eftir Einar Ólafsson
Hver var Brynjólfur Bjarnason?1
I
Æviferill Brynjólfs Bjarnasonar var í stuttu máli þessi:
Hann fæddist 24. maí 1898 og ólst upp í Flóanum, að Ölversholti í Hraungerðishreppi hjá foreldrum sínum, Bjarna Stefánssyni og Guðnýju Guðnadóttur, ásamt tveimur yngri bræðrum við svipaðar aðstæður og önnur börn efnalítils bændafólks á þeim tíma.
Þrátt fyrir efnaleysi tókst með aðstoð góðra manna að koma Brynjólfi til mennta. Hann fór til Reykjavíkur, fimmtán ára gamall, árið 1913 til að lesa undir gagnfræðapróf og stúdentsprófi lauk hann 1918 frá Menntaskólanum í Reykjavík.
Þetta var síðasta árið sem íslenskir stúdentar fengu svokallaðan garðsstyrk og fleytti hann Brynjólfi til náms í Kaupmannahöfn. Hann las náttúrufræði og lauk prófi í eðlisfræði og efnafræði en tókst ekki að ljúka sérgreininni sem hann hafði valið sér, lífeðlisfræði. Snemma árs 1922 veiktist hann af lungnaberklum og átti hann við þau veikindi að stríða í eitt ár. Þá var garðvistin liðin, en hún var fjögur ár, og Brynjólfur stóð uppi slyppur og snauður. Hann fór þá til Þýskalands, til Berlínar, þar sem takmörkuð auraráð hans nýttust betur í þeirri óðaverðbólgu sem þar var þá hafin. Þar las hann heimspeki og mun einkum hafa lagt stund á heimspeki Kants að sögn vinar hans, Gísla Ásmundssonar.2 Þegar verðbólgan magnaðist í Þýskalandi voru Brynjólfi allar bjargir bannaðar og í janúar 1924 hélt hann heim án lokaprófs. Honum bauðst reyndar nokkru síðar Hannesar Árnasonar-styrkur en ákvað að taka hið pólitíska starf fram yfir meira nám.
Til framfærslu urðu ýmis íhlaupastörf, en pólitískar skoðanir Brynjólfs og afskipti af stjórnmálum urðu honum eflaust til trafala í atvinnuleit. Hann stundaði kennslu og vann nokkur sumur sem efnafræðingur við Síldareinkasölu ríkisins á Siglufirði. Eftir að Kommúnistaflokkurinn var stofnaður og stéttabaráttan harðnaði með kreppunni, missti hann þessi störf. Hann fór þó á síld til Siglufjarðar sem matsmaður eða verkamaður mörg sumur eftir þetta ásamt konu sinni og greip annars í ýmsa vinnu, meðal annars Bretavinnuna á stríðsárunum. Vorið 1928 kvæntist Brynjólfur Hallfríði Jónasdóttur og eignuðust þau eina dóttur, Elínu. Hallfríður lést árið 1968.
Þegar Brynjólfur kom heim frá Þýskalandi snemma árs 1924 voru ungir róttækir menn í Reykjavík farnir að skipuleggja róttækan arm innan Alþýðuflokksins og var þar fremstur í flokki Hendrik Ottósson ásamt Ólafi Friðrikssyni. Brynjólfur hellti sér þegar út í þetta pólitíska starf. Hann varð varaformaður Sambands ungra kommúnista sem var stofnað vorið 1924, formaður Jafnaðarmannafélagsins Spörtu þegar það var stofnað 1926 sem undanfari Kommúnistaflokks Íslands og formaður flokksins við stofnun hans árið 1930. Fyrr á því ári var hafin útgáfa vikublaðs undir nafninu Verklýðsblaðið og var Brynjólfur ritstjóri þess. Hann var kosinn á þing árið 1937, þegar Kommúnistaflokkurinn fékk sína fyrstu þingmenn kjörna, og sat á þingi 19 ár samfleytt þar til hann vék fyrir samstarfsmönnum Sósíalistaflokksins í Alþýðubandalaginu árið 1956. Brynjólfur var formaður miðstjórnar Sósíalistaflokksins frá 1938 til 1950 og menntamálaráðherra var hann frá 1944 til 1947.
Um 1960 fóru stjórnmálastörf Brynjólfs að dragast mjög saman og þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður árið 1968 og Alþýðubandalagið gert að flokki, má segja að stjórnmálaferli hans hafi lokið þótt hann hafi verið félagi í Alþýðubandalaginu og eitthvað sótt þar fundi. Hann stóð þá á sjötugu og hafði verið virkur í stjórnmálum í hálfa öld en meginþunginn lá á tæplega fjörutíu ára tímabili frá 1924 og þar til upp úr 1960. Hann skrifaði sex bækur um heimspeki og kom hin fyrsta út 1954 en hin síðasta 1980. Brynjólfur lést 16. apríl 1989, tæplega 91 árs gamall.
II
Á minnisblöðum sem Brynjólfur lét eftir sig segir hann frá því þegar hann var ráðinn ritstjóri Verklýðsblaðsins og kosinn formaður Kommúnistaflokksins við stofnun hans:
Hvorttveggja kom mér á óvart, en með þessu voru örlög mín ráðin. Þetta urðu mikil tímamót í lífi mínu. Ég varð að standa undir þeirri ábyrgð, sem mér var á herðar lögð. Og mér fannst hún alltaf vera að aukast og þyngjast meðan hreyfingin gat notað mig… Annir mínar við stjórnmálastörf allan fjórða áratuginn voru óskaplegar. Maður stóð í harðri, hvíldarlausri baráttu öll þessi ár. Ekkert lát á verkföllum víðsvegar um land, óslitin barátta gegn atvinnuleysi og skorti, gegn sveitaflutningum og hverskonar valdníðslu. Við þetta bættist hörð barátta innan verkalýðssamtakanna sjálfra og á tímabili árekstrar innan flokksins. Allt þetta var unnið í sjálfboðavinnu og aldrei greiddur eyrir í laun fram til ársins 1935, en þá var ákveðið að við Einar [Olgeirsson] fengjum nokkra þóknun, raunar án þess að nokkur tiltök væru að standa við það nema að mjög litlu leyti. Það leið varla svo dagur að ekki væru fundir, útifundir eða kröfugöngur, opinberir fundir innandyra, fundir í flokknum og stofnunum hans og fundir í allskonar félögum, sem við störfuðum í. Og svo var eftir að finna tíma og einhver ráð til þess að vinna fyrir sér og heimilinu.3
Þegar Brynjólfur var að alast upp austur í Flóa blasti auðvitað við honum fátækt og misrétti en stjórnmálabaráttan snerist um sjálfstæðismálin. Í útvarpsviðtölum þeim sem ég átti við hann árið 1988 og komu út á bók undir heitinu Brynjólfur Bjarnason, pólitísk ævisaga árið 1989, sagði hann það fyrst hafa verið þegar hann kom til Reykjavíkur og þó einkum eftir að hann komst í Menntaskólann, að hann heyrði getið um önnur stjórnmál en sjálfstæðismálin.4 Hann kynntist Hendrik Ottóssyni og varð heimagangur á heimili hans, en faðir Hendriks, Ottó N. Þorláksson, var í forystusveit reykvískra verkamanna og í húsi hans við Vesturgötuna var Alþýðusamband Íslands stofnað í mars 1916 og um leið Alþýðuflokkurinn.
Þetta var á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Með henni skerptust stéttaandstæður, verðlag hækkaði en kaup verkafólks og sjómanna stóð í stað. Vorið 1916 urðu hörðustu stéttaátök á Íslandi fram til þess tíma þegar hásetar fóru í tveggja vikna verkfall. „Ég var af alþýðufólki kominn,“ sagði Brynjólfur, „og fékk strax áhuga á þessari hreyfingu.“5
Fyrri heimsstyrjöldin markaði afdrifarík tímamót í sögu sósíalískrar hreyfingar þar sem heimshreyfingin klofnaði í afstöðunni til styrjaldarinnar en að baki lá ágreiningur sem hafði farið dýpkandi um all langt skeið milli umbótastefnu og byltingarstefnu.
Árið 1917 varð bylting í Rússlandi og í byrjun árs 1918 urðu mikil verkföll víða í Evrópu. Í Þýskalandi fengu sósíaldemókratar í fyrsta sinn aðild að ríkisstjórn haustið 1918 og var falin stjórnarmyndun þegar vaxandi byltingarástand leiddi til þess að keisaranum var vikið frá. Í janúar 1919 var gerð uppreisn í Berlín en stjórnin gerði bandalag við máttarstólpa gamla þjóðfélagsins um að berja hana niður. Í Bæjaralandi og Ungverjalandi voru skammlífar ráðstjórnir myndaðar seinna um veturinn. Í Finnlandi börðust rauðliðar og hvítliðar veturinn 1918–19 og í Rússlandi var stríðsástand þar sem andstæðingar byltingarinnar nutu aðstoðar erlendra herja.
Þannig var í grófum dráttum umhorfs í Evrópu fyrsta veturinn sem Brynjólfur dvaldist í Kaupmannahöfn. „Hér voru mikil mannleg örlög ráðin,“ sagði hann síðar, „og annaðhvort varð maður að láta það ekki eftir sér að hugsa, eða maður varð að taka afstöðu.“6 Brynjólfur tók afstöðu og hallaðist að málstað kommúnista.
Á menntaskólaárum Brynjólfs í Reykjavík höfðu Íslendingar ekki haft mikil kynni af marxismanum. Þegar Brynjólfur kom til Kaupmannahafnar reyndi hann að afla sér fræðslu um sósíalismann og marxísk fræði. Hann rifjaði það upp hálfri öld seinna þegar hann las ritgerð Leníns um hrun Annars alþjóðasambandsins: „Ég sá samtímann, en þó einkum hina sósíalísku alþjóðahreyfingu, í nýju ljósi eftir lestur hennar.“7
Brynjólfur gerði grein fyrir lífsskoðun sinni og grundvelli hennar í útvarpserindi haustið 1969 sem var prentað í bókinni Lögmál og frelsi árið 1970 undir titlinum „Svar við spurningu um lífsskoðun.“ þar skýrði hann forsendurnar fyrir bæði stjórnmálastörfum sínum og heimspekiskrifum.
Ég komst í kynni við marxismann og díalektíska efnishyggju. Þau kynni opnuðu mér enn nýja sýn. […] Snemma hafði ég komizt að þeirri niðurstöðu, að auðvaldsþjóðfélagið væri ekki mönnum sæmandi, en nú fékk ég vísindalega skýringu á örbirgð þess og andstyggð og eigi aðeins hinni efnahagslegu örbirgð, heldur og hinni andlegu, en af hvorritveggja fékk ég náin kynni þegar á barnsaldri. Í fyrsta skipti fékk ég vísindalega sönnun fyrir því, að unnt væri að breyta þjóðfélaginu og skapa annað nýtt og fullkomnara. Allt voru þetta miklar uppgötvanir. En fyrir sjálfan mig var þó ef til vill mest um vert, að ég lærði að hugsa á nýja vísu. Með díalektíkinni kynntist ég hugsunaraðferð, sem stóð öllum öðrum miklu framar.8
En ekki hafði hann í fyrstu í neinn félagsskap kommúnista að venda, kommúnísk hreyfing var varla til í Danmörku þá, en fáeinir kommúnistar voru þó í háskólanum og í herbergi Brynjólfs var stofnað fyrsta kommúníska stúdentafélagið í Danmörku og urðu sumir félagar þess síðar forystumenn í hreyfingu kommúnista og róttækra manna í Danmörku.
Vinur Brynjólfs, Hendrik Ottósson, var þó miklu pólitískari en Brynjólfur á þessum árum. Hann var eldhugi mikill og róttækur. Hann komst í kynni við erlenda sósíalista og gegnum þau kynni var honum boðið að sitja 2. þing Alþjóðasambands kommúnista, Komintern, sem var í raun fram­halds;stofnfundur, og var haldið í Pétursborg og Moskvu sumarið 192O. Hann fékk Brynjólf með sér í þessa ferð, sem var mjög löng og krókótt og ævintýraleg og hefur Hendrik lýst þessari Bjarmalandsför í endurminningum sínum.9 Þarna voru saman komnir flestir forystumenn kommúnista og róttækra sósíaldemókrata í heiminum. Sumarið eftir fór Brynjólfur á þing Alþjóðasambands ungra kommúnista í Berlín, þannig að hann var kominn, áður en hann sjálfan varði, í kynni við innsta kjarna hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar.
Hafi verið lærdómsríkt fyrir ungan sósíalista að koma til Kaupmannahafnar árið 1918 varð ekki síður lærdómsríkt að koma til Berlínar árið 1923. Fyrir ungan marxista var þjóðfélagsástandið í Þýskalandi í sjálfu sér á við heilan háskóla. „Ég hefði átt erfitt með að skilja hinn ótrúlega skjóta uppgang nazista, ef ég hefði ekki dvalið í Þýskalandi örlagaárið 1923,“ sagði Brynjólfur seinna í viðtölum okkar. „Við svona aðstæður var ekki hægt að loka sig inni,“ sagði hann, „einbeita sér að náminu og láta eins og allt þetta, sem var að gerast í kringum mann, kæmi manni ekki við.“10 Einar Olgeirsson og Stefán Pjetursson, síðar þjóðskjalavörður, voru einnig í Berlín og hittust þeir þrír daglega og ræddu næstum eingöngu um stjórnmál.
Þeir Einar og Stefán voru báðir staðráðnir í að fara á kaf í stjórnmálin þegar þeir kæmu heim. „Ég hafði hinsvegar engan hug á að gerast stjórnmálamaður,“ sagði Brynjólfur, „mér var það satt að segja þvert um geð og ég taldi mig ekki til þess fallinn, enda þótt ég teldi það skyldu mína, að leggja málstaðnum allt það lið, sem veikir kraftar mínir leyfðu, sem óbreyttur liðsmaður.“11
En eins og fyrr segir var Brynjólfur strax kominn á kaf í pólitíska vinnu þegar heim kom og ekki bara sem óbreyttur liðsmaður heldur fremstur í flokki og linnti þeirri vinnu ekki næstu áratugina.
III
Stjórnmálastörfum Brynjólfs verða ekki gerð rækileg skil nema í samhengi við sögu þeirra flokka sem hann starfaði með og veitti forystu, Kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins, en meginatriði þeirra eru þó rakin í fyrrnefndri samtalsbók okkar Brynjólfs, Brynjólfur Bjarnason, pólitísk ævisaga. Einnig hefur Mál og menning gefið út úrval af pólitískum greinum og ræðum Brynjólfs auk nokkurra viðtala í þremur bindum undir nafninu Með storminn í fangið. Þessar greinar og ræður hafa nánast allar orðið til í önn dagsins.
Í þeirri róttæku hreyfingu, kommúnistahreyfingu, sem var að spretta upp á árunum upp úr 1920 og átökunum sem voru samfara því í Alþýðuflokknum gegndi Ólafur Friðriksson veigamiklu hlutverki. Þessi átök einkenndust mjög af eldmóði og ákafa Ólafs sem hreif yngri mennina með sér, en þegar þeir komu heim, Brynjólfur og Ársæll Sigurðsson, fór allt upp í loft. „Sérstaklega var erfitt að sætta þá Ólaf og Brynjólf,“ skrifaði Hendrik seinna.12
Ég held þetta sé táknrænt fyrir þá stefnu sem Brynjólfur tók þegar hann ákvað að helga sig stjórnmálabaráttunni – eða öllu heldur stéttabaráttunni. Hann gekk skipulega til verks og að hans dómi var brýnast að mynda baráttuflokk sem ekki væri bara róttækur í anda Ólafs Friðrikssonar, heldur skipulagður, agaður og stefnufastur, flokk sem gæti orðið sú kjölfesta sem treysta mætti í ólgusjó stéttabaráttunnar og byggði stefnu sína á marxismanum, hinni efnalegu söguskoðun.
Hann lýsti þessum flokki í grein í Rétti, „Skipulagsmál verkalýðsins,“ árið 1930. Þetta er lýðræðislegur flokkur með öflugu framkvæmdavaldi og stofnun hans þýðir „að stjettvísasti hluti verkalýðsins tekur höndum saman, í bjargföstum samtökum, til að sameina alla alþýðu í stjettabaráttunni.“13
Þótt takmark Kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins væri að auðvaldinu yrði steypt og verkalýðurinn tæki völdin, þá varð baráttan í raun umbótabarátta, því að byltingarástand skapaðist aldrei. Sem þingmaður og forystumaður þessara flokka átti Brynjólfur drjúgan þátt í vörn og sókn fyrir fjölmörg hagsmunamál alþýðu sem við búum að í dag. „Við vorum og erum umbótasinnar,“14 sagði Brynjólfur, en alla tíð lagði hann þó áherslu á að flokkurinn héldi byltingarsinnaðri stefnu sinni um leið og hann ynni að samfylkingu allrar alþýðu til sjávar og sveita. Án flokksins yrði samfylkingin tækifærissinnuð og bitlaus. Með samfylkingarstefnunni var ekki átt við að flokkurinn yrði lagður niður og annar breiðari flokkur stofnaður, en þegar sérstakar aðstæður urðu til þess árið 1938 var Brynjólfi mjög í mun að hinn nýi flokkur, Sósíalistaflokkurinn, yrði marxískur byltingarflokkur. Sem slíkur myndaði flokkurinn kosningabandalag með öðrum vinstri mönnum, Alþýðubandalagið, árið 1956 en Brynjólfur snerist algerlega gegn því að Alþýðubandalagið yrði gert að flokki árið 1968 og taldi menn rugla saman samfylkingarsamtökum og flokki. Hann taldi sig ekki eiga erindi til forystu í þeim flokki enda ekki eftir honum sóst.
Sósíalistaflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Alþýðuflokknum og hluta Sjálfstæðisflokksins árið 1944. Á þriðja þingi flokksins 1942, þegar fyrirsjáanlegt var að til stjórnarþátttöku gæti komið, flutti Brynjólfur ræðu sem er prentuð í fyrsta bindi greinasafns hans undir nafninu „Á hraðfleygri stund sögunnar.“15 Þar gerði hann í stuttu máli grein fyrir skilyrðunum fyrir stjórnarþátttöku verkalýðsflokks. Hann lagði áherslu á að sósíalistar tækju ekki á sig ábyrgðina á auðvaldsskipulaginu og stjórnarfari þess en ákveðin skilyrði gætu gert það nauðsynlegt að flokkurinn tæki þátt í stjórn, svo sem til að leysa tiltekin verkefni af hendi þegar ákveðin skilyrði og styrkleikahlutföll gerðu það mögulegt. En þá er allt undir styrk verkalýðshreyfingarinnar komið. „Við sósíalistar lítum á okkur sem þjóna verkalýðssamtakanna í þessari ríkisstjórn,“ sagði Brynjólfur við myndun stjórnarinnar. „Við hlítum fyrirmælum þeirra í einu og öllu og við sitjum ekki í stjórn degi lengur en þau vilja vera láta.“16
IV
Á málþingi um heimspeki og hugsun Brynjólfs Bjarnasonar er ekki hægt að hlaupa yfir þann þátt sem er afstaðan til Sovétríkjanna og annarra kommúnistaríkja, vörnin fyrir þessi ríki.
Á sjötta og sjöunda áratugnum fóru í æ ríkari mæli að heyrast efasemdaraddir en Brynjólfur hélt vörninni áfram, en þó ekki gagnrýnislaust. Ekki svo að skilja að hann hafi skrifað einhver ósköp um þessi mál. Þar er helst að nefna greinina „Gelgjuskeið nýrra þjóðfélagshátta,“ sem birtist í Rétti 1957 og var endurprentuð í 2. bindi greinasafnsins.17 Þessi grein er skrifuð af gefnu tilefni, þ.e. vegna uppgjörs Krúsjofs við Stalín og vegna uppreisnarinnar í Ungverjalandi og innrás Rauða hersins. Þar kemur vissulega fram gagnrýni á þessi ríki og valdhafa þeirra en um leið vörn, gagnrýnin vörn. Innrásina í Ungverjaland taldi hann illa nauðsyn. Hins vegar mat hann atburðina í Tékkóslóvakíu 1968 öðru vísi og taldi að innrás Rússa hafi ekki verið réttlætanleg þá. Ein af síðustu samþykktum framkvæmdanefndar Sósíalistaflokksins var reyndar gagnrýni á innrásina í Tékkóslóvakíu.
Flestir munu væntanlega segja nú: Brynjólfur og félagar hans hefðu átt að sjá það og viðurkenna miklu fyrr að skelfilegir atburðir gerðust í Sovétríkjunum og ástandið var ógnarlegt. Hvernig gat jafn glöggur og heiðarlegur maður og Brynjólfur Bjarnason horft framhjá þessu?
Ég ætla að gera tilraun til skýringar: Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvílík áhrif byltingin í Rússlandi hafði á róttæka sósíalista og hina baráttufúsustu í röðum alþýðufólks á þeim tíma. Og áhrif byltingarinnar náðu út fyrir þennan hóp, hún sýndi að það var mögulegt að steypa valdhöfum af stóli og umbylta samfélaginu og hagkerfinu. Sumir sáu í henni fyrirmynd eða möguleika, aðrir óttuðust hana. Ef við lítum á atburði þessara ára, sem ég hef lítillega vikið að hér að framan, sjáum við enn betur mikilvægi byltingarinnar fyrir róttæka baráttumenn. Byltingin var rægð látlaust á sama tíma og kommúnistar víða á vesturlöndum sættu ofsóknum. Á vesturlöndum var heimskreppa, atvinnuleysi og fasismi en í Sovétríkjunum miklar framfarir þrátt fyrir gífurlega aðsteðjandi erfiðleika, þótt nú sé ljóst hversu blendnar þær voru og dýru verði keyptar. Réttar upplýsingar voru torfengnar og fleiri en kommúnistar sem létu blekkjast. Vissulega voru til kommúnistar sem gagnrýndu Sovétríkin, fylgismenn vinstri andstöðunnar og Trotskís, en þeir voru einangraðir og tortryggðir af öllum. Alþjóðahyggja átti sér djúpar rætur í hreyfingu sósíalista og eðlilegt að kommúnistar mynduðu nýtt alþjóðasamband og það var gert eftir stríðið í Moskvu að frumkvæði bolsévíka. Rússneska byltingin var, ef svo má segja, hornsteinn hinnar kommúnísku hreyfingar. Brynjólfi, eins og svo mörgum sósíalistum af hans kynslóð, var eiginlegt að líta á sig sem hluta heimshreyfingar sem Sovétríkin og alþýðulýðveldin, sem stofnuð voru í stríðslok, voru einnig hluti af. Vörnin fyrir Sovétríkin var innbyggð bæði í pólitíska baráttu kommúnista þessarar kynslóðar og einnig í pólitískan grundvöll flokkanna, og það á líka við um Sósíalistaflokkinn þótt hann hafi sennilega verið sjálfstæðari gagnvart Moskvu en flestir kommúnistaflokkar. Gagnrýnni afstaða hefði kannski verið heilladrýgri og viðfelldnari fyrir okkur seinni tíma menn, en einhvern veginn svona var þetta nú.
V
Brynjólfur sagði það oftar en einu sinni á efri árum að hann hafi aldrei haft sérstakan áhuga á stjórnmálastarfi. Þegar Einar Olgeirsson varð sjötugur sagði Brynjólfur í afmæliskveðju: „Þú hefur alltaf verið í stjórnmálunum með lífi og sál, en ég hef drattazt með meira af vilja en mætti og hefði helzt kosið að fást við annað. En nú veit ég að það var mikil hamingja fyrir mig, að ég skyldi drattast með. Án þess hefði líf mitt orðið harla miklu fátæklegra og ég hefði svikizt undan ærnum skyldum í þessum heimi.“18
Það hljómar óneitanlega svolítið einkennilega hjá manni sem eyddi fjórum áratugum ævi sinnar í stjórnmálastörf sem einn helst forystumaður byltingarsinnaðs flokks, að hann hafi aldrei haft áhuga á stjórnmálastörfum. En skýringin felst kannski einmitt í því að það var byltingarsinnaður alþýðuflokkur sem hann starfaði í og veitti forystu.
Í áður tilvitnuðu svari sínu við spurningu um lífsskoðun sagði Brynjólfur: „Þegar á barnsaldri fannst mér ég ganga í þoku og myrkri, af því að ég skildi ekki þann heim, sem ég var fæddur í. Mig þyrsti í þekkingu til að eyða þessari þoku og lýsa upp myrkrið.“ Síðan segir hann: „Tilgangur minn með allri minni skólavist var þessi þekkingarleit. Ég hafði óbeit á að miða námið við hagnýt markmið svo sem undirbúning undir eitthvert embætti eða ævistarf. Því að til hvers var lífsstarf, ef maður vissi ekki til hvers maður var að streitast við að lifa í þessari veröld?“ Á fermingaraldri hafði hann komist að raun um, sagði hann, að það sem honum var kennt í Helgakveri og prédikunum prestsins voru ósannindi. „Ég fylltist heilagri reiði. Barnshugann þyrsti í þekkingu og einhverja vitneskju um þá veröld, sem hann var fæddur í án þess að skilja. Í stað þess að veita honum einhverja úrlausn í því efni, var logið að honum.19 Hann fermdist nauðugur viljugur. „Móðir mín skildi mig,“ sagði hann, „en ég gat ekki gert henni þá smán að neita að láta ferma mig. Svo mikið var ofurvald hinnar hefðbundnu lífsskoðunar.“20
Það voru miklar frátafir frá heimspekilestrinum í Berlín árið 1923 og svo gæti virst að Brynjólfur hafi nú komist að sömu niðurstöðu og Marx lét í ljósi snemma á sínum ferli, að heimspekingarnir hafi nú aðeins skýrt heiminn á ýmsa vegu, en það sem máli skipti væri að breyta honum. Brynjólfur vitnaði til þessara orða í viðtölum okkar og kvaðst reyndar sjálfur hafa komist að þessari niðurstöðu áður en hann las þau, og hann hefði líka velt fyrir sér rökunum fyrir því, hvers vegna manni beri að taka þessa afstöðu til lífsins, að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir betri heimi, en hann hafi ekki orðað þau né gert grein fyrir þeim í heimspekiritum fyrr en mörgum áratugum seinna.21
Það má kannski segja, að það hafi ekki þurft miklar heimspekilegar pælingar til að taka þá afstöðu sem Brynjólfur tók. „Í björgun úr lífsháska spyrja menn ekki um dýpri rök,“ sagði hann í fyrrgreindu svari sínu við spurningu um lífsskoðun.22
Veturinn 1926, tveim árum eftir heimkomu sína, hélt Brynjólfur tvo fyrirlestra fyrir alþýðufræðslu Stúdentafélagsins, „Jafnaðarstefnuna fyrir daga Karls Marx“ og „Hina efnalegu söguskoðun,“ og voru þeir prentaðir í tímaritinu Rétti 1929 og 1930.23 Í þessum fyrirlestrum var hann frekar að fræða en setja fram eigin frumlega kenningu. Þó er þess virði að líta aðeins á fáein atriði í seinni fyrirlestrinum, „Hinni efnalegu söguskoðun.“ Brynjólfur byrjaði á að setja fram grundvallarsetninguna, að þróun mannfélagsins sé lögmálum háð, og stillir henni upp gagnvart spurningunni: Er það ekki einmitt vilji mannanna sem skapar mannkynssöguna. Hann telur nauðsynlegt að taka viðfangsefnið viljafrelsi til meðferðar og segir: „Mannlegur vilji er frjáls, að því leyti að maðurinn getur valið og ber ábyrgð á vali sínu, en hann er ekki orsakalaus. Hann er lögmálum bundinn. Mennirnir velja eða ákvarða þetta eða hitt af einhverri ástæðu, en ekki að ástæðulausu. … Skoðunin um lögbundið samhengi í öllum hlutum er því meira en tilgáta. Hún er vísindalegur grundvöllur. Einungis á þeim grundvelli eru öll svið tilverunnar hæf til rannsókna.“24Brynjólfur vísar mikið til Marx í þessum fyrirlestri sem vonlegt er. „Efnalega söguskoðunin er ekki annað en rannsóknaraðferð,“ segir hann. „Marx rannsakar söguna til að finna lögmál hennar, en lögmál sögunnar eru ekki algild náttúrulögmál eins og borgaralegu hagfræðingarnir hjeldu fram.“25 „Eftir því sem framleiðslukraftar auðvaldsskipulagsins vaxa, vaxa og mótsetningarnar milli þeirra, sem að lokum verða til að sprengja það og koma ríkisvaldinu í hendur verkalýðsins.“26 Það er söguleg nauðsyn en gerist þó ekki án látlausrar baráttu verkalýðsins. Í lok fyrirlestrarins segir Brynjólfur:
Hvernig getur þá söguleg nauðsyn orðið að siðferðislegu verðmæti? Hvernig er hægt að ætlast til þess, að miljónir manna fórni lífi og starfskröftum fyrir málefni, sem hefir það eitt til sín ágætis, að vera söguleg nauðsyn?
Til þess að leysa þetta viðfangsefni nægir ekkert einstaklingsviðhorf. Frá bæjardyrum einstaklingsins líta mennirnir út eins og einmana skipbrotsmenn, sem berast fyrir straumi og vindi. Rannsökum vjer söguþróunina og hin veljandi og hafnandi öfl hennar, verður útsýnið alt annað. Verkalýðurinn er máttur, sem beinir rás viðburðanna inn á nýjar brautir, hann er frumherji nýrrar menningar, æðra þróunarstigs. Þannig verður mögulegt mat, sem er algilt fyrir mennina. Þannig verða áhugamál verkalýðsins og mannkynsins eitt og hið sama. En hjer erum vjer á takmörkunum milli sögulegra vísinda og siðfræði og látum því staðar numið.27
Þau vandamál, sem hér var vikið að, tók Brynjólfur fyrir í fyrsta heimspekiriti sínuForn og ný vandamál, sem kom út 28 árum síðar, í köflunum „Viljafrelsi“ og „Gott og illt.“
Í formálanum að þeirri bók skýrði hann hvers vegna hann ritaði hana. „Vér lifum á miklum tímamótum,“ sagði hann, „sem krefjast djúptækrar endurskoðunar allra mannlegra hugmynda.“28 Vísindin hefðu skyggnst svo djúpt að þau kæmust í strand frá sjónarmiði þeirrar heimsskoðunar, sem flestir vísindamenn væru mótaðir af. „Það er því mikil nauðsyn að staldra við, skyggnast um og kanna grundvöllinn, sem þekking vor er reist á.“29 Þetta skrifaði hann árið 1954.
Það er hæpið að kalla Brynjólf frumlegan, pólitískan hugsuð. Í þeirri baráttu fyrir brauði og frelsi sem hann tók þátt í hafði hann að pólitískri fræðikenningu að ganga og henni beitti hann við íslenskar aðstæður síns tíma og þar naut sín sú agaða hugsun og skarpskyggni sem ég held megi sjá í heimspekiritum hans. En í heimspeki sinni tók hann við þar sem hinni pólitísku fræðikenningu sleppti, hann reyndi að komast til botns í þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir þegar baráttunni fyrir brauði og frelsi lýkur.
Tilvísanir
1. Fyrirlestur á málþingi í tilefni af aldarafmæli Brynjólfs Bjarnasonar á vegum Félags áhugamanna um heimspeki í hátíðasal Háskóla Íslands 24. október 1998.
2. Gísli Ásmundsson, „Brynjólfur Bjarnason“ í Þeir settu svip á öldina, ritstj. Sigurður A. Magnússon (Reykjavík: Iðunn, 1983), s. 200.
3. Úr óprentuðum minnisblöðum í eigu Elínar Brynjólfsdóttur.
4. Einar Ólafsson, Brynjólfur Bjarnason, pólitísk ævisaga (Reykjavík: Mál og menning, 1989), s. 70–71.
5. Brynjólfur Bjarnason, pólitísk ævisaga, s. 71.
6. Sama rit, s. 72.
7. Brynjólfur Bjarnason, Með storminn í fangið II (Reykjavík: Mál og menning, 1973), s. 284.
8. Brynjólfur Bjarnason, Lögmál og frelsi (Reykjavík: Heimskringla, 1970), s. 152.
9. Hendrik Ottósson, Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands (Akureyri: Pálmi H. Jónsson, 1948), s. 237–295.
10. Brynjólfur Bjarnason, pólitísk ævisaga, s. 78.
11. Sama rit, s. 78–79.
12. Hendrik Ottósson, Vegamót og vopnagnýr (Akureyri: Pálmi H. Jónsson, 1951), s. 70.
13. Réttur, 15. árg. (1930), s. 342.
14. Brynjólfur Bjarnason, pólitísk ævisaga, s. 113.
15. Með storminn í fangið I, s. 104.
16. Með storminn í fangið I, s. 134.
17. Með storminn í fangið II, s. 109–160.
18. Með storminn í fangið, s. 305.
19. Lögmál og frelsi, s. 149–151.
20. Sama.
21. Brynjólfur Bjarnason, pólitísk ævisaga, s. 140.
22. Lögmál og frelsi, s. 156.
23. Réttur, 14. árg. (1929), s. 43–64 og 15. árg. (1930), s. 1–19.
24. Réttur, 15. árg., s. 4–5.
25. Sama rit, s. 9.
26. Sama rit, s. 10.
27. Sama rit, s. 18–19.
28. Brynjólfur Bjarnason, Forn og ný vandamál (Reykjavík: Heimskringla, 1954), s. 8.
29. Sama rit, s. 10.