Færslusöfn

Borgin sem félagsfræðilegt viðfangsefni

eftir Jón Rúnar Sveinsson, félagsfræðing á Borgarfræðasetri

Erindi flutt á málþingi í félagsfræði í tilefni af 60 ára afmæli Þorbjarnar Broddasonar, 2. maí 2003

Borgin á sér langa hefð sem félagsfræðilegt rannsóknarefni og tengist raunar sterklega sjálfri tilurð félagsfræðinnar sem sjálfstæðrar fræðigreinar. Tengipunktinn var að finna í hinni uppvaxandi bandarísku stórborg Chicago, sem á fyrstu áratugum 20. aldar átti eftir að verða helsta tilraunastofa rannsókna í bæði borgarfræðum og félagsfræði.

Árið 1892 var félagsfræðideild Chicago-háskóla stofnuð, sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Fyrsti yfirmaður deildarinnar var Albion Small, einn helsti frumkvöðull félagsfræðinnar í Bandaríkjunum, sem t.d. var stofnandi American Journal of Sociology og ritstjóri þess tímarits fyrstu þrjá áratugina. Meðal samstarfsmanna Smalls og síðar arftaka mátti finna menn eins og þá Robert E. Park og Ernest W. Burgess, sem taldir eru helstu frumkvöðlar borgarfélagsfræðinnar sem sjálfstæðrar rannsóknarhefðar.

Borgarfræði og borgarfélagsfræði eru nátengdar akademískar iðjur, borgarfræði í víðum skilningi ná yfir breitt og almennt svið borgarrannsókna þar sem fjölmargar fræðigreinar mætast; má þar t.d. nefna hagfræði, stjórnmálafræði, skipulagsfræði og borgarlandafræði. Borgarfélagsfræðin leggur í púkkið kenningabanka sína og aðferðafræðilegt vopnabúr, sem raunar að ekki svo litlu leyti er einmitt mótað á frumkvöðlaskeiði Chicago-skólans á fyrstu áratugum síðustu aldar. Félagsfræðin hefur frá upphafi verið öðrum greinum fyrirferðarmeiri innan borgarfræða og er svo enn. Borgarfélagsfræðin sem sérstök rannsóknarhefð hefur þó látið undan síga í seinni tíð, svo sem ég mun víkja nánar að hér á eftir.

Borgarfélagsfræðin festir rætur

Sú þrenning nítjándu aldar hugsuða – þeir Karl Marx , Émile Durkheim og Max Weber – sem taldir eru mikilvægustu frumkvöðlar félagsfræðilegrar hugsunar, voru ekkert sérstaklega uppteknir af borgum og borgarlífi. Meginviðfangsefni þeirra, stéttabaráttan hjá Marx, verkaskiptingin hjá Durkheim og skynsemisvæðingin hjá Weber, voru vissulega allt saman fyrirbæri er birtust fyrst og fremst í borgum, en borgin sjálf varð samt engum þeirra meiri háttar viðfangsefni. Max Weber er einna helst undantekning frá þessu, samanber frægt rit hans er frummálinu nefnist „Die Stadt“. Þar fjallar Weber þó aðeins um borgir fyrir tíma iðnbyltingarinnar og þýðingu þeirra fyrir tilurð hins kapítalíska hugarfars. Marx minnist einhvers staðar á „fíflsku sveitalífsins“ en það var hins vegar miklu frekar hinn fræðilegi litli bróðir hans, Friedrich Engels, sem lýsti örbirgð borganna í frægu riti sínu um kjör bresks verkalýðs.

Chicago var áratugina kringum árið 1900 sannkölluð deigla félagslegra hræringa. Þangað streymdu bæði innflytjendur frá Evrópu og hörundsdökkt sveitafólk frá Suðurríkjum Bandaríkjanna. Ný alþýðutónlistarhefð spratt af hinum síðarnefndu fólksflutningunum, hinn harði og hrái Chicago-blues. Minna má á, ekki síst á þessum tíma árs, að átök verkalýðs og lögreglu í Chicago þann 1. maí árið 1890 tengjast upphafi þess dags sem baráttudags hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar. Borgarfélagsfræðingar Chicago skólans fengu því heldur betur upp í hendurnar verðug rannsóknarverkefni til þess að glíma við og félagsfræðin öðlaðist á mótunarárunum í Chicago margar af sínum fyrstu eldskírnum í því að skrásetja, greina og skilja hinn fjölbreytilega samfélagslega veruleika mannsins.

Meðal þess sem þeir Chicago-menn lögðu grunn að voru fyrstu greiningarnar á félagslegu landslagi borga. Þekktast er fræðilegt líkan Ernest Burgess á félaglegri svæðaskiptingu Chicago á þriðja áratugnum, sem byggðist að nokkru á hliðstæðum sem hann taldi sig finna við mannvistfræði, human ecology, og dreifingu dýra og plantna. Þessar rannsóknir Burgess eru upphaf nákvæmra tölfræðilegar borgarlýsinga sem enn eru fyrirferðarmiklar innan borgarfræða. Á sama tímaskeiði varð einnig til í Chicago gerólík rannsóknarhefð sem notfærði sér mannfræðilegar og þjóðfræðilegar rannsóknaraðferðir við að rannsaka glæpagengi meðal innflytjenda, svo og lífsmáta utangarðsfólks.

Þekktasta nafnið meðal þeirra fræðimanna sem kenndir eru við borgarfélagsfræði Chicago-skólans er þó án efa Louis Wirth, sem á efri árum sínum, árið 1949, hlotnaðist sá heiður að vera kosinn fyrsti formaður Alþjóðasambands félagsfræðinga. Wirth ritaði á starfsævi sinni margt og mikið um eðli og inntak þess að búa í borg, en það er þó grein hans „Urbanism as a Way of Life“ sem fyrst og fremst heldur nafni hans á lofti. Greinin birtist í American Journal of Sociology árið 1938 og er einhver áhrifamesta tímaritsgrein sem nokkru sinni hefur birst eftir félagsfræðing.

Í greininni veltir Wirth fyrir sér hvað einkenni sérstaklega lífsmáta fólks í borgum og þar með borgarmenninguna. Meginröksemdafærsla Wirths var sú að borgarlífið markaðist af einangrun og óskipulagi sem stafaði af því hve borgir einkenndust af mikilli stærð, þéttleika og margbreytileika. Líf í borg er samkvæmt Wirth í grundvallaratriðum ólíkt sveitalífi og borgin þar með orðin að fullgildu viðfangsefni á sínum eigin forsendum. Efling borgarlífs sem lífsmáta hlyti að brjóta niður fyrri fastmótað félagsmynstur og gildakerfi hins kyrrstæða dreifbýlissamfélags.

Ýmsir félagsfræðingar gerðu athugsemdir við eða andmæltu sjónarmiðum Wirths um borgir sem eðlisólíkar dreifðari búsetuformum. Sýnt var fram á tilveru virkra og lifandi samfélaga innan marka stórborga og í dreifbýlinu fundust fjölmörg dæmi um sundurlyndi og félagslega einangrun. Nefna má í þessu sambandi rannsóknir Herberts Gans á ítölskum innflytjendum í West End í Boston, sem hann greindi frá í víðfrægri bók sinni „The Urban Villagers“ og rannsóknir Bretanna Michaels Young og Peters Willmotts á sveitasælukenndu lífi íbúanna í fátækrahverfinu Bethnal Green í East End, nokkurn veginn inni í miðri Lundúnaborg.

Einnig í Bretlandi þróaðist snemma öflug félagsfræðileg borgarrannsóknarhefð, sem átti upphaf sitt í víðtækum rannsóknum manna eins og Charles Booth og Seebohn Rowntree á fátækt í borgum. Segja má að á meðan bandarískar borgarfélagsfræðirannsóknir snérust fyrst og fremst um félagslega upplausn og ólíka stöðu mismunandi innflytjendahópa og kynþátta, þá var fátækt og stéttaskipting aðal viðfangsefni breskrar borgarfélagsfræði. Uppbygging rannsóknarstofnana í Bretlandi á sviði borgar- og húsnæðisrannsókna átti sér ekki stað fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld. Bretar eru í dag leiðandi meðal Evrópuþjóða í borgarrannsóknum, reyndar koma Hollendingar þar svo fast á eftir.

Er borgin sjálfstætt fræðilegt viðfang?

Eitt helsta deilumál borgarfélagsfræðinga snýst um það hvort borgin sem slík geti staðið út af fyrir sig sem fræðilegt viðfangsefni. Rökin gegn því eru nokkuð augljós; borgir á vorum dögum eru orðnar til vegna hinnar hnattrænu framþróunar iðnvæðingar og kapítalisma og „hið borgræna“ sem sjálfstætt rannsóknarefni hefur tilhneigingu til þess að leystast upp og hverfa þegar reynt er að leggja það á krufningarborð sundurgreinandi fræðilegra vinnubragða.

Sú fræðahefð sem skilgreinir borgina og hið borgræna sem sjálfstætt viðfang er eigi að síður mjög sterk, einkum þó innan þeirra fræðigreina sem hafa rýmið sem sitt höfuðviðfangsefni, þ.e. byggingarlist og skipulagsfræði. Innan borgarfélagsfræðinnar má t.d. flokka Louis Wirth og aðra þá sem fjallað hafa um sjálfstæða borgarmenningu til þessarar hefðar.

Öflugasti kenningasmiður hins „borgræna“ sem sjálfstæðs fyrirbæris var hinn franski marxíski heimspekingur Henri Lefebvre. Lefebvre var feikilega frumlegur kenningasmiður og einn fremsti boðberi hins húmaníska marxisma í Evrópu á 20. öld. Lefevbre þróaði sína eigin útgáfa af díalektískri efnishyggju marxismans og var fyrir vikið rekinn úr franska kommúnistaflokknum. Fyrir Lefebvre er borgin það mikilvæg að þegar sleppir bæði landbúnaðarstigi og iðnaðarstigi mannkynsögunnar tekur við hið borgræna stig, sem er í rauninni ekkert annað en endapunktur mannkynssögunar eftir sigur sósíalismans. Önnur grunnhugmynd Lefebvres er hugmynd hans um framleiðslu borgarrýmisins. Meðal síðari tíma fræðimanna sem þróað hafa áfram rýmishugmyndir Lefebvres innan hugtakaramma póstmódernismans má nefna landfræðingana David Harvey og Edward M. Soja.

Henri Lefebvre sem fæddist árið 1901, var samtíðarmaður manna eins og Jean-Paul Sartre og Raymond Aron. Lefebvre lenti á sjöunda áratugnum, kominn á efri ár, upp á kant við hina þá ungu og upprennandi 68-kynslóð marxískra fræðimanna. Hinum nýstrúktúralísku marxísku lærisveinum Louis Althussers hugnuðust ekki kenningar Lefebvre og fór fyrir þeim ungur spænskur félagsfræðingur, Manuel Castells, sem var á flótta í París undan leynilögreglu Fransicos Francos. Á hinu kenningarlega sviði beitti Castells í sínu fyrsta brautryðjendariti, Spurningunni um hið borgræna (La question urbaine) frá árinu 1972 fyrir sig kenningarramma Althussers og komst að þeirri niðurstöðu að borgin gæti ekki staðið undir því að kallast raunverulegt vísindalegt viðfang. Allir sem héldu öðru fram væru fastir í óvísindalegum og huglægum húmanisma.

Hin nýja borgarfélagsfræði

Auk þess að gagnrýna kenningar Lefebvres taldi Castells, vissulega með talsverðum rétti, að þáverandi borgarfélagsfræði væri orðin það stöðnuð að stokka þyrfti spilin upp á nýtt. Þegar La question urbaine kom út á ensku árið 1977 olli hún miklum öldugangi í hinum enskumælandi borgarfræðaheimi og um svipað leyti varð til nýr og róttækur skóli, „Nýja borgarfélagsfræðin“ þar sem hinn „althusseríski nýstrúkturalismi“ Castells var sá kenningarlegi öxull sem allt hverfðist um. Hin gamla borgarfélagsfræði með upphaf í Chicago-skólanum var eftir þetta eins og hver annar „gamall sorrí Gráni“ og kominn á elliheimili úreltra rannsóknarhefða.

Á níunda áratugnum störfuðu tugir alþjóðlega þekktra fræðimanna innan kenningaskóla hinnar nýju borgarfélagsfræði. Nokkrir leiðandi fræðimenn hins nýja skóla stofnuðu árið 1977 tímaritið International Journal of Urban and Regional Research, sem fyrstu starfsárin birti jöfnum höndum greinar á ensku og frönsku. Þetta tímarit er í dag eitt það öflugasta á sviði borgarfræða í heiminum, þó hinar nýmarxísku áherslur frumbýlingsáranna séu löngu horfnar.

Manuel Castells taldi ómögulegt að festa hendur á hinu borgræna, en vildi í staðinn líta á borgina sem samneyslueiningu þar sem færi fram nauðsynleg endurframleiðsla hins kapítalíska samfélags. Samneyslan væri hið raunverulega vísindalega viðfang sem skort hefði í öllu tali fyrri fræðimanna um hið „borgræna“. Á sviði samneyslunnar sá hann hinar raunverulegu átakalínur framtíðarinnar, frekar en á leiksviði stéttabaráttunnar og framleiðslunnar í hefðbundnum marxískum skilningi. Í stað verkalýðsstéttarinnar horfði Castells til margvíslegara nýrra félagshreyfinga, íbúasamtaka, umhverfissinna, kvennahreyfinga, hreyfinga samkynhneigðra o.s.frv. Castells hóf á árunum kringum 1980 rannsóknir á nýjum félagshreyfingum og fetaði þar í raun í fótspor læriföður síns í París, hins virta franska félagsfræðings Alains Touraine.

Árið 1979 tók Manuel Castells við prófessorsstöðu við Californíuháskóla í Berkeley. Návígi hans þar við nýjustu hræringar í tölvutækni og þá þróun sem 15 árum seinna fæddi af sér Alnetið átti eftir að leiða hann inn á braut sem í dag hefur gert hann að einum helsta kenningasmið heims um hina nýju upplýsingabyltingu vorra daga. Straumhvörf urðu í afstöðu Castells eftir vesturförina og birtust þau skýrt í bók hans The City and the Grassroots árið 1983 þar sem hann gengur svo langt að tala um „the glorious ruins og the Marxist tradition“. Árið 1989 sendir hann svo frá sér The Informational City, þar sem borgin er enn í mikilvægu hlutverki, en með hinu fræga þriggja binda verki sínu er út kom árin 1996-1998 um upplýsingaöldina (The Information Age) er hann kominn á kenningalegan sporbaug sem hefur veröldina alla að viðfangi og sérstakar borgarfræðilegar áherslur vart lengur fyrir hendi.

Lokaorð

Nýju borgarfélagsfræðinnar biðu í raun svipuð örlög og þeirrar gömlu frá tímum Chigaco skólans, því á síðustu árum nýliðinnar aldar var eins og skrúfað væri fyrir þennan áður öfluga hugmyndastraum innan félagsvísindanna. Þeir fræðimenn sem töldust til stefnunnar hafa þó margir hverjir lagt hina gjörvustu hönd á rannsóknir á sviði borgar-, skipulags- og húsnæðismála. Félagsfræðingar starfa engu síður en áður að margs konar rannsóknum á málefnum borga, en borgarfélagsfræði sem slík heyrist nú sjaldnar en fyrr nefnd sem ein af undirgreinum félagsfræðinnar.

Í staðinn hefur áherslan færst yfir í borgarfræði í víðtækari merkingu og við Íslendingar höfum nú, líklega síðastir allra Evrópuþjóða, hafið skipulegar rannsóknir innan vébanda Borgarfræðaseturs, þar sem sá er hér mælir starfar ásamt þremur öðrum félagsfræðingum, meðal samtals átta starfsmanna. Viðfangsefni Borgarfræðaseturs eru um sumt hefðbundin viðfangsefni borgarfélagsfræðinnar, svo sem félagslegt landslag borgarinnar og tilvist fátæktar í borgarsamfélaginu, en sömuleiðis gætir nýrra rannsóknaráherslna sem t.d. snerta stöðu Reykjavíkur í alþjóðlegri samkeppni borga á tímum ört vaxandi hnattvæðingar og áhrif hins vaxandi fjölmenningarsamfélags á menningu og mannlíf í borginni.

« Til baka