Immanúel Kant: Heimspekingur upplýsingarinnar

Fyrirlestur til minningar um Kant á 150. ártíð hans1

eftir Karl Popper

Fyrir eitt hundrað og fimmtíu árum andaðist Immanúel Kant og hafði þá alið manninn alla sína ævi, áttatíu ár, í héraðsbænum Königsberg. Árum saman hafði hann verið horfinn heiminum og vinir hans hugðu á jarðarför í kyrrþey. En þessi sonur handverksmanns var jarðsettur eins og konungur. Þegar orðrómurinn um andlát hans breiddist út um bæinn þyrptist fólk að húsi hans og heimtaði að sjá hann. Á útfarardaginn lá lífið í bænum niðri. Líkkistunni fylgdu þúsundir manna meðan klukkur allra kirknanna hringdu. Ekkert svipað þessu hafði nokkru sinni áður gerst í Königsberg, segja annálsritarar.

Erfitt er að skýra þessa furðulegu tilfinningaólgu hjá fólkinu. Stafaði hún eingöngu af orðstír Kants sem mikils heimspekings og góðs manns? Mér virðist að meira hafi búið í henni en þetta, og ég sting upp á að árið 1804, undir einveldisstjórn Friðriks Vilhjálms, hafi þessar klukkur sem voru að hringja fyrir Kant flutt bergmál af amerísku og frönsku byltingunum – af hugmyndunum frá 1776 og 1789. Ég sting upp á að fyrir landa sína hafi Kant verið orðinn holdtekja þessara hugmynda. Þeir komu til að sýna þakklæti sitt málsvara mannréttinda, jafnréttis fyrir lögunum, heimsborgara­réttinda, friðar á jörðu og, það sem er kannski mikilvægast, lausnar úr ánauð með atbeina þekkingar.

I. Kant og upplýsingin

Flestar þessara hugmynda höfðu borist til meginlands Evrópu frá Englandi með bók sem kom út árið 1733, Bréf um ensku þjóðina eftir Voltaire. Í þessari bók ber Voltaire saman sem andstæður enska þingbundna ríkisstjórn og einveldisstjórn á meginlandinu; enskt umburðarlyndi í trúmálum og afstöðu rómversk-kaþólsku kirkjunnar; skýringarmátt heimsfræði Newtons og greinandi raun­hyggju Lockes og kreddufestu Descartes. Bók Voltaires var brennd, en útgáfa hennar markar upphaf heimspekihreyfingar – hreyfingar sem hafði á sér blæ vitsmunalegrar árásarhneigðar sem naut lítils skilnings í Englandi þar sem ekkert tilefni var til hennar.

Sextíu árum eftir dauða Kants var verið að kynna þessar sömu ensku hugmyndir fyrir Englendingum sem „yfirborðslega og hrokafulla vitsmunahyggju“. Og þótt kaldhæðnislegt megi virðast er enska orðið ‘Enlightenment’, sem þá var notað til að nefna hreyfinguna sem Voltaire átti frumkvæði að, enn hrjáð af þessari aukamerkingu grunnhyggni og hroka. Þetta er alltént það sem Oxford English Dictionary segir okkur. Ég þarf varla að bæta því við að engin slík auka­merking er höfð í huga þegar ég nota orðið ‘Enlightenment’.

Kant trúði á upplýsinguna. Hann var síðasti talsmaður hennar sem kvað að. Mér er ljóst að þetta er ekki hin venjulega skoðun. Þótt ég sjái Kant sem verjanda upplýsingarinnar er hann oftar álitinn vera höfundur stefnunnar sem gerði út af við hana – hinnar rómantísku stefnu Fichtes, Schellings og Hegels. Ég fullyrði að þessar tvær túlkanir séu ósamrýmanlegar.

Fichte, og seinna Hegel, reyndi að eigna sér Kant sem höfund stefnu þeirra. En Kant lifði nógu lengi til að vísa á bug linnulausum þreifingum Fichtes sem lýsti sjálfan sig eftirmann Kants og arftaka. Í Opinberri yfirlýsingu varðandi Fichte, sem er of lítið þekkt, skrifaði Kant: „Megi Guð vernda okkur fyrir vinum okkar …. Því til eru óheiðarlegir og svikulir meintir vinir sem eru með áform um að steypa okkur í glötun þótt þeir tali tungu góðs vilja.“ Það var ekki fyrr en að Kant látnum, þegar hann gat ekki lengur mótmælt, sem þessum heimsborgara var þröngvað til þjónustu við hina þjóðrembusinnuðu rómantísku stefnu þrátt fyrir öll varnaðarorð hans gegn rómantík, tilfinningaþrungnum eldmóði og Schwärmerei. En við skulum sjá hvernig Kant sjálfur lýsir upplýsingarhugmyndinni:

Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á . . . getuleysis til að nota eigin skynsemi án handleiðslu annarra. Slíkt ósjálfræði kalla ég ‘sjálfskapað’ ef það stafar ekki af skorti á skynsemi heldur af vöntun á hugrekki og einurð til að nota skynsemi sína án handleiðslu annarra. Sapere aude! Hafðu hugrekki til að nota eigin skynsemi! Þetta eru því kjörorð upplýsingar­innar.2

Kant er hér að segja eitthvað mjög persónulegt. Það er hluti af sögu hans sjálfs. Hann ólst nánast upp í örbirgð, í hinu þröngsýna viðhorfi heittrúarstefnunnar (píetismans) – strangri þýskri útgáfu af hreintrúarstefnu – og var ævi hans saga lausnar úr viðjum með atbeina þekkingar. Á efri árum var hann vanur að líta til baka með hryllingi til þess sem hann kallaði „ánauð bernskunnar“, tímabils ósjálfræðis hans. Vel mætti segja að baráttan fyrir andlegu frelsi væri ríkjandi stef í öllu lífi hans.

II. Hin Newtonska heimspeki Kants

Afgerandi þátt í þessari baráttu átti kenning Newtons sem Voltaire hafði kynnt á meginlandi Evrópu. Heimsfræði Kópenikusar og Newtons örvuðu vitsmunalíf Kants með öflugum og spennandi hætti. Fyrsta merkisrit hans, Kenningin um himnana, ber hinn athyglisverða undirtitil: Ritgerð um gerð og vélrænan uppruna alheimsins, útfært samkvæmt Newtonskum lögmálum. Kenningin er eitt mesta framlag allra tíma til heimsfræði og heimsmyndunarfræði. Hún hefur ekki aðeins að geyma fyrstu framsetninguna á því sem nú kallast ‘Kant–Laplace tilgátan’ um uppruna sólkerfisins heldur einnig, á undan Jeans3, heimfærslu þessarar hug­myndar upp á ‘Vetrarbrautina’ (sem Thomas Wright hafði túlkað sem stjörnukerfi fimm árum áður). En sú staðreynd að Kant auðkenndi stjörnuþokurnar sem ‘Vetrarbrautir’ – fjarlæg stjörnu­kerfi áþekkum okkar – tekur öllu þessu fram.

Það var heimsfræðilegi vandinn, eins og Kant útskýrir í einu af bréfum sínum, sem vísaði honum veginn til þekkingarfræði hans og til Gagnrýni hreinnar skynsemi. Hann var að fást við hið snúna vandamál (sem allir heimsfræðingar verða að glíma við) um endanleika eða óendanleika alheimsins, með tilliti til bæði rúms og tíma. Hvað snertir rúmið hefur Einstein stungið upp á hrífandi lausn í formi heims sem er bæði endanlegur og án takmarka. Þessi lausn heggur þvert í gegnum kantíska hnútinn en hún notar öflugri tæki en þau sem voru tiltæk Kant og samtíðar­mönnum hans. Hvað snertir tímann hefur engin jafn vænleg lausn á erfiðleikum Kants komið fram hingað til.

III. Gagnrýni hreinnar skynsemi og heimsfræðilegi vandinn

Kant segir okkur að hann hafi rekist á aðalvandamál Gagnrýni sinnar þegar hann var að hugleiða hvort alheimurinn ætti sér upphaf í tíma. Hann uppgötvaði sér til skelfingar að hann gat sett fram að því er virtist gildar sannanir fyrir báðum þessum möguleikum. Sannanirnar tvær eru athyglisverðar; það þarf að einbeita sér til að átta sig á þeim, en þær eru ekki langar og ekki torskildar.

Vegna fyrri sönnunarinnar byrjum við með því að greina hugmyndina um óendanlega röð ára (eða daga, eða hvaða annarra jafnra endanlegra tímabila). Slík óendanleg röð ára hlýtur að vera röð sem heldur áfram og áfram og lýkur aldrei. Henni getur aldrei verið lokið: óendanlega mörg ár sem eru liðin eða þeim lokið er augljóslega hugtakaleg mótsögn. Í fyrri sönnuninni leiðir Kant einfaldlega rök að því að heimurinn hljóti að eiga sér upphaf í tíma þar sem að öðrum kosti, á þessari stundu, hlyti óendanlegur fjöldi ára að hafa liðið, en það er ómögulegt. Hér lýkur fyrri sönnuninni.

Vegna síðari sönnunarinnar byrjum við með því að greina hugmyndina um algerlega tóman tíma – tímann áður en heimur var til. Slíkur tómur tími sem alls ekkert er í hlýtur að vera tími þar sem ekkert tímabil hans aðgreinist frá öðru með tímatengslum sínum við hluti eða atburði, úr því að hlutir og atburðir eru einfaldlega alls ekki til. Tökum nú síðasta tímabil hins tóma tíma – tímabilið strax áður en heimurinn byrjar. Ljóst er að þetta tímabil aðgreinist frá öllum fyrri tímabilum fyrst það einkennist af nánum tímatengslum sínum við atburð – upphaf heimsins. Samt er þetta sama tímabil talið vera tómt, sem er augljós hugtakaleg mótsögn. Í síðari sönnuninni leiðir Kant einfaldlega rök að því að heimurinn geti ekki átt sér upphaf í tíma úr því að annars væri tímabil – andartakið strax áður en heimurinn byrjaði – sem er tómt og einkennist samt af tafarlausum tímatengslum sínum við atburð í heiminum, en það er ómögulegt.

Við höfum hér árekstur milli tveggja sannana. Slíkan árekstur kallaði Kant ‘gagnkvæðu’. Ég ætla ekki að angra ykkur með hinum gagnkvæðunum sem Kant uppgötvaði að hann var flæktur í, svo sem um takmörk alheimsins í rúmi.

IV. Rúm og tími

Hvaða lærdóm dró Kant af þessum ruglandi mótsögnum? Hann ályktaði að hugmyndum okkar um rúm og tíma sé ekki unnt að beita á alheiminn sem heild. Við getum auðvitað notað hugmyndirnar um rúm og tíma um venjulega efnislega hluti og efnislega atburði. En rúm og tími sjálf eru hvorki hlutir né atburðir: það er ekki einusinni hægt að fylgjast með þeim, svo erfitt er að henda reiður á þeim. Þau eru einskonar umgjörð um hluti og atburði: eitthvað líkt geymsluhólfa- eða spjaldskrárkerfi fyrir athuganir. Rúm og tími eru ekki hluti af hinum raunverulega reynslu­heimi hluta og atburða heldur réttara sagt hluti af hugrænum búnaði okkar, tækjabúnaði okkar til að ná skilningstökum á þessum heimi. Rétt notkun þeirra er að nota þau sem athugunartæki: þegar við skoðum einhvern atburð staðsetjum við hann venjulega undireins og umhugsunarlaust í röð tíma og rúms. Rúmi og tíma má því lýsa sem viðmiðunarramma sem byggist ekki á reynslunni heldur er notaður beint í reynslunni og réttilega heimfæranlegur upp á reynsluna. Þetta er ástæðan fyrir því að við lendum í vandræðum ef við misbeitum hugmyndunum um rúm og tíma með því að nota þær á sviði sem engin möguleg reynsla nær til – eins og við gerðum í sönnununum tveimur um alheiminn sem heild.

Skoðuninni sem ég var nú að lýsa í stórum dráttum kaus Kant að gefa hið ljóta og tvöfalt villandi nafn ‘forskilvitleg hughyggja’ (‘Transcendental Idealism’). Hann sá brátt eftir þessu vali af því að það kom mönnum til að halda að hann væri hughyggjumaður í þeim skilningi að hann neitaði því að efnislegir hlutir væru raunverulegir: að hann héldi því fram að efnislegir hlutir væru einberar hugmyndir. Kant flýtti sér að útskýra að hann hefði aðeins neitað því að rúm og tími væru reynslubundin og raunveruleg – reynslubundin og raunveruleg í sama skilningi og efnislegir hlutir og atburðir eru reynslubundnir og raunverulegir. En mótmæli hans báru engan árangur. Hinn erfiði stíll hans gerði út um örlög hans: hann átti eftir að verða dáður sem faðir þýskrar hughyggju. Ég tel að það sé orðið tímabært að leiðrétta þetta. Kant hélt því alltaf fram að efnislegir hlutir í rúmi og tíma væru raunverulegir. Og hvað snertir hin taumlausu og torráðnu frumspekilegu heilabrot þýsku hughyggjumannanna var sjálft heitið á Gagnrýni Kants valið til að lýsa yfir gagnrýninni árás á allt slíkt frumspekilegt fimbulfamb. Því að það sem Gagnrýningagnrýnir er hreint rökvit; hún gagnrýnir og ræðst gegn allri rökhugsun um heiminn sem er ‘hrein’ í þeim skilningi að hún sé ósnortin af skynreynslu. Kant réðst gegn hreinu rökviti með því að sýna fram á að hrein rökhugsun um heiminn hljóti ætíð að flækja okkur í þverstæður. Undir örvandi áhrifum frá Hume skrifaði Kant Gagnrýni sína til þess að sanna að takmörk skynreynslunnar séu takmörk allrar skynsamlegrar rökhugsunar um heiminn.

V. Kóperníkusarbylting Kants

Kant styrktist í trúnni á kenningu sína um rúm og tíma sem viðmiðunarramma skynjunarinnar þegar hann fann í henni lykilinn að lausn á öðru vandamáli. Þetta var vandamálið um réttmæti kenningar Newtons, en ásamt öllum samtíma eðlisfræðingum taldi hann hana vera óumdeilanlega sanna og algilda. Honum þótti þó óhugsandi, að þessi nákvæma stærðfræði­kenning væri ekkert nema ályktun af athugunum sem teknar hefðu verið saman. En hvað annað gat verið grundvöllur hennar? Kant nálgaðist þetta vandamál með því að hugleiða fyrst stöðu rúmfræðinnar. Rúmfræði Evklíðs byggist ekki á athugun, sagði hann, heldur á beinni skynjun okkar á rúmtengslum. Newtonsk vísindi eru í svipaðri stöðu. Þótt reynsluathuganir staðfesti þau eru þau ekki ályktun af þessum athugunum heldur af hugsunarhætti okkar, af tilraunum okkar til að koma skipan á skynreyndir okkar, til að skilja þær og vinna vitsmunalega úr þeim. Það eru ekki þessar skynreyndir heldur okkar eigin vitsmunir, skipulag úrvinnslukerfis hugar okkar, sem leiða til kenninga okkar. Náttúran eins og við þekkjum hana, með skipan sinni og lögmálum, er því að miklu leyti afurð úrvinnslu- og skipulagsstarfsemi hugar okkar. Hin eftirtektarverða framsetning Kants á þessari skoðun hljóðar svo: „Vitsmunir okkar draga ekki lögmál sín úr náttúrunni heldur þröngva þeir lögmálum sínum upp á náttúruna.“

Þessi formúla dregur saman hugmynd sem Kant kallar með stolti ‘Kópernikusarbyltingu’ sína. Þegar Kópernikus, eins og Kant orðar það, uppgötvaði að ekki var um neinar framfarir að ræða með kenningunni um himnana sem snerust þá komst hann út úr sjálfheldunni með því að snúa við taflinu, ef svo má segja: Hann gaf sér að það séu ekki himnarnir sem snúist en við áhorfendur séum hins vegar hreyfingarlausir heldur að við áhorfendur snúumst á meðan himnarnir eru hreyfingarlausir. Á svipaðan hátt, segir Kant, ber að leysa vandamálið um vísindalega þekkingu – vandamálið hvernig nákvæm vísindi, eins og til dæmis kenning Newtons, séu möguleg og hvernig hafi eiginlega verið hægt að uppgötva þau. Við verðum að gefa upp á bátinn þá skoðun að við séum óvirkir áhorfendur sem bíðum eftir að náttúran þrykki reglufestu sinni á okkur. Í staðinn verðum við að taka upp þá skoðun að þegar við vinnum úr skynreyndum okkar þá þrykkjum við á virkan hátt skipulagi og lögmálum vitsmuna okkar á þær. Heimur okkar ber merki huga okkar.

Með því að leggja áherslu á hlutverk áhorfandans, rannsakandans, kenningasmiðsins, hafði Kant varanleg mótandi áhrif ekki aðeins á heimspeki heldur einnig á eðlisfræði og heimsfræði. Það er kantískt andrúmsloft hugsunar sem kenninga Einsteins og Bohrs eru vart hugsanlegar án; og segja mætti að Eddington4 væri kantískari, að sumu leyti, en Kant sjálfur. Jafnvel þeir sem, eins og ég sjálfur, geta ekki fylgt Kant alla leið geta fallist á þá skoðun hans að tilrauna­maðurinn megi ekki bíða þangað til náttúrunni þóknast að leiða leyndardóma sína í ljós heldur verði hann að spyrja hana. Hann verður að þaulspyrja náttúruna í ljósi efasemda sinna, ágiskana, kenninga, hugmynda og andríkis. Hér er, hygg ég, um að ræða dásamlega heimspeki­lega uppgötvun. Hún gerir kleift að líta á vísindin, hvort heldur kennileg vísindi eða tilraunavísindi, sem mannlegt sköpunarverk og að líta á sögu þeirra sem hluta af hugmyndasögunni, á borð við sögu listar eða bókmennta.

Það er önnur og enn áhugaverðari merking innbyggð í útgáfu Kants af Kópernikusarbyltingunni, merking sem kann ef til vill að benda til tvíbendni í afstöðu hans til hennar. Því að Kópernikusar­bylting Kants leysir mannlegt vandamál sem bylting Kópernikusar olli. Kópernikus svipti manninn þeirri miðlægu stöðu sem hann áður naut í efnisheiminum. Kópernikusarbylting Kants dregur broddinn úr þessu. Hann sýnir okkur ekki aðeins að staðsetning okkar í efnisheiminum skiptir ekki máli heldur einnig að í vissum skilningi megi vel segja að heimur okkar snúist um okkur, því það erum við sem búum til, alltént að hluta, skipulagið sem við finnum í honum; það erum við sem sköpum þekkingu okkar á honum. Við eru uppgötvarar: og uppgötvun er skapandi list.

VI. Sjálfræðiskenningin

Frá heimsfræðingnum, heimspekingi þekkingar og vísinda, sný ég mér nú að siðfræðingnum Kant. Ég veit ekki hvort því hefur verið veitt eftirtekt áður að grunnhugmyndin í siðfræði Kants jafngildir annarri Kópernikusarbyltingu, hliðstæðri að öllu leyti þeirri sem ég hef lýst. Því að Kant gerir manninn að löggjafa siðferðisins alveg eins og hann gerir hann að löggjafa náttúrunnar. Og með því að gera það gefur hann manninum aftur miðlæga stöðu hans bæði í siðferðisheimi hans og efnisheimi. Kant gerði siðfræðina mannlega eins og hann hafði gert vísindin mannleg.

Kópernikusarbylting Kants á sviði siðfræðinnar felst í kenningu hans um sjálfræði – þeirri kenningu að við getum ekki samþykkt skipun yfirvalds, hversu upphafið sem það er, sem hinn endanlega grundvöll siðfræðinnar. Því hvenær sem við stöndum frammi fyrir skipun frá yfirvaldi þá er það á okkar ábyrgð að dæma hvort þessi skipun er siðleg eða siðlaus. Yfirvaldið kann að hafa afl til að framfylgja skipunum sínum og okkur kann að skorta afl til veita viðnám. En nema því aðeins að okkur sé líkamlega aftrað að velja er ábyrgðin okkar. Það er ákvörðun okkar hvort við hlýðum skipun, hvort við viðurkennum ákveðið yfirvald.

Kant fer djarflega með þessa byltingu inn á svið trúarinnar. Hér er eftirtektarverður kafli:

Svo mjög sem orð mín kunna að gera ykkur bilt við megið þið ekki áfellast mig fyrir að segja: Hver maður skapar sinn Guð. Frá siðferðilegu sjónarmiði . . . verður þú jafnvel að skapa Guð þinn til þess að tilbiðja í honum skapara þinn. Því hvernig svo sem . . . Guð yrði kynntur fyrir þér og jafnvel . . . þótt hann opinberaðist þér: það ert þú . . . sem hlýtur að dæma hvort þér leyfist [af samvisku þinni] að trúa á hann og tilbiðja hann.5

Siðfræðikenning Kants einskorðast ekki við þá staðhæfingu að samviska manns sé siðferðilegt kennivald hans. Hann reynir einnig að segja okkur hvers samviska okkar kann að krefjast af okkur. Það, þ.e. siðalögmálið, setur hann fram á ýmsa vegu. Ein framsetningin er svona: „Lítið ætíð á hvern mann sem markmið í sjálfum sér og notið hann aldrei eingöngu sem tæki í ykkar þágu.“ Andann í siðfræði Kants má vel draga saman með þessum orðum: Þorið að vera frjáls og virðið frelsi annarra.

Á grundvelli þessarar siðfræði reisti Kant hina stórmerku kenningu sína um ríkið og kenningu sína um alþjóðalög. Hann krafðist þjóðabandalags eða ríkjasambands sem endanlega átti að lýsa yfir og viðhalda eilífum friði á jörðu.

Ég hef reynt að rissa upp í stórum dráttum heimspeki Kants um manninn og heim hans og tvö helstu innblástursöfl hennar – Newtonska heimsfræði og siðfræði frelsisins, innblástursöflin tvö sem Kant vísaði til þegar hann talaði um stjörnuhimnana uppi yfir okkur og siðalögmálið innra með okkur.

Ef við stígum lengra til baka til að fá enn fjarlægari sýn á sögulegt hlutverk Kants getum við borið hann saman við Sókrates. Báðir voru sakaðir um að rangfæra ríkistrúna og spilla hugum unga fólksins. Báðir neituðu ásökuninni, og báðir vörðu hugsunarfrelsið. Frelsi þýddi meira fyrir þá en það að vera laus við þvingun; fyrir þá báða var það lífsmáti.

Af varnarræðu Sókratesar og dauða hans spratt ný hugmynd um frjálsan mann: hugmyndin um mann sem býr yfir ósigrandi anda, um mann sem er frjáls af því að hann er sjálfum sér nógur, og sem þarf ekki að leggja hömlur á af því að hann er fær um að stjórna sér sjálfur og fallast af frjálsum vilja á stjórn laganna (réttarríkið).

Þessari sókratísku hugmynd um að vera sjálfum sér nógur, sem er hluti af hinum vestræna arfi okkar, hefur Kant gefið nýja merkingu bæði á sviði þekkingar og siðferðis. Og hann hefur ennfremur bætt við hana hugmyndinni um samfélag frjálsra manna – allra manna. Því hann hefur sýnt að hver maður er frjáls, ekki vegna þess að hann sé fæddur frjáls, heldur vegna þess að hann er fæddur með þá byrði að bera ábyrgð á frjálsri ákvörðun.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Upphaflega útvarpserindi. Textinn er prentaður í Conjectures and Refutations (7.kafli) og In Search of a Better World (9. kafli). – Öllum neðanmálsgreinum sleppt. – Þýð.

2. Kant skrifaði ritgerðina ‘Hvað er upplýsing?’ árið 1784. Hún er prentuð í Skírni (hausthefti 1993) í íslenskri þýðingu Elnu Katrínar Jónsdóttur og Önnu Þorsteinsdóttur. – Í þessari upphafsgrein ritgerðarinnar nota þýðendur einu sinni orðið ‘rökvit’ og þrisvar ‘hyggjuvit’ sem þýðingu á þýska orðinu ‘Verstand’. Ég nota hér ‘skynsemi’ og Popper, sem skrifar þetta á ensku,‘intelligence’. Seinna í ritg. notar Kant oftar ‘Vernunft’ en ‘Verstand’. – Þýð.

3. Sir James Hopwood Jeans (1877–1946), enskur eðlis- og stjörnufræðingur. – Þýð.

4. Sir Arthur Stanley Eddington (1882–1944), enskur stjörnu- og eðlisfræðingur. – Þýð.

5. Úr Religion within the Limits of Pure Reason (2. útg. 1794). – Þýð.

 

« Til baka

Related Entries