eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur
„Allstaðar er sá nýtur, sem nokkuð kann“
Nú á þessari mennta og framfaraöld hefur verið rætt og ritað um mörg mikilvæg málefni, sem til framfara og þjóðþrifa heyra, og því verður eigi neitað, að margir hafa ritað vel. En því meiri furðu gegnir það, hve fáir hafa fundið köllun hjá sér til að rita um það málefni, sem þó má efalaust kallast eitt af hinum mikilvægustu, en það er um menntun og réttindi kvenna. Og þó getur naumast neinum blandast hugur um, að þetta mál má heita grundvöllur allrar sannrar menntunar og framfara. Að vísu hafa einstöku athugasemdir um þetta komið fram í dagblöðum vorum, og einstöku hinna yngri mennta og framfara manna vorra hafa drepið á, hvers réttar konum bæri að njóta gagnvart þeim. En það virðist sem þessar kenningar eigi ekki vinsældum að fagna, fyrst þær deyja svo skjótlega án þess að skilja svo mikið sem bergmál eftir í næstu blöðum.
Það eru annars mikil undur hve kvennaskólar þeir sem nú eru komnir á fót hafa átt örðugt uppdráttar. Í stað þess, sem líklegt hefði verið, að allur þorri manna hefði veitt þeim góða viðtöku og gjört sitt til að styrkja þá, þar sem þeir miðuðu til almennings nota, megum vér játa, að flestir hafa verið þeim andstæðir. Og þó hljóta allir að játa, að menntun kvenna er aðalskilyrði fyrir allri sannri velgengni í heimilislífinu, og þannig eitt af þeim málum, sem framfarir þjóðfélagsins eru að miklu leyti komnar undir.
Það er næsta eftirtektavert, hversu karlmenn halda öllu frelsi kvenna og réttindum í helgreipum, og það virðist, sem þeir álíti það mikilvæg einkaréttindi, helguð af fornri venju, að vera allt gagnvart þeim, en að þær megi ekkert vera. Að þetta sé rétt og eðlilegt þykjast þeir sanna með þeim ritningargreinum, að konan sé ekki nema eitt „rif úr síðu mannsins“, og eigi því aldrei að verða tiltölulega meira, og að „maðurinn sé konunnar höfuð“. Síðara hluta þessarar margendurteknu setningar sleppa þeir. Annaðhvort nær minni þeirra ekki lengra, eða þeim þykir hann ekki þess verður að haldast á lofti. Það er nú eðlilegt, að mönnum þeim þyki allmikið koma til þessara orða (þótt þeir í öðrum greinum séu hvorki biblíufróðir né trúaðir á hana), sem ekki hafa yfirgripsmeiri skilning enn það, að þykja menntun og framfarir kvenna standa sér fyrir þrifum, og ekki meiri drengskap en svo, að vilja byggja upphefð og framfarir sínar á niðurlægingu og ófrelsi kvenna. En þrátt fyrir öll rök sín og allar sínar mótbárur, geta þeir þó aldrei fært gildar ástæður fyrir þeirri skoðun sinni, að konur séu óhæfari til hvers konar framfara og menntunar en karlar, eða að þær eigi minni rétt og heimtingu til þess en þeir. Og meira að segja, þeir geta ekki neitað því, að nú, einmitt nú á þessari framfara og frelsis öld eru konur hér langtum harðara haldnar í ýmsu tilliti en á dögum forfeðra vorra, sem þó stóðu óneitanlega nútíðarmönnum langt á baki í mörgu því er til framfara horfir. Vér þurfum ekki annað en að lesa sögurnar til þess að sjá, að þá hafa konur almennt ráðið meira með mönnum sínum og verið sjálfstæðari en nú tíðkast. Hvað mundi t.a.m. nú vera sagt um annað eins tiltæki og Þorbjargar digru, er hún leysti Gretti Ásmundsson, sem þá var tekinn eftir vilja Vermundar bónda hennar? Og hver getur þá borið móti því, að hún færði ljós og viturleg rök fyrir tiltæki sínu? Og munu menn ekki hljóta að játa, að hún sæi lengra fram í veginn en Vermundur sá í það skipti; eða hver getur neitað því, að honum var fremur sómi en vanvirða að eiga þá konu, sem hafði bæði vit, þor og vilja til að taka upp slíkt ráð að honum forspurðum? Eða mundi Guðrún Ósvífursdóttir hafa kunnað því, að vera að engu talin, hún sem lét sér ekki vaxa í augum að standa upp af brúðarbekknum til að verja þann mann, sem hún hafði heitið ásjá, fyrir Þorkeli, sem þá var að drekka brúðkaup sitt til hennar? Ekki lítur heldur út fyrir að hún hafi verið talin minna verð í föðurgarði, þegar Kjartan taldi það standa fyrir utanför hennar, að faðir hennar væri gamall, og bræður hennar ungir og óráðnir, sem ekki mættu missa forsjá hennar. Og sjáum vér ekki hinn sama anda, sjálfstæðis og frelsis anda, er vér hyggjum að Auði djúpauðgu, Þorgerði Egilsdóttur, Bergþóru Skarphéðinsdóttur og ótal fleirum?
Þeir sem fyrst og fremst hafa réttindi kvenna í höndum sér eru feður þeirra. Það er skylda þeirra, að bera jafna umhyggju fyrir velferð barna sinna, dætra sem sona. Sólon, hinn vitri löggjafi Aþenuborgarmanna, ákvað, að sá faðir, sem ekki hefði kennt syni sínum neina iðn ætti ekki heimting á umsjón sonarins í elli sinni. En hvernig verður sagt, að sá faðir sjái barni sínu borgið í því tilliti, sem neytir föðurréttinda sinna til að neyða barnið að leggja eitthvað það fyrir sig, sem það er óhæft til, og sem það hefur óbeit á, án þess að hafa tillit til vilja þess og hæfilegleika? Með því móti gjörir hann það að andlegum umskiptingi, og það barn, sem hafði hæfilegleika og löngun til að verða nýtur limur í þjóðfélaginu, ef kraftar þess og vilji hefðu verið rétt notaðir, verður nú oft, ef ekki öðrum til þyngsla og hneykslis, þá samt sjálfu sér til byrði og öðrum gagnslaust. Þótt þetta muni nú ekki þykja glæsileg meðferð, eru það þó kjör kvenna, gangi hæfileikar þeirra og vilji í aðra átt en að óskum foreldranna. Þótt margir menn séu góðir og umhyggjusamir feður, eru þeir þó ekki almennt komnir svo langt áleiðis, að þeir geti hafið sig yfir forna venju og hleypidóma. Dæturnar eru fyrirfram ákvarðaðar af þeim til að vera stoð og stytta móðurinnar í hússtjórninni, og þetta er í sjálfu sér rétt og eðlilegt. En nú kann stundum að bera svo við, að unglingsstúlkan hafi óbeit og leiðindi á bústörfum, en sterka löngun og góða hæfilegleika til einhvers annars. Ef til vill er óbeit hennar á venjulegum kvenstörfum sprottin af því, að hana vantar menntun og þekkingu til að sjá, hve nauðsynleg þau geta verið, og fengi hún að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, mætti heldur vænta að hún mundi síðar með aldri og þekkingu verða hæfari til hússtjórnar, og vinna með ljúfara geði að bústörfum, en ef það er ekki, hvern rétt eiga þá vandamenn hennar til að meina henni að ganga þann veg, sem hún er hæfust til, og liggur þeim þá ekki nær að beina veg hennar, svo að hún geti notað hæfilegleika sína og „spilað á sínar spýtur“, enn að leggja stein í veg fyrir hana, og verða þannig orsök í ógæfu og auðnuleysi hennar, sem svo oft hefir orðið hlutskipti bæði karla þeirra og kvenna sem ekki hafa fylgt hinni upphaflegu löngun sinni og hæfilegleikum?
En til þess að dæturnar geti orðið nýtir limir þjóðfélagsins, verða foreldrar og vandamenn þeirra að taka jafnt tillit til vilja þeirra og hæfileika sem sonanna. Þeir verða að hætta að gjöra þennan mikla mun á mey og manni. Þeir verða að láta sér hugfast, að ábyrgðin hvílir að miklu leyti á þeim, hvaða stefnu og hugsunarhátt börnin hafa. Eins og það er hin fyrsta skylda foreldranna, að vekja tilfinningu hjá börnunum fyrir öllu fögru, sönnu og góðu, eins er það helg skylda þeirra að vekja þá sjálfstæðis og sóma tilfinningu hjá þeim, að ekki hæfi neinum að liggja á liði sínu eða þurfa jafnan styrktar annarra við. Hafi dæturnar ekki í fyrstu ljósa hugmynd um, hversu ósæmilegt það sé að ungar stúlkur geti ekki vikið sér við án hjálpar bræðra þeirra eða annarra manna, þarf að glæða hana. Þær þurfa að finna, að hið góða og gamla orðtæki: „ef jeg finn ekki veg, ryð jeg mjer sjálfur braut“, á eins við þær og bræður þeirra, – að finna hversu atorka og einbeittur vilji geta komið miklu til leiðar. Þær verða að sjá, hversu tildur og tepruskapur er hégómlegt og einkenni menntunarskorts og lágra hugsana, en hin mesta og varanlegasta fegurð sé göfugur og atorkusamur vilji og viðleitni að starfa sér og öðrum til gagns. Það væri sannlega nauðsynlegt, að menn vendu dætur sínar meira við utanhúss stjórn og almenn málefni en nú gjörist. Enginn skynsamur maður mun geta látið sér þykja nokkur kona afneita hinu kvenlega eðli sínu og hæfilegleikum, þótt hún vilji vera svo sjálfstæð og öðrum óháð, að hún geti tekið jafnan þátt í verkstjórn utanhúss og almennum viðskiptum sem innanhúss-vinnu, og þannig komist hjá að sjá allt með annarra augum, — þótt hún vilji heldur styðjast við þekkingu og reynslu sjálfrar sinnar en eiga undir viti og góðvilja annarra. Oss finnst auðséð að fengi konur fjölbreyttari og praktískari menntun, mundu þær verða sjálfstæðari og færari að hafa sjálfar fjár síns forráð en hingað til hefur átt sér stað. Gefi menn gætur að uppeldi kvenna og beri það saman við uppeldi drengja, er fljótt auðséð, að aðalorsök framkvæmdarleysis kvenna og ódugnaðar í fjárhagslegu tilliti er fólgin í því, að þeim er aldrei kennt að hugsa, né sýnt hið eðlilega samband orsaka og afleiðinga. Af því leiðir, að þeim er oft brugðið um fljótfærni og fyrirhyggju skort, og að þær byggi ekki ráð sín eða ásetning á gildum rökum, og má oft játa, að slík ásökun er ekki með öllu ástæðulaus. Væri nú uppeldi þeirra hagað þannig, að þær fengju sem fjölbreyttasta þekkingu á öllu, sem að búnaði lýtur, mundu færri feður kvarta um, að dætur sínar yrðu þyngstir ómagar með fullorðins aldrinum.
Það er að vísu erfitt fyrir stúlkur þær að komast áfram, sem eru frábitnar búskap en vilja nema bóklegar greinar til hlítar, á meðan réttindi þeirra eru svo skorðuð, að þær geta ekki fengið aðgang að almennum námsstofnunum, og því síður að embættum og atvinnuvegum þeim, sem þó gætu átt eins við hæfi kvenna sem karla, og meðan er þannig komið í veg fyrir að þær geti nokkru sinni haft verulegt gagn af námi sínu, en það er einmitt þessi grein, sem þarf lagfæringar við, og vér vonum, að menn verði innan skamms tíma komnir svo langt áleiðis, að þeir sjái hver hnekkir það er í framförum almennings, að meira en helmingur hans taki engan þátt í málefnum þeim, sem snerta gagn hans og hagsmuni.
En að hinu leytinu er það skylda kvenna, að gjöra allt hvað í þeirra valdi stendur til að sýna, að það sé meira en orðagjálfur eitt, að þær hafi hæfilegleika og vilja til að vera jafningjar bræðra sinna. Þær verða að sýna í verkinu, að þær séu jafnfærar til þess að taka þátt í alvöru lífsins sem skemmtunum þess. Þeim hefur oft verið borið óþarft tepur og hégómaskapur og það ekki ófyrirsynju. En þessir ókostir eru að nokkru leyti afleiðingar þess menntunarskorts, sem hefur oft átt sér stað hjá þeim, og þess hve lítið far vandamenn þeirra hafa gjört sér um, að sýna þeim hina alvarlegu og þýðingarmiklu ákvörðun þeirra. Konurnar eru ekki skapaðar til að vera einungis sem skrautgripir inni í húsi, sem enga ákvörðun hefur og ekkert gagn getur gjört annað enn það, að skemmta augum þeirra, sem líta þær, sem gangi í arf mann frá manni, frá foreldrum til manns þeirra, eða takist það ekki, þá til bræðranna, sem eins og líklegt er, taka ekki ætíð báðum höndum við þesskonar arfi. Nei, konan er sköpuð til þess að gegna sömu skyldum og njóta sömu réttinda og karlmaðurinn, að svo miklu leyti sem hæfilegleikar hennar og vilji leyfa. Hún er jafningi bræðranna og félagi mannsins. Hún verður því sjálf að hafa vakandi áhuga á réttindum sínum, og jafnframt því sýna, að hún hafi bæði vit og vilja til að nota sér þau. Konur mega ekki álíta að hin eina köllun þeirra sé að giftast. Þær verða að fá ljósa hugmynd um hvað það er meiðandi fyrir sómatilfinningu þeirra, að hægt sé með réttu að bregða þeim um, að giftingin sé þeirra alvarlegasta löngun og viðleitni. Þær eiga að sýna, að þær hvorki vilji vera né þurfi að vera í vandræðum, þótt maðurinn bjóðist ekki þegar foreldrarnir falla frá, heldur séu þær þá sjálfar færar um að „ryðja sér braut“. Það er auðvitað, að enn sem komið er eru þeim flestir vegir bannaðir í þessu tilliti, meðan þær eiga hvorki kost á að geta fengið svo fjölbreytta og einhlíta menntun, sem á við hæfilegleika ýmsra þeirra, né heldur tækifæri að geta notað hana, þótt hún fengist. Það hefur jafnvel borið við, að kona hefir sótt um kennarastörf við barnaskóla án þess henni væri gefinn gaumur, þótt hún reyndist síðar vel fallin til þess, og þætti jafnvel eigi síðri enn menn, sem teknir voru fram yfir hana. Þetta heftir nú framför og áhuga kvenna, því þegar þær finna hvarvetna lagðar tálmanir fyrir sig, er hætt við að þær gefist upp að lokum. En til þess, að þær geti gjört sér von um að kröfum þeirra verði gefinn gaumur, verða þær að nota sér þau réttindi sem þær hafa þegar fengið. Lög þau, sem nú eru komin út og veitt hafa konum kjörgengi og kosningarrétt í ýmsar nefndir, viðurkenna þó þegjandi rétt þeirra og hæfilegleika, enn lítill árangur sést enn sem komið er af þeim. Vér vitum ekki til, að konur hafi notað sér þessi réttindi, sem þó hafa talsverða þýðingu fyrir þær, eða að þær hafi verið kosnar í almennar nefndir, og er næst að skilja það svo, að þær láti sig engu varða hvort þeim er veitt eftirtekt eða ekki; þær sitja of margar mjög spakar við „kjötkatlana“, og láta sig litlu skipta þá viðburði, sem gjörast fyrir utan hinn þrönga verkahring þeirra. Þetta skeytingarleysi þeirra nota sér síðan mótstöðumenn frelsis og réttinda kvenna sem aðalástæðu fyrir því, að konur séu með öllu óhæfar að gegna öðrum störfum en þeim, sem heyra til hinu vanalega verkasviði þeirra.
En þótt konum sé að mörgu leyti gjört örðugt og óhægt fyrir, geta þær þó gefið meiri gaum að almennum framförum og málefnum en þær hafa gjört til þessa. Þær geta fylgt tímanum með framför hans og breytingum. Þær geta séð í hverju þeim er helst ábótavant, og hver meðul eiga helst við því. Þær geta aukið menntun sína og leitast við að nema fleira en eintómt glingur og smámuni. Þær verða að skilja orðið „menntun“ rétt. Menntunin er ekki sönn né veruleg, ef hún hefur ekki hugann yfir hið hégómlega og smálega til hins göfuga, góða og fagra. Hún hlýtur að hafa áhrif á alla hugsun og lífsstefnu vora. Hún glæðir löngunina eftir öllu góðu og nytsömu, en vekur óbeit á öllu ófögru, lítilfjörlegu og hégómlegu; öllu gjálfri og hlægilegu glysi, sem er aðeins á yfirborðinu, en er í raun og veru kjarnalaust. Menntunin heimtar, að hver og einn sé það, sem hann vill sýnast. Hún bendir oss á köllun vora, glæðir hæfilegleikana, hvetur viljann og eflir þrekið; hún heimtar að skyldur og gagnsmunir sitji í fyrirrúmi fyrir skemmtunum, þótt það kunni stundum að útheimta sjálfsafneitun. Fyrir því hlýtur konan að sjá betur skyldur sínar og köllun sé hún menntuð en ella. Dóttirin sér þá gjör, hvaða skyldur hún hefur að uppfylla gagnvart foreldrum sínum, að hún þarf meira en að heimta og taka við, að hún hefur jöfnum skyldum að gegna gagnvart þeim og synirnir; að hún er jafnskyld að sjá þeim farborða á efri árum og styrkja þau með ráðum og dáð og verða nýtur limur í þjóðfélaginu sem þótt hún væri sonur þeirra.
Einhleypa konan hlýtur þá að sjá betur hvers henni ber að gæta gagnvart sjálfri sér og almenningi; hún veit að hún hefur krafta og vilja, sem hún á að verja í þjónustu hins sanna, góða og nytsama; hún sér þá að staða hennar hefur einnig talsverða þýðingu í mannfélaginu, og að það hefur rétt til að heimta óskipta krafta einstaklinganna sér til framfara og velgengni, og að hún hefur einnig tækifæri, þótt það kunni að vera í smáum stíl, til að vinna að almenningsheill ásamt bræðrum sínum. Sagan sýnir henni líka, að til hafa verið konur á öllum öldum og í ólíkum ástæðum, sem hafa þó tekið mikinn þátt í áhugamálum þjóðar þeirra, og unnið oft ótrauðar að hag og heill fósturjarðar þeirra. Hún sér að það er heimska ein, að láta gamlan vana og rótgróna hleypidóma blinda huga og framkvæmdir sínar, þegar um áhugamál og velferð almennings er að ræða, og þótt í fyrstu kunni að vera tekið misjafnt upp, að hún fylgir af áhuga framförum tímans, og þótt ýmsar torfærur verði á vegi hennar þegar hún vill halda fram sannfæringu sinni eða stofna til nýrra fyrirtækja, vekja áhuga og efla félagskap hjá systrum sínum, þá má hún ekki láta slíkt tálma sér eða letja sig að halda áfram. Það er jafnan hægara að endurbæta hlutinn en að frumsmíða, og jafnan hefur öll nýbreytni mátt sæta óvild margra, hversu þörf sem hún hefur verið, enda hafa oft forvígismenn framfaranna verið fótum troðnir, þótt minningu þeirra hafi síðar verið haldið á lofti öldum saman. Þeir hafa oft einir og aðstoðarlausir byrjað að ryðja þá braut, sem þúsundir manna hafa síðan með ljúfu geði lokið við og farið. Því hljóta hverjir þeir, sem að framförum vinna og vilja brjóta gamlan vana á bak, að búa sig við að hafa ekki ætíð almenningsálitið sín megin í fyrstu. En sé haldið áfram jafnt og sjálfu sér samkvæmt með gætni og fyrirhyggju, fella menn sig smám saman við nýbreytnina, þegar þeir sjá að hún er þarfleg og sanngjörn. Þannig getur vel borið til, að það verði í fyrstu kallað óþarfa framhleypni og „vas“, ef konur leyfa sér að leitast við að fylgja tímanum, en það á sér ekki langan aldur, því að margir hinna skynsamari manna álíta það æskilegt og sanngjarnt og vilja styðja að því með ráðum og dáð. Þannig liggur opinn verkahringur fyrir einhleypum konum, sem hafa þær ástæður, að geta verið öðrum óháðar, og vilja leggja nokkuð í sölurnar fyrir réttindi sín og framfarir.
Gifta konan sér skyldur sínar sem eiginkona, móðir og húsmóðir frá annarri hlið en áður, og þær verða Ijósari og markverðari í augum hennar. Hún sér að hún er gagnvart manni sínum sem félagi og ráðgjafi, er ræður öllum ráðum sameiginlega með honum. En til þess að slík stjórn fari vel úr hendi þarf hún fjölbreytta þekkingu, svo hún byggi jafnan ráð sín á skynsamlegum rökum. Hún á þá hægara með að skilja mann sinn, tilgang hans og vilja, og betra vit til að ráða honum heilt ef honum skjátlast, og taka bendingum hans ef þess þarf við. Aðalgrundvöllur góðs skipulags í heimilislífinu er að konan þekki skyldur sínar og hafi bæði vilja, þekkingu og hæfilegleika til að uppfylla þær. Það yrði bæði torvelt og óþarft að vilja reyna að telja upp hinar ýmsu skyldur konunnar, því sé hún í orðsins fyllstu merkingu kona, getur enginn fundið þær jafnvel sem hún, og þá er víst að hún leysir þær af fremsta megni af hendi. Hin menntaða kona hlýtur að eiga hægara með að standa vel í stöðu sinni gagnvart hjúum sínum, en hin ómenntaða, og orð og ráð hennar hafa meira gildi í augum þeirra, af því að þau reka sig ekki á vankunnáttu og þekkingarleysi í neinu tilliti. Auk þess getur hún komið miklu góðu til leiðar og kennt hinum fáfróðari margt þarft. Hún getur bent vinnukonum sínum á, að þær hafi einnig tækifæri til að láta sér fara fram, og sýnt þeim, að það er ekki staðan, sem skapar hæfilegleikana, heldur séu það oft hæfilegleikarnir, viljinn og framkvæmdin, sem skapa stöðuna, og að engin staða sé svo þýðingarlítil, að á sama standi hvernig í henni sé staðið; enda hafa það oft verið menn af lægstu stigum, sem hafa komist til mestu metorða og orðið bjargvættir þjóðar sinnar. Þannig getur menntuð kona fremur vakið áhuga og keppni í framfaralegu tilliti enn hin ómenntaða, og er slíkt mjög þýðingarmikið.
En þó kemur hvergi jafn ljóslega fram munurinn á vel menntaðri konu og lítt menntaðri sem gagnvart börnum þeirra. Móðirin er ætíð hinn fyrsti og sjálfsagðasti leiðtogi barnsins, og mun þá nokkur geta neitað því, að til að geta gegnt vel skyldu sinni—hinni þungu og ábyrgðarmiklu skyldu—að vera fóstra og fræðari hinnar uppvaxandi kynslóðar þarf bæði menntun, þolgæði og ljósa þekkingu í sem flestu. Menn munu segja, að lítil þörf sé á að konur séu sprenglærðar fyrir þær sakir, því nú sé lítill hörgur á hæfum kennurum. En þó svo væri viljum vér spyrja: hver getur veitt barninu aðra eins tilsögn og móðirin, sé hún góð og menntuð? Hver hefur jafnmikil áhrif á hugarfar og hjarta barnsins og hún, þegar hún er vaxin hinu vandasama verki sínu? Eða mun ekki börnunum verða ljúfara og eðlilegra að fá hina fyrstu tilsögn hjá móðurinni enn óviðkomandi mönnum? En til þess, að hún geti veitt þeim sem best uppeldi, útheimtist, að þau beri virðingu fyrir henni og hafi fullkomið traust á ráðum hennar og orðum. Nú er víst, að börnin trúa engum jafnvel og móðurinni, meðan þau eru sem menn kalla milli vita, og þá liggur í augum uppi, hve áríðandi það er, að orð hennar séu jafnan sönn og holl, og að börnunum sé ætíð óhætt að trúa því þegar hún fræðir þau um eitthvað sem þau hafa ekki skilið áður. Greind og eftirtektasöm börn taka eftir mörgu og spyrja margs, og þau gjöra sig ekki ánægð með að fá úrlausn að eins að hálfu leyti eða jafnvel ekki. Að minnsta kosti hlýtur það, að móðirin ekki getur gefið þeim fullnægjandi upplýsingar á spurningar þeirra eða ef hún eyðir þeim, að veikja traust þeirra á þekkingu og yfirburðum hennar. Aldurinn frá 10 til 16 ára er sá tími, sem hentastur er til undirbúnings fyrir börnin til meiri menntunar og andlegs þroska. Á þessum aldri hafa þau ekki náð þeirri íhugunarsemi að þau geti séð, hvort von sé til að móðirin geti leyst úr spurningum þeirra, eða veitt þeim þá tilsögn, sem þau æskja eftir. Þeim þykir aðeins sjálfsagt að hún viti þetta eða hitt, er þau spyrja að, og bregðist það, er hætt við að traust þeirra til hennar og virðing sú, er þau hafa borið fyrir henni minnki, og þá veikjast þau áhrif, sem hún getur haft á vilja og lífsstefnu þeirra, þótt hún í mörgu öðru tilliti kunni að vera fær um að vísa þeim leið. Það er líka æskilegt, að móðirin sé svo menntuð að hún geti haft eftirlit með hvernig börnum hennar er kennt, taki hún aðra til þess, og geti leiðbeint í því tilliti ef henni ekki líkar hvað eða hvernig er kennt. Enda mundi það glæða virðingu og traust barnanna til hennar ef þau sæju að hún væri þeim jafnan fremri, þótt þau kæmust nokkuð áleiðis, og að hún stæði ekki á baki kennara þeirra hvað menntun og þekkingu snerti. Hún fengi þannig meira vald yfir vilja þeirra og hugsunarhætti en ella; orð hennar festu þá dýpri rætur og yrðu þeim minnisstæðari. Það eru svo mörg og djúp áhrif, sem góð og menntuð kona getur haft á mannfélagið, að eins með uppeldi barnanna, að torvelt verður að telja upp, hvernig hún getur beint huga unglinganna að hinu góða og sanna, hvernig hún getur við smá atvik minnt þau á að margt það, sem er hvað mikilvægast, á rót sína í atvikum, sem lítill gaumur er gefinn. Hún getur sýnt þeim, að þau eiga ekki einungis að lifa fyrir sig, heldur einnig fyrir aðra; að ættjörð og þjóð þeirra hefur kröfu til að þau noti krafta og hæfilegleika sína, og að hið sanna gagn og hugsanir liggi ekki ætíð í að leita sem fjærst, og byltast í umsvifamiklum fyrirtækjum, heldur í því, að verða sem færastur í hvaða stöðu sem er, og rækja sem best þær skyldur, sem menn hafa að uppfylla, og að þótt þær séu ekki ætíð fljótt á að líta þýðingarmiklar, þá geti þær þó verið mikilvægar, og jafn áríðandi að stunda þær vel þótt meira bæri á þeim. Hún er það, sem einkanlega á að leiðbeina dætrunum, að venja þær á þrifnað og hreinlæti. Hún sýnir þeim hvernig hreinlæti og vandvirkni eiga rót sína í hugarfarinu, og sé hugsunarhátturinn hreinn og góður, hljóti verkin að verða eins. Hún á að sýna þeim hve áríðandi það er, að fá sem mesta og gagnlegasta menntun og þekkingu, og benda þeim jafnframt á, að hégómaskapur og tepur eru langt frá allri sannri menntun, og tilfinningin fyrir hinu fagra og góða á ekkert skylt við glys og glingur. Hún sýnir þeim, að mannúð og hluttekning í annarra kjörum eru ávextir sannrar menntunar, og að það séu einkum konur, sem geti oft mýkt böl annarra með nærgætni og lipurð. Hún sýnir þeim, hvernig þær eigi að láta sér annt um þær systur þeirra, sem ekki hafi fengið tækifæri eða hæfilegleika til að taka jafnmiklum framförum og þær, og að það sé skylda þeirra, að gefa þeim heil ráð og segja þeim til eftir megni, en henda ekki gaman að fáfræði þeirra, eða sýna þeim hrak og fyrirlitningu, sem vottar aðeins heimsku og menntunarskort sjálfra þeirra. Þannig leggur góð og menntuð kona grundvöllinn til velgengni og heilla þjóðarinnar, með því hún vekur löngun barna sinna að verða öðrum til gagns, og glæðir þekkingu þeirra og hvetur þau til ósérplægni og göfuglyndis. Hún er sem steinhöggvarinn, sem meitlar og lagar grjótið, svo úr ólíku og ólögulegu efni verður reist öflug og varanleg bygging, sem vekur undrun og virðingu seinni alda manna.
Það er vonandi, að menn taki nú þetta mál til alvarlegrar umhugsunar áður langt líður, og að það verði ekki að eins hinir einstöku menn, sem hingað til hafa hafið máls á því, heldur almenningur. Það er vonandi, að konur sjái nú sjálfar að hér er um heill og réttindi þeirra að tefla, og að þær sitji ekki lengur aðgjörðalausar og horfi þegjandi á, ef einhver ber fram merki þeirra, heldur gangi örugglega fram og berjist við deyfð og dofa, ófrelsi og hleypidóma, sem hingað til hafa staðið í vegi fyrir öllum andlegum og verklegum framförum þeirra. Það er vonandi, að þær finni sannleika málsháttarins: „þekking er veldi.“ Það er vonandi að þær skilji nú loksins „tákn tímanna“ og sjái, að þeim er einnig mál að rísa upp af svefni. Það er vonandi, að þær vilji sýna, að þær séu réttbornar dætur hinna fornu, frjálsu Íslendinga, sem ekki þoli neinum að sitja yfir rétti sínum og frelsi.
Ég enda þá mál þetta að sinni, og vona að einhver af hinum ungu og framfara og mennta konum riti betur um það en ég hef gjört, svo það verði ekki algjörlega dregið út af dagsskránni, heldur standi þar efst á blaði jafnt hinum mestu áhuga og framfara málum þjóðar vorrar.