því og fram í bók sinni „Giftas“, er upptæk var gerð.

Menntun kvenna hér á landi kemst eigi í gott horf fyrr en alþýðuskólar eru komnir á fót víða um land, þar sem bæði er kennt piltum og stúlkum. Þegar kvenfólkið menntast betur, verðu það færara til að leysa af höndum hið mikilvæga starf, að ala upp mannkynið, og hæfara til að hagnýta sér ný réttindi. Þegar kvenfólk hefur fengið jafnrétti á við karlmenn, lifir það sælla lífi enn nú.

Giftar konur eiga tíðum við engu betri hag að búa en vinnukonurnar, þó hvorki sé fátækt eða heilsuleysi um að kenna. Að réttu lagi ættu giftar konur ekki að ganga að stritvinnu, enda eru þær oft ófærar til þess, og hafa nóg annað að gera, svo sem að annast umsjá búsins og uppeldi barnanna.

Verst er farið með vinnukonurnar, og er sú meðferð þrældómi líkust. Vinnukonum er ekki goldið nema að fjórða parti eða þriðjungi á við vinnumenn, og væri hægt að sanna með reikningi, hve óréttlátt það er. Þó vinnukonan vinni sömu vinnu og jafnmikið og karlmaðurinn, er henni goldið meir en helmingi minna.

Hvergi hér á landi er jafn þrælslega farið með kvenfólk sem í Reykjavík. „Eyrar-vinnan“, sem svo er kölluð, er sannur þrældómur. Þar eru kvenmenn hafðir í erfiðustu stritvinnu, er einungis er hraustustu karlmanna, og þó þær beri allan daginn sömu þyngd og karlmennirnir, eða beri börur á móti karlmönnum, og vinni því alveg jafnt og þeir, eru þeir, sem vinnuna borga, svo þrællyndir, að þeir gjalda kvenmanninum helmingi minna enn karlmanninum. „Laugaferðirnar“ eru önnur þrælkun litlu betri. Vinnukonurnar eru reknar í laugar, hvernig sem veður er, og verða að bera þyngsla-bagga alla þá vegleysu,3 enda finnast þær stundum örmagna undir byrðunum, svo að þær geta enga björg sér veitt. Af þessari þrælkun hljóta þær að verða hrumar bæði á sál og líkama, og má þá nærri geta, að afkvæmi þeirra verða varla efnileg.

Það er vonandi, að þessi kvennaþrældómur í Reykjavík fari þverrandi, því að vér teljum það engar framfarir, þótt Reykvíkingar kæmu upp þrælastétt í landinu eða nýrri kynslóð af hálfvitum.

 

Aftanmálsgreinar

1. Það er merkilegt, að í fornöld tóku konur bæði þátt í löggjöf og dómum hjá Engil-Söxum. Á þjóðfundi, er haldinn var í Boghampstead á 7. öld, voru fleiri konur enn karlar, og rituðu þær undir lög þau, er þar voru sam­þykkt. Á dögum Hinriks 3. sátu fjórar konur í parlamentinu og á dögum Játvarðar 1. voru þær tíu. Á 13. öld sat og kona í æðsta dómi ríkisins. Það var eigi fyrri enn 1831, að konur voru með lögum útilokaðar frá parla­mentinu.

2. Það gegnir furðu, hve ítalskar konur eru framgjarnar og námfúsar, og svo virðist, sem kvennamenning liggi þar í landi. Á elleftu, tólftu og þrettándu öld kenndu konur við háskóla á Ítalíu, og um miðja öldina sem leið kenndi ein kona líkskurðarfræði við háskólann i Bologna í forföllum manns síns. Það er því reyndar engin nýjung að konur sé háskólakennarar.

3. Flestir munu nú finna þörf til, að vegir verði lagðir til lauganna, og er vonandi, að þess verði eigi langt að bíða, og er þess enn meiri þörf, er sundkennsla er komin á í laugunum.