Dyggðir að fornu og nýju

eftir Salvöru Nordal

Ef stóumaður væri spurður þess sem væri eftirsóknarverðast í lífinu og lykilinn að hamingjusömu lífi stæði ekki á svari. Hamingjan felst í því að uppræta ástríðurnar úr sálinni og öðlast stóíska ró apaþeia. Þegar sálin hefur læknast og bregst ekki lengur við utanaðkomandi áreiti með ástríðufullum hætti hefur henni tekist að stilla sig í samhljóm við náttúruna og sitt innsta eðli. Fullkomnun hins vitra manns hefur náðst. Þetta kann að hljóma ósköp einfalt en að baki þessum orðum býr tilkomumikil kenning um mannlega breytni og raunveruleg gæði í heiminum, kenning sem sumum hefur fundist öfgafull í meira lagi.

Stóumenn líktu sér oft við lækna, en í stað þess að lækna meinsemdir líkamans beindu þeir sjónum sínum að sálinni og sjúkleikum hennar. Birtingarmynd þessa sjúkleika eru ástríður á borð við ánægju, reiði, ótta, girnd eða hatur sem blossar upp í sálinni. Þessar ástríður komu ekki síst fram í harmleikjum, sem voru stóumönnum sérstaklega hugleiknir, þar sem persónur leiksins eru yfirkomnar af sterkum ástríðum og áhorfandinn hrærist með og endurupplifir þær í sínu eigin brjósti. Læknar stóuspekinnar reyndu hins vegar að koma vitinu fyrir samborgara sína og leiða þá í allan sannleikann um hamingjuna og dyggðugt líf.

En hafa kenningar stóumanna um ástríður og dyggðir eitthvað að segja okkur nútímamönnum? Í könnun Gallups á afstöðu Íslendinga nútímans um eftirsóknarverð gæði og hamingju má lesa einhvern vísi að hugmyndum þeirra um dyggðir og hverjar þeirra eru í mestum metum hjá Íslendingum. Í ljósi þeirrar staðreyndar að forn-Grikkir lögðu grunninn að dyggðakenningum eins og við þekkjum þær er ekki úr vegi að skoða viðhorf Íslendinga út frá kenningum Grikkja. Það er einkum skóli stóuspekinga sem ræddur verður hér á eftir en hann tilheyrir helleníska tímabilinu í Grikklandi (323-30 f.Kr.) og á einnig verðuga fulltrúa meðal Rómverja.

Stóuskólinn

Stóuspekin á rætur sínar að rekja til Grikklands hins forna og er upphafsmaður skólans jafnan talinn vera Zeno frá Citium, sem uppi var ca. 336-264 f.Kr. Hugmyndir stóuskólans koma því ekki fram fyrr en eftir dauða Aristótelesar og taka eins og aðrar grískar heimspekihugmyndir um margt mið af kenningum bæði Platóns og Aristótelesar. Nafn stóuskólans er dregið af marglitum súlnagöngum í Aþenu Stoa Poikile, þar sem Zeno kenndi. Lærisveinar hans, Kleanþes og Krysippos voru mikilvirkir heimspekingar og settir einkum Krysippos fram miklar kenningar á flestum sviðum heimspeki ekki síst rökfræði. Sáralítið hefur hins vegar varðveist af frumtextum þessara fyrstu stóuspekinga og hefur það áhrif á fræðaiðkun á þessu sviði.

Á miðtíma stóuspekinnar voru heimspekingar hennar undir mun meiri áhrifum frá Platóni en þeir sem á undan fóru. Síðasta blómaskeið stóuspekinnar er hins vegar meðal Rómverja á fyrstu og annarri öld eftir Krist þar sem fremstir fóru Epiktet, Seneca, Markús Árelíus og Cicero. Á þessu tímabili voru fylgjendur stóuspekinnar uppteknari af siðfræðinni en öðrum þáttum heimspekinnar. Til marks um það eruOrðræður Epiktets og Hugleiðingar Markúsar Árelíusar sem eru fyrst og fremst persónulegar hugleiðingar og vegvísar fyrir aðra til dyggðugra og betra lífs.

Heimspeki stóumanna ber skýr einkenni og er í nokkrum aðalatriðum ólík fyrirrennurum þeirra. Í augum stóumanna er heimurinn ein lifandi heild þar sem hver hlutur og lífvera hefur sína stöðu og tilgang. Þannig líktu sumir þeirra heiminum við einn stóran vef þar sem lítil hreyfing á einum stað hefur áhrif á alla heildina. Maðurinn er aðeins hluti af þessum stóra vef og verkefni hans er að finna hlutverk sitt innan heildarinnar og breyta í samræmi við náttúruna og skynsemina eins og stóumenn orða það. Þessi hugmynd um stöðu mannsins innan náttúrunnar og hluta af lífrænum heimi er mjög í ætt við hugmyndir ýmissa náttúruheimspekinga í nútímanum þar sem áhersla er lögð á að maðurinn snúi af braut drottnunar yfir heiminum en finni sér frekar sinn stað innan náttúrunnar og í samhljómi við hana.

Stóumenn voru einarðir efnishyggjumenn. Þeir töldu að allt væri efnislegt og gert að grunni til úr sama efni, pneuma.1 Efnishyggjan kemur vel fram í hugmyndum þeirra um sálina og útskýring­um á því hvernig sálrænir þættir hafa áhrif á líkamann eins og þegar efnið eða líkaminn bregst við ástríðum með því að roðna, fölna eða svitna. Með þessu móti komast stóumenn hjá ýmsum vandkvæðum sem tvíhyggja Platóns rataði í sem gerði ráð fyrir líkama og sál alls óskyldrar tegundar. Annað einkenni sálarkenningar stóumanna er sú að sálin sé að stofni til ein heild en ekki gerð úr þremur þáttum eins og til dæmis sálarkenning Platóns gerir ráð fyrir. Af þessu leiðir að í sálinni á sér ekki stað barátta milli ólíkra afla sem manneskjan ber ekki að fullu ábyrgð á. Þvert á móti tekst stóumönnum að rökstyðja ábyrgð mannsins á öllum þeim kenndum sem rísa í sálinni, hvort sem þær teljast til geðshræringa eða skynseminnar.

Baráttan gegn ástríðum

Siðfræði forn-Grikkja hefst a einni grundvallar spurningu: Hvernig ber mér að lifa lífinu? Þessi upphafsreitur setur mark sitt á það sem á eftir kemur. Spurningin er fyrst og fremst persónuleg og í raun hversdagsleg því þessarar spurningar spyrja sig allir þeir sem hugleiða líf sitt og stefnu. Kenningar þessar snúast um þroska einstaklingsins, hvernig hann geti öðlast hamingjuna og raunverulega gæði í lífinu.

Siðfræði Níkomakkosar eftir Aristóteles hefst á þeim orðum að „sérhver list og rannsókn, sérhver athöfn og val virðist stefna að einhverju góðu,“ og síðan heldur hann áfram og ályktar að hið góða sé markmið alls.2 Aristóteles kemst síðan að þeirri niðurstöðu að í hvert skipti sem við veljum eitthvað sé það í einhverjum tilgangi og að hinn endanlegi tilgangur allrar breytni okkar sé hamingjan. Líkt og lyf hefur þann tilgang að lækna fólk þá er tilgangur athafna okkar hið góða. Aristóteles gerir sér grein fyrir því að fólk getur haft ólíkan skilning á hamingjunni og hvað í henni felst en í stuttu máli töldu forn-grískir kennimenn að hamingjan fælist í dyggðugu lífi.

Þó stóumenn séu dyggðasérfræðingar í anda Platóns og Aristótelesar njóta þeir mikillar sérstöðu þegar kemur að einstaka atriðum siðfræðikenningarinnar og þá einkum baráttu þeirra gegn ástríðunum. Bæði Platón og Aristóteles halda því fram að ástríður séu hluti af eðli mannsins og nokkuð sem við höfum ekki fulla stjórn á. Platón taldi að í sálinni tækjust á ólík öfl sem ættu sér upphaf í ólíkum hlutum sálarinnar, þannig bærum við ekki beinlínis ábyrgð á því að sumar kenndir vöknuðu í sálinni en við ættum hins vegar að ná stjórn á þeim með skynsemi okkar. Sá maður sem nær að tukta ástríður sínar til svo þær falli að skynseminni hefur náð samhljómi í sálu sinni. Aristóteles hélt því hins vegar fram að sumar ástríður t.d. reiði væru við hæfi í sumum tilfellum – eða eins og hann orðar það í Siðfræði Níkomakkosar – „við berum lof á þann sem reiðist þeim sem skyldi og vegna þess sem skyldi, og enn fremur eins og skyldi, og þegar skyldi og eins lengi og skyldi.“3Ástríðurnar eru því stundum eðlileg viðbrögð mannsins og fullkomlega réttlætanleg og meira en það; það er beinlínis óeðlilegt að reiðast ekki við slíkar aðstæður.

Stóumenn ganga hins vegar enn lengra í afstöðu sinni gegn ástríðunum og hlutu mikla gagnrýni fyrir. Einn þekktur rómverskur höfundur líkti kenningu þeirra við brjálsemi því „þeir tempra ekki [ástríðurnar] heldur klippa þær burtu og vilja þar með gelda manninn af þeim hlutum sem honum eru eiginlegir samkvæmt náttúrunni.“4 Stóumenn gerðu sér fulla grein fyrir því að ástríður væru stór hluti lífs okkar og viðbragða en þeir neituðu því að þær væru hluti af okkar sanna eðli. Líkt og um einstakling sem lifað hefur með sjúkdómi sínum allt sitt líf má segja að sjúkdómurinn sé hluti af lífi hans en ekki hans sanna eðli og því beri að reyna að lækna hann. Á sama hátt eru ástríðurnar sjúkdómur sálarinnar.

Þessi einarða afstaða gegn ástríðunum er ekki með öllu óskiljanleg. Ástríður hana yfirbragð stjórnleysis og óhófs og við þekkjum öll hve auðvelt er að missa stjórnina á þeim þegar þeim er gefinn laus taumurinn á annað borð. Stóumenn tóku hér samlíkingu milli þess að ganga og hlaupa. Þegar við göngum höfum við fulla stjórn á gerðum okkar og getum breytt stefnunni hvenær sem er. Þegar við hins vegar hlaupum þarf meira til þess að stöðva eða breyta stefnunni. Sama á við um ástríður og vegna þessa innbyggða stjórnleysis töldu stóumenn barnalegt að halda að við getum stjórnað þeim eins og fyrirrennarar þeirra héldu fram. Niðurstaða þeirra var því sú að ástríðurnar yrði að uppræta með öllu því þær væru gagnstæðar eðli okkar og skynsemi.

Til þess að hægt sé að uppræta ástríður úr huga okkar verða þær að vera á okkar valdi, en ekki ósjálfráðar kenndir í sál okkar. Sú röksemd stóumanna að ástríðurnar séu á okkar valdi byggist á því að þær séu dómar eða skoðanir sem hafi ákveðna tegund viðfanga en dómar eru samkvæmt stóumönnum samþykki við staðhæfingum. Ástríður eru því vitsmunalegar því þær byggjast á viðbrögðum okkar við ákveðnum staðhæfingum, þ.e. hvort við samþykkjum þær eða ekki. Við getum breytt þessum viðbrögðum okkar og tamið okkur á þá lund að ástríður vakni ekki í brjósti okkar og þar með upprætt þær með öllu.

Ástríður eru ekki aðeins skoðanir eða dómar heldur það sem meira er þær erurangir dómar eða rangarskoðanir. Þær beinast að því sem virðist vera gott, slæmt, eftirsóknarvert eða neikvætt en er það í raun ekki. Nátengd kenningunni um ástríður er því kenningin um eftirsóknarverð gæði. Við finnum til ótta þegar við teljum að hætta steðji að okkur eða þegar við óttumst að missa einhvern eða eitthvað sem okkur er kært eða hefur mikið gildi fyrir okkur. Þannig endurspegla ástríðurnar gildismat okkar en þetta gildismat er afvegaleitt og bundið við ytri hluti sem eru ekki á okkar valdi. Ástríður endurspegla því hjálparleysi mannsins við aðstæður þar sem hann fær litlu við ráðið. En nú erum við komin að kenningu stóumanna um eftirsóknarverð gæði og þá er ekki úr vegi að fletta upp í skoðanakönnun Gallups og sjá hvernig hugmyndir Íslendinga nútímans tengjast þessum fornu skoðunum.

Eftirsókn eftir vindi

Í huga sótumanna felst hamingja í dyggðugu líferni en dyggðirnar eru hin æðstu gæði og það eitt sem eftirsóknarvert er í sjálfu sér. Höfuðdyggðirnar eru viska, hugrekki, hófstilling og réttlæti og allar aðrar dyggðir heyra undir þær. Nútímadyggðirnar eru hins vegar samkvæmt skoðanakönnun Gallups: Heiðarleiki, hreinskilni, jákvæðni, traust, dugnaður, heilsa og fjölskyldu-vinátta.5 Hvernig falla þessar hugmyndir um hamingju að hugmyndum stóumanna? Ef til vill er það ósanngjarnt að setja hugmyndir nútímamanna undir mælistiku stóumanna þar sem að baki hennar býr skipulögð og vel útfærð kenning en nútímadyggðirnar eru einvörðungu fengnar með skoðana­könnun og tilviljanakenndu úrtaki. Þrátt fyrir þessa fyrirvara er forvitnilegt að skoða þessar fornu og nýju dyggðir saman.

Þegar Íslendingar eru spurðir að því hvaða hugtök eða atriði skipti þá mestu máli svara flestir að heilsa og fjölskylda skipti þá mestu og þegar þeir eru spurðir að því hvað skipti mestu máli í hamingjusömu lífi er svarið sterk vina- og fjölskyldubönd. Það kemur ekki á óvart að heilsa, fjölskylda og vinir skipta okkur máli í daglegu lífi. Góð heilsa er forsenda þess að við getum notið ýmissa annarra gæða í lífinu. Og náið samneyti við annað fólk meðal fjölskyldu og vina er mikilvægt fyrir okkur sem félagsverur og einstaklinga. Ef til vill skipta fjölskylduböndin meira máli fyrir okkur Íslendinga sem lifum í nánu samneyti við fjölskyldur okkar og í samfélagi þar sem ættarböndin hafa löngum verið sterk.

En hversu mikilvæg er heilsan og fjölskyldan í huga stóumannsins? Á þessa leið svarar Epiktet, heimspekingurinn og þrællinn:

Ef þú minnist við barn þitt eða konu þína, þá segðu við sjálfan þig: Ég minnist aðeins við mannveru, ég mun ekki komast úr jafnvægi þótt hún deyi.6

Svar Epiktets virðast ganga þvert á hugmyndir nútímamannsins. Að baki svari hans liggur greinarmunur þess sem er eða er ekki á okkar valdi. Eins og kom fram fyrr í umfjöllun um ástríðurnar þá berum við ábyrgð á því hvernig við bregðumst við því sem birtist í sál okkar þrátt fyrir að við berum ekki ábyrgð á því áreiti sem við verðum fyrir. Viðbrögð okkar við utanaðkomandi áreiti byggist á því að þekkja hvað er á okkar valdi og hvað ekki. Í þessu er þroski einstaklingsins falinn.

Epiktet segir:

Fávís ertu ef þú kýst að börn þín, kona þín og vinir lifi um aldur og ævi, því að þá kýst þú þér vald á hlutum, sem þú átt engin ráð á, og vilt eigi það, sem annarra er.7

Hér kemur berlega fram að um líf okkar og annarra, t.d. okkar nánustu, getum við engu ráðið. Við stjórnum engu um það hvort eða hvenær þau lifa eða deyja. Sama á við yrti hluti líkt og heilsu, fegurð, auð og líkamsstyrk. Þessa þætti kölluðu stóumenn hlutleysur. Allir þessir þættir eru vissulega eftirsóknarverðir en þeir eru ekki á okkar valdi og því eigum við ekki að æðrast þó að við missum þá, hvað þá að sækjast eftir þeim af kappi. Hve oft höfum við ekki orðið vitni að því þegar fólk tekur að örvænta við missi ástvinar, heilsubrest eða ef þeir hafa tapað auði? Þess í stað eigum við að snúa okkur að raunverulegum gæðum sem eru dyggðirnar.8 Í þessu felst ekki að fjölskylda og vinir séu ekki eftirsóknarverð eða skipti okkur ekki máli, við eigum hins vegar að forðast að binda allt okkar trúss við þau og vera minnug þess að við getum misst þau hvenær sem er.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er því sú að hvorki heilsa né fjölskylda-vinátta teljast til æðstu gæða hjá stóumönnum.

Hvað með þær nútímalegu dyggðir sem eftir eru? Það vekur athygli hve hreinskilni er oft nefnd sem eftirsóknarverð dyggð í hugum Íslendinga. Þegar við hins vegar rýnum í svörin í könnuninni kemur fram að Íslendingum finnst hún einkum vera eftirsóknarverður þáttur hjá öðrum sjálfum sér!

Heiðarleiki er í nokkuð miklum metum hjá Íslendingum og telja tæp 24 prósent að hann skipti mestu máli í lífinu. Heiðarleiki er ein þeirra dyggða sem flokkast undir réttlæti hjá stóumönnum og telst því óumdeilanlega til dyggða hjá þeim.

Enn önnur nútímadyggð sem flokkast undir réttlæti er traust. Jákvæðni og dugnað má einnig finna á lista stóumanna en þessar dyggðir falla undir hugrekki. Réttlæti og hugrekki er því að finna í einhverri mynd hjá nútíma Íslendingum.

Af þessu leiðir að af sjö nútímadyggðum eru tvær þeirra, heilsa og fjölskylda-vinir, hlutleysur samkvæmt kenningu stóumanna en hinar fimm falla undir höfuðdyggðirnar hugrekki og réttlæti. En hvar eru hinar höfuðdyggðirnar; viska og hófstilling?

Raunveruleg gæði

Oft er það svo að það sem ekki er sagt vekur meiri athygli en það sem sagt er. Á sama hátt vekja þær dyggðir sem ekki eru nefndar í skoðanakönnuninni ekki minni athygli en þær sem þar eru nefndar. Í fyrrnefndri skoðanakönnun kemur fram að einungis 3,1 prósent telja menntun og víðsýni skipta mestu í hamingjusömu lífi. Í mörgum öðrum spurningum verma menntun og þekking botnsætin. Þessi niðurstaða er umhugsunarefni fyrir samfélag sem státar sig af háu menntunarstigi borgaranna og þar sem umræðan um þekkingarþjóðfélagið hefur verið fyrirferðar­mikil.

Þögnin um hófstillingu er jafnvel enn meira æpandi. Til hófstillingar flokkast dyggðir eins og agi og hógværð. Merki þessara dyggða sér varla stað í umræddri skoðanakönnun sem er í sjálfu sér býsna athyglisvert. Hjá forn-Grikkjum og ekki hvað síst hjá Stóumönnum er þessu öfugt farið. Viska og hófstilling eru grundvallarþættir hins stóíska manns. Sá sem hefur öðlast stóíska ró hefur náð að útrýma ástríðum úr sálinni. Hann hefur öðlast þekkingu á raunverulegum gæðum og sækist eftir þeim einum. Hann hefur fullkomna stjórn á gerðum sínum og raunverulega þekkingu og visku.

Væri rétt að álykta sem svo af skoðanakönnun Gallups að hófstilling og viska skipti ekki máli í nútímasamfélagi? Gera hinar gömlu dyggðakenningar óraunverulegar kröfur til okkar í nútímanum? Hið æðsta takmark stóumanna, hin stóíska ró, er fjarlægt markmið. Það krefst mikils af einstaklingnum og er að margra dómi ofurmannleg krafa og stóumenn gerði sér fulla grein fyrir að einungis örfáir gætu öðlast fullkomnun.

Hin heita afstaða stóumanna gegn ástríðunum hefur oft verið túlkuð á þann veg að í raun boði stóumenn ekkert annað en geðleysi og sá sem tileinkar sér stóíska ró sé í raun fullkomlega áhugalaus um umhverfið og aðra og bregðist við óréttlæti og þjáningum af jafnaðargeði. En þessi túlkun á stóuspekinni er orðum aukin. Stóumenn gera ráð fyrir jákvæðum tilfinningum eins og gleði, varkárni og von þær eru í samræmi við skynsemina og dyggðirnar. Í stað ótta er hinn vitri varkár, í stað ánægju finnur hann til gleði og í stað löngunar býr með honum von. Hann berst ekki lengur við ástríður sem reyna að afvegaleiða hann til annarra verka heldur hefur hann jákvæðar tilfinningar. Hinn vitri eða hinn stóíski maður er fullkomlega skynsamur. Samkvæmt þessari kenningu er hamingja okkar ekki háð ytri skilyrðum eða fallvaltleika heimsins heldur býr hún hið innra með okkur. Af þessu leiðir að hin siðferðilega áhersla færist öll á einstaklinginn sjálfan og hann getur ekki afsakað sig með heppni eða óheppni. Þegar við metum athafnir fólks eigum við að skoða hugarfar þess og hvernig það hyggst breyta. Það er því enginn siðferðilegur munur á þeim sem hugsar sér að fremja glæp en tekst það ekki og þeim sem raunverulega tekst það. Öll siðferðileg áhersla færist yfir á einstaklinginn sjálfan og hugsun hans en tengist ekki ytri aðstæðum.

Þó stóuspeki þyki kröfuharður skóli vekur hann okkur til umhugsunar um eftirsóknarverð gæði í lífinu og hversu mjög þau eru undir okkur sjálfum komin. Nútímamaðurinn stendur við gnægtar­borð á öllum sviðum og treður sig út af lífsins lystisemdum. Víst er að hinn forni stóuspekingur teldi að nútímamaðurinn væri að tapa sjálfum sér í öfgafullri neyslu þar sem hamingjan stjórnast að mestu leyti af ytri skilyrðum. Hann myndi brýna okkur til þess að hefja dyggðir á borð við hóf­semi og visku til vegs og virðingar. Því þegar öllu er til skila haldið skiptir þroski hvers og eins mestu máli og þá er hollt að minnast orða Epiktets: „Sá, er frjáls kýs að vera, má ekkert girnast og ekkert fælast, sem er á valdi annarra, því að ella hlýtur hann að verða þræll þess.“9

 

Tilvísanir

1. pneuma þýðir heitt loft.

2. Siðfræði Níkomakkosar 1094a1 í þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Reykjavík 1995.

3. Siðfræði Níkomakkosar 1125b í þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Reykjavík 1995.

4. Lactantíus.

5. Skoðanakönnunin var unnin af Gallup sem stuðningur við sýningarverkefnið á Þingvöllum, en það er aftur á vegum Kristnihátíðarnefndar, unnið af art.is í samvinnu við Listasafnið á Akureyri.

6. Sjá Epiktet í Hver er sinnar gæfu smiður í þýðingu Brodda Jóhannessonar, Almenna bókafélagið 1955, bls. 10. (Þýðingunni hefur verið lítillega breytt).

7. Sama, bls. 22.

8. Hér sjáum við samsvörun við kristnar hugmyndir sem boða æðruleysi.

9. Sjá Epiktet í Hver er sinnar gæfu smiður í þýðingu Brodda Jóhannessonar, Almenna bókafélagið 1955, bls. 23. (Þýðingunni hefur verið lítillega breytt).
« Til baka

Related Entries